Færslur

Garður

Gengið var frá Leirunni um Stóra-Hólm, Litla-Hólm, Gufuskála, Rafnkelsstaði, um Gerðar og skoðaðar hinar 14 varir á leiðinni.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Haldið var áleiðis að Útskálum að Garðskaga með viðkomu við Skagagarðinn, en þangað og þaðan var gengið til suðurs um Hafurbjarnastaði, Kirkjuból og Flankastaði.
Samið hafði verið um hið ágætasta gönguveður á svæðinu og gegkk það eftir þrátt fyrir afleita spá. Á leiðinni var fjölmargt að sjá og skoða, s.s. lendingar, letursteina, vatnsstæði, brunna, fornar tóftir og atburðastaði, auk þess leiðin lá um eitt elsta mannvirki landsins, Skagagarðinn. Litla-Hólmsvörin er eitt af undrum Íslands. Fornmannagrafir eru að Hólmi og í Garði og Steinunn gamla, frænka Ingólfs Arnarssonar, var skráð til heimilis á nesinu um tíma. Þá er umhverfið og náttúran óvíða fallegri.
Með í för var Ásgeir Hjálmarsson úr Garði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Við Stóra-Hólm var fornmannaleiði skoðað; bátslaga reitur í túninu norðvestan við húsið. Þennan reit hafði aldrei mátt snerta. Hann var afgirtur til langs tíma, en stendur nú sem eyja í túninu. Greinilegar hleðslur eru í grafreitnum. Hvort þarna geti verið um haug Steinunnar gömlu að ræða, skal ósagt látið.

Á Stóra-Hólmi á að vera letursteinn yfir leiði smala, sem drepinn var þar fyr á öldum. Mælti hann svo fyrir um að hann skyldi grafinn við götuna heim að bænum og mun það hafa verið gert, skammt innan við hliðið, að sögn. Gallinn er bara sá að garðanir hafa verið færðir til og frá í gegnum tíðina, allt eftir því hvernig og hvar túnin voru á hverjum tíma.

Leiran

Leiran – Litla-Hólmsvör.

Elstu menn mynnast letursteins, en eftir að síminn var lagður að bænum, mun talsvert rakst hafa orðið á svæði því sem hann mun hafa verið. FERLIR hefur leitað nokkrum sinnum að steininum, en án árangurs. Hitt getur og verið að letrið sé afmáð, en reynslan hefur sýnt að erfitt er að lesa áklappað letur, sem er eldra en frá u,þ.b. 1500.
Neðan við Litla-Hólm er stórbrotin vör, fallega hlaðin til kantanna. Stór björg voru tekin upp úr vörinni með hjálp sjávaraflsins sem og hestaflsins. Þannig tókst berserkjum fortíðar að forfæra björgin smám saman þangað sem þau nú eru. Ofar og vestan við bæinn er fallega hlaðinn brunnur, nokkuð djúpur. Hann er að mestu óvarinn.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Áfram var haldið yfir að Gufuskálum. Innan við garðhliðið á gamla garðinum er vatnsstæði. Norðvestan þess er hlaðið um lind. Líklegt má telja hleðslurnar nokkuð gamlar og eflaust hefur lind þessi verið notuð um langan tíma, jafnvel allt að því frá upphafi byggðar á Gufuskálum. Sagt hefur verið að Útskálar hafi verið annexía frá Gufuskálum, en þarna er myndarlegt bæjarstæði og mikið af tóftum og gömlum görðum, sumum jarðlægum. Hlaðnir og grónir garðar neðst á ströndinni benda til þess að sjórinn hafi brotið þarna eitthvert land þannig að líklegt má telja að þarna hafi verið öðruvísi útlits áður fyrrum.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Hlaðinn garður er umhverfis Gufuskálatúnin. Í heimtröðinni að gamla bænum er fallegur hestasteinn er myndar drykkjarskál. Hlaðnir kjallaragrunnar eru undir nýrri hús, hlaða aftan við fjós gamals bæjar og tóftir íveruhúss, sem líklega hefur verið breytt í útihús með tilkomu nýja íbúðarhússins.
Á Rafnkelsstaðabergi eru fallegar hraunmyndanir, líkt og við norðan Lónakot vestan Hrauna. Þarna eru og fallega hlaðinn garður úr nokkuð stórum uppreistum grjóthellum. Norðar er Kisturgerði. Þar segir af þjóðsögunni um fornmanngröf og gullkistu. Reyndar eru áhöld um að staðsetning gerðisins sé rétt því við það á að vera, skv. sögunni, letursteinn með rúnum. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerði undir berghömrum. Sagt er að menn hafi viljað leita sannleikans um gullkistuna með stórtækum tækjum, en þá hafi letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, oltið niður og staðnæmst þar sem hann nú er.

