Færslur

Spákonuvatn

Í Andvara 1884 er hluti Ferðabókar Þorvaldar Thoroddsonar þar sem segir frá “Ferðum á Suðurlandi sumarið 1883”. En fyrst svolítið um höfundinn:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

“Þorvaldur Thoroddsen er fyrsti Íslendingurinn sem lagði jarðfræði fyrir sig í námi og starfi. Hann varð heimsfrægur fyrir rannsóknir sínar á jarðrænni gerð Íslands og þeim ferlum sem þar eru virk. Hann er með mikilvirkustu rithöfundum Íslandssögunnar og í raun landkönnuður Íslands, enda skoðaði hann landið allt að kalla, vítt og breitt, og snúast flest hans skrif um það og náttúrur þess. Fáir munu fyrr en á geimtækniöld hafa ferðast svo vítt um landið og haft jafn víða yfirsýn um það og hann hafði. Fáir hafa líka ritað meira um það en hann. Hjátrúar- og hindurvitnalaus ferðaðist hann á hestum um landið hátt og lágt sumar eftir sumar þegar fólk trúði því býsna almennt að hálendi landsins byggðu fjandsamlegir útilegumenn og þegar mestu harðindaár Íslandssögunnar réðu færð og veðrum.

Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði 1855 og lést í Kaupmannahöfn 1921. Foreldrar hans voru Jón Thoroddsen (1818-1868) skáld og sýslumaður og kona hans Kristín Ólína Þorvaldsdóttir (1833-1879). Á bak við þau bæði eru ættir athafna- og dugnaðarmanna sem hafa haft áhrif á Íslandssöguna.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Lýsing Íslands.

Þorvaldur lærði undirstöðufög í heimahúsum, en ellefu ára gamall fór hann frá foreldrum sínum til Jóns Árnasonar stiftsbókavarðar og konu hans í Reykjavík til þess að búa sig undir skóla. Þorvaldur kom í Lærða skólann 13 ára gamall árið 1868 og varð þaðan stúdent árið 1875. Hann útskrifaðist með 2. einkunn, næstlægstur sinna félaga, og þótti aldrei sérstakur námsmaður í þeim skóla. Fyrir því er þekkt ástæða sem ekki lýtur að skorti á námsgáfum.

Þorvaldur varð kennari í nýstofnuðum Möðruvallaskóla árið 1880 og var þar til 1884. Hann var kennari við Lærða skólann frá 1885 til 1895. Árin 1884-1885 var hann á ferðalagi erlendis til náms og gagnasöfnunar og hann var aftur erlendis 1892-1893, þá orðinn vel þekktur fræðimaður. Árið 1895 flutti Þorvaldur alfarinn til Kaupmannahafnar og sat þar við fræðastörf og skriftir það sem eftir var ævinnar.
Þorvaldur ThoroddsenÞorvaldur notaði sumrin á milli kennslumissera til rannsókna og fór í kerfisbundna leiðangra um landið allt á árunum 1882-1898.
Úr þessum rannsóknum kom aragrúi ritgerða og bóka sem lýstu og útskýrðu landið og náttúrur þess. Segja má að landið hafi verið óþekkt jarðfræðilega þegar hann byrjaði, aðeins til fáeinar greinargerðir á víð og dreif eftir hina og þessa, mest útlendinga og mest ómenntaða menn á sviði jarðfræði. Þegar hann lauk sínum skrifum var til heildarmynd svo glögg og yfirgripsmikil að enginn jarðfræðingur sem unnið hefur á Íslandi hefur komist hjá því að fara í fótspor hans og byggja á þeirri frumþekkingu sem hann dró saman. Hann var ekki sérfræðingur með þröngt áhugasvið heldur víðsýnn fræðimaður og landkönnuður sem las alla þá náttúru sem fyrir augun bar og gerði grein fyrir henni.

Þorvaldur ThorodddsenRitstörf Þorvaldar voru með eindæmum mikil og margbreytileg, allt frá stuttum athugasemdum upp í fjögurra binda stórvirki. Landfræðisagan kom í fjórum bindum á árunum 1892-1904 og er nú nýlega endurútgefin (2003-2009), þýsk útgáfa af sama verki kom út í tveimur bindum 1897-1898, Landskjálftar á Íslandi í tveimur hlutum 1899 og 1905, endurbætt 2. útgáfa af Lýsingu Íslands kom út árið 1900, jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:600.000 frá árinu 1901, Island, Grundriss der Geographie und Geologie ásamt nýrri útgáfu af jarðfræðikortinu í kvarðanum 1:750.000 kom út 1906, og stórlega endurbætt Lýsing Íslands í tveimur bindum árin 1908 og 1911 og tvö viðbótarbindi um landbúnað á Íslandi á árunum 1917-1922.

Ferðabókin kom út í fjórum bindum árin 1913-1915 og aftur 1958-1960, Árferði á Íslandi 1915-16 og þriðja útgáfan af stuttu Íslandslýsingunni árið 1919 og fleira mætti telja.
Þorvaldur ThoroddsenÁ árunum 1909-1912 ritaði hann einnig hið mikla verk sitt um íslensk eldfjöll, Geschichte der Isländischen Vulkane, sem þó kom ekki út fyrr en að honum látnum. Auk þessara bókverka komu á þessum árum ótal greinar, stuttar og langar, í ýmsum blöðum og tímaritum, íslenskum og erlendum, alþýðlegum og hávísindalegum, um ýmis efni, langflest náttúrufræðileg.
Ísland er ólíkt öðrum löndum og því var Þorvaldur að fást við annað en fræðimenn á sama sviði erlendis. Fyrir vikið er afar margt í skrifum hans sem ekki finnst annars staðar á prenti á þessum tímum. Hann varð enda heimsfrægur fyrir störf sín og mun frægari erlendis en samtímamenn hans hér heima gerðu sér grein fyrir. Dagblöð allt frá New York til Moskvu sögðu frá ferðum hans og uppgötvunum. Honum hlotnuðust líka ótal viðurkenningar erlendis fyrir framlag sitt. Þar á meðal eru viðurkenningar frá virtustu vísindafélögum og akademíum beggja vegna Atlantshafs. Ein þessara viðurkenninga er Dalyorðan frá ameríska landfræðifélaginu sem jafnað hefur verið til Nóbelsverðlauna, sem ekki eru veitt fyrir jarðvísindi. Hér heima var honum lítill sómi sýndur.”

Í “Ferðum á Suðurlandi 1883” segir m.a. um Trölladyngjusvæðið:
Andvari“Úr Grindavík fórum við austur á við fram hjá Hrauni, upp háls hjá Festarfjalli og að Ísólfsskála. Móberg er hjer í fjöllunum, en þó víða dálítil dólerít-lög ofan á. Festarfjall gengur þverhnýpt fram í sjö; austan við það er Ísólfsskáli. mjög afskekktur bær, og taka við hraun rjett fyrir austin túnið. Þau hraun hafa runnið úr gígum vestan við Núpshlíðarháls. Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls.
Á leiðinni er á einum stað á hálsi nokkru fyrir austan Ísólfsskála svo kallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergsteinn með djúpum holum í; sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita. Við riðum yfir sljettuna vestan við Núpshlíðarháls; er hún öll þakin hrauni: hraun þetta hefir komið úr mörgum gígum, sem eru ofarlega og neðarlega við hálsinn; fellur það niður að sjó milli Núpshlíðarháls og Mælifells vestra, og eru þar í því tveir breiðir hraunfossar, áður en það kemur niður á ströndina; breiðist það síðan út vestur að Ísólfsskála og austur undir Selatanga; en þar hefir Ögmundarhraun runnið yfir það.

 

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Fram með vesturhlíðum Núpshlíðarháls er víðast mjög grösugt og fallegt land milli hrauns og fjalls. Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum, en ágætt gras er í kring og dálítil vatnsdeiglu í klettunum fyrir ofan. Rjett fyrir norðan þetta sel hafa nokkrir hraunlækir streymt út úr hlíðinni niður í aðalhraunið, en eigi eru þar verulegir gígir; hraunið hefir beinlínis gubbast út um sprungu í fjallinu. Alla leið norður á Selvelli eru stórir gígir í röð í hrauninu fyrir neðan hálsinn.

