Sigurður Eiríksson

Tekið var hús á Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta ofan við Sandgerði, á skv. gömlum sögnum að vera með áletrun.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Sigurður sagði að enn hefði hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þá má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Þrátt fyrir nokkra leit hefur hún ekki fundist. Næsta verkefni verður líklega að taka hvern stein fyrir sig og skoða. Það er talsverð vinna, en vel framkvæmanleg við góðar aðstæður. Þá er og tími kominn til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem hjá henni liggur. Sjaldgæft er að grjót hafi fengi að vera í friði á Suðurnesjum því oftar en ekki var það tekið, hvar sem til þess sást, að ekki var talað um ef það var uppraðað og aðgengilegt til brúks. Það var notað annað hvort í hafnarmannvirki eða við vegagerð. Þannig hurfu heilu garðarnir og stór hluti af merkilegum vörðum á svæðinu. Þó má víða enn sjá fótstykkin standa sem minnismerki um þær vörður sem voru.

Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða við Sandgerðisgötu.

Sigurður sagðist hafa skoðað Dauðsmannsvörðuna í heiðinni ofan við Berghús, en hann hefði ekki fundið áletrun á eða við hana. Þá hefði hann frétt að Efri-Dauðsmannsvarðan á efsta Draughólnum við Draugagil hefði verið hlaðin upp s.l. sumar. Það hefði gert áhugamaður um sögu og minjar, Guðmundur, en sá héldi tilfallandi til í bústað vestan Sandgerðis. Ekki væri vitað hvort áletrun hafi leynst þar á steini, en ólíklegt væri það því varða þessi væri greinilega leiðarmerki við gömlu götuna til Keflavíkur.
Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld. Í annarri FERLIRslýsingu eru tíundaðir viðskiptahættir þess tíma, s.s. staup fyrir hitt og þetta, t.d. fyrir að bíða.

Sandgerðisvegur

Genginn Sandgerðisvegur.

Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af “eðlilegum” ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna “dauðir” fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur – kort ÓSÁ.