Garður

Áletrun á fornmannaleiði í Garði.

Gangið var með ströndinni og varirnar vestan Kópu (Rafnkelsstaðavörina). Þar eru varir s.s. Vararós og Varavör, Bakkavör og aðrar slíkar, nefndar eftir bæjunum, sem enn bera margir hverjir hin gömlu nöfn, þótt húsakynnin séu nú önnur og öðruvísi en áður var.
Staðnæmst var við íþróttahúsið í Garði. Vestan þess er sést enn u.þ.b. 200 metrar af hinni gömlu kirkjugötu Útskálakirkju. Við endan hans að norðanverðu, þar sem túnskákir taka við, eru tóftir. Sagt er að ein þeirra (vinstra megin), sé tóftir Lykkju þeirrar er getið er um í þjóðsögunni um fornmannagröfina og bóndan á bænum, sem hafði látið taka steinhellu mikla á gröfinni og færa í vegg í nýreistum bæ sínum. Birtist fornmaðurinn honum í draum og linnti ekki látum fyrr en bóndi skilaði aftur hellunni á sama stað. Áður hvíldi hellan á þremur steinum öðrum, en eftir að henni var skilað, liggur hún skökk. Þvert yfir helluna má sjá letur, sem ólæsilegt er. Sunnan við helluna er manngerður hóll. Það er mat fornleifafræðings að hann geti reynst áhugaverður skoðunnar.

Kistugerði

Áletrun á steini við Kistugerði.

Gengið var framhjá Lykkju og yfir að Skagagarðinum. Garðurinn var vörslugarður er náði frá Kirkjubóli að Útskálum. Hann var það hár að maður komst ekki yfir hann og það breiður að tveir menn gátu riðið eftir honum samhliða. Talið er að garðurinn hafi verið reistur í kringum 1000 og þá til að varna fé og fólki inn á akursvæðin á Garðskaga. Nöfn bæjanna Akurhús og Akurgerði benda til kornræktar á svæðinu. Skálareykir voru bær hliðvarðarins og má sjá tóftir hans þar sem hæst ber í hann frá Garði.
Kaffi var þegið í vitavarðabústanum á Garðskaga. Fyrsta leiðarmerki fyrir sjófarendur var sett á Garðskaga árið 1847. Þá var halðinn grjótvarða og stóð upp úr henni járnstöng. Landbort hefur lengi verið mikið við Garðskaga. Heimildir segja að gamla Skagavarðan hafi staðið meira en 100 metrum fyrir utan núverandi sjávarkamb.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti.

Danskur skipstjóri, Stillhoff, lagði til árið 1854 að reistur yrði viti á Garðskaga. Þrátt fyrir að tillagan hlyti góðar undirtektir stjórnvalda dróst málið á langinn. Stillhoff drukknaði í nóvember 1857 þegar póstflutningaskip hans fórst við ljóslausa strönd landsins með allri áhöfn.

Ljósker var sett á vörðuna á Garðskaga árið 1884 og jafnframt byggt dálítið hús úr timbri. Kveikt var á ljóskerinu 1. okt. það ár. Árið 1897 var síðan byggður ljósviti á Garðskaga. Ljósgjafinn var olíulampi. Nýr viti var byggður 1944. Ástæðan var sú að sjór hafði gengið mjög á land og brotið það þar sem gamli vitinn stóð. Hann mun vera hæsti viti á landinu.
Skoðað var fuglalífið í fjörunni við Garðskaga og síðan haldið suður með ströndinni. Landamerki Garðs og Sandgerðis eru um Draughól og Sjónarhól. Hinum síðanefnda tengist þjóðsaga um varðveislu vörðunnar, sem á honum er. Á Draughól eru nokkrir þeirra er handteknir voru á Kirkjubóli eftir aðförina að Jóni Arasyni 1550 sagðir hafa verið drepnir og heygðir. Þar við er þriggja stafa letursteinn.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – merki um friðlýsar minjar.

