Færslur

Stafnes

Minnivarði um strand togarans Jóns forseta var í gær afhjúpaður á Stafnesi.
Jón forseti RE 108 markaði tímamót í íslenskri útgerðarsögu en hann var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga og kom til landins þann 23. janúar 1907.

Reynir Sveinsson og Höskuldur FrímannssonAð morgni 28. febrúar 1928 strandaði Jón forseti við Stafnes.  Á þeim tíma voru engin tæki til björgunarstarfa og engin vegur né sími var á Stafnesi. Bátar voru sendir frá Sandgerði með olíu til að hella í sjóinn og reyna þannig að lægja öldur.
Áhöfninni tókst að láta flot reka að landi sem varð til þess að hægt var að draga litla skektu að skipinu og þannig tókst að bjarga níu mönnum.
Þegar ekki var lengur hægt að nota skektuna voru þrír menn eftir á lífi um borð í togaranum. Ákváðu tveir þeirra að fara úr sjóstökkum og stígvélum og fara í sjóinn á stórri öldu sem bar þá langa leið að landi. Annar þeirra komst lifandi til lands en það var Frímann Helgason. Hann var þá 18 ára og varð síðar kunnur íþróttamaður.
MinnisvarðinnStrand Jóns forseta var mikið áfall fyrir íslensku þjóðina. Fimmtán menn drukknuðu í sjóslysinu. Forsetinn hafði verið flaggskip íslenskra togara um árabil.
Slysavarnafélag Íslands var nýstofnað á þessum tíma og  setti kraft í að stofna slysavarnadeildir um landið. Sú fyrsta var stofnuð í júní 1928 í Sandgerði. Hún hlaut nafnið Sigurvon.

Þann 27. ágúst 2009 var á Stafnesi afhjúpaður minnisvarði um togarann Jón Forseta sem fórst utan við Nesið 28. febrúar árið 1928. Reynir Sveinsson og Höskuldur Frímannsson, sonur síðasta mannsins sem bjargaðist af Jóni Forseta, afhjúpuðu minnisvarðann.

SkjöldurKristinn Jónsson, framkvæmdastjóri slysavarnafélagsins Landsbjargar, flutti stutt ávarp að lokinni vígslu og sagði meðal annars frá því að afi sinn hafi verið skipstjóri á Jóni Forseta er hann strandaði.

Reynis Sveinssonar, verðandi formaður Slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði (hann hefur verið vikur í deildinni í 23 ár), flutti einnig ræðu við athöfnina:

“Góðir gestir,
Ég vil bjóða ykkur öll velkomin hingað að Stafnesi þar sem afhjúpaður verður minnisvarði um strand togarans Jóns Forseta RE 108.
JónStafnes á merka sögu tengda sjóslysum, má þar nefna að árið 1685 á góuþrælnum fórust sjö skip frá Stafnesi og drukknuðu 58 menn á einum degi.
Nafn þessa staðar Stafnes er tilkomið vegna sjóslyss, en fyrr á öldum var nafnið Nes ávallt notað um þennan stað. Fyrir margt löngu bjó hér útvegsbóndi sem var orðinn fótalúinn. Hann sat í smiðju og var að tálga sér staf, er tvær vinnukonur komu til hans og sögðu honum þau döpru tíðindi að bátur sem tveir sona hans hafi verið á hafi farist er báturinn tók land og bræðurnir hafi báðir látist.
Gamli maðurin kláraði að tálga stafinn og bað nokkru síðar vinnukonurnar að fylgja sér að þeim stað þar sem báturinn fórst. Þegar þau voru komin út á klappirnar þar sem sjórinn braut á, lyftir gamli maðurinn nýja stafnum upp, lamdi honum í sjóinn og mælti “Héðan í frá skal enginn láta lífið sem tekur land á Nesi sé farin rétt sundleið og skal Nesið héðan í frá heita Stafnes”.
23. janúar árið 1907 urðu tímamót í Íslenskri útgerðasögu, en þann dag kom fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga, Jón Forseti RE 108.
Jón forsetiAð morgni 28. febrúar árið 1928 nefndu menn nafn skipsins í hálfum hljóðum með óræða bæn í svip og fasi. Forsetinn var strandaður við Stafnes.
Þá tók við barátta upp á líf og dauða hjá áhöfn skipsins við miskunarlaust hafið, en á þessum tíma voru engin tæki til björgunarstarfa, engin vegur né sími var á Stafnesi.
Bátar voru sendir frá Sandgerði með olíu til að hella í sjóinn og lægja öldur.
Áhöfninni tókst að láta flot reka að landi sem varð til þess að hægt var að draga litla skektu að skipinu og þannig tókst að bjarga níu mönnum. Þegar þrír menn voru eftir á lífi um borð í Jóni forseta og ekki lengur hægt að notast við litlu skektuna,  ákváðu tveir þeirra að fara úr sjóstökkum og stígvélum og fara í sjóinn á stórri öldu sem bar þá langa leið að landi. Aðeins annar þessara manna komst lifandi til lands, Frímann Helgason þá 18 ára og varð hann síðar kunnur íþróttamaður.
Þetta strand var mikið áfall fyrir Íslensku þjóðina. Fimmtán menn drukknuðu í sjóslysinu og Forsetinn hafði verið flaggskip íslenskra togara um árabil.
JónSlysavarnafélag Íslands sem var ný stofnað setti nú kraft í að stofna Slysavarnadeildir um landið og var fyrsta deildin stofnuð í júní árið 1928 í Sandgerði og hlaut hún nafnið Sigurvon.
Árið 1929 kom björgunarbáturinn Þorsteinn til Sandgerðis og fljótlega eftir komu bátsins var hafist handa við að leggja veg frá Fuglavík að Stafnesi svo hægt væri að fara með bátinnn að Stafnesi ef slys bæri að höndum.  Það var sagt að þessi vegur væri ógnarbreiður en það kom til útaf breidd vagnsins sem flutti Þorstein og er Stafnesvegur sennilega eini vegurinn sem er lagður fyrir bát hér á landi.
Að lokum langar mig að þakka þeim systrum á Vestur-Stafnesi fyrir að ljá land undir minnisvarðann, öllum þeim starfsmönnum sem komu að verkefninu þar á meðal jarðvinnu og girðingavinnu, Sjóminjasafninu Víkin á Grandagarði, Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands sem veitti styrk til verkefnisins ásamt Sandgerðisbæ.
Hér á meðal okkar er Höskuldur Frímannsson sonur síðasta mannsins sem bjargaðist af Jóni Forseta og vil ég biðja hann að koma hingað og afhjúpa verkið.”

Þess má geta að Reynir var upphafsmaður að setja upp þennan minnisvarða, vann við að finna grjót og láta skera mynd skipsins út ásamt því að stórbæta allt umhverfið, stækka planið og girða umhverfis minnisvarðan. Við hann eru 15 minni steinar til minningar um þá 15 menn er fórust í þessu slysi.

Heimild:
-245.is
-vikufrettir.is

Stafnes

Á Stafnesi með Sigurði Eiríkssyni.

Básendar

Sem lið í Sandgerðisdögum – innan seilingar, dagana 5. -7. ágúst, var boðið upp á göngu um og frá Stafnesi yfir að Básendum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Gengið var að dómhringnum á Stafnesi, yfir og eftir gömlu þjóðleiðinni (Kaupstaðaleiðinni) að Draughól sunnan við Básenda. Þaðan var haldið niðurá Brennitorfu (Brennihól) og yfir að minjasvæðinu við Básenda ofan við Brennitorfuvík. Skoðaðir voru sökklar húsanna, sem þarna voru í tíð verslunarinnar, festarkengir, sem kaupskipin voru bundin við, sjóbúiðin og vörin, réttin, vörður og garðar, auk brunnsins, sem enn sést. Haldið var til baka ofan Básendahóla, yfir hlaðna brú frá Básendasandi að Stafnesi og stefnan síðan tekin að Stafnesvita þar sem skyggnst var eftir tóftum hjáleiganna fjölmörgu, sem þar voru fyrr á öldum, s.s. Loddu og Þembu. Á leiðinni var rifuð upp saga svæðisins, hlutur þess í sjósóknarsögunni og einstakar minjar skoðaðar með sérstaka áherslu á verslun Þjóðverja og Englendinga, konungs- og einokunarverslunina sem og eyðingu hennar í Básendaflóðinu mikla í janúar árið 1799.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes, eða Starrnes eins og það er talið hafa heitið til forna, er vestan Hvalsness. Líklegt má telja að höfuðból hafi verið þar um langa tíð, enda benda fornar minjar á staðnum til þess að svo hafi verið. Þá tengjast Stafnesi sögur og sagnir, sem rekja má langt aftur í tímann, Starrnesnafnið bendir til gróanda, en eins og svo víða utan Sandgerðis hefur sandurinn fært gróður í kaf, jarðvegur fokið upp og sjór brotið af ströndinni, jafnvel svo munar um 50 metrum á mannsævi. Þá hefur land lækkað á Rosmhvalanesi sem nemur að jafnaði um 0.8 cm á ári. Á síðustu 70-80 árum hefur mikil vinna farið í að hefta sandfok og jarvegseyðingu á nesinu.
Miklir og fallega hlaðnir garðar eru við Stafnes. Flestir þeir heillegu eru tiltölulega nýir, notaðir til skjóls við kál- og kartöflugarða, en ekki síst fyrir rabbara á 20. öldinni. Um hinar u.þ.b. 30 hjáleigur, sem voru um tíma frá Stafnesi, voru einnig víða hlaðnir garðar, en lægri, og sjást margir þeirra enn.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja síðustu öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði. Þá fórust 10 manns af togaranum, en 15 var bjargað í land.

Stafnes

Stafnes.

Í Rauðskinnu eru nokkrar sögur frá Stafnesi. Ein þeirra er um tilurð nafnsins: “Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir: Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman.
Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Básendar

Básendar – gerði.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.”
Þá segir einnig af Stafnesbóndanum: “Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita.
Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu…” Framkoma bóndans átti eftir að hafa verulega eftirmála honum til handa, og það ekki góða.
Ólafur Davíðsson skráði eftirfarandi sögu af Stafnesdraugnum, sem löngum hefur gengið þar ljósum logum: “Þá er kvefveikin gekk 1894 lagðist í henni Jón nokkur sem kallaður var “í brókinni”. Hann átti heima austur í Landeyjum, en var þá vermaður að Stafnesi. Jón var hræddur um, að hann mundi deyja og bað annan sjómann að sækja handa sér meðul til Keflavíkur. Annaðhvort var, að maður þessi neitaði að fara, eða honum dvaldist á leiðinni. Að minnsta kosti er víst um það, að Jón fékk aldrei meðulin og dó nálægt sumarmálum. Eftir það tók Jón að sækja að meðalamanninum og gekk ljósum logum. Maðurinn fór heim til sín, en aðsókninni linnti ekki við það. Jón kvað ganga um eins og grár köttur á Stafnesi enn í dag og einu sinni sást hann á ferð um Rosmhvalanes á meri sem hann hafði átt í lifanda lífi.”

