Færslur

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Dalssel

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Dalssel

Tóft í Dalsseli.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Bent var á Odsshelli og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er greinilega mjög gamalt. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum. Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur.

Selsvellir

Vogarétt á Selsvöllum.

Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar; Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn og fyrrum Krýsuvík. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km.

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík segir að “í bréfi sr Geirs Backmanns til biskups árið 1844 hafi hann notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. Vogamenn ásældust Selsvellina, en Grindavíkurprestur var einarður um að Vellirnir væru Grindavíkurbænda.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 naugripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þeta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestsetursins “leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu”. Ef þessu héldi áfram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir “óhemju átroðning og yfirgang”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Ennfremur segir og er þá vísað í skýrslu Guðrúnar Gísladóttur frá árinu 1993: “Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel sjá þær enn. ..Þarna eru rústir í hraunjaðrinum, sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í sel á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnvel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprests”. – Árið 1703 höfðust útileguþjófað við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár [Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir].
Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.

Selsvellir

Selsvallaselsstígur.

Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli.
Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu.
Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Gengið um selsstíginn að Selsvöllum.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin.
Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli. Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Fagradals-Vatnsfell

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðatjarnaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Oddshellir

Oddshellir.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Ekki var komið við í Kálffelli að þessu sinni, en bent var á staðsetningu Oddsshellis og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er á fallegum stað. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.
Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur síðar.
Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar, Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km og þar var þetta lengsta FERLIRsgangan fram að þessu. Þessi ferð verður væntanlega aldrei afturgengin því um mjög óvenjulega leið var að ræða, sem að öllum líkindum mjög fáir hafa farið áður, en verður þátttakendum vonandi lengi í mynni.
Veður var frábært – þægileg gjóla og sól. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Við selstóftir á Selsvöllum.

Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.
Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli. Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu. Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Tóft við Selsvelli.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin. Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Veður var frábært – logn, 16 °C hiti og sól.
Gangan tók u.þ.b. 2 klst.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Stóri-Hamradalur

Gengið var um Stóra-Hamradal og upp í Litla-Hamradal þar norður af. Upp úr honum var gengið til norðvesturs upp á Núpshlíðarháls og síðan eftir hálsinum ofan við Hraunssel, um Selsvallafjall og Grænavatnseggjar ofan við Grænavatn og niður að Spákonuvatni, Sogadal og staðnæmst við Sogagíg við rætur Trölladyngju ofan Höskuldarvalla.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Í Stóra-Hamradal er hár hamraveggur, misgengi. Dalurinn hefur sigið, en ofan af brúnum gjárveggjarins hefur síðan runnið nýrra þunnfljótandi hraun úr gígunum ofan við Tófubruna. Sumsstaðar hefur það smurt veggina líkt og að vandaða múrhúðun sé um að ræða. Undir gjánni sunnarlega er hlaðin rúningsrétt.
Litli-Hamradalur virðist ekki jafn tilkomumikill og stóri bróðir hans, en dalurinn er allsléttur og getur verið mjög litskrúðugur í bjartviðri, einkum eftir rigningar. Gengið var á Núpshlíðarhálsinn upp úr norðurenda dalsins. Þegar komið var upp á brún blasti Höfði í suðvestri, Sandfell í vestri og Hraunssels-Vatnsfell í norðvestri.

Hraunssel

Hraunssel.

Niður undir hálsinum lá Hraunsselið, vel gróið. Út frá því liggja greinilegar gamlar götur, sem spillt hefur verið í seinni tíð með utanvegaakstri.
Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík. Ofarlega í hlíðinni eru falleg litbrigði kulnaðra hverasvæða. Eftir að hafa staldrað við í grónum brekkunum ofan við selið var haldið áfram norður eftir hálsinum og útsýnið nýtt til hins ítrasta.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunsels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norðar kemur slétt graslendi Selsvalla í ljós. Af Selsvallafjalli má, ef vel er að gáð, sjá tóftir Grindavíkurseljanna suðvestanvert á völlunum sem og undir hlíðinni á þeim austanverðum. Selsvellir mynduðust með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Syðst á austanverðum völlunum er svonefndar Kúalágar.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar. Spölkorn vestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu vestan Selsvalla að norðanverðu, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann að hluta með umferð ökutækja. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, löngu eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt.

