Færslur

Garður

Gengið var frá Leirunni um Stóra-Hólm, Litla-Hólm, Gufuskála, Rafnkelsstaði, um Gerðar og skoðaðar hinar 14 varir á leiðinni.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Haldið var áleiðis að Útskálum að Garðskaga með viðkomu við Skagagarðinn, en þangað og þaðan var gengið til suðurs um Hafurbjarnastaði, Kirkjuból og Flankastaði.
Samið hafði verið um hið ágætasta gönguveður á svæðinu og gegkk það eftir þrátt fyrir afleita spá. Á leiðinni var fjölmargt að sjá og skoða, s.s. lendingar, letursteina, vatnsstæði, brunna, fornar tóftir og atburðastaði, auk þess leiðin lá um eitt elsta mannvirki landsins, Skagagarðinn. Litla-Hólmsvörin er eitt af undrum Íslands. Fornmannagrafir eru að Hólmi og í Garði og Steinunn gamla, frænka Ingólfs Arnarssonar, var skráð til heimilis á nesinu um tíma. Þá er umhverfið og náttúran óvíða fallegri.
Með í för var Ásgeir Hjálmarsson úr Garði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Við Stóra-Hólm var fornmannaleiði skoðað; bátslaga reitur í túninu norðvestan við húsið. Þennan reit hafði aldrei mátt snerta. Hann var afgirtur til langs tíma, en stendur nú sem eyja í túninu. Greinilegar hleðslur eru í grafreitnum. Hvort þarna geti verið um haug Steinunnar gömlu að ræða, skal ósagt látið.

Á Stóra-Hólmi á að vera letursteinn yfir leiði smala, sem drepinn var þar fyr á öldum. Mælti hann svo fyrir um að hann skyldi grafinn við götuna heim að bænum og mun það hafa verið gert, skammt innan við hliðið, að sögn. Gallinn er bara sá að garðanir hafa verið færðir til og frá í gegnum tíðina, allt eftir því hvernig og hvar túnin voru á hverjum tíma.

Leiran

Leiran – Litla-Hólmsvör.

Elstu menn mynnast letursteins, en eftir að síminn var lagður að bænum, mun talsvert rakst hafa orðið á svæði því sem hann mun hafa verið. FERLIR hefur leitað nokkrum sinnum að steininum, en án árangurs. Hitt getur og verið að letrið sé afmáð, en reynslan hefur sýnt að erfitt er að lesa áklappað letur, sem er eldra en frá u,þ.b. 1500.
Neðan við Litla-Hólm er stórbrotin vör, fallega hlaðin til kantanna. Stór björg voru tekin upp úr vörinni með hjálp sjávaraflsins sem og hestaflsins. Þannig tókst berserkjum fortíðar að forfæra björgin smám saman þangað sem þau nú eru. Ofar og vestan við bæinn er fallega hlaðinn brunnur, nokkuð djúpur. Hann er að mestu óvarinn.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Áfram var haldið yfir að Gufuskálum. Innan við garðhliðið á gamla garðinum er vatnsstæði. Norðvestan þess er hlaðið um lind. Líklegt má telja hleðslurnar nokkuð gamlar og eflaust hefur lind þessi verið notuð um langan tíma, jafnvel allt að því frá upphafi byggðar á Gufuskálum. Sagt hefur verið að Útskálar hafi verið annexía frá Gufuskálum, en þarna er myndarlegt bæjarstæði og mikið af tóftum og gömlum görðum, sumum jarðlægum. Hlaðnir og grónir garðar neðst á ströndinni benda til þess að sjórinn hafi brotið þarna eitthvert land þannig að líklegt má telja að þarna hafi verið öðruvísi útlits áður fyrrum.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Hlaðinn garður er umhverfis Gufuskálatúnin. Í heimtröðinni að gamla bænum er fallegur hestasteinn er myndar drykkjarskál. Hlaðnir kjallaragrunnar eru undir nýrri hús, hlaða aftan við fjós gamals bæjar og tóftir íveruhúss, sem líklega hefur verið breytt í útihús með tilkomu nýja íbúðarhússins.
Á Rafnkelsstaðabergi eru fallegar hraunmyndanir, líkt og við norðan Lónakot vestan Hrauna. Þarna eru og fallega hlaðinn garður úr nokkuð stórum uppreistum grjóthellum. Norðar er Kisturgerði. Þar segir af þjóðsögunni um fornmanngröf og gullkistu. Reyndar eru áhöld um að staðsetning gerðisins sé rétt því við það á að vera, skv. sögunni, letursteinn með rúnum. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerði undir berghömrum. Sagt er að menn hafi viljað leita sannleikans um gullkistuna með stórtækum tækjum, en þá hafi letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, oltið niður og staðnæmst þar sem hann nú er.

