Færslur

Geirfugl

FERLIRsfélagar voru á leið í Sandgerði og áttu stutt eftir ófarið þegar maður má segja hljóp í veg fyrir bíl þeirra. Maðurinn baðaði út öllum öngum og virtist hrópa: “Hann er ekki dauður. Hann er ekki dauður”. Allir önduðu léttar.

Geirfugl

Geirfuglinn í Sandgerðisfjöru.

Maðurinn benti áleiðis niður í fjöru. Stigið var út og maðurinn eltur. Þar staðnæmdist hann og benti á eitthvað sem virtist fugl. “Sjáið”, sagði hann og benti af enn meiri ákveðni. Myndavél var brugðið á loft og smellt af, en við það virtist fuglinn taka viðbragð og hvarf sjónum áhorfenda. Skv. síðustu rannsóknum eru fuglar taldir heyra 200 sinnum betur en menn. Mun það m.a. hjálpa þeim að rata langar leiðir. Eldey er hins vegar ekki svo langt frá Sandgerði.

“Nei”, það getur ekki verið, sagði hver ofan í annan. Síðasti geirfuglinn var drepinn í júní árið 1844 í Eldey. Síðan hefur hvorki sést slíkur fugl hér við land né annars staðar. Nema kannski sá uppstoppaði, sem keyptur var dýrum dómi (9.000 sterlingspund) til landsins frá Englandi árið 1971.
Geirfuglinn var um 75 cm á hæð á meðan hann var og lifði. Þessi var stór, a.m.k. 75 cm. Hann átti að vera frændi álkunnar. Þessi var mjög álkulegur á að líta.
Ákveðið var að koma við í Fræðasetrinu og bera málið undir Reyni Sveinsson, sem fylgist vel með öllu.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir sagðist aðspurður ekki alveg getað neitað því að hafa heyrt menn, sem höfðu það eftir öðrum, einkum upp á síðkastið, að þeir hefðu talið sig hafa séð geirfugl við Sandgerði, en sjálfur sagðist hann ekki hafa séð neinn slíkan. Nú myndi hann hins vegar gefa því mun betri gaum en áður því gaman væri að berja fuglinn augum ef hann væri þarna einhver staðar. Það væri þó ekki útilokað að einhver hefði tekið hann fyrir geirfugl því hann ætti tíðgengið um svæðið.
Og hver segir að eitthvað sé alveg útdautt þótt það hafi ekki sést um langan tíma. Ekki er alveg útilokað að einhver heppinn, sem á leið um fjörur Sandgerðis á næstunni berji eitthvað augum, sem ekki hefur sést alllangt.

Annars er hin opinbera saga geirfuglsins eftirfarandi:
Geirfuglinn (Pinguinus impennis) var ákaflega algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum, meðal annars undan ströndum Íslands, Færeyja og Grænlands, á nyrstu eyjum Bretlandseyja og við Noreg og Kanada. Talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl, en ekki er þó alveg ljóst hve stór stofninn var hér við land.

Geirfugl

Geirfugl – teikning.

Upp úr 1800 fór heldur betur að halla undan fæti hjá geirfuglinum sökum ofveiði. Aðallega voru það sjómenn sem veiddu hann á löngum veiðiferðum sínum á þessum slóðum enda var geirfuglinn stór og kjötmikill og auðveldur viðureignar enda ófleygur. Geirfuglinn var einnig veiddur vegna fjaðranna sem voru notaðar í fatnað.
Geirfuglinn var mjög stór fugl, rúmir 70 sentímetrar á lengd og langstærsti fuglinn í ættinni Alcae eða svartfuglaætt. Ýmsar aðrar tegundir í þessari ætt eru algengar hér á landi í fuglabjörgum allt í kringum landið eins og álka (Alca torda), langvía (Uria aalga), stuttnefja (Uria lomvia) og lundi (Fratercula arctica).
Ofveiði er sem fyrr segir meginástæða þess að geirfuglinn dó út en síðustu tveir fuglarnir voru veiddir í Eldey þann 4. júní 1844 þegar þrír íslenskir sjómenn, Sigurður Ísleifsson, Ketill Ketilsson og Jón Brandsson, voru beðnir um að safna nokkrum eintökum fyrir danska náttúrugripasafnarann Carl Siemsen. Þeir Jón Brandsson og Sigurður Ísleifsson fundu fljótt sinn fuglinn hvor og drápu en Ketill kom til baka tómhentur enda voru þá síðustu tveir geirfuglarnir fallnir í valinn og þar með lokið sögu þessara mörgæsa norðurhafanna. Sorgarsagan um örlög geirfuglsins staðfestir það að stjórnlausar veiðar geta þurrkað út tegundir á mjög skömmum tíma.