Grænavatn

Grænavatn.

Frá Grænavatnseggjum er frábært útsýni niður að Grænavatni á hægri hönd og að Trölladyngju og Grænudyngju til norðurs. Dyngjurnar eru móbergshnjúkar (393 og 375 m.y.s). Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum. Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Spákonuvatn birtist í einum gígnum á vinstri hönd. Fallegt útsýni er frá því yfir að Keili og umhverfi hans. Gengið var niður hin litskrúðugu Sog, um Sogadal og litið í Sogagíg þar sem selstóftir Sogasels voru skoðaðar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://www.os.is/jardhiti/
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.

Dyngjur-3

Dyngjur.

Trölladyngja

Gengið var frá Trölladyngju upp í Sogadal, þaðan upp að Spákonuvatni og síðan niður Þórustaðastíginn þar sem hann liggur skásniðinn niður Selsvallafjall á Selsvelli, suður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi, um Þrengsli og Hraunsel, áfram niður með austurjarði Leggjabrjótahrauns og síðan gamla Krýsuvíkurveginum (Hlínarveginum) fylgt austur yfir Núpshlíðarhálsinn á Djúpavatnsveg sunnan Stóra Hamradals.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngjusvæðið er nátttúrminjasvæði, auk Keilis og Höskuldarvalla. Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólkvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffell í Keili. Þá er gígasvæðið vestan í Vesturhálsi er liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla hluti af náttúrverndarsvæðinu, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólkvangs. Sjálf er Trölladyngjan móbergsfjall, líkt og Grænadyngja, systir hennar, og Keilir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn.

Gengið var yfir Sogalækinn og áfram upp á gígbrún Spákonuvatns. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir litskrúðugt Oddafellið og formfagran Keili. Spákonuvatnið er í einum gíg af mörgum á Núpshlíðarhálsinum. Önnur vötn má t.d. nefna Djúpavatn og Grænavatn.

Gengið var um Grænavatnsengjar áleiðis niður að Selsvallafjalli. Af fjallinu var horft yfir Grænavatn í suðaustri. Skásneiðingur Þórustaðastígsins var síðan tekinn niður á Selsvellina vestur undir fjallinu. Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt niður fjallið. Reykjavegurinn liggur um Selsvellina.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengt upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Upp í fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Hluti selstóttanna kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti. Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli.
Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selsturnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.

Keilir

Keilir.

Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt á 19. öld. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega.

Ef marka má lýsingu sr. Geirs var ekki um marga kosti að ræða: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars
Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni.

Hraunssel

Hraunssel.

Gengið var niður Þrengslin og tóftir Hraunssels skoðaðar. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Haldið var áfram niður syðri Þrengslin, með austurjaðri Leggjabrjótshrauns og niður í Línkrók. Þar skammt frá á Sængurkonuhellir að vera í hrauninu undir hlíðinni. Þegar komið var niður á gömlu götuna (Hlínarveginn), sem rudd var fyrir hestvagna um 1932, var beygt til vinstri og götunni fylgt í sneiðingi upp Núpshlíðarhálsinn, um móbergsskarð og niður hálsinn að vestanverðu. Gangan endaði á Djúpavatnsvegi þar sem FERLIR-095 hafði byrjað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dyngjur-2

Dyngjur.

Selsvellir

Gengið var norður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi og upp í Hraunssel neðan við Þrengslin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa skoðað selstóftirnar var gengið á hálsinn og honum fylgt niður að gígaröð syðst á honum austanverðum. Um er að ræða mjög fallega gíga, myndarlegar hraunæðar og hrauntraðir í hlíðinni neðanverðri. Vestan undir sunnanverðu Núpshlíðarhorni var, að sögn Jóns Jónssonar, jarðfræðings, einn fallegasti hraungígur landsins, en hann hefur nú að miklum hluta verið notaður sem ofaníburður í þjóðveginn.
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Slóði liggur nú þvert yfir Leggjabrjótshraunið og áfram upp með Núpshlíðinni, inn á Selsvelli og áfram niður á Höskuldarvelli suðvestan Trölladyngju.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Gamlar vörður eru við slóðann yfir hraunið svo líklega hefur hann verið gerður ofan í eldri götu, sem þarna var, enda liggur gata þarna áfram upp á hálsinn við Línkrók, í móbergsskarð á honum og síðan í sneiðingum niður hann að austanverðu. Gatan sést síðan á ný sunnan Djúpavatnsleiðar skammt ofan við gatnamót Ísólfsskálavegar.
Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tófta sem eru nú minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti. Eftir að hafa skoðað stekkina í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914.

