Tag Archive for: Stafnes

Kirkjuvogskirkja

Gott er að hefja gönguna við vitann á Stafnesi, þar sem Reykjanesskaginn skagar lengst til vesturs. Gengið er með ströndinni til suðurs. Á þessari leið eru margir áhugaverðir staðir að skoða. Fjaran er mjög falleg með öllu sínu lífríki. Þegar gengið hefur verið um 1 km er komið fram á nokkrar tóftir í þyrpingu, þar voru Básendar, verslunar- og útgerðarstaður á 15.öld. Verslun lagðist þar af eftir mikið sjávarflóð aðfararnótt 9. janúar 1799, þá missti kaupmaðurinn á staðnum allar eigur sínar og ein kona drukknaði. Áfram er gengið með ströndinni. Gálgar nefnast tveir háir klettar um 1 km suður af Básendum örlítið ofar í heiðinni, en á milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund. Gamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir þar og ef það á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að í nágrenninu hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnesviti

Stafnesviti.

Margar víkur og vogar ganga inn í skagann á þessu svæði og þótti bátalægi þar gott fyrr á öldum. Einna þekktust er Þórshöfn, sem var einn helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún þá af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en af því varð ekki.
Næsta vík við Þórshöfn nefnist Hvalvík þar má sjá hólma úti í sjó sem nefnist Hvalvíkurhólmi.

Þegar komið er lengra inn í Ósana er komið að tóftum sem nefnast Gamli Kirkjuvogur, forn kirkjujörð sem talin er hafa farið í eyði á 16.öld, hugsanlegt er að það hafi verið landnámsjörð Herjólfs Bárðarsonar.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Mikill og djúpur vogur gengur inn í landið þegar komið er enn innar og nefnist Djúpivogur. Þegar komið er fyrir Djúpavog er gengið fyrir Seljavog sem er öllu styttri. Á milli Djúpavogs og Seljavogs má sjá virðulegann klett uppi í heiðinni sem nefnist Hestaskjól. Þegar komið er fyrir Seljavog taka við margir litlir vogar sem nefnast Stóruselhelluvogur, Litluselhelluvogur og Brunnvogur, þar sveigir gangan til vesturs í átt að Höfnum.

Hafnir
HafnirUm miðja 18.öld hófst uppgangstími í Höfnum sem stóð fram á öndverða 20.öld. Á þessu tímabili bjuggu stöndugir útvegsbændur stórbúi í Kotvogi og Kirkjuvogi, þeir ráku þar mikla útgerð stórra áraskipa og húsuðu bæi sína með þeim hætti, að ekki var reisulegra um að litast í öðrum plássum. Á þessu tímabili fjölgaði fólki stöðugt í Höfnum, og margir fluttust þangað úr öðrum byggðarlögum á Reykajnesi. En blómaskeiðið tók enda þegar að ný tækni tók að riðja sér til rúms í íslenskum sjávarútvegi. Vélbátarnir þurftu betri hafnarskilyrði og meiri þjónustu en áraskipin, en þar stóðu Hafnarmenn höllum fæti. Þess vegna dróst útgerðin saman í Höfnunum á meðan að hún efldist annarsstaðar á svæðinu, í kjölfarið fór fólki að fækka. Má segja að Hafnir hafi orðið fórnarlamb vélvæðingar.

Margt áhugavert er að skoða í Höfnum:

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

• Fornleifauppgröft, árið 2002 fundust leifar af landnámsskála á túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju. Við rannsóknir kom í ljós að þessi bústaður er frá því fyrir árið 900.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness,“ sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
• Ankeri sem stendur á túni á móts við kirkjuna en það er úr skipi sem nefndist Jamestown sem rak inn Ósabotna árið 1881 eftir að áhöfnin hafði yfirgefið það úti á Atlantshafi, skipið var álíka stórt og fótboltavöllur, skipið var þríþilfarað, fullt af eðalvið og öðrum verðmætum. Varð þessi fengur til þess að farið var að byggja timburhús í Gulbringusýslu.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

• Kirkjan í Höfnum var byggð af óðalsbóndanum í Kotvogi Vilhjálmi K. Hákonarsyni árið 1861 og er elsta kirkja á Suðurnesjum. Altaristöfluna málaði Sigurður Guðmundsson árið 1865. Kirkju á þessum stað er fyrst getið á ofanverðri 14.öld, en áður hafði kirkja verið norðan Ósabotna í Vogi (gamla Kirkjuvogi), gæti hafa verið þar fram á 16.öld.
Óhætt er að ætla sér 6-7 klst í þessa göngu.

Heimildir:
-www.sandgerdi.is ,Jón Þ. Þór, Hafnir á Reykjanesi.
-Skoðum kirkjur á Reykjanesi (bæklingur).

Kotvogur

Kotvogur í Höfnum.

Básendar

Farið var aftur á Básenda. Ljóst var að þar hlyti að vera mun meira að sjá en talið hafði verið í fyrstu. Reyna átti að leita að áletrunum er kynnu að leynast þar víða á klöppum úti í skerjum, en auk þess var litið á nokkra festarhringi og kengi í klöppum, sem nú eru í skerjum, en voru þó enn á 18. öldinni hluti af fastalandinu. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hefur áður borið fyrrnefndar áletranir augum.

Básendar

Svæðið hlýtur augljóslega að vera forvitnilegur vettvangur fornleifafræðinga því bæði á Básendum og í næsta nágrenni, Þórshöfn, er að finna áhugaverðar fornminjar, bæði áletranir og arfleið verslunarsögunar sem og einstaka þátta Íslandssögunnar. Í Þórshöfn var verslunarstaður. Þar eru áletranir frá þeim tíma og þar fyrir utan rak upp timburflutningaskipið Jamestown árið 1881.
Nefndar áletranir eru í Arnbjargarhólma. Á háhólmanum mátti bæði lesa skrifstafi og ártöl á klöppunum, en auk þess, þegar vel var leitað, mátti sjá slíkar áletranir á lausum steinum, sem virtust hafa verið á hólmanum áður fyrr, er hann var landfastur og væntanlega gróinn vel, en skolast til þegar sjórinn náði að aðskilja hann fastalandinu og leika frjálslegar um hólmann.
Í ljós kom að á einum lausa steininum stóð nafnið „BERTELANDERS“ og ártalið 1700. Á öðrum lausum steini var m.a. áletrað MVL og XX þar sem ör lá upp frá ártalinu 1590. Á klöppum mátti bæði lesa bókstafi er virtust vera upphafsstafir manna og ártöl, s.s. 1640, 1650, 1651 og 1694. Þessar áletranir á þessum stað benda til þess að þarna hafi verið athafnasvæði verslunar danskra kaupmanna, en þeir höfðu höfnina eftir 1602 út af fyrir sig. Þjóðverjar og Englendingar kepptust um hana fram yfir 1532 (Grindarvíkurstríðið) svo áletrunin Bertelanders gæti verið eftir einhvern kaupmanninn á Endunum eða hugsanlega nafn á skipi hans. Fróðlegt væri fyrir sagnfræðinga að reyna að grafa eitthvað upp um þetta.

Líklegt má telja að fleiri áletranir og ártöl kunni að leynast við Básenda er kunna að varpa ljósi á veru framangreindra á staðnum í gegnum aldirnar.
Básendar Samkvæmt gömlum uppdrætti af Básendahöfninni voru kaupskipin svínbundin (þríbundin) bæði á innri höfninni í Brennitorfuvík og á ytri höfninni. Samkvæmt teikningunni eiga að vera a.m.k. sex festahringir í klöppunum við Básenda.
Jón Ben Guðjónsson, eldri bróðirinn Stafnesbænda, sagðist hafa séð a.m.k. sjö festarkengi í og við höfnina. Sá sjöundi væri í skeri norðan við Básendatangann.
Við skoðun á vettvangi kom eftirfarandi í ljós: Þrír kengir eru í austanverðum Arnbjargarhólma. Sá syðsti er dýpstur. Í honum er hringur. Sá í miðið stendur hærra, á klöpp undir steini. Í honum er hringur. Nyrsti kengurinn er yst á skerinu. Í hann vantar hringinn.
Básendamegin, vestan við tóftirnar af verslunarstaðnum, eru tveir kengir. Annar, sá syðri er beint fyrir vestan þar sam kaupmannshúsið stóð. Sjá má grunn þess og stéttina framan við útidyrnar. Næsti grunnur er sunnar og austar. Á honum mótar einnig fyrir lítilli stétt þar sem dyrnar voru. Þriðja húsið var enn sunnar og austar. Að því liggur flóraður stígur upp frá flóruðu athafnasvæði ofan við höfnina. Hinn kengurinn er skammt norðar og mun neðar. Hann sést einungis á stórstraumsfjöru og þá helst um það leyti er flæðir frá. Í honum er hringur.
Þá er hringur úti í skeri, vestast í því, beint norður af víkinni. Í honum er hringur.
Á fyrrnefndum uppdrætti af höfninni sést vel innsiglingarleiðin; beint til suðurs vestan Básenda með stefnu á Gálga. Þegar komið var upp undir land var stefnan tekin til austurs innan skerja á Stóra Básendahól. Þá var komið inn á ytri höfnina. Beint á móti innri höfninni í Brennitorfuvíkinni er Brennitorfan. Á henni eru hleðslur þar sem sagnir kveða á um brennur þegar skyggja tók. Segja má að á hólnum hafi verið með fyrstu vitum hér á landi.

