Færslur

Stúlknavarða

Haldið var að gamla Sandgerðisveginum ofan við Bæjarsker með viðkomu í Kampstekk. Þar stendur Efri-Dauðsmannsvarðan á syðsta Draughólnum.

Sandgerðisvegur

Gengið um Draugaskörð á Sandgerðisvegi.

Veginum var fylgt til norðurs áleiðis að Sandgerði. Eftir stutta göngu sást hálffallin ferköntuð varða rétt vestan við veginn. Hún var úr tengslum við veginn og því sú eina, sem kemur til greina sem Neðri-Dauðsmannsvarða, enda á þeim stað er lýsingin kveður á um. Ekki sást letur á steini í eða við vörðuna, eins og kveðið er á um í heimildum.
Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina.

Prestsvarða

Prestsvarðan.

Morguninn eftir slotaði og komst Sigurður heim að Útskálum. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á er höggvið sálmavers. Á hellunni má sjá ártalið 1876. Sálmurinn á hellunni er 4. Davíðssálmur – 8. vers.
Best er að ganga að vörðunni vestur með norðurkanti æfingarvallar Golfklúbbsins í Leiru, vestan vegarins. Varðan er skammt vestan við endimörk hans og sést vel þegar gengið er áleiðis að henni.

Stúlknavarða

Áletrun við Stúlknavörðu.

Loks var haldið að Stúlkuvörðunni á Njarðvíkurheiði. Undir henni er ártalið 1777 og stafirnir HGH ofan við. Letrið er á klöppinni, sem varðan stendur á. Skammt norðan við vörðuna má enn sjá hluta Skipsstígsins í móanum, líðast í átt að Sjónarhól. Núverandi varða er að öllum líkindum nýrri en letrið. Mögulegt er að varðan hafi verið endurhlaðin þarna til að varðveita minninguna um tilefni hennar.
Stóri-Krossgarðurinn á heiðinni sást í norðvestri.
Frábært veður – bjart og stilla.

Stóri-Krossgarður

Stóri-Krossgarður.

Vatnaborg

Þrátt fyrir dimmviðri lék sólin við Reykjanesbrautina. Ákveðið hafði verið að fara í skoðunarferð um borginar sex sem og nokkra aðra staði við brautina. Byrjað var á því að skoða Vatnaborgina sunnan brautarinnar skammt vestan Kúagerðis. Borgin er á grashól örskammt frá veginum og sést vel. Norðan borgarinnar er hið fallegasta vatnsstæði. Borgin ber þó fremur nafn sitt af bænum Vatnsleysu en vatnsstæðinu, enda í Vatnsleysulandi.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Næst var staðnæmst við Stóra-Skjólgarð sunnan við Innri-Njarðvík, sunnan Reykjanesbrautar. Um er að erð ræða mikinn hlaðinn skjólgarð á hól skammt frá brautinni. Hann hefur veitt fé skjól fyrir vondum veðrum úr öllum áttum. “Garðinn hlóð Helgi Jónsson sterki, er var húsmaður Þorkels lögrm. Jónssonar, föður Jóns Thorkilli. – Skv. frás. Guðm. A. Finnbogasonar.” Skv. því hefur garðurinn verið hlaðinn um 1650. Skipsstígurinn á milli Narðvíkur og Grindavíkur, liggur skammt vestan við hólinn.

Rósel

Rósel.

Þá var haldið að Róasaseli vestan Rósaselsvatna og það skoðað. Selið er greinilega mjög gamalt. Við þar er hlaðinn stekkur, fremur lítill. Litið var á borg skammt vestan þjóðvegarins að Garði. Borgin er á litlum hól og er fremur lítil af fjárborg að vera. Hún er greinilega mjög gömul, enda engar sagnir til um tilvist hennar. Hún er hvergi til á kortum, hvorki gömlum né nýjum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Staldrað var við Keflavíkurborgina, sem er á holti ofan við Grófina. Um er að ræða mjög gamla hlaðna fjárborg. Inn í hana hefur einhvern tímann verið hlaðinn garður og er líklegt að fé hafi verið gefið í borginni. Eins og flestir vita voru ekki til fjárhús á þeim tíma, heldur komu hlaðnar borgir og fjárhellar (fjárskjól/fjárbyrgi) í þeirra stað. Sérstök hús fyrir fé komu löngu síðar( á 20. öldinni).

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

Haldið var að Hólmsborginni á Hólmsbergi (Berghólum). Um er að ræða mjög fallega fjárborg, að mestu hlaðna úr torfi og grjóti. Út frá henni til suðurs er garður, en inni í henni miðri er stallur. Hafa ber í huga að fornum fjárborgum var breytt í tímans rás, allt eftir þörfum hverju sinni. Þannig urðu sumar borgir að stekkjum, sbr. Þórustaðaborgin, og til eru dæmi um að borgir hafi þróast í réttir, sbr. Auðnaborgin. Sunnan Hólmsborgar er gerði eða rétt, en austan hvorutveggja liggur gamla þjóðleiðin á milli Keflavíkur og Útskála.

Árnarétt

Árnarétt.

Loks var haldið að Árnarétt við viðkomu við Hríshólavöru, einni fallegustu fjárborginni á Reykjanesi. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt. Álaborgin syðri er ofan Bæjarskerja. Hún er einnig forn rétt og stendur enn að mestu heil. Í bakaleiðinni var skoðuð gömul fjárborg sunnan vegarins að Leifsstöð. Rétt mótar fyrir hringnum innan um leifar hernaðarmannvirka Bretans. Gaman að sjá hvernir hin gamla arfleið hefur lifað hernaðarbröltið vegna þess hversu ómeðvituð þau hafa verið þeim er þar komu að.
Góður dagur. Og hið skemmtilega var að flestir í hópnum, sem ekið hafa margoft þessa leið, höfðu aldrei tekið eftir þessum merku mannvirkjum – sem eru einungis nokkra metra frá einni fjölförnustu þjóðleið nútímans.

Stóri-krossgarður

Stóri-krossgarður.