Leggjabrjótshraun

Gígur ofan Höfða – Leggjabrjótshraunsskapari.

Ofan við Hraunsselið eru Þrengslin, sem fyrr sagði. Neðan við Hraunsselið að sunnanverður heita einnig Þrengsli. Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli, u.þ.b. 20 mín. ofar.
Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.

Höfði

Hrauntröð við Höfða.

Núpshlíðarhálsinn er vel gróinn ofan við Hraunssel. Haldið var niður hálsinn og kíkt á hraungígana syðst á honum austanverðum. Þeir eru hver öðrum fallegri. Flestir eru opnir til suðausturs og hefur hraunið, sem rann undan hallanum og niður hlíðina, skilið eftir sig fallegar hraunæðar og traðir.
Moshóll var loks skoðaður niður undan suðvesturhorni hálsins. Jón Jónsson sagði hann merkilegan, ekki síst fyrir það að hægt væri að sjá í honum þversnið af gígrás. Því miður hefur þeirri ásýnd nú verið svipt á brott með stórtækum vinnuvélum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar/

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsvellir

Í Faxa 1960 er “Ferðaþáttur III” eftir Hilmar Jónsson. Þar fjallar hann um ferð félaga í Ferðafélagi Keflavíkur á Selsvelli og nágrenni:

Selsvellir
“Eins og lesendum Faxa er kunnugt, var starfsemi Ferðafélags Keflavíkur fremur lítil í fyrra, aðeins ein ferð var farin á vegum félagsins. Nú hefur brugðið mjög til hins betra um hag félagsins. — Þegar þetta er skrifað hafa 5 ferðir verið farnar, en það er einni ferð fleira en gert var ráð fyrir í áætlun F.K. — Eflaust er þessi ágæti árangur mikið veðrinu að þakka, en framhjá hinu verður ekki gengið, að í ár hafa félaginu bætzt starfskraftar, sem ríða baggamuninn. — Á ég þar við smiðina Magnús og Bjarna Jónssyni, að ógleymdum konum þeirra. En á síðasta aðalfundi var Magnús kosinn varaformaður, en Ásta Arnadóttir, kona Bjarna, gjaldkeri. Þetta fólk hefur myndað kjarnann í flestum ferðum félagsins í sumar. Og í fyrstu ferðinni, sem var gönguferð á Trölladyngju og nærliggjandi staði, var Magnús Jónsson leiðsögumaður. Lagt var af stað í þá ferð kl. 8 að morgni hins 6. júní.
Selsvellir
Þátttakendur voru 17. Þykir það mjög gott, jafnvel í höfuðstaðnum, þegar um gönguferð er að ræða. Á Höskuldarvelli vorum við komin um kl. 10, þar var setzt að snæðingi. Þá var hæg gola og leit út fyrir bezta veður. En að hálftíma liðnum var byrjað að rigna og það veðulag hélzt til kvölds. Fyrst var haldið á Selsvelli. — Þrátt fyrir veðrið voru allir í góðu skapi, sérstaklega lá vel á Guðmundi Magnússyni, sem fór með óprenthæfan kveðskap kvenfólkinu til andlegrar uppbyggingar.
Í Árbók F.Í. 1936 skrifar Bjarni Sæmundsson um Suðurnes. Hann segir: „Einn fallegasti staðurinn á suðurkjálkanum, og einn sá, er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af vestur hálsinum. Þeir byrja, má segja, þegar komið er inn úr þrengslunum og ná „milli hrauns og hlíðar” 2 1/2 km. inn með hálsinum, rennsléttir og grösugir. Tærir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið.”
Selsvellir
Fjallasýn er þarna mjög fögur, á aðra hönd er Keilir, en á hina Grænadyngja (393 m.) og Trölladyngja.
Í fjarska eru Fagradalsfjöll, Frá Selsvöllum til Grindavíkur er allgreiðfær leið. Í fyrra gengum við Hafsteinn Magnússon frá Festarfjalli í Grindavík og á Keili. Gallinn var bara sá, að við fórum of nálægt Keflavík og lentum þar af leiðandi utan í aðalfjallgarðinum. Á Selsvöllum eru nokkrar tættur eftir sel frá Grindavík. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir er frásaga um þjófa þrjá, sem höfðust við á Selsvöllum við Hverinn eina. Þeir voru hengdir samkvæmt Vallaannál 13. júlí 1703.
Frá Selsvöllum fórum við síðan yfir Selsvallaháls og komum á Vigdísarvelli. Þar eru miklar rústir bæði eftir útihús og mannabústaði. Þaðan er nokkur gangur að Djúpavatni. Með í förinni voru þrír ungir piltar, synir Bjarna og Magnúsar, og Jón Eggertsson. Þegar hér er komið sögu höfðu þeir gengið okkur eldra fólkið af sér. Urðum við að hafa hraðann á til að ná þeim, því að þoka var á og villugjarnt fyrir unga menn og ókunnuga. — Frá Djúpavatni var gengið yfir hálsinn frá Grænudyngju, og það verð ég að segja, að sjaldan hefur maður verið fegnari mat sínum en þegar við komum aftur á Höskuldarvelli. Var nú farið að rigna allmikið og ekki til setunnar boðið. Tóku menn það ráð, að ganga niður á veg, þar eð bíllinn, sem skyldi flytja okkur heim, var ekki væntanlegur fyrr en kl. 6.
Lýkur hér með frásögn af þessari ágætu göngu.” – Hilmar Jónsson.

