Fuglavík

Farið var að Bjargarhúsum þar sem Sigurður Eiríksson frá Norðurkoti tók vinsamlega á móti FERLIRsfélögum.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Krsitinn Eiríksson

Sigurður bauð þeim inn og upp á kaffi og meðlæti. Meðlætið kryddaði hann með fróðleik – og það miklum. Hann benti á Helluhúsið (Bjarghús) og Rafnklesstaðabátinn er hvorutveggja standa ofan við hlýlegan bústað hans austan við þjóðveginn milli Sandgerðis og Stafness, gegnt Norðurkoti. Helluhúsið er lítið, en einstakt hús, hlaðið af Einari Gestssyni úr jafnþykkum hellum er reistar hafa verið upp á rönd og steypt á milli. Húsið er ágætur vitnisburður um vilja byggjandans til að reyna lóðrétta notkun steinhellna í stað láréttar, eins og þá hafði tíðkast frá upphafi Íslandsbyggðar. Væntanlega hefur þurft kjark og krafta til slíkra hluta í þá daga þegar sérhver sá er gerði hlutina með óhefðbundunum hætti gæti auðveldlega átt það á hættu að verða álitin skrýtinn. Báturinn er eftirlíking af hinum merka Rafnskelsstaðabáti, sem Sigurði er einum lagið við að lýsa.

Bjarghús

Brunnlokið.

 Við Bjarghús má einnig sjá brunnlok úr hraunhellu. Á það er klappað gat og í því handmótaður steintappi, einnig eftir Einar Gestsson.
Frá Sigurði var haldið að Fuglavík þar sen Nína Bergmann og bræðurnir frá Nesjum, Magnús og Sigurbjörn Stefánssynir, tóku vinalega á móti hópnum. Tilefni ferðarinnar var m.a. að leita að ártalssteini, sem vera átti skv. gömlum sögnum í fornum yfirbyggðum brunni við Fuglavík, en átti að hafaverið færður til og settur í stéttina framan við gamla bæinn þar sem íbúðarhúsið stendur nú. Steinn þessi átti að bera ártalið 1538.

Fuglavík

Fuglavík og Norðurkot neðst t.h.

Útlendur maður, Pípin að nafni, hafði klappað ártalið í steininn, en þá var steinninn í brunni bæjarins, sem fyrr sagði, en var síðan færður í stéttina skv. sömu heimild. Getið er um steininn í Árbók Hins ísl. Fornleifafélags frá árinu 1903 eftir að Brynjúlfur Jónsson hafði farið um svæðið og fengið spurnir af steininum. Hann ritaði um hann og fleira markvert á Suðurnesjum í nefnt ársrit.
Fuglavíkurfólkið sýndi hópnum gömul lóð frá konungsversluninni, sem fundist höfðu eftir að Sigurður í Norðurkoti hafði farið að minna á FERLIRsheimsóknina fyrir skemmstu þegar hin fyrri tilraun var gerð til að hafa uppi á ártalssteininum, en án árangurs. Á lóðunum eru greinileg merki Kristjáns V. sem og þyngdareining í LBs-um. Sennilega er þarna um merkan fund að ræða.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn í stéttinni – 1581.

Til að gera langa sögu stutta hafði ártalssteinninn fundist á hlaðinu. Nína hafði af tilviljun verið að ganga um hlaðið og þá rekið tærnarí steininn, af einskærri tilviljun eftir að farið var að tala um hann. Ártalið 1580 er á honum, en þó er aftasti tölustafurinn orðinn nokkuð óskýr. Steinninn er á þeim stað þar sem ekið er heim að nýja húsinu og hafði verið færður í kaf með ofaníburði. Um er að ræða elsta ártalsstein á Reykjanesi, sem heimildir eru um og enn hefur fundist.
Eftir að hafa skoðað og myndað steininn fylgdi Sigurður FERLIRshópnum síðan um Fuglavíkurveg og inn um gat á Varnargirðingunni. Ætlunin var að leita hugsanlegra tófta undir hinu forvitnilega nafni Selhólar.

Fuglavík

Fuglavíkurleiðin gengin.

Gengið var framhjá Selhólavörðunni, sem er gömul hlaðin varða á fiskimið. Þegar haldið var þaðan til austurs var gengið fram á tóftir undir nefndum Selhólum. Um er að ræða gamalt sel undir holti, en enn austar fannst gömul fjárborg, stór og vel gróin. Utan í henni eru tóftir. Var hún formlega nefnd Fuglavíkurborgin því hún er í landi Fuglavíkur. Hvorki Sigurður né Fuglavíkurfólkið, sem einnig var með í för, hafði áður séð þessa fjárborg og hafði það þó farið þarna um áður en varnargirðingin kom til. Hnit hennar eru færð inn á fjárborgaryfirlitið. Dimm þoka grúfði yfir svæðinu er varði hún leiðangursfólkið fyrir ásýnd Varnarliðsins.

Fuglavíkurleið

Gengin Fuglavíkurleið.

Þá var haldið til baka og í kaffiveitingar í Fuglavík þar sem veitt var af kostgæfni. Fuglavíkurfólkið var síðan hvatt með fyrirheit um að koma nú fljótt aftur í heimsókn því enn væru eftir óskoðaðar minjar, m.a. í Másbúðar

hólma (sjá FERLIR-203) þar sem fyrir er letur og ártöl á klöppum frá árinu 1696, en ekki er að sjá að áður hafi verið ritað um það eða þetta skráð. Út í Másbúðarhólmann hefur verið hlaðin brú svo hægt hafi verið að ganga út í hann þurrum fótum á flóði. Enn má sjá móta fyrir henni.

Bjarghús

Bjarghús. Rafnkelsstaðabáturinn fremst.

Í bakaleiðinni var gamli vegurinn, sem liggja átti yfir heiðina sunnan Melabergs, skoðaður, en hætt var við hann af einhverjum ástæðum. Vegurinn átti að vera það breiður að tveir hestvagnar gætu mæst á honum, en það þótti nýlunda í þá daga. Enn má sjá móta fyrir veginum norðan nýja vegarins að Hvalsnes. Þá var genginn Melabergsvegur til austurs og beygt af honum til suðurs að Melabergsborg. Borgin er greinileg og stendur á klapparhól. Allnokkuð er fokið yfir borgina, enda mikil gróðureyðing allt um kring.
Veður var með ágætum – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Bjarghús

Bjarghús.