Færslur

Stóri-Hólmur

Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru.
Í Landnámu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið frændkonu sinni, Steinunni, Rosmhvalanes allt utan Hvassahrauns, en hún kaus að gefa fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla. Henni þótti það Stóra-Hólmshúsiðóhættara við riftingu. Steinunn kom út til Íslands, ekkja eftir Herlaug bróður Skalla-Gríms og með henni synir hennar tveir, Njáll og Arnórr. Talið er að Steinunn hafi búið að Stóra Hómi (síðar nefndur Stór-Hólmur) í Leiru. Kaup Steinunnar við Ingólf héldu betur en mörg önnur landkaup er Landnáma greinir frá. Síðar kom Ketill gufa út til Íslands, og lenti á hrakhólum. Hann sóttist eftir landi að Gufuskálum í Leiru, en Steinunn fékk hann til að fara annað gegn því að fá verbúðarrétt á Hólmi. Er samkomulag þeirra talið upphaf verstöðva utanhéraðsmanna á Suðurnesjum. Slíkir samningar um aðstöðu og nýtingarétt áttu sér síðan um þúsund ára skeið í atvinnusögu þjóðarinnar.
Litla-HólmshúsiðLandnám Steinunnar tókst og er hún talin meðal fyrstu landsnámsmanna Íslands. Vitsmunir hennar, hagkvæmni og samkomulagsvilji í skiptum við aðra mun hafa verið ástæða þess að við hana festist viðurnefnið og virðingarheitið “hin gamla”.

Í örnefnalýsingu fyrir Hólm segir m.a.: “Þetta var höfuðbólið í Leirunni, næst við Gufuskála. Upplýsingar eru frá þeim sömu og fyrr var getið og þar að auki Jóel  Jónsson, Kötluhól.
Litlihólmur var býli byggt úr landi Stórahólms. Þar var sérstök lending og þar er enn búið. [Við Stóra-Hólm voru] Bakkakot, Nýlenda, Rófa, Garðhús, Ráðagerði og Kötluhóll er nefndur 1703 og enn er hann til sem býli. [Býlið Steinar (Steinakot) er þar einnig að finna.]

Litla-Hólmskot

Í Litlahólmslandi eru hjáleigubýli, Litlahólmskot og Þórukot. Í Sjálfkvíum rak hval 1882. Þetta var stór jörð, margar kýr og mikið að gera. Þess má geta að aldrei fórust skip í Leiru nema frá Litlahólmi. Þá er næst að geta Bakkakots, sem einnig var sérbýli með sérlendingu og grasbýli. Þar voru tvö kot, Traðarkot, þar [sem] þær (svo) voru heitir nú Kúamóatraðir, og Steinar sem fóru í eyði 1930. Innan við Steina tók við Nýlenda. Tún hennar liggur að Bakkakoti. Þar ofar var hjáleiga sem hét Hábær. Þar austur af var Rófa. Upp af henni er hóll sem heitir Kollhóll.
Kötluhóll er grasbýli ofan við Bakkakot. Efst upp við garðinn ofan við bæinn er hóll sem virðist vera holur innan. Heitir hann Kötluhóll. Túngarður er á merkjum móti Garðhúsum. Norðan við Kötluhól er svo Rófan sem fyrr getur. Þar utar og neðar var Nýlenda. Beint fram undan LindBakkakoti er Leiruhólmi. Milli Bakkakots og Hrúðurness, er síðar getur, er Lásalón). Kötluhóll  á fjörustykki frá Stekkjarnefi að Flúðarsnös. Vatnshóll er á merkjum móti Litlahólmi.
Efst við veginn er holt sem heitir Sundvörðuholt. Þar ofar eru Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Á vesturhluta Langholts var 1793 hlaðin varða, nefnd Ranglát. Var hún merki þess hvar mætti leggja línu.
Þá er að athuga Stórahólmslandið. Að vestanverðu eru merkin þannig: Á Stórahólmshólma vestan til við svonefndar Stíflur en það er lágt rif er liggur frá hólmanum að Bakkakotslendingu um stórstraumsfjöru, þá til landsuðurs að merktum steini í litlu sandlóni, svo í austurlendingarkamp hjá Nýlendu. Svo er merkt klöpp efst á Hjallarifi.

