Garður

Gengið var frá Leirunni um Stóra-Hólm, Litla-Hólm, Gufuskála, Rafnkelsstaði, um Gerðar og skoðaðar hinar 14 varir á leiðinni.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Haldið var áleiðis að Útskálum að Garðskaga með viðkomu við Skagagarðinn, en þangað og þaðan var gengið til suðurs um Hafurbjarnastaði, Kirkjuból og Flankastaði.
Samið hafði verið um hið ágætasta gönguveður á svæðinu og gegkk það eftir þrátt fyrir afleita spá. Á leiðinni var fjölmargt að sjá og skoða, s.s. lendingar, letursteina, vatnsstæði, brunna, fornar tóftir og atburðastaði, auk þess leiðin lá um eitt elsta mannvirki landsins, Skagagarðinn. Litla-Hólmsvörin er eitt af undrum Íslands. Fornmannagrafir eru að Hólmi og í Garði og Steinunn gamla, frænka Ingólfs Arnarssonar, var skráð til heimilis á nesinu um tíma. Þá er umhverfið og náttúran óvíða fallegri.
Með í för var Ásgeir Hjálmarsson úr Garði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Við Stóra-Hólm var fornmannaleiði skoðað; bátslaga reitur í túninu norðvestan við húsið. Þennan reit hafði aldrei mátt snerta. Hann var afgirtur til langs tíma, en stendur nú sem eyja í túninu. Greinilegar hleðslur eru í grafreitnum. Hvort þarna geti verið um haug Steinunnar gömlu að ræða, skal ósagt látið.

Á Stóra-Hólmi á að vera letursteinn yfir leiði smala, sem drepinn var þar fyr á öldum. Mælti hann svo fyrir um að hann skyldi grafinn við götuna heim að bænum og mun það hafa verið gert, skammt innan við hliðið, að sögn. Gallinn er bara sá að garðanir hafa verið færðir til og frá í gegnum tíðina, allt eftir því hvernig og hvar túnin voru á hverjum tíma.

Leiran

Leiran – Litla-Hólmsvör.

Elstu menn mynnast letursteins, en eftir að síminn var lagður að bænum, mun talsvert rakst hafa orðið á svæði því sem hann mun hafa verið. FERLIR hefur leitað nokkrum sinnum að steininum, en án árangurs. Hitt getur og verið að letrið sé afmáð, en reynslan hefur sýnt að erfitt er að lesa áklappað letur, sem er eldra en frá u,þ.b. 1500.
Neðan við Litla-Hólm er stórbrotin vör, fallega hlaðin til kantanna. Stór björg voru tekin upp úr vörinni með hjálp sjávaraflsins sem og hestaflsins. Þannig tókst berserkjum fortíðar að forfæra björgin smám saman þangað sem þau nú eru. Ofar og vestan við bæinn er fallega hlaðinn brunnur, nokkuð djúpur. Hann er að mestu óvarinn.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Áfram var haldið yfir að Gufuskálum. Innan við garðhliðið á gamla garðinum er vatnsstæði. Norðvestan þess er hlaðið um lind. Líklegt má telja hleðslurnar nokkuð gamlar og eflaust hefur lind þessi verið notuð um langan tíma, jafnvel allt að því frá upphafi byggðar á Gufuskálum. Sagt hefur verið að Útskálar hafi verið annexía frá Gufuskálum, en þarna er myndarlegt bæjarstæði og mikið af tóftum og gömlum görðum, sumum jarðlægum. Hlaðnir og grónir garðar neðst á ströndinni benda til þess að sjórinn hafi brotið þarna eitthvert land þannig að líklegt má telja að þarna hafi verið öðruvísi útlits áður fyrrum.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Hlaðinn garður er umhverfis Gufuskálatúnin. Í heimtröðinni að gamla bænum er fallegur hestasteinn er myndar drykkjarskál. Hlaðnir kjallaragrunnar eru undir nýrri hús, hlaða aftan við fjós gamals bæjar og tóftir íveruhúss, sem líklega hefur verið breytt í útihús með tilkomu nýja íbúðarhússins.
Á Rafnkelsstaðabergi eru fallegar hraunmyndanir, líkt og við norðan Lónakot vestan Hrauna. Þarna eru og fallega hlaðinn garður úr nokkuð stórum uppreistum grjóthellum. Norðar er Kisturgerði. Þar segir af þjóðsögunni um fornmanngröf og gullkistu. Reyndar eru áhöld um að staðsetning gerðisins sé rétt því við það á að vera, skv. sögunni, letursteinn með rúnum. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerði undir berghömrum. Sagt er að menn hafi viljað leita sannleikans um gullkistuna með stórtækum tækjum, en þá hafi letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, oltið niður og staðnæmst þar sem hann nú er.

Garður

Áletrun á fornmannaleiði í Garði.

