Suðurnesjamenn stunduðu fugla- og eggjatöku í Geirfuglaskeri af kappi, þrátt fyrir stórhættulegar aðstæður. Þannig segir Niels Horrebow í Íslandslýsingu sinni árið 1750 að slíkar ferðir séu árviss viðburður á mörgum bæjum. Til mikils var að vinna því sagt var að laun háseta fyrir einn leiðangur í eyjuna væri jafnhá og sumarkaup verkamanns til sveita.
Fyrir kom að eggjatökumenn næðust ekki til baka af skerinu. Þannig björguðust þaðan eitt sinn þrír menn eftir hálfsmánaðar vist og höfðu þeir nærst á sólþurrkuðum fugli og stropuðum eggjum. Þá fundust árið 1732 mannabein og kofaskrifli í eyjunni, sem sennilega voru leifar strandarglópa af erlendri duggu.
Geirfuglinn líkist álku. Hann var af ætt svartfugla, afar stór (um 5 kg. Fullvaxinn) og ófleygur. Veiðimenn sóttust mjög eftir þessari auðveldu bráð þar sem geirfuglakjötið og –spikið þótti afar ljúffengt og laust við þráa, en einnig voru geirfuglaeggin eftirsótt.
Árið 1830 tók náttúran loks endanlega fyrir ferðir út í Geirfuglasker þegar það sökk svo að segja í kjölfar eldsumbrota.
Þann 3. júní árið 1844 voru síðustu geirfuglar veraldarinnar drepnir í Eldey. Geirfuglinn hefur því verið verið útdauðir síðan. Örlög þessara stóru sjófugla minna óþyrmilega á hvað getur gerst ef ekki er farið að með gát í umgengni við náttúruna og lífríkið. Einungis um 80 uppstoppaðir geirfuglar, 75 egg, nokkrar beinagrindur og bein af geirfuglum eru til í veröldinni. Geirfuglar voru stórir fuglar og einmitt þess vegna og einnig vegna þess að þeir gátu ekki flogið var þeim útrýmt með ofveiði. Einn uppstoppaður geirfugl er til í Náttúrugripasafni Íslands.
Náttúrugripasafnið á einnig eitt geirfuglsegg en færri egg hafa varðveist í heiminum en hamir. Harvardháskóli í Bandaríkjunum seldi Finni Guðmundssyni eggið af miklum rausnarskap árið 1954 fyrir aðeins 500 dollara, sem var langt undir markaðsverði. Uppruni þess er óviss, en það er 117,9 x 76,0 mm að stærð.
Náttúrugripasafnið keypti einnig beinagrind af geirfugli af Harvardháskóla 1954, fyrir aðeins 160 dollara. Beinagrindin var sett saman árið 1908 úr beinum margra fugla sem fundust í fornum öskuhaugum á Funkeyju við Nýfundnaland.
Í frásögninni af Rauðhöfða segir að “í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga).
Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu. Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu…”
Sumir hafa talið sig, eftir 1844, hafa séð geirfugl bregða fyrir á ströndinni utan við Sandgerði. Ef það reynist eiga við rök að styðjast er geirfuglinn ekki alveg útdauður. Og miðað við nútímatækni ætti að vera hægt að klóna s.s. eitt stk. geirfugl, svona til að fólk gæti séð hvernig þessi eftirsótti, en einnig vinarlegi matmikli fugl, lítur út.Heimildir m.a.:
-sandgerdi.is/fraedasetur
-nat.is