Selsvellir

Selsvellir – seljatóftir.

Selvellir eru stórar grassljettur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju; er þar ágætt haglendi og vatn nóg: lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunin. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrjett, og reka þangað fje og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra, en víða þar, sem mikil byggð er; væri þar nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit í hálsinum.
Við settumst að hjá læknum á Selvöllum, bjuggum þar sem bezt um tjald vort og dvöldum þar nokkra daga, til þess að skoða hraunin og fjöllin í kring.

Oddafell

Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur nefnir Oddafellið “Fjallið eina”.

Fyrir vestan Selvelli eru tvö fjöll eða hálsar; heitir annar Driffell, en nokkru neðar er »Fjallið eina«.

Mitt á milli Driffells og Trölladyngju, sem er á norðurendanum á Núpshlíðarhálsi, er »Hverinn eini«, mitt út í stóru hrauni norður af gömlum gíg, og suður af “Fjallinu eina”. Í hrauninu er kringlótt skál, 14 fet að þvermáli; í henni er hverinn; það er sjóðandi leirhver.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í botninum liggja hraunbjörg; milli þeirra koma upp gufumekkir, og í kring um þau er bláleitur leirgrautur; sýður og orgar í jörðinni, þegar gufurnar þjóta upp um leðjuna. Hraunsteinarnir eru dálítið sundurjetnir af hinum súru hveragufum og hjer og hvar sjást dálitlir brennisteinsblettir. Hjer um bil 3—4 faðma fyrir norðan »Hverinn eina« er gömul hverahrúðursbreiða; þar er nú enginn hiti; en áður hafa heitar vatnsgufur komið upp um 4 eða 5 op; hverahrúðrið er smágjört, í flögum, og dálítið af sundursoðnum leir og brennisteini innan um hrúðrið; breiðan er 130 fet frá norðri til suðurs, og 150 fet frá austri til vesturs. Úr »Hvernum eina« leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo mjer ætlaði að verða óglatt, er jeg stóð á barmi hans. í góðu veðri sjest gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu.

Keilir

Keilir.

Frá Selvöllum fórum við upp á Keilir (1239′); fórum fram hjá Driffelli yfir mikil og úfin hraun, og var þar víða illt að fara. Tilsýndar gætu menn ímyndað sjer eptir löguninni á Keilir, að hann væri gamalt eldfjall, en svo er eigi; hann hefir aldrei gosið; hann er móbergsstrýta með dólerít-klöppum efst uppi.

Keilir

Keilir.

Keilir er strýtumyndaður og mjög brattur ; norður úr honum gengur þó öxl eða rani, svo þar er bezt að komast upp. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans, og eru kallaðir Keilisbörn. Við göngum upp öxlina. Hún er miklu dökkleitari en bergið í kring, af því að hún er mestmegnis úr kolsvörtum hraunmolum þegar ofar dregur verður miklu brattara; þar er lausaskriða ofan á, en sumstaðar sljettar móbergsklappir; þó má nokkurn veginn festa fót á þeim, því smáir hraunmolar standa út úr móberginu eins og oddar og gera það hrufótt. Gekk nokkuð örðugt að sneiða sig upp skriðurnar og móbergsklappirnar, en þegar kom upp á dólerít-klappirnar var það allt ljettara.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin við Trölladyngju. Keilir fjær.

Efst er Keilir lítill um sig, og er þar lítill flatur kringlóttur melur, og varða á melnum, sem líklega hefir verið byggð þegar strandmælingarnar voru gjörðar. Móbergið í Keilir er mjög einkennilegt og óvanalega ljett; kemur það af því, að í því eru víða vikurmolar í stað basaltkenndra hraunmola, sem optast eru í móbergi.

Trölladyngja

Trölladyngja, Selsvellir nær.

Keilir stendur einstakur upp úr afarmikilli hraunbungu, sem hefst uppi við Fagradalsfjall, en hallast jafnt og þjett niður að sjó; úr Njarðvík og af Suðurnesjum sjest þessi hraunbunga glöggt, því þaðan tekur rönd hennar sig upp yfir lægri hraunin, sem utar eru á nesinu.

Af Keilir gjörði jeg ýmsar mælingar. Þaðan er bezta útsjón yfir Reykjanesskagann, Innnes og Faxaflóa; sjest þaðan allt frá Eldey og austur í Kálfstinda. þaðan sjest vel, að Strandahraunin gömlu koma úr krikunum uppi við Fagradalsfjöll, en eigi varð jeg þar var við gígi.

Víkingaskip

Í Afstapahrauni.

Sumir kalla hraunin vestur af Keilir Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun. Nýleg hraun hafa á einum stað fallið frá Fagradalsfjöllum vestan við gömlu hraunin, er Keilir stendur á; ná þau að vestan hjer um bil saman við Eldvarpahraun, en hafa fallið niður fyrir Vogastapavatn að austan. Dálítill hver sjest í hrauninu fyrir ofan Vogastapavatn; gufustrókur stóð þar beint upp í loptið. Ágætlega sást yfir hraunin hjá Selvöllum, Trölladyngjuhraunin og hraunin frá Undirhlíðum og Mávahlíðum. Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nær töluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, en þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, en hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.

Driffell

Driffell. Trölladyngja fjær.

Almenningshraun eru afargömul og líklega komin undan Máfahlíðum, Undirhlíðum og ef til vill nokkuð úr Trölladyngju. Milli Keilis og Trölladyngju eru tvö fell, sem áður var getið um, Driffell sunnar og vestar, en “Fjallið eina« norðar.

Keilir

Keilir – Oddafell  (“Fjallið eina”) nær.

“Fjallið eina” er mjög langur, en lágur háls, rjett við Dyngju, og graslendi á milli og dálítil gömul hraun. Úr ýmsum gígum við Selvelli hefir hraun runnið norður á við milli »Fjallsins eina« og Driffells, og milli Driffells og Keilis eru þau bæði nýleg og úfin; koma þau svo saman við Afstapahraun og önnur eldri Dyngjuhraun; verður þar allt í graut, svo eigi er hægt að greina sundur, því allt er umturnað og öfugt, þar sem öll þessi hraun koma saman. Við norðurendann á Driffelli hefir hraunröndin sprungið frá, er það rann, og standa þar sljéttar hraunhellur 2—3 mannhæðir á hæð, reistar á rönd, þráðbeint upp í loptið. Sum hraunin úr gígunum við Selvelli hafa runnið suður á við niður að Selatöngum, eins og fyrr er getið.

Selsvellir

Moshóll á Selsvöllum. Driffell og Keilir fjær.

Daginn eptir að við gengum upp á Keilir var veðrið svo illt á Selvöllum, að eigi var hundi út sigandi, óg næstu nótt á eptir var svo mikið hvassviðri og húðarigning, að tjaldið ætlaði um koll, og oss kom ekki dúr á auga.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur – Trölladyngja fjær.

Þar við bættist, að vætan varð svo mikil alstaðar, að hvergi var hægt að fá þurran blett til að liggja á, því jörðin saug í sig vatnið eins og svampur, og urðum við allir gagndrepa, þrátt fyrir regnföt og annan umbúnað. Þegar veður er svo, er eigi hægt að rannsaka eða mæla, og sáum við oss því ekki annað fært, en að ílýja til byggða. Húðarigning var, þegar við fórum af stað, og svartaþoka í hálsinum; klöngruðumst við þó upp hálsinn, þó illt væri að koma hestunum, og komumst eptir nokkra hrakninga á stíg niður að Vigdísarvöllum; fórum við síðan yfir Sveifluháls Hettuveg að Krýsuvík. Vegur þessi er mjög brattur og liggur hátt. Þar eru enn þá efst í hálsinum ýmsar hveraleifar, sundursoðinn jarðvegur og brennisteinsblandinn á stöku stað. Dvöldum við síðan nokkra daga í Krýsuvík hjá Árna sýslumanni í góðu yfirlæti.

Hettustígur

Hettuvegur.