En nú virðist ekki öll von úti ef marka má nýlegar sagnir úr Sandgerði.

Geirfugl

Geirfugl á Reykjanesi.

 

Geirfugl

Mannhæðarhár bronsskúlptúr af geirfuglinum sáluga verður afhjúpaður í dag við Valahnjúk á Reykjanesi.
Geirfuglinn er gjöf frá bandaríska listamanninum Todd McGrain en hann sóttist eftir því Listamaðursjálfur að fá að koma fuglinum fyrir í fjörunni neðan við Valahnjúk á Reykjanesi. Verkið er hluti af stærra verkefni sem kallast Lost Bird Project og er tileinkað fimm útdauðum fuglategundum.
„Ég hef unnið að þessu verkefni undanfarin fimm ár og hef gert fimm skúlptúra af fimm útdauðum fuglategundum, þar á meðal geirfuglinum. Geirfuglinn var einn fyrsti fuglinn sem ég stúderaði en segja má að það séu um tíu ár síðan fuglinn „kom“ fyrst til mín,“ segir Todd McGrain.
ListaverkiðListamaðurinn eyddi meðal annars sex mánuðum á Ítalíu, í Róm, þar sem hann grandskoðaði fuglinn, sem verður afhjúpaður í dag klukkan 14. Listaverkið er gert í minningu geirfuglsins en 3. júní árið 1844 voru tveir síðustu geirfuglarnir í heiminum drepnir á syllu í Eldey, suðvestur af Reykjanesi. McGrain kom til landsins fyrir ári til að skoða aðstæður og sá geirfuglinn strax fyrir sér í fjörunni neðan við Valahnjúk. Þá heimsótti hann meðal annars Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem uppstoppaður geirfugl er geymdur.
„Við höfum myndað allt ferlið í kringum smíði fuglsins, flutning og uppsetningu og ætlum að vinna heimildarmynd út frá því og ég er viss um að þessi innsetning muni færa gróskufullt menningarlíf bæjarins upp á við. Veður og vindar í fjörunni munu svo gera fuglinn enn fegurri með tímanum en staðsetningin hefur bæði sögulega tilvísun og minnir á dramatísk örlög fuglsins.“

Heimild:
-Fréttablaðið 2. sept. 2010, sérblað bls. 10.

Geirfugl

Geirfuglar á Reykjanesi.

Sigurður K. Eiríksson, bóndi í Norðurkoti í Fuglavíkurhverfi utan við Sandgerði á utanverðum Reykjanesskaganum, er á níræðisaldri. Honum er ýmislegt til lista lagt.
Siggi-2Auk þess að verja æðarvarpið fyrir varginum með nýstárlegum aðferðum hefur hann m.a. dundað sér við að tálga eftirmyndir af fuglum í smækkaðri mynd. Þó hafa a.m.k. tvö verka hans fengið að njóta stærðarinnar, en það eru geirfuglar, sem hann hefur unnið nokkuð nákvæmar eftirmyndir af. Hafði hann m.a. geirfuglseintakið fræga á Náttúrufræðisafninu sem fyrirmynd.
“Fuglar náttúrunnar hafa verið mér hugleiknir, allt frá því að ég  var barn”, sagði Sigurður þegar hann var spurður um þennan áhuga á fuglum, “geirfuglinn sem mennirnir náðu reyndar að gera aldauðan hér ekki langt undan, er einn af þeim. Geirfuglinn er nú minnisvarði um hvernig á ekki að standa að verki þegar náttúran og lifandi verur eru annars vegar”.

Siggi-3

Þegar Sigurður var spurður að því hvernig honum litist á að sýna fuglana svaraði hann: “Æi, verður þetta þá bara ekki eins og vitlausa umfjöllunin um hina geirfuglana tvo, listaverkin úti á Reykjanesi og úti við Skildingarnes. En hvernig er svo sem hægt að gera eftirmyndir af fugli öðruvísi en hann er, eða var í þessu tilviki?”
Sigurður er jafnvígur á tré og járn svo það er fátt sem hann getur ekki búið til. Ef fólk á erindi um Stafnesveginn milli Sandgerðis og Ósabotna er tilvalið að sækja Sigurð heim og fá að skoða fuglana sem og hið áhugaverða umhverfi sem þar er að finna.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson með geirfuglana.

 

Geirfugl
Ljóst er að Suðurnesjamenn hafa snemma byrjað fugla- og eggjatökuferðir í Geirfuglasker og er eyjarinnar getið í máldaga Kirkjuvogskirkju í Höfnum árið 1367. Þessar ferðir voru þó hið mesta glæfraspil enda lendingin í eynni erfið og mjög brimasöm.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson í Norðurkoti með geirfugla.