Grafreiturinn neðan við Kirkjuból hefur nú verið varinn, en sjórinn hafði áður verið að dunda við að brjóta hann niður og hirða úr honum beinin. Jón Gerreksson og hópur hans hafði áður brennt bæinn á Kirkjubóli eftir að heimasætan hafði hafnað einum liðsmanna hans. Það reyndist hópnum afdrifaríkt því stúlkan komst undan brennunni og flúði norður á land. Norðanmenn náðu liðsafnaðinum, drekktu Jóni í sekk og drápu hina.

Á Hafurbjarnastöðum fundust kuml þau, sem nú eru til sýnis á Þjóðminjasafni Íslands, heillegar beinagrindur og einstak gripir er bentu til þess að fólkið gæti hafa haft tengsl við Suðureyjar eða Bretland. Það er nú kannski lítt undarlegt í ljósi þess að norrænir menn höfðu búið þar um nokkurt skeið áður en haldið var til Íslands. Kumlin fundust á örfoka landi norðan við bæjarhúsin. Bein höfðu verið færð þaðan í kirkjugarðinn á Útskálum, en 1942 hafði enn fokið af beinum og fór Kristján Eldjárn á vettvang ásamt fleirum og gróf frá þeim.
Gangan endaði við Flankastaði.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Býjaskersrétt

Í Faxa 1980 spyr Skúli Magnússon “Hvort er réttara; Býjasker eða Bæjarsker?

“Halldóra á Bæjarskerjum sendi Faxa pistil um örnefnið Bæjarsker, sem birtist í 2. tbl. 1980. Hallaðist hún jafnvel að því að kalla eigi jörðina Býjasker. Vitnar hún þar í nokkrar heimildir frá seinni tímum máli sínu til stuðnings.

Býjasker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan Reykjanesskaga. Væntanlega heftir Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög. Víkin fyrir innan eyrina var kölluð Sandgerðisvík. Víkin þótti ákjósanleg til útgerðar mótorbáta. Fyrsti mótorbáturinn, sem kom til Sandgerðis, hét Gammur RE 107. Kom hann 4. febrúar 1907 og komu þar með mótoristar til starfa. Sá fyrsti hét Olaf Olsen, sem var síðar þekktur maður í Njarðvíkum.

Meðal annars til ritgerðar eftir Magnús Þórarinsson frá Flankastöðum. Líklega mun óhætt að treysta frásögnum hans, enda hefur maðurinn skráð einhverjar bestu ritgerðir sem til eru um Suðurnes. Greinarnar eru nákvæmar, á góðu máli og bera vott um mikla glöggskyggni höfundarins á umhverfi sitt. Bókin “Frá Suðurnesjum“, sem út kom 1960, er að miklu leyti handverk Magnúsar, og ber þess glöggt vitni. Þátturinn um leiðir og örnefni á Miðnesi er t.d. stórmerkur og virðist traust heimild. Bókin er eflaust sú besta sem komið hefur frá Suðurnesjum, enda skrifuð af heimamönnum, er þekktu nágrenni sitt allt frá æsku.
Frá SuðurnesjumEn svo ég snúi mér að efninu var erindið að skýra frá nokkrum niðurstöðum, sem ég fann, eftir að hafa kannað lítillega heimildir um örnefnið Býjasker.
Eftir því sem ég komst næst við lestur Fornbréfasafnsins, sem er ein aðalheimild Íslendingasögunnar, hefur snemma orðið venja að skrifa „Býja-” í stað „Bæjar-“. Í nafnaskrá Fornbréfasafns er orðið býr gefið upp í merkinu bær. Vel má vera að þarna liggi ráðningin. Í orðabók Menningarsjóðs er hins vegar talað um býjarbyggð, “að hafa býjarbyggð”, í merkingunni að annast févörslu. Orðið er gamalt og tíðkast lítið í nútímamáli. Einhverjum kynni að detta í hug skyldleika orðsins við dönsku, jafnvel að áhrifa gæti þaðan. Ekki þarf það að koma til greina, þar eð orðmyndin „Býja-” kemur strax fyrir um 1270. Skyldleiki getur hafa orðið við norskuna, enda höfðu Íslendingar meiri samskipti við Norðmenn á þessum tíma, en suður til Danmerkur.
Nafnið Bæjarsker kemur fyrst fyrir í Landnámu. Þar er frásögn af hólmgönguáskorun Hrolleifs í Heiðabæ í Þingvallasveit gegn Eyvindi í Kvíguvogum syðra.
Segir, að þeir hafi í staðinn „keypt löndum. Eyvindr bjó nokkra vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja …”. (Ísl.sögur I, bls. 230-31. Rvík 1953).
Fram að þessu hefur gullaldarmálið staðið fyrir sínu, og trúlega er þetta upphaflegur ritháttur nafnsins. En er á leið breyttist orðið í meðförum, og um 1270 er það: „bíasker”, í skrá yfir hvalskipti Rosmhvelinga, sem prentuð er stafrétt í Fornbréfasafni. (II. bindi, bls. 77).