Garður

Áletrun á fornmannaleiði í Garði.

Gangið var með ströndinni og varirnar vestan Kópu (Rafnkelsstaðavörina). Þar eru varir s.s. Vararós og Varavör, Bakkavör og aðrar slíkar, nefndar eftir bæjunum, sem enn bera margir hverjir hin gömlu nöfn, þótt húsakynnin séu nú önnur og öðruvísi en áður var.
Staðnæmst var við íþróttahúsið í Garði. Vestan þess er sést enn u.þ.b. 200 metrar af hinni gömlu kirkjugötu Útskálakirkju. Við endan hans að norðanverðu, þar sem túnskákir taka við, eru tóftir. Sagt er að ein þeirra (vinstra megin), sé tóftir Lykkju þeirrar er getið er um í þjóðsögunni um fornmannagröfina og bóndan á bænum, sem hafði látið taka steinhellu mikla á gröfinni og færa í vegg í nýreistum bæ sínum. Birtist fornmaðurinn honum í draum og linnti ekki látum fyrr en bóndi skilaði aftur hellunni á sama stað. Áður hvíldi hellan á þremur steinum öðrum, en eftir að henni var skilað, liggur hún skökk. Þvert yfir helluna má sjá letur, sem ólæsilegt er. Sunnan við helluna er manngerður hóll. Það er mat fornleifafræðings að hann geti reynst áhugaverður skoðunnar.

Kistugerði

Áletrun á steini við Kistugerði.

Gengið var framhjá Lykkju og yfir að Skagagarðinum. Garðurinn var vörslugarður er náði frá Kirkjubóli að Útskálum. Hann var það hár að maður komst ekki yfir hann og það breiður að tveir menn gátu riðið eftir honum samhliða. Talið er að garðurinn hafi verið reistur í kringum 1000 og þá til að varna fé og fólki inn á akursvæðin á Garðskaga. Nöfn bæjanna Akurhús og Akurgerði benda til kornræktar á svæðinu. Skálareykir voru bær hliðvarðarins og má sjá tóftir hans þar sem hæst ber í hann frá Garði.
Kaffi var þegið í vitavarðabústanum á Garðskaga. Fyrsta leiðarmerki fyrir sjófarendur var sett á Garðskaga árið 1847. Þá var halðinn grjótvarða og stóð upp úr henni járnstöng. Landbort hefur lengi verið mikið við Garðskaga. Heimildir segja að gamla Skagavarðan hafi staðið meira en 100 metrum fyrir utan núverandi sjávarkamb.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti.

Danskur skipstjóri, Stillhoff, lagði til árið 1854 að reistur yrði viti á Garðskaga. Þrátt fyrir að tillagan hlyti góðar undirtektir stjórnvalda dróst málið á langinn. Stillhoff drukknaði í nóvember 1857 þegar póstflutningaskip hans fórst við ljóslausa strönd landsins með allri áhöfn.

Ljósker var sett á vörðuna á Garðskaga árið 1884 og jafnframt byggt dálítið hús úr timbri. Kveikt var á ljóskerinu 1. okt. það ár. Árið 1897 var síðan byggður ljósviti á Garðskaga. Ljósgjafinn var olíulampi. Nýr viti var byggður 1944. Ástæðan var sú að sjór hafði gengið mjög á land og brotið það þar sem gamli vitinn stóð. Hann mun vera hæsti viti á landinu.
Skoðað var fuglalífið í fjörunni við Garðskaga og síðan haldið suður með ströndinni. Landamerki Garðs og Sandgerðis eru um Draughól og Sjónarhól. Hinum síðanefnda tengist þjóðsaga um varðveislu vörðunnar, sem á honum er. Á Draughól eru nokkrir þeirra er handteknir voru á Kirkjubóli eftir aðförina að Jóni Arasyni 1550 sagðir hafa verið drepnir og heygðir. Þar við er þriggja stafa letursteinn.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – merki um friðlýsar minjar.