Áður en jeg fór af Selvöllum hafði jeg skoðað nokkuð af Trölladyngju, og nú fór jeg nokkrar ferðir þangað frá Krýsuvík, þegar veðrið var orðið bærilegt, og mældi þar og skoðaði eins nákvæmlega og jeg gat; fjallið er þess vort, því það er eitt með meiri eldfjöllum á Íslandi.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Núpshlíðarháls, sem opt hefir verið nefndur, er hjer um bil 2 mílur á lengd, og gengur frá suðvestri til norðausturs nærri niður að sjó upp af Selatöngum, og nær norður undir Undirhlíðar, hjer um bil jafnlangt og Sveifluháls. Háls þessi er allur úr móbergi, allhár, víðast 12—1300 fet og sumstaðar hærri; ofan á honum eru víðast 2 jafnhliða hryggir, með mörgum kömbum og nybbum, tindum og skörðum. Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot, og eru langar gígaraðir beggja megin. Nyrzti endinn á Núphlíðarhálsi klýfst í sundur í tvær álmur og er Trölladyngja á vestari álmunni.

Trölladyngja

Mávahlíðar fyrir miðju – Trölladyngja og Grænadyngja fjær. Mávahlíðahnúkur t.v.

Framhald af eystri álmunni eru Máfahlíðar, og eru þær nokkurs konar hjalli niður af Undirhlíðum, sem ganga norður og austur frá endanum á Sveifluhálsi; þó eru á Máfahlíðum dálitlir hvassir móbergstindar. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveifluháls er fullur af hraunum, og hafa þau öll komið upp að vestanverðu úr gígum, sem annaðhvort eru utan í hálsinum eða rjett fyrir neðan hann; úr Sveifluhálsi hafa hvergi hraun runnið, og par eru engir gígir nema nokkrir mjög gamlir allra syðst í honum.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Undan Mávahlíðum hafa mikil hraun runnið, og eru flest nýleg og mjög ill yfirferðar eða því nær ófær gangandi mönnum. Rjett fyrir neðan efsta toppinn á Mávahlíðum er stór gígur, allur sundurtættur af eldsumbrotum, og hlaðinn upp úr stórum hraunstykkjum; hallinn á þessum gíg er um 30°, en hæðin að eins 73 fet; hraunin frá Máfahlíðum hafa runnið vestur á við í mörgum breiðum kvíslum niður í Dyngjuhraunin og saman við efsta hlutann af Afstapahrauni ; í hraunum þessum eru víða stórar sprungur og djúpar; var ís í botninum á sumum. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveiflubáls er mjög mjór rjett fyrir ofan Vigdísarvelli, því að þar slaga álmur úr Núphlíðarhálsi og smáfell út í dalinn; fyrir neðan þessi fell eru ýmsir gamlir smá-gígir og stdrar raðir af nýrri gígum, sem Ögmundarhraun hefir runnið úr, og skal þess síðar getið.

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.

Trölladyngja er stór hnúður á endanum á Núphlíðarhálsi, eins og fyrr var sagt; er lægð mcð mörgum dalverpum í hálsinn fyrir sunnan Dyngjuna og má ríða þar yfir frá Djúpavatni, sem er austan við hálsinn, og yfir á vellina fyrir austan Fjallið eina.

Sogin

Sogin.

Í lægðinni eru 4—500 feta djúp gil, sem eru kölluð Sog; skiptast þau í tvö aðaldrög að ofan og mörg smærri efst, en sameinast niður að sljettunni gagnvart Fjallinu eina; í giljum þessum er lílið vatn, en þau hafa samt grafið sig svo djúpt niður í móbergið; hefir þar áður verið fjarskalegur jarðhiti, því allt er þar sundursoðið af hveragufum, og er móbergið í hlíðum þeirra orðið að eintómum leir, sem víðast er rauður, en sumstaðar eru aðrir litir, hvítir, gulir og bláir.

Trölladyngja

Gígur vestan Trölladyngju.

Enginn er þar jarðhiti nú svo nefna megi; jeg sá að eins á einum stað neðst í grófinni 3 litla reyki koma út úr berginu. Sunnan við Sogin uppi á fjallinu rjett fyrir ofan þau er leirhver utan í barði; þar bullar rauðleit leðja upp úr mörgum smáholum; hiti er þar 78° C. Í “Fjallinu eina” beint á móti Sogum hefir og verið jarðhiti, því þar sjest upplitað og sundur soðið móberg, og gufar upp úr hrauninu fyrir neðan. Uppi á fjallinu suður af leirhverunum, er jeg síðast nefndi, er vatn í dálítilli hvylft og er kallað Grænavatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Hin eiginlega Dyngja er fyrir norðan Sogin; eru á henni tveir hnúkar úr móbergi, hinn eystri breiður um sig og kollóttur, en hinn vestari hvass og miklu brattari; djúp rauf er á milli hnúkanna norður úr. Norður af eystri hnúknum gengur langur rani, og úr honum hafa mestu gosin orðið; utan í röndinni á rananum vestanverðum er röð af fjarskalegum gígum. Hefir raninn klofnað að endilöngu og gígirnir myndazt í sprungunni; sjest sprungan sumstaðar í móberginu og hallast hraunhrúgur gíganna upp að eystri vegg hennar. Tveir syðstu gígirnir eru langstærstir: hinn syðsti 236 fet á hæð yfir hraunið fyrir vestan, og hallast 34°, en úr því taka við margsamtvinnaðir gígir norður úr, milli 20 og 30 að tölu.

Sogagígur

Sogagígur.

Vestur af gígaröðinni er snarbratt, og hefir hraunið fallið niður í samanhangandi fossi, fyrst úr sprungunni og síðan úr gígunum, er þeir voru myndaðir. Hraunið hefir verið svo seigt og runnið svo hægt úr sumum af minni gígunum, að þeir eru eins og gleraðir pottar með sívölum sljettum röndum; sumstaðar eru eins og stampar af steyptu járni. Fyrir neðan gígaröðina að vestan er lóng sprunga og hefir líka runnið úr henni seigfljótandi hraunleðja, svo barmar hennar eru allir gleraðir af þunnum og þjettum hraunskánum. Uppi í raufinni milli eystri og vestari hnúksins eru og gígir.

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Úr öllum þessum gígum hefir komið afarmikið hraunflóð, og eru það upptök Afstapahraunsins, sem hraunin frá Máfahlíðum hafa síðan runnið saman við. Hraunið allt vestan við Dyngjuranann hefir sokkið við gosið líkloga 100—200 fet. Beint norður af vestari Dyngjuhnúknum er stór mjög gamall rauður gígur, rúm 70 fet á hæð (halli 25°). Sunnan við þennan gíg, milli hans og vestari hnúksins, er töluverður hiti í hrauninu; koma vatnsgufur þar upp um ótal göt; er hitinn þar víðast 40—60° C, en í einu opi voru 78°. Fyrir vestan vestari hnúkinn eru sljettir vellir yfir að Fjallinu eina, og eru þeir áframhald af Selvöllum; þeim megin eru nokkrir smágígir gamlir utan í bnúknum, sem hraun hefir runnið úr, og sumstaðar hefir það spýtzt úr sprungunum án þess gígir mynduðust. Móbergið í endanum á vesturhnúknum hefir á einum stað sprungið í sundur, og stendur sú sprunga lóðrjett á eldsprungunni í eystri rananum, en ekkert hraun hefir þar upp komið.

Sogin

Sogin. Keilir fjær.

Elztu gosin, sem orðið hafa úr Trölladyngju, hafa komið sunnar, rjett við Sogin, enda er þar utan í hlíðunum sá urmull af gömlum stórum gígum, að varla verður tölu á komið. Hafa eldsprungurnar myndazt hver við hliðina á annari, og verið svo þjett, að gígirnir virðast standa í hrúgum; en þó má sjá hina vanalegu stefnu frá norðaustri til suðvesturs, þegar vel er að gáð.

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Fyrir norðan vesturendann á Sogunum niður undir jafnsljettu er ein gígahrúgan; þar eru að minnsta kosti 30 gígir, en allir svo gamlir, grónir mosa og fallnir saman, að illt er að greina hina smærri. Einn hinn stærsti er neðst við Sogalækinn; hann er opinn til suðurs og eins og skeifa í lögun og í botni hans stór grasi vaxinn völlur. Fyrir sunnan lækinn, ofan frá Grænavatni niður á jafnsljettu og suður með fjalli, suður að hrygg, sem gengur út úr Núphlíðarhálsi vestur undinn Hverinn eina, er mesta mergð af gígum (að minnsta kosti 80—100 að tölu).