Býjasker

Býjasker – loftmynd 2020.

Í Hítardalsbók, sem hefur að innihalda kirknaskrá, frá um 1367, (handritið talið skr. um ca. 1650), er rætt um „Býjasker”. (Fornbr.sa. III, bls. 221). Á Bæjarskerjum var þá kirkja, helguð heilögum Úlafi Noregskonungi. Þarna kemur nafnið fyrst fyrir í núverandi mynd. Er það síðan skrifað þannig allar götur til 1570, nema í reikningum Kristjáns skrifara á Bessastöðum. Þeir reikningar eru yfir tekjur af konungsjörðum víða um land fyrir árin 1547-48. Þar er jörðin kölluð „Beersker”. Trúlega kennir þar þýskra áhrifa, enda var Kristján ættaður frá Þýskalandi (Fornbr.s. XII, bls. 116). Hins vegar kemur fram í VII. bindi Fornbréfasafns, bls. 53, að máldagi Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, var lesinn upp, á héraðsþingi á „Bæjarskerjum” 6. febr. 1749. Máldaginn var hins vegar frá miðöldum og hefur trúlega verið lagður fram sem sönnunargagn í einhverju máli, sem þá var háð. Þarna kemur orðið í ljós, við upplestur og bókfærslu á 18. öld.

Býjasker

Býjaskershverfi – túnakort 1919.

Ekki hafði ég tíma til að kanna ítarlega Alþingisbækurnar, gerðabækur þingsins, allt frá miðöldum, sem eru önnur aðalheimild (Íslandssögunnar, ásamt Fornbréfasafni). Einnig Alþingisbækur eru gefnar út stafrétt, og hafa því töluvert málsögulegt gildi. En við lauslegt yfirlit bókanna sýndist mér, að þar kæmi oftar fyrir Býjasker en Bæjarsker.
Ég hygg að Bæjarsker sé upphaflega nafngiftin, og skírskota þá til Ara fróða.

Býjasker

Býjasker – loftmynd 1954.

Fljótt virðist málvenjan hafa orðið Býjasker, sú orðmynd orðið algengust, en hin horfin. Því er ekki óeðlilegt þó gamalt fólk hafi notað meir það orð. Síðan hefur nafngiftin komist á prentaðar bækur og loks á landakort á 19. öld.
Sjálfur finnst mér fara betur í málinu orðið Bæjarsker en Býjasker. Hið seinna er svolítið dönskuskotið þrátt fyrir allt. Ég held því, að það sé ekki röng þróun þó jörðin hafi [í seinni tíð frekar gengið undir nafninu Bæjarsker, því líklega er það upphaflega nafnið.” – Skúli Magnússon

Í tveimur tölublöðum Faxa 1983 fjallar Halldóra Thorlacius um Jón Jónsson, bónda, og ættbálk hennar á Bæjarskerjum:

Býjasker

Býjasker – Jón Jónsson.