Í Faxa 2008 segir Helga Kristinsdóttir frá “Skátaútilegu á verslunarmannahelgi 1943” upp á Höskuldarvelli og nágrennið skoðað:

Helga Kristinsdóttir“Það var að koma verzlunarmannahelgi og skátafélagið Heiðabúar í Keflavík að fara í útilegu – og nú tók þátt í sinni fyrstu stórútilegu nýlega stofnuð kvennasveit innan félagsins, 3. sveit. Stefnan var tekin á Höskuldarvelli. Bíll var fenginn til að koma hópnum inn í Kúagerði, en ekki man ég, hvernig bíll var notaður að þessu sinni, hvort farið var á tveimur bílum eða farnar tvær ferðir. Oftast var þó farið á vörubílum, og sátu þá allir í hnapp á pallinum og breiddu yfir sig segl til að skýla sér fyrir regni eða ryki, en þá voru vegir malarbornir og holóttir og allt á kafi í ryki, ef þurrkur var.
Þegar komið var í Kúagerði, var eftir 2-3 tíma ganga upp á Höskuldarvelli. Allir urðu að bera farangur sinn, bakpoka, svefnpoka, tjöld, nesti og stundum vatn, en það fór eftir veðurfari. Ekki var talið æskilegt að bera mikið „gos”, því glerið var alltof þungt – þá voru ekki komnar til sögunnar plastflöskur. Oft höfðum við með okkur suðusúkkulaði, sítrónu og rabarbara til að draga úr sárasta þorstanum.
Í þetta skipti var þó hafður svolítið annar háttur á. Á laugardagsmorgninum fóru tveir skátar úr 1. sveit upp á Höskuldarvellit með hesta, klyfjaða tjöldum, mat og matarílátum fyrir þennan 42 manna hóp, sem ætlaði að dvelja á „Völlunum” yfir helgina, 15 skátastúlkur, 19 skátadrengi og 8 gesti. Það voru félagsforinginn, Helgi S. Jónsson, og deildarforinginn, Gunnar Þ. Þorsteinsson, sem stjórnuðu ferðinni. Er gangan hófst meðfram hraunjaðrinum, fór það eftir veðri og vindum, hvað við vorum lengi á göngu, en að þessu sinni sýndu veðurguðirnir okkur sína beztu hlið. Öðru hverju gengum við yfir hraunfláka og eftir kindagötum. Í hrauninu eru ákaflega fallegir, grónir bollar og gjótur, en alltaf varð maður að gæta sín að detta ekki og meiðast.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki – horft af Trölladyngju í átt að Kúagerði.