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Þeir eru í mörgum röðum utan í hlíðinni og sumir geysistórir. Nyrzt og hæst upp í hlíðinni, við neðri rönd Grænavatns, er einn af stærstu gígunum; hann er að eins hjer um bil 40 fet hærra upp að ofan en yfirborð vatnsins, en hjer um hil 300 fet er hann á hæð að neðanverðu niður að jafnsljettu; hryggur skiptir gíg þessum í tvennt; hann er 140 fet á dýpt og 1700 fet að ummáli. Fyrir neðan hann, rjett niður á jafnsljettu, er kringlóttur “sandgígur, flatvaxinn (halli 2—3°), og lágur, en mjög stór ummáls (2400 fet).

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Í kringum þessa stóru gígi og suður af þeim er mesti sægur af smærri gígum; þó þeir sjeu eigi mjög stórir í samanburði við þessa, þá eru þeir þó allmerkilegir að mörgu leyti, sumir snarbrattir að innan, aðrir eins og skálar og bollar. Syðsti gígurinn rjett við Selvelli er langstærstur; stendur önnur hlið hans utan í hlíðinni, en hin niðri á völlum; hann er aflangur og opinn í báða enda og yfir 3000 fet að ummáli; innan í honum hafa margir smærri gígir myndazt. Norður af þessum stóra gíg sitja margir smáir utan í hlíðinni, eins og vasar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall. Nauthólar nær.

Þess er nokkrum sinnum getið í annálum, að Trölladyngjur hafi gosið ; en optast er gosið að eins nefnt, án þess frekari frásögn sje um það, og verður þá eigi sjeð, hvort átt er við þessar Trölladyngjur eða eldfjall með sama nafni í Ódáðahrauni: en hvergi er beinlínis sagt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið; verður eigi skorið úr þessu fyrr en þetta eldfjall er skoðað, en það hefir enginn enn þá gjört, enda er enginn hægðarleikur að komast þangað. Getið er um fimm gos í Trölladyngjum, fyrst 1151. fá segir svo: “Var eldur í Trölladyngjum, húsrið og manndauði”.

Trölladyngja

Moshóll við Selsvelli. Trölladyngja fjær.

Ár 1188 »eldsuppkoma í Trölladyngjum« (Ísl. ann. bls. 76).

Ár 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að eldur hafi verið í Trölladyngjum, og að hraun hafi hlaupið þaðan og niður í Selvog. Að hraun hafi runnið úr Trölladyngju niður í Selvog, er ómögulegt, því tveir háir fjallgarðar eru á milli; hefir þetta verið sagt af ókunnugleika þeirra, er skrifsettu þetta; hraun þetta kom úr eldgígum í Brennisteinsfjöllum, sem fyrr er getið. Í Flateyjarannál er getið um eldgos úr Trölladyngjum 1360, »ok eyddust margir bæir í Mýrdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snjófellsnesi«.

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur fjær. Honum hefur oftlega verið kenndur við “Trölladyngju” í fornum sögnum.

Mikil líkindi eru til, að hjer sje átt við Trölladyngju á Reykjanesi. Veturinn 1389—90 var víða eldur uppi á Íslandi; þá brann Hekla. Síðujökull og Trölladyngja; segir Espólín (Árbækur I, bls. 110) að Trölladyngja hafi hrunnið allt suður í sjó og að Selvogi. Hjer or sama villan og við gosið 1340, nefnilega, að brunnið hafi að Selvogi. Vera má að þá hafi brunnið gígirnir, sem ná frá Trölladyngju og allt suður undir sjó vestan við Núphlíðarháls, og hraunið myndazt, er fallið hefir þar niður austan við Ísólfsskála.

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Eitthvað er blandað málum með þessi Trölladyngjugos flest, og hefir það komið af ókunnugleika annálaritaranna; fjöllin hjer syðra eru öll svo eldbrunnin, og hjer eru svo margir gígir, að menn hafa eigi getað greint sundur hina einstöku gosstaði, og hafa öræfin og hraunin þó líklega verið byggðamönnum í kring lítt kunn, og svo er enn.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Á hraununum við Trölladyngju er auðsjeð, að sjálf Dyngjan hefir eigi gosið opt síðan land byggðist; hið eina hraun, sem nokkuð kveður að, og auðsjeð er að paðan hefir komið síðan á landnámstíð, er Afstapahraun; aptur hafa þaðan komið mörg og mikil gos áður. Í fjöllunum í kring, hæði í Mávahlíð og Núphlíðarhálsi, hefir og eflaust gosið síðan land byggðist.”

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 47-57.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58559

Trölladyngja

Trölladyngja. Vættur fjallanna nær.

Trölladyngja

       Árni Óla skrifar um “Trölladyngju og nágrenni” í í Lesbók Morgunblaðsins árið 1944:

Trölladyngja
“Þar sem jeg ólst upp hefði það þótt meira en lítil skömm, og talið bera vott um sjerstaka fáfræði og heimsku, ef einhver kunni ekki nöfn á öllum þeim fjöllum og kennileitum, sem blöstu við frá bæ hans. Frá Reykjavík blasir við víður, margbreytilegur og fagur fjallahringur. En hversu margir eru þeir Reykvíkingar sem kunna skil á nöfnum allra þeirri fjalla er hjeðan sjást”.

Trölladyngja

Trölladyngja.

-Jeg býst við því að þeir sjeu sorglega fáir. Og sumir þekkja víst ekki með nafni önnur fjöll en Esjuna, og máske Keili, vegna þess hvað hann blasir vel við og menn komast trauðlega hjá því að veita honum athygli. Hjer skal nú ekki reynt að bæta úr þessu, en geta má hins, að fyrir nokkrum árum ljet Ferðafjelag Íslands setja upp útsýnisskjöld á Valhúsahæð, og eru þar áletraðar upplýsingar um örnefni á flestum þeim stöðum, er þaðan sjást. Undanfarin ár hefir ekki verið greiður aðgangur að þessum útsýnisskildi, en nú fer það að lagast, og er þess þá að vænta, að margir leggi þangað leið sína, til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir ef til vill fyrirverða sig fyrir að leita hjá öðrum, vegna þess að enn eimir eftir af þeim hugsunarhætti, að vanvirða sje að vera svo fáfróður að þekkja ekki næsta umhverfi.

Trölladyngjusvæðið

Trölladyngjusvæðið – loftmynd.

Ef maður er staddur eitthvert góðviðriskvöld á Skólavörðuhæð, Rauðarárholti eða Öskjuhlíð, og horfir til suðvesturs og vesturs, blasa þar við mörg lág fjöll. Mest ber á Keili, en vestur undan honum sjer á Keilisbræður og Fagradalsfjall. Sunnan við Keili sjest fjallaþyrping og undir þeim margir reykir af jarðhita. Þarna er Trölladyngja og Mávahlíðar og bera saman, þótt nokkurt bil sje á milli þeirra. Þar fyrir sunnan sjest Sveifluháls, sem nær frá Vatnsskarði suður með öllu Kleifarvatni og  lengra vestur.
Rjett fyrir vestan Trölladyngju er annað fjall, sem nefnist Grænadyngja. Það sjest ekki héðan. Á milli Dyngjanna er skarð, sem nefnist Sog. Vestur af Grænudyngju er Núpshlíðarháls og er hann jafn langur Sveifluhálsi og honum áþekkur um hæð. En ofan á honum eru tveir hryggir með mörgum tindum og skörðum.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot og eru þar langar gígaraðir beggja vegna. Yfirleitt er allur þessi fjallaklasi gamlar og stórfenglegar eldstöðvar. Austan undir rana, sem gengur suður úr Trölladyngju eru stórir goskatlar, 20—30 talsins. —
Skammt þar frá er sjerstakur eldgígur einn, rauðleitur og brattur, um 70 fet á hæð. Rjett við Sog er ótölulegur fjöldi eldgíga og eru sumir stórir, allt að 600 metrum ummáls eða meira. Í Mávahlíðum eru líka sundur tættir gígar. Úr öllum þessum gosstöðvum hafa komið ægileg hraun, sem runnið hafa ýmist norðaustur eða suðvestur, norður að sjó milli Vatnsleysu og Hafnarfjarðar, og suður að sjó milli Selatanga og Ísólfsskála. Er víða hraun ofan á hrauni. Yngstu hraunin eru ekki gömul, því að þarna hefir gosið nokkrum sinnum síðan á landnámsöld.

