Gísli Sigurðsson skrifaði um dauða Runólfs Runólfssonar í Kólgu (Klapparkoti) í Faxa árið 1965:

Gísli Guðmundsson“Alla nítjándu öldina og að minnsta kosti fyrsta tug þessarar aldar sóttu menn af öllum Suðurnesjum verzlun sína til Keflavíkur. Ekki var það fyrr en eftir 1910, sem farið var að vinna að vegabótum þar um slóðir, þannig að gera vegi akfæra. Áður voru aðeins ruddir götuslóðar, og fóru menn á milli fótgangandi á vetrum, en á hestum á sumrum, þeir sem höfðu þá yfir slíkum þægindum að ráða. En yfirleitt munu svonefndir tómthúsmenn, sem mikið var af á Suðurnesjum, ekki hafa átt annars kost en ganga í kaupstaðinn og bera á bakinu nauðsynjar sínar, ef þeir fengu þá nokkra fyrirgreiðslu erinda sinna, því oft kom það fyrir, ef fátækir áttu í hlut, að Keflavíkurkaupmennirnir létu þá bíða allan daginn eftir áheyrn, og svo loks, er þeir veittu mönnum viðtal, var það ef til vill aðeins til þess að neita bænum þeirra. Var þá ekki um annað að ræða en halda heim með þau málalok.
Nærri má geta, að ekki hafa það verið neinar skemmtigöngur að fara tómhentur heimleiðis og vita af heimilinu bjargarlitlu og þar að auki að leggja upp úr kaupstaðnum undir myrkur á haustdegi, svangur og kaldur, eftir að hafa beðið milli vonar og ótta um úrslit erindis síns, enda fór alloft svo, að þeir, sem heima biðu, urðu fyrir sárum sorgum, er heimilisfaðirinn kom eigi heim, því ferð hans hafði lokið einhvers staðar á heiðunum á Suðurnesjum. Geyma heiðarnar þar áreiðanlega margar sorgarsögur um hinztu stundir þessara göngumanna, er þeir háðu baráttu sína við hryggð og gremju yfir erindislokunum í kaupstaðnum og hungur og þreytu eftir að hafa gengið villtir vegar, ef til vill mikinn hluta nætur, áður en þeir settust niður til að taka sér örlitla hvíld. En hvíldin sú varð oft hin síðasta, því svo var þá af þeim dregið, að þeir gátu eigi veitt viðnám svefninum, sem þá vildi ásækja þá, og sofnuðu því svefninum langa. Og kannske lagði svo nóttin til líkblæjuna með því að láta fönnina leggjast yfir allt, og gat þá liðið alllangur tími, þar til hinn týndi maður varð fundinn.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Ein slík raunasaga verður nú sögð hér. Hún hefir þó á sér verulegan þjóðsagnablæ, sem skapazt hefir í sambandi við þjóðtrú þeirra tíma, en þá vildu menn stundum kenna slys slík sem að framan er lýst illum fylgjum, er villtu um menn og voru stundum svo magnaðar, að þær veittu mönnum árásir, er drógu þá til dauða.
Stundum kom það fyrir, að menn urðu varir við ýmis dýr, komin úr sjó, og veittu þau fólki eftirför og stundum árásir. Nokkur sannleikur mun vera í sumum sögum, er greina frá slíkum viðureignum, en oftast munu þær frásagnir hafa lagazt svo í meðferð manna, að erfitt verður að greina það frá, sem satt kann að vera, enda gæti verið vafamá!, hvort rétt væri að fara út í slíka greiningu, þó tiltækilegt þætti.
Það er þá upphaf sögunnar, að árið 1879 bjó maður að nafni Runólfur Runólfsson í þurrabúðarkoti einu, sem í daglegu tali var alltaf nefnt Kólga, en hét réttu nafni Klapparkot á Miðnesi og mun upphaflega hafa verið kofi byggður til að salta í fisk, en síðan tekinn til íbúðar, því að þess voru nokkur dæmi. Þetta ár er Runólfur sagður vera orðinn ekkjumaður, 52 ára að aldri. Bjó hann með bústýru, Kristínu Sigurðardóttur, er þá var 24 ára gömul. Hjá þeim dvaldist og sonur Runólfs, Bjarni að nafni. Kristín bústýra var dóttir Sigurðar Kortssonar af svonefndri Írafellsætt, en það herma sagnir, að sú ætt hafi átt fylgju þá, sem nefnd hefir verið Írafells-Móri, og á fylgja sú að hafa gert fólki ýmislegt til óþurftar og jafnvel skaða.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni. Herforingjaráðskort 1903.