Básendar Í viðræðum við Leif Ölver Guðjónsson, yngri bóndabróðurinn á Stafnesi, kom fram að dýpið innan skerjanna er um 20-30 metrar, þó grynnst næst skerjunum. Einhverju sinni hafi verið kafað í víkinni og þá komið í ljós flök af tveimur verslunarskipum frá þeim tíma er Þjóðverjar og Englendingar nýttu höfnina. Á að hafa komið til átaka millum þeirra með þeim afleiðingum að skipum var sökkt. Liggja þau þarna á hafsbotni og mátti greina a.m.k. nokkrar fallbyssu á botninum. Sjór væri hins vegar ókyrr á þessum slóðum og umtalsverðir straumar. Þó bæri við stilltari sjór og þá væri lag að skoða þetta nánar, ef vilji væri fyrir hendi. Eitt slíkt fallstykki hefði skolað á land nokkru utar fyrir nokkrum árum og væri það nú við bæinn Nýlendu III utan við Stafnes. Tækifærið var notað í bakaleiðinni og fallstykkið skoðað. Lítið fer fyrir því þar sem það stendur við bæinn með skotstefnu til vesturs. Þarna er um greinilega fallbyssu af skipi að ræða. Á Nýlendu býr Arnbjörn Eiríksson. Hann sagði fallstykkið vera úr Jamestown, sem strandaði utan við Þórshöfn. Gripurinn hafi verið þarna heima við svo lengi sem hann myndi eftir sér, eða í 50 ár a.m.k.

Trébátsflak er ofan við Arnbjargarhólma. Að sögn Ölvers er það af bátnum Vörður ÞH er strandaði í Stóru Sandvík um 1960. Bátinn rak út þar sem hann klofnaði í tvennt. Rak annan helminginn þarna upp og sá sjórinn til þess að hann yrði þar fólki til sýnis um ókomin ár.

Básendar Ofan við Stafnes vakti athygli FERLIRsfélaga fjöldi grjóbyrgja, flest fallin. Jón Ben sagði það gömul fiskbyrgi. Þau væru sennilega þarna samtals á milli 30 og 40 talsins. Þarna hafi verið verkaður og þurrkaður fiskur Stafnesbænda um aldir. Svæðið er tiltölulega afmarkað og ætti að hafa varðveislugildi sem slíkt. Um aldamótin 1900 voru u.þ.b. 30 bæir á Stafnesi.
Aðspurður um Hallgrímshelluna svonefndu, sem FERLIRsfélagar hafa leitað að og m.a. notið ábendinga Guðmundar frá Bala á Stafnesi (sjá aðra FERLIRslýsingu), sagði Jón Ben eftirfarandi:
„Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestsklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónusta Hafnafólkið. Prestsklöpp var einnig nefnd Hallgrímshella. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli mun hafa bent einhverjum á helluna á sínum tíma. Síðan eru liðin a.m.k. 30 ár. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og „gleymst“ þar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Letursteinn

Hvalsnes

Gengið var með Jóni Ben Guðjónssyni, bónda á Stafnesi, um norðanvert Starfneshverfið. Ætlunin var m.a. að reyna að rekja gömlu kirkjugötuna millum Safnesbæjanna og Hvalsneskirkju (Hvalsneshverfis) og skoða gamlar minjar á leiðinni. Áður hafði verið gengið um vestan og sunnanvert Stafnes,sem og Básenda í Stafneslandi.
SvæðiðJón sagði að elsti bærinn á Stafnesi hafi sennilega verið þar sem nú má sjá tóftir Vallarhúsa skammt norðvestan við núverandi íbúðarhús. Gamli Stafnesbærinn (timburhús) hafi hins vegar staðið þar sem nú er bílastæði norðan við íbúðarhúsið. Vestan þess hafi verið fjós, en í það hafi verið grafið þegar mjólkurhús var byggt við nýja fjósið, sem enn stendur. Flór hafi legið til vesturs, en suðvestan við gamla bæinn hafi brunnurinn verið. Umleikis hafi verið mikill túngarður. Hann hafi legið með hæðinni að suðaustanverðu við íbúðarhúsið, yfir núverandi veg til norðurs, síðan til vesturs og aftur til suðurs vestar. Þegar Jón var að slá fyrrum hafi hann iðulega komið niður á steinaraðir úr garðinum, en nú er einungis að sjá þar sléttan grasvöll.
Við Stafnes eru víða sléttaðir grashólar í túnum. Þarna var áður fjöldinn allur af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega  verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin. Frægustu hjáleigurnar m.t.t. skráðra þjóðsagna og eftirminnilegra atburða eru Lodda, Þemba og Básendar.
Ein er til þjóðasaga um Stafnesbónda er birtist í Rauðskinnu, en hvort hún er sönn eður ei skal ósagt látið: „Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.
Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita. Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu og varð enginn annar í bænum var við atburð þennan.
Leið nú haustið. En seint á jólaföstunni var enn barið að dyrum á Stafnesi á vökunni. Tvær stúlkur voru frammi í bænum að mala korn og gengu þær til dyra. Dimmt var mjög úti, en þó sáu þær, að kona ein stóð úti fyrir. Biður hún stúlkurnar að skila til húsbóndans, að hún vilji hafa tal af honum. Þær fara inn og flytja bónda tíðindin. Segir þá húsfreyja þeim að fara í humátt á eftir bónda og vita, hvert erindi kona þessi eigi við mann sinn. Þær gera svo, en er þær koma fram að bæjardyrunum, virðist þeim allt útlit konunnar gjörbreytt orðið, og hún vera hin ferlegasta ásýndum og afmynduð af reiði. Hún virðir bónda eigi viðlits, snýr vanga að honum og segir:

Nýlendubrunnur

„Ekki þarf eg að þakka, en fleirum skal sárna en þeim, sem húðstrýktir eru,“
– og gengur því næst burt. Bóndi sneri þegar aftur til baðstofu og var þá fölur sem nár. Biður húsfreyja þá stúlkurnar að fara og ná í konu þessa og biðja hana í guðs bænum að tala við sig. Stúlkurnar fara og sjá þær hilla undir konuna norður á túninu. Þær hlaupa á eftir henni og ná henni loks og færa henni orð húsfreyju. En hún er ákaflega fasmikil, lítur ekki við þeim og segir:
„Eg hef skilað erindinu,“ – og endurtekur það.
Stúlkurnar þorðu eigi lengur að fást við hana og hlupu skelkaðar heim.
– Líður nú fram yfir jól, fram á þorra, og allt er tíðindalaust. Í þorrabyrjun gerði ógæftir miklar, útsynning og brim. Rak þá á Stafnesi tré eitt mikið. Fór húsbóndi með vinnumenn sína til að bjarga trénu frá sjó. En svo vildi til, er þeir veltu upp trénu, að annar endi þess kom dálítið við hné bónda og meiddi hann eitthvað, en eigi svo, að hann gæti ekki gengið heim. En daginn eftir klæðist bóndi ekki og liggur upp frá því rúmfastur í samfleytt 17 ár í hnémeiðsi þessu. Að því búnu komst hann á fætur aftur alheill og óhaltur. Var það ætlun manna, að kona sú, er fyrr var frá sagt, myndi hafa lagt á hann þjáningar þessar fyrir meðferðina á drengnum.“

Nýlenda

Um Þembu segir sagan m.a.: „Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.
Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna.