Á þessari göngu var stefnt á smá skarð í Trölladyngju. Gerði maður það, var komið svo til beint á tjaldstað. Af og til var tekin smá hvíld, því þetta gat verið þreytandi ganga, ekki sízt þegar bera þurfti mikinn farangur, auk síns hefðbundna búnaðar, svo sem fána, fánastöng, vatn, ef þurrkar höfðu staðið lengi, eldhústjald, prímus og potta, meðal annars til að elda sameiginlegan hafragraut á morgnana og hita kakó á kvöldin. Ekki mátti heldur gleyma eldsneytinu, olíunni á prímusinn, en allt þetta urðu „kokkarnir”, sem skipaðir voru fyrir hverja útilegu, að sjáum.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir. Trölladyngja fjær.

Þegar komið var á „Vellina”, var mikið áhyggjuefni, hve langt væri nú í vatn, en lækur rennur úr Djúpavatni mislangt eftir völlunum. Fór það eftir veðurfari, hvort hann þornaði upp, en þá þurfti að elta hann langt upp í fjall. Núna reyndist þó allt í lagi, lækurinn rann niður vellina.
Þegar búið var að tjalda og afmarka tjaldbúðir, var liðið að kvöldmat. Þá tóku allir upp nestið sitt og nutu þess að borða. Nestið var oftast grautur, brauð með kæfu eða osti, harðfiskur, soðið kjöt og mjólk. Síðan var farið að huga að varðeldinum, finna stað og eldsneyti.
Aðrir fóru að sækja vatn í kakó og graut, og smávegis fyrir morgunþrifin. Nú var setzt við varðeldinn, sungið, hlegið og sagðar sögur og brandarar, en á eftir var drukkið kakó og borðað kex. Tíminn leið hratt og mál að hvíla sig, því á morgun átti að fara í göngu.

Með sól í hjarta og söng á vörum
við setjumst niður í grænni laut.
Í lágu kjarri við kveikjum eldinn,
kakó hitum og eldum graut.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Morguninn rann upp, bjartur og fagur. Fánahylling, hafragrautur, tjaldskoðun og aðrir fastir liðir. Þá var kominn tími til að leggja af stað í gönguferðir. Þeir, sem fóru í styttri gönguna, gengu á Keili, Trölladyngju og Eldborg, en hún er gamall, rauður eldgígur. Mosinn í gígnum var svo þykkur þá, að maður sökk djúpt niður, líkt og verið væri að vaða snjó. Eldborgin er aðeins um 70 fet á hæð. Á milli hennar og Trölladyngju er mikill jarðhiti, og víða gufar úr jörðinni. Þarna á jarðhitasvæðinu var talsvert um svarta snigla, sem gátu orðið upp í 5-7 sentimetrar á lengd.
Þeir, sem fóru í lengri gönguna, gengu meðfram Oddafelli og stefndu á Selsvelli. Í leiðinni var Hverinn eini skoðaður, en hann hefur átt það til að hverfa og koma síðan aftur upp á allt öðrum stað. Eftir góða göngu komum við svo niður á Selsvelli.
Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, er eftirfarandi lýsing doktors Bjarna Sæmundssonar á Selsvöllum:

