Stúlknavarða

Haldið var að gamla Sandgerðisveginum ofan við Bæjarsker með viðkomu í Kampstekk. Þar stendur Efri-Dauðsmannsvarðan á syðsta Draughólnum.

Sandgerðisvegur

Gengið um Draugaskörð á Sandgerðisvegi.

Veginum var fylgt til norðurs áleiðis að Sandgerði. Eftir stutta göngu sást hálffallin ferköntuð varða rétt vestan við veginn. Hún var úr tengslum við veginn og því sú eina, sem kemur til greina sem Neðri-Dauðsmannsvarða, enda á þeim stað er lýsingin kveður á um. Ekki sást letur á steini í eða við vörðuna, eins og kveðið er á um í heimildum.
Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina.

Prestsvarða

Prestsvarðan.

Morguninn eftir slotaði og komst Sigurður heim að Útskálum. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á er höggvið sálmavers. Á hellunni má sjá ártalið 1876. Sálmurinn á hellunni er 4. Davíðssálmur – 8. vers.
Best er að ganga að vörðunni vestur með norðurkanti æfingarvallar Golfklúbbsins í Leiru, vestan vegarins. Varðan er skammt vestan við endimörk hans og sést vel þegar gengið er áleiðis að henni.

Stúlknavarða

Áletrun við Stúlknavörðu.

Loks var haldið að Stúlkuvörðunni á Njarðvíkurheiði. Undir henni er ártalið 1777 og stafirnir HGH ofan við. Letrið er á klöppinni, sem varðan stendur á. Skammt norðan við vörðuna má enn sjá hluta Skipsstígsins í móanum, líðast í átt að Sjónarhól. Núverandi varða er að öllum líkindum nýrri en letrið. Mögulegt er að varðan hafi verið endurhlaðin þarna til að varðveita minninguna um tilefni hennar.
Stóri-Krossgarðurinn á heiðinni sást í norðvestri.
Frábært veður – bjart og stilla.

Stóri-Krossgarður

Stóri-Krossgarður.