Þemba

Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann.
Næsta vor var þemba byggð manni einum dönskum, er vera skyldi aðstoðarmaður þeirra Básendakaupmanna. Eigi linnti drykkju og söng í Þembu, þó að Narfi væri farinn, og voru það nú Danir, sem höfðu þar drykkjusamkomur og ýmsan gleðskap. En það er frá Narfa að segja, að hann fluttist suður til Kirkjuvogs í Höfnum og dó þar snögglega eftir skamma dvöl. Var hann jarðsunginn þar. Narfi hafði átt góðhest einn steingráan, bæði fljótan og vakran. Hafði sá margan golþeysinginn farið, þegar jörð var setzt á vorum. Þennan hest hafði Narfi neyðzt til að slá af, þegar hann var hrakinn frá Þembu.
Á þrettánda dag jóla, vetur þann, er Narfi andaðist, voru Danir saman komnir í Þembu til drykkju. Þetta sama kvöld Balabrunnurbar svo við í Kirkjuvogi, að stúlka nokkur gekk út í vökulok. Úti var veður mjög skuggalegt, en þó nokkur birta af tungli, útsuðurhiminninn sundurtættur af kolsvörtum skýjabólstrum með ljósum glufum á milli og urgur mikill í sjó. Varð þá stúlkunni litið til kirkjugarðsins. Sér hún þar standa mann nokkurn, er styður sig við apalgráan hest og heyrir hann kveða vísu þessa við raust:
Þembu að eg þeysi af stað,
þar er mitt eftirlæti.
Hleypi eg dyn því hófakyn
hefi eg á fæti,
hefi eg létt á fæti.
Vindur hann sér á bak hestinum og tók sá sprettinn, en hvorki heyrði hún jódyn né sá spor hans. Varð stúlkunni óglatt við sýn þessa og hljóp inn og sagði frá því, er fyrir hana hafði borið. Nú víkur sögunni að Þembu. Þar voru, sem fyrr segir, gleðilæti mikil.

Balabrunnur

Er leið á kvöldið, urðu menn snögglega varir við, að kuldagust lagði um skálann og fylgdi því óþefur nokkur. Og er þeir litast um, sjá þeir, að ókenndur maður er kominn í hópinn. Hefur sá gripið eina brennivínsflöskuna og ber hana að vitum sér. Maður sá var bleikur sem bast, beinaber og brúnaþungur; glotti hann svo, að þeim stóð stuggur af. Rann þá nokkuð af þeim ölvíman. Varð kaupmaður fyrstur til að spyrja, hver hann væri. Svarar þá aðkomumaður:
Hér er kominn Narfi,
hann hraktir þú frá starfi.
Fölur er nú minn farfi,
falli yfir þig stjarfi.
Bregður þá svo við, að kaupmaður féll sem dauður væri á gólfið, og í sama bili sýndist þeim, er inni voru, veggurinn opnast að baki Narfa og hann hverfa þar út. Stumra þeir yfir kaupmanni, en geta ekki vakið hann af dvalanum. Var hann færður heim að Básendum og hugðu hann allir dauðan. Lá hann lengi í dái þessu, en raknaði þó um síðir við, en aldrei varð hann samur maður eftir þetta.“

Hólakotsbrunnur

Um Loddu segir sagan: „Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum höfuðból og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan til Geirfuglaskers á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnesbóndann og auk þess var Básendakaupstaðurinn í landi hans. Hétu hjáleigur þessar ýmsum nöfnum og voru sum þeirra harla einkennileg, svo sem Refshalakot, Gosa, Hattakollur, þemba og Lodda.
Hjáleiga sú, sem næst var Básendum, hét Lodda. Hét hún upphaflega Lúðvíksstofa, en síðar breyttist nafnið í Loddustofu og Loddu. Var kot þetta í byggð fram á miðja 19. öld. Loddu fylgdi grasnyt fyrrum og voru leigur goldnar með þremur vættum fiska að Básendum í reikning heimabóndans. Í fyrri daga bjó einhverju sinni í Loddu maður sá, er Bergþór hét. Var ætt hans austan úr Biskupstungum. Hann var maður með sínu lagi og hafði mikla náttúru til hafsins. Kona hans hét Þorkatla. Voru þau hjón einyrkjar, lítt fjáð, en veitul mjög og gestrisin. Var það venja bónda að bregða skjótt við, er gest bar að garði, og taka á móti þeim, er kom, í bæjardyrunum og leiða jafnskjótt til baðstofu, og var á ekkert dregið undan af því, sem ætilegt var í kotinu. Var orðtak þeirra hjóna jafnan þetta: „Lítið en ljúft er veitt í Loddu.“
GlaumbæjarhóllBergþór reri á skipi heimabóndans ýmist sem konungsmaður eða hlutamaður. Einu sinni á vertíð var það dag einn, að lengi var setið á færum í kulda, því að dráttur var sæmilegur og vilja varð vart öðru hvoru. En er á daginn leið, tók að hvessa og fengu þeir brátt hinn versta barning heim. En nokkru síðar fékk Bergþór tak mikið og lagðist í rekkju. Var það með þeim býsnum, að hann lá dauður innan þriggja nátta. Hörmuðu menn dauða hans, því að hann var greiðamaður hinn mesti og vinsæll af öllum. Hélt Þorkatla ekkja hans kotið það sem eftir var vetrar og fram að fardögum. Var svo Lodda í eyði um sumarið.
En svo bar til, þegar liðið var sumar fram yfir höfuðdag, að maður einn úr Grindavík kom síðla dags út að Básendum. Varð hann of seinn til að ná tali af kaupmönnum, og gengur því í áttina heim að Loddu og hyggst að leita þar gistingar. Sér hann þá mann standa þar í bæjardyrunum. Býst hann þá við, að menn hafi þar séð til ferða sinna, og húsbóndinn muni bíða í dyrunum til þess að leiða hann til baðstofu og veita honum húsaskjól.
Greikkar hann því sporið og er brátt kominn heim undir hlaðvarpann. Sér hann, að maður sá, er Gamla Hólakotdyra gætir, er í selskinns-vesti með silfurhnöppum og skóm með hvítum ristarþvengjum. Þá er hann kemur að bæjardyrunum, heilsar hann manni þessum, en hann tekur eigi kveðju hans, heldur snýr sér óðara við og bandar til hans hendinni að fylgja sér inn göngin til stofu, og gerir gesturinn það. Þá er þeir koma inn göngin, spyr komumaður þann, er á undan gekk, hvort hann ráði þar ekki húsum. Svaraði þá maðurinn honum með vísu þessari:
Eg bý í Loddu, ljúfurinn,
löng eru göng og steinar,
stígðu innar, stúfurinn,
stofuna enginn meinar,
dyrnar eru á dráttunum
dregnar upp á náttunum,
brátt mér einar,
brátt mér opnast einar.

Jón á Stafnesstekk

Sér þá gesturinn grjótvegginn opnast í göngunum og bónda hverfa þar inn. Greip þá gestinn slík ofsahræðsla, að hann óð út úr bænum og hljóp sem fætur toguðu heim að Stafnesi, og vakti þar fólk allt með höggum miklum. Tókst von bráðar að sefa hann svo, að hann sagði upp alla sögu. Bar þá heimamönnum saman um það, að þarna hefði Bergþór verið kominn og viljað sýna fyrri gestrisni sína. Síðar var Lodda byggð aftur og bar þá minna á reimleikum upp frá því.“
Enn eitt býlið eigi skammt frá hét Refshalakot. Um það segir sagan: „Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum mikil jörð og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan í Geirfuglasker á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnessbóndann, auk Bátsenda er einnig voru í landi hans.
Þá er Stafnes varð kóngsjörð urðu hjáleigubændurnir fyrir ýmsum kvöðum af hendi Bessastaðamanna. Urðu þeir að annast flutninga frá Bátsendakaupmönnum til Bessastaða endurgjaldslaust og fæða sig að auki.

