Færslur

Sigurður Eiríksson

Tekið var hús á Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og litið á Dauðsmannsvörður, en þær munu vera þrjár á þeim slóðum. Ein, þ.e. sú nyrsta ofan við Sandgerði, á skv. gömlum sögnum að vera með áletrun.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Sigurður sagði að enn hefði hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þá má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Þrátt fyrir nokkra leit hefur hún ekki fundist. Næsta verkefni verður líklega að taka hvern stein fyrir sig og skoða. Það er talsverð vinna, en vel framkvæmanleg við góðar aðstæður. Þá er og tími kominn til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem hjá henni liggur. Sjaldgæft er að grjót hafi fengi að vera í friði á Suðurnesjum því oftar en ekki var það tekið, hvar sem til þess sást, að ekki var talað um ef það var uppraðað og aðgengilegt til brúks. Það var notað annað hvort í hafnarmannvirki eða við vegagerð. Þannig hurfu heilu garðarnir og stór hluti af merkilegum vörðum á svæðinu. Þó má víða enn sjá fótstykkin standa sem minnismerki um þær vörður sem voru.

Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða við Sandgerðisgötu.

Sigurður sagðist hafa skoðað Dauðsmannsvörðuna í heiðinni ofan við Berghús, en hann hefði ekki fundið áletrun á eða við hana. Þá hefði hann frétt að Efri-Dauðsmannsvarðan á efsta Draughólnum við Draugagil hefði verið hlaðin upp s.l. sumar. Það hefði gert áhugamaður um sögu og minjar, Guðmundur, en sá héldi tilfallandi til í bústað vestan Sandgerðis. Ekki væri vitað hvort áletrun hafi leynst þar á steini, en ólíklegt væri það því varða þessi væri greinilega leiðarmerki við gömlu götuna til Keflavíkur.
Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld. Í annarri FERLIRslýsingu eru tíundaðir viðskiptahættir þess tíma, s.s. staup fyrir hitt og þetta, t.d. fyrir að bíða.

Sandgerðisvegur

Genginn Sandgerðisvegur.

Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af “eðlilegum” ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. og enn rölta menn um heiðina, meira og minna “dauðir” fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur – kort ÓSÁ.

Sandgerðisvegur

Sigurður Eiríksson í Norðurkoti var heimsóttur. Bauð hann fólki í kaffi að venju. Þegar hann var spurður um eftirbíðanlegan leturfund við Dauðsmannsvörðu kom í ljós að ekki hafði hann komið í leitirnar ennþá, hvað sem sögunni liði.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða.

Fram kom hins vegar að Dauðsmannsvarðan efri hafði aftur á móti verið hlaðinn upp nýlega. Hún er á efsta Draughólnum, sem eru þrír, en Dauðsmannsvarðan neðri er undan þeim neðsta. Þar á letrið að vera. Sagan segir, og reyndar kemur það einnig fram í viðbótarlýsingu við örnefnaskrána af Bæjarskeri (Býjaskeri), að þar hafi menn eða maður orðið úti við þjóðleiðina milli Keflavíkur og Sandgerðis. Vitað er um fjölmarga, sem úti urðu á leiðunum yfir Miðnesheiðina fyrr á öldum, flestir á leið heim frá kaupmanninum í Keflavík.
Sigurður sagðist hafa lengi verið að hugsa hvernig stafsetja ætti nafnið “Dínhóll”, sem er þarna upp í heiðinni. Þegar hann hafi síðan verið að fletta örnefnaskránni fyrir Bæjarsker hafi hann rekið augun í nafnið Dynhóll, sem mun vera sá sami. Líklega sé þar komið rétta nafnið á hólnum.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson.

Svona gætu nöfn hafa breyst í meðförum. Nokkur dæmi eru til slík, s.s. Hrafnkelsstaðir er urðu að Rafnkelsstöðum. Í Sögum Rangárvallasýslu er t.d. talað um að fara til Hrafnkelsstaða í Garði, sem nú bera nafnið Rafnkelsstaðir. Rafnkelsstaðabáturinn, sem nú er í Bjarghúsi, er t.a.m. frá Hrafnkelsstöðum.
Í örnefnaskránni kemur nafnið Kampstekkur fyrir, rétt við norðurmörk Fuglavíkur og Bæjarskers. Hann er handan við Kampholtið. Sigurður sagði tóftir hans vera í norðurhorninu á girðingu fast sunnan við veginn milli Fuglavíkur og Bæjarskers. Í þeim hefðu krakkarnir stundum leitað skjóls. Á túninu á Bæjarskeri á að vera Grásteinn, álagasteinn, sem aldrei mátti hrófla við. Ýmislegt fleira kom fram í spjallinu við Sigurð.

Prestsvarða

Prestsvarðan.

Haldið var að gamla Sandgerðisveginum ofan við Bæjarsker með viðkomu í Kampstekk. Þar stendur Efri-Dauðsmannsvarðan á syðsta Draughólnum. Veginum var fylgt til norðurs áleiðis að Sandgerði. Eftir stutta göngu sást hálffallin ferköntuð varða rétt vestan við veginn. Hún var úr tengslum við veginn og því sú eina, sem kemur til greina sem Neðri-Dauðsmannsvarða, enda á þeim stað er lýsingin kveður á um. Ekki sást letur á steini í eða við vörðuna.
Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða.

Prest

Prestsvarða – letur.

Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Morguninn eftir slotaði og komst Sigurður heim að Útskálum. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á er höggvið sálmavers. Á hellunni má sjá ártalið 1876. Sálmurinn á hellunni er 4. Davíðssálmur – 8. vers.

Stóri-Krossgarður

Stóri-Krossgarður.

Best er að ganga að vörðunni vestur með norðurkanti æfingarvallar Golfklúbbsins í Leiru, vestan vegarins. Varðan er skammt vestan við endimörk hans og sést vel þegar gengið er áleiðis að henni.

Loks var haldið að Stúlkuvörðunni á Njarðvíkurheiði. Undir henni er ártalið 1777 og stafirnir HGH ofan við. Letrið er á klöppinni, sem varðan stendur á. Skammt norðan við vörðuna má enn sjá hluta Skipsstígsins í móanum, líðast í átt að Sjónarhól. Núverandi varða er að öllum líkindum nýrri en letrið. Mögulegt er að varðan hafi verið endurhlaðin þarna til að varðveita minninguna um tilefni hennar.
Stóri-Krossgarðurinn á heiðinni sást í norðvestri.
Frábært veður – bjart og stilla.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.