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Í Rauðskinnu segir einnig frá Narfa á Stafnesi: “Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét Þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.
Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna. Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi til Hafna. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann….” Narfi lést, en gekk síðan aftur, heimsótti kaupmann, kvað vísu og hefndi sín grimmilega.
Brynjúlfur Jónsson segir í rannsókn sinni á Reykjanesinu 1902 að á Stafnesi sé forn dómhringur, sem enn má sjá móta fyrir í túninu. Nú hefur einhver reynt að vera huggulegur og nýlega plantað inn í hann nokkrum runnum og fyrirhuguð er skógrækt utan í honum.

Pakkhúsið

Pakkhúsið 1962.

Vestan við Stafnes eru nokkrar lægðir, er við fyrstu sýnt gætu verið gamlar grafir. Þær eru það í vissum skilningi því þarna geymdu bændur karftöflur sínar, grófu þær í sandinn til varnar frosti. Handan við Gjána er læna inn í landið og yfir hana hlaðin brú. Urðin er neðar. Þarna hefur líklegast verið bæjarstyttingur því þjóðleiðin gamla yfir á Kaupstaðaleiðina austan Ósa er nokkru ofar, eða ofan garðs. Tveir myndarlegir grónir hólar eru við ströndina milli Stafness og Básenda. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar)m Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað “Bátsendum”.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að “í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes.

Básendar

Básendar – brunnur.

Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, milli skerja.
Á Básendum má enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.”

Básendar

Áletranir við Básenda.

Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).

Básendar

Básendar – brú.

Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Básendar

Básendar – festarkengur.

Þá víkur sögunni til Grindavíkur. Englendingar voru þar, um 15 að talið var. Foringi þeirra er Joen Breen (Brier), nefndur Jóhann Breiði af heimamönnum. Líklega var hann fjarskyldur Englandskóngi. Annar mjög merkilegur Englendingur var þarna líka, en sá var yfirfálkatemjari Englandskóngs. Sennilega í þeim erindagjörðum að fanga hér fálka og temja, en þeir voru bæði konungasport og útflutningsvara. Þessi Englendingar reistu virki að Járngerðarstöðum. Svolítið öðruvísi var þá umhorfs þar en nú er. Sjórinn er búinn að “éta” mikið af landinu. Virkið var sennilega þar sem nú er Stóra Bót á Hellunum.
Englendingar uggðu ekki að sér. M.a. vegna þess að í höfninni (líklega Stóru Bót eða austar) voru 5 ensk skip. Af einhverri ástæðu fréttu Þjóðverjar að til stæði að halda drykkjusvall hjá Englendingum í Grindavík. Þjóðverjar tryggðu sér þá stuðning danskra yfirvalda á Bessastöðum og söfnuðu liði frá Hafnarfirði og Njarðvíkum, auk áhafna átta þýskra skipa. Söfnuðust þeir saman við Þórðarfell ofan við Grindavík og skiptu liði. Um nóttina, aðfararnótt 11. júní 1532, og héldu sumir suður Árnastíg (Skipsstíg) að virkinu (Hafnfirðingar og Njarðvíkingar) og aðrir að skipunum. Voru 15 Englendingar drepnir í Virkinu, þ.á.m. Jóhann Breiði, en lík hans var illa leikið eftir átökin. Átta voru teknir höndum. Voru þeir látnir dysja félaga sína undir virkisveggnum, í svonefndri Engelsku lág. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, eitt strandaði og árásarliðið náði einu, Peter Gibson, skip Jóhanns Breiða (sjá nánar undir Fróðleikur – Grindavíkurstríðið).
Þá kom að því, sem einna minnistæðast þykir um Básenda, eða Bátsendar, eins og þeir voru einnig nefndir. Það var Básendaflóðið mikla.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.
“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.
Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.

Básendar

Básendar – vör.

Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.
Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.
Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.

Básendar

Básendar – minjar.

Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.
Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.

Básendar

Básendagata.

Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.
Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.

Básendar

Básendar – gerði.

En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Til er uppdráttur af Básendum frá konungsverslunartímanum. Þar sést hvernig skip voru svínbundin, bæði inn undir Brennitorfuvík og utan skerjann við Básenda. Festarkengir voru skv. því fimm að tölu, en enn má sjá þrjá þeirra ef vel er að gáð.
Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.

Báendar

Básendar – bærinn.

Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Básendar

Básendabærinn.

Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt sunnar. Þeir sjást vel frá Básendum. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í.

Stafnes

Stafnes.

Ef þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna, sennilega á Stafnesi.
Þórshöfn er skammt sunnar, austan Ósa. Þar var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Gamla þjóðleiðin ofan við Básenda var gengin til baka að Stafnesi. Það er sú leið sem Hallgrímur Pétursson er talinn hafa fetað á leið sinni frá Bolafæti í Njarðvíkum yfir að Hvalsneskirkju fyrst eftir að hann var ráðinn þangað til prestsskaps. Við leiðina er talið að séu tvö sannindamerki um tilvist þess; annars vegar áletrunin HP á klöpp við Þórsmörk og síðan sama áletrun ásamt ártali á svonefndri Hallgrímshellu við vörðu milli Básenda og Þórshafnar. Hvort Hallgrímshellan er letursteinninn eða klapparhella, sem þar er, er ekki alveg á hreinu.
Frábært veður, hávaða rok og rigning. Veðrið gaf góða mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs við ströndina þennan fyrrnefnda örlagadag í janúar 1799. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Sandgerdi.is
-Reykjanes.is/bokasafn
-Blanda 1924-27.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes

Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir:

Stafnes

Á Stafnesi.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.

Stafnes

Stafnesviti – tóft.

Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman. Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Stafnes

Stafnesviti.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.

Heimild:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=172
-Rauðskinna I 57.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Stafnes

Gengið var upp í Stafnesheiðina með Jóni Ben Guðjónssyni frá Austur-Stafnesi. Hann þekkir svæðið líkt og lófann á sér.
JónVið fyrstu sýn virðist fátt áhugavert við ofanvert Stafneslandið, en þegar betur er að gáð er því öðruvísi farið. “Landið er skjóllaust yfir að líta og í rauninni hvergi hægt að skíta”, segir í einni hendingu ferðalangs er fór þar um fyrir skömmu. Öðrum finnst auðnin bæði dulúðleg og heillandi. A.m.k. er beitilyngi hvergi fallegra en þarna í miðri auðninni.
Skammt ofan við Stafnes, utan garða, er reisuleg innsiglingavarða fyrir hafnarlagið. Ofar í heiðinni blasir Pétursvarðan við. Að sögn Jóns var hún innsiglingarvarða inn á legurnar við Básenda, þá innri og ytri. Vörður voru á ströndinni fyrir hvora innsiglinguna, en þær báru báðar í Pétursvörðu. Hún mun hafa staðið þarna um langan tíma og ávallt haldist nánast óröskuð. Jón sagði að heiðin hefði mikið breyst frá því að hann var barn og unglingur. Þá hefði hún öll verið gróin, en nú væri heiðin norðanverð nánast örfoka.

Beitilyng

Margt fé gekk um svæðið fyrrum, stundum of margt. Þá hafi leið legið upp frá Básendum svo til beina yfir til Keflavíkur með stefnu á Pétursvörðu. Gengið var fram á vörðubrot við leiðina á holtstanga skammt suðvestan við Pétursvörðu. Frá henni sást í vörðubrot á holtsbrún neðar í heiðinni. Þarna virðist hafa verið greið leið þarna á millum því er komið var spölkorn ofar í heiðina lá landið svo til flatt fyrir fótum og enn vel gróið. Jón sagði að Háaleiti hefði verið nálægt þar sem nú er flugturninn á Keflavíkurflugvelli. Leitið hefði verið um 50 m hátt og því vel greinilegt sem viðmið. Sjávargrandi hefði verið við Háaleiti er gaf til kynna að áður hafi landið verið mun lægra, en risið eftir að jökla leysti.

Varða

Leiðin hafi legið þar við, en nú sæist hvergi móta fyrir götunni, bæði vegna jarðvegs-eyðingarinnar að vestanverðu og flugbrauta-framkvæmdanna að austanverðu.
Þá var komið að Skjólgarði (eða Skjólgörðum eins og Jón nefndi hann). Um er að ræða bogadregna einfalda garðhleðslu, um 18 m. langa. Út frá henni til vesturs liggur um 7 m langur þverveggur. Hæst er hleðslan nú um 0.9 m. Jón sagði að garðurinn hafi verið um hærri þegar hann var strákur. Fyrir ofan garðinn er vel gróið sem fyrr sagði. Staðsetningin er ofan við brúnina áður en hallar niður að Básendum (Stafnesi).
Jón

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrrir Stafnes er m.a. getið um Skjólgarð og Pétursvörðu. “Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. Þar norður af er há klöpp, sem heitir Kiðaberg. Við Skjólgarðinn fyrrnefnda er komið upp fyrir hraunbeltið. Er þá fátt um nöfn. Heitir það Neðri-Mosar og Efri-Mosar, aðskilið af grjótbelti. Kiðaberg er há klöpp, sem fyrr var nefnd. Skammt suður og upp af Gálgum er fyrst hóll. Í honum er gren, sem heitir Kollóttagren. Hraunið upp af Gálgunum er nefnt Gálgahraun. Allmikið sunnar er Þórshöfn, sem fyrr getur, og er þar mjór og langur bás inn í hraunið. Þangað fóru kaupskip hér fyrr.

Ummerki

Ekkert er vitað um tilefni örnefnisins Pétursvarða né fólk það, sem hún er kennd við.”
Í suðvestri blasti Mjóavarða við, austan við Gálga (Gálgakletta (sjá meira HÉR)). Hún var innsiglingarvarða fyrir Þórshöfn. Í útliti eru Pétursvarða og Mjóavarða nánast eins og tvíburar.
Svo virðist sem Skjólgarður hafi verið ígildi fjárborgar, líkt og Stóri-Skjólgarður ofan við Innri-Njarðvík og krossskjólgarðurinn við Borgarkot. Aukin heldur, vegna þess að hann hefur verið í alfaraleið millum kaupstaðarins á Básendum og Keflavíkurbæjarins fyrrum, hefur garðurinn verið kærkomið skjól fyrir fólk á þeirr leið því óvíða er berangurinn meiri og skjólleysið augljósara en einmitt þarna. Augljóst var af ummerkjum að dæma, að þarna hefðu og aðrir haft eitthvert skjól, þ.e. Verndararnir í Heiðinni.
Frábært veður. Gangan tók 40 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stafnes – Ari Gíslason skráði.
-Jón Ben Guðjónsson, Austur-Stafnesi.

