Færslur

Selsvellir

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja. Bæði örnefnið og lækirnir benda til þess að kýr hafi verið hafðar í seli á Selsvöllum.
Af minjum á Selsvöllum að dæma er ljóst að þar hefur verið haft í seli um langan tíma. Líklegt má telja að þar á austanverðum völlunum hafi fyrrum verið nokkrar selstöður frá Grindavíkurbæjunum þar sem bæði fé og kýr hafa verið hafðar í seli. Ef glögglega er skoðað má sjá a.m.k. minjar tveggja fjósa. Svo virðist sem selastaðan hafi lagst af um tíma, hugsanlega flust á Baðsvelli norðan Þorbjarnarfells líkt og heimildir herma. Frásögn er um ofbeit á Baðsvöllum svo aflögð selstaða Grindvíkinga hefur verið flutt á nýjan leik inn á Selsvelli, en bara á annan stað. Á meðfylgjandi uppdrætti má sjá afstöðu gömlu og nýju selstöðvanna á Selsvöllum.
Fróðlegt er að skoða aldurssamsetningu selsminjanna á Selsvöllum. Sjá má t.d. minjar fjósa á báðum svæðunum og einnig er áhugavert að skoða hvernig Grindvíkingar hafa veitt einum Selsvallalæknum að nýju selstöðunni – gagngert vegna kúaseljabúskapsins.
Nýrri selstóttirnar kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti.
Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar. Í bréfi frá Selsvellir-223séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Annar selsstígur liggur norður af völlunum, framhjá Hvernum eina. Er það hluti Þórustaðastígs.
Upp undir fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Deilur hafa löngum staðið með Grindvíkingum og Vatnsleysustrandarhreppsbúum um það hvorum megin landamerkja Selsvellir liggja. Fyrrum höfðu þeir í seli á Baðsvöllum norðan Þorbjarnarfells og við Selsháls, en á báðum stöðum má enn sjá tóttir seljanna. Eftir ofbeit þar voru selin færð upp á Selsvelli.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengst upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt upp fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd en aðeins rúmlega 0.2 km ábreidd.
Selsvellir-224Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, sem er nokku sunnar með vestanverðum Núpshlíðahálsi, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur.

 

Selsvellir

Í Faxa árið 1960 skrifar Hilmar Jónsson “Ferðaþátt” um för Ferðafélags Keflavíkur á Selsvelli og nágrenni:
“Eins og lesendum Faxa er kunnugt, var starfsemi Ferðafélags Keflavíkur fremur lítil í fyrra, aðeins ein ferð var farin á vegum félagsins. Nú hefur brugðið mjög til hins betra um hag félagsins. — Þegar þetta er skrifað hafa 5 ferðir verið farnar, en það er einni ferð fleira en gert var ráð fyrir í áætlun F. K.
— Eflaust er þessi ágæti árangur mikið veðrinu að þakka, en fram Selsvellirhjá hinu verður ekki gengið, að í ár hafa félaginu bætzt starfskraftar, sem ríða baggamuninn. — Á ég þar við smiðina Magnús og Bjarna Jónssyni, að ógleymdum konum þeirra. En á síðasta aðalfundi var Magnús kosinn varaformaður, en Ásta Arnadóttir, kona Bjarna, gjaldkeri. Þetta fólk hefur myndað kjarnann í flestum ferðum félagsins í sumar. Og í fyrstu ferðinni, sem var gönguferð á Trölladyngju og nærliggjandi staði, var Magnús Jónsson leiðsögumaður.
Lagt var af stað í þá ferð kl. 8 að morgni hins 6. júní. Þátttakendur voru 17. Þykir það mjög gott, jafnvel í höfuðstaðnum, þegar um gönguferð er að ræða. Á Höskuldarvelli vorum við komin um kl. 10, þar var setzt að snæðingi. Þá var hæg gola og leit út fyrir bezta veður. En að hálftíma liðnum var byrjað að rigna og það veðulag hélzt til kvölds. Fyrst var haldið á Selsvelli. —
Þrátt fyrir veðrið voru allir í góðu skapi, sérstaklega lá vel á Guðmundi Magnússyni, sem fór með óprenthæfan kveðskap kvenfólkinu til andlegrar uppbyggingar.