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

„Einn fallegasti staðurinn á Suðurkjálkanum, og einn sá sem verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af Vesturhálsinum. Þeir ná milli hrauns og hlíðar 2 1/2 km, rennisléttir og vel grösugir. Tveir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið. Er þarna mjög kvöldfagurt í góðu veðri, iðjagræn hlíðin á aðra hönd, en opið útsýni til Hraunsels, Vatnsfells, Keilis, Driffells o.fl.”
Þorvaldur Thoroddsen var líka hrifinn af Selsvöllum, er hann kom þangað og gisti þar í tjaldi. Hann sagði, að þar væri fríðara land og byggilegra heldur en víða þar, sem mikil byggð er, nógar slægjur á völlunum og ágæt beit í hálsinum. Hann hélt, að þar mundu vel geta staðið 2-3 bæir.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir [Bali]. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Þegar við vorum búin að hvíla okkur og næra, héldum við áfram. Nú var farið yfir Núpshlíðarhálsinn og á Vigdísarvelli, en þar var áður búið, eða til ársins 1905, en þá hrundu öll hús eða stórskemmdust í jarðskjálfta. Sá, er þá bjó á Vigdísarvöllum og var síðasti bóndinn þar, hét Bjarni Ívarsson. Flutti hann með fólk og búfénað að Narfakoti í Innri-Njarðvík. Rak hann búsmalann þangað yfir hraun og vegleysur.
Næst var stefnan tekin á Djúpavatn. Þar tengum við okkur fótabað, en vorum vöruð við að vaða of langt útí, því vatnið væri bæði kalt og snardýpkaði. Þarna lukum við nestinu okkar enda veitti ekki af að létta byrðarnar, því hópurinn var nú farinn að þreytast.
Nú var stefnan tekin meðfram Trölladyngju. Á leiðinni var Rauðihver skoðaður og síðan gengið niður á Höskuldarvelli, og þar með var hringnum lokað. Það var þreyttur en glaður hópur, sem skilaði sér í tjaldbúðir, eftir vel heppnaða gönguferð, og við tók bráðskemmtilegur varðeldur, sem stóð til miðnættis, enda þótt bálið væri aðeins ímyndað, því eldiviðurinn var uppurinn – en sólin sló rauðgullnum bjarma sínum á skátana og tjöldin.

Enn logar sólin á Súlnatindi,
og senn fer nóttin um dalsins kinn,
og skuggar lengjast og skátinn þreytist,
hann skríður sæll í pokann sinn.
Og skáta dreymir í værðarvoðum
um varðeld, kakó og nýjan dag.
Af háum hrotum þá titra tjöldin
í takti, einmitt, við þetta lag.

Keilir

Keilir – gestabók.

Talað hafði verið um það um kvöldið, að yrði gott veður með morgninum, væri upplagt fyrir Selsvallafarana að bregða sér á Keili. Morgunninn rann upp með lognblíðu og glampandi sól, svo veðrið gat ekki verið betra. Ekki fóru nú allir í Keilisgönguna. Sumir voru með harðsperrur eða hælsæri og vildu heldur safna kröftum fyrir heimferðina.
Þeir sem fóru, tóku daginn snemma og lögðu upp eftir fánahyllingu og morgunmat. Tveir úr hópnum höfðu þó yfirgefið tjaldbúðirnar strax eftir fótaferð, af því að þeir þurftu að komast fyrri hluta dags til byggða.
Nú þurfti að klöngrast yfir úfið hraunið. Það var alls ekki greiðfært að Keili. Enda þótt fjallið sé ekki ýkja hátt, eða aðeins 375 m, gat verið nokkurt puð að komast upp, því mikið er um skriður, og maður rennur iðulega hálft skref niður fyrir hvert skref upp.

Gunar Eyjólfsson

Gunnar Eyjólfsson, skáti.