Skjólgarður

 

Básendar

Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.

Básendar

Kengur á Básendum.

Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.

Kistugerði

Letursteinninn við Kistugerði.

Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að “Hallgrímshellunni” með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.

Stafnes

Á Stafnesi.

Básendar

Í Faxa árið 1948 eru skrif séra Jóns Thorarensens um “Bátsenda“:

“Bátsendar hjá Stafnesi eiga sér einkennilega sögu. Þeir hafa eflaust á fyrri öldum verið notaðir til útróðra, en nafnkunnastir voru þeir fyrir hina dönsku einokunarverzlun, sem rekin var þar í þrjár aldir, frá 1484—1799.

Fyrst er getið um enska kaupmenn á Bátsendum. Árið 1484 gerði fulltrúi Danakonungs upptækt skip og vörur af Englendingum á Bátsendum, en þeir vildu hafa íriðsamlega verzlun við Íslendinga.

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

Árið 1491 sló í harða brýnu á milli Englendinga og Þjóðverja útaf Bátsendum, og 1506 eru Englendingar þar í friði með verzlun sína samkvæmt leyfi, er Þorvarður lögmaður Erlendsson í Selvogi gaf þeim.

En 1518 var friðurinn úti milli Þjóðverja og Englendinga út af Bátsendum, Grindavík og Hafnarfirði, og varð bardagi loks milli þeirra í Hafnarfirði, sem endaði með því að Þjóðverjar héldu velli og náðu þessum verzlunarstöðum af Englendingum. Eftir þennan bardaga voru Þjóðverjar öllu ráðandi á Bátsendum, og þegar þýzka útgerðin var mest, höfðu Þjóðverjar þar syðra 45 fiskiskip.

En Kristján þriðji lét gera einn eldhúsdag að þessu öllu og ræna öllum skipum af Þjóðverjum 1543, og 20 árum síðar rændi konungur eða sló eign sinni á allar útvegsjarðir kringum Bátsenda, og öllum afla var upp frá því í tvær aldir rúmlega skipað að Bátsendum, í sjóð konungs. En þrátt fyrir það, að Danir rændu hinum þýsku skipum tókst þeim seint að ná Bátsendum frá Þjóðverjum, því um miðja 16. öld höfðu þeir tuttugu skip þar syðra, en Danir einungis tvö.
Árið 1548 ætlaði danskt skip að sigla inn til Bátsenda, en þýzkt skip var þar fyrir, og flæmdu þeir það danska burt.

Bátsendar

Bátsendar 1083. Garðar fremst. Fjærst má sjá tóft torfbæjarins.

Árið 1640 byrja svo Danir einokunarverzlun sína með fullum krafti á Bátsendum, og þar varð aðalverzlun danska valdsins á þessum slóðum, þar til sjórinn batt enda á allt saman þann 9. jan. 1799, en þá gekk fárviðri með stórflóðum um aJlt Suðuriand, og eyðilögðust þá nótt 187 skip á Suðurlandi. Kirkjan á Hvalsnesi fauk, og skemmdir urðu miklar víðar. Á Eyrarbakka týndust 9 nautgripir, 63 hross og 58 kindur. Seltjarnarnes varð að eyju í flóðinu svo ekki varð komizt tíl Reykjavíkur. Og á Bátsendum eyðilagðist allt. Allur kaupstaðurinn eyðilagðist, en kona ein drukknaði.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726. Keflavíkurhöfn ofar.

Þær byggingar, sem eyðilögðust voru þessar. Sölubúðin; íbúðarhús danska kaupmannsins; lýsisbúðin; lifrarbræðslan; íslenzkur torfbær, sem var 5 kofar litlir og urðu þeir allir ein grjóthrúga eftir flóðið; stórt vöruhús, og svo hrundu að mestu vörugeyrnsla, lítið fjós, hlaða og skemma, auk þesss tapaði kaupmaður 6 manna fari, 4ra manna fari, 2ja manna fari og norskri skektu. Sjórinn komst 164 faðma upp fyrir efsta húsið á Bátsendum.

Hinrik Hansen hét síðasti kaupmaðurinn á Bátsendum. Hann segir frá því í skýrslu, sem hann gaf, að um nóttina, aðfaranótt þess 9. jan., hafi hann, kona hans, 4 börn og vinnukona vaknað við það að brakaði í öllu verzlunarhúsnu, og skellir heyrðust eins og grjóti væri kastað á húsið, og þegar hann fór á fætur og lauk upp útidyrum, brauzt sjór inn á þau með afli og fyllti öll herbergi. Flýðu þau þá upp á loft og hírðust þar til kl. 7 um morguninn, að þau brutu þakgluggann og óðu upp að fjósinu, sem hærra stóð. Óðu þau í gegn um borðvið, planka, búsáhöld og vörur, sem allt flaut þar í einum graut. En þegar þau komu að fjósinu hrundi það litlu síðar, þá flýðu þau til hlöðunnar, en um líkt leyti sópaðist þakið af henni. Þá lagði þetta fólk af stað hálf nakið í roki og kulda í áttina heim að Loddu sem var næsta hjáleiga, og komst það þangað eftir mestu þrautir.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Gömul kona, er var í íslenzka torfbænum á Bátsendum fórst í flóðinu.

Hinrik Hansen var kaupmaður á Bátsendum frá 1788 og til þess síðasta. Hann kom ungur til Íslands, 16 ára, og eignaðist íslenzka konu. Hann átti íbúðarhús á Bátsendum, sem eg hefi minnst á og bjó þar allt árið, hann var orðinn efnaður maður, en missti aleigu sína á einni nóttu og allt óvátryggt eins og geta má nærri. Bar hann sig upp við kóng, en fékk bæði sein og vond svör.

Hinrik Hansen dó í Keflavík 11. okt. 1802, 53 ára gamall, og var jarðsunginn að Útskálum 18. s.m. Þó að Hinrik Hansen væri danskur einokunarkaupmaður, þá hafði hann það það fram yfir aðra starfsbræður sína, sem fyrr höfðu verið þar, að hann kvæntist íslenzkri konu, og var á Bátsendum allt árið, en danskir kaupmenn voru oft vanir að fara á haustin til Danmerkur og loka verzlunarhúsunum og láta sér á sama standa, þó að Íslendingar yrðu að svelta heilu hungri á vetrum.

Básendar

Básendar 1983. Stafnesbærinn fjærst. Garður við Kaupmannshúsið.

Það er ekki að ástæðulausu, þó að einkennilegar tilfinningar vakni hjá mönnum, er þeir koma suður fyrir Stafnes, þar sem Bátsendakaupstaðurinn stóð.

Fyrir 148 árum var þar kaupstaður, sem sopaðist burtu á einni nóttu. Eg held, að enginn blettur á Íslandi eigi sér jafn einkennilega sögu. Þar sem nú eru berar klappir og brimbarðir hnullungar, þar á sama stað var einu sinni líf og fjör og fjögur tungumál: íslenzka, danska, enska og þýzka, hafa verið töluð þar fyrr á tímum. Mörg verzlunarhús voru þar og útvegsbændur komu í stórum hópum að leggja inn fisk sinn og taka út. Ungar og fallegar heimasætur að kaupa sér silkiefni í skrauttreyjur við upphluti og skautbúning.

Básendar

Básendar – Brennitorfuvík.

Karlarnir drukku þar brennivín bjartar jónsmessunætur og báru saman hjá hver öðrum vertíðaraflann, og hresstu sig eftir fiskflutningana og uppskipunina. Þangað kom líka oft maður einn, sem var stór, þrekinn og kraftalegur, með stórgert og svipmikið andlit, svartur á brún og brá og bað um úttekt. Þetta var sóknarpresturinn á Hvalsnesi, Hallgrímur Pétursson. En það var hvorttveggja, að hann gat ekki stært sig af búskap og af því að leggja miklar afurðir inn, og svo var líka hitt, að sýslumaðurinn á Stafnesi var óvinur hans, sem spillti fyrir honum á Bátsendum, svo hann hefur eflaust oft farið þaðan með þungum hug. Þess vegna sagði hann:
Mannleg aðstoð er misjafnt trygg
margir fá slíkt að reyna,
trúskaparlundin laus og stygg
leið gengur eigi beina.
Veltur á ýmsa hlið um hrygg
hamingjulánið eina.

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Já, það mátti segja, á Bátsendum, þar valt hamingjan oft um hrygg fyrir Íslendingum. En í frægustu bók heimsins standa þessi orð: Þeir síðustu munu verða fyrstir. Suðurnesin, sem áður voru heimkynni einokunar og kúgunar, hafa orðið fyrir gjörbreytingu og endurreisn. Frá þeim streymir nú árlega ógrynni auðs í þjóðarbúið, og flestir aðrir landshlutar munu hverfa í skugga þeirra stórfelldu mannvirkja og framkvæmda í sambandi við atvinnulífið, sem þar verða að veruleika á komandi tímum.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Bátsendar – séra Jón Thorarensen, bls. 3-4.

Básendar

Frá Básendum.

Stafnes

Fríða Sigurðsson skrifaði um konungsútgerðina á Stafnesi í Faxa árið 1969:
stafnes-221“Konungsútgerðin hafði aðalbækistöð sína á Stafnesi. Þaðan var stutt á miðin. Þar var „annáluð veiðistöð”, talin bezta vetrarverstöðin á öllu landinu. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. 1742, þegar Skúli Magnússon var ráðsmaður á Hólum, komu þaðan 9 sjómenn suður á Stafnes, og enn minnir örnefnið „Norðlingabaðstofa” á þessa menn. Það var Stafnesbóndinn, Guðni Sigurðsson, sem 1749 var settur landfógeti, fyrstur allra íslenzkra manna. Hann gegndi þessu embætti, þangað til Skúli Magnússon tók við því 1750. Þá gerðist Guðni sýslumaður, og næstu 2 árin var Stafnes sýslumannssetur, en 1752 fluttist Guðni að Kirkjuvogi.
stafnes-222Tveir verzlunarstaðir voru í nánustu nánd við Stafnes: Þórshöfn, sem á 18. öld var reyndar ekki lengur notuð, og Bátsendar, sem síðan 1640 voru hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum. Þegar konungsútgerðin var lögð niður 1769, hnignaði mjög sjávarútvegi á Stafnesi.
Fljótlega fóru Refshalabæirnir, hjáleigur frá Stafnesi, í eyði. Í Stafnesi sjálfu bjó gamli bóndinn, Magnús Jónsson, til 1784, og síðan ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, sem var 73 ára gömul, þegar maður hennar dó. 1786 eru aðeins 3 menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað, 1790 jafnvel bara ein hjón. Þau tolla þar upp undir aldamót og ala á þessum árum nokkur börn, en þegar flóðið mikla brýtur húsin á Bátsendum þann 9. janúar 1799, þá fær kaupmannsfólkið frá Bátsendum í hálfan mánuð húsaskjól á Loddu, en hreiðrar þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi”.

