Færslur

Býjaskersrétt

Í Faxa 1980 spyr Skúli Magnússon “Hvort er réttara; Býjasker eða Bæjarsker?

“Halldóra á Bæjarskerjum sendi Faxa pistil um örnefnið Bæjarsker, sem birtist í 2. tbl. 1980. Hallaðist hún jafnvel að því að kalla eigi jörðina Býjasker. Vitnar hún þar í nokkrar heimildir frá seinni tímum máli sínu til stuðnings.

Býjasker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan Reykjanesskaga. Væntanlega heftir Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög. Víkin fyrir innan eyrina var kölluð Sandgerðisvík. Víkin þótti ákjósanleg til útgerðar mótorbáta. Fyrsti mótorbáturinn, sem kom til Sandgerðis, hét Gammur RE 107. Kom hann 4. febrúar 1907 og komu þar með mótoristar til starfa. Sá fyrsti hét Olaf Olsen, sem var síðar þekktur maður í Njarðvíkum.

Meðal annars til ritgerðar eftir Magnús Þórarinsson frá Flankastöðum. Líklega mun óhætt að treysta frásögnum hans, enda hefur maðurinn skráð einhverjar bestu ritgerðir sem til eru um Suðurnes. Greinarnar eru nákvæmar, á góðu máli og bera vott um mikla glöggskyggni höfundarins á umhverfi sitt. Bókin “Frá Suðurnesjum“, sem út kom 1960, er að miklu leyti handverk Magnúsar, og ber þess glöggt vitni. Þátturinn um leiðir og örnefni á Miðnesi er t.d. stórmerkur og virðist traust heimild. Bókin er eflaust sú besta sem komið hefur frá Suðurnesjum, enda skrifuð af heimamönnum, er þekktu nágrenni sitt allt frá æsku.
Frá SuðurnesjumEn svo ég snúi mér að efninu var erindið að skýra frá nokkrum niðurstöðum, sem ég fann, eftir að hafa kannað lítillega heimildir um örnefnið Býjasker.
Eftir því sem ég komst næst við lestur Fornbréfasafnsins, sem er ein aðalheimild Íslendingasögunnar, hefur snemma orðið venja að skrifa „Býja-” í stað „Bæjar-“. Í nafnaskrá Fornbréfasafns er orðið býr gefið upp í merkinu bær. Vel má vera að þarna liggi ráðningin. Í orðabók Menningarsjóðs er hins vegar talað um býjarbyggð, “að hafa býjarbyggð”, í merkingunni að annast févörslu. Orðið er gamalt og tíðkast lítið í nútímamáli. Einhverjum kynni að detta í hug skyldleika orðsins við dönsku, jafnvel að áhrifa gæti þaðan. Ekki þarf það að koma til greina, þar eð orðmyndin „Býja-” kemur strax fyrir um 1270. Skyldleiki getur hafa orðið við norskuna, enda höfðu Íslendingar meiri samskipti við Norðmenn á þessum tíma, en suður til Danmerkur.
Nafnið Bæjarsker kemur fyrst fyrir í Landnámu. Þar er frásögn af hólmgönguáskorun Hrolleifs í Heiðabæ í Þingvallasveit gegn Eyvindi í Kvíguvogum syðra.
Segir, að þeir hafi í staðinn „keypt löndum. Eyvindr bjó nokkra vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja …”. (Ísl.sögur I, bls. 230-31. Rvík 1953).
Fram að þessu hefur gullaldarmálið staðið fyrir sínu, og trúlega er þetta upphaflegur ritháttur nafnsins. En er á leið breyttist orðið í meðförum, og um 1270 er það: „bíasker”, í skrá yfir hvalskipti Rosmhvelinga, sem prentuð er stafrétt í Fornbréfasafni. (II. bindi, bls. 77).

Býjasker

Býjasker – loftmynd 2020.

Í Hítardalsbók, sem hefur að innihalda kirknaskrá, frá um 1367, (handritið talið skr. um ca. 1650), er rætt um „Býjasker”. (Fornbr.sa. III, bls. 221). Á Bæjarskerjum var þá kirkja, helguð heilögum Úlafi Noregskonungi. Þarna kemur nafnið fyrst fyrir í núverandi mynd. Er það síðan skrifað þannig allar götur til 1570, nema í reikningum Kristjáns skrifara á Bessastöðum. Þeir reikningar eru yfir tekjur af konungsjörðum víða um land fyrir árin 1547-48. Þar er jörðin kölluð „Beersker”. Trúlega kennir þar þýskra áhrifa, enda var Kristján ættaður frá Þýskalandi (Fornbr.s. XII, bls. 116). Hins vegar kemur fram í VII. bindi Fornbréfasafns, bls. 53, að máldagi Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, var lesinn upp, á héraðsþingi á „Bæjarskerjum” 6. febr. 1749. Máldaginn var hins vegar frá miðöldum og hefur trúlega verið lagður fram sem sönnunargagn í einhverju máli, sem þá var háð. Þarna kemur orðið í ljós, við upplestur og bókfærslu á 18. öld.

Býjasker

Býjaskershverfi – túnakort 1919.

Ekki hafði ég tíma til að kanna ítarlega Alþingisbækurnar, gerðabækur þingsins, allt frá miðöldum, sem eru önnur aðalheimild (Íslandssögunnar, ásamt Fornbréfasafni). Einnig Alþingisbækur eru gefnar út stafrétt, og hafa því töluvert málsögulegt gildi. En við lauslegt yfirlit bókanna sýndist mér, að þar kæmi oftar fyrir Býjasker en Bæjarsker.
Ég hygg að Bæjarsker sé upphaflega nafngiftin, og skírskota þá til Ara fróða.

Býjasker

Býjasker – loftmynd 1954.

Fljótt virðist málvenjan hafa orðið Býjasker, sú orðmynd orðið algengust, en hin horfin. Því er ekki óeðlilegt þó gamalt fólk hafi notað meir það orð. Síðan hefur nafngiftin komist á prentaðar bækur og loks á landakort á 19. öld.
Sjálfur finnst mér fara betur í málinu orðið Bæjarsker en Býjasker. Hið seinna er svolítið dönskuskotið þrátt fyrir allt. Ég held því, að það sé ekki röng þróun þó jörðin hafi [í seinni tíð frekar gengið undir nafninu Bæjarsker, því líklega er það upphaflega nafnið.” – Skúli Magnússon

Í tveimur tölublöðum Faxa 1983 fjallar Halldóra Thorlacius um Jón Jónsson, bónda, og ættbálk hennar á Bæjarskerjum:

Býjasker

Býjasker – Jón Jónsson.