Brunnur

Þaðan til landnorðurs austast að Skarfatanga.
Hólmssund hét sundið sem farið var hér um. Inn úr því voru allmargar varir, svo sem Stór[a]hólmsvör, Ráðagerðisvör, svo Hrúðurnesvör og Melbæjarvör er síðar getur. Stór[a]hólmsvör er sú sem sagt er frá 1840. Hafi vörin verið rudd með miklum kostnaði fyrir um 50 árum og fékk sá verðlaun frá konungi fyrir. Fram undan hér er Leiruhólmi. Hólmi þessi var áður grasi vaxinn og þar munu Þjóðverjar hafa haft bækistöðvar sínar. Grjótbelti liggur inn að Hólmssundi, slítur þar sundur og heitir Hrúðurlón. Hjá Stórahólmi var þurrabúð sem heitir Krossabrekka. Þar er bærinn nú. Þar fyrir ofan var kot þar sem nú heita Fjósvellir. Þar upp af var Garðhús. Neðan við Stórahólm er Nikulásarnaust og Nikulásarvör.”
FornmannagröfSumir hafa haldið því fram að Steinunn gamla hafi búið á Steinum ofan og milli Stóra-Hólm og Litla-Hólms og að gröf hennar sé í sléttum hól ofan við Stóra-Hólm, neðan Kötluhóls.
Norðan við íbúðarhúsið að Stóra-Hólmi er bátslaga hleðslur. Kunnugir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn. Aðrir segja hann hafa heitið Stórólfs og bletturinn nefnist Stórólfsleiði. Þennan blett mátti aldrei slá, enda girtur af til langs tíma.
Sagan segir að smali hafi látist þar eftir áverka. Áður en hann lést óskaði hann þess að verða grafinn við götuna heim að bæ. Mun hann hafa verið grafinn “skammt innan við hliðið”. Yfir honum á að vera hella og á henni áletrun. Hella þessi hefur ekki fundist þrátt fyrir leitir.
GarðurÍ örnefnalýsingu fyrir Innrileiru segir m.a. um Hólm: “Verður nú haldið til baka út í Litla-Hólm. Bærinn stóð á háum hól og var norðurhluti hans öskuhaugur. Húsið sem nú er stendur aðeins ofar á hólnum en gamli bærinn.
Stórt tún var á Litla-Hólmi, suðaustan og sunnan við bæinn. Liggur það að túni Bakkakots, sem er við sjóinn suðaustur af Litla-Hólmi. Frá Bakkakoti var gata niður í naust. Aðeins suðaustan við naustin stóðu tvö sjávarhús. Var saltaður fiskur í því austara, en veiðarfæri geymd í hinu. Þessi hús voru pakkhús frá Bakkakoti.
Lending frá Litla-Hólmi var beint niður frá bænum og voru þar einnig sjávarhús fast suðaustan hennar – einnig nefnd pakkhús, en svo voru stærri sjávarhús kölluð á þessum slóðum. Lendingin var kölluð Litla-Hólmsvör (og var langmest mannvirki af öllum vörum í Leiru. Um hana segir svo í bókinni, Undir Garðskagavita: „Litla-Hólmsvör er byggð af Páli bónda Jónassyni, er þar bjó á seinni hluta 19. aldar. Vörin er 50 metra löng, 10 metra breið og vegghæð einn til tveir metrar. Af þessu mikla mannvirki eru 20 metrar byggðir í sjó. Margir steinar í vegghleðslunni munu vega yfir 1 tonn, sumir allt að 2 1/2 tonn. Er hleðslan gerð af meistarahöndum og raunar hið mesta þrekvirki, svo að gengur undrum næst, hvernig verkfæralaus maður hefur getað framkvæmt þetta. Páll Jónsson bjó seinast í Vörum í Garði og dó þar skömmu eftir aldamótin, fimmtugur að aldri.“
Norðvestast í Litla-Hólmstúni voru tvö tómthúskot. Var það efra kallað Litla-Hólmskot, en það neðra Stóra-Hólmsvörhét Móhús. Örskammt var á milli þeirra. Kot þessi munu hafa farið í eyði nálægt 1916.
Suðvestur af miðju Bakkakotstúni voru þrjú tómthúskot frá norðaustri til suðvesturs. Nokkrir faðmar eru á milli þeirra. Næst Bakkakoti var Traðarkot, þá Steinar og fjærst Hábær.
Stórhólmur er nálægt því beint í suður frá Bakkakoti, þó aðeins vestan við suður. Bærinn stóð á miklum hól, Stórhólmshól, ofarlega í túni.
Neðan við hólinn, aðeins austanhallt, var brunnstæði og var þangað sótt vatn, bæði til bæjar og gripa. Fjós var sambyggt gamla bænum.
Lendingin er beint í norðaustur af bænum. Krossabrekka var tómthús, neðanhallt í miðju túni, á milli lendingar og gamla bæjar. Heldur ofar en á þeim stað er nú nýja húsið á Stóra-Hólmi.
HólmurRófa var grasbýli vestur frá Stórhólmi og lágu túnin saman. Bærinn stóð nokkurn veginn í miðju túni. Nýlenda var norðnorðvestast í Rófutúni, Henni fylgdi dálítið tún til austsuðausturs og norðausturs. Tún Stórhólms var neðan og austan þess.
Kötluhóll er suðaustan Rófu. Hann er grasbýli. Tún Rófu og Kötluhóls lágu saman. Bærinn á Kötluhól var suðvestast í túninu.
Suðaustur af Kötluhólstúni voru Garðhús ft., grasbýli. U.þ.b. 100-150 m eru milli Kötluhóls og Garðhúsa.”
Stóri-Hólmur í Leiru er í jarðabók 1861 langstærst metna jörð í Rosmhvalaneshreppi. Um aldamótin [1900] var byggð mjög blómleg í Leirunni. Þá áttu þar heima 134 manns á 29 heimilum, 11 eru taldir bændur, hinir tómthúsmenn. Þá gekk þaðan um einn tugur heimaskipa á vetrarvertíð og á vorvertíð fóru þaðan 62 fleytur þegar flest var.
Skoðaðar voru tóftir hinna gömlu bæja við Stóra-Hólm og Litla-Hólm. Á síðarnefndu jörðinni eru Litla-Hólmskot og Móhús ofan við gamla bæinn. Reynistaður var ofar og nær Langholti. Á síðarnefndu jörðinni má enn sjá tóftir gamla Stóra-Hólms, Rófu, Nýlendu, Steina, Hábæjar, Kötluhóls og Bakkakots. Síðar verður fjallað um innri Leirubæina þar sem nú er golfvallasvæði .
Frábært veður. Gangan tók 2. klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stóra-Hólm (og Litla-Hólm).
-Undir Garðskagavita, bls. 334.

Litla-Hólmsvör

Garður

Gengið var frá Leirunni um Stóra-Hólm, Litla-Hólm, Gufuskála, Rafnkelsstaði, um Gerðar og skoðaðar hinar 14 varir á leiðinni.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Haldið var áleiðis að Útskálum að Garðskaga með viðkomu við Skagagarðinn, en þangað og þaðan var gengið til suðurs um Hafurbjarnastaði, Kirkjuból og Flankastaði.
Samið hafði verið um hið ágætasta gönguveður á svæðinu og gegkk það eftir þrátt fyrir afleita spá. Á leiðinni var fjölmargt að sjá og skoða, s.s. lendingar, letursteina, vatnsstæði, brunna, fornar tóftir og atburðastaði, auk þess leiðin lá um eitt elsta mannvirki landsins, Skagagarðinn. Litla-Hólmsvörin er eitt af undrum Íslands. Fornmannagrafir eru að Hólmi og í Garði og Steinunn gamla, frænka Ingólfs Arnarssonar, var skráð til heimilis á nesinu um tíma. Þá er umhverfið og náttúran óvíða fallegri.
Með í för var Ásgeir Hjálmarsson úr Garði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Við Stóra-Hólm var fornmannaleiði skoðað; bátslaga reitur í túninu norðvestan við húsið. Þennan reit hafði aldrei mátt snerta. Hann var afgirtur til langs tíma, en stendur nú sem eyja í túninu. Greinilegar hleðslur eru í grafreitnum. Hvort þarna geti verið um haug Steinunnar gömlu að ræða, skal ósagt látið.

Á Stóra-Hólmi á að vera letursteinn yfir leiði smala, sem drepinn var þar fyr á öldum. Mælti hann svo fyrir um að hann skyldi grafinn við götuna heim að bænum og mun það hafa verið gert, skammt innan við hliðið, að sögn. Gallinn er bara sá að garðanir hafa verið færðir til og frá í gegnum tíðina, allt eftir því hvernig og hvar túnin voru á hverjum tíma.

Leiran

Leiran – Litla-Hólmsvör.