Heimild:
-Faxi, 29. árg. 1969, 10. tbl., bls. 167.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes

Ætlunin var að ganga um bæjarkjarnana sunnan Fuglavíkur og norðan Básenda.
BirtanÝmiss örnefni á svæðinu gefa til kynna sögulega atburði fyrr á öldum, þjóðsagnakennd tákn og miklar mannvistarleifar. T.a.m. má enn sjá búsetu- og atvinnuminjar í Másbúðarhólma.
Haft var og í huga að enn eru ófundnar tvær gamlar selstöður frá Hvalsnesi, sem getið er um í Jarðabókinni 1703. Ekki er ólíklegt að þær leynist í landinu líkt og Sandgerðisselið og Bæjarskersselin hafa gert allt fram til skamms tíma.
Sigurður Eiríksson í Norðurkoti leiddi gönguna. Maðurinn sá þekkir svæðið eigi síður en sína eigin fingur.
Gangan hófst sunnan Melabergs. Eftirfarandi lýsingar eru byggðar á frásögn Magnúsar Þórarinssonar: “
Þegar gengið er með strandlengjunni frá Melabergi að Stafnesi er Markavik á ystu mörkum í norðri, sunnan við Kaðalhamra; byrjar þar Melabergsland. Almenningur heitir allstórt stykki, þar er lágur grjótkampur ofan við sjávarmálið, lágt klettabelti fyrir neðan, uppblástur ofan við kampinn á mjórri ræmu, en grasfletir þar fyrir ofan. Sunnan við Almenning tekur við alllangur og breiður sandur. Er sandur þessi niður undan bænum Melaberg og heitir Lindarsandur. Dregur hann nafn af lind þeirri, sem er þar vestan við túnið. Hún var vatnsból og talin eins konar lífslind.

Melaberg

Þetta sýnist þó vera ómerkileg hola í slétta grund og mun hafa verið talin hættuleg skepnum. Þau ummæli voru á Lindinni, að aldrei mætti fylla hana upp. Þetta var þó gjört á síðari hluta 19. aldar, og hlaut sá, er verkið vann, ógæfu nokkra. Hann hafði lokið verkinu, en var eigi genginn frá Lindinni er hann tók sjúkleika, sem varaði í nokkur ár, og fleira gekk báglega um tíma. Voru ummælin talin valda. Lindin var grafin upp aftur og hreinsuð; hefir ekki ógæfa á legið síðan. Þó Lindin sé eigi enn þá vatnsból Melabergs, er vatnið í henni hreint og tært. Hún hefir nú fengið þann umbúnað, að partur af tunnu hefir verið festur í botninn, og góður gangvegur er nú niður í holuna á einn veg. Geta kýr og aðrar skepnur gengið þangað sjálfkrafa til brynningar sér. Sunnan við Lindarsand eru háar klappir fyrst, en svo grasbakkar ofan við sjávarmál; eru bakkar þessir mjög sundur skornir af uppblæstri, enda jarðvegur sendinn og laus. Nokkur garðbrot voru hér og hvar um bakkana, líklega hlaðin fyrir löngu, skepnum til skjóls, enda heita þeir Skjólgarðsbakkar. Fyrir neðan bakkana er fjörufláki allmikill, sem heitir Skjólgarðsfjara. Sunnan við Skjólgarðsfjöru og Skjólgarðsbakka er Melabergsá.

Nesjar

Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali. Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið. Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðráttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Másbúðarhólmi

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefndarmenn að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan, en hinn slapp eftir að hafa skotið einn norðanmannana á flótta.
Fyrir sunnan Skjólgarðsbakka er nokkuð langur og breiður bás inn í landið; heitir það Melabergsá. Hún er þó ætíð þurr nema í hlákum á vetrum. Þá rann þar fram dálítill lækur af mórauðu leysingarvatni ofan úr heiðinni; gat lækurinn orðið farartálmi í svip, en sjatnaði fljótt. Suður frá Melabergsá að Nesjatúngarði eru grasflatir; heitir það Fit; hefir þar verið kúahagi Nesjamanna. Standa þar oft tjarnir á vetrum. Sunnan við ána framarlega stendur Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni. Er tangi þessi enn samfastur við land, en sjór og vindur eyðir grassverðinum frá báðum hliðum, og innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti í sjó á flóði.

Hvalsnes

Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik. Fyrir neðan og norðvestan réttina eru allháar klappir, heita þær Réttarklappir. Sunnan við Réttarklappir gengur út mjög langt rif, enda heitir það Langarif. Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu.

Í Hvalsnesi

Utan við Réttarklappir, norðan við Svartaklett, en innan við Illasker, er bás inn í fjöruna eða djúpt lón, varið fyrir brimi og öllum áttum, nema norðan; ekki hefi ég heyrt nafn á lóni þessu, en mönnum hefir dottið í hug, að þar mætti hafa lítinn vélbát, að minnsta kosti að sumri til, ef tryggilega væri umbúið að legufærum.
Langarif greinist í tvennt að utanverðu. Norðurálman fékk nafnið Castorsrif, eftir að kútter Castor strandaði þar 19. marz 1903. Stór og hár kúlumyndaður haus er fremst á rifi þessu; ber hann nafnið Castorshaus, enda strandaði skipið rétt innan við hausinn.
Fremst á syðri álmunni eru Lögréttastórar og háar klappir, sem aldrei fellur yfir, sléttar á yfirborð, en þverhníptar utan allt í kring, fallegar og áberandi tilsýndar. Þær heita Sundklettur. Sunnan við Langarif, alla leið frá Sundkletti upp að norðvestur horninu á Nesjatúni, liggur svo nefndur Langós; hann er grunnur og þornar alveg um stórstraumsfjöru. Hann var þó stundum notaður fyrir smábáta um vor og sumar, en uppsátur haft við Garðsendann, eins og það var kallað, en það var neðri endinn á túngarðinum norðan við Nesjatúnið. Sunnan við uppsátrið var allhá klöpp og út af henni lágar fjöruflysjar. Er nú komið að Másbúðarhólma.
Þó of lítið sé ég kunnugur sögu Másbúða, sýnist mér þó, að það hafi verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt, og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um Virkishúslanga tíð, stendur á gamla Másbúðalandi. —
Í manntalinu 1703 eru 11 manns á Másbúðum, en Nesjarnar og Melaberg ekki á skrá, enda allt í eyði. Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð. En landbrot hefir orðið ákaflegt þarna. Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80—100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið þar víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara. Við skulum láta jarðabókina frá 1703 lýsa því, hvernig þá var umhorfs á þessum slóðum, og taka aðeins það er máli skiptir í þessu efni.
„Maasbuder.
… heimræði árið um kring og lending góð og ganga skip ábúanda, þá honum hentar Þar gengur og eitt kongsskip, áttæringur og geta þessi skip naumlega viðhaldizt fyrir vofveiflegum og sífelldum sjávar yfirgangi, sem að bæði grandar vergögnum, húsum og skipum.
Hvalsnesvörin… Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjávar ágangi og hefir Sjórinn fyrir innan sjötíu ár brotið sig í gegn um túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo að nú stendur bærinn á umflotinni eyju og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo að nú er þar eigi fært yfir með stórstraumsflóði nema með brú, sem hún brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans, sem á fastaland þarf að sækja mestan hluta síns heys um sumar, item vatn, grasnautn alla, peningsins nytkan um sumar og þvílíka tilfæring Svo að heima við bæinn ekkert vatn er vetur né sumar nema fjöruvatn alleina, sem marg oft á vetur ekki næst fyrir Sjávarísum
… Hagar öngvir vetur né sumar nema fjaran og það, sem ábúandinn leigir af eftirskrifaðri eyðijörð …
Gömlu Nesiar…
SólskuggiGömul hjáleiga frá Másbúðum, langar stundir í eyði lögð, og þykist ábúandinn ekki fyrir utan sinn skaða mega hana aftur upp byggja vegna grasleysis.
Norður Nesiar…
Forn eyðijörð, hefir legið í auðn yfir hundrað ár. Eigandi Kirkjan á Hvalnesi, og er jörðin aldeilis yfirfallin með sandi og stórgrýti og aldeilis óbyggjandi. Þar er hvorki vatn né lending að gagni.
Melaberg…
Eyðijörð, hefir legið í auðn yfir hundrað ár. Jarðardýrleika vita menn ekki Eigandi Kongl. Majestat, og er þessi eyðijörð leigð til Másbúða, item hafa Landamenn þar torfristu fyrir utan nokkra sérdeilis afgift og svo hagabeit í sama landhaga . . .
. . . Þessi jörð [Melaberg] er aldeilis yfirfallin af sandi og grjóti, svo þar er ekkert eftir nema lítil grasnautn, sem Másbúða- og Landamenn brúka, svo sem fyrr er getið. Item brunnur góður [það hefir verið Lindin], en lending eingin. Þar með mega þeir á Löndum og Másbúðum ómögulega missa þessarar beitar; annars mundu báðar þær jarðir varla eða ekki byggjast.
Fram koma þeir, sem þykjast heyrt hafa af gömlum mönnum, að þetta Melaberg hafi til forna bóndaeign verið, og hafi Kongl. Majestat keypt jörðina at Guðmundi nokkrum; skuli svo jörðin lögð hafa verið til Landa og Másbúða ábúanda brúkunar og til þess einkanlega keypt af fyrri eigendum …“