“Á Bæjarskerjum í Miðneshreppi býr Jón Jónsson, 87 ára gamall. Hann er fæddur laugardag í mið-þorra 1896.
Jón segir svo frá: “Á Bæjarskerjum hefur sama ættin búið í 128 ár. Árið 1855 fluttist afi minn, Oddur Bjarnason austan úr Vestur-Skaftafellssýslu til Suðurnesja. Keypti hann Bæjarskerin og bjó þar til æviloka.
Með honum komu, faðir hans Bjarni Oddson, eiginkona Guðný Sveinsdóttir og börn þeirra, Bjarni, Ragnhildur og Jón faðir minn. Hann var fæddur að Borgarfelli 13. apríl 1855 og því ekki nema rétt mánaðar gamall þegar foreldrar hans lögðu upp í þessa löngu ferð, sem tók hálfan mánuð.
Nærri má geta að það hefur verið erfið ferð fyrir móður og barn að fara þessa löngu leið. Á þessum tíma voru vegir ekki eins góðir og nú gerist. Aðeins hestavegir og óbrúaðar ár. Ekki er heldur víst að hestar hafi verið til fyrir alla fjölskylduna.
BýjaskerÁrið 1870, 4. febrúar, varð afi minn úti á Miðnesheiði. Hafði hann farið til Keflavíkur í kaupstaðarferð. En þangað voru flestar vörur sóttar á þeim tíma. Oft kom það fyrir að menn voru ekki vel búnir þegar farið var að heiman. Þegar svo til Keflavíkur kom þurftu þeir að bíða hálfu og heilu dagana eftir afgreiðslu. Þeir voru orðnir þreyttir og svangir þegar lagt var aftur af stað á heiðina. Þó Miðnesheiði þyki ekki erfið yfirferðar nú voru vegir lélegir á þessum tíma og kennileiti fá. Þá var hún villugjörn í stormum og stórhríð á vetrum.
Þegar afi minn dó var faðir minn 15 ára. Hann varð aðalstoð móður sinnar. Vegna erfiðleika missti amma mín jörðina. Þá eignaðist hana séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum. Amma og faðir minn fengu þar ábúð áfram.
Og þegar faðir minn giftist fékk hann lífstíðarábúð.
Móðir mín, Þuríður Einarsdóttir, var fædd á Kirkjubóli í Útskálasókn. Í móðurætt var hún ættuð úr Garðinum en faðir hennar Einar Pálssonar var úr Vestur-Skaftafellssýslu.
Foreldrar mínir giftu sig 21. júní 1890 og bjuggu á Bæjarskerjum til æviloka. Eins og víða á Suðurnesjum munu efnin ekki hafa verið mikil. Faðir minn var laginn við tré og járn. Hafði hann smiðju og smíðaði fyrir nágrannana. Ég minnist þess að hann smíðaði nálar og skeifur en þó mest ljábakka. Einnig gerði hann við ýmis amboð. Mun þessi vinna hans hafa drýgt tekjurnar nokkuð. En með sparsemi og mikilli vinnu voru foreldrar mínir alltaf sjálfum sér nógir.

Býjasker
Foreldrar mínir eignuðust fimm börn. Oddur var elstur. Fæddur árið 1884. Kona hans var Helga Bjarnadóttir, ættuð austan úr Árnessýslu. Þau bjuggu í Norður-Miðkoti. Einar var fæddur 1886. Hann var alla ævi til heimilis hér að Bæjarskerjum. Ragnhildur var fædd 1890. Hún var alltaf hér heima. Missti hún unnusta sinn Jónas Bjarna Benónýsson í febrúar 1914. Hún eignaðist einn son Jónas Bjarna Jónasson, fæddan 24. maí 1914. Ragnhildur var með hann hér á Bæjarskerjum. Hún annaðist foreldra okkar þegar aldur færðist yfir þá. Síðan okkur bræðurna og var okkur stoð og stytta meðan henni entist aldur og heilsa til. Bjarni var fæddur 1893. Kona hans var Guðrún Benediktsdóttir. Móðir hennar var ættuð úr Garðinum, en faðir hennar austan af fjörðum. Bjarni og Guðrún byggðu sér hús í Sandgerði er þau nefndu Haga. Börn þeirra eru Sigurður og Jóna. Ég var yngstur. Fæddur laugardag í mið-þorra 1896.