“Á Bæjarskerjum í Miðneshreppi býr Jón Jónsson, 87 ára gamall. Hann er fæddur laugardag í mið-þorra 1896.
Jón segir svo frá: “Á Bæjarskerjum hefur sama ættin búið í 128 ár. Árið 1855 fluttist afi minn, Oddur Bjarnason austan úr Vestur-Skaftafellssýslu til Suðurnesja. Keypti hann Bæjarskerin og bjó þar til æviloka.
Með honum komu, faðir hans Bjarni Oddson, eiginkona Guðný Sveinsdóttir og börn þeirra, Bjarni, Ragnhildur og Jón faðir minn. Hann var fæddur að Borgarfelli 13. apríl 1855 og því ekki nema rétt mánaðar gamall þegar foreldrar hans lögðu upp í þessa löngu ferð, sem tók hálfan mánuð.
Nærri má geta að það hefur verið erfið ferð fyrir móður og barn að fara þessa löngu leið. Á þessum tíma voru vegir ekki eins góðir og nú gerist. Aðeins hestavegir og óbrúaðar ár. Ekki er heldur víst að hestar hafi verið til fyrir alla fjölskylduna.
BýjaskerÁrið 1870, 4. febrúar, varð afi minn úti á Miðnesheiði. Hafði hann farið til Keflavíkur í kaupstaðarferð. En þangað voru flestar vörur sóttar á þeim tíma. Oft kom það fyrir að menn voru ekki vel búnir þegar farið var að heiman. Þegar svo til Keflavíkur kom þurftu þeir að bíða hálfu og heilu dagana eftir afgreiðslu. Þeir voru orðnir þreyttir og svangir þegar lagt var aftur af stað á heiðina. Þó Miðnesheiði þyki ekki erfið yfirferðar nú voru vegir lélegir á þessum tíma og kennileiti fá. Þá var hún villugjörn í stormum og stórhríð á vetrum.
Þegar afi minn dó var faðir minn 15 ára. Hann varð aðalstoð móður sinnar. Vegna erfiðleika missti amma mín jörðina. Þá eignaðist hana séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum. Amma og faðir minn fengu þar ábúð áfram.
Og þegar faðir minn giftist fékk hann lífstíðarábúð.
Móðir mín, Þuríður Einarsdóttir, var fædd á Kirkjubóli í Útskálasókn. Í móðurætt var hún ættuð úr Garðinum en faðir hennar Einar Pálssonar var úr Vestur-Skaftafellssýslu.
Foreldrar mínir giftu sig 21. júní 1890 og bjuggu á Bæjarskerjum til æviloka. Eins og víða á Suðurnesjum munu efnin ekki hafa verið mikil. Faðir minn var laginn við tré og járn. Hafði hann smiðju og smíðaði fyrir nágrannana. Ég minnist þess að hann smíðaði nálar og skeifur en þó mest ljábakka. Einnig gerði hann við ýmis amboð. Mun þessi vinna hans hafa drýgt tekjurnar nokkuð. En með sparsemi og mikilli vinnu voru foreldrar mínir alltaf sjálfum sér nógir.

Býjasker
Foreldrar mínir eignuðust fimm börn. Oddur var elstur. Fæddur árið 1884. Kona hans var Helga Bjarnadóttir, ættuð austan úr Árnessýslu. Þau bjuggu í Norður-Miðkoti. Einar var fæddur 1886. Hann var alla ævi til heimilis hér að Bæjarskerjum. Ragnhildur var fædd 1890. Hún var alltaf hér heima. Missti hún unnusta sinn Jónas Bjarna Benónýsson í febrúar 1914. Hún eignaðist einn son Jónas Bjarna Jónasson, fæddan 24. maí 1914. Ragnhildur var með hann hér á Bæjarskerjum. Hún annaðist foreldra okkar þegar aldur færðist yfir þá. Síðan okkur bræðurna og var okkur stoð og stytta meðan henni entist aldur og heilsa til. Bjarni var fæddur 1893. Kona hans var Guðrún Benediktsdóttir. Móðir hennar var ættuð úr Garðinum, en faðir hennar austan af fjörðum. Bjarni og Guðrún byggðu sér hús í Sandgerði er þau nefndu Haga. Börn þeirra eru Sigurður og Jóna. Ég var yngstur. Fæddur laugardag í mið-þorra 1896.

Býjasker
Þ
egar foreldrar okkar systkinanna voru látin keyptum við Einar og Ragnhildur jörðina Bæjarsker aftur. Var hún þá komin í eigu Bjarna Péturssonar blikksmiðs í Reykjavík. Það er árið 1938 sem hún kemur aftur í eigu ættar okkar.
Ekki er hægt að segja að búið hafi verið stórt á nútíma mælikvarða. Þar voru 30-40 fjár og 3-6 kýr. En svo var alltaf töluvert útræði héðan. Faðir minn gerði alltaf út. Það var aðaltekjulind heimilisins. Hann gerði út Heklu sem var 8 – 10 manna far. Við vorum allir feðgarnir á sama báti. Faðir minn hafði meiri áhuga á sjómennsku en landbúnaði. En honum þurfti líka að sinna. Oft þegar komið var að landi mátti maður fara að smala og huga að skepnunum.

Býjasker

Býjasker – sjóbúð.

Þegar ég var að alast upp var fjölmennara hér í hverfinu en nú er. Það var stór hópur ánægðra barna sem lék sér hér á túnunum þegar tími gafst til leikja, en börn þá voru látin vinna strax og kraftar leyfðu.
Hér var saltfiskverkun. Fiskurinn var vaskaður niður við sjó. Sjórinn var borinn í stór kör uppi á kampinum og vaskaður þar. Það voru aðallega konur sem vöskuðu en börn og unglingar breiddu fiskinn til þerris. Seinnipart sumars komu skip hér á víkina og tóku bæði þurrkaðan saltfisk og þurrkaða fiskhausa til útflutnings.

Býjasker

Býjasker – fjárhús.

Heyskapur byrjaði yfirleitt ekki fyrr en í júlí. Hér var allt slegið með orfi og ljá á mínum uppvaxtardögum. Farið var á fætur kl. 3-4 á næturnar til þess að slá. Það var gert til þess að nota rekjuna (náttfallið). Þá beit betur. Var staðið við slátt fram undir hádegi og þá lagði maður sig oft. Ef rekjan var næg var slegið allan daginn. Það var ánægjulegt að koma út um lágnættið í góðu veðri og finna þögnina og kyrrðina. Sjá og heyra fuglana og allt líf vakna þegar kom fram á morgun.

Býjasker

Býjaskersrétt 1983.

Smalamennskan var mér nú hugljúfust. Að ganga um heiðar og líta að fé. Ég tala nú ekki um á vorin þegar ærnar voru að bera. Finna nýborin löb og hlúa að þeim og ánni.
Í Leirunni var mjög góð fjörubeit og okkar fé sótti þangað mikið yfir Miðnesheiðina. Aðallega sótti það í Bergvík og Sjálfkvíar sem eru fyrir utan Litla-Hólmsjörðina. Einnig sótti það í Helguvíkina. Þangað niður var einstigi og því erfitt að fylgja því eftir. Það þurfti að vakta féð því það vildi sækja langt út í fjöru í þarann. Það uggði ekki að sér þegar féll að. Varð því að fara og reka frá fjörunni áður en hálffalið var að.

Býjaskerstétt

Býjarskersrétt-uppdráttur.

