Grindavík

“Allt fram yfir síðustu aldamót var á lífi fók fyrir austan Fjall, sem tók svo til orða um sveitunga sína, er löngu voru safnaðir til feðra sinna: Hann er einn af þeim, sem komu úr Eldinum. Þannig var talað um þá, sem höfðu orðið að flýja ógnir Skaftárelda og náð bólfestu í útsveitum Suðurlandsundirlendisins.

 Grindavík

En löngu, löngu fyrr, mörgum öldum áður en ölmusulýður Móðurharðindanna hlaut að flýja hraunflóðið úr Laka, höfðu orðið eldsumbrotum í Skaftárþingi með þeim afleðingum að menn urðu að flytjast þaðan á brott. Þeir voru að vísu landnemar á þessum slóðum. Samt höfðu þeir ekki tjaldað tile innar nætur heldur ætlað sér að una þar ævi sinnar daga.
Í Landnámu segir frá Hrólfi höggvanda. Hann átti syni tvo: Vémund og Molda-Gnúp. Hér segir ekki af Vémundi, hvorki vígum hans né smíðum, heldur hinum bróðurnum, Molda-Gnúpi, sem kom til Íslands og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, þar sem nú er Álftaver og austurhluti Mýrdalssands. Molda-Gnúpur seldi mönnum af landnámi sínu og gerðist þar fjölbyggt áður en en jarðeldur rann ofan og urðu þeir nú að flýja út yfir Sand, í Mýrdal. En ekki var þeim leyfð þar vist til langframa, enda sjálfsagt setinn bekkurinn. Vorið eftir héldu þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestust þar. “Þeir höfðu fátt kvikfjár”, segir í sögunni, svo sem ekki var óeðlilegt eftir þessa hrakningar. Skyldi maður nú ætla að ekki hefði gengið greitt að koma upp stórum bústofni á hrjóstrum Reykjaness, “þessu geigvænlega héraði, þar sem ferleg hraunflóð hafa brotizt hvert á annað ofan frá fjöllunum og allt í sæinn fram”, eins og Sveinn Pálsson kemst að orði í frásögn af ferð sinni um Sandakraveg.
GeitEn hér fór á aðra leið. Einn af sonum Molda-Gnúps hét Björn. Hann dreyndi um nótt, að bergbúi kæmi til hans og bauð að gera félag við hann og þóttist hann játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð vellauðugur. Eftir það var hann kallaður Hafyr-Björn, en af bergbúanum fer ekki fleiri sögum og ekki er þess getið hver varð hans hlutur í þessu hálfmennska kompaníi.
En hversu mikið, sem hæft er í þessum þjóðsögukenndu frásögnum af auði Hafur-Bjarnar í gangandi fé, þá er það sjórinn en ekki landið, sem hefur fætt Grindvíkinga frá upphafi og til þessa dags. Um 1700 bjuggu í Grindavík um 200 manns sem höfðu 66 kýr, 385 fullorðið fé og 58 hross. Þetta eru ekki nema eins og 2-3 væn bú nú á dögum.
Grindavíkurbátar fyrrumÍ ritgerð Skúla fógeta um Gullbringu- og Kjósarsýslu 1782 segir hann 202 menn búsetta í Grindavík, alls 43 fjölskyldur. Á sjö jörðum eru þar 15 bændur, að presti meðtöldum og kaupmanninum, 18 hjáleigumenn og 10 þurrabúðarmenn. En ekki er bústofninn mikill; 55 kýr, rúmlega 300 fjár, þar af 102 sauðir, en hrossin yfir 70. Þetta er ekki nema eins og eitt stórt bú nú á dögum. Það er heldur ekki von. Hér er erfitt að framfleyta nokkrum búpeningi að ráði. Því að það er eins og segir í sóknarlýsingu sr. Geirs Bachmanns, þá er “allt Grindarvíkurland ákaflega hrjóstugt og grýtt…” Það mun óhætt að fullyrða, að eigi finnist á Suðurlandi jafngraslítil og gróðurlaus sveit sem þessi. Varla má það heita, að nokkurs staðar í nánd við bæi og í svokölluðum heimahögum verði áð hesti um hásumarið.
GrafiðÞað var því engin furða þótt sr. Geir breytti til og færði sig þangað sem mýkra var undir fótinn. Hann fékk seinna Miklholt á Snæfellsnesi. Þó var annað í Grindavík ekki minni annmarki heldur en grasleysið. Það var vatnsskorturinn. Víðast hvar eru fjöruvötn brúkuð til neyzlu eður þá þeim verri sjóblendingur úr stöðupollum og gjám, í hverjar sjórinn fellur að og út með hverju sjávarfalli… Það einasta rennandi vatn, sem finnst í nánd við bæi, er í afardjúpri gjá, Baðstofu nefndri, hér um bil 200 faðma frá bænum Húsatóttum. Eru niður að vatninu nálega 15 faðmar eða máske 20, hvað ei verður með vissu mælt, því það er ekki standberg og vatnsdýpið, þar til að verður komizt, við 3 faðma.
HópiðÞað væri því mikil synd að segja að gott væri undir bú á þessum slóðum og engin furða þótt menn hefðu þar “fátt kvikfjár” eins og í Landnámu segir.
Um búskap Grindvíkinga segir sr. Geir Bachmann í fyrrnefndri sóknarlýsingu, að kýr verði “alla tíma að hafa inni nema þá tvo mánuði sem í seli eru.
Aldrei eru hestar traðaðir, hvað kopa mundi of mikið þeim gripum með brúkuninni, þar ei má heita hestar kviði sig á hálfri viku eftir eins dags brúkun til Keflavíkur.”
Um sauðféð og aðbúnað þess fer sr. Geir þessum orðum: “Engin eru hér beitarhús á vetrum, borgir né fjárhús. Sauðfé, sem fátt er, gengur allt úti í fjörunni, gjafalaust og kemur aldrei í hús. Það liggur undir upphrófuðum skjólgörðum, til hverra það er rekið á hverju kvöldi.”
Það má því með sanni segja, að eins og manneskjan átti sitt undir sjónum og því sem úr honum fékkst svo var líf hrossanna og sauðskepnunnar háð fjörunni og því, sem hafaldan rak upp á hana.
Þótt liðið sé nokuð á aðra öld síðan þetta var ritað hafa tímarnir furðu lítið breytzt hvað þetta snertir. Landið er það sama. Úfin hraun og gróðurlaus, berar klappir, gráir sandar. Það er ekki betra undir bú heldur en þegar Geir barmaði sér yfir grasleysinu svo varla var hægt að æja hesti um hásumarið. Og eftir þessu hafa menn eðlilega hagað sér á þessum tímum hagræðingar og sívaxandi skipulagningar atvinnuveganna. Nú mun enginn nautpeningur til í Grindavíkurhreppi. Þar eru nú örfá hross og eittyhvað um hálft annað þúsund fjár.