Höskuldarvellir


Höskuldarvellir.

Eru til nokkrar heimildir í annálum um gosin. Árið 1151 „var eldur í Trölladyngju, húsrið og manndauði”. Annað gos var 1188. Þriðja gosið 1360 og „rak þá vikurinn allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi”. Á árunum 1389—’90 voru ógurleg eldgos hjer á landi. Þá brann Hekla, Síðujökull, Trölladyngja- og fleiri fjöll; segir Espholin að Trölladyngja hafi brunnið suður í sjó og að Selvogi, en það er sýnilega rangt, því að hraun frá Trölladyngju hafa ekki komist að Selvogi, þar sem hár fjallgarður er á milli. Seinustu sagnir um gos í Trölladyngju eru frá árunum 1510.

Að morgni sunnudagsins 16. júlí lagði á stað frá Reykjavík hópur manna, sem ætlaði að ganga að Keili og Trölladyngju. Var farið hjeðan í bíl vestur á Vatnsleysuströnd, vestur undir Stóru-Vatnsleysu. Þaðan var svo gangan hafin beina stefnu á Keili, en þangað er 10—12 km. leið yfir Strandarheiði.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Þegar litið er á uppdrátt herforingjaráðsins af þessum slóðum, verður ekki betur sjeð, en hjer sje allt gróðurlaust, hraun og sandar yfir allt og varla neins staðar grænan blett að finna.
En þessu er ekki þann veg farið.  Strandarheiðin er talsvert gróin, og hvergi nærri jafn ömurleg eins og hún sýnist vera á kortinu. Þar er alls konar lyng, fjalldrapi, vallgresi, heiðarblóm margskonar. Þar eru grænar lautir, og í sprungum er víða fjölbreyttur gróður. Eru þarna góðir sauðfjárhagar. Leiðin suður að Keili er öll á fótinn, jafnt og þjett. Hvergi eru brekkur, heldur jafn aflíðandi, og verður maður þess varla var hvað landið hækkar, en þó er hæð þess orðin um 170 metrar þegar suður og vestur undir Keili kemur.

Sogin


FERLIRsfélagi á hverasvæðinu neðan við Sogin.

Ekki er dauflegt þarna í heiðinni, síður en svo. Þar ómar allt um kring söngur heiðarfugla, sem hafa valið sjer bústaði í móunum. Þar eru lóur og spóar, steindeplar og sólskríkjur. Þar eru líka kjóar, og mávar og hrafnar eru þar á flökti að leita sjer ætis. Við gengum fram á lóuhreiður með 3 eggjum. Hún hefir orðið seint fyrir.
Skammt þar frá flögraði rjúpa og barmaði sjer, hefir annað hvort átt þar helunguð egg í hreiðri eða litla unga. Þetta er ekki sagt til þess að gera heiðina að einhverjum dásemdastað. En það er sagt vegna þess, að manni hlýnar ósjálfrátt um hjartarætur þegar maður hittir gróið land, þar sem maður hjelt áður að væri eyðimörk, engum byggileg nema refum og minkum. Og vel á minnst, minkur var þarna uppi á háheiði, og smaug niður í holu þegar að honum var komið. Sennilega hefir hann lifað þarna í vor á eggjum og fugli og máske líka gert sjer dagamun með því að ráðast á unglömb.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum.

Austan að Strandarheiði heitir Afstapahraun. Það hefir komið upp í eldgígum fram hjá Núpshlíðarhálsi. Rennur það fyrst í mjóum straum milli Keilis og Oddafells, sem er langur og hár melur (220 m.) vestan við Dyngjurnar. En þegar kemur norður með Oddafelli, breiðir það úr sjer og norðan við melinn sveigir það austur og fellur saman við Dyngjuhraun, og ná þau þaðan fram til sjávar.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það er gaman að ganga með hraungarðinum að vestan. Eru þar víða grösugar dældir og bollar, en hraungarðurinn úfinn og grettur á aðra hönd, með alls konar furðumyndum, sprungum, gjótum, hellum og ranghölum. Mikill grámosi er í hrauninu, en gróður enginn. Er það mjög illt yfirferðar, og geta menn misstigið sig þar illilega og lent í huldum sprungum og gjótum. Við fundum veg yfir það, ef veg skyldi kalla, og komumst yfir á rindann, sem gengur norður úr Oddafelli. Blasti þá við einkennileg sjón í þessari auðn, víðir, grænir og eggsljettir vellir. sem náðu utan úr kverkinni milli Afstapahrauns og Dyngjuhrauns, up p að Trölladyngju og suður milli hennar og Oddafells. Þarna var fjöldi hesta og sauðfjár á beit. Var því einna líkast sem þarna hefði opnast fyrir okkur hinn fagri og gróðursæli Árdalur, sem Jón lærði kvað um. Þessi grassljetta heitir Höskuldarvellir, umgirt hrauni, fjöllum, eldgígum og gufuhverum.


Syðst í skarðinu milli Trölladyngju og Oddafells sáum við reyki mikla og stefndum þangað. Þar hefir dálítil hrauntunga runnið fram niður að völlunum og rýkur víða upp úr hrauninu. Hitinn er á allstóru svæði og þótt ekki sjáist rjúka er mosinn í hrauninu alls staðar volgur. Í miðri hrauntungunni er kringlótt jarðfall og þar er hitinn einna mestur. Eru tveir leirhverir í botni jarðfallsins, annar með stálgráum leir, en hinn með hvítum. En út úr brúnum jarðfallsins koma gufur og virðist hitinn þar meiri heldur en í sjálfum gígnum. Í gegn um gufuhvininn heyrast dynkir nokkrir með stuttu millibili. Stafa þeir sjálfsagt frá einhverjum hver sem er inni í hrauninu og sjest ekki.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Sje haldið vestur með fjallinu, slitnar hraunið og koma þar aftur grænir vellir, þó ekki jafn víðlendir og Höskuldarvellir. Þeir heita Seljavellir og hefir þar verið haft í seli til forna. Annað sel hefir verið við rætur Trölladyngju. Hjet það, Sogasel og dró nafn sitt af grafningnum þar fyrir vestan. Ekki sá jeg tættur þess, en þær mun þó unnt að finna.
Vestur af Seljavöllum tekur enn við hraun, og úti í því er Hverinn eini. Er það sjóðandi leirhver og leggur þaðan megna brennisteinsfýlu.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eggert Ólafsson segir um þennan hver, að hann hafi allt af verið, að flytja sig, en nú mun hann lengi hafa verið á sama stað. Er hann í jarðfalli og eru í botni þess hraunbjörg, sundursoðin af hveragufum, en á milli þeirra er bláleit leðja sem sýður og bullar og hvín. Rjett fyrir norðan hverinn er hverahrúðursbreiða, og mundi þá hverinn hafa verið þar áður. Um þennan hver var því trúað áður að þar hefðist við furðufuglar, sem kallaðir voru hverafuglar. Er þeim svo lýst, að þeir hafi verið kolsvartir, fiðurlausir og með litla vængi. Hverafugla er víða getið, en hvergi í leirhver, nema á þessum eina stað.

Sogin

Sogin.

Á Trölladyngju eru tveir háir hnúkar úr móbergi og eru þeir mjög ólíkir, því að sá vestari er brattur og hvass, en hinn breiður og kollóttur. Eru þeir alla vega sorfnir og nagaðir af frosti, vatni og vindi, stallalausir og eins og þeir hafi verið steyptir upphaflega. Er furða hvað gróður hefir náð að festa þar rætur, því að grænar tungur teygja sig upp eftir þeim. Eins er nokkur gróður fyrir vestan þá og upp með Soginu. Þar rekst maður á rennandi vatn, en það er sjaldgæft á Reykjanesskaga.
Dálítill lækur kemur hoppandi niður úr Soginu og á hann upptök sín í vatni, sem er á bak við Grænudyngju og heitir Djúpavatn. Þar er og tjörn dálítið norðar. Er þessa getið hjer vegna þess hvað það er sjaldgæft að hitta vatn á þessum útskaga. Lækurinn er eflaust teljandi vatnsfall í vorleysingum. Má sjá það á því, að hann hefir rutt sjer farveg norður endilanga Höskuldarvöllu, en nú var svo lítið í honum, að hann komst aðeins niður úr hlíðinni og hvarf þar í hraunið. Í honum er tært og svalandi vatn.