Göngur og réttir þóttu mér skemmtilegar. Héðan áttu smalar að fara lengst austur í Selvog. Voru sendir 4- 5 menn og voru 3-4 daga í ferðinni. Farið var austur í Selvog og gist þar. Síðan var réttað í Selvogsrétt fé sem austanmenn höfðu smalað. Okkar fé var svo rekið til Grindavíkur. Þar var gist og réttað daginn eftir. Þaðan var rekið í Vogarétt. Þegar búið var að draga þar var fé Miðnesinga rekið áfram gegnum Njarðvíkurnar og áfram yfir Miðnesheiði og réttað í réttinni fyrir ofan Bæjarsker.
Þórarinn Snorrason
Tvisvar fór ég þessar ferðir og gisti ég þá hjá Þórarni í Vogsósum. Þangað var gott að koma, góður matur og gott rúm fyrir þreytta smala.
Lengst hef ég komist norðan megin á Reykjanesskaganum, inn að Hvassahrauni og réttað í Vogarétt. Ekki voru allir sáttir við það að ég færi ekki nær höfuðstaðnum en þetta. Var mér einu sinni skipað í Gjárétt og þá þurfti ég að fara í Hafnarfjörð. Því hafði ég nú ekki áhuga á svo ég fékk mann fyrir mig. Var það Ólafur Pétursson frá Knarrarnesi. Gerði hann það með glöðu geði. Þurfti ég því ekki að fara lengra en að Hvassahrauni.
Nú er maður orðinn gamall og stirður. Hættur að fara til kinda um Miðnesheiði. Ég læt mér nægja að horfa á kindurnar sem frændur og vinir eiga hér á túnunum í kring.
Mánudaginn 2. ágúst lést Jón Jónsson á Sjúkrahúsi Keflavíkurlæknishéraðs eftir stutta legu. Hann var 87 ára og yngstur fimm Vesturbæjarsystkina, en svo voru börn Jóns Oddssonar og Þuríðar á Bæjarskerjum nefnd í daglegu tali af sveitungum sínum. Þau voru: Oddur, Einar, Ragnhildur, Bjarni og Jón.
Ég sem þetta skrifa átti því láni að fagna að kynnast þessum systkinum er ég kom hingað ung kona með manni mínum, Jónasi syni Ragnhildar. Þau reyndust mér ávallt góðir vinir og leiðbeinendur.
Við Jón vorum búin að vera samtíða hér í rúm 40 ár. Tvö síðustu árin vorum við tvö ein. Vil ég þakka þessu fólki samfylgdina.” – Halldóra Thorlacius

Heimildir:
-Faxi, 4. tbl. 01.01.1980, Býjasker – Bæjarsker; hvort er réttara?, bls. 109-110.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 152-153.
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 181.
Býjasker

Másbúðir

Lýsing Sandgerðis einkennist af ESSum, hvort sem litið er til sögu eða staðhátta.

Hjarta

Hjarta Reykjaness.

Sandgerði er staðsett þar sem Sandgerðisvíkin skerst inn í Rosmhvalanes. Skerjaklasi skilur að Sandgerðisvíkina að sunnan (Bæjarskerseyri), en Sundið er á millum. Sýndist sumum siglingin um það stundum þrautarsund fyrrum. Sjávarströndin er sendin og skerjótt. Steinunn gamla sigldi fyrstur staðarmanna inn á svæðið, skuldlaus fyrir stakk. Sjósókn og sauðfjárhald hafa einkennt sveitina frá sköpun. Seinustu misserin hafa skil milli gamalla hverfa beggja vegna Sandgerðis, Bæjarskerja og Flankastaða, skolast út og þau orðið að mestu sambyggð.

Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Sandgerðisbærinn gamli er við Sandgerðistjörnina ofan við Sandgerðisvörina. Þar bjó Sveinbjörn Þórðason ásamt sonum sínum. Sumir segja að Sandgerði hafi áður heitið Sáðgerði, samanber kornrækt. Sandfok setti strik í reikninginn, en stórátak í sáningu melgresis á árunum 1930-´50 skipti sköpum. Steyptur sjóvarnargarður 1935 setti stefnuna á ný sóknarfæri í sjávarútvegi.
Sandgerði er stór smábær, með rúmlega sautján sinnum sjötíuogsjö íbúa. Setrið, öðru nafni Fræðasetrið, er í stöðugri sókn. Í Setrinu er ekki bara seli að sjá heldur og settlegan rostung, steina, stoppaða sjófugla, skrautlegar skeljar og smádýr svo eitthvað sé nefnt. Sjónaukar bjóðast þar til skoðunar fugla.
Stofan, eða Náttúrustofa Reykjaness, er undir sama þaki og Setrið. Sækjendum sem og sérfræðingum fjölgar stöðugt.
Skólar eru í Sandgerði fyrir skemmri stigin, sundlaug með sól- og setbekkjum og stækkun íþróttahússins hefur sagt til sín. Sveitarfélagið er í samvinnu um byggingu svæðismiðjunnar þar sem gert er ráð fyrir setu sjórnsýslunnar. Sveinsson fær það aðstöðu.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Skýjaborg er samkomustaður smáfólksins, stráka og stúlkna. Söngvakeppnir eru skipulagðar þar og sjálfhælnir söngvarar, jafnvel prinsessur, sækja í staðinn til setu búa sinna. Sparkfélagið Reynir er í stöðugri framför, enda stuðningurinn stöðugur. Sigurstranglegir og á góðu skriði. Sköpun listar fer fram í listgallerýi og stærðar skírnarkerti, svo dæmi sé tekið, eru framleidd í Jöklaljósi. Skátar standa styrkum stoðum í Sandgerði og stunda staðfastir skátamót landsins.
Sveit Sigurvonar sýnir sjaldnast ónóg viðbrögð, slökkviliðið stendur sig vel og starf sjálfstæðra félaga, s.s. Lions, er stöndugt í Sandgerði.
Smekklegir eldri borgar hafa sannaralega komið sér vel fyrir í sérsmíðuðum húsum og safn bókanna hefur sameinast skólanum. Skil á bókum eru stöðug og haldast í hendur við útlán.

Sandgerði

Sandgerði.

Slitlag er á vegum í og við Sandgerði. Stækkun hafnarsvæðis er stanslaust í gangi, en Suðurnesjafiskmarkaðurinn er staðsettur við höfnina.
Stórfengleg sýn listaverksins Álög eftir Steinunni Þórarinsdóttur er við suðurinnkomuna í Sandgerði. Þar stendur maðurinn andspænis sænum. Listaverkið er til minningar um látna sjómenn, sett upp á afmæli Miðneshrepps 1986.
Sögustaðir eru ófáir – Hunangshella – þar sem skepna var skotin er hún sleikti þar sýrópið, eða var það hunangið. Í Þórshöfn sló í brýnu með Englendingum og Þjóðverjum. Þórshöfn var einn helsti verslunarstaður þjóðverja á 15. og 16. öld. Skipakomur hófust þangað á ný á 19. öld . Jamestown strandaði þar 1881. Skipið var með allra stærstu seglskipum sögunnar. Sagan segir og að bellestin hafi verið silfurgrýti. Hugsanlega er silfursjóður þar á sjávarbotni.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Básar eða Bátsendar hýstu útgerð og verslun. Um siðaskiptin tók Viðeyjarklaustur útgerðina í sínar hendur. Skúli fógeti deildi þar við einokunarkaupmann danskan. Sjávarflóð 1799 lagði staðinn af.
Sakamenn voru hengdir í Gálgum, segir sagan.
Stafnes, fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld. Þar strandaði Jón forseti 1928. Slysið leiddi til stofnunar slysavarnafélagsins Sigurvonar í Sandgerði og síðar Slysavarnarfélags Íslands.
Steinn Steinunnar Hallgrímsdóttur er Í Hvalsneskirkju. Altaristaflan er eftir Sigurð málara.