Nýibær

Þarna hefir eyðileggingin verið í algleymingi, bæði af sjávarágangi og uppblæstri. Á 17. öld hefir Másbúðarhólmi hlutazt frá fastalandinu, en þangað til var samgróið tún á öllu því fjörusvæði, sem nú er milli lands og Hólma. En Norður-Nesjar og Melaberg í eyði og talið óbyggilegt af sandi og grjóti. En þetta hefir að mestu snúizt við og mætti um það segja hið fornkveðna: „Sitt er að jörðu hverri, samt er á öllum búið.“
Melaberg „hefir legið í auðn yfir hundrað ár“ segir jarðabók frá 1703. Það hefir þá fallið í eyði um eða fyrir 1600. Er þá ekki fjarri sanni, að það hafi legið í eyði að minnsta kosti um 250 ár, því að það er fyrst 1838 að það finnst í sóknalýsingu Hvelsnessóknar, en þá búa þar Ólafur Ólafsson og Guðrún Hermannsdóttir kona hans. Ýmsir bjuggu á Melabergi á 19. öld, en stundum var það í eyði þá. Það var talin kotjörð og ábúendur jafnan fátækir. Hefir svo verið fram að síðustu áratugum, þar til dugnaðarmenn þar búandi, fyrst Kort Elisson að nokkru og þó enn fremur Hjörtur Helgason, hafa með nútíma tækni gjört það að stórbýli, sem ber nú 10—12 nautgripi.
SjóhúsNorður-Nesjar, sem var eign Hvalsneskirkju, hafa aldrei byggzt aftur, en þó má enn sjá minnjar þeirra í hrauninu (uppblæstrinum) lítinn spöl suður og austur frá Melabergsá.
Það var sögn eldri manna fyrir 1900, að Nesjar hefðu áður staðið á túnbungu þeirri, sem nú er norðan undir, sem næst miðjum, markagarði þeim, er enn stendur og skilur Landa- og Nesjatún vestanverð. Skilst mér, að þar hafi staðið eyðibýlið „Gömlu-Nesjar“, sem var hjáleiga frá Másbúðum. Jarðabók frá 1703 segir ekki, að Gömlu-Nesjar séu „aldeilis yfirfallnar af sandi og grjóti“ eins og hún orðar það um Norður-Nesjar og Melaberg, heldur hitt, að ábúandi Másbúða vilji ekki byggja hjáleiguna vegna grasnytjanna, sem hann telji sig ekki mega missa. En hjáleigunni hefir efalaust fylgt túnskák úr Másbúðatorfunni, sem mun hafa verið allt núverandi Nesjaland með túni út að Hólma og efalaust á flesjunum norður að Langós og suður að Landa mörkum.
BrúÁrið 1758 eru Nesjar komnar í ábúð, og getur hafa verið fyrr, en bækur vantar frá því tímabili. Þar búa þá Þórður og Geirlaug Birtingsdóttir (bætt við síðar í bókina). Verður ekki meira um þau sagt, því föðurnafn bónda vantar og aldur. Sama ár búa á Másbúðum Erlendur Jónsson og Guðlaug Þóroddsdóttir með 10 manns í heimili, á ýmsum aldri. 1762 er Erlendur þessi og Guðlaug komin að Nesjum og hafa líklega flutzt þangað 1759, því þá hverfa Másbúðir úr sóknalýsingu Hvalsnesprestakalls og er aldrei getið síðar fyrr en 1849, að þar eru Jón Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir, fyrstu búendur á Másbúðum eftir 90 ára auðn. Það er auðsætt, að þegar sjórinn hafði afhólmað býlið, var forn gifta Másbúða um garð gengin. Margir voru búendur á Másbúðarhólma síðari hluta 19. aldar, allir í tómthúsi; flestir bjuggu stutt þar og stundum var Hólminn í eyði.
Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson f. í Kvíavöllum í Kirkjubólshverfi 24. ágúst 1847. Foreldrar hans voru Jón Oddsson og Guðrún Skíðadóttir, Loftssonar, hjón, búandi þar. Bústýra Jóns á Hólmanum, eins og hann var þá oftast nefndur af nágrönnum, var Guðrún Níelsdóttir f. 8. júlí 1843 í Hólmahjáleigu í Landeyjum, en var uppalin á Arnarhóli. Foreldrar hennar voru Níels Þórarinsson og Sigríður Guðmundsdóttir. Guðrún var ekkja Eyjólfs Eyjólfssonar í Norðurkoti á Miðnesi, er hún fór að búa með Jóni. Þau bjuggu á Hólmanum frá 1884 til 1895 en byggðu þá nýbýlið Akra í suðausturhorni á Landatúni, enda hét sá túnpartur Akrar, sem þau byggðu á.
LeturEinn son áttu þau Jón og Guðrún, er Guðjón heitir, hann er fæddur í Höfnum suður, en ólst upp á Hólmanum. Hann er nú (1955) 73 ára að aldri (f. 10. 3. 1882) búsettur í Reykjavík, elzti starfandi sjómaður þessa lands og var af því tilefni heiðraður nýliðinn sjómannadag. Guðjón einn er enn á lífi af öllum þeim fjölda manna, sem átt hafa heimili á Másbúðum.
Másbúðarhólmi er einn samfelldur klettur, að mestu þverhníptur utan, nema nyrðri hluti austurhliðar, þar er malarhalli. Lengd Hólmans frá norðri til suðurs mun vera 80—100 faðmar, en breidd 30—40 faðmar. Bærinn stóð á miðjum Hólmanum, þar sem hann er hæstur, en að öðru leyti ekki hærri yfir sjávarmál á stórstraumsflóði en svo, að í óvenju-háflæðum með foráttu brimi og útsunnan fárviðri gengu sogin yfir allan Hólmann og fossuðu niður að innanverðu, en sjórokið buldi á þekju baðstofunnar, svo að full ástæða var til að óttast að allt riði niður þá og þegar, enda var þá flúið á land undir næstu nótt. Þó hefir flóð aldrei alveg grandað bænum, svo vitað sé.
MásbúðarvörVarla verða nú séðar minnjar eftir forna útgerð á Másbúðum. Þó er vik eitt inn í klappirnar, nefnt Gamla-Vör eða Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót, en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar — 16 hundruð og eitthvað —. Guðjón, sá er áður var nefndur, segist eitt sinn, rétt eftir 1890, hafa tekið sér fyrir hendur að róta upp í gömlum öskuhaug, sem var þar í námunda við bæ-inn, og fann þar heilmikið af brotnum krítpípum, en þær voru talsvert notaðar af reykingamönnum fyrrum, þær voru sélegar og ódýrar, en brothættar mjög. Einnig fann hann þar gamalt signet, en man ekki stafina; svo fór það í glatkistuna.
Nesjabóndinn, Guðmundur Lafransson, fékk nokkrar heysátur af Hólmanum frá því hann kom þangað 1882, en það fór árlega minnkandi, því sjórinn brenndi holur í grunnan grassvörðinn á klöppinni, og um aldamót var hætt að nytja Hólmann.
Svo er að skilja á jarðabók 1703, að þar hafi eigi annað vatn verið en fjöruvatn. Brunnhola var þó til á síðustu árum byggðar þar, en vatnið varla nothæft vegna seltu; fjöruvatn rann þá enn með lágsjávuðu undan klöppunum, en reyndist eigi heldur gott. Varð því oftast að sækja vatn heim í Nesjabrunn.
Í HvalsnesfjöruÞað var sögn gamalla manna, er mundu þá tíma, að Sigurður. B. Sívertsen, merkisprestur á Útskálum, hafi um og eftir miðbik 19. aldar, gert út áttæring á Másbúðum fyrri part vetrarvertíðar, en tók skipið heim er netjavertíð byrjaði í Garðsjó. Hér var til systur að sækja um uppsátrið, en madama Helga Brynjólfsdóttir átti séra Jón Steingrímsson, sem fluttist að Nesjum, er hann hætti prestskap í Hruna (d. 1851). Madama Helga bjó í Nesjum fram yfir 1880, að hún fór til Þórunnar systur sinnar í Kirkjuvogi og dó þar 1882.
Fram um 1890 voru tveir smáir grashólmar eftir milli lands og Hólma, en eyddust þá óðfluga og voru algjörlega horfnir fyrir aldamót. Tvennar, fremur smáar klappir stóðu þá upp úr á venjulegu flóði og milli þeirra lá gangbrúin í þrennu lagi, hin fyrsta frá landi út í næstu klöpp, önnur milli klappanna, og hin þriðja út í Hólmann og var sú lengst. Ekki var brúin í beinni línu, því klappirnar stóðust ekki á, og lengdi það vöðulinn, en hægara var um stefnuna, þegar klappirnar voru upp úr. Gangbrýrnar voru endurbættar á hverri vertíðarbyrjun. Þær voru allþykkar, en máttu ekki vera háar, þá braut brimið þær niður og ruglaði hleðslunni, því straumþungur sogadráttur er í brimi milli lands og Hólma. Þetta var skipgönguleið Nesjamanna, meðan uppsátur var á Másbúðarhólma, svo ill sem hún var, einkum í stórstrauma; þá var skipgangan á flóði kvölds og morgna. Þegar illt var fyrir dýptar sakir, vóðu stundum tveir saman, studdu hvor annan og fundu þá betur fótum sínum festu á þessum óslétta grjóthrygg undir djúpu vatni, en hyldýpi báðum megin.

Útihús

Aldrei mun þó hafa orðið slys af þessu, og má nærri furðulegt heita, að enginn skyldi ganga út af í illviðri og dimmum, svo óþægilegt sem þetta var. Bátar voru að vísu í Hólmanum og annars oftast við hólinn í túninu fyrir ofan kampinn, en til þeirra var aðeins gripið, þegar sogadráttur var, því þá var með öllu óvætt, einkum á yzta partinum.
Másbúðarsund er Keilir um Másbúðarvörðu, og ber þau mið í sem næst miðjan Sundklett, sem er þá undirmið, ef Keilir er dulinn. Norðan við Másbúðarsund eru Skjálfandar ; þeir eru á grynningahryggnum, stórir og miklir boðar, en hjaðna snögglega þegar dýpkar, niður í Álinn. Sunnan við Másbúðarsund er Flagan, stór boði, sem byrjar djúpt að falla, en er ekki uppi jafn snemma og Skjálfandar. Meðan brim er ekki stórkostlegt hjaðnar hún niður nokkuð frá landi, en í foráttu veður hún alla leið í land, upp á Landafjöruna.
HvalsnesFlest skip, sem voru í Hvalsnespollum eða Stafnesdjúpi og áttu heima norðar en í Hvalsneshverfi, fóru inn Másbúðarsund og svo norður Álinn, Virkisvörðu um Moshús. Þau, sem áttu lendingu fyrir norðan Eyri, fóru Eyrarsundin, oftast Músasund.
Nesjaskipið, sem hafði uppsátur á Másbúðarhólma, fór Másbúðarsund. Er það kom inn úr sundinu, sveigði það suður á við, þar til Nesjabærinn eins og sat á Hólmataglinu (suðurendinn); var það miðið á ósnum, milli tveggja hnöttóttra skerja, sem kölluð voru Suður- og Norðuróssker. Rétt utan við ósinn er þarahvirfill, sem brýtur á, ef brim er að ráði; verður að fara fyrir norðan hann og róa inn undir honum á ósmiðin. Einnig er á ósnum sjálfum skakkstreymi eitthvert, og verður að halda sig sem næst suðurskerinu. Kunnugustu menn hafa komizt í kröggur við norðurskerið, svo mjög sækir þangað, ef ekki eru vakandi gætur á hafðar.
Allstór pollur er fyrir innan ósskerin, djúpur og hreinn, varinn smáskerjum allt í kring. Ætíð flýtur upp í vör, og gott er þar á land að leggja, hreinar klappir og möl. En lá var þar talsverð um flóðið, ef brim var. Það kom fyrir, ef þó var talinn fær sjór, að skipið var sett inn af Hólmanum og róið út sunnan við taglið, því nóg var dýpi um flóðið. Sömu aðferð varð einnig að hafa, þegar að var komið, ef lá var til baga.
Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Það var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.