Leifar af rétt

Ein af hjáleigum Stafnessbóndans hét Refshalakot; var þar lítilfjörleg grasnyt og afgjaldið goldið í fiski. Sagt er að eitt sinn hafi búið maður sá í Refshalakoti er Þórólfur hét. Var hann vanur og veðurglöggur formaður, harðgerr mjög og stórlyndur, ef því var að skipta. Eigi hafði hann búið lengi í Refshalakoti er úfar risu milli hans og Stafnessbóndans út af leigunum. Galt Þórólfur venjulegar leigur eftir kotið en heimabóndi sagði að fylgja ætti þurr og vel verkaður þanghestur að auki. Eigi vildi Þórólfur ganga að því.
Eitt sinn er Þórólfur var að heiman, skrapp Stafnessbóndinn heim að Refshalakoti og lét greipar sópa um þangbirgðir þær er voru í kotinu. Kom Þórólfur nokkuru síðar heim; sárnaði honum mjög tiltæki bónda en fékkst þó eigi neitt frekar um það.
Haust eitt, nokkuru eftir Mikaelsmessu, vildu Bátsendakaupmenn flytja ýmsar vörur til Bessastaða og heimtu þá sem fyrr leiguliðana í för þessa. Skyldi Þórólfur vera formaðurinn. Morgun þann, er fara átti, vaknar Þórólfur snemma; var þá andi af vestri, móða á jöklinum, og þyngsli mikil í sjó. Þótti Þórólfi illt útlit og vildi hvergi fara en þorði þó eigi annað en hlýða, sökum ofríkis og hótana kaupmanna.

Ögmundargerði

Var þá settur fram teinæringur einn mikill, er staðið hafði í naustum frá vertíðarlokum og gisnað nokkuð af sól um sumarið. Var nú borinn flutningur á skip og héldu þeir að því búnu af stað. Voru á skipi þessu margir leiguliðar Stafnessbóndans og þénarar kaupmanna. Var skipið lítt búið seglum og er inn fyrir Skaga kom, gjörði ofsarok af norðvestri, svo að þá hrakti inn allan Garðsjó og bar þá loks undir Vogastapa og týndist skipið þar með öllu. En nóttina eftir gerðust reimleikar miklir hjá kaupmönnum á Bátsendum. Voru einkum mikil brögð að því í verzlunarhúsunum og var bæði lýsi og brennivíni spillt, skreið hent víðsvegar og leirkönnur brotnar úr búðarhillum. Voru svo mikil brögð að þessu að menn héldust eigi við í búðunum er rökkva tók.
VörðubrotÞóttust menn sjá að þar væri kominn Þórólfur formaður. Sótti hann að einum kaupmanna svo mikið að vaka varð yfir honum á nóttum; var oft slegið blautum sjóvettling í rúm hans og þótti þeim sem sáu formann hann skælbrosa um leið og hann gekk út.
Þá bjó í loddustofu maður sá, er Brandur hét. Var Lodda ein af hjáleigunum frá Stafnesi. Brandur þessi var risi mikill og hraustmenni, óþjáll og stirðlyndur en ótrauður til allra verka ef „betaling var í boði“. Höfðu þeir dönsku beyg af honum vegna afls hans og slapp hann því við ýmsa snúninga og kvaðir hjá þeim. Mann þennan fékk nú hinn áður nefndi kaupmaður til að vaka hjá sér.

Kirkjugatan

Kemur Brandur til kaupmanns um kvöldið; er honum vísað til rúms eins í svefnstofu kaupmanns, og skyldi hann halda vörð þaðan um nóttina. Háttar kaupmaður snemma og sofnar þegar. En er liðið er nokkuð fram yfir miðnætti heyrir Brandur frammi í bænum umferð og núningshljóð, eins og þá menn ganga snúðugast skinnklæddir; nálgast þetta svefnstofu kaupmanns; en jafnframt finnur Brandur, að úr sér dregur mátt allan og stenst það svo á að þegar lokið er upp hurðinni að svefnstofunni er Brandur orðinn svo aflvana að hann má sig hvergi hræra né gefa hljóð frá sér.

Stafnes

Loddubrunnur.

Birta var mjög dauf en þó sér hann að inn kemur Þórólfur formaður; er hann ófrýnn mjög og alskinnklæddur; heyrir Brandur gutla í brók hans og leka niður af honum bleytuna; jafnframt finnur Brandur lýsislykt og reykjarlykt, því að formaður hafði hengt skinnklæði sín í eldhús til verkunar en tekið þau niður daginn sem fara skyldi til Bessastaða. Sér Brandur að formaður hefur sjóvettling í hendi, rennblautan og heldur í totuna og gengur rakleitt að rúmi kaupmanns og slær hann rokna kjaftshögg með blautum laskanum. Hrökk þá kaupmaður upp með hljóðum miklum en svo var þá af Brandi dregið að hann gat enga björg sér veitt fyrr en kveikt hafði verið ljós og hann hafði jafnað sig.
Þaut hann þá heim til sín og fékkst eigi til að vera stundinni lengur, hvorki með loforðum né hótunum. Lifði ljós það sem eftir var nætur og var svefninn lítill hjá kaupmanni. Sótti formaður áfram að kaupmanni, þótt viðskipta þeirra sé eigi frekar getið.
Kvöld eitt kom að Bátsendum maður innan frá Kirkjubóli; var þá þénari einn sendur út í búðirnar að mæla honum brennivín. En er þangað kom heyrir hann hávaða mikinn; lýkur hann þá upp gluggahlera einum og sér þá að búðin er full af skinnklæddum mönnum og allt er þar á ferð og flugi en einn manninn sér hann handleika „hevert“ einn mikinn og sí og æ stinga honum ofan í eina ámuna og heyrði hann jafnframt kveðnar þessar hendingar:
Drekkjum og dýfum
þeim dönsku í djúp,
dáum ekki, drengir,
þeirra dyggðahjúp.
Fór maðurinn sem skjótast af glugganum og var ekki til brennivínsins tekið það kvöldið. Nokkru síðar kom dugga ein Kirkjugatanað Bátsendum; var þá verzlunarhúsunum lokað og Danir allir fóru á brott um veturinn.
En er fram á jólaföstuna leið sáu menn sem gengu til skipa á nóttu reyki mikla frá eldhúsi Stafnessbóndans og jafnframt tóku heimamenn þeir á Stafnesi er til róðra gengu á nóttu að heyra snark mikið er fram til eldhússins kom. Logaði þá eldur glatt í hlóðum og var þang vel að borið en ekkert var yfir eldinum né maður nokkur sjáanlegur. Gekk þetta nokkrar nætur og voru svo mikil brögð að eyðslunni að þangbirgðir allar virtust ætla að ganga til þurrðar. Lét bóndi þá vaka í bænum; bar þá eigi neitt til tíðinda í eldhúsinu, en í þangkofanum heyrðist skrjáf mikið, sem gengið væri eftir þangköstunum og nýju þangi væri hlaðið ofan á þá og troðið duglega innundir súðirnar, lamið saman reipahögldum og fleira.
Nokkru síðar bar svo til að kona ein af næsta bæ kom að Stafnesi; dvaldist henni lengi fram eftir kvöldinu og fór þaðan eigi fyrr en í vökulok. Þegar hún var komin út fyrir túngarðinn, sér hún mann einn koma móti sér, sem henni virtist teyma hest með böggum.
HvalsneskirkjaSnjór hafði verið í nokkra daga en nýlega hlánað, svo að krap var mikið á jörðu og skreipt í spori. Miðar manni þessum drjúgum í áttina til hennar og finnst henni það furðu sæta, hve lítið ganghljóð hún heyrir til þeirra félaga. Víkur hún því úr vegi fyrir þeim.
Sér hún þá, að maður þessi er skinnklæddur og þunglamalegur mjög í gangi, svo sem væri hann brókarfullur; slamsast hann áfram og heggur með höfðinu í hverju spori, en skepnu þá, er hann teymir, getur hún ekki greint, en henni sýnist hún vera múlbundin með reiptagli og á baki hennar er heljarstór reiðingur og reiðir maðurinn á honum tvo þá ferlegustu þangbagga, er konan hafði nokkurn tíma séð og marrar gríðar mikið í silunum. En um leið og maður þessi fer fram hjá henni, heyrir hún, að hann kveður vísu þessa með gömlu kvæðalagi:
Frá Refshalakoti eg reidda tel
reipafylli þanga,
brenni nú og braki vel
blöðkuklóin langa.
Endurtekur hann síðustu hendingarnar svo lengi sem konan heyrir til og sér hún það síðast til hans að hann hverfur heim að Stafnesi.
RekiNótt þessa var eigi vakað á Stafnesi, en er heimamenn reru, þá logaði eldur í hlóðum sem fyrr. Brá bóndi sé þá daginn eftir inn að Bæjarskerjum og var hann þar allan daginn. Morguninn eftir lét hann með birtu heimamenn sína binda hverja einustu þangkló, sem til var á Stafnesi og reiða heim til ekkjunnar í Refshalakoti; jafnframt lét hann ætíð á vökunni hita eldhússskörunginn og gera með honum hvítglóandi krossmark milli hlóðarsteinanna og mátti enginn ganga til eldhúss eftir það. Hurfu skjótt öll undur við þessar aðgerðir bónda; en talið var að hann hefði þar fylgt ráðum Bæjarskerjabóndans. En aldrei var goldinn þanghestur frá Refshalakoti eftir það.“