Elstu menn mynnast letursteins, en eftir að síminn var lagður að bænum, mun talsvert rakst hafa orðið á svæði því sem hann mun hafa verið. FERLIR hefur leitað nokkrum sinnum að steininum, en án árangurs. Hitt getur og verið að letrið sé afmáð, en reynslan hefur sýnt að erfitt er að lesa áklappað letur, sem er eldra en frá u,þ.b. 1500.
Neðan við Litla-Hólm er stórbrotin vör, fallega hlaðin til kantanna. Stór björg voru tekin upp úr vörinni með hjálp sjávaraflsins sem og hestaflsins. Þannig tókst berserkjum fortíðar að forfæra björgin smám saman þangað sem þau nú eru. Ofar og vestan við bæinn er fallega hlaðinn brunnur, nokkuð djúpur. Hann er að mestu óvarinn.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Áfram var haldið yfir að Gufuskálum. Innan við garðhliðið á gamla garðinum er vatnsstæði. Norðvestan þess er hlaðið um lind. Líklegt má telja hleðslurnar nokkuð gamlar og eflaust hefur lind þessi verið notuð um langan tíma, jafnvel allt að því frá upphafi byggðar á Gufuskálum. Sagt hefur verið að Útskálar hafi verið annexía frá Gufuskálum, en þarna er myndarlegt bæjarstæði og mikið af tóftum og gömlum görðum, sumum jarðlægum. Hlaðnir og grónir garðar neðst á ströndinni benda til þess að sjórinn hafi brotið þarna eitthvert land þannig að líklegt má telja að þarna hafi verið öðruvísi útlits áður fyrrum.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Hlaðinn garður er umhverfis Gufuskálatúnin. Í heimtröðinni að gamla bænum er fallegur hestasteinn er myndar drykkjarskál. Hlaðnir kjallaragrunnar eru undir nýrri hús, hlaða aftan við fjós gamals bæjar og tóftir íveruhúss, sem líklega hefur verið breytt í útihús með tilkomu nýja íbúðarhússins.
Á Rafnkelsstaðabergi eru fallegar hraunmyndanir, líkt og við norðan Lónakot vestan Hrauna. Þarna eru og fallega hlaðinn garður úr nokkuð stórum uppreistum grjóthellum. Norðar er Kisturgerði. Þar segir af þjóðsögunni um fornmanngröf og gullkistu. Reyndar eru áhöld um að staðsetning gerðisins sé rétt því við það á að vera, skv. sögunni, letursteinn með rúnum. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerði undir berghömrum. Sagt er að menn hafi viljað leita sannleikans um gullkistuna með stórtækum tækjum, en þá hafi letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, oltið niður og staðnæmst þar sem hann nú er.

Garður

Áletrun á fornmannaleiði í Garði.

Gangið var með ströndinni og varirnar vestan Kópu (Rafnkelsstaðavörina). Þar eru varir s.s. Vararós og Varavör, Bakkavör og aðrar slíkar, nefndar eftir bæjunum, sem enn bera margir hverjir hin gömlu nöfn, þótt húsakynnin séu nú önnur og öðruvísi en áður var.
Staðnæmst var við íþróttahúsið í Garði. Vestan þess er sést enn u.þ.b. 200 metrar af hinni gömlu kirkjugötu Útskálakirkju. Við endan hans að norðanverðu, þar sem túnskákir taka við, eru tóftir. Sagt er að ein þeirra (vinstra megin), sé tóftir Lykkju þeirrar er getið er um í þjóðsögunni um fornmannagröfina og bóndan á bænum, sem hafði látið taka steinhellu mikla á gröfinni og færa í vegg í nýreistum bæ sínum. Birtist fornmaðurinn honum í draum og linnti ekki látum fyrr en bóndi skilaði aftur hellunni á sama stað. Áður hvíldi hellan á þremur steinum öðrum, en eftir að henni var skilað, liggur hún skökk. Þvert yfir helluna má sjá letur, sem ólæsilegt er. Sunnan við helluna er manngerður hóll. Það er mat fornleifafræðings að hann geti reynst áhugaverður skoðunnar.

Kistugerði

Áletrun á steini við Kistugerði.

Gengið var framhjá Lykkju og yfir að Skagagarðinum. Garðurinn var vörslugarður er náði frá Kirkjubóli að Útskálum. Hann var það hár að maður komst ekki yfir hann og það breiður að tveir menn gátu riðið eftir honum samhliða. Talið er að garðurinn hafi verið reistur í kringum 1000 og þá til að varna fé og fólki inn á akursvæðin á Garðskaga. Nöfn bæjanna Akurhús og Akurgerði benda til kornræktar á svæðinu. Skálareykir voru bær hliðvarðarins og má sjá tóftir hans þar sem hæst ber í hann frá Garði.
Kaffi var þegið í vitavarðabústanum á Garðskaga. Fyrsta leiðarmerki fyrir sjófarendur var sett á Garðskaga árið 1847. Þá var halðinn grjótvarða og stóð upp úr henni járnstöng. Landbort hefur lengi verið mikið við Garðskaga. Heimildir segja að gamla Skagavarðan hafi staðið meira en 100 metrum fyrir utan núverandi sjávarkamb.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti.

Danskur skipstjóri, Stillhoff, lagði til árið 1854 að reistur yrði viti á Garðskaga. Þrátt fyrir að tillagan hlyti góðar undirtektir stjórnvalda dróst málið á langinn. Stillhoff drukknaði í nóvember 1857 þegar póstflutningaskip hans fórst við ljóslausa strönd landsins með allri áhöfn.

Ljósker var sett á vörðuna á Garðskaga árið 1884 og jafnframt byggt dálítið hús úr timbri. Kveikt var á ljóskerinu 1. okt. það ár. Árið 1897 var síðan byggður ljósviti á Garðskaga. Ljósgjafinn var olíulampi. Nýr viti var byggður 1944. Ástæðan var sú að sjór hafði gengið mjög á land og brotið það þar sem gamli vitinn stóð. Hann mun vera hæsti viti á landinu.
Skoðað var fuglalífið í fjörunni við Garðskaga og síðan haldið suður með ströndinni. Landamerki Garðs og Sandgerðis eru um Draughól og Sjónarhól. Hinum síðanefnda tengist þjóðsaga um varðveislu vörðunnar, sem á honum er. Á Draughól eru nokkrir þeirra er handteknir voru á Kirkjubóli eftir aðförina að Jóni Arasyni 1550 sagðir hafa verið drepnir og heygðir. Þar við er þriggja stafa letursteinn.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – merki um friðlýsar minjar.

Grafreiturinn neðan við Kirkjuból hefur nú verið varinn, en sjórinn hafði áður verið að dunda við að brjóta hann niður og hirða úr honum beinin. Jón Gerreksson og hópur hans hafði áður brennt bæinn á Kirkjubóli eftir að heimasætan hafði hafnað einum liðsmanna hans. Það reyndist hópnum afdrifaríkt því stúlkan komst undan brennunni og flúði norður á land. Norðanmenn náðu liðsafnaðinum, drekktu Jóni í sekk og drápu hina.