Nesjabændur höfðu útgerð sína á Másbúðarhólma til 1903, en þá þótti eigi lengur unnt að hafa þar útgerð, vegna óþægindanna við skipgönguna um flóð. Var þá gjört uppsátur í Réttarvikinu, sem áður er nefnt. Í staðinn fyrir að áður var vikið suður af sundinu, þegar lent var á Hólmanum, var nú vikið af Másbúðarsundi norður á Alinn og róið upp fyrir norðan Sundklett, Castorshaus, Illasker og Svartaklett að Réttarklöppum og fiskinum þar kastað á land. Nokkur sjávarhús voru byggð þar. En þetta stóð ekki nema fáein ár; um eða eftir 1920 lagðist útgerð í Nesjum niður fyrir fullt og allt.
SjóbúðRúm 50 ár eru síðan lauk útgerð á Másbúðarhólma. Hefir brimið glingrað við gangbrautirnar síðan, án nokkurs viðnáms af mannanna hendi, enda svo eyddar orðnar, að aðeins má sjá, hvar þær hafa verið. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt. Kampurinn fyrir ofan er að hlaðast upp og færast upp á túnið og hefir þegar hvolft sér nokkra faðma inn yfir háan túnbakkann, sem allur var grasi gróinn um aldamót. — En Másbúðarhólmi er harður í haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.”
Magnús Þórarinsson segir í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi“, frá Hvalsnesströndinni: “Í mjóu fjörunni utan við Busthúsalón er dálítið sker ílangt, mætti eiginlega kallast rif. Það snýr til austurs og vesturs eða að og frá landi. Það er nokkuð hærra en fjaran í kring, fer varla í kaf á smástraumsflóði og þess vegna þanglaust ofan. Er malarhryggur efst, rásir eru báðum megin, og er þarna mikil flæðihætta. Sker þetta heitir Barnhólmi. Tökum eftir nafninu, ílangt sker í fremstu fjöru heitir hvorki rif eða sker, heldur Hólmi. Þarna hefir auðvitað verið grashólmi, þó enginn viti nú, hvenær hann eyddist að fullu. Barnhólmi er ekki heldur ýkjalangt fyrir utan Busthúsahólmann stóra, sem nú er að eyðast. Nafnið bendir líka til einhvers í sambandi við barn, enda talið að barn hafi farizt þar, en enginn mun vita það með vissu. Hitt er víst, að um miðjan Barnhólma eru fjörumerki milli Busthúsa og Hvalsness.
Við suðvesturhorn Nýlendutúns (sem er sunnan við Busthúsatún) byrjar Hvalsnestangi, það er dálítið landsvæði sjávarmegin við byggðina. Skiptast þar á tjarnir og þýfðir móar. Þar er kúabeit, einnig hesta og sauðfjár að nokkru. Brattur malarkampur er umhverfis allan tangann, bæði norðan og vestan. Gengur kampurinn í sljótt horn, er skagar til norðvesturs. Norðan undir kampinum er lág þangfjara allt norður að Barnhólma, en vestan við kamphornið eru Skollaklettar, hár strýtumyndaður stór klettabálkur, rétt um flæðarmál. Skollaklettar eru ljótir, draugslegir og óhugnanlegir. Þegar lagt er saman svipur og nafn klettanna, koma forynjur í undirvitundina. Sunnan við þá er Skollaklettavik, en norðvestan við þá eru Strandklappir. Það er langur og allhár fjörubálkur, þverhníptur fremst. Suðvestan í Strandklöppum er Strandklappavik, er ætíð hvítur sandur í viki þessu.
Ærhólmar

Framan við strandklappir er hnöttótt sker, hátt, bert og einstakt; heitir það Æðarflös. Róa má opnum bát milli Klappar og Flasar í brimlausu. Rif eða lágur grandi liggur frá Strandklapparviki út að Æðarflös; heitir það Sölvarif. Flúðir eru margar kringum Æðarflös, vaxnar þönglum og þaraskógi; heita þær Strandklappaflúðir. Norðaustan við Strandklappir er bogadregin vík utan við fjöruna; heitir það Strandklapparvík. Sunnan við Skollaklettavik er Moshúsafjara, suðvestan í Hvalsnestanga. Sunnan til í fjörunni er nokkuð breið vík, sem heitir Fúla, en hár og brattur kampur er fyrir ofan. Fram af Fúlu er sker, oftast umflotið. Það heitir Bleikálusker. Sunnan við Fúlu eru í flæðarmáli svo nefndar Fúluklappir. Sunnan við klappir þessar er gömul lending, sem kölluð er Stokkavör. Enginn veit, frá hvaða tíma hún er, en hefir verið mikið notuð. Það sýna hin greinilegu kjölför, sem enn eru glögg í klöppum þar. Á síðari árum var þó stundum fiski kastað af í Stokkavör, því þar var hægari uppburður en í bratta kampinum í réttu vörinni. Einnig mun stórskipin hafa verið sett í hróf að vertíðarlokum upp úr Stokkavör; það var hægari setning þar. Fast sunnan við Stokkavör eru háar og miklar klappir, sem heita Stóru-Klappir. Fram af klöppunum er fjörutangi, sem tilheyrir Smiðshúsum, en sunnan við Stóru-Klappir er lending Hvalsnesinga. Sunnan við lendinguna er einnig Smiðshúsafjara á smáparti. Suður frá gamla Gerðakoti liggur hár og mikill stór malarkampur á dálitlum spotta. Fyrir ofan kampinn er nokkuð stór ílöng tjörn, heitir hún Hrossatjörn.

Hólakotsbót

Fyrir neðan kampinn er Gerðakotsfjara. Sunnan við hana er Nýjabæjarfjara. Fram af henni sunnan til er Hásteinn, það virðist vera einn stór klettur fremst á löngu rifi, sem heitir Hásteinsrif. Er rif þetta fjörumerki milli Nýjabæjar og Nýlendu. Hásteinn er góðan spöl fyrir utan allar aðrar fjörur á þessu svæði og svo hár, að á hann sést með hálfföllnum sjó. Allt í kring um hann eru þarahvirflar, sem mjög brýtur á í brimi. Sunnan við Nýjabæjarfjöru er Markaklöpp í flæðarmáli, og sker er þar fram af Nýjabæjarfjöru, sem heitir Miðsker. Sunnan við Markaklöpp eru Litlu-Skollaklettar, utan við flæðarmál, svartir og þanglausir. Lítið eitt sunnar er gamalt byrgi á bakkanum, kallað Nýlendustekkur; þar fram af átti Nýlenda reka og þangfjörur. Vík nokkur er þar fyrir sunnan, kölluð Ásuvík. Fékk hún nafnið, er kútter Ása strandaði þar 9. október 1919. Er þá komið að Ærhólmum, sem eru þrír grasi grónir höfðar í röð frá norðri til suðurs. Heita þeir Nyrzti-, Mið- og Syðsti Ærhólmi; er hinn síðast nefndi laus við land, en hinir samgrónir bakkanum. Illasker er fram af Ærhólmum, mjög hættulegt flæðisker.
Sunnan við Stafnesskerið er Mjósund. Frá Gerðakotskampi, sem er fyrir neðan Hrossatjörn, alla leið að Stafneshverfi, eru grasbakkar ofan við sjávarmálið. Þó hefir sjórinn borið nokkuð af grjóti upp á bakkana. Frá bökkunum upp að hrauninu (uppblæstrinum) er allbreið valllendisræma, smáþýfð á pörtum. Heitir það Móar.
Hár hóll, strýtumyndaður, er í Smiðshúsatúni, aðeins til vinstri handar, þegar gengin er sjávargatan frá Hvalsnesi niður að naustum þar. Heitir hann Virkishóll. Á hólnum er allmikil grjótvarða, kölluð Virkisvarða. Í vörðuna er festur staur og efst á honum er myndarlegur þríhyrningur af tré. Annað merki af sömu gerð er á kampinum norðan við naustin. Þetta eru sundmerkin á Hvalsnessundi. Norðan við sundið er stór boði, sem heitir Bleikála, hann fellur til austurs, heldur frá sundinu og gengur upp á Moshúsafjöruna (Bleikálusker). Sunnan við sundið er brimsvaði mikill á sífelldum þarahvirflum kringum Hástein, sem áður var nefndur, og er þessi brimsvaði samfelldur um alla Hólakotsbót (Bótarboðar. En sá boði, sem næst gengur sundinu, heitir Þyrill.
Sundið var oftast tekið á miðinu Valahnjúkar, þó stundum utar, og því haldið eftir áður greindum merkjum, þar til Heiðarvörðu (fyrir ofan Hólakot, nú horfið) ber í vörðubrot á nyrzta Ærhólma. Er þá haldið á bæinn Gerðakot (nú horfið) og því haldið, þar til kirkjuna ber í syðsta sjávarhúsið fyrir ofan vörina. Er sú stefna beint á lendinguna. Þessi leið virðist vera hrein; þó er eitt að varast. Suður úr fjörutanganum, sem gengur fram af Stóru-Klöppum, er grynnsli, en austan við þetta grynnsli og aðeins lengra úti í lóninu er flúð, sem kemur upp úr um stórstraumsfjöru, hún heitir Vatnasker. Varast verður að fara nokkuð norður af merkjum vegna þessara grynninga, ef lágsjávað er.
GrundTvær eru lendingar þarna og voru báðar notaðar á vetrarvertíð. Í Hvalsnesvör lentu skipin frá Busthúsum, Nýlendu, Moshúsum, Nýjabæ og Hvalsnesi. Vörin hefir einhvern tíma verið rudd inn í stórgrýtisurð, sunnan og innan við Stóru-Klappir. Mjög er þar bratt upp að setja, og var oftast bundið fram af skipunum, þegar þau stóðu neðan í kampinum, því þau gátu vegna brattans runnið sjálf til sjávar við minnstu hreyfingu. Væri von veðurbreytinga, voru þau sett upp á flórinn við sjávarhúsin.
Í svonefndu Gerðakotsviki lentu skipin frá Gerðakoti (og Landlyst, þegar útgerð var þar). Vik þetta er nokkrum föðmum sunnar en aðalvörin og beint upp af lóninu, sem er fyrir framan lendingarnar. Þar var lent í malarkampi, og skipin sett þar upp, en færð í skjól við sjávarhúsin, ef hætta vofði yfir af  háflæði.”
SigurðurSigurður gekk um og nefndi einstakar tóftir með nafni, s.s. Garðhús, Tjörn, Hlið, Smiðshús, Moshús, Nýjabæ og Gerðakot. Sunnar eru tóftir Móabæjanna.”
Um Stafnes segir Magnús í lýsingum sínum: “S
yðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: “Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker. Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í StafnesStafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.
Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.
StafnesVíkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.
Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.
StafnesvörSpöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót.
Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“, og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik, sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“
StafnesvitiMá nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson.  Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús (44a), sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.
Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi.