Magnús Þórarinsson lýsir Stafnesi og örnefnum þar í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, í ritinu Frá Suðurnesjum er birtist árið 1960. Frásagnir frá liðinni tíð, „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis.
Jón á StafnesiÁ góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker. Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár. Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.“
Gengið var eftir gömlu kirkjugötunni og m.a. kíkt á gömlu bæina. Þegar staðnæmstvar við Nýlendu vakti Jón athygli á heillegum hleðslum norðan við núverandi íbúðarhús og vestan við skemmu norðan þess. Þarna sagði Jón að sjá mættu leifar af gamla Nýlendubænum. Innan við vegginn hafi verið rými, ca. 2-3 metrar á breidd. Afi hans, Eiífur Ólafsson frá Ölfusi, og amma, Margrét Benediktsdóttir úr Rangárvallasýslu, eiginkona hans, hefðu haft þarna afdrep í gamla torfbænum, sem hafði þó bárujárnsþak. Þau fluttu frá Hólakotinu nær á stríðsárunum seinni, en síðan hefðu þau flutt til Reykjavíkur (1947). Jón mundi vel eftir bænum, sem þarna stóð; með gluggum mót vestri.
Gamla kirkjugatan lá rétt neðanvið bæinn. Hún hafði áður legið frá Básendum ofan við Glaumbæ Sólalagiðog síðan um um Glaumbæjarhliðið áleiðis yfir að Nýlendubrunni, neðan við garða bæjarins sem og Bala og Hólakots. Fast og ofan við Glaumbæjarhliðið hafi verið hænsnakofi, sem enn má sjá leifar af.
Hér að framan eru gjarnan tilgreindir brunnar bæjanna. Hafa ber í huga að brunnarnir – er geymdu „lifsins viðurværi“ – eru jafnan ein gleggsta staðfesting á til vist þeirra fyrrum.
Fast við Bala að suðvestanverðu var Litlibær. Þar er nú einungis gróinn hóll, óljós. Vestar er Balabrunnur.
Hólakotið yngra er norðan Bala. Vestan þess er Hólakotsbrunnur. Jón sagaði kirkjugötuna hafa legið til norðurs með vestanverðum görðunum. Norðan Bala hefur túngarðurinn verið sléttaður, en gatan lá með honum utanverðum.
Utar voru skoðaðar leifar af gamla Hólakoti, sem nú eru fast fram á sjávarbakkanum. Garður hefur legið upp frá því norðanverðu sem mætt hefur fyrrnefndum garði norðan hins nýrra Hólakots. Nýrra kotið hefur verið fært ofar í landið, enda sjórinn nú kominn að rótum þess gamla. Jón sagði að sjórinn hefði brotið mikið af landinu á hans lífstíð.
VitinnKomið var við í Ögmundargerði, sem var nyrsta kotbýlið í Stafneslandi mót Hvalsnesi. Tóftirnar eru óljósar, en þó með staðfestu minjagildi. Skammt utar er Hólakotsstekkur, af sumum nefndur Stafnesstekkur. Um er að ræða sandopinn hól, en í honum má þó sjá leifar af hleðslum stekksins, með op mót norðnorðvestri.
Jón sagði að þarna skammt frá, við enda girðingar mót kampinum, væri áletrunin LM. Sjórinn hefði hins vegar kast grótið yfir áletrunina svo nú væri u.þ.b. einn meter af grjóti niður á hana.
Þar sem kirkjugatan lá til norðurs á merkjum hverfanna var vörðubrot. Frá því var gatan sérstaklega augljós um holtið. Handan þess mátti sjá gatnamót. Með því að fylgja götunni áleiðis að Hvalsnesi mátti áætla legu hennar að kirkjustaðum. Hafa ber í huga að gamla kirkjan að Hvalsnesi stóð nánast í miðjum núverandi kirkjugarði. Hvalsneskirkja var hins vegar reist utan garðs.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Ben Guðjónsson, bóndi að Stafnesi.
-Magnús Þórarinsson, „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum er birtist árið 1960. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Rauðskinna I, 26.
-Rauðskinna I, 62.
-Rauðskinna I, 64.
-Gráskinna I, 201.

Stafnes

Stafnes – kirkjugatan. ÓSÁ.

Gálgaklettar

Gálgaklettar eru á yfir 100 stöðum á landinu. Flest örnefnin tengjast aftökum eða aftökustöðum, hvort sem slíkar hafi farið þar fram eða ekki. Ofan við Stafnes er einn slíkur; Gálgar; tvær klettaborgir með u.þ.b. 6 metra bili á millum þeirra. Á skilti við klettaborgirnar má lesa eftirfarandi: „Við erum stödd við Gálgakletta (sem einnig [eru] nefndir Gálgar í landi Stafness, en örnefnið og munnmæli í sveitinni benda til að hér hafi menn verið hengdir til forna. Hér upp af heitir Gálgahraun.
SkiltiÁ Stafnesi er þekkt örnefnið Lögrétta, þar er hugsanlegt að sakamenn hafi verið dæmdir. En sögnin hermir að tré hafi verið lagt á milli klettanna og þeir hengdir þar á, sem Básendamenn greindi á við, en Básendar eru rösklega stundarfjórðungs gang héðan í austur [á að vera vestur]. Líkum hinna hengdu á að hafa verið kastað í gjótu undir öðrum klettinum og grjót borið að. [Ekki er líklegt að gjóta hafi verið þar á sandvindsorfnum hraunmelnum, en holu hefði auðvellega mátt grafa við klettinn].
Hvorki eru þekktar skjalfestar heimildir um að menn hafi verið réttaðir á þessum stað né mannabein eða annað sem styður sögnina, en bilið milli klettanna sýnist og breitt til þess að unnt sé að leggja gálgatré á milli þeirra. Einhver hinna þröngu sprungna getur þó komið til álita í þessu sambandi. [Hér gleymist að gálgar hafi ekki endilega þurft að vera úr þvertrjám milli kletta.

Gálgaklettar

Gálgaklettar ofan Stafness.

Líkams- og dauðarefsingar voru í lög leiddar á Íslandi á 13. öld. Líflátsaðferðirnar voru henging, hálshögg, drekking og brenna. Líkamlegar hegningar aðrar voru umfram allt hýðingar, en einnig brennimerking, og stundum voru menn handhöggnir, klipnir með glóandi töngum eða útlimir þeirra marðir áður en þeir voru teknir af lífi.
Dauðarefsing var afnumin úr lögum árið 1928 og heimild til hýðingar 1940 – en þá hafði þessum viðurlögum ekki verið beitt lengi. Síðasta aftakan fór fram 1830.
Stjórnarskrá Íslands bannar að dauðarefsing verði aftur tekin upp.“
Á vestari klettinum er grasi gróinn hóll. Ætla mætti að þarna hafi annað hvort verið dys, sem gróið hefur yfir, eða stór varða; kennileiti af sjó. Ekki er vitað til þess að rannsókn hafi farið fram á „mannvirkinu“.
Gálgar

Stafnes

Gengið var um hluta af Stafneslandi með Jóni Ben Guðjónssyni, sem þar þekkir hvern krók og kima sem og sérhverja vörðu.

MyllusteinnStafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Sandgerði. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Jörðin hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu. Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.

Glaumbæjarhola

Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Í örnefnalýsngu fyrir Stafnes segir m.a.: „Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.nesi var reistur viti árið 1925.

Sveinshöfaklappir

Víkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóðáður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.
Beint vestur af heimabæ í Stafnesi er hóll, sem heitir Vallarhúsahóll. Þar hefur verið mikil byggð hér áður fyrr. Ofan við efra húsið á Stafnesi í túni er hringur, nefndur Lögrétta. Ekki er vitað, hvað þetta var, og má geta þess, að hann er ekki eins í laginu og slíkir lögréttuhringir eru vanir að vera.