Sogasel

Sogasel.

Norðan undir Trölladyngju koma heitar gufur upp úr hrauninu á nokkrum stöðum, og þar fyrir norðan, austast á völlunum, eru nokkrir leirhverir. Hjer er því um allstórt jarðhitasvæði að ræða, en engin not er hægt að hafa af þeim hita. Það er tæplega að ferðamenn geti soðið mat sinn þarna eins og er. En sjálfsagt væri hægt að handsama þarna hitaorku, ef borað væri niður úr hrauninu. Þó mun það eiga langt í land vegna þess hvað staðurinn er afskekktur.

Sogasel

Sogasel undir Trölladyngju – fornleifar.

En hitt þykir mjer líklegt, að fólk muni fara að venja komur sínar á þessar slóðir, þegar fram líða stundir, og dvelja þar dögum saman í tjöldum. Hefir staðurinn öll skilyrði til þess að vera eftirsóttur af dvalargestum. Þarna er stórbrotið landslag og fjölbreytni í náttúru óvenju mikil, hrikaleg hraun og klungur, fögur og há fjöll með víðu útsýni. grænar brekkur og grónir vellir, lækur í gili og mjúkur mosi til að hafa í hvílubeði í tjaldi. Og svo eru þarna stórkostlegar gosstöðvar, sem nábúum er varla vansalaust að hafa ekki kynst, svo mjög sem þær hafa sett svip á Reykjanesskaga, og eru auk þess eitt hið mesta náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur.
Jeg fullyrði, að það er meira gaman að því að skoða Trölladyngju, fjöllin þar og umhverfið, heldur en sjálft Reykjanes.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 29. tölublað (20.08.1944), Árni Óla; Trölladyngja, bls. 369-373.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Selsvellir

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja. Bæði örnefnið og lækirnir benda til þess að kýr hafi verið hafðar í seli á Selsvöllum.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Af minjum á Selsvöllum að dæma er ljóst að þar hefur verið haft í seli um langan tíma. Líklegt má telja að þar á austanverðum völlunum hafi fyrrum verið nokkrar selstöður frá Grindavíkurbæjunum þar sem bæði fé og kýr hafa verið hafðar í seli. Ef glögglega er skoðað má sjá a.m.k. minjar tveggja fjósa. Svo virðist sem selastaðan hafi lagst af um tíma, hugsanlega flust á Baðsvelli norðan Þorbjarnarfells líkt og heimildir herma. Frásögn er um ofbeit á Baðsvöllum svo aflögð selstaða Grindvíkinga hefur verið flutt á nýjan leik inn á Selsvelli, en bara á annan stað. Á meðfylgjandi uppdrætti má sjá afstöðu gömlu og nýju selstöðvanna á Selsvöllum.
Fróðlegt er að skoða aldurssamsetningu selsminjanna á Selsvöllum. Sjá má t.d. minjar fjósa á báðum svæðunum og einnig er áhugavert að skoða hvernig Grindvíkingar hafa veitt einum Selsvallalæknum að nýju selstöðunni – gagngert vegna kúaseljabúskapsins.
Nýrri selstóttirnar kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar. Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Annar selsstígur liggur norður af völlunum, framhjá Hvernum eina. Er það hluti Þórustaðastígs.
Upp undir fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Deilur hafa löngum staðið með Grindvíkingum og Vatnsleysustrandarhreppsbúum um það hvorum megin landamerkja Selsvellir liggja.

Fyrrum höfðu þeir í seli á Baðsvöllum norðan Þorbjarnarfells og við Selsháls, en á báðum stöðum má enn sjá tóttir seljanna. Eftir ofbeit þar voru selin færð upp á Selsvelli.

Selsvellir

Selsvellir.

Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengst upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt upp fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd en aðeins rúmlega 0.2 km ábreidd.
Selsvellir-224Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, sem er nokku sunnar með vestanverðum Núpshlíðahálsi, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur.

 

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Dalssel

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Dalssel

Tóft í Dalsseli.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Bent var á Odsshelli og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er greinilega mjög gamalt. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum. Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur.

Selsvellir

Vogarétt á Selsvöllum.

Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar; Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn og fyrrum Krýsuvík. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km.

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík segir að “í bréfi sr Geirs Backmanns til biskups árið 1844 hafi hann notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. Vogamenn ásældust Selsvellina, en Grindavíkurprestur var einarður um að Vellirnir væru Grindavíkurbænda.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 naugripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þeta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestsetursins “leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu”. Ef þessu héldi áfram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir “óhemju átroðning og yfirgang”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Ennfremur segir og er þá vísað í skýrslu Guðrúnar Gísladóttur frá árinu 1993: “Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel sjá þær enn. ..Þarna eru rústir í hraunjaðrinum, sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í sel á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnvel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprests”. – Árið 1703 höfðust útileguþjófað við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár [Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir].
Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.

Selsvellir

Selsvallaselsstígur.

Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli.
Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu.
Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Gengið um selsstíginn að Selsvöllum.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin.
Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli. Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdísarvellir

Gengið var frá rótum Trölladyngju inn á Selsvelli þar sem ætlunin var að fylgja Þórustaðastíg yfir Núpshlíðarhálsinn að Bæjarfelli ofan Vigdísarvalla og Bala. Tilefnið var að staldra þar við og horfa á eldflaugaskot, sem þar átti að framkvæmast kl. 13:00 skv. auglýstri dagskrá.