Grafreiturinn neðan við Kirkjuból hefur nú verið varinn, en sjórinn hafði áður verið að dunda við að brjóta hann niður og hirða úr honum beinin. Jón Gerreksson og hópur hans hafði áður brennt bæinn á Kirkjubóli eftir að heimasætan hafði hafnað einum liðsmanna hans. Það reyndist hópnum afdrifaríkt því stúlkan komst undan brennunni og flúði norður á land. Norðanmenn náðu liðsafnaðinum, drekktu Jóni í sekk og drápu hina.

Á Hafurbjarnastöðum fundust kuml þau, sem nú eru til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands, heillegar beinagrindur og einstak gripir er bentu til þess að fólkið gæti hafa haft tengsl við Suðureyjar eða Bretland. Það er nú kannski lítt undarlegt í ljósi þess að norrænir menn höfðu búið þar um nokkurt skeið áður en haldið var til Íslands. Kumlin fundust á örfoka landi norðan við bæjarhúsin. Bein höfðu verið færð þaðan í kirkjugarðinn á Útskálum, en 1942 hafði enn fokið af beinum og fór Kristján Eldjárn á vettvang ásamt fleirum og gróf frá þeim.
Gangan endaði við Flankastaði.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Kistugerði

Vestan við Rafnkelsstaði í Garði er Kisturgerði.

Kistugerði

Kistugerði.

Þar segir þjóðsagan að sé fornmanngröf og í henni gullkista. Gerðið er í rauninni pollur undir klapparvegg, grænlitur. Reyndar eru áhöld um að staðsetningu gerðisins. Sumir telja það uppi á klöppunum og skammt utar, en skv. sögunni á að vera letursteinn með rúnum við það. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerðið undir berghömrunum. Þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn með honum þarna í gerðinu. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík og fleiri álíka.
Einhverjir munu hafa viljað leita fjársjóðsins fyrir nokkrum árum með stórtækum tækjum. Við það valt letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, niður hallann og staðnæmst þar sem hann nú er, skammt ofan við ströndina.
Erfitt er að lesa út úr rúnunum á steininum, en þær eru svipaðar og á álagsteininum Heródesi við Grindavík.

Kistugerði

Letursteinn við Kistugerði.

Básendar

Farið var að Stafnesi, rifjuð upp sagan af gamla manninum og tilurð nafnsins, skoðaður dómhringurinn og brunnurinn við hið gamla Lindarkot.

Básendar

Kengur á Básendum.

Á Básendum var litið á einn stálkenginn, sem konungsskipin voru bundin við fyrr á öldum og gengið um garða og tóttir gamla bæjarins, sem var “dæmigerður íslenskur torfbær”. Skoðaðar voru undirstöðurnar undir gömlu verslunarhúsin og Básendaflóðið 1799 rifjað upp, en í óveðrinu lögðust flest húsin af sem og mörg hús önnur við suðvesturströndina, bátar flutu upp og brotnuðu og fólk og skepnur drápust.
Haldið var að Gálgum, sem eru tvær klettaborgir og forn aftökustaður innan verndarsvæðisins. Þaðan var haldið niður að Þórshöfn. Brimið fór mikinn og í gegnum það glytti í Hafnir sunnan Ósa. Útsýnir var stórbrotið og skýheft sólarbirtan gaf umhverfinu dulrænan blæ. Eftir nokkra leit fannst jarðfasti klapparsteinninn með áletruninni HP auk annarra stafa og ártala. Gerð verður tilraun til þess síðar að rýna nánar ofan í letrið á steininum.

Kistugerði

Letursteinninn við Kistugerði.