Lodda

Rétt vestur af húsinu eru allmiklar rústir, sem ekki er vitað um, hvað er. Austur af Eystrahúsinu í Stafnesi heitir Lodduvöllur, og í honum er Loddubrunnur. Kvíslarhóll er gamall öskuhaugur við Loddu. Býli voru mörg hér og hvar, og örugglega eru sum þeirra farin alveg í sjó. Má t.d. nefna, að 1703 er talað um landssvæði, sem hét Snoppa. Nú veit enginn, hvar það hefur verið. Krumfótsbúð var gömul sjóbúð, sem ekki er vitað, hvar var.
Þá er að bregða sér upp í heiðina. Á Flötunum fyrrnefndu er svo nefnd Urðarvarða [hefur  verið flutt upp á kampinn], og ofan túns er Heiðarvarða. Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður.

Loddubrunnur

Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.

Dómhringur

Spöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót.
Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd.

Heiðarvarða

Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“, og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik, sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.

Fiskbirgi

„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og var afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“

Má nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19):

Íshús

„1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson. — Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“

Gamlavör

Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús, sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.

Letursteinn

Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi. Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi. Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs.

Stóra-rétt

Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin. Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér.
KnastásÞó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. – Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.
Litla-rétt á Refatanga“
Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin. Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.

Refshalakot

Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur. Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum.

Brak

Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni.
Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.

Vallarhús

Eins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.

Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.

Garðar

Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann. Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur.
„Minnismerki um Jón forseta á Stafnesi“ Efst uppi er sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum. Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.

Refamýri

Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.

Hvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.

Gosa

Góðir Stafnesingar, sem enn eruð starfandi! Þið eruð afkomendur og eftirmenn mikilla formanna á Stafnesi. Má þar nefna Daða Jónsson og Eyleif Ólafsson, sem voru með þeim síðustu. Væntanlega setjið þið strax skautafaldinn á Urðarvörðu, til heiðurs við margar merkar minningar frá fornri útgerð á Stafnesi og til þess, að hún megi þekkjast frá óæðri systrum sínum um hraun og heiði. Hún heitir enn Urðarvarða og á að halda því nafni, þó flúin sé upp á Flatir.
Sundmerkjum á Stafnesi á að halda við, svo lengi sem sögur eru til af einum merkasta útgerðarstað á Íslandi frá fyrri tíma.
Loddubrunnur var brunnur frá bænum Loddu. Hann er enn til, því að Eiríkur Jónsson, sem síðar bjó í Norðurkoti, gróf hann upp um eða fyrir 1920.“

Gamli brunnur

Gengið var um Stafneslandið frá Loddu, afrúnuðum hól í túninu austan við Lodduflöt og Loddubrunn austan íbúðarhússins á Stafnesi. Kíkt var á Glaumbæjarholu, hlaðinn brunn, Lindina, sem fyrrum var hlaðin og tröppuð, gamla brunninn á Stafnesi, Vallarhúsabrunn, brak úr skútunni Sigríði er strandaði utan við Stafnes og knastás úr henni, Stóru- og Litlu-rétt á Refatanga, kvarnasteinn frá Básendum, brak úr Kristbjörgu í Refatjörn (strandaði um 1970) og áletrunina G 1924 á steini til minningar um strand Sigríðar neðan við Stafnesvita. Tækifærið var notað til að gera frumuppdrátt af svæðinu.
Meira verður fjallað um Stafneshverfið síðar, m.a. Kirkjugötuna að Hvalsnesi.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Stafnes.
-Jón Ben Guðjónsson, borinn og barnfæddur Stefnesingur.
-Rauðskinna (Sögur og sagnir), IX-X bindi, ritstj. Jón Thorarensen, Reykjavík, 1958.
-Landið þitt Ísland, 4. bindi S-T, Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson, Reykjavík 1983.

Stafnes

Stafnes skv. leiðsögn Jóns Ben – 2016.

Stafnes

Minnivarði um strand togarans Jóns forseta var í gær afhjúpaður á Stafnesi.
Jón forseti RE 108 markaði tímamót í íslenskri útgerðarsögu en hann var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga og kom til landins þann 23. janúar 1907.

Reynir Sveinsson og Höskuldur FrímannssonAð morgni 28. febrúar 1928 strandaði Jón forseti við Stafnes.  Á þeim tíma voru engin tæki til björgunarstarfa og engin vegur né sími var á Stafnesi. Bátar voru sendir frá Sandgerði með olíu til að hella í sjóinn og reyna þannig að lægja öldur.
Áhöfninni tókst að láta flot reka að landi sem varð til þess að hægt var að draga litla skektu að skipinu og þannig tókst að bjarga níu mönnum.
Þegar ekki var lengur hægt að nota skektuna voru þrír menn eftir á lífi um borð í togaranum. Ákváðu tveir þeirra að fara úr sjóstökkum og stígvélum og fara í sjóinn á stórri öldu sem bar þá langa leið að landi. Annar þeirra komst lifandi til lands en það var Frímann Helgason. Hann var þá 18 ára og varð síðar kunnur íþróttamaður.
MinnisvarðinnStrand Jóns forseta var mikið áfall fyrir íslensku þjóðina. Fimmtán menn drukknuðu í sjóslysinu. Forsetinn hafði verið flaggskip íslenskra togara um árabil.
Slysavarnafélag Íslands var nýstofnað á þessum tíma og  setti kraft í að stofna slysavarnadeildir um landið. Sú fyrsta var stofnuð í júní 1928 í Sandgerði. Hún hlaut nafnið Sigurvon.

Þann 27. ágúst 2009 var á Stafnesi afhjúpaður minnisvarði um togarann Jón Forseta sem fórst utan við Nesið 28. febrúar árið 1928. Reynir Sveinsson og Höskuldur Frímannsson, sonur síðasta mannsins sem bjargaðist af Jóni Forseta, afhjúpuðu minnisvarðann.

SkjöldurKristinn Jónsson, framkvæmdastjóri slysavarnafélagsins Landsbjargar, flutti stutt ávarp að lokinni vígslu og sagði meðal annars frá því að afi sinn hafi verið skipstjóri á Jóni Forseta er hann strandaði.

Reynis Sveinssonar, verðandi formaður Slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði (hann hefur verið vikur í deildinni í 23 ár), flutti einnig ræðu við athöfnina:

„Góðir gestir,
Ég vil bjóða ykkur öll velkomin hingað að Stafnesi þar sem afhjúpaður verður minnisvarði um strand togarans Jóns Forseta RE 108.
JónStafnes á merka sögu tengda sjóslysum, má þar nefna að árið 1685 á góuþrælnum fórust sjö skip frá Stafnesi og drukknuðu 58 menn á einum degi.
Nafn þessa staðar Stafnes er tilkomið vegna sjóslyss, en fyrr á öldum var nafnið Nes ávallt notað um þennan stað. Fyrir margt löngu bjó hér útvegsbóndi sem var orðinn fótalúinn. Hann sat í smiðju og var að tálga sér staf, er tvær vinnukonur komu til hans og sögðu honum þau döpru tíðindi að bátur sem tveir sona hans hafi verið á hafi farist er báturinn tók land og bræðurnir hafi báðir látist.
Gamli maðurin kláraði að tálga stafinn og bað nokkru síðar vinnukonurnar að fylgja sér að þeim stað þar sem báturinn fórst. Þegar þau voru komin út á klappirnar þar sem sjórinn braut á, lyftir gamli maðurinn nýja stafnum upp, lamdi honum í sjóinn og mælti „Héðan í frá skal enginn láta lífið sem tekur land á Nesi sé farin rétt sundleið og skal Nesið héðan í frá heita Stafnes“.
23. janúar árið 1907 urðu tímamót í Íslenskri útgerðasögu, en þann dag kom fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga, Jón Forseti RE 108.
Jón forsetiAð morgni 28. febrúar árið 1928 nefndu menn nafn skipsins í hálfum hljóðum með óræða bæn í svip og fasi. Forsetinn var strandaður við Stafnes.
Þá tók við barátta upp á líf og dauða hjá áhöfn skipsins við miskunarlaust hafið, en á þessum tíma voru engin tæki til björgunarstarfa, engin vegur né sími var á Stafnesi.
Bátar voru sendir frá Sandgerði með olíu til að hella í sjóinn og lægja öldur.
Áhöfninni tókst að láta flot reka að landi sem varð til þess að hægt var að draga litla skektu að skipinu og þannig tókst að bjarga níu mönnum. Þegar þrír menn voru eftir á lífi um borð í Jóni forseta og ekki lengur hægt að notast við litlu skektuna,  ákváðu tveir þeirra að fara úr sjóstökkum og stígvélum og fara í sjóinn á stórri öldu sem bar þá langa leið að landi. Aðeins annar þessara manna komst lifandi til lands, Frímann Helgason þá 18 ára og varð hann síðar kunnur íþróttamaður.
Þetta strand var mikið áfall fyrir Íslensku þjóðina. Fimmtán menn drukknuðu í sjóslysinu og Forsetinn hafði verið flaggskip íslenskra togara um árabil.
JónSlysavarnafélag Íslands sem var ný stofnað setti nú kraft í að stofna Slysavarnadeildir um landið og var fyrsta deildin stofnuð í júní árið 1928 í Sandgerði og hlaut hún nafnið Sigurvon.
Árið 1929 kom björgunarbáturinn Þorsteinn til Sandgerðis og fljótlega eftir komu bátsins var hafist handa við að leggja veg frá Fuglavík að Stafnesi svo hægt væri að fara með bátinnn að Stafnesi ef slys bæri að höndum.  Það var sagt að þessi vegur væri ógnarbreiður en það kom til útaf breidd vagnsins sem flutti Þorstein og er Stafnesvegur sennilega eini vegurinn sem er lagður fyrir bát hér á landi.
Að lokum langar mig að þakka þeim systrum á Vestur-Stafnesi fyrir að ljá land undir minnisvarðann, öllum þeim starfsmönnum sem komu að verkefninu þar á meðal jarðvinnu og girðingavinnu, Sjóminjasafninu Víkin á Grandagarði, Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands sem veitti styrk til verkefnisins ásamt Sandgerðisbæ.
Hér á meðal okkar er Höskuldur Frímannsson sonur síðasta mannsins sem bjargaðist af Jóni Forseta og vil ég biðja hann að koma hingað og afhjúpa verkið.“