Gangan inn að Selsvöllum var auðveld, enda gamburmosinn frosinn. Selsvallalækurinn lék við klakahulu. Lækurinn hafði þó myndað öndunarop á nokkrum stöðum og lágu þau líkt og nýmyndaðar “hrauntraðir” út frá þeim og fylgdu lækjarfarveginum ofan á hulunni.
Þórustaðastígurinn fer þarna yfir Selsvellina á móts við sunnanverðan Moshól og áleiðis upp hlíðina norðan lækjarins þar sem hann kemur úr litríkum litlum dal í henni miðri. Leið lækjarins niður hlíðina er áhugaverð og margt ber fyrir augu á ekki lengri leið. Hitagróður er í farveginum. Þennan dag skartaði lækurinn tímabundnum og síbreytilegum ísskánslistaverkum. Ljóst er að dalurinn er hluti af Sogasvæðinu. Þarna hefur verið jarðhiti, en hann mun nú að mestu kólnaður. Neðar eru grónar sléttur er hafa að öllum líkindum verið hin ákjósanlegasta beitaraðstaða. Kúadalur er neðar, norðaustasti kriki Selsvalla – jafnhæða.
Þórustaðastígurinn liggur allt frá bænum Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og liðast upp heiðina. Stígurinn heldur þessu nafni allt upp fyrir Núpshlíðarháls og að Vigdísarvöllum.
Þegar komið var upp á hálsinn mátti sjá Keili norðar skarta sínu fegursta í vetrarsólinni. Austan við eru Grænuvatnseggjar og neðar Krókamýri. Sveifluhálsinn hafði ekki fyrr gefið jafn skýra heildarmynd af sér.
Þórustaðastígnum var fylgt á ská niður á við til suðurs austan við Núpshlíðarháls, allt að ofanverðu Bæjargili. Efst í gilinu er hlaðinn brú á stígnum. Þegar komið var á sunnanverða brún Bæjarfellsins mátti sjá þrjá bíla á bílastæðinu milli Vigdísarvalla og Bala.
Skömmu fyrir kl. 13:00 færðu ökumennirnir sig sunnar með Djúpavatnsveginum, að gígaröðinni vestan Bleikingsvalla. Þar mynduðu menn sig við undirbúning eldflaugaskotsins.
Þarna átti að fara fram tilraunaskot á vegum A.I.R áhugamannfélag um eldflaugar og eldflaugaskot á Íslandi. (Amateur Icelandic Rocketry). Að verkefninu standa þrír ungir menn, þeir Magnús Már Guðnason, Smári Freyr Smárason og Steinn Hlíðar Jónsson. Halda þeir félagar úti vefsíðunni www.eldflaug.com og má þar sjá framvindu um smíðina á eldflauginni og ýmislegt er varðar eldflaugarskotið. Að öllum gefnum tilskildum leyfum var allt orðið klárt og átti flaugin að fara á loft kl. 13:00, sem fyrr sagði.
Fyrir þá sem ekki vita þá er flaugin 203 cm að hæð og 63 mm í þvermá og um 5 kg. Hún mun ná allt upp í 1200 metra hæð og allt að 600 km/klst. Eldflaugin fer þessa 1200 metra á aðeins 15 sekúndum og eftir aðeins 0,5 sekúndur mun hún ná hámarkshraða eða um 600 km/klst. Í efstu stöðu (sem sagt í 1200 metrum) skýst út fallhlíf og fellur þá flaugin á um það bil 20 km hraða til jarðar. Allt ferlið var áætlað að tæki um það bil 2-3 mínútur.
Markmið með Áhugamannafélaginu AIR (Amateur Icelandic Rocketry) er að hanna og smíða áhugamannaeldflaugar. Um er að ræða nýsköpunarverkefni hér á landi þar sem aldrei áður hefur verið skotið upp eldflaug (að þeirra vitandi).
Upphaflegar áætlanir hljóðuðu upp á þrjár eldflaugar í sumar (2006) en þar sem ekki hefur fengist nógur tíma til að smíða og hanna þær allar á svo skömmum tíma munu líklegast einungis tvær verða tilbúnar á þessu ári.
Aðalmarkmið verkefnisins til að byrja með er að komast yfir hljóðhraða eða á um 1200 km/klst. Sú flaug mun væntanlega verða tilbúin einhvern tímann á næsta ári (2007) ef allt gengur upp og ef við fáum styrki til að framkvæma skotið.
Seinna meir langar hönnuðina að komast yfir veðrahvolfið eða yfir 10 km en það mun skýrast seinna hvort þær áætlanir ganga upp.
Frostið var um 15 °C. Eftir tæplega klukkustundar bið á Bæjarfelli var ákveðið að halda til baka.
Gengið var að vörðu á efsta toppi Bæjarfells. Um er að ræða litla vörðu, en frá henni er óvenju víðsýnt um nágrennið. Þá var haldið norður með austanverðri Núpshlíðunni, inn að Grænavatni. Þegar komið var yfir öxlina vestan hins formfagra fjalls norðan vatnsins blasti við stórkostlegt útsýni yfir vestan- og norðanvert láglendið þar sem Keilir var toppurinn. Sólin skein fagurlega á Selsvellina og vildi greinilega með því undirstrika fegurð þeirra. Sunnan og vestan Grænavatns hefur utanvegaakstur verið stundaður um allnokkurn tíma og valdið miklum skaða á gróðurlænum í í hlíðum.
Gengið var norður með vesturhlíð Núpshlíðarhálssins, að Sesseljuvatni og Spákonuvatni. Sumir nefna þessi vötn Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis EldflaugSpákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.
Þaðan var haldið á ská niður að upphafsstað, með Sogagíg og Trölladyngju á hægri hönd. Í fjarska naut höfuðborgarsvæðið sín í miðdegissólinni.
Í kvöldfréttunum var m.a. fjallað um eldflaugaskotið við Vigdísarvelli fyrr um daginn.
Var talið að “merkur árangur hafi náðst þegar AIR skaut þarna upp sinni fyrstu eldflaug (AIR 203). Allt gekk að óskum fyrir utan bilun í innbyggðu myndavélinni.
Mikill fjöldi fólks mætti á svæðið og fagnaðarlætin leyndu sér ekki þegar eldflaugin tókst á loft.
Flaugin náði hámarkshraða á einungis 92,1 metra hæð eða 590 km hraða. Hámarkshröðunin á þessum tíma var 332 m/s^2 eða 34 g. Eftir 14,9 sekúndur var hún komin í efstu stöðu eða í 1081 metra hæð. Þar tók við fallhlíf sem sveif með flaugina á 28,7 km hraða til jarðar og lenti flaugin upp í fjallshlíð, 400-500 metra frá skotstað.
Þess má geta að flaugin var 5,2 kg og 203 cm að hæð og einungis þurfti 610 grömm af eldsneyti til að knýja flaugina áfram.”
Í annarri frétt sagði: “Eldflaug var skotið upp í fyrsta sinn frá Íslandi af Íslendingum í dag. Enginn varð þó fyrir skotinu enda til gamans gert. Sumir hafa sérkennilegri áhugamál en aðrir…
Fjöldi fólks var saman kominn á Vigdísarvöllum skammt frá Krýsuvík til að fylgjast með þessari fyrstu íslensku eldflaug sem skotið hefur verið á loft hér. Markmiðið var að ná henni upp í um það bil 1000 metra hæð, koma henni í 5-600 km hraða á um hálfri sekúndu og fá hana niður í fallhlíf í um 500 metra radíus frá skotstaðnum.
Og það tókst. Flaugin kom stráheil niður, náði 590 km hraða á hálfri sekúndu og fór upp í 1080 metra hæð við mikinn fögnuð viðstaddra.
En til hvers í ósköpunum að smíða eldflaug? “Þetta er bara gaman,” segir efnafræðineminn Magnús. En þetta er dýrt hobbí, þessi flaug hefur kostað þá skólapilta 350-400 þús. kr. “En tilgangurinn er að smíða þrjár flaugar og ná hljóðhraða með þeirri þriðju, um 1200 kílómetra á klukkustund,” segir Smári Freyr sem er forsprakki eldflaugasmiðanna. En hvað er fengið með því annað en fúttið?
“Fúttið,” svaraði Smári og brosti í kampinn.

Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.eldflaug.com/

Keilir

Fagradals-Vatnsfell

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðatjarnaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Oddshellir

Oddshellir.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Ekki var komið við í Kálffelli að þessu sinni, en bent var á staðsetningu Oddsshellis og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er á fallegum stað. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.
Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur síðar.
Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar, Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km og þar var þetta lengsta FERLIRsgangan fram að þessu. Þessi ferð verður væntanlega aldrei afturgengin því um mjög óvenjulega leið var að ræða, sem að öllum líkindum mjög fáir hafa farið áður, en verður þátttakendum vonandi lengi í mynni.
Veður var frábært – þægileg gjóla og sól. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Við selstóftir á Selsvöllum.

Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.
Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli. Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu. Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Tóft við Selsvelli.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin. Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Veður var frábært – logn, 16 °C hiti og sól.
Gangan tók u.þ.b. 2 klst.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdísarvellir

Árið 1993 gerði Guðrún Gísladóttir skýrslu fyrir stjórn Reykjanssfólkvangs um “Gróður, jarðveg og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi” og jafnframt gerði hún tillögur um úrbætur.

Krýsuvík

Krýsuvík – teikning.

Í niðurstöðum og tillögum skýrslunnar segir m.a.:
“Ástand gróðurs er víða afar bágborið í Reykjanesfólkvangi og er brýnt að lagfæra ástandið á þeim svæðum sem eru illa farin. Fjölbreyttar búsetuminjar eru á fólkvangnum allt frá landnámi til 20. aldar. Rústirnar þarf að gera upp annars er hætta á að þær hverfi áður en langt um líður því grjót og torf samlagast umhverfinu, ekki síst ef svæðið grær upp. Þarna eru dýrmæt menniningarverðmæti sem verður að bjarga með endurbyggingu. Eina húsið sem er uppistandandi frá gamalli tíð er Krýsuvíkurkirkja frá 1857.
Mikilvægt er að gróður verði í framtíðinni í samræmi við íslenskt náttúrfar. Við uppgræðslu lands skal því einungis nota íslenskar jurtir og fræ en varast að nota lúpínu og barrvið. Beina skal aðgerðum að þeim svæðum sem verst eru farin, þ.e. svæðinu frá Kleifarvatni suður að sjó, Sveifluhálsi og Vesturhálsi, Breiðdal og Undirhlíðum. Mikilvægt er að náttúran sjálf fái að sjá um gróðurframvindu í hraunum og því ber að varast að planta þar trjám.
Búsetuminjar eru fjölbreyttar, t.d. bæjarhverfi, verstöð og seljarústir. Á milli þessara minja eru órjúfanleg tengsl. Bændur höfðu í seli og stunduðu sjó á vertíð. Sökum hagleysis var búfé rekið í sel og vegna hafnleysis héldu bændur til í verstöð á vertíðum. Það er því mikilvægt að þessum tegundum minja verði sinnt þegar rústir verða gerðar upp. Beina skal agerðum fyrst að verstöðinni á Selatöngum, síðan Krýsuvíkurbænum með útihúsum og þá Selsvöllum. Það ætti í framtíðinni að gera upp allar rústir fólkvangsins og hafa nokkrar skepnur t.d. í Krýsuvík, en þess verður að gæta að gróður hljóti ekki skaða af.”