Melaberg

Melaberg.

Á Melabergi segja sumir að sonur ekkju hafi orðið strandarglópur á skeri Geirfugla, en bjargast ári síðar. Sór sá fyrir faðerni barns sækvynnu úr skerinu. Steyptist hann þá í Stakksfjörð þar sem nú stendur Stakkur.
Másbúðir eru m.a. kunnar fyrir fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar og Fulgavík safnaði fólk sölum samhliða fiskveiðum og notaði í skepnufóður.
Hér segir einungis af skemmriskírn Sandgerðis. Vilji sagnasjóðir sækja í safaríkara efni er best að leita í Setrið, þar sem allt slíkt fæst svo að segja ókeypis.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Keflavík

Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um “Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð“:

Skúli MagnússonHér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.

Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.

Bær

Innan við bæjardyr.

Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.

Bær

Þiljuð baðstofa.

Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.

Reykjavík 1835

Bær 1835.

Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.

Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi”, en „lang lélegust og sóðalegust” voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…”. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.

Lýsing Skúla fógeta á betri býlum

Bær

Bæjargöng.

Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.

Bæir og timburhús á 19. öld

Bær

Í bæjargöngum.

Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.).  Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.”.

Grindavík

Bær

Timburhús.

Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús”. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.

Hafnir

Bær

Samstæður bær frá 19. öld.

Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær”, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…”.”, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..”.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…” og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess”.

Rekatimbur til húsa

Valahnúkur

Valahnúkamöl.

Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…”.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.

James Town strandar

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð”, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.

Miðnes
Sandgerði
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini”. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi”.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.

Garðurinn

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær”. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…”.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…”. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn”. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…”.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.

Keflavík
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Keflavík
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl” sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík”.
Keflavík
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn 1987.

Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Brunnastaðaskóli
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt” 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…”.

Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.

Lokaorð

Bær

Þiljaður gangnabær með baðstofustiga.

Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.

Bær

Ljár ofan við hlóðir í eldhúsi.

Sandgerðistjörn

Ætlunin var að fara um dulheima Sandgerðis og m.a. leita uppi og skoða Álfhól (á hólnum eru rústir), tóftir Uppsala (þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum), Oddstóft, Gulllág, Kríuvörðu, Efra-SandgerðiSigurðarvörðu, Kumblhól (gæti verið haugur). Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska. Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé. Á Kumlhól hefur lengi hvílt sterk helgi. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Lagt var af stað Frá Efra-Sandgerði, elsta húsinu í bænum, byggt 1883. Viðirnir eru m.a. úr Jamestownstrandinu.
Reynir Sveinsson fylgdi FERLIR um svæðið. Hann er fæddur og uppalinn í Sandgerði, skammt frá Álfhól, og þekkir hvern krók og kima – og alla sem í hvorutveggja hafa dvalið.
Álfhóll“Okkur krökkunum var sagt að hrófla ekki við neinu í og við hólinn”, sagði Reynir er komið var á vettvang. “Þess var gætt að raska engu hér. Þó ætlaði fólk, tengt frystihúsarekstri hér neðar, að byggja hús á hólnum. Byrjað var að grafa fyrir húsinu, en þá urðu fjölskyldumeðlimir hver á fætur öðrum fyrir lasleika. Þá var hætt við að byggja á hólnum.”
Álfhóll er skammt sunnan við Brekkustíg. Sú gata heitir einnig Tjarnargata. Mætast þær niðri í brekku, sem var, en Sandgerðistjörnin lá þar inn í landið. Brött brekka var Brekkustígsmegin. Gatan var síðan hækkuð upp og brekkunni eitt. Tvínafnskipt gatan hefur þó haldist enn þann dag í dag.

Landakot

Í Sandgerðistjörninni er Veitan. Hún er stararengi. Það var slegið fyrrum. Austan við tjörnina var Sandgerðisskólinn, en hann var rifinn. Eftir að skólinn hætti að þjóna hlutverki sínu sem slíkur var þarna lítið býli, nefnt Tjörn. Sandgerðistjörnin var fyrrum einnig nefnd Skólatjörn. Eitt elsta húsið í Sandgerði, Efra-Sandgerði, stendur nú suðvestan við Sandgerðistjörnina. Vestan við húsið er Kettlingatjörn. Nafnið taldi Reynir vera komið af því að þar hafi kettlingum verið drekkt.
Kumblhóll

En fyrst svolítið almennt um Sandgerði – Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
UppsalirUm 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 20. aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum, sem fyrr er getið. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.
Mikið kargaþýfi er á Álfhól. Erfitt var að sannreyna hvort þar kynni að vera tóft. Hins vegar mótaði fyrir tóft eða tóftum á næsta hól, suðvestanvert. Líklegt má telja að þar kunni að vera fyrrnefndur Kumblhóll.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar eftir Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni, segir m.a.: “
Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll.

Oddnýjartóft

Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.”
GvendartóftHalldóra Ingibjörnsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Berent Magnússon í Krókskoti og Árna Jónsson á Flankastöðum. Skráði hún eftir þeim athugasemdir, sem hér fara á eftir, lítt breyttar: “Sigurðarvörðu hlóð Sigurður Magnússon frá Krókskoti, er hann var að smala fé (segir Berent bróðir hans).
Ekki er líklegt, að neinn hafi verið heygður í Kumblhól.
Ekki er vitað, hvenær hætt var að nota Stekki. Nú sjást engin merki þeirra.
Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska.
Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé.
Gulllág sagðist Berent ekki muna eftir í sínu ungdæmi og taldi þetta nýlegt nafn. En Halldóra man aldrei eftir, að þessi grunni dalur væri kallaður annað en Gulllág. Þar voru fiskreitir, þegar hún var að alast upp.
Kría verpir nálægt Kríuvörðu.”
Loftur Altice Þorsteinsson ritaði örnefnalýsingu Fiskreiturárið 1996: “Kumlhól getur hæglega verið kuml. Á hólnum hefur lengi hvílt sterk helgi. Stekki var hætt að nota fyrir 1900, Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.”
Að sögn Reynis mun þrællinn Uppsali hafa verið fyrsti ábúandinn í Sandgerði og hefur hann búið að Uppsölum. Á bak við hús Reynis við Bjarmaland má sjá leifar Uppsala; litla tóft og aðra jarðlæga norðar, auk garða.
Skammt ofar má sjá leifar af Oddnýjartóft í garði eins hússins efst við Bjarmaland. Suðaustar eru tóftir; Gvendartóft. Um er að ræða tvö hús og ferkantað gerði að norðaustanverðu. Líklegt er að þarna hafi verið lítið kot um tíma. Myndarlegt vatnsstæði er suðvestan við tóftirnar. Ofar er varða, líklega landamerki. Hún gæti þess vegna hafa heitið Kríuvarða.
Í Gullág eru heillegir fiskreitir; stakkstæði, frá Miðnesi. Segja má með nokkrum sanni að of lítið hefur verið gert úr áþreifanlegum minjum í og við Sandgerði með hliðjón af sögu byggðalagsins um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Að henni lokinni bauð Reynir þátttakendum til stofu, bauð upp á kaffi og meðlæti, og fræddi þá um staðhætti og fólkið í Sandgerði fyrr á tímum.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.
-Reynir Sveinsson.