Gengin var hin Gamla gata til baka að Stafnesi. Leitað var að “Hallgrímshellunni” með áletrunni HP16??, en hún á að vera þarna á klapparhrygg við vörðubrot. Hún fannst ekki að þessu sinni. (Sjá nánar.) Á leiðinni fannst enn ein fjárborgin, nú ofan Básenda. Hún var staðsett og skráð á GPS-tækið.
Frá Stafnesi var haldið að Skagagarðinum mikla og hann skoðaður og metinn. Við enda hans, Útskálamegin, var gengið að fornmannagröf norðan Vegamóta. Yfir gröfinni er stór hella og áletrun yfir hana miðja. Einungis ein gömul heimild er um hellu þessa sem og þjóðsöguna, sem að henni lítur. Sagt er frá henni í annarri FERLIRslýsingu.
Farið var í Kistugerði og litið á Kistuna og rúnasteininn neðan hennar. Kistan á að vera, skv. þjóðsögum, gömul fornmannagröf. Flestir þekkja söguna af gullkistunni, sem þar á að vera. Rúnasteinninn liggur nú nokkuð frá gröfinni, en bændur, sem grófu í Kistuna færðu hann úr stað á sínum tíma. Garðbúar hafa af miklli samviskusemi merkt merka staði í grennd við Garð, þ.á.m. Kistugerði, en því miður á röngum stað.
Frábært veður.

Stafnes

Á Stafnesi.

Kistugerði
Þegar komið er að Garði, sem nú heitir Sveitarfélagið Garður, er fyrst komið að Rafnkelsstaðabergi. Bergið er ekki hátt, en af ofviðum þess ber Ellustekkur við sjónarrönd í vestri (sjá aðra FERLIRslýsingu). Áður fyrr var byggðin svo dreifð um allan Garð að hún var hæfileg blanda af þorpi og dreifbýli – og hafði kosti hvors tveggja. Við Rafnkelsstæði er Kistugerði þar sem þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík.

Útskálakirkja

Útskálakirkja.

Innsti bærinn í Garði er Rafnkelsstaðir, þá koma Meiðastaðir, síðan Kothús niðri við sjóinn og Varir þar skammt fyrir utan. Í landi þessara jarða standa nú íbúðarhús, sem reist hafa verið á seinni árum eftir að fólki fór mikið að fjölga í Garðinum. Í vörunum var mikið útræði, enda lending þar góð um sund sem Varaós var.
Brekka og Skeggjastaðir heita næstu jarðir og Gauksstaðir nær sjónum. Þá er komið að Gerðum, “sem er falleg jörð; þar er útræði mikið og fiskisælt”, segir í sóknarlýsingu. Í Gerðum myndaðist fyrst vísir að þéttbýli Garðsins með tilkomu Milljónafélagsins, sem stofnaði útibú í Gerðum árið 1907. Gekk hús það er félagið reisti lengi undir nafninu Milljón. Félagið rak bæði útgerð og verslun og dró það fólk að plássinu svo að um tíma var Garður fjölmennesta byggð Suðurnesja, enda gengu þaðan allt upp í 70 áraskip til fiskveiða á vertíðum.

Árnarétt

Árnarétt.

Með hnignun félagsins varð afturför í atvinnu Garðbúa og fólki fækkaði og tók ekki að fjölga aftur fyrr en nýir tímar komu með önnur tækifæri í útgerðarmálum. Þá varm sökum hafnleysis í Garðinum, farið að flytja þangað fisk til verkunar, sem skapað hefur mikla atvinnu. Auk þess hafa allmargir byggt sér hús í Garði, en stunda atvinnu annars staðar.

Garður

Gerðaskóli – minnismerki.

Í Gerðahverfinu er skóli Garðbúa. Gerðaskóli er einn elsti skóli landsins, tók til starfa 1872 með 20 börnum. Var hann reistur fyrir frjáls samskot með forgöngu séra Sigurðar Sívertssen á Útskálum og gáfu margir höfðinglega, samt var almenningur tregur til “að sinna þessu nauðsynlega máli, sem barnaskólinn var, og gengu nokkrir hinna efnuðu frá við að styrkja hann”, segir séra Siguður í annál Suðurnesja árið 1972.
Fyrir utan (vestan) Gerðahverfið tekur við Út-Garðurinn. Þar gerðist byggðin strjálli. Þar eru bæirnir Miðhús og Krókur.

Garður

Garður – rúnasteinn á fornmannaleiði.