Stafnes

Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi. Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin. Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –

Sjóbúð

Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.
Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin. Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.
Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur.

Stafnes

Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.
StafnesströndEins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.
Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann.

Varða

Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum. Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.
RefagildraHvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.

Þá var upplandið skoðað m.t.t. hugsanlegra selja. Við þá skoðun fannst fallega hlaðin refagildra.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Melaberg, Nesjar, Hvalsnes og Stafnes
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 131-133.

Stafnessól

 

Stafnes

Eftirfarandi frásögn séra Gísla Brynjólfssonar um “Básendaför á björtum degi” birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1978:

Miðnesið fyrr og nú
Basendar-220“Þennan dag er hópur á ferð um Suðurnes, eða þann hluta þeirra, sem áður hét Rosmhvalneshreppur (rosmhvalur = rostungur) og náði yfir Keflavík, Leiru, Garð og Miðnes. Miðnesið er geysilangt — ekki veit ég hvað margir km. Það byrjar með bæjunum Kolbeinsstöðum og Hafurbjarnarstöðum fyrir sunnan Skaga og nær alla leið suður að Ósabotnum, sem skilur Nesið frá Höfnunum. Í gamla daga var byggðin dreifð um alla þessa löngu strandlengju, að vísu nokkuð svo í hverfum. Sá stórfróði Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson (f. 1879 d. 1964) sem var alveg einstæður sérfræðingur í Miðnesinu bæði til lands og sjávar, telur upp a.m.k. 9 útróðrastaði (varir) á Nesinu. — Langbestur þeirra var Sandgerði enda fór það svo, að Sandgerði dró til sín s.a.s. alla miðnesinga. Og raunar langtum fleira fólk, því að nú er þar saman komið hátt í 1000 manns, blómleg byggð fallegra einbýlishúsa, sem fjólgar óðfluga, en hin gamla dreifða byggð um Miðnesið endilangt er nú ekki nema svipur hjá sjón. En sú var ekki meiningin, að fara að fjölyrða um vaxtarbrodd útgerðarstaðanna á Suðurnesjum. Hér er ekki nútíðin — því síður framtíðin — á dagskrá. Fjarri fer því.

Fyrir tveim öldum
Basendar-223Hér skal litið um öxl — a.m.k. tvær aldir aftur í tímann — og litast um á björtum degi þeim slóðum þar sem allt fór í auðn árið fyrir aldamótin 1800. Og hefur ekki verið byggð síðan. Þetta eru Básendar fyrir eina tíð syðsta byggðin á Miðnesi en tók af í flóðinu mikla, sem við plássið er kennt — Básendaflóðið — aðfaranótt 9. janúar 1799. — Ekki eru Básendar kunnir fyrir útræði heldur sem pláss þar sem „útnesjafólkið fátækt og spakt” varð að leggja inn fiskinn sinn hversu léttur, sem hann reyndist, því að reizlan var bogið og lóðið var lakt eins og Grímur kvað í sínu kunna kvæði.
Bærinn Básendar var byggður í Stafneslandi upþhaflega hvenær skal ekki sagt. Þar var ekki mikið um fiskirí enda var Stafnes sjálft frá fornri tíð eitthvert besta útver og þaðan skemmst í fiskileit á öllu Miðnesi. Frá Stafnesi gengu líka konungsbátarnir. Hefur það eflaust verið nokkur hagur fyrir verzlunina að vera í næsta nágrenni við útgerð þeirra. Bæði enskir og þýskir hafa verzlað á Básendum fyrr á öldum. Gekk á ýmsu í viðskiptum þeirra þar eins og víðar við Faxaflóa og á Suðurnesjum. Eitt sinn (árið 1645) kom hollenskt skip á Básenda. Á því var íslenskur maður, Einar Þórðarson, — og verzlaði þar.

Verzlunarsvæðið
Basendar-224Árið 1640 var tekin upp sigling til Básenda eftir nokkurt hlé. Hélst svo, þar til verslun lagðist þar alveg niður. Verslunarsvæðið var Hafnir og Miðnes. Þó voru merkin ekki gleggri en svo, að mikil deila og málaferli urðu milli Básenda og Keflavíkurkaupmanns um nyrstu bæina á Miðnesi (Kirkjuból, Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði). Höfðu bæir þessi sótt verslun ýmist til Keflavíkur eða Básenda. Gekk dómur í málinu 1693 á þá leið, að svo skyldi standa, sem verið hefði aö undanförnu. — Voru menn því litlu nær. Þetta kom þó ekki að sök þegar sami kaupmaðurinn verzlaði á báðum stöðunum. Þá ber þess að geta, að Grindavík var a.m.k. annað veifið einskonar útibú frá Básendum. Fengu Grindvíkingar styrk til að flytja afurðir sínar til Básenda og úttektina heim. Samt var Básendaverzlunarsvæði fámennt og innleggið misjafnt. Það fór vitanlega eftir því, hvernig fiskaðist. Básendar voru dæmigerð fiskihöfn mótsett sláturhöfn, þar sem sveitabændur voru aðalviðskiptamennirnir.

Fámennur staður
Basendar-225Básendar voru því fámennur staður. Þar var lítið um að vera nema í kauptíðinni, sem stóð misjafnlega lengi fram eftir sumri eftir því hvenær kaupmanni þóknaðist að læsa búðinni og hætta að höndla, ef enginn var eftirliggjarinn.

Handa mús og maur
Næst síðasti kaupmaðurinn á Básendum hét Dines Jesþersen. Þegar hann hætti, lokaði hann búðinni 16. ágúst 1787. Mundi þá engin vara fást þar fyrr en næsta vor. Bændur í Rosmhvalaneshreppi með hreppstjóra og prest í fararbroddi kærðu þetta til Skula fógeta, töldu að með þessu væri mestum hluta sveitarinnar stefnt í opinn dauðann, skepnur voru fáar sökum grasleysis s.l. sumar, afli svo rýr s.l. vertíð, að „kauðstaðarvaran hrökk ekki fyrir vorum þungbæru skuldum”. En nógar matvörur lágu lokaðar inni í kaupstaðnum engum til nota nema mús og maur. En fólkið má deyja úr hor og hungri, kónginum og föðurlandinu til skaða.
Basendar-227Engum trúði þetta fólk betur til að rétta sinn hag heldur en honum, sem yfir rummungum reiddi hátt, réttar laganna sverð. Skúli brást heldur ekki trausti þeirra. Hann rak nauðsyn hinna bágt stöddu Suðurnesjamanna við Levetzone stiftamtmann, sem úrskurðaði, að eftir nýjárið mætti sýslumaður opna Básendabúð og láta fólkið fá nauðsynjar sínar, vitanlega eftir ströngustu útlánsreglum. Þrír fræðimenn Þrír menn hafa lýst ummerkjum á Básendum síðan þar varð auðn.
Um það bil hálfri öld eftir Básendaflóð var Magnús Grímsson, síðan prestur á Mosfelli, f. 1825 d. 1860, á ferð um Reykjanes til að athuga fornminjar. Um Básenda segir sr. Magnús, að á nesinu milli voganna sjáist greinilega rústir af Básendabænum. Það hefur verið lítill bær með vör niður undan út í norður-voginn. Litlu ofar eru rústir af búðinni og vöruhúsinu, 11 faðmar á lengd og 7 á breidd. Vestan þess var stór og mikill sjóvarnargarður. Ofan við vöruhúsið var kaupmannsúsiö. Utan um það hefur verið 200 ferfaðma garður. „Allar þessar rústir sýnast hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar,… undirstöður hrundar, mjög skörðóttar.”
Basendar-229Inn í höfnina var vandratað, en legan góð. Kaupskipin munu hafa legið í syðri voginum bundin 4 eða 5 festum, „það kölluðu þeir svínbundið”. Tvo af festarboltunum sá sr. Magnús, ferkantaða járnstólpa með gati og digrum járnhring ryðbrunna mjög. Alls munu festarboltarnir hafa verið níu, 5 í fjörunni, 4 á útskerjum. Brunnur hafði verið á Básendum — djúpur og góður. Á botni hans var eikarkross og svo hver tunnan upp af annarri, svo að eigi félli saman. Nú fullur af sandi. —
Af örnefnum telur sr. Magnús þessi: Brennitorfa þar sem kaupmenn höfðu brennt út gamla árið. Nokkru sunnar er Draughóll þar sem sjómenn höfðu rótað í dys fornri án þess að finna nokkuð fémætt. Í suður frá Draughól eru klettar tveir allháir með nokkurra faðma millibili — Gálgaklettar. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn þegar þá greindi mjög á við einhverja.
Basendar-231Lýsing V.G. – Næsta lýsing á Básendum er frá 1919. Þá var þar á ferð Vigfús fræðimaður Guðmundsson, og skrifaði síðan um Básenda og Básendaflóð í 3.h. Blöndu. Er oft og víða til hennar vitnað enda V.G. viðurkenndur nákvæmur og natinn fræðimaður. V.G. segir, að enn sjáist miklar leifar mannvirkja á Básendum: Fimm sambyggðar kofatætlur þar sem bærinn stóð grunnur vöruhússins, 20 m á lengd og 12—15 m á breidd og tveir húsgrunnar aðrir, en hæst og norðaustur á hraunrimanum telur V.G. að útihúsin hafi staðið. Þá getur hann um brunninn. fullan af sandi, kálgarð 400 m2 og lítil, kringlótt fiskbirgi, þar sem fiskurinn var verkaður í skreið. —
Á þangi vaxinni klöpp, 42 m frá húsgrunninum stóra, stendur gildur járnfleinn, 30 cm hár. Hann er steyptur í klöppina með bræddu blýi. Í gati á teininum er brot af hring. Í hann voru skipin á legunni bundin. Síðan rekur V.G. verzlunarsógu Básenda, segir frá flóðinu og síðasta kaupmanninum.
Lýsing M.Þ. – Sá þriðji, sem ritað hefur um Básenda, er Magnús Þórarinsson fyrrnefndur. Hans skrif er að finna í Safnritinu: Frá Suðurnesjum — „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi.” — Magnús stráir um sig í örnefnum í krafti kunnleika síns og stálminnis. — Hann nefnir Stóra og Litla-Básendahól. Þarna er Gunnusandur, framan við hann Róklappir, Rósandur, Rósker, — fyrir utan það er skerjagarðurinn: Básendasker. Innan þeirra er ílangt lón — höfnin — með bindibolta á skerjum og klöppum í kring. Suðurtakmörk hafnarinnar eru við Arnbjarnarhólma. Þá nefnir Magnús Kuðungavík og Djúpuvík með Svartakletti. Ofan við hana eru Dauðsmannsklappir en sunnan hennar Skarfurð og Skarfurðartangi. Fram af henni er flúð, sem sjaldan kemur upp úr sjó. Hún heitir Vefja. Þar suður af er Stóísvík. í henni er klettur, nokkuð frá landi, oft alsetinn skörfum og ber nafnið Tómasarstóll. Tilefni þess er ókunnugt.