Efra-Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Álaborg syðri

Tvær réttir eru ofan við Bæjarsker: annars vegar Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveginn og hins vegar Álaborgarréttin, sem er bæði eldri og nokkru ofar í Miðnesheiðinni.
BæjarskersréttStaðsetningin á Álaborgarréttinni er n: 64,01,667 v: 22,41,077. Réttin er um 500-600 metra ofan við Stafnesveginn, upp af skógræktarreit sem hallar aðeins til suðurs. Veggir réttarinnar eru nokkuð heillegir, grasivaxnir að hluta að utan og innan, en vel sést i hleðslur. Innra skipulag hennar er nokkuð ljóst, það er almenningur og út frá honum liggja minni hólf. Inngangur er í réttina í norður. Hleðsluhæð um 1 m að jafnaði en sumstaðar aðeins lægra. Steinastærð um 0.25-0.50 m. Rétt þessi er eldri en réttin sem er niður við Stafnesveg en sú rétt er tekin í notkun upp úr 1930, en fram að því hafði Álaborgarréttin verið notuð.

Álaborgarrétt

Bæjarskersréttin er grjóthlaðin, en að hluta til úr timbri. Staðsetningin er n: 64,01,687 v: 22,42,022. Hún er um 50 m frá Bæjarskersvegi í suður eftir Stafnesvegi, rétt ofan við veginn. Réttin er upphlaðin að mestu, en með einstaka hliðum sem eru eingöngu úr timbri eða timbrið er til stuðnings hleðslum, og einnig er það notað í hlið í hólf réttarinnar. Hleðsluhæð er um 1.20 m. Hleðslugarðar eru fyrir utan réttina, en þeir eru einhlaðnir, og ræðst hæðin af stærð steinanna sem eru í þeim eða um 0.25-0.30 m. Rétt þessi var tekin í notkun upp úr 1930, en áður var notuð Álaborgarréttin notuð, sem fyrr sagði.

Heimildir:
-Sigurður Eiríksson í Norðurkoti.
-Reynir Sveinsson á “Uppsölum” í Sandgerði.

Álaborgarréttin

Bæjarsker

Við Bæjarsker utan við Sandgerði eru Bæjarsker, Lönd og Bárugerði svo einhverja bæjanna sé getið.
BæjarskerÞessir gömlu bæir og leifar þeirra hafa þegar látið mjög á sjá, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða fyrirhugað byggingarsvæði Sandgerðis. Tökum t.a.m. eina tegund búsetuminjanna; garðana, sem enn eru greinanlegir.
Í örnefnaskrá segir: “Milli Sandgerðis- og Bæjarskershverfis eru, ofan við sandinn, stórar og fallegar sléttar flatir, kallaðar Löndin. Neðri hluti Landanna var að eyðast af sjávarágangi og hreinum uppblæstri. Fyrir nokkrum árum var girt fyrir Löndin skammt fyrir ofan sjávarmál. Er þar nú að gróa upp fagurt landsvæði, en til nokkurrar óprýði eru gömlu rofin, sem upp úr standa. Vegurinn með Miðnesi liggur um Löndin; eru nú risnar upp margar byggingar báðum megin við veginn og Löndin óðum að byggjast, en þar var ekkert býli um aldamótin.
BæjarskerEinn garðurinn liggur meðfram austuhlið skipulagssvæðsins á um 450 m kafla. Við vesturhlið húsanna Miðtún 2-4 er hann aðeins sýnilegur á 12 m kafla, en síðan er hann hulinn að mestu vegna jarðfyllingar sem komið hefur til við byggingu húsanna sem standa við Miðtún. Hann kemur svo aftur greinilega í ljós við Miðtún 12 sem er syðsta húsið, og er síðan mjög greinilegur neðan undan túninu á Býjaskeri. Hæð hleðslanna í garðinum er nyrst um 0.60 m en hann er allt að 1.50 m þar sem hann er hæstur. Ofan á garðinum er svo 0.40-1 m hár graskantur. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá, en í viðtali við Halldóru Ingibjörnsdóttir á Flankastöðum telur hún að garðhleðslan sé ævaforn.
Vörslugarður er vestan við lóðir að Miðtúni 4-6. Garðurinn liggur suðvestur-norðuraustur, er um 15 m langur, og nokkuð óreglulegur í landinu. Hleðsluhæð er um 0.35 m. Garðurinn hefur trúlega verið hærri upphaflega.

Bæjarsker

Í viðtali við Halldóru sagði hún að grjót meðal annars úr þessum görðum hefði verið selt þegar framkvæmdir voru vegna hafnargerðar í Sandgerði fyrr á árum. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá.
Sandvarnargarður var neðanvert til að hefta sandfok. Staðsetningin er n: 64,01,906 v: 22,42,647 Hættumat: Þar sem garðurinn er hlaðinn árið 1936 telst hann ekki fornleif samkvæmt þjóðminjalögum. Garðurinn liggur norður-suður frá suðurhluta hafnarinnar og út á sléttlendið út frá húsinu sem einu sinni var refabú. Garðurinn er um 500 m langur og all verulegur. Hleðslur garðsins eru allt að 1 m á hæð og 1 m á breidd. Þá hefur verið hlaðin utan í garðinn tvíhólfa tóft. Heimildir um garðinn er ekki að finna í Örnefnaskrá. Í viðtali við Halldóru sagði hún að garður þessi hafi verið hlaðinn árið 1936 til að hefta sandfok yfir svæðið sem þarna er austur og suður af.

Heimildir m.a.:
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“.
-Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 118-123.
Býjasker

Bæjarsker

Bæjarsker við Sandgerði hefur gengið undir ýmsum orðmyndunum í gegnum tíðina.
Hítardalsbók frá Bæjarsker 19401367 greinir frá kirkju Ólafs konungs helga á Bæjarskerum. Jarðakaupabréf frá 1444 segir að Skúli Loftson hafi selt Hallsteini Höskuldssyni jörðina Þingnes i Borgarfirði í sextíu hundraða en Skúli leggur til á móti hálft Bæjarsker á Rosmhvalnesi, Hraunhafnarbakka á Snæfellsnesi og þar til fjögur kúgildi. Í ágúst 1488 segir í Bíaskersbréfi gert á Mel í Miðfirði, að Guðmundur prestur Skúlason selji Ólafi biskup og heilagri Hólakirkju jörðina Bíasker á Rosmhvalnesi fyrir fjóra tugu hundruð í lausafé. Í júní 1489 er á Hólum er skráður vitnisburður Snjólfs Sigurðssonar prests um lokagreiðslu á andvirði Bíaskerja til handa Guðmundi Skúlasyni presti frá Ólafi biskup sem áður keypt hafi jörðina. Á Býjaskerjum 1490 er “Dómr Diðriks Pínings fóveta og höfuðsmanns yfir alt Ísland um skuldir Norðlendinga við Sunnlendinga, og um það, hve nær skuli vera vorvertíðarlok.”

