Árið 1993 gerði Guðrún Gísladóttir skýrslu fyrir stjórn Reykjanssfólkvangs um “Gróður, jarðveg og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi” og jafnframt gerði hún tillögur um úrbætur.
Í niðurstöðum og tillögum skýrslunnar segir m.a.:
“Ástand gróðurs er víða afar bágborið í Reykjanesfólkvangi og er brýnt að lagfæra ástandið á þeim svæðum sem eru illa farin. Fjölbreyttar búsetuminjar eru á fólkvangnum allt frá landnámi til 20. aldar. Rústirnar þarf að gera upp annars er hætta á að þær hverfi áður en langt um líður því grjót og torf samlagast umhverfinu, ekki síst ef svæðið grær upp. Þarna eru dýrmæt menniningarverðmæti sem verður að bjarga með endurbyggingu. Eina húsið sem er uppistandandi frá gamalli tíð er Krýsuvíkurkirkja frá 1857.
Mikilvægt er að gróður verði í framtíðinni í samræmi við íslenskt náttúrfar. Við uppgræðslu lands skal því einungis nota íslenskar jurtir og fræ en varast að nota lúpínu og barrvið. Beina skal aðgerðum að þeim svæðum sem verst eru farin, þ.e. svæðinu frá Kleifarvatni suður að sjó, Sveifluhálsi og Vesturhálsi, Breiðdal og Undirhlíðum. Mikilvægt er að náttúran sjálf fái að sjá um gróðurframvindu í hraunum og því ber að varast að planta þar trjám.
Búsetuminjar eru fjölbreyttar, t.d. bæjarhverfi, verstöð og seljarústir. Á milli þessara minja eru órjúfanleg tengsl. Bændur höfðu í seli og stunduðu sjó á vertíð. Sökum hagleysis var búfé rekið í sel og vegna hafnleysis héldu bændur til í verstöð á vertíðum. Það er því mikilvægt að þessum tegundum minja verði sinnt þegar rústir verða gerðar upp. Beina skal agerðum fyrst að verstöðinni á Selatöngum, síðan Krýsuvíkurbænum með útihúsum og þá Selsvöllum. Það ætti í framtíðinni að gera upp allar rústir fólkvangsins og hafa nokkrar skepnur t.d. í Krýsuvík, en þess verður að gæta að gróður hljóti ekki skaða af.”
Í skýrslunni er fjallað ítarlega um gróður og jarðveg í Reykjanesfólkvangi, markmið með endurheimt landgæða, tillögur um leiðir til varðveislu gróðurlenda og uppgræðslu lands, aðferðir í uppgræðslumálum, ástand og aðgerðir á mismunandi svæðum fólkvangsins, forgangsröðun svæða, búsetu áður fyrr í Reykjanesfólkvangi, ástand rústa og umfang, forgangsröðun verkefna og tillögur um lagfæringar og upphleðslu mannvistarminja og auk þess hugleiðingar um nýtingu Reykjanesfólkvangs.
Um búsetu áður fyrr í Krýsuvíkursókn segir m.a.: “Rústir í Reykjanesfólkvangi bera fyrri búsetu ótvírætt vitni. Elstu minjar búsetu er að finna í Húshólma og Óbernnishólma í Ögmundarhrauni. Byggðin sem þar fór í eyði þegar Ögmundarhraun rann um 1151. Um búsetuna þarna eru ekki skráðar heimildir og eru því rústirnar eina vísbendingin um hina fornu byggð Krýsuvíkur og má ljóst vera að byggðin hefur verið umfangsmeiri en rústirnar segja til um. Elsta ritaða heimildin um búsetu í Krýsuvíkursókn er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þá voru íbúar í Krýsuvíkursókn 34 og var þá búið í Krýsuvík og 7 hjáleigum. Býlin voru í þyrpingu undir Bæjarfelli og rétt norðar þar sem Stóri og Litli Nýibær stóðu. Fram undir 1825 var fjöldi íbúa og býla stöðugur en eftir það fór ásókn í nýbýli að aukast í sókninni. Til að byrja með voru stofnuð nýbýli undir Bæjarfelli, þ.e. Garðshorn og Lækur. Landrými var hins vegar takmarkað og voru þrjú nýbýli stofnuð fjarri Bæjarfelli á árunum 1830-1850. Vigdísarvellir og Bali á svokölluðum Vigdísarvöllum og Fitjar undir fellinu Strákum suður undir sjó. Fólksfjöldinn í sókninni jókst stöðugt og varð mestur á 6. áratug 19. aldar þegar rúmlega 70 manns byggðu sóknina. Á þeim árum byggðust kotin Arnarfell, Snorrakot og Hnaus, sem voru í byggð einujngis í skamman tíma.