Býjasker
Þ
egar foreldrar okkar systkinanna voru látin keyptum við Einar og Ragnhildur jörðina Bæjarsker aftur. Var hún þá komin í eigu Bjarna Péturssonar blikksmiðs í Reykjavík. Það er árið 1938 sem hún kemur aftur í eigu ættar okkar.
Ekki er hægt að segja að búið hafi verið stórt á nútíma mælikvarða. Þar voru 30-40 fjár og 3-6 kýr. En svo var alltaf töluvert útræði héðan. Faðir minn gerði alltaf út. Það var aðaltekjulind heimilisins. Hann gerði út Heklu sem var 8 – 10 manna far. Við vorum allir feðgarnir á sama báti. Faðir minn hafði meiri áhuga á sjómennsku en landbúnaði. En honum þurfti líka að sinna. Oft þegar komið var að landi mátti maður fara að smala og huga að skepnunum.

Býjasker

Býjasker – sjóbúð.

Þegar ég var að alast upp var fjölmennara hér í hverfinu en nú er. Það var stór hópur ánægðra barna sem lék sér hér á túnunum þegar tími gafst til leikja, en börn þá voru látin vinna strax og kraftar leyfðu.
Hér var saltfiskverkun. Fiskurinn var vaskaður niður við sjó. Sjórinn var borinn í stór kör uppi á kampinum og vaskaður þar. Það voru aðallega konur sem vöskuðu en börn og unglingar breiddu fiskinn til þerris. Seinnipart sumars komu skip hér á víkina og tóku bæði þurrkaðan saltfisk og þurrkaða fiskhausa til útflutnings.

Býjasker

Býjasker – fjárhús.

Heyskapur byrjaði yfirleitt ekki fyrr en í júlí. Hér var allt slegið með orfi og ljá á mínum uppvaxtardögum. Farið var á fætur kl. 3-4 á næturnar til þess að slá. Það var gert til þess að nota rekjuna (náttfallið). Þá beit betur. Var staðið við slátt fram undir hádegi og þá lagði maður sig oft. Ef rekjan var næg var slegið allan daginn. Það var ánægjulegt að koma út um lágnættið í góðu veðri og finna þögnina og kyrrðina. Sjá og heyra fuglana og allt líf vakna þegar kom fram á morgun.

Býjasker

Býjaskersrétt 1983.

Smalamennskan var mér nú hugljúfust. Að ganga um heiðar og líta að fé. Ég tala nú ekki um á vorin þegar ærnar voru að bera. Finna nýborin löb og hlúa að þeim og ánni.
Í Leirunni var mjög góð fjörubeit og okkar fé sótti þangað mikið yfir Miðnesheiðina. Aðallega sótti það í Bergvík og Sjálfkvíar sem eru fyrir utan Litla-Hólmsjörðina. Einnig sótti það í Helguvíkina. Þangað niður var einstigi og því erfitt að fylgja því eftir. Það þurfti að vakta féð því það vildi sækja langt út í fjöru í þarann. Það uggði ekki að sér þegar féll að. Varð því að fara og reka frá fjörunni áður en hálffalið var að.

Býjaskerstétt

Býjarskersrétt-uppdráttur.