Selsvellir

Í Árbók F. Í. 1936 skrifar Bjarni Sæmundsson um Suðurnes. Hann segir: „Einn fallegasti staðurinn á suðurkjálkanum, og einn sá, er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af vestur hálsinum. Þeir byrja, má segja, þegar komið er inn úr þrengslunum og ná „milli hrauns og hlíðar” 2 1/2 km. inn með hálsinum, rennsléttir og grösugir. Tærir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið.”
Fjallasýn er þarna mjög fögur, á aðra hönd er Keilir, en á hina Grænadyngja (393 m.) og Trölladyngja. Í fjarska eru Fagradalsfjöll. Frá Selsvöllum til Grindavíkur er allgreiðfær leið. Í fyrra gengum við Hafsteinn Magnússon frá Festarfjalli í Grindavik og á Keili. Gallinn var bara sá, að við fórum of nálægt Keflavík og lentum þar af leiðandi utan í aðalfjallgarðinum. Á Selsvöllum eru nokkrar tættur eftir sel frá Grindavík. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir er frásaga um þjófa þrjá, sem höfðust við á Selsvöllum við Hverinn eina. Þeir voru hengdir samkvæmt Vallaannál 13. júlí 1703.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Frá Selsvöllum fórum við síðan yfir Selsvallaháls og komum á Vigdísarvelli. Þar eru miklar rústir bæði eftir útihús og mannabústaði. Þaðan er nokkur gangur að Djúpavatni. Með í förinni voru þrír ungir piltar, synir Bjarna og Magnúsar, og Jón Eggertsson. Þegar hér er komið sögu höfðu þeir gengið okkur eldra fólkíð af sér. Urðum við að hafa hraðann á til að ná þeim, því að þoka var á og villugjarnt fyrir unga menn og ókunnuga. —
Frá Djúpavatni var gengið yfir hálsinn frá Grænudyngju, og það verð ég að segja, að sjaldan hefur maður verið fegnari mat sínum en þegar við komum aftur á Höskuldarvelli.
Var nú farið að rigna allmikið og ekki til setunnar boðið. Tóku menn það ráð, að ganga niður á veg, þar eð bíllinn, sem skyldi flytja okkur heim, var ekki væntanlegur fyrr en kk 6.

Lýkur hér með frásögn af þessari ágætu göngu.
Hilmar Jónsson.”

Heimild:
-Faxi – Ferðaþáttur – Hilmar Jónsson, 7. tbl., 1. sept. 1960, bls. 111-112.

Selsvellir - uppdráttur

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Selsvellir

Ólafur Briem skrifaði í Andvara árið 1959 um “Útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallgarði”. Þar getur hann m.a. um útilegumenn við Selsvelli undir Sveifluhálsi í byrjun 18. aldar:

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur

“Selsvellir og Hverinn eini. Nokkru vestar en Sveifluháls eða Austurháls við Kleifarvatn er annar háls samhliða honum, sem heitir Núpshlíðarháls eða Vesturháls. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg upp að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert. Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufan úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari. Þorvaldur Thoroddsen lýsir honum sem sjóðandi leirhver, þegar hann kom þangað 1883, og segir, að þar sjóði og orgi í jörðinni, þegar gufumekkirnir þjóta upp um leðjuna. Og lýsingunni á hvernum lýkur hann með þessum orðum: „Úr Hvernum eina leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo að mér ætlaði að verða óglatt, er ég stóð að barmi hans. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega frá Reykjavík” (Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók I. bls. 178).

Hverinn eini

Hverinn eini.

Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. I alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilegast rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal. En séra Eyjólfur var um þessar mundir uppkominn maður á Nesi við Seltjörn hjá föður sínum, Jóni Eyjólfssyni, sýslumanni í Gullbringusýslu, sem rannsakaði mál þjófanna. Verður því vart á betri heimild kosið. Þar sem skýrt er frá störfum alþingis, segir á þessa leið: „Þennan sama dag voru hengdir þrír þjófar, hét hinn fyrsti Jón Þórðarson, ættaður úr Gnúpverjahrepp, annar Jón Þorláksson, ættaður úr Landeyjum. Þeim fylgdi piltungur nokkur, er Gísli hét Oddsson, ættaður úr Hrunamannahrepp.

Selsvellir

Selsvellir.

Þessir komu úr Gullbringusýslu. Það er af þeim framar að segja, að Jón Þórðarson fór austan úr Hrepp um allraheilagramessuleytið veturinn fyrir, og Gísli með honum, flökkuðu síðan vestur um sveitir, unz þeir komu í Hvamm. Þar aðskildi þá Jón Magnússon sýslumaður. Fór Jón einn upp þaðan, unz hann kom á Kvennabrekku, og fann þar á næsta bæ Jón Þorláksson. Gerðu þeir þá félag sitt og fóru báðir suður til Borgarfjarðar og yfir Hvítá í Bæjarhrepp. Þar kom Gísli til þeirra. Fóru síðan allir suður til Skorradals og hófu stuldi mikla; fóru þeir með þeim suður um Hvalfjarðarströnd, Kjós og Mosfellssveit, og svo suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum, en er þeir höfðu þar lítt staðar numið, kom til þeirra Hallur Sigmundsson, búandi í Ísólfsskála í Grindavík, og vandaði nokkuð svo um þarveru þeirra. Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur og fóru norður aftur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá Hvernum eina.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Voru þar síðan í þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar á hálsunum, rændu einnin ferðamann, er Bárður hét Gunnarsson úr Flóa austan. Loksins í vikunni fyrir alþing fór Jón Árnason, búandi í Flekkuvík upp til hellisins við 12. mann, og hittu þá heima. Vildu þeir ei skjótt í ljós koma, unz Jón hleypti byssu af, er hann hafði, og bað hvern einn fylgdarmanna skjóta sinni byssu. Gerði hann það til skelks þjófunum, því eigi voru fleiri byssurnar en tvær. Hann skaut hettu af Jóni Þorlákssyni, svo að honum grandaði ekki. Féll þjófunum þá hugur og gengu í hendur þeim. Voru síðan allir teknir og fluttir inn til Bessastaða. Þar voru þeir þrjár nætur og á þeim tíma rannsakaðir á Kópavogsþingi, færðir síðan upp á þing og hengdir báðir Jónarnir, en Gísli hýddur sem bera mátti og rekinn svo til sveitar sinnar; var honum vægt fyrir yngis sakir”.
Ekki hefur mér tekizt að fá vitneskju um hella á þeim slóðum, þar sem þjófarnir voru. Og vorið 1951 komum við Björn Þorsteinsson að Hvernum eina til að svipast um eftir hellum í hrauninu í kring. Við sáum nokkra örlitla skúta, en engan svo stóran, að okkur þætti hugsanlegur mannabústaður. En hraunið er þannig, að þar getur hellir lengi leynzt sjónum manna, og að sjálfsögðu hafa útilegumennirnir reynt að velja sér skúta, sem ekki var auðfundinn. Líklegt er og, að þeir hafi tekið sér bólstað þarna til þess að geta soðið mat sinn í Hvernum eina, því að ekki þarf að efa, að hann hefur þá verið nógu heitur til þess. Skammt er einnig þaðan að sækja vatn í læk nyrzt á Selsvöllum.

Þáttur þessi er úr bók um útilegumenn og útilegumannabyggðir, sem kemur út hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs í haust.”

Heimild:
-Andvari, 84. árg. 1959, 1. tbl., bls. 103-104.

Selsvellir

Tóftir við Selsvelli.

Portfolio Items