Gangið var með ströndinni og varirnar vestan Kópu (Rafnkelsstaðavörina). Þar eru varir s.s. Vararós og Varavör, Bakkavör og aðrar slíkar, nefndar eftir bæjunum, sem enn bera margir hverjir hin gömlu nöfn, þótt húsakynnin séu nú önnur og öðruvísi en áður var.
Staðnæmst var við íþróttahúsið í Garði. Vestan þess er sést enn u.þ.b. 200 metrar af hinni gömlu kirkjugötu Útskálakirkju. Við endan hans að norðanverðu, þar sem túnskákir taka við, eru tóftir. Sagt er að ein þeirra (vinstra megin), sé tóftir Lykkju þeirrar er getið er um í þjóðsögunni um fornmannagröfina og bóndan á bænum, sem hafði látið taka steinhellu mikla á gröfinni og færa í vegg í nýreistum bæ sínum. Birtist fornmaðurinn honum í draum og linnti ekki látum fyrr en bóndi skilaði aftur hellunni á sama stað. Áður hvíldi hellan á þremur steinum öðrum, en eftir að henni var skilað, liggur hún skökk. Þvert yfir helluna má sjá letur, sem ólæsilegt er. Sunnan við helluna er manngerður hóll. Það er mat fornleifafræðings að hann geti reynst áhugaverður skoðunnar.

Kistugerði

Áletrun á steini við Kistugerði.

Gengið var framhjá Lykkju og yfir að Skagagarðinum. Garðurinn var vörslugarður er náði frá Kirkjubóli að Útskálum. Hann var það hár að maður komst ekki yfir hann og það breiður að tveir menn gátu riðið eftir honum samhliða. Talið er að garðurinn hafi verið reistur í kringum 1000 og þá til að varna fé og fólki inn á akursvæðin á Garðskaga. Nöfn bæjanna Akurhús og Akurgerði benda til kornræktar á svæðinu. Skálareykir voru bær hliðvarðarins og má sjá tóftir hans þar sem hæst ber í hann frá Garði.
Kaffi var þegið í vitavarðabústanum á Garðskaga. Fyrsta leiðarmerki fyrir sjófarendur var sett á Garðskaga árið 1847. Þá var halðinn grjótvarða og stóð upp úr henni járnstöng. Landbort hefur lengi verið mikið við Garðskaga. Heimildir segja að gamla Skagavarðan hafi staðið meira en 100 metrum fyrir utan núverandi sjávarkamb.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti.

Danskur skipstjóri, Stillhoff, lagði til árið 1854 að reistur yrði viti á Garðskaga. Þrátt fyrir að tillagan hlyti góðar undirtektir stjórnvalda dróst málið á langinn. Stillhoff drukknaði í nóvember 1857 þegar póstflutningaskip hans fórst við ljóslausa strönd landsins með allri áhöfn.

Ljósker var sett á vörðuna á Garðskaga árið 1884 og jafnframt byggt dálítið hús úr timbri. Kveikt var á ljóskerinu 1. okt. það ár. Árið 1897 var síðan byggður ljósviti á Garðskaga. Ljósgjafinn var olíulampi. Nýr viti var byggður 1944. Ástæðan var sú að sjór hafði gengið mjög á land og brotið það þar sem gamli vitinn stóð. Hann mun vera hæsti viti á landinu.
Skoðað var fuglalífið í fjörunni við Garðskaga og síðan haldið suður með ströndinni. Landamerki Garðs og Sandgerðis eru um Draughól og Sjónarhól. Hinum síðanefnda tengist þjóðsaga um varðveislu vörðunnar, sem á honum er. Á Draughól eru nokkrir þeirra er handteknir voru á Kirkjubóli eftir aðförina að Jóni Arasyni 1550 sagðir hafa verið drepnir og heygðir. Þar við er þriggja stafa letursteinn.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – merki um friðlýsar minjar.

Grafreiturinn neðan við Kirkjuból hefur nú verið varinn, en sjórinn hafði áður verið að dunda við að brjóta hann niður og hirða úr honum beinin. Jón Gerreksson og hópur hans hafði áður brennt bæinn á Kirkjubóli eftir að heimasætan hafði hafnað einum liðsmanna hans. Það reyndist hópnum afdrifaríkt því stúlkan komst undan brennunni og flúði norður á land. Norðanmenn náðu liðsafnaðinum, drekktu Jóni í sekk og drápu hina.

Á Hafurbjarnastöðum fundust kuml þau, sem nú eru til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands, heillegar beinagrindur og einstak gripir er bentu til þess að fólkið gæti hafa haft tengsl við Suðureyjar eða Bretland. Það er nú kannski lítt undarlegt í ljósi þess að norrænir menn höfðu búið þar um nokkurt skeið áður en haldið var til Íslands. Kumlin fundust á örfoka landi norðan við bæjarhúsin. Bein höfðu verið færð þaðan í kirkjugarðinn á Útskálum, en 1942 hafði enn fokið af beinum og fór Kristján Eldjárn á vettvang ásamt fleirum og gróf frá þeim.
Gangan endaði við Flankastaði.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.