Þess má geta að Reynir var upphafsmaður að setja upp þennan minnisvarða, vann við að finna grjót og láta skera mynd skipsins út ásamt því að stórbæta allt umhverfið, stækka planið og girða umhverfis minnisvarðan. Við hann eru 15 minni steinar til minningar um þá 15 menn er fórust í þessu slysi.

Heimild:
-245.is
-vikufrettir.is

Stafnes

Á Stafnesi með Sigurði Eiríkssyni.

Básendar

Sem lið í Sandgerðisdögum – innan seilingar, dagana 5. -7. ágúst, var boðið upp á göngu um og frá Stafnesi yfir að Básendum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Gengið var að dómhringnum á Stafnesi, yfir og eftir gömlu þjóðleiðinni (Kaupstaðaleiðinni) að Draughól sunnan við Básenda. Þaðan var haldið niðurá Brennitorfu (Brennihól) og yfir að minjasvæðinu við Básenda ofan við Brennitorfuvík. Skoðaðir voru sökklar húsanna, sem þarna voru í tíð verslunarinnar, festarkengir, sem kaupskipin voru bundin við, sjóbúiðin og vörin, réttin, vörður og garðar, auk brunnsins, sem enn sést. Haldið var til baka ofan Básendahóla, yfir hlaðna brú frá Básendasandi að Stafnesi og stefnan síðan tekin að Stafnesvita þar sem skyggnst var eftir tóftum hjáleiganna fjölmörgu, sem þar voru fyrr á öldum, s.s. Loddu og Þembu. Á leiðinni var rifuð upp saga svæðisins, hlutur þess í sjósóknarsögunni og einstakar minjar skoðaðar með sérstaka áherslu á verslun Þjóðverja og Englendinga, konungs- og einokunarverslunina sem og eyðingu hennar í Básendaflóðinu mikla í janúar árið 1799.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes, eða Starrnes eins og það er talið hafa heitið til forna, er vestan Hvalsness. Líklegt má telja að höfuðból hafi verið þar um langa tíð, enda benda fornar minjar á staðnum til þess að svo hafi verið. Þá tengjast Stafnesi sögur og sagnir, sem rekja má langt aftur í tímann, Starrnesnafnið bendir til gróanda, en eins og svo víða utan Sandgerðis hefur sandurinn fært gróður í kaf, jarðvegur fokið upp og sjór brotið af ströndinni, jafnvel svo munar um 50 metrum á mannsævi. Þá hefur land lækkað á Rosmhvalanesi sem nemur að jafnaði um 0.8 cm á ári. Á síðustu 70-80 árum hefur mikil vinna farið í að hefta sandfok og jarvegseyðingu á nesinu.
Miklir og fallega hlaðnir garðar eru við Stafnes. Flestir þeir heillegu eru tiltölulega nýir, notaðir til skjóls við kál- og kartöflugarða, en ekki síst fyrir rabbara á 20. öldinni. Um hinar u.þ.b. 30 hjáleigur, sem voru um tíma frá Stafnesi, voru einnig víða hlaðnir garðar, en lægri, og sjást margir þeirra enn.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja síðustu öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði. Þá fórust 10 manns af togaranum, en 15 var bjargað í land.

Í Rauðskinnu eru nokkrar sögur frá Stafnesi. Ein þeirra er um tilurð nafnsins: „Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes.
En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir: Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó.

Stafnes

Stafnes.

Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman.
Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Básendar

Básendar – gerði.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.“
Þá segir einnig af Stafnesbóndanum: „Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita.
Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu…“ Framkoma bóndans átti eftir að hafa verulega eftirmála honum til handa, og það ekki góða.
Ólafur Davíðsson skráði eftirfarandi sögu af Stafnesdraugnum, sem löngum hefur gengið þar ljósum logum: „Þá er kvefveikin gekk 1894 lagðist í henni Jón nokkur sem kallaður var „í brókinni“. Hann átti heima austur í Landeyjum, en var þá vermaður að Stafnesi. Jón var hræddur um, að hann mundi deyja og bað annan sjómann að sækja handa sér meðul til Keflavíkur. Annaðhvort var, að maður þessi neitaði að fara, eða honum dvaldist á leiðinni. Að minnsta kosti er víst um það, að Jón fékk aldrei meðulin og dó nálægt sumarmálum. Eftir það tók Jón að sækja að meðalamanninum og gekk ljósum logum. Maðurinn fór heim til sín, en aðsókninni linnti ekki við það. Jón kvað ganga um eins og grár köttur á Stafnesi enn í dag og einu sinni sást hann á ferð um Rosmhvalanes á meri sem hann hafði átt í lifanda lífi.“

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Í Rauðskinnu segir einnig frá Narfa á Stafnesi: „Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét Þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.
Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna. Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi til Hafna. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann….“ Narfi lést, en gekk síðan aftur, heimsótti kaupmann, kvað vísu og hefndi sín grimmilega.
Brynjúlfur Jónsson segir í rannsókn sinni á Reykjanesinu 1902 að á Stafnesi sé forn dómhringur, sem enn má sjá móta fyrir í túninu. Nú hefur einhver reynt að vera huggulegur og nýlega plantað inn í hann nokkrum runnum og fyrirhuguð er skógrækt utan í honum.

Pakkhúsið

Pakkhúsið 1962.

Vestan við Stafnes eru nokkrar lægðir, er við fyrstu sýnt gætu verið gamlar grafir. Þær eru það í vissum skilningi því þarna geymdu bændur karftöflur sínar, grófu þær í sandinn til varnar frosti. Handan við Gjána er læna inn í landið og yfir hana hlaðin brú. Urðin er neðar. Þarna hefur líklegast verið bæjarstyttingur því þjóðleiðin gamla yfir á Kaupstaðaleiðina austan Ósa er nokkru ofar, eða ofan garðs. Tveir myndarlegir grónir hólar eru við ströndina milli Stafness og Básenda. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar)m Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað „Bátsendum“.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að „í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes.

Básendar

Básendar – brunnur.

Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, milli skerja.
Á Básendum má enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.“

Básendar

Áletranir við Básenda.

Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).

Básendar

Básendar – brú.

Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Básendar

Básendar – festarkengur.