Bæjarsker 1960

Að Hólum í júlí 1491 lýsir Snólfur Sigurðsson prestur því yfir að hann hafi fyrir hönd Ólafs biskups lokið greiðslu til séra Guðmundar Skúlasonar fyrir jörðina Býasker með þeim greiðslu sem sem í bréfinu greinir.
Í Viðey í apríl 1517 lætur Ögmundur ábóti í Viðey Hannes Eggertsson fá til fullrar eignar jarðirnar Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði, fyrir jarðirnar Býjasker og Þórisstaði í Rosmhvalnesi.
Þá er á Býjaskerjum í september 1539 kveðinn upp 12 manna dómur sem skipaður var af Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni vegna yfirgangs enskra manna á Íslandi.
Árið 1550 eru taldar upp jarðir Hólastóls sem seldar hafa verið í tíð Jóns biskups, þar á meðal er hálf Býjasker, xx, c.
ÁlagabletturÍ Fógetareikningum frá 1547-1548 er getið um gjöld Beeraskeeriom (Býjaskers) til kirkju- og landskuldar.
Í Jarðabók frá 1703 segir um Biarskier (Bæjarsker) að jarðadýrleiki á jörðinni sé óviss og hún tíundist engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn Runólfur Þórðarson lögréttumaður. Landskuld 2 hundruðustu, 60 álnir greiðist með 14 vættum fiska í kaupstað á Básendum, eftir að það var legit út, en áður greitt heim til Bessastaða. Við (timbur) til húsabótar leggur ábúandi til. Kúgildi eru fimm. Leigur greiðist með fiski í kaupstað. Kúgildið uppyngir ábúandinn fram að þessu, annars vonar hann að umboðsmaðurinn muni bæta upp það sem þarf að lóga sökum elli. Kvaðir eru um mannslán um vertíð. Kvikfénaður er fjórar kýr og eitt ungneyti. Heimilsmenn eru átta. Skóg til kolagerðar notar jörðin í almenningnum. Torfrista og stunga engin nema í sendinni jörðu, varla nýtandi. Fjörugrastekja nokkur. Murukjarnar og söl eru notað sem gjaldmiðill. Heimræði er árið um kring og lending slæm, önnur langt frá flæðihólma og þar fyrir utan bæði hættuleg og erfið fyrir skip.
Grásteinn

Hér ganga skip ábúananda eftir hentugleikum. Tún ganga mjög af sér vegna sands og sjávargangs. Engjar eru engar. Land graslítið mestallt grjót og sandur. Flæðihætta mikil. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþangi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum. Býjasker er sagt hafa níu nafngreindar hjáleigur og að auki tvær sem eru farnar í eyði fyrir löngu og nafn á þeim er ekki vitað síðan.
Á Bæjarskerjum eru tveir álagablettir. Annar er um 10 m í suðurtúni Bæjarskers. Þetta er grasivaxin steinaþúfa, um 0.80 m í þvermál, og hæðin er um 0.40 m. Einar Bergsson í Sandgerði sagði að við þúfuna mátti ekki vera með ólæti eða raska henni á nokkurn hátt.
Hinn álagabletturinn er Grásteinn. Staðsetningin er n64°01.662 V22°42.401. Grásteinn er nú í hættu vegna fyrirhugaðra nýbygginga. Hann er í um 320 m í suður frá bæjarstæði Bæjarskers, út við landamerkjagirðingu Hólakots og Bæjarskers í smá brekku á móti norðri. Steinninn er náttúrusteinn og er um 1.60×1.20×0,70 m. Í örnefnskrá Magnúsar Þórarinssonar segir: “Í túninu sunnan við bæ þar í brekku er Grásteinn. Þann stein má ekki hreyfa. Þetta er í átt að Hólshúsum. Svo er túnið áfram brekka upp að grjóti.”

Heimild m.a.:
-Önefnaskrá fyrir Bæjarsker

Bæjarskersrétt

Bæjarskersrétt.

Þórshöfn
taðhættir
Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi.

En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði.
Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð.

Flankastaðir

Flankastaðir.

Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.

Bærinn Sandgerði

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör

Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar. Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri.

Sandgerði

Sandgerði.

Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin Náttúrustofan

Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði.

Í Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.

Sandgerði

Sandgerði.

Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.
Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.

Sandgerði

Sandgerði – sundlaug.

Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.

Höfnin

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög

Sandgerði

Listaverkið Álög.


Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar

Gálgar

Gálgar.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður.

Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.

Hvalsnes

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg

Melaberg

Melaberg.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík
Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði

Básendar

Básendar – festarhringur.

Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga.

Býjaskersrétt

Býjaskersrétt.

Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Flankastaðir
Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból

Kirkjuból

Kirkjuból.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

-www.sandgerdi.is

Þórshöfn

Þórshöfn.

Fuglar

Í bókinni “Miðillinn Hafsteinn Björnsson” fjallar Elínborg Lárusdóttir um aðkomu Runólfs Runólfssonar (Runka). Þar segir m.a.: “Veturinn 1937-1938 hefir Hafsteinn fasta fundi hjá Einari H. Kvaran. Vera tók þá að birtast. Þegar spurt er, hver þarna sé, er svarað:
 Eg heiti Jón Jónsson eða Maður Mannsson, eða ykkur varðar andskotann ekkert um, hvað ég heiti.
Kvaran spyr, hvað hann vilji.
Hann svarar: Eg er að leita að leggnum mínum, og eg vil hafa legginn minn.
Kvaran spyr aftur, hvar leggurinn muni vera.
Hinn svarar; hann er í sjónum.
Þessi vera heldur svo áfram að koma á fundina og talar alltaf um hið sama, um legginn sinn, og heimtar hann. En hann er ófáanlegur til að segja, hver hann er.
Þegar Lúðvík Guðmundsson, útgerðarmaður í Sandgerði, bætist í hópinn, kemur þessi kynlega vera og talar mikið um, hvað hann hafi verið Flankastaðirlánssamur að hitta Lúðvík.
Lúðvík kannast ekkert við þennan náunga og skilur sízt í, hvað hann vilji sér eiginlega. Sá fullyrðir aftur á móti að Lúðvík viti um legginn sinn. Hann sé í húsi hans í Sandgerði.
Loks krefst Lúðvík að fá að vita hver veran sé, eða þeir sinni þessu ekki. Hún verður öskuill og kemur ekki aftur í langan tíma. Loks brýzt hún í gegnum miðilinn og segir:Â
“Jæja, það er bezt að eg segi þá, hver ég er. Eg heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lést. Eg bjó með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var eg á ferð frá Keflavík seinni hluta dags og var fullur. Eg kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði eg góðgerðir. Þegar eg ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín. Þá varð eg vondur og sagðist ekkert fara, ef eg fengi ekki að fara einn. Heim til mín var ekki nema 15 mínútna gangur, eða tæplega það. Fór eg svo, en eg var blautur og illa á mig kominn.
KólgaGekk ég inn Kambinn, sem kallaður er. Þegar eg var kominn yfir Kambinn, settist eg undir klett, sem kallaður er Flankastaðaklettur, en hann er nú næstum horfinn. Þar tek eg upp flöskuna og sýp drjúgum á. Svo sofna eg. Flóðið kemur, mig tekur út. Þetta er í október 1879. Finnst eg ekki fyrr en í janúar 1880. Rak mig þá upp, en þá komust hundar og hrafnar í mig og tættu mig sundur. Leifarnar af mér fundust og voru grafnar í Útskálakirkjugarði. En þá vantaði lærlegginn. Hann tók út aftur, en rak svo síðar upp í Sandgerði, og þar hefir hann verið að þvælast síðan, og nú er hann hjá Lúðvík.
Þeir spyr nú Lúðvík, hvar hann geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar; í kirkjubókum Útskálakirkju.

Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.
Þegar Lúðvík Guðmundsson keypti húsið í Sandgerði af Lofti Loftssyni, útgerðarmanni, voru þar í húsinu tvær hauskúpur. Sú saga gekk, að einhverju sinni hefði unglingspiltur hent annarri hauskúpunni út í horn með þeim ummælum, að óþarfi væri að hafa þetta bölvað drasl þarna. Nóttina eftir þóttust menn verða varir við tvo menn, annan lítinn, hinn stórar. Gengu þeir að hvílu hvers og eins og athuguðu það, sem þar hvíldu. Staðnæmdust þeir við beð unglingsins, sem hent hafði hauskúpunni. Heyrðu þá félagar hans hljóð mikil og komu honum til hjálpar. Var hann þá blár í framan, illa á sig kominn og mjög hræddur. Segir sögnin, að eftir þetta hafi honum ekki verið vært framar í Sandgerði og hafi hann krökklast þaðan í burtu.
Lúðvík tók hauskúpurnar og lætur þær í glerkassa og setur svo kassann í glugga, sem veit til sjávar.
Lúðvík fór ekkert frekar út í þetta þá. En er Runólfur fullyrtu, að leggurinn sinn væri í húsi hans í andgerði, rifjaðist þetta upp fyrir honum.

Húsið

Eldri menn búsettir í Sandgerði rekur minni til þess, að lærleggur hafi verið þarna á flækingi, en verið settur á milli þilja. þrátt fyrir leit fannst leggurinn ekki. Í  herbergi í norðausturenda hússins bjó maður, sem hét Helgi. Hafði hann heyrt að smiðurinn hafi látið hann milli þils og veggjar. Getur Helgi þess til, að hann muni vera í herberginu, sem hann býr í. Þegar farið var að rífa finnst leggurinn þá þar. Leggurinn var mjög langur, enda gat Runólfur þess, að hann hefði verið þrjár álnir og sex tommur á hæð.”
Að sögn Reynis Sveinssonar í Sandgerði stóð fyrrnefnt hús á Hamrinum svonefnda, sem var neðan við Fræðasetrið. Þar voru tvo lík verbúðarhús, hlið við hlið. Í því syðra var verkun og verbúð uppi. Húsið fjær á myndinni að ofan var rifið 1985 en þar er sagt að hauskúpur/eða
mannabein hafi verið í glugga sem snéri að sjónum.
“Þegar leggurinn var fundinn, tók Lúðvík hann og fór með hann upp í búðina sína, til þess að hann týndist ekki aftur. Lét hann smíða utan um legginn vandaða kistu, og var leggurinn svo kistulagður. Stóð kistan svo í búðinni upp undir ár, og bar ekkert til tíðinda. Voru svo þessar síðustu leifar Runólfs Runólfssonar frá Kólgu eða Klapparholti í Sandgerði jarðsungnar að Útskálum. Fór allt fram eins og við venjulega jarðaför. Eftir athöfnina var drukkð kaffi hjá presti, og fór þetta allt virðulega fram.

Leggurinn

Þegar fundur var næst eftir útförina, kom Runólfur fram og þakkaði fyrir sig. Sagðist hann hafa verið þarna viðstaddur og lýsti útförðinni svo nákvæmlega, að hann taldi upp kökusortirnar, sem voru fram bornar á Útskálum.”
Kólga (Klapparkot) var skammt sunnan Klappar, sem var sunnan Syðri-Flankastaða. Þar eru enn örnefni er minna á kotið, s.s. Kólgutjörn. Klappartún og Klapparfjara.
“Eg fór að kynna mér kirkjubækur Útskálakirkju frá því tímabili, sem Runólfur Runólfsson vísar til. Eg fann nafn hans í bókunum. Árið 1849 er hann til heimilis í Klöpp í Hvalsnessókn. Árið 1859 er hann í Flankastaðakoti með konu sinni, sem heitir Guðrún Bjarnadóttir. Þau eiga eina dóttur, sem heitir Guðrún María. Þetta ber heim við landsmanntalið 1860. Þar er Runólfur Runólfsson í Flankastaðakoti talinn ókvæntur og grashúsmaður. Þar stendur einnig, að hann sé fæddur í Melasókn. Kirkjubækur Melasóknar sýna, að Runólfur er fæddur 25. desember 1828 að Melaleiti í Borgarfirði. Foreldrar: Runólfur Þorsteinsson, vinnumaður á Hafþórsstöðum í Norðurárdal og Guðrún Magnúsdóttir, vinnukona í Melaleiti.
Guðrún Bjarnadóttir er líka talin húskona í kirkjubókunum. Síðar er Runólfur í Klapparkoti (Kólgu), og eru þá börnin orðin þrjú, tveir drengir og ein stúlka. Árið 1879 er hann á sama stað. Þá er Guðrún Bjarnadóttir sennilega dáin. Nafn hennar sézt ekki í kirkjubókunum. Árið eftir er nafn hans líka horfið úr kirkjubókum Útskálakirkju, en í ministerialbók Útskálakirkju stendur eftirfarandi skýrsla:
Útskálakirkja“Þann 16. október 1879 varð Runólfur Runólfsson, húsmaður í Klapparkoti, úti vofveiflega á heimleið úr Keflavík í stórvirðri, rigningu og stormi, allskammt frá bæ sínum, um miðja nótt, meint að hann hrakizt hafi niður í fjöru fyrir sunnan Flankastaðatúngarð, hvar sjór hefir tekið hann, því bein hans fundust löngu seinna sundurliðmuð og fatnaður.”
Þessi sama bók sýnir, að þessar leifar Runólfs Runólfssonar hafa verið jarðsettar 8. janúar 1880, og er hann þá talinn vera 52 ára. Eru þá liðnir tæpir þrír mánuðir, frá því að hann hvarf og þar til hinar sundurlimuðu leifar hans fá legstað í vígðri mold, og þó ekki allar. Leggurinn finnst ekki fyrr en 1940, og eru þá liðin 60 ár frá þessum atburði.
Það, sem gerðist í sambandi við Runólf Runólfsson, varð okkur, sem við það voru riðin, svo eftirminnilegt, að við teljum okkur muna það greinilega.”