Neðar eru Síkin milli byggðarinnar og grandans við sjóinn. Krókvöllur og Bræðraborg heita hús nær veginum við vegamótin suður í Sandgerði. Bræðraborg er heiti á fallegum skrúðgarði, sem rækt hefur verið lögð við hin síðari ár. Skammt austar er fornmannaleiði og rúnasteinn.
Á Útskálatorfunni er rúmt um kirkju og prestsetur þar sem þau standa á lágum hól í stóru sléttu túni. Þetta eru gamla og virðulegar byggingar. Kirkjan stendur lægra, innan kirkjugarðs, byggð 1861 og kostaði 1725 ríkisdali. Hún er í góðri hirðu og viðhaldi, enda hefur söfnuður Útskálsóknar alltaf látið sér einkar annt um hana eins og vel kom fram á aldarafmælinu 1961.
Í kirkjugarðinum vekur athygli hvítmálað konulíkneski, sunnan undir kirkjunni. Hún heldur á barni og leiðir annað með sér við hönd. Þetta er Gytta Jakobine Fridrika Lever, sem árið 1832 giftist Thomsen faktor Flensborgarverslunar í Keflavík. Þau eignuðust 3 börn, misstu 2 þeirra nýfædd og sjálf andaðist Gytta “af brjóstveiki og tæringu” haustið 1835 og var jarðsungin að Útskálum 6. nóvember.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Þrem árum síðar fluttist Thosen faktor til Reykjavíkur þar sem þeir feðgar gerðust umsvifamiklir kaupmenn. En sinnar ungu konu minntist hann með því að reisa henni þennan eftirminnilega bautastein.
Árið 1946 fannst sjórekið lík íLambastaðavör. Það var með öllu óþekkjanlegt. Það var jarðsett í Útskálakirkjugarði og á gröfinni reistur fallegur en látlaus minnisvarði um óþekkta sjómanninn. Er þessa jafnan minnst við sjómannadagsguðsþónustur í Útskálakirkju.

Vatnagarður

Garður – Vatnagarður.

Allt um kring eru hinar gömlu hjáleigur, sem eru orðanr sjálfstæðar jarðir fyrir löngu: Vatnagarðar niðri við sjávarkambi (var jafnan tómthús, nú í eyði), Garðhús, Presthús. Móakot, Nýibær, Akurhús I og II, Lónshús á sjávarkambinum utan við Akurhðúsatúnið. Í gamla daga voru Útskálar með öllum sínum fylgijörðum metnir á 41,8 hundruð. Það gaf prestinum talsvert í aðra hönd í eftirgjöldum. Aðalkostur brauðsins var samt útræðið úr tveimur lendingum staðarins (Króksós og Lóninu) því að “í Út-Garðinum er fiskisælt, og ber sjaldan við, að fiskilaust sé, og aldrei til lengdar,” segir Siguður Sívertsen í sóknarlýsingu sinni 1839. Nafn séra Siguðrar minnir á að hann var einn hinn kunnasti í langri röð Útskálapresta, ekki síst fyrir annál sinn og aðra fræðimennsku. Honum eigum við að þakka mikla vitneskju um menn og málefni á Suðurnesjum á fyrri öldum.

Garðskagi

Garðskagaviti.

Í sóknarlýsingu sinni nefnir séra Sigurður eina jörð í Út-Garðinum – Lambastaði. Það höfðu Kirkjubólshverfingar á Miðnesi lendingu þegar þeir stunduðu róðra inn á Garðsjó vegna langræðis á vertíðarslóðir Miðnesinga.
Á Garðskaga nær vitasagan aftur til ársins 1847. Þá segir svo í Suðurnssja annál: “Hlaðin varða á Skaganum til leiðavísis sjófarendum”. Árið 1884 var ljósker sett upp á járnröri sem staðið hefur inni á Skagavörðu. Var því lokið 1. október og skyldi við haldið “með enn frekari umbótum til leiðbeiningar skipum inn í Faxaflóa”.

Garðskagi

Garðskagi – nýi vitinn.