Nöfnin og náttúran
Basendar-233Þá skal láta lokið þessari þurru nafnarunu. Það getur verið næsta girnilegt til fróðleiks að reika um þessa auðu strönd og skoða myndir náttúrunnar eftir nafnaskrá hinna fróðu manna. — Hitt er allt annað en auðvelt, að setja sér fyrir sjónir mannlífið á Básendum meðan þar var annar aðal verzlunarstaður Suðurnesja. í kauptíð var þarna vitanlega mikið fjör og líf, ys og umferð, innlegg og úttekt. Og brennivínsstaup fyrir innan disk.

Búseta á Básendum
Utan kauptíðar var hér oftast aðeins fámennt heimili. Hér var hvorki búskapur né útræði í stórum stíl. Árið 1703 bjó á Básendabæ Árni Þorgilsson 47 ára með konu sinni Jódísi Magnúsd. 12 árum eldri, og dóttur þeirra Steinunni 17 ára. Þau höfðu vunnumann og vinnukonu. Hjá þeim er Árni Jónsson (60 ára) stjúpfaðir Jódísar, veikburða. Loks er Rasmus, eftirliggjari á Básendum. Þ.e. vetursetumaður til eftirlits fyrir kaupmanninn.

Basendar-235

Næstu áratugi fara ekki sögur af fólkinu á Básendum. Síðan er það að þakka sr. Sigurði Sívertsen á Útskálum, að við vitum hverjir bjuggu þar á síðari hluta 18. aldar. Hann ritaði sálnaregistur Hvalsnesþings 1758—1790 upp úr rotnum, sundurlausum blöðum. Það manntal sýnir, að á Básendum fjölgaði mikið um 1780. Þá eru þar til heimilis hátt í 20 manns: Kaupmaðurinn, Dines Jespersen, 40 ára, kona hans, 2 börn og tökubarn, pige (stofustúlka), beikir og kona hans, 2 drengir (námspiltar við verzlunarstörf) ráðsmaður, vinnumaður og vinnukona. Auk þess er þar Ingjaldur Pétursson tómthúsmaður með fólki sínu.

Básendaflóð
Basendar-239Hér verður ekki sagt frá Básendaflóðinu fræga, enda eru myrkar hamfarir náttúrunnar víðs fjarri blíðu þessa bjarta dags. En benda má þeim, sem um það vilja fræðast á frásögn Hansens kaupmanns, og birt er í fyrrnefndri grein V.G. í Blöndu. — Það er allt að því átakanlegt, að lesa um það, hvernig flóðaldan hrífur kaupmanninn, þennan „almáttuga” mann og allt hans fólk, hrekur þau stað úr stað uns þau bjargast upp á baðstofupallinn í Loddu (Lúövíksstofu), nær „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki” og var tekið þar af mestu alúð og hjartagæzku. Þannig kastaði Básendaflóðið síðustu kaupmannsfjölskyldunni á Básendum í fang eins fátæks hjáleigubónda, sem barg henni frá bráðum bana.

Ræningjarnir dönsku
Stafnes-226Þessi síðasti Básendakaupmaður — Hinrik Hansen — hefur ekki fengið neitt slæman vitnisburð í verzlunarsögunni. Það er því ekki hans sök, að yfir Básendum hvílir dökkur skuggi áþjánar og einokunar, ekki síður en öðrum selstöðuverzlunum. Þar hafa skáldin haft sitt til málanna að leggja.
Ólína Andrésdóttir segir í þulu um Geirfuglasker: Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för, en betri samt en björg að sækja í Básenda vör. Betra samt en björg að sækja Básendum að, ræningjarnir dönsku réðu þeim stað.
Og allir kannast við kvæði Gríms „Bátsenda þundarinn” um hann Tugason með bognu reizluna og laka lóðið svo „létt reynist allt sem hún vó”.
Þá kemur skörungurinn Skúli fram á sviðið og réttir hlut hins fátæka útnesjafólks: Hann skrifaði lítið og skrafaði fátt en — skörungur var hann í gerð og yfir rummungum reiddi hann hátt réttar- og laganna sverð.
Þetta er hressileg blaðsíða í Básendasögunni.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Brynjólfsson – Básendaför á björtum degi, 9. júlí 1978, bls. 6-7 og 12.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes

Í Faxa 1993 er sagt frá gamalli sögn um Stafnes undir fyrirsögninni “Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes”:

Faxi 1993“Mælt er, að til forna hafi verið 24 hjáleigur og tómthús á Stafnesstorfunni. Taldi Jón Jónsson hreppstjóri frá Fuglavík, sem síðast bjó í Glaumbæ við Stafnes, mjög glöggur maður og fróður um margt, upp 14 af hjáleigum þessum, sem nú hafa verið fjölda mörg ár í eyði, og voru þær þessar: Nes, Hólmi (tvíbýli), Sandhús, Garðar, Rif, Refshalakot, Gosa, Hattakollur, Sveinshöfði, Vallarhús, Halakot, Lodda og Þemba.
Kvaðst hann á yngri árum sínum hafa heyrt fleiri bæjamöfn nefnd, en ekki muna þau. Sum af býlum þessum voru með vissu grasbýli frá Stafnesi, en þó flest þurrabúðir. Fiskveiðar munu óvíða hafa verið stundaðar með meiri dugnaði og betri hagnaði en frá Stafnesi, enda er þaðan örskammt að sækja á fiskimiðin. Fiskur var þá almennt hertur eða þá kasaður, svo sem skata og hákarl. Var fiskurinn hertur í grjótbyrgjum, sem byggð voru hingað og þangað upp um hraun, og sést þeirra víða merki enn í dag.
Stafnes
Á Stafnesi eru nú þessi býli: Stafnes, Glaumbær, Nýlenda, Bali, Litlibær, Hólakot og Grund, og eru hér talin 21 alls, ef byggð hinna síðarnefndu býla er svo gömul sem hinna. Er þá ekki nema þremur fátt í þá tölu, sem hin forna sögusögn greinir.
Svo er sagt, að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir, og er hún skráð eftir því, sem sagði Jón fyrrum hreppstjóri í Fuglavík árið 1888, og var hann þá um áttrætt.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi, og mun bærinn þá hafa staðið, þar sem nú er kallað Urð, og er þar nú rif, sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur, þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu, er stunduðu sjómennsku og reru til fiskjar frá Nesi.

Einn dag að áliðnum vetri, er þeir voru á sjó að vanda, brimaði snögglega svo mikið, að ólendandi var talið. gerðist gamli maðurinn órór, gekk til smíðahúss og tegldi þar staf einn eða kelli, en bað vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér, hvers þær yrðu áskynja úm afdrif skipsins.
Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir, að ekki muni lengur þurfa að bíða þess, að synir hans lendi, því að þær stúlkurnar höfðu horft á þá bræður leggja í sundið, en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan; hafði honum þá þegar hvolft og hann borist upp á skerið. Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá, sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund, og þá tvær saman.
Þegar stúlkumar komu til karls, hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt, svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill, en haglega gerður og með útskurði allmiklum.

Stafnes

Stafnes.

Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið, þar sem Boðinn falli á land, segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum, sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega, þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér.
Gera þær nú, sem karl leggur fyrir, og þegar Boðinn rís hæst, tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: „Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða, sé rétt sundleið farin, og leiðið mig nú heim”.
Það fylgir sögu þessari, að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum, því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farist á sundinu, þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega.
Á þeim tímum, er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma, fórst þó eitt skip þama með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því, sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan við aðallendinguna.” – Eftir heimildum frá Vilhjálmi Kr. Hákonarsyni frá Stafnesi. – Rauskinna.

Stafnes

Stafnesviti.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923 skrifar Hannes Þorsteinsson um “Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi”, þ.á.m. Stafnes:

“Starnes (Stafnes). Stafnes í A. M. og síðan, en Starnes í fjölda fornbréfa frá 1270 og fram á 17. öld eða lengur, og vafalaust hið rétta, upphaflega nafn; er og enn nefnt svo hjá A. M. (í jarðabókinni í Rangárvallasýslu undir Nefsholt). Stiernes nefnist jörðin í Jarðab. Bockholts c. 1600 (A. M. 459 fol.), og eru það leifar af hinum gamla framburði, en Starnes beinlínis í Jb. Jens Söffrenssonar 1639 (A. M. 460 fol.). í ritgerð eptir séra Sigurð Br. Sívertsen á Útskálum er þess getið, að á þeim slóðum hafi verið stör mikil, þótt nú 8é eydd. Starnes verður því að teljast sem aðalnafn, en Stafnes sem varanafn, þótt það reyndar ætti að falla alveg burtu.”

Heimildir:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1993, Gömul sögn um Stanes – “Þú skalt Stafur heita og nesið Stafnes”, Vilhjálmur Kr. Hákonarson, Stafnesi, bls. 57.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1923, Hannes Þorsteinsson – Rannsókn og leiðréttingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi. Tileinkað minningu séra Guðmundar prófasts Helgasonar. Bls. 30.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.