Á Hafurbjarnastöðum fundust kuml þau, sem nú eru til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands, heillegar beinagrindur og einstak gripir er bentu til þess að fólkið gæti hafa haft tengsl við Suðureyjar eða Bretland. Það er nú kannski lítt undarlegt í ljósi þess að norrænir menn höfðu búið þar um nokkurt skeið áður en haldið var til Íslands. Kumlin fundust á örfoka landi norðan við bæjarhúsin. Bein höfðu verið færð þaðan í kirkjugarðinn á Útskálum, en 1942 hafði enn fokið af beinum og fór Kristján Eldjárn á vettvang ásamt fleirum og gróf frá þeim.
Gangan endaði við Flankastaði.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Leiran

Eftirfarandi frásögn Gísla Brynjólfssonar um Leiruna birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1966:
leiran-221“Á Suðurnesjum er nú fleira fólk en nokkru sinni. Og þar er meira um að vera en víðast annars staðar á þessu athafnasama landi. Þar er hliðið inn á loftbrúna, sem liggur til umheimsins héðan frá Ægi girtu Islandi, sem svo lengi hefur verið afskekkt, einangrað, yzt á Ránarslóðum.
Það er því ekki nema næsta eðlilegt að margt hafi breytzt í þessum landshluta og sitthvað af því gamla og góða hafi gengið fullkomlega úr skorðum og farið forgörðum í öllum þessum fólksfjölda og fyrirgangi. Það er líka svo að þarna suður á Nesjunum er ein sveit, sem manni finnst bókstaflega vera að týnast — hverfa — líða burt úr vitund fólksins, a. m. k. heyrir maður hana aldrei nefnda á nafn frekar en hún væri ekki lengur til.
leiran-222Hvaða sveit er þetta? Ekki er það Ströndin eða Grindavík, eða Garðurinn, eða Miðnesið, eða Njarðvíkurnar. Nei, en nú er líka ótalin ein sveit Suðurnesja — Leiran — litla sveitin milli Keflavíkur og Garðs. En það ber svo lítið á henni, að maður getur farið þarna oft um án þess að veita henni nokkra eftirtekt. Í Leirunni eru nú aðeins þrír bæir í byggð; stórbýlið Stóri-Hólmur, Reynistaður, sem er nýbýlí á Litla-Hólmi, og landnámsjörðin Gufuskálar. Á þessum bæjum búa innan við 10 manns, svo að það er ekki nema von að Leiran sé horfin í skugga fjölmennisins í Keflavík, sem er að þengja út yfir öll sín gömlu landamerki. Öðruvísi var. Fyrir eina tíð — það eru raunar ekki nema 86 ár síðan — voru þessir staðir, Keflavík og Leira, með nákvæmlega jafnmarga íbúa — 154 — eitt hundrað fimmtíu og fjórar sálir, eftir því sem segir í Suðurnesjaannál sr. Sigurðar á Útskálum.
leiran-228Það ár getur hann „helztu manna, er uppi eru á Suðurnesjum”. Þessa nefnir hann í Leirunni; Ekkja Kristín Magnúsdóttir í Melbæ, kvenskörungur, greind og góðgerðarsöm, hefur þó ekki mikil efni, en verður allt drjúgt í hendi.
Árni Helgason ekkjumaður í Hrúðurnesi, hugvitssamur, vandvirkur smiður, hinn mesti iðju- og erfiðismaður, hreinlyndur, ráðvandur og guðhræddur. Gísli Halldórsson í Ráðagerði, áhuga og atorkumaður, heppinn til sjávarins, í jarðabótamaður.
Á Gufuskálum bjó Pétur Jónsson með hjálpari í Útskálakirkju í 40 ár, sóma- og merkilegur á marga grein.
Gufuskálar eru landnámsjörð Ketils gufu Öriygssonar. En ekki átti það fyrir honum að liggja, eða fólki leiran-232hans, að setja sVip sinn á byggðina í Leirunni. Frá honum segir svo í Egilssögu: „Ketill gufa kom til Íslands, þá er land var mjög byggt. Hann var hinn fyrsta vetur að Gufuskálum á Rosmhvalanesi. Ketill hafði komið vestan um haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska.
Lönd voru öll byggð á Rosmhvalanesi þann tíma. Réðst Ketill því þaðan á brott og inn í Nes og sat annan vetur á Gufunesi og fékk þar engan ráðstafa. Síðan fór hann í Borgarfjörð og sat þar hinn þriðja vetur Ketill gufa fór síðan vestur í Breiðafjörð og staðfestist í Þorskafirði. Stóri-Hólmur í Leiru er í jarðabók 1861 langhæst metna jörð í Rosmhvalaneshreppi, sem náðí yfir Miðnes, Garð og Leiru. Þá er hún metin á 51.9 hundruð, ásamt þessum hjáleigum: Kötluhóli, Bakkakoti, Litla-Hólmi, Nýlendu, Rófu, Garðhúsum og Ráðagerði.
leiran-233Um aldamótin síðustu var byggð mjög blómleg í Leirunni. Þá áttu þar heima 134 manns á 29 heimilum, 11 eru taldir bændur, hinir tómthúsmenn. Þá gekk þaðan um einn tugur heimaskipa á vetrarvertíð og á vorvertíð fóru þaðan 62 fleytur þegar flest var. En á þessum árum reru fleiri úr Leirunni heldur en Leirubúar. Þar lágu við formenn af Innnesjum, stór-útvegsbændur með skipshafnir sínar og stunduðu sjóinn þaðan, vegna þess hve stutt var á miðin. Sumir þeirra áttu þar verbúðir. Árbækur og annálar bera þess vott að Leiran hefur orðið að gjalda Ægi sinn skatt ekki síður en önnur sjávarpláss.
leiran-223Hér eru nokkur dæmi þess frá síðustu öld;
1830: Fórst skip frá Bakkakoti með 5 mönnum.
1836: Fórst bátur frá Stóra-Hólmi með 3 mönnum.
1863: Fórst bátur úr Leiru með 2 mönnum.
1875: (5. júlí) fórust sex karlmenn og 2 konur úr Leiru, ætluðu í kaupavinnu upp í Borgarfjörð.
1875: (15. okt.) fórst skip úr Leiru með 5 mönnum.
1879: Fórst bátur frá Litla-Hólmi með 4 mönnum.
En frá þessum tíma má minnast á fleira í Leirunni heldur en sjósóknina. Þar var félagslíf og fræðslustofnun, Þar var lagt til baráttu við Bakkus með því að byggja Gúttó, þar sem fundir voru haldnir og samkomur og leikrit sett á svið. Þar var kennt börnum þessarar þéttbýlu sveitar, og svo var byggður skóli úr steinsteypu, og því standa veggir hans enn í dag sem óbrotgjarn minnisvarði um framtak Leirubúa í fræðslumálum meðan sveitin þeirra var og hét.
leiran-234Fyrsti kennari Leiruæskunnar var hinn snjalli hagyrðingur, Ísleifur Gíslason kaupmaður á Sauðárkróki, sem var borinn og barnfæddur í Leirunni. Ekki er hann samt höfundur hinnar alkunnu vísu í söngbók stúdenta:

Hann Árni er látinn í Leiru og lagður í ískalda mold,
og burtu frá sulti og seyru flaug sálin og skildi við hold.
Úr heimi er formaður farinn, sem fram eftir aldregi svaf.
Og nú grætur þöngull og þarinn því hann Árni er pillaður af.