Í skýrslunni er fjallað ítarlega um gróður og jarðveg í Reykjanesfólkvangi, markmið með endurheimt landgæða, tillögur um leiðir til varðveislu gróðurlenda og uppgræðslu lands, aðferðir í uppgræðslumálum, ástand og aðgerðir á mismunandi svæðum fólkvangsins, forgangsröðun svæða, búsetu áður fyrr í Reykjanesfólkvangi, ástand rústa og umfang, forgangsröðun verkefna og tillögur um lagfæringar og upphleðslu mannvistarminja og auk þess hugleiðingar um nýtingu Reykjanesfólkvangs.

Selalda

Selalda – teikning.

Um búsetu áður fyrr í Krýsuvíkursókn segir m.a.: “Rústir í Reykjanesfólkvangi bera fyrri búsetu ótvírætt vitni. Elstu minjar búsetu er að finna í Húshólma og Óbernnishólma í Ögmundarhrauni. Byggðin sem þar fór í eyði þegar Ögmundarhraun rann um 1151. Um búsetuna þarna eru ekki skráðar heimildir og eru því rústirnar eina vísbendingin um hina fornu byggð Krýsuvíkur og má ljóst vera að byggðin hefur verið umfangsmeiri en rústirnar segja til um. Elsta ritaða heimildin um búsetu í Krýsuvíkursókn er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þá voru íbúar í Krýsuvíkursókn 34 og var þá búið í Krýsuvík og 7 hjáleigum. Býlin voru í þyrpingu undir Bæjarfelli og rétt norðar þar sem Stóri og Litli Nýibær stóðu. Fram undir 1825 var fjöldi íbúa og býla stöðugur en eftir það fór ásókn í nýbýli að aukast í sókninni. Til að byrja með voru stofnuð nýbýli undir Bæjarfelli, þ.e. Garðshorn og Lækur. Landrými var hins vegar takmarkað og voru þrjú nýbýli stofnuð fjarri Bæjarfelli á árunum 1830-1850. Vigdísarvellir og Bali á svokölluðum Vigdísarvöllum og Fitjar undir fellinu Strákum suður undir sjó. Fólksfjöldinn í sókninni jókst stöðugt og varð mestur á 6. áratug 19. aldar þegar rúmlega 70 manns byggðu sóknina. Á þeim árum byggðust kotin Arnarfell, Snorrakot og Hnaus, sem voru í byggð einujngis í skamman tíma.

Selsvellir

Selsvellir – teikning.

Eftir 1865 fór svo að halla undan fæti fyrir byggðinni. Fólkinu fækkaði um leið og býlin lögðust í eyði hvert á fætur öðru. Eftir aldarmótin voru íbúarnir orðnir færri en í byrjun 18. aldar og einungis 3 bæir í byggð. Litli Nýibær og Vigdísarvellir lögðust í eyði eftir jarðskjálfta 1905. Eftir það hélst byggð í Krýsuvík og Stóra Nýjabæ um skamma hríð og í byrjun 4. áratugarins var Krýsuvíkurhverfið allt. Þar með lauk sögu sjálfþurftarbúskapar og nýir tímar komu til sögunnar. Rústir sem verður lýst hér á eftir eru leifar gamla sveitasamfélagsins og eru minjar um líf og afstöðu fólks fyrir ekki svo löngu síðan. Aðstöðu fólks og lifnaðarhætti eiga börn nú á tímum engin tök á að gera sér í hugarlund. Ef hins vegar býlin yrðu gerð upp og unglingar fengju að vinna að því með eldra fólki myndi sjálfsagt nýr heimur opnast fyrir þeim. Hið sama gildir um þá sem kynnast uppgerðum húsunum.”
Guðrún lýsir síðan ástandi mannvistaleifanna eins og þær voru árið 1993. Tíu árum síðar, eða árið 2003, má segja að ýmislegt hafi breyst, bæði hvað varðar aukna vitneskju og eflda vitund fólks um minjar þær er hún fjallar um í ritgerð sinni. Ennþá stafar þó sama hættan að þeim, ekki síst vegna skilningsleysis þeirra aðila er ákvarðanir þurfa að taka um framkvæmdir á einstökum svæðum.
“Allar rústirnar þarf að merkaj vel og hafa upplýsingar um sögu þeirra á staðnum. Það ætti að vera framtíðarmarkmið að hlaða upp rústirnar… Ég sé þetta svæði fyrir mér sem eitt verðmætasta útivistarsvæði á suðvesturhorni landsins þar sem hægt verður að sameina náttúru- og söguskoðun.
Í Svíþjóð hefur sænska ferðafélagið gert upp marga bóndabæi, iðnaðarhverfi frá 19. öld og reyndar líka herragarða og fangelsi. Þessi hús eru nú notuð sem farfuglaheimili og njóta óhemju vinsælda ekki síst vegna sögulegs gildis. Í Danmörku njóta víkingaaldabæirnir mikilla vinsælda. Í Lejre utan við Hróarskeldu er stórt svæði lagt undir þessa starfsemi… Með því að gera upp býli og hafa starfsfólk á staðnum sem vinnur með gamla laginu er enginn vafi á því að fólk mun sækja staðinn hvort sem er til að fá sér kaffisopa eða dvelja lengur. Á hverju svæði fyrir sig þarf að vera til staðar saga svæðisins, s.s. Krýsuvíkurhverfisins og lýsing á náttúruverðmætum í nágrenninu.”

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – teikning.

Minna má á að ekki er nema ár síðan að bæjarstjórn Hafnarfjarðar léði landsvæði undir Arnarfelli, í hjarta Krýsuvíkurhverfisins – hinna gömlu búsetuminja og heilstæða sögusvæðis, undir kvikmyndatöku erlendrar stríðsmyndar með tilheyrandi eyðileggingu á gróðri og mengun minjanna. Slíkt getur tæpast talist mikil virðing fyrir þeim verðmætum og hinni miklu arfleifð, sem þarna er að finna. Flokka verður slíka ákvörðun undir stundarafglöp að óathuguðu máli.
Staðreyndin er sú að taka þarf framkomnar ábendingar Guðrúnar til alvarlegar skoðunnar, ekki síst nú þegar kröfur almennings um varðveislu menningarverðmæta verða æ háværari og mikilvægra áhrifa ferðamennskunnar er farið að gæta í miklu mun ríkari mæli en áður var. Reykjanesfólkvangur býr yfir miklum tækifærum, sem óþarfi er að glopra niður vegna vanþekkingar eða áhugaleysis þeirra er gæta eiga hagsmuna þeirra svæða er hann tilheyrir. Auk náttúruminja má nefna ótrúlega aðgengilega sýn á jarðfræðifyrirbæri, hvort sem um er að ræða frá ísaldarskeiðum eða nútíma. Telja má að a.mk. 15 hraun hafi runnið á Reykjanesskaganum frá því að land byggðist og hefur það óneitanlega sett mark sitt á búsetu fólks og þróun byggðar frá upphafi vega. Ef vel er að gáð má bæði sjá og þreifa á sannindum um búsetu- og atvinnusögu svæðisins frá því að fyrstu íbúarnir stigu á land til dagsins í dag – rúmlega 1100 árum síðar. Er ekki kominn tími til að nútímafólkið reyni a.m.k. að varðveita hluta þeirrar sögu til handa komandi kynslóðum þessa lands?

Heimild:
-Skýrsla Guðrúnar Gísladóttur um “Gróður, jarðveg og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi” – 1993.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.