Þá víkur sögunni til Grindavíkur. Englendingar voru þar, um 15 að talið var. Foringi þeirra er Joen Breen (Brier), nefndur Jóhann Breiði af heimamönnum. Líklega var hann fjarskyldur Englandskóngi. Annar mjög merkilegur Englendingur var þarna líka, en sá var yfirfálkatemjari Englandskóngs. Sennilega í þeim erindagjörðum að fanga hér fálka og temja, en þeir voru bæði konungasport og útflutningsvara. Þessi Englendingar reistu virki að Járngerðarstöðum. Svolítið öðruvísi var þá umhorfs þar en nú er. Sjórinn er búinn að “éta” mikið af landinu. Virkið var sennilega þar sem nú er Stóra Bót á Hellunum.
Englendingar uggðu ekki að sér. M.a. vegna þess að í höfninni (líklega Stóru Bót eða austar) voru 5 ensk skip. Af einhverri ástæðu fréttu Þjóðverjar að til stæði að halda drykkjusvall hjá Englendingum í Grindavík. Þjóðverjar tryggðu sér þá stuðning danskra yfirvalda á Bessastöðum og söfnuðu liði frá Hafnarfirði og Njarðvíkum, auk áhafna átta þýskra skipa. Söfnuðust þeir saman við Þórðarfell ofan við Grindavík og skiptu liði. Um nóttina, aðfararnótt 11. júní 1532, og héldu sumir suður Árnastíg (Skipsstíg) að virkinu (Hafnfirðingar og Njarðvíkingar) og aðrir að skipunum. Voru 15 Englendingar drepnir í Virkinu, þ.á.m. Jóhann Breiði, en lík hans var illa leikið eftir átökin. Átta voru teknir höndum. Voru þeir látnir dysja félaga sína undir virkisveggnum, í svonefndri Engelsku lág. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, eitt strandaði og árásarliðið náði einu, Peter Gibson, skip Jóhanns Breiða (sjá nánar undir Fróðleikur – Grindavíkurstríðið).
Þá kom að því, sem einna minnistæðast þykir um Básenda, eða Bátsendar, eins og þeir voru einnig nefndir. Það var Básendaflóðið mikla.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.
“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.
Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.

Básendar

Básendar – vör.

Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.
Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.
Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.

Básendar

Básendar – minjar.

Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.
Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.

Básendar

Básendagata.

Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.
Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.

Básendar

Básendar – gerði.

En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Til er uppdráttur af Básendum frá konungsverslunartímanum. Þar sést hvernig skip voru svínbundin, bæði inn undir Brennitorfuvík og utan skerjann við Básenda. Festarkengir voru skv. því fimm að tölu, en enn má sjá þrjá þeirra ef vel er að gáð.
Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.

Báendar

Básendar – bærinn.

Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Básendar

Básendabærinn.

Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt sunnar. Þeir sjást vel frá Básendum. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í.

Stafnes

Stafnes.

Ef þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna, sennilega á Stafnesi.
Þórshöfn er skammt sunnar, austan Ósa. Þar var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Gamla þjóðleiðin ofan við Básenda var gengin til baka að Stafnesi. Það er sú leið sem Hallgrímur Pétursson er talinn hafa fetað á leið sinni frá Bolafæti í Njarðvíkum yfir að Hvalsneskirkju fyrst eftir að hann var ráðinn þangað til prestsskaps. Við leiðina er talið að séu tvö sannindamerki um tilvist þess; annars vegar áletrunin HP á klöpp við Þórsmörk og síðan sama áletrun ásamt ártali á svonefndri Hallgrímshellu við vörðu milli Básenda og Þórshafnar. Hvort Hallgrímshellan er letursteinninn eða klapparhella, sem þar er, er ekki alveg á hreinu.
Frábært veður, hávaða rok og rigning. Veðrið gaf góða mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs við ströndina þennan fyrrnefnda örlagadag í janúar 1799. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Sandgerdi.is
-Reykjanes.is/bokasafn
-Blanda 1924-27.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes

Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir:

Stafnes

Á Stafnesi.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.

Stafnes

Stafnesviti – tóft.

Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman. Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Stafnes

Stafnesviti.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.

Heimild:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=172
-Rauðskinna I 57.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Stafnes

Gengið var upp í Stafnesheiðina með Jóni Ben Guðjónssyni frá Austur-Stafnesi. Hann þekkir svæðið líkt og lófann á sér.
JónVið fyrstu sýn virðist fátt áhugavert við ofanvert Stafneslandið, en þegar betur er að gáð er því öðruvísi farið. „Landið er skjóllaust yfir að líta og í rauninni hvergi hægt að skíta“, segir í einni hendingu ferðalangs er fór þar um fyrir skömmu. Öðrum finnst auðnin bæði dulúðleg og heillandi. A.m.k. er beitilyngi hvergi fallegra en þarna í miðri auðninni.
Skammt ofan við Stafnes, utan garða, er reisuleg innsiglingavarða fyrir hafnarlagið. Ofar í heiðinni blasir Pétursvarðan við. Að sögn Jóns var hún innsiglingarvarða inn á legurnar við Básenda, þá innri og ytri. Vörður voru á ströndinni fyrir hvora innsiglinguna, en þær báru báðar í Pétursvörðu. Hún mun hafa staðið þarna um langan tíma og ávallt haldist nánast óröskuð. Jón sagði að heiðin hefði mikið breyst frá því að hann var barn og unglingur. Þá hefði hún öll verið gróin, en nú væri heiðin norðanverð nánast örfoka.

Beitilyng

Margt fé gekk um svæðið fyrrum, stundum of margt. Þá hafi leið legið upp frá Básendum svo til beina yfir til Keflavíkur með stefnu á Pétursvörðu. Gengið var fram á vörðubrot við leiðina á holtstanga skammt suðvestan við Pétursvörðu. Frá henni sást í vörðubrot á holtsbrún neðar í heiðinni. Þarna virðist hafa verið greið leið þarna á millum því er komið var spölkorn ofar í heiðina lá landið svo til flatt fyrir fótum og enn vel gróið. Jón sagði að Háaleiti hefði verið nálægt þar sem nú er flugturninn á Keflavíkurflugvelli. Leitið hefði verið um 50 m hátt og því vel greinilegt sem viðmið. Sjávargrandi hefði verið við Háaleiti er gaf til kynna að áður hafi landið verið mun lægra, en risið eftir að jökla leysti.

Varða

Leiðin hafi legið þar við, en nú sæist hvergi móta fyrir götunni, bæði vegna jarðvegs-eyðingarinnar að vestanverðu og flugbrauta-framkvæmdanna að austanverðu.
Þá var komið að Skjólgarði (eða Skjólgörðum eins og Jón nefndi hann). Um er að ræða bogadregna einfalda garðhleðslu, um 18 m. langa. Út frá henni til vesturs liggur um 7 m langur þverveggur. Hæst er hleðslan nú um 0.9 m. Jón sagði að garðurinn hafi verið um hærri þegar hann var strákur. Fyrir ofan garðinn er vel gróið sem fyrr sagði. Staðsetningin er ofan við brúnina áður en hallar niður að Básendum (Stafnesi).
Jón

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrrir Stafnes er m.a. getið um Skjólgarð og Pétursvörðu. „Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. Þar norður af er há klöpp, sem heitir Kiðaberg. Við Skjólgarðinn fyrrnefnda er komið upp fyrir hraunbeltið. Er þá fátt um nöfn. Heitir það Neðri-Mosar og Efri-Mosar, aðskilið af grjótbelti. Kiðaberg er há klöpp, sem fyrr var nefnd. Skammt suður og upp af Gálgum er fyrst hóll. Í honum er gren, sem heitir Kollóttagren. Hraunið upp af Gálgunum er nefnt Gálgahraun. Allmikið sunnar er Þórshöfn, sem fyrr getur, og er þar mjór og langur bás inn í hraunið. Þangað fóru kaupskip hér fyrr.

Ummerki

Ekkert er vitað um tilefni örnefnisins Pétursvarða né fólk það, sem hún er kennd við.“
Í suðvestri blasti Mjóavarða við, austan við Gálga (Gálgakletta (sjá meira HÉR)). Hún var innsiglingarvarða fyrir Þórshöfn. Í útliti eru Pétursvarða og Mjóavarða nánast eins og tvíburar.
Svo virðist sem Skjólgarður hafi verið ígildi fjárborgar, líkt og Stóri-Skjólgarður ofan við Innri-Njarðvík og krossskjólgarðurinn við Borgarkot. Aukin heldur, vegna þess að hann hefur verið í alfaraleið millum kaupstaðarins á Básendum og Keflavíkurbæjarins fyrrum, hefur garðurinn verið kærkomið skjól fyrir fólk á þeirr leið því óvíða er berangurinn meiri og skjólleysið augljósara en einmitt þarna. Augljóst var af ummerkjum að dæma, að þarna hefðu og aðrir haft eitthvert skjól, þ.e. Verndararnir í Heiðinni.
Frábært veður. Gangan tók 40 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stafnes – Ari Gíslason skráði.
-Jón Ben Guðjónsson, Austur-Stafnesi.

Skjólgarður

 

Básendar

Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.

Básendar

Kengur á Básendum.

Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.

Kistugerði

Letursteinninn við Kistugerði.

Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að „Hallgrímshellunni“ með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.

Stafnes

Á Stafnesi.