Síðast var kennt í Leiru-skóla árið 1917. Eftir það sóttu börnin fræðslu út í Garð.
Nú yrkir enginn lengúr um Leirubúa, hvorki látna né lifandi. Þar mun skáldunum finnast fátt til um yrkisefnin. Og athafnalífið í Leirunni heyrir líka til liðna tímanum, hann er horfin öld, sem ekki kemur aftur, því allt er orðið breytt, fiskiríið stundað frá fjölmennum plássum, þar sem sjórinn er sóttur á stórum skipum, sem krefjast fullkominna hafnarmannvirkja og önnur aðstaða er í samræmi við það. Þessvegna er lífið í Leirunni að fjara út og dapurt yfir dvínandi byggð. Hinir fáu íbúar sækja atvinnu sina inn í Keflavík eða upp á Völl eins og fleiri Suðurnesjamenn. Varirnar eru orpnar grjóti, spilin fúna uppi á kambi, hjallarnir og fiskhúsin hafa orðið veðrum og vindum að bráð.
Bátarnir horfnir. Raunar liggja hér tvö skip. En þau hvolfa langt uppi á landi. Þau hafa orðið viðskila við hafið vegna þess að enginn maður var eftir til að koma þeim til sjávar. Og hvaða erindi eiga þau líka fram í fjöru þessi skip? Það er enginn sjómaður lengur til í þessu plássi, það er engin vör til a’ð ýta þeim úr, engar árar til að leggja í þeirra keipa, engin rödd til að biðja fyrir þeirra sjóferð. Þess vegna eru þau bezt komin á þurru landi.
Leiran-235En Leiran hefur fengið nýtt hlutverk. Tún hennar hafa verið tekin undir golf, og klúbbur Suðurnesja, sem kennir sig við þessa nóblu íþrótt, er að nema hér land og virðist munu verða þaulsetnari heldur en Ketill gufa forðum daga. Og þar sem fáeinir bændur og fátækir tómthúsmenn börðust fyrir lífinu áður fyrr, þangað aka nú velmegandi borgarar í lúxusvögnum sínum á blíðviðrisdögum um hábjargræðistímann til að fá frískt loft í lungun og liðka stirða limi eftir þreytandi kyrrsetur.”
G. Br.

Í samtali við þá bræður frá Stóra-Hólmi, Guðmund og Bjarna Kjartanssyni, mátti lesa biturð út í forsvarsmenn golfklúbbsins í Leiru. Bæði hafa þeir sýnt þeim bræðrum, sem og systur þeirra, Sigrúnu, ótrúlegan yfirgang með því svo að segja ganga á skítugum skónum yfir tún jarðarinnar að eigendum forspurðum, auk þess sem þeir hafa stórskemmt og jafnvel eyðilagt menningarminjar með ströndinni þegar ruddur var þar upp sjóvarnargarður. T.d. hafa allar varir frá Stóru-Bergvík að Stóra-Hólmi verið eyðilagðar með öllu.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 13. nóvember 1966, bls. 14-15.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.

Leiran

Njáll Benediktsson skrifar um “Mannlíf í Leiru” í Faxa árið 1991:

“Kæri lesandi Faxa, ég undirritaður hef verið beðinn um að rifja upp manntal í Leiru um aldamótin 1900 og hef ég tekið árið 1901 og byrja í Inn-Leiru eins og hún var kölluð.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Innsta húsið hét Bergvík, þar stóð tveggja hæða hús á steinhlöðnum kjallara sem var íbúðarhæfur. Í Bergvík bjuggu fjórar fjölskyldur. Í 1. býli bjó Pétur Pétursson húsbóndi og sjómaður 52 ára, Hallbera Sveinsdóttir kona hans 69 ára, Helga Guðmundsdóttir hjú þeirra 52 ára. f 2. býli Guðrún Guðmundsdóttir húsráðandi 48 ára, Pétur Pétursson sonur húsmóður 17 ára, Sveinsína Pétursdóttir dóttir húsmóður 21 árs, Guðmundur Pétursson sonur húsmóður 14 ára. Í býli 3 þar bjó Árni Sæmundsson húsbóndi og sjómaður 54 ára, Margrét Bjarnadóttir bústýra 59 ára, Hlaðgerður Bjarnadóttir tökubarn 8 ára. Í 4. býli bjó Ólafur Erlendsson húsbóndi og sjómaður 61 árs, Þuríður Eyjólfsdóttir kona hans 51 árs, Kristín Bjarnadóttir tökubam 14 ára.

Leiran

Bergvíkurbrunnur.

Nú höldum við í vestur og komum að Grænagarði, þar býr Jóhann Sigmundsson húsbóndi og sjómaður 37 ára, Þuríður Sigmundsdóttir kona hans 24 ára, Sigmundur Jóhannsson sonur þeirra 4 ára, Pétur Jóhannsson sonur þeirra á fyrsta ári, Kristín Brandsdóttir gestur 63 ára.
Við höldum áfram í vestur og komum í Melshús, þar býr Guðmundur Símonarson húsbóndi og sjómaður 42 ára, Margrét Símonardóttir húsmóðir bústýra 44 ára, Símon Guðmundsson sonur húsbænda 13 ára, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Brynjólfur Magnússon leigjandi bamaskólakennari 40 ára.

Leiran

Hrúðurnesbrunnur. Stóri-Hólmur að handan.

Við komum svo að Lindarbæ þar býr Björn Sturlaugsson húsbóndi og sjómaður 49 ára, Guðrún Erlendsdóttir húsmóðir og bústýra 53 ára, Kristinn Árnason tökudrengur 12 ára.
Nú förum við í austur niður í dalinn eins og hann var kallaður og komum að vatnsbrunni. Hann var hringhlaðinn úr tilhöggnu grjóti átján feta djúpur, mikið meistaraverk. Nú hafa félagar úr Golfklúbbi Suðurnesja byggt yfir þennan brunn, gott verk sem ber að þakka.
Við höldum áfram í norður meðfram sjónum og komum á Melbæjarbakka, þar býr Jóhann Jónsson húsbóndi og sjómaður 33 ára, Ragnhildur Pétursdóttir kona hans 23 ára, Guðrún Oktavía Jóhannsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jenný Dagbjört Jóhannsdóttir á fyrsta ári.

Leiran

Leiran – örnefni á loftmynd.