Skipakostur

Hér hefur eins og allir vita, útgerðin, sjósóknin og fiskverkunin, verið fólksins lifibrauð. Ef sjórinn brást áður fyrr, þá tók sveitin og sulturinn við. Nú er það bankinn og samfélagsins breiða bak. Hvílíkur munur.
Á vetrarvertíðinni 1780 reru 27 skip úr Grindavík, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 fjögramannaför. Áhöfn þeirra var 50 heimamenn og 160 “Austmenn” eins og skúlu fógeti nefnir þá. Og hér koma fleri við sögu. Stórútgerð þeirra tíma lét sig ekki vanta í þessari aflasælu veiðistöð. Stóllinn – biskupsstóllinn í Skálholti – hélt þar úti 12 skipum, einum tíoæringi og 11 áttæringum, en “áhöfn þeirra var 2 heimamenn og 131 Austmaður.” Var því engin furða þótt oft sé tekið svo til orða um landseta á stólsjörðunum, að ein af skyldum þeirra sé að róa á skipum stólsins á vetrarvertíðum. Sama máli gegndi um þá, sem sátu á konungsjörðunum. Þar var Bessastaðavaldið sem réði og lagði lítt bærar skyldur og kvaðir á landslýðinn. En hvað þýddi að mögla eða kvarta. 