Heimild:
-Elínborg Lárusdóttir, Miðillinn Hafsteinn Björnsson, Reykavík 1946, bls.201-209.

Sandgerðisfjara
Fyrr á öldum varð fólk úti milli bæja á Miðnesi og Miðnesheiði.
Fræg er sagan af Runólfi Runólfssyni húsmanni úr Klapparkoti er í þá tíð nefndist Kólga. Hann varð úti milli Landakots í Sandgerðishverfi og Flankastaðirheimilis síns í Flankastaðahverfi aðfaranótt 17. október 1879. Hafði Runólfur komið að Landakoti skömmu fyrir hátt á heimleið úr Keflavík. Hafði hann skamma viðdvöl en hélt heimleiðis um ellefuleytið, allkenndur af víni er hann hafði meðferðis. Þótt skömm væri leiðin auðnaðist Runólfi ekki að rata hana í náttmyrkri og stormi. Af honum fannst hvorki tangur né tetur um nokkra hríð. En um jólaleytið fóru bein Runólfs að reka upp undan Flankastöðum. Að sögn sr. Sigurðar B, Sívertsen “voru öll bein slitin í sundur og allt hold af þeim”. Á kreik komust þjóðsögur syðra um að Írafellsmóri, sá víðförli ári, hefði grandað Runólfi eða þá illvígt sæskrýmsli.
Haukur Ólafsson, FERLIRsfélagi vakti nýlega athygli á eftirfarandi:
Hafsteinn“Mig langar að vekja athygli á annarri frásögn um Runólf Runólfsson, Runka, sem var einn helsti milliliður Hafsteins Björnssonar, miðils, við annan heim.”
Hafsteinn Björnsson er talinn vera einn stórkostlegasti og öruggasti sannanamiðill sem Ísland hefur alið. Hann fæddist að Syðri-Höfdölum í Viðvíkursveit í Skagafjarðarsýslu 30. október 1914. Skyggni gekk í móðurætt Hafsteins og fékk hann því góðann stuðning í æsku. Hann var ekki skammaður fyrir lygar og ósannsögli eins og margir skyggnir einstaklingar í æsku. Móðir hans var skyggn og berdreyminn og hún hjálpaði honum mikið til í þessum málum. Hafsteinn sá bæði framliðna og huldufólk í æsku og eitt sumarið þegar hann var milli fimm og sex ára, þá var hann við leik úti og sér þá litla stúlku á aldur við hann sjálfan standa við horn eins kofa. Stúlkan bað hann um að fylgja sér og þau löbbuðu saman út og fyrir ofan bæinn að allháum hól sem heitir Mikligarður. Þegar Hafsteinn kemur þangað þá sér hann ekki hólinn, heldur birtist honum lítill bær og utan við bæjardyrnar sat um það bil þriggja ára gamall drengur, en hann var bróðir litlu stúlkunnar. Þau fóru öll að leika saman og fundir þeirra endurtókust hvað eftir annað.

Glaumbær

Þau urðu náin leiksystkini um sumarið og alveg uppfrá því eða þangað til að Hafsteinn flutti frá bænum Hátúni. Hann fór margoft innum huldubæinn og alla leið inn í eldhús þar sem að hann þáði flóaða sauðamjólk frá huldukonunni, móður barnanna. Hafsteinn sá þessa konu oft koma heim úr fjarveru frá heimili sínu. Hún kom alltaf úr sömu átt, ofan úr Sæmundarhlíð og bar alltaf bagga á bakinu. Seinna komst Hafsteinn að því að sú var trú manna að miklar huldufólksbyggðir væru efst og syðst í Sæmundarhlíðinni.
Á unglingsárum veiktist Hafsteinn og lá lengi á sjúkrahúsi, eftir þetta þoldi hann illa erfiðisvinnu. Hann flutti til Reykjavíkur og starfaði meðal annars sem afgreiðslumaður í búð. Oft á tíðum kom það fyrir að Hafsteinn reyndi að afgreiða fólk sem samstarfsmenn hans sáu ekki. Árið 1937 hlotnaðist Hafsteini starf sem lyftuvörður í Landsímahúsinu við Austurvöll. Á þessum tíma var skyggni hans ótamin og hann átti í miklum erfiðleikum með að greina hverjir voru lifandi eða liðnir. Hann heilsaði til dæmis oft fólki sem enginn annar sá nema hann einn.
ÚtskálakirkjaHafsteinn var varð mjög skyggn og flutti oft skilaboð að skyggnilýsingum loknum. Hann starfaði í 40 ár og var einn virtasti miðill sem hér hefur starfað. Hann hélt margoft fámenna fundi sem fjöldafundi og hann kom með ótrúlegustu skilaboð og smáatriði sem hann hefði ekki með nokkru móti getað vitað og er óhætt að segja að enginn hafi komið svikinn af fundum með Hafsteini.
Hafsteinn féll niður örendur við heyvinnu þann 15. ágúst 1977.
Frásögnina af Runka er að finna í bókinni Miðillinn, Hafsteinn Björnsson, eftir Elínborgu Lárusdóttur.  Frásögnin er mun lengri en í bókinni segir m.a.: “Jæja, það er best að ég segi þá, hver ég er. Ég heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lést. Ég bjó með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var ég á ferð frá Keflavík seinni hluta dags og var fullur. Ég kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði ég góðgerðir. Þegar ég ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín.

Lærleggur

Þá varð ég vondur og sagðist ekkert fara, ef ég fengi ekki að fara einn. Heim til mín var ekki nema 15 mínútna gangur, eða tæplega það. Fór ég svo, en ég var blautur og illa á mig kominn. Gekk ég inn Kambinn, sem kallaður er. Þegar ég var kominn yfir Kambinn, settist ég undir klett, sem kallaður er Flankastaðaklettur, en hann er nú næstum horfinn. Þar tek ég upp flöskuna og sýp drjúgum á. Svo sofna ég. Flóðið kemur, mig tekur út. Þetta er í október 1879. Finnst ég ekki fyrr en í janúar 1880. Rak mig þá upp, en þá komust hundar og hrafnar í mig og tættu mig sundur. Leifarnar af mér fundust og voru grafnar í Útskálakirkjugarði. En þá vantaði lærlegginn. Hann tók út aftur, en rak svo síðar upp í Sandgerði, og þar hefir hann verið að þvælast síðan, og nú er hann hjá Lúðvík.
Þeir spyrja nú, Lúðvík og Niels, hvar þeir geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar; í kirkjubókum Útskálakirkju.
Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.”
Í framhaldinu segir svo af leitinni að leggnum, sem fannst að lokum milli þilja í húsí í Sandgerði eftir spennandi leit og var jarðaður með pomp og prakt í Útskálakirkju 1940, eða um 60 árum eftir lát Runólfs.”
Fróðleg og bráðskemmtileg frásögn er felur í sér sönnun um líf eftir þetta líf! 
Heimildir m.a.:
-Elínborg Lárusdóttir, Miðillinn, Hafsteinn Björnsson
-www.hugi.is

Sandgerðisfjara