Fræg er sagan af Runólfi Runólfssyni húsmanni úr Klapparkoti er í þá tíð nefndist Kólga. Hann varð úti milli Landakots í Sandgerðishverfi og heimilis síns í Flankastaðahverfi aðfaranótt 17. október 1879. Hafði Runólfur komið að Landakoti skömmu fyrir hátt á heimleið úr Keflavík. Hafði hann skamma viðdvöl en hélt heimleiðis um ellefuleytið, allkenndur af víni er hann hafði meðferðis. Þótt skömm væri leiðin auðnaðist Runólfi ekki að rata hana í náttmyrkri og stormi. Af honum fannst hvorki tangur né tetur um nokkra hríð. En um jólaleytið fóru bein Runólfs að reka upp undan Flankastöðum. Að sögn sr. Sigurðar B, Sívertsen “voru öll bein slitin í sundur og allt hold af þeim”. Á kreik komust þjóðsögur syðra um að Írafellsmóri, sá víðförli ári, hefði grandað Runólfi eða þá illvígt sæskrýmsli.
Haukur Ólafsson, FERLIRsfélagi vakti nýlega athygli á eftirfarandi:
“Mig langar að vekja athygli á annarri frásögn um Runólf Runólfsson, Runka, sem var einn helsti milliliður Hafsteins Björnssonar, miðils, við annan heim.”
Hafsteinn Björnsson er talinn vera einn stórkostlegasti og öruggasti sannanamiðill sem Ísland hefur alið. Hann fæddist að Syðri-Höfdölum í Viðvíkursveit í Skagafjarðarsýslu 30. október 1914. Skyggni gekk í móðurætt Hafsteins og fékk hann því góðann stuðning í æsku. Hann var ekki skammaður fyrir lygar og ósannsögli eins og margir skyggnir einstaklingar í æsku. Móðir hans var skyggn og berdreyminn og hún hjálpaði honum mikið til í þessum málum. Hafsteinn sá bæði framliðna og huldufólk í æsku og eitt sumarið þegar hann var milli fimm og sex ára, þá var hann við leik úti og sér þá litla stúlku á aldur við hann sjálfan standa við horn eins kofa. Stúlkan bað hann um að fylgja sér og þau löbbuðu saman út og fyrir ofan bæinn að allháum hól sem heitir Mikligarður. Þegar Hafsteinn kemur þangað þá sér hann ekki hólinn, heldur birtist honum lítill bær og utan við bæjardyrnar sat um það bil þriggja ára gamall drengur, en hann var bróðir litlu stúlkunnar. Þau fóru öll að leika saman og fundir þeirra endurtókust hvað eftir annað.
Á unglingsárum veiktist Hafsteinn og lá lengi á sjúkrahúsi, eftir þetta þoldi hann illa erfiðisvinnu. Hann flutti til Reykjavíkur og starfaði meðal annars sem afgreiðslumaður í búð. Oft á tíðum kom það fyrir að Hafsteinn reyndi að afgreiða fólk sem samstarfsmenn hans sáu ekki. Árið 1937 hlotnaðist Hafsteini starf sem lyftuvörður í Landsímahúsinu við Austurvöll. Á þessum tíma var skyggni hans ótamin og hann átti í miklum erfiðleikum með að greina hverjir voru lifandi eða liðnir. Hann heilsaði til dæmis oft fólki sem enginn annar sá nema hann einn.
Hafsteinn var varð mjög skyggn og flutti oft skilaboð að skyggnilýsingum loknum. Hann starfaði í 40 ár og var einn virtasti miðill sem hér hefur starfað. Hann hélt margoft fámenna fundi sem fjöldafundi og hann kom með ótrúlegustu skilaboð og smáatriði sem hann hefði ekki með nokkru móti getað vitað og er óhætt að segja að enginn hafi komið svikinn af fundum með Hafsteini.
Hafsteinn féll niður örendur við heyvinnu þann 15. ágúst 1977.
Frásögnina af Runka er að finna í bókinni Miðillinn, Hafsteinn Björnsson, eftir Elínborgu Lárusdóttur. Frásögnin er mun lengri en í bókinni segir m.a.: “Jæja, það er best að ég segi þá, hver ég er. Ég heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lést. Ég bjó með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var ég á ferð frá Keflavík seinni hluta dags og var fullur. Ég kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði ég góðgerðir. Þegar ég ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín.
Þeir spyrja nú, Lúðvík og Niels, hvar þeir geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar; í kirkjubókum Útskálakirkju.
Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.”
Í framhaldinu segir svo af leitinni að leggnum, sem fannst að lokum milli þilja í húsí í Sandgerði eftir spennandi leit og var jarðaður með pomp og prakt í Útskálakirkju 1940, eða um 60 árum eftir lát Runólfs.”
Fróðleg og bráðskemmtileg frásögn er felur í sér sönnun um líf eftir þetta líf! Heimildir m.a.:
-Elínborg Lárusdóttir, Miðillinn, Hafsteinn Björnsson
-www.hugi.is