Göngur og réttir þóttu mér skemmtilegar. Héðan áttu smalar að fara lengst austur í Selvog. Voru sendir 4- 5 menn og voru 3-4 daga í ferðinni. Farið var austur í Selvog og gist þar. Síðan var réttað í Selvogsrétt fé sem austanmenn höfðu smalað. Okkar fé var svo rekið til Grindavíkur. Þar var gist og réttað daginn eftir. Þaðan var rekið í Vogarétt. Þegar búið var að draga þar var fé Miðnesinga rekið áfram gegnum Njarðvíkurnar og áfram yfir Miðnesheiði og réttað í réttinni fyrir ofan Bæjarsker.
Þórarinn Snorrason
Tvisvar fór ég þessar ferðir og gisti ég þá hjá Þórarni í Vogsósum. Þangað var gott að koma, góður matur og gott rúm fyrir þreytta smala.
Lengst hef ég komist norðan megin á Reykjanesskaganum, inn að Hvassahrauni og réttað í Vogarétt. Ekki voru allir sáttir við það að ég færi ekki nær höfuðstaðnum en þetta. Var mér einu sinni skipað í Gjárétt og þá þurfti ég að fara í Hafnarfjörð. Því hafði ég nú ekki áhuga á svo ég fékk mann fyrir mig. Var það Ólafur Pétursson frá Knarrarnesi. Gerði hann það með glöðu geði. Þurfti ég því ekki að fara lengra en að Hvassahrauni.
Nú er maður orðinn gamall og stirður. Hættur að fara til kinda um Miðnesheiði. Ég læt mér nægja að horfa á kindurnar sem frændur og vinir eiga hér á túnunum í kring.
Mánudaginn 2. ágúst lést Jón Jónsson á Sjúkrahúsi Keflavíkurlæknishéraðs eftir stutta legu. Hann var 87 ára og yngstur fimm Vesturbæjarsystkina, en svo voru börn Jóns Oddssonar og Þuríðar á Bæjarskerjum nefnd í daglegu tali af sveitungum sínum. Þau voru: Oddur, Einar, Ragnhildur, Bjarni og Jón.
Ég sem þetta skrifa átti því láni að fagna að kynnast þessum systkinum er ég kom hingað ung kona með manni mínum, Jónasi syni Ragnhildar. Þau reyndust mér ávallt góðir vinir og leiðbeinendur.
Við Jón vorum búin að vera samtíða hér í rúm 40 ár. Tvö síðustu árin vorum við tvö ein. Vil ég þakka þessu fólki samfylgdina.” – Halldóra Thorlacius

Heimildir:
-Faxi, 4. tbl. 01.01.1980, Býjasker – Bæjarsker; hvort er réttara?, bls. 109-110.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 152-153.
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 181.
Býjasker

Reykjanes

Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen frá Kotvogi, útg. 1982, skrifar hann m.a. um Innes og Suðurnes. Lýsingin er stutt, en fróðleg.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefnakort.

“Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja, sem var skýrt ákveðin alla tíð var þessi:
INNNES frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð.
SUÐURNES frá Hvaleyrarholti að Selatöngum austan við Grindavík.
Hluti af Suðurnesjum heitir Rosmhvalanes. Það er sá hluti Reykjanesskagans, sem liggur fyrir norðvestan línu þá sem hugsast dregin frá Hunangshellu í Ósabotnum í Háleitisþúfu nú eyðilögð austast á Keflavíkurflugvelli og úr Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort Björns Gunnlaugssonar 1944.

Þannig eru því öll byggðahverfin frá Leiru og allt suður að Stafnesi á Rosmhvalanesi.”
Í þessari lýsingu Jóns, sem ritaði mikið um landshætti, líf fólks og atvinnuhætti á Suðurnesjum, er tekinn af allur vafi hvar skiptingin var, en hún skipti miklu máli í daglegu tali fyrrum er menn voru greindir í Innnesjamenn og Útnesjamenn. Einnig var það almenn málvenja að fara á Innnesin eða á Útnesin. Þá var betra að vita hvar mörkin voru. Og það er ekki síður mikilvægt fyrir nútímanninn að þekkja skilin er hann á annað borð þarf að lesa í heimildum um hugtök þau er hér er um fjallað. Samkvæmt lýsingu Jóns nær Suðurnes frá Hvaleyrarholti í norðri að Selatöngum í suðri, eða m.ö.o. eftir endilöngum (G)Núpshlíðarhálsinum.

Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1989.

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.

Þórshöfn
taðhættir
Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi.

En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði.
Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð.

Flankastaðir

Flankastaðir.

Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.

Bærinn Sandgerði

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör

Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar. Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri.

Sandgerði

Sandgerði.

Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin Náttúrustofan

Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði.

Í Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.

Sandgerði

Sandgerði.

Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.
Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.

Sandgerði

Sandgerði – sundlaug.

Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.

Höfnin

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög

Sandgerði

Listaverkið Álög.


Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar

Gálgar

Gálgar.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður.

Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.

Hvalsnes

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg

Melaberg

Melaberg.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík
Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði

Básendar

Básendar – festarhringur.

Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga.

Býjaskersrétt

Býjaskersrétt.

Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Flankastaðir
Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból

Kirkjuból

Kirkjuból.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

-www.sandgerdi.is

Þórshöfn

Þórshöfn.