Séra Hallkell Sefánsson, prestur á Hvalsnesi frá 1655 til 1696, orti kvæði í vikivakastól um Geirfuglasker.
Suðurnesjamenn stunduðu fugla- og eggjatöku í Geirfuglaskeri af kappi, þrátt fyrir stórhættulegar aðstæður. Þannig segir Niels Horrebow í Íslandslýsingu sinni árið 1750 að slíkar ferðir séu árviss viðburður á mörgum bæjum. Til mikils var að vinna því sagt var að laun háseta fyrir einn leiðangur í eyjuna væri jafnhá og sumarkaup verkamanns til sveita.
Fyrir kom að eggjatökumenn næðust ekki til baka af skerinu. Þannig björguðust þaðan eitt sinn þrír menn eftir hálfsmánaðar vist og höfðu þeir nærst á sólþurrkuðum fugli og stropuðum eggjum. Þá fundust árið 1732 mannabein og kofaskrifli í eyjunni, sem sennilega voru leifar strandarglópa af erlendri duggu.
Geirfuglinn líkist álku. Hann var af ætt svartfugla, afar stór (um 5 kg. Fullvaxinn) og ófleygur. Veiðimenn sóttust mjög eftir þessari auðveldu bráð þar sem geirfuglakjötið og –spikið þótti afar ljúffengt og laust við þráa, en einnig voru geirfuglaeggin eftirsótt.
Árið 1830 tók náttúran loks endanlega fyrir ferðir út í Geirfuglasker þegar það sökk svo að segja í kjölfar eldsumbrota.
Þann 3. júní árið 1844 voru síðustu geirfuglar veraldarinnar drepnir í Eldey. Geirfuglinn hefur því verið verið útdauðir síðan. Örlög þessara stóru sjófugla minna óþyrmilega á hvað getur gerst ef ekki er farið að með gát í umgengni við náttúruna og lífríkið. Einungis um 80 uppstoppaðir geirfuglar, 75 egg, nokkrar beinagrindur og bein af geirfuglum eru til í veröldinni. Geirfuglar voru stórir fuglar og einmitt þess vegna og einnig vegna þess að þeir gátu ekki flogið var þeim útrýmt með ofveiði. Einn uppstoppaður geirfugl er til í Náttúrugripasafni Íslands.

Geirfugl

Geirfugl.

Vitað er að geirfuglinn í Náttúrugripasafni Íslands var íslenskur. Danskur greifi, Raben að nafni, sló hann niður með ár í grennd við Hólmsberg á Miðnesi árið 1821. Fuglinn var í eigu Raben-fjölskyldunnar þar til hann var seldur á uppboði hjá Sotheby´s í Lundúnum árið 1971. Þar var hann sleginn Finni Guðmundssyni fuglafræðingi fyrir 9.300 sterlingspund en ýmis félög, Lions, Kiwanis og Rotary, höfðu safnað þessu fé meðal almennings á Íslandi á aðeins 4 dögum. Þessi fjárhæð samsvarar 7-9 milljónum íslenskra króna í dag sé miðað við byggingar- eða neysluvísitölu. Fuglinn er ennþá vel farinn þrátt fyrir liðlega 170 ára aldur og þykir uppstoppun hans á sínum tíma hafa tekist dável.
Náttúrugripasafnið á einnig eitt geirfuglsegg en færri egg hafa varðveist í heiminum en hamir. Harvardháskóli í Bandaríkjunum seldi Finni Guðmundssyni eggið af miklum rausnarskap árið 1954 fyrir aðeins 500 dollara, sem var langt undir markaðsverði. Uppruni þess er óviss, en það er 117,9 x 76,0 mm að stærð.
Náttúrugripasafnið keypti einnig beinagrind af geirfugli af Harvardháskóla 1954, fyrir aðeins 160 dollara. Beinagrindin var sett saman árið 1908 úr beinum margra fugla sem fundust í fornum öskuhaugum á Funkeyju við Nýfundnaland.
Í frásögninni af Rauðhöfða segir að “í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga).

Geirfugl

Geirfugl á Náttúruminjasafninu.

Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið að honum varð ekki náð út í skipið hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið og töldu þeir manninn af með öllu nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu hvar komið var og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komizt út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.
Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu. Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu…”
Sumir hafa talið sig, eftir 1844, hafa séð geirfugl bregða fyrir á ströndinni utan við Sandgerði. Ef það reynist eiga við rök að styðjast er geirfuglinn ekki alveg útdauður. Og miðað við nútímatækni ætti að vera hægt að klóna s.s. eitt stk. geirfugl, svona til að fólk gæti séð hvernig þessi eftirsótti, en einnig vinarlegi matmikli fugl, lítur út.Heimildir m.a.:
-sandgerdi.is/fraedasetur
-nat.is

Geirfugl

Geirfugl.