Við höldum áfram í norður og komum að Melbæ, þar var mikið mannlíf. Þar býr Jón Bjarnason húsbóndi og sjómaður 33 ára, Margrét Ingjaldsdóttir kona hans 29 ára, Sólmundur Jónsson sonur hjónanna 7 ára, Bjarni Pétur Jónsson sonur þeirra 5 ára, Guðrún Jónsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jónína Margrét Jónsdóttir dóttir þeirra á fyrsta ári, Þuríður Jónsdóttir 79 ára lifir af styrk frá ættingjum sínum, Þuríður Bjarnadóttir 41 árs hjú þeirra.
Við höldum áfram í suðvestur og komum að neðra Hrúðurnesi. Þar býr Helgi Árnason húsbóndi, sjómaður og trésmiður 40 ára, Þorbjörg Sigmundsdóttir kona hans 23 ára, Björg Einarsdóttir hjú þeirra 19 ára, Gísli Jónsson sjómaður 66 ára.

Leiran

Leiran 2005 – loftmynd.

Við komum að Efri Hrúðurnesi, þar býr Sigmundur Jónsson húsbóndi og sjómaður 53 ára, Guðríður Ólafsdóttir kona hans 55 ára, Sigurjón Jónsson skjólstæðingur þeirra 11 ára.
Við höldum áfram í norðverstur og komum í Garðhús, þar býr Guðni Jónsson húsbóndi og sjómaður 55 ára, Ástríður Gísladóttir kona hans 54 ára, Sigurður Sigurðsson skjólstæðingur þeirra 11 ára, Þorsteinn Bjarnason sjómaður 71 árs.
Fyrir neðan Garðhús stóð Ráðagerði, stórt timburhús með háu risi, þar býr Jón Jónsson húsbóndi 54 ára, Jóhanna Jónsdóttir kona hans 44 ára, Jóhannes Jónsson 12 ára sonur þeirra, Rannveig Jónsdóttir 10 ára dóttir þeirra, Jóhann Jónsson hjú þeirra 22 ára, Þuríður Jónsdóttir hjú þeirra 21 árs, Vilmundína Lárusdóttir tökubarn á fyrsta ári, Elsa Dórothea 61 árs húskona lifir á eigum sínum, Gísli Halldórsson sjómaður 61 árs.
Leiran
Nú höldum við vestur og komum að býlinu Kötluhól, þar býr Jóhann Vilhjálmsson húsbóndi og sjómaður 50 ára, Margrét Steinsdóttir kona hans 52 ára, Svandís Vigfúsdóttir 14 ára tökubarn, Hallmundur Eyjólfsson 8 ára uppeldissonur.
Fyrir norðan Kötluhól stóð Stór-Hólmsbaðstofan að falli komin, þar býr Sveinn Helgason húsbóndi og sjómaður 46 ára, Þórey Guðmundsdóttir kona hans 49 ára, Helgi Sveinsson sonur þeirra 16 ára, Anna Sveinsdóttir dóttir þeirra 14 ára, Jón Helgason Sveinsson sonur þeirra 10 ára, Guðrún Helga Sveinsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Þórunn Kristín Sigríður Antonsdóttir tökubarn 2 ára, Jón Oddsson húsbóndi 46 ára, Guðleif Oddsdóttir bústýra 28 ára, Jónína Guðleif Jónsdóttir dóttir þeirra 4 ára.
Leiran
Við höldum áfram og komum að bænum Nýlendu, þar býr Einar Eyjólfsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 49 ára, Valgerður Jónsdóttir kona hans 54 ára, Gústaf Gíslason uppeldissonur þeirra 9 ára.
Fyrir ofan Nýlendu stóð bærinn Rófa, þar býr Einar Jónsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 46 ára, Helga Jónsdóttir húsmóðir, bústýra 49 ára, Guðbjörg Einarsdóttir dóttir þeirra 23 ára, Jakobína Rögnvaldsdóttir tökubarn 5 ára. Næst eru það Steinar, þar býr Ólafur Bjarnason húsbóndi, formaður á opnum bát, 50 ára, Hallbera Helgadóttir húsmóðir, bústýra 55 ára, Bergsteinn Bergsteinsson tökudrengur 13 ára.
Nú förum við í austur niður að sjó, þar stóð Bakkakot, stórt timburhús á tveimur hæðum, þar býr Eiríkur Torfason húsbóndi og formaður á opnu skipi, tré- og járnsmiður 42 ára, Sigríður Stefánsdóttir kona hans 33 ára, Leifur Eiríksson sonur þeirra 3 ára, Guðrún Jónína Lilja Eiríksdóttir dóttir þeirra 1 árs, Helga Högnadóttir hjú þeirra 44 ára, Guðrún Einarsdóttir hjú þeirra 17 ára, Jón Högnason leigjandi, háseti á fiskiskipi 24 ára, Stefán Sigurfinnsson sonur húsfreyju 13 ára, Stefán Pálsson leigjandi lifir af eigum sínum 62 ára.
Litli-Hólmur
Þá höldum við í vestur og komum að Litla-Hólmi, þar var hlaðinn vararkampur úr stóru grjóti sem var einn og hálfur meter á hæð. Það var hægt að landa fiski við vararkampinn við hálffallinn sjó, það var mikil framför í gamla daga. Á Litla-Hólmi býr Geir Guðmundur Guðmundsson húsbóndi og vefari 57 ára, Ingunn Vigfúsdóttir kona hans 40 ára, Helga Geirsdóttir dóttir þeirra 10 ára.
Þá komum við að Litlahólmskoti, þar býr Halldóra Þorleifsdóttir húsmóðir, lifir á handavinnu 59 ára. Það má geta þess að árið 1890 eru skráðir heimilisfastir menn í Litla-Hólmskoti 14 menn.
Nú höldum við í norður og komum í Gufuskálaland, það var kallað Út-Leira.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Við komum í Gufuskála, þar býr Eyjólfur Eyjólfsson húsbóndi 51 árs, Sigrún Halldórsdóttir kona hans 47 ára, Halldóra Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 16 ára, Björn Eyjólfsson sonur þeirra 12 ára, Ingibjörg Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Sigrún Oddleif Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 3 ára, Guðjón Jónsson hjú þeirra 27 ára, Sigurður Guðmundsson hjú 65 ára, Elín Magnúsdóttir hjú þeirra 55 ára, Eyjólfur Eyjólfsson sonur hjónanna 13 ára.
Þá er haldið í norðvestur og komið að Vesturkoti, þar býr Eggert Einarsson húsbóndi og sjómaður 56 ára, Þóra Þorsteinsdóttir kona hans 63 ára, Þorsteinn Eggertsson sonur þeirra 33 ára, Björn Eggertsson sonur þeirra 30 ára, Þorgerður Eggertsdóttir dóttir hjónanna 22 ára, Jón Jónsson leigjandi, sjómaður 64 ára, Eiríkur Þorsteinsson sjómaður 59 ára, Guðmundur Guðmundsson sjómaður 39 ára.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Nú höldum við niður að sjó, þar stóð Hausthús, fallegur bær með blóm í haga. Þar býr Jósep Oddsson húsbóndi og sjómaður 46 ára, Gróa Jónsdóttir kona hans 33 ára, Jósepína Jósepsdóttir dóttir hans 11 ára, Jónína Halldóra Jósepsdóttir dóttir þeirra 7 ára, Ólafur Jósepsson sonur þeirra 3 ára, Oddný Jósepsdóttir dóttir þeirra 1 árs.
Fyrir vestan Hausthús er Kóngsgerði, þar býr Þórarinn Eyjólfsson húsbóndi 39 ára, Sigríður Arnadóttir kona hans 43 ára, Ingibjörg Þórarinsdóttir dóttir hans 11 ára, Guðrún Þórarinsdóttir dóttir hans 10 ára, Guðbjörn Þórarinsson sonur þeirra 8 ára, Katrín Árnea Þórarinsdóttir dóttir þeirra 6 ára, Eyjólfur Þórarinsson sonur þeirra 4 ára, Helgi Þórarinsson sonur þeirra 1 árs.
Þá höfum við gengið Leiruna á enda.” – Heimildir eru kirkjubækur Útskála; Njáll Benediktsson, Garði, skráði.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1991, Mannlíf í Leiru- Njáll Benediktsson, bls. 126-128.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Prestavarða

Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru, upp á heiðina fyrir ofan Leiru og að Prestsvörðunni, sem þar er. Frá henni var haldið vestur fir heiðina ofan við Langholt að Árnarétt, fallegri fjárborg, og síðan gengið til norðurs að Ellustekk.

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Stóri-Hólmur er fornt höfuðból í Leiru. Talið hefur verið að Steinunn gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar hafi búið á Stóra-Hólmi á landnámsöld. Að sjálfsögðu deila menn um hinn eiginlega dvalastað hennar í umdæminu, en skv. Landnámu þáði hún Rosmhvalanesið allt af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, fyrir forláta kápu. Það var altalað þá og virðist lengi hafa verið í minnum haft, enda vildi hún að kaup kæmu fyrir gjafakaupin góðu. Í landi Stóra-Hólms er sæmilegur golfvöllur landsins rekin af Golfklúbbi Suðurnesja. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það.
Enn vestar er fallega hlaðinn brunnur. Utar og neðar er Litla-Hólsmvörin, ein tilkomumesta lending á ströndinni. Úr henni hefur verið kastað stóru sjávargrjóti með takmörkuðum tækjabúnaði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Gengið var upp frá Stóra-Hólmi og upp fyrir æfingavöll golfklúbbsins ofan vegar. Skammt ofan við vesturjaðar hans er Prestsvarðan. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum.
Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum.
Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Árnarétt

Árnarétt.

Skammt frá vörðunni er gamla leiðin yfir í Garð frá Keflavík. Önnur leið var norðar, framhjá fjárborginni vestast á Berghólum. Hún sést enn mjög vel á köflum, einkum næst borginni.
Strikið var tekið til vesturs, ofan við Langhóla. Austast á þeim er stór ferhyrnd varða. Í fyrstu gæti hún hafa verið leiðamerki inn í vörðina við Hólm, en þarna mun vera merkilegt fyrirbæri er nefnist Ranglát. Var dregin sjónlína úr henni yfir fjörðinn.  Veiðitakmarkanir voru beggja vegna línunnar. Árnarétt er í heiðinni nokkru vestar. Hún er hringlaga og vel hlaðin. Litlar upplýsingar virðast vera til um mannvirkið, en það gefur Staðarborginni lítið eftir. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Gengið var til norðurs, niður heiðina, að Hríshólavöru og áfram niður að Elínarstekk. Þetta er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er þessu nafni, stundum þó Ellustekkur. Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr. Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=219

Hólmur

Hólmur – örnefnakort; ÓSÁ.

Leiran

Í Lesbók Jólalesbókar Morgunblaðsins 1984 segir Guðmundur A. Finnbogason frá “Leirunni“:

Morgunblaðið

Jólalesbók Morgunblaðsins árið 1984.

“Sjávarpláss á Suðurnesjum, sem eitt sinn slagaði uppí Keflavík — þyrping fátæklegra býla með ofurlitlar grasnytjar, en lífsbjörgin kom umfram allt úr sjónum. Nú býr þar enginn, — bærinn á Stórhólmi stendur einn eftir, en þotur koma í lágflug inn yfir þessa grænu vin, þar sem Suðurnesjamenn koma nú saman í frístundum til að leika golf.
Þegar nútímafólk ekur veginn úr Keflavík og vestur í Garð eða útá Garðskaga blasir Leiran við á hægri hönd. Hér var áður fyrr sjávarpláss með útræði og mörgum smábýlum, sem stóðu á undirlendinu, sem verður þarna. Nú er fátt til minja um þá hörðu lífsbaráttu, sem þar var lifað. Engin kot standa þar lengur; ekki heldur bátar í vörum, en þess í stað má sjá vel búna kylfinga leika kúlum sínum fram og aftur um golfvöllinn, sem Keflvíkingar hafa lagt og ræktað með miklum glæsibrag í Leirunni. Þetta er tímanna tákn. Þar fyrir er óþarft að gleymist, að í sumum af þessum lágu kotum, sem nú sést ekkert eftir af, uxu dugandi menn úr grasi: Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður til dæmis og bræður hans. Menn komu þangað langt að fótgangandi til sjóróðra og fátæktin var fylginautur þeirra sem kusu sér búsetu þar.
Sjaldan er logn í Leiru — og þegar hann blæs að norðan, hellast brimskaflarnir uppá klappirnar og inní vörina og sýna hvað lendingin gat verið varasöm. Um miðja síðustu öld voru meira en 100 manns, sem töldust eiga heimili í Leiru og kotin stóðu engan veginn öll á graslendinu hjá Stóra-Hólmi, heldur á víð og dreif um grýtta fláka, sem verða vestur af Leirunni og standa tóftirnar eftir. Af lífsbaráttunni þar fara litlar sögur.

Landnám Steinunnar gömlu
Leiran
Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.

Síðan fer engum sógum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51. Á Stóra-Hólmi tóldust 23 til heimilis; þar af fern hjón í húsmennsku. Á Litla-Hólmi voru 6 manns í heimili, sjö í Hrúðunesi og 15 á Gufuskálum. Í bændatali á Suðurnesjum 1735 eru skráðir 6 bændur í Leiru, en 13 býli voru þar árið 1801 og íbúarnir 74. Eitthvað hefur árferðið í Leiru ekki verið sem best á fyrriparti síðustu aldar, því býlum fór fækkandi og voru aðeins 6 eftir í byggð árið 1836. Þá brá svo við, að nýtt líf færðist í plássið; býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Þessi býli voru í byggð: Hrúðunes (heimajörð), Melbær (tómthús), Stóri-Hólmur (heimajörð), Ráðagerði, Garðhús, Kötluhóll, Nýlenda, Bakkakot og Litli-Hólmur, er öll voru hjáleigur frá Stóra-Hólmi, Gufuskálar (heimajörð) og Vestur-kot, hjáleiga frá Gufuskálum.
Stóri-Hómlur
Fjölmennasta heimilið var sem áður Stóri-Hólmur. Tíu árum síðar hafði íbúum í Leirunni fjölgað og voru þeir nú orðnir 103 og nú voru bæjarnöfnin orðin 13 og tvö þeirra ný, Krossabrekka skammt frá Nýlendu og Kóngsgerði skammt frá Gufuskálum.