Eftir 1865 fór svo að halla undan fæti fyrir byggðinni. Fólkinu fækkaði um leið og býlin lögðust í eyði hvert á fætur öðru. Eftir aldarmótin voru íbúarnir orðnir færri en í byrjun 18. aldar og einungis 3 bæir í byggð. Litli Nýibær og Vigdísarvellir lögðust í eyði eftir jarðskjálfta 1905. Eftir það hélst byggð í Krýsuvík og Stóra Nýjabæ um skamma hríð og í byrjun 4. áratugarins var Krýsuvíkurhverfið allt. Þar með lauk sögu sjálfþurftarbúskapar og nýir tímar komu til sögunnar. Rústir sem verður lýst hér á eftir eru leifar gamla sveitasamfélagsins og eru minjar um líf og afstöðu fólks fyrir ekki svo löngu síðan. Aðstöðu fólks og lifnaðarhætti eiga börn nú á tímum engin tök á að gera sér í hugarlund. Ef hins vegar býlin yrðu gerð upp og unglingar fengju að vinna að því með eldra fólki myndi sjálfsagt nýr heimur opnast fyrir þeim. Hið sama gildir um þá sem kynnast uppgerðum húsunum.”
Guðrún lýsir síðan ástandi mannvistaleifanna eins og þær voru árið 1993. Tíu árum síðar, eða árið 2003, má segja að ýmislegt hafi breyst, bæði hvað varðar aukna vitneskju og eflda vitund fólks um minjar þær er hún fjallar um í ritgerð sinni. Ennþá stafar þó sama hættan að þeim, ekki síst vegna skilningsleysis þeirra aðila er ákvarðanir þurfa að taka um framkvæmdir á einstökum svæðum.
“Allar rústirnar þarf að merkaj vel og hafa upplýsingar um sögu þeirra á staðnum. Það ætti að vera framtíðarmarkmið að hlaða upp rústirnar… Ég sé þetta svæði fyrir mér sem eitt verðmætasta útivistarsvæði á suðvesturhorni landsins þar sem hægt verður að sameina náttúru- og söguskoðun.
Í Svíþjóð hefur sænska ferðafélagið gert upp marga bóndabæi, iðnaðarhverfi frá 19. öld og reyndar líka herragarða og fangelsi. Þessi hús eru nú notuð sem farfuglaheimili og njóta óhemju vinsælda ekki síst vegna sögulegs gildis. Í Danmörku njóta víkingaaldabæirnir mikilla vinsælda. Í Lejre utan við Hróarskeldu er stórt svæði lagt undir þessa starfsemi… Með því að gera upp býli og hafa starfsfólk á staðnum sem vinnur með gamla laginu er enginn vafi á því að fólk mun sækja staðinn hvort sem er til að fá sér kaffisopa eða dvelja lengur. Á hverju svæði fyrir sig þarf að vera til staðar saga svæðisins, s.s. Krýsuvíkurhverfisins og lýsing á náttúruverðmætum í nágrenninu.”
Minna má á að ekki er nema ár síðan að bæjarstjórn Hafnarfjarðar léði landsvæði undir Arnarfelli, í hjarta Krýsuvíkurhverfisins – hinna gömlu búsetuminja og heilstæða sögusvæðis, undir kvikmyndatöku erlendrar stríðsmyndar með tilheyrandi eyðileggingu á gróðri og mengun minjanna. Slíkt getur tæpast talist mikil virðing fyrir þeim verðmætum og hinni miklu arfleifð, sem þarna er að finna. Flokka verður slíka ákvörðun undir stundarafglöp að óathuguðu máli.
Staðreyndin er sú að taka þarf framkomnar ábendingar Guðrúnar til alvarlegar skoðunnar, ekki síst nú þegar kröfur almennings um varðveislu menningarverðmæta verða æ háværari og mikilvægra áhrifa ferðamennskunnar er farið að gæta í miklu mun ríkari mæli en áður var. Reykjanesfólkvangur býr yfir miklum tækifærum, sem óþarfi er að glopra niður vegna vanþekkingar eða áhugaleysis þeirra er gæta eiga hagsmuna þeirra svæða er hann tilheyrir. Auk náttúruminja má nefna ótrúlega aðgengilega sýn á jarðfræðifyrirbæri, hvort sem um er að ræða frá ísaldarskeiðum eða nútíma. Telja má að a.mk. 15 hraun hafi runnið á Reykjanesskaganum frá því að land byggðist og hefur það óneitanlega sett mark sitt á búsetu fólks og þróun byggðar frá upphafi vega. Ef vel er að gáð má bæði sjá og þreifa á sannindum um búsetu- og atvinnusögu svæðisins frá því að fyrstu íbúarnir stigu á land til dagsins í dag – rúmlega 1100 árum síðar. Er ekki kominn tími til að nútímafólkið reyni a.m.k. að varðveita hluta þeirrar sögu til handa komandi kynslóðum þessa lands?
Heimild:
-Skýrsla Guðrúnar Gísladóttur um “Gróður, jarðveg og mannvistarminjar í Reykjanesfólkvangi” – 1993.