Nútíminn

Þetta var óumflýjanlegt hlutskipti ófrjálsrar þjóðar, sem var kúguð og þrælkuð í sínu eigin landi. Sjálfsagt mundi ríkisins landsetum þykja hart undir slíku að búa nú á tímum.
Allt er þetta nú löngu liðið. Þetta er eins og ljótur draumur. Börnum sjálfstæðrar þjóðar í ríki velmegunarinnar finnst þetta ekki geta verið veruleiki. Nú sækja Grindvíkingar sjóinn á glæsilegum flota stórra vélbáta allt upp í 300 tonn. Á síðustu vetrarvertíð reru þaðan um 40 bátar. Meira en helmingur þeirra á heima í Grindavík. Slík gjörbylting í sjósókn á sér vitanlega langa sögu. Er hún öllum kunn, þeim, sem fylgzt hafa með atvinnuþróun þjóðarinnar. Og að hún gerist í Grindavík, eins og í mörgum öðrum sjávarplássum, á sér eina höfuð-orsök. Hinn stóri bátafloti Grindvíkinga og öll sú mikla “drift”, sem hann hefur sett í þetta sjópláss og þar með uppgangur staðarins, fjölgun fólksins, – allt byggist þetta á höfninni og þeirri aðstöðu, sem þessum mikla flota er búinn í Hópinu í Grindavík.
Hópið 1945Um Hópið fer sr. Beir Bachmann allmörgum orðum í sóknarlýsingu sinni. Er ekki úr vegi að taka það hér upp að nokkru, svo mjög byggist lífsbjörg Grindvíkinga á því nú framar öllu öðru.
Sr. Geir segir að Hóp (jörðin) hafi miklar nytjar af tjörn þessari, sem sé helmingi stærri en Reykjavíkurtjörn, umkringd af landi á alla vegu nema þeim, sem til vesturs veit. Þar er rif, ca. 200 faðma langt milli Sundvörðu og Svíravörðu, sem eru sundmerki á Járngerðarstöðum. Yfir rifið fellur um hvert flóð, og í stórstraumi fer það svo að segja allt í kaf varða á milli. Ós er út úr Hópinu rétt í útsuður. Má heita í sömu stefnu og Járngerðarstaðasund… “Hafa bændur fyrrum hér í Grindavík eftir tilmælum kaupmanna og fyrir litla þóknun grafið ósinn, dýpri, þótt enn sé hverju haffæru skipi ófær, sökum þess hve grunnur hann er. Mætti þó með litlum tilkostnaði hann dýpri gjöra, svo þiljubátar og smærri fiskiskip örugg gætu haft þar inni lægi og flúið þangað í viðlögum. Kæmust stærri skip inn í Hópið er það ein sú bezta skipalega. Mundi og einn kaupmaður hafa hér nóga verzlun, ef einn væri um hituna, og í engu sakna hinna nálægu kaupstaðanna.”
HópiðEn þetta eru bara ímyndanir, áætlanir, óskir og vonir. Enginn veruleiki. – Þau einu not, sem hægt var að hafa af Hópinu í tíð Geirs Bachmanns, voru þau að “í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll.”
En sú kom tíðin, að Hópið í Grindavík varð Grindvíkingum til annarra og meiri nytja heldur en hrognkelsaveiða (sjá HÉR). Nú má segja að Hópið sé lífæð plássins, undirstaða tilverunnar á þessum uppgangsstað. Nú er Hópið ein sú bezta höfn á landinu þar sem stærstu fiskiskip geta farið hindrunarlaust út og inn. Í staðinn fyrir opna og erfiða brimlendingu smárra báta – er nú öruggt lægi stórra skipa, sem leggjast upp að bryggjum og bólverkum, þar sem er öll hin fullkomnasta aðstaða til útgerðar.
Þessi bylting í útgerðaraðstöðunni hefur valdið miklum breytingum í “byggðaþróun” Grindavíkur.”

Heimild:
-Lesbók mbl 1. okt. 1955 – Gísli Brynjólfsson.

Grindavík

Höfnin í Grindavík.