Hinn 16. nóvember 1879 fór Runólfur í Kólgu til Keflavíkur, og segir ekkert af þeirri ferð hans fyrr en á vökunni um kvöldið, að hann á heimleið sinni úr Keflavík kom að Landakoti, en sá bær er í Sandgerðishverfi. Ekki er þess getið, hvort hann hafði nokkurn farangur meðferðis. Gekk hann til baðstofu og þáði beina, eins og títt var á bæjum, er gesti bar að garði. Bóndi í Landakoti var þá Þórarinn Pálsson skáld, síðast að Hofi í Garði. Er Runólfur fór af stað frá Landakoti, er sagt að hann hafi beðið Þórarin bónda að lána sér vatnastöng, er hann átti. Hugðist Runólfur nota stöngina að vopni, „því að mér fannst,” segir hann, „einhver skrattinn vera að glettast við mig, er ég gekk norður Löndin.” Svo nefndust flatir, er lágu milli Sandgerðis og Bæjarskers, þar sem nú er Suðurgata í Sandgerði. Vegslóði lá yfir heiðina úr Keflavík að Bæjarskerjum, og var svo gengið yfir Löndin af þeim, sem heima áttu innar á nesinu. Þórarinn segir Runólfi stafinn velkominn, en bauð að fylgja honum á leið, þar eð hann taldi, að Runólfur væri drukkinn. Hann afþakkaði fylgd Þórarins, þar sem hann átti örskammt heim, eða aðeins yfir Sandgerðistúnið og eftir malarkambi milli Flankastaða og Sandgerðis, þá túnið á Flankastöðum og malarkamb, sem náði þaðan og heim að bæ hans. Báðir þessir malarkambar liggja milli sjávar og tjarna, sem eru fyrir ofan þá, en þeir eru hvor um sig 200—300 metrar á lengd. Öll leiðin, sem ófarin var frá Landakoti, var um 15 mínútna ganga.

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd 2023.

Varð það úr, að Runólfur fór einn frá Landakoti, og er það hið síðasta, sem menn vita um hann lifandi. Er hann kom eigi heim um kveldið og nóttina, var hafin leit daginn eftir. Veður hafði verið vont um nóttina, rok og rigning ásamt náttmyrkrinu. Ekki leið á löngu, þar til leitarmenn fundu merki þess í þarahrönn, sem var í flæðarmáli fyrir neðan malarkamb þann, er liggur suður frá Flankastaðatúni, að þar hefði viðureign nokkur átt sér stað, og það mjög hörð, því þarinn var mjög troðinn á nokkru svæði. Gengu menn brátt úr skugga um, að þar hefði Runólfur í Kólgu háð harða glímu um líf sitt við einhverja óvætti og beðið lægra hlut, því þar lágu partar af líkama hans, sem virtist hafa verið allur tættur sundur. Sumir líkamshlutar hans fundust suður í svonefndu Bakkakotsviki, sem er sandvik sunnan undir túninu í Sandgerði.

Sandgerði

Sandgerði – Landakot; loftmynd 2023.

Saga gekk um það, að kvöldið, sem Runólfur kom að Landakoti, hafi það borið við á bæ einum þar í nágrenni, er fólk var í þann veg að ganga til náða, að þá hafi maður komið þar á baðstofuglugga með miklum asa og beðið um að opna fyrir sér í guðs nafni, því að djöfullinn sjálfur væri á hælum sér. Fólk allt á bænum hafði orðið mjög óttaslegið við þetta ávarp á glugganum og mun þess vegna ekki hafa brugðið strax við að ganga til dyra. En þar skipti engum togum, því að, er maðurinn hafði gert vart við sig á þennan hátt, urðu ryskingar þar í gluggatóftinni, og heyrðist fólkinu, sem inni var, að maðurinn væri dreginn frá glugganum. Var það álit manna, að þar mundi Runólfur verið hafa, og hefir þá verið búinn að eiga í höggi við ófögnuð þennan allt kvöldið, frá því hann fór frá Landakoti. Sumir töldu, að þarna hefði Írafells-Móri unnið eitt af sínum ódáðaverkum. Aðrir, og miklu fleiri, álitu aftur á móti, að maðurinn hefði orðið fyrir árás af sjávardýri.
Hér lýkur þessari frásögn. Er hún skráð hér eins og ég heyrði hana sagða af mönnum, sem komnir voru til fullorðinsára, þegar atburður þessi gerðist, svo að þannig hefir sagan gengið meðal fólks.
ÚtskálakirkjaÍ prestsþjónustubók Útskálaprestakalls er dánardagur Runólfs skráður 16. október 1879, og fylgir þessi athugasemd, sem sýnist varpa nokkru ljósi yfir hin raunverulegu ævilok hans: „Runólfur Runólfsson, Klapparkoti, 52 ára, varð úti voveiflega á heimleið úr Keflavík í slagveðri af rigningu og stormi, allskammt frá bæ sínum um miðja nótt. Meint, að hann hrakizt hafi niður í fjöru fyrir sunnan Flankastaðatúngarð, hvar sjór hafi tekið hann, því bein hans fundust löngu seinna, sundurlimuð, og fatnaður.” Grafinn er hann, samkvæmt sömu prestsþjónustubók, 8. jan. 1880 eða 12 vikum frá dánardegi.
(Saga þessi er áður prentuð í sjöunda hefti af Íslenzkum sagnaþáttum og þjóðsögum, eftir dr. Guðna Jónsson).”

Sjá meira um Runólf HÉR og HÉR.

Heimild:
-Faxi – 10. tölublað (01.12.1965), Gísli Guðmundsson, “Dauði Runólfs í Kólgu”, bls. 225-226.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.