Stafnes

Gengið var frá Sandgerði að Básendum undir leiðsögn Reynis Sveinssonar, forstöðumanns Fræðaseturs Sandgerðis, björgunarsveitarmanns, Lionsmanns og formann safnaðarnefndar Hvalsnessóknar, bæjarfulltrúa o.fl. Reynir kunni skil á öllu í nútíð og þátíð, auk þess sem hann hafði skoðun á hverju, sem fyrir augu bar.

Hvalsnes

Á Hvalsnesi með Reyni Sveinssyni.

Gengið var um Sandgerðisfjörur, Melgerðisfjörur (hvítar sandbaðstrendur), Másbúðarhólma, Fuglavík og skoðuð Hvalsneskirkja. Í kirkjunni lýsti Reynir kirkjum á staðnum frá öndverðu, viðkomu Hallgríms Péturssonar, letursteini Steinunnar dóttur hans og smíði þeirrar kirkju, sem nú stendur í Hvalsnesi.
Hvalsneskirkja var reist á árunum 1886-87 og sóknarpresturinn vígði hana á jóladag 1887. Ketill Ketilsson, hreppsstjóri í Kotvogi og eigandi Hvalsnessjarðarinnar, lét reisa kirkjuna. Hún er hlaðin úr tilhöggnum steini. Magnús Magnússon, múrari frá Gauksstöðum í Garði, hafði umsjón með því verki, en hann drukknaði veturinn 1887.
Þá tók við verkinu Stefán Egilsson, múrari úr Reykjavík. Magnús Ólafsson, trésmíðameistari úr Reykjavík, sá um tréverk. Kirkjan var tekin til gagngerra endurbóta 1945 undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins.

Stafnes

Á Stafnesi.

Mesti dýrgripur kirkjunnar er vafalaust legsteinninn, sem séra Hallgrímur Pétursson hjó og setti á leiði Steinunnar, dóttur sinnar. Steinninn fannst, þegar grafið var fyrir stétt, sem steypa átti fyrir framan kirkjudyr 1964. Hann mun hafa legið þar alllengi, jafnvel verið fluttur á þann stað úr kirkjugarði þegar kirkjan var reist. Steinninn hefur einhvern tíma brotnað og vantar því stafi aftan á nafnið svo og síðasta staf ártalsins, en það mun eiga að vera 1649.
Þá gengið um Stafnes. Mikið er um minjar á svæðinu.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var höfuðból að fornu. Þar var um aldir mikið útræði og fjölbýli á staðnum. Konungútgerð hófst þar um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldurgir til að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum.
Ótrúlega mikil og margbrotin saga af mannlífi fyrri alda birtist göngufólki á ekki lengri leið. Þótt Miðnesheiðin sé ekki há eða löng urðu t.d. 25 manns úti á henni á árunum 1860-1890.
Veður var frábært, sólskin og logn – Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.