Er upp á hátindinn var komið, blasti við okkur skrautlegur kexpakki, með erlendri áprentun. Hvernig í ósköpunum hafði þessi kexpakki komizt upp á tind Keilis óskemmdur og óveðraður? Svona gómsætt gráfíkjukex fékkst ekki í búðum á Íslandi á stríðsárunum. Hafði máski stór fugl frá útlöndum borið hann hingað?
En þegar pakkinn var opnaður, var ekkert kex í honum, aðeins lítill miði, sem á var skrifað: Borðuðum úr pakkanum kl. 11 – Gunni Gerðu og Bötti, en það voru þessir tveir, sem höfðu þurft að flýta sér til byggða. Þeir skruppu þá í leiðinni á Keili til að sitja einir að þessu ófáanlega, gómsæta kexi. Piltarnir eru kunnari nútímafólki sem Gunnar Eyjólfsson leikari og prófessor Þorbjörn Karlsson.
En við nutum útsýnisins yfir Reykjanesskagann og skrifuðum í gestabókina, sem þarna er geymd í vörðu, áður en við héldum niður aftur. Við komumst, án áfalla, í tjaldbúðirnar. Þar beið okkar sætsúpa, sem kokkamir geymdu handa okkur. Við vorum hálfhissa á, hvað þeir ætluðu okkur mikið, því komið var langt framyfir matartíma. En – hvaða bragð var þetta annars af súpunni? Olíubragð? Hvað hafði nú skeð? Og skýringin kom. Prímushausinn hafði stíflazt, og þegar þeir fóru að gera við hann, spýtti hann olíu beint í súpupottinn. Þessvegna fengum við nú svona stóran skammt af súpu. En súpunni voru gerð lítil skil, hún fékk bara að renna beint niður í hraunið, sem væntanlega væri talið mengunarslys nú.
Nú var kominn tími til að taka saman dótið og halda heim. Við þrifum eftir okkur og grófum ruslið, en það var siður hjá okkur, skátunum, að ganga vel frá öllu og valda engum spjöllum.
Nú var haldið af stað heim, eftir mjög góða og skemmtilega helgi, en nokkrir urðu þó eftir til að binda upp á hestana. Svo tóku hestasveinarnir við, og eftir 114 tíma vom þeir búnir að ná hópnum. Þegar við komum svo í Kúagerði, beið okkar bíll (eða bílar) til að koma okkur heim, og þangað komum við svo endurnærð eftir ógleymanlega útileguhelgi.” – Helga Kristinsdóttir .

Heimildir:
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1960, Ferðaþáttur III, Hilmar Jónsson, bls. 111-112.
-Faxi. 2. tbl. 01.05.2008, Skátaútilega á verslunarmannahelgi 1943 – Brot úr óbirtri minningabók Helgu Kristinsdóttur, bls. 16-17.

Keilir

Keilir. Driffell t.v. og Oddafell t.h.

Selsvellir

Á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi eru fjölmargar selsminjar Grindvíkinga í gegnum tíðina. Þarlendir og Vogamenn greindi á um eignarhaldið, en klerkar Grindvíkinga virðast haft betur á meðan var.

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Selstöður Grindvíkinga voru á seinni öldum undir Selsvallafjalli. Enn í dag má sjá þar leifar húsa og stekkja. Selsvallalækurinn, sem skapaði vellina í gegnum aldirnar, líður enn sprækur niður með tóftunum.
Svo virðist sem Grindavíkurbændur hafi horfið frá Selsvöllunum um tíma og komið sér upp öðrum selstöðum víðs vegar annars staðar. Þannig hafa Þórkötlustaðabændur t.d. fengið selstöðu í Krýsuvíkurlandi sunnan Bæjarfells í skiptum fyrir útræði. Þarna varð heimafell Vigdísarvalla, síðar hjáleiga frá Krýsuvík.

Baðsvellir

Selstaða á Baðsvöllum.

Járngerðarstaðabændur unnu sér nýja selstöðu á Baðsvöllum norðan Þorbjarnarfells og Hóp kom sér upp selstöðu á ystu mörkum heimalandsins undir Selhálsi. Ísólfsskáli hafði heimasel í Borgarhrauni sunnan Einbúa og Hraun kom sér síðar upp selstöðu undir Núpshlíðarhálsi, sunnan Selsvalla. Líklegt má telja að það hafi verið um sama leiti og Grindavíkurbændur sóttu á ný inn á Vellina með selsbúskapinn, en að þessu sinni við hraunkantinn vestan við hina gömlu selstöðu. Virðast þeir hafa leitt Selsvallalækinn inn að hinum nýju selstöðum. Bendir það til að þá hafi kýr verið hafðar í seljunum þeim. Selin þarna eru miklu mun stærri og verklegri en þau eldri austar. Ekki er óraunhæft að ætla að bændur hinna þriggja hverfa, er Grindvíkingar byggðu upp á þeim tíma, hafi komið sér saman um selsöðurnar á vestanverðum Selsvöllunum á þeim tíma.
Selstígurinn frá og að Selsvöllum liggur frá Sandfelli inn á Vellina.
Hraunselið hefur jafnan verið orðað við landaeign Ísólfsskála, en virðist hafa verið látið í frið í góðri sátt með þeim nágrönnum.
Í dag eru selsminjarnar á Selsvöllum einar þær merkustu hér á landi. Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selstaða á Selsvöllum.