Leiran

Hrúðurnesbrunnur.

Næstu árin stendur íbúatalan í Leirunni næstum í stað frá því sem hún var 1845. Voru tveir búendur á sumum býlunum og enn var mannflest á Stóra-Hólmi.
Árið 1855 voru Keflavíkurbúar 153 að tölu og höfðu þá 47 manns yfir Leirubúa. Upp frá því fer Keflvíkingum fækkandi en Leirubúum fjölgandi. Árið 1870 eru Keflvíkingar 130 en Leirumenn 138 og þá voru bændabýlin í Leirunni 16 að tölu frá Hólmsbergi talið út Leiruna.
Á Hólmsbergi (Leirubergi) hafa með vissu 15 manns orðið úti á tímabilinu 1785 til 1894, í allflestum tilfellum karlmenn, sem voru á ferð frá Keflavík út í Leiru eða Garð að kvöld- eða næturlagi, oft í vondum veðrum og margir undir áhrifum áfengis.
Þegar ég var unglingur heyrði ég um það talað að reimt væri í Berginu og eitthvað hefur hinn landsþekkti Símon Dalaskáld vitað um draugana á Hólmsbergi, eða Leirubergi er hann nefnir svo. Bendir eftirfarandi vísa hans til þess.
Þó að æði eldingar
og ramskæðir smádjöflar
ég mun hræðast ekki þar
úti á svæði Leirunnar.

Nær allir áttu fleytur
Leiran
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þaðan var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertiðirnar voru þó almesti sjósóknartíminn og oftast allra besti fiskitíminn.

Leiran

Leiran – Gamli barnaskólinn.

Úr Leirunni var oft á tíðum hægt að sækja til fiskjar á bæði borð, þegar frá landi var á flot komið og þá ekki síður mátti sækja fram af landsteinunum út í Leirusjóinn, sem einatt var gjöfull þegar netafiskur gekk inn á grunnmiðin á vetrarvertíðum frá mars til maí. Eins gátu Leirumenn sótt innar í Flóann, inn á Njarðvíkurleir og Njarðvíkurbrúnir, inn undir Stapa, Voga og Strandarbrúnir. Var það helst þegar fiskur var genginn hjá í Leirusjó og lagstur þar inn á leir og brúnum. Svo var það Garðsjórinn, hinn næstum því ótæmandi aflasjóður (áður en erlendu togararnir komu), er einatt mátti leita til jafnt vetur, sumar, vor og haust.

LeiranHann hafði oftast eitthvað gott að gefa bótt misjafnt væri að magni. Voru gæðin einatt þau sömu, glæný ýsa, koli, lúða, steinbítur og svo framvegis.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni.

Leiran

Litla-Hólmsvör.

Á þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufuskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum en færri af öðrum. Leirubændur og hjáleigumenn áttu nær allir árafleytur til sjósóknar — þó ekki allir vertíðarskip. Voru þeir er smærri fleyturnar áttu þá vetrarvertíðarsjómenn á stærri skipunum. Einstöku réru þó árið um kring á sínum bátum, 2—4 manna förum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan. Það mun hafa verið á síðustu tugum sl. aldar, að stærri útvegsskip af Álftanesi og Seltjarnarnesi fóru að heiman suður í Leiru. Þar var oft á tíðum meiri aflavon og styttra að sækja á fiskimiðin. Þessir bændur áttu sín fiskibyrgi og sumir verbúðir í Leirunni (ef verbúðir skyldi kalla). Sumir hverjir fengu inni með sig og sína skipshöfn á bæjunum þar í Leirunni. Meðal þeirra er hýstu Innnesinga á vetrarvertíð voru hjónin í Ráðagerði, þau Gísli Halldórsson og Elsa Dórothea Jónsdóttir, foreldrar hins landsþekkta hagyrðings Ísleifs Gíslasonar, kaupmanns á Sauðárkróki.

Sofið á þangi milli rúmanna
Leiran
Dóróthea Gísladóttir, dóttir þeirra hjóna, sem fæddist í Ráðagerði 1886 og ólst þar upp, varð háöldruð kona, dó á miðjum tíræðisaldri, gáfuð og minnug. Hún sagði mér að þegar hún var telpa í foreldrahúsum hefði skipshöfn af Innnesjum haft viðlegu á heimili foreldra hennar í Ráðagerði. Þar svaf heimilisfólkið í baðstofu í rúmum sitt til hvorrar handar en dálítið gangpláss á milli rúmanna. Á því gangplássi- fékk aðkomuskipshöfnin svefnpláss. Ekki var um annað pláss að ræða á þeim bæ. Þang var látið á gólfið á milli rúmanna. Sváfu sjómennirnir á þanginu en höfðu teppi eða brekán ofan á sér. Á daginn var svo þanginu ýtt með fótunum undir rúmin — tekið svo fram að nýju á kvöldin.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Stóra-Hólmsbændur fengu oft góða hrognkelsaveiði í Hólmósnum. Þar fékkst og síld í lagnet. Allur reki undir Hólmsberginu tilheyrði Stóra-Hólmi. Var Helguvík besti rekastaðurinn. Rak þar oft mikið á stríðsárunum og lengur. Fuglatekja var og nokkur í berginu — mest svartfugl.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Árið 1930 voru aðeins 5 bændabýli eftir í Leirunni í byggð, en það voru: Bakkakot, Litli-Hólmur, Stóri-Hólmur, Lindarbær og Vesturkot og íbúarnir alls ekki nema 33. Síðan fór býlunum enn fækkandi þar til eftir var orðið aðeins eitt. Var það hið forna býli Stóri-Hólmur er þar stóð enn í byggð 1960.
Síðasti bóndinn í Leirunni bjó á Stóra-Hólmi sem og hinn fyrsti. Aldir, ár og dagar voru á milli Steinunnar gömlu sem fyrst var ábúandi og Kjartans Bjarnasonar sem var þeirra síðastur og margt hafði gerst í Leirunni á því tímabili, bæði til sjós og lands og aldrei fékk hún Steinunn að fylgjast með golfmóti á heimatúninu sínu.
Kjartan Bjarnason síðasti bóndinn á Stóra-Hólmi er Dýrfirðingur að ætt og er nú 86 ára að aldri. Hann og kona hans tóku við búskap á jörðinni 1936 og bjuggu góðu búi í röska tvo áratugi.
Í dag eiga tveir synir Kjartans heima á Stóra-Hólmi en hafa engan búskap þar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. Jólalesbók 22.12.1984, Leiran, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 33-34.
Leiran