Árið 1897 var gamli vitinn byggður, 12,5 m hár. Hann stendur enn og var gerður að athugunarstöð fyrir fuglaskoðara er annar viti leysti hann af hólmi. Spölkorn ofar stendur nýi vitinn, 27 m hár, reistur 1944. Var hann vígður með guðsþjónustu 10. september 1944. Voru þá vitar landsins orðnir 140 þó aðeins væru liðin 66 ár frá því að fyrsti vitinn var reistur (Reykjanesviti). Í ræðu sem vitamálstjóri, Emil Jónsson, flutti við vígsluna þakkaði hann sóknarprestinum, séra Eiríki Brynjólfssyni á Útskálum, sem hafði undirbúið hátíðarhaldið, en það væri í fyrsta sinn sem tekið væri á móti nýjum vita í héraði af slíkum myndarskap. “Minnir það mig á”, sagði Emil í ræðu sinni, “að fyrstu sagnir um leiðarljós fyrir sjómenn á Íslandi, eru tenglar við kirkjuna. Mér hefir verið á það bent, að verið hafi hér til forna, um 1200 og jafnvel fyrr ákvæði um að ljós skyldi loka í ákveðnum kirkjum, allar nætur tiltekin tímabil. Þegar þessi ákvæði voru rannsökuð nánar kom í ljós, að flestar þær kirkjur, sem hér var um að ræða, voru nálægt sjó, og á þeim stöðum þar sem ætla má að sjófarendur hafi getað notið þeirra sér til leiðbeiningar”. (Faxi, 7.-8. tbl. 1944, s. 8-9).

Garður

Garður – Heiðarhús.

Úr Garðskagavita er víðsýni mikið inn yfir Garð, suður á Miðnes og til norðurs út yfri Faxaflóa og alla leið vestur á Snæfellsjökul í góðu skyggni. En út frá gamla vitanum teygir sig langur skerjagrandi, sem kemur upp úr sjó um fjöru. Þða er hin hættulega Garðsskagaflös. Aðeins nafnið vekur dapra minning, eins og t.d. um Þormóðsslysið 17. febrúar 1943. Á því skipi var 7 manna áhöfn og 24 farþegar. Af þeim voru 22 frá Bíldudal.
Á Skagagnum er víðlent og gróið valllendi, vel fallið til samkomuhalds og til ýmissa hluta nytsamlegt. Hér héldu Garðmenn þjóðhátíð sína 2. ágúst 1974. Það voru saman komin “allt að þriðja hundrað manna, var þar borðhald, drukknar skálar, einnig sungin ljóðmæli, sem við áttu. Sumir gjörðu áheit á baraskólann, honum til viðhalds og framfara.”.
Rúmum 40 árum síðar, þ.e. í lok fyrra stríðs 1916-1918, var öðruvísu um að litast á Skaganum.

Garður

Garður – Heiðarhús.

Þá var hann orðinn að risastórum kálgarði. Hafði ríkið stofnað til þessarar ræktunar í kartöfluleysi Norðurálfuófriðarins og allir Garðbúar sem vildu fengu vinnu við að tína jarðepli upp úr sendinni moldinni. Þessi ríkisræktun á kartöflum á Garðskaga stóð í þrjú ár. Plægðir voru 4 ferhyrndir reitir, 100 m á kant, þara ekið á flögin úr hrönnum í fjörum Skagans og það látið nægja sem áburður. Útsæði var sent úr Reykjavík og skipað upp í Lambastaðavör. Undirvöxtur varð ekki eins mikill og menn væntu. Var kennt um of einhæfum áburði. Næsta sumar gekk betur og svo annt lét landstjórnin sér um þennan rekstur að hún sendi skrifstofustjórann í fjármálaráðuneytinu suður á Skaga til að líta á garðana. Kom hann þangað 18. ágúst og lét vel yfir. Um haustið var haldin mikil uppskeruhátíð í Gerðum og lengi í minnum höfð. Kartöfluræktunin á Skaganum stóð í 3 ár. Eftir það var Skaginn fljótur að gróa sára sinna og varð aftur hið besta tún og gott beitiland fyrir gripi Útskálaprests.
Um nafnið á þessu byggðalagi Suðurnesja, Garður, var skrifað ýtarlega í Árbók FÍ 1977 af dr. Kristjáni Eldjárn.
Frábært veður. Gangan tók 32 klst og 3 mín.

Heimild m.a.;
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Stóri-Hólmur

Brunnur við Stóra-Hólm.