Reykjanesviti

Þótt í dag liggi malbikaður vegur út að Reykjanesvita, bæði frá Grindavík og Höfnum, er alls ekki svo langt síðan að þangað var gerður akvegur.
Reykjanesvegir-22Áður lá reið- og samliggjandi vagnvegur frá Kalmannstjörn allnokkuð ofan Hafnarbergs út á Reykjanes, en það var ekki fyrr en á árunum 1926-1928 að ruddur var vegur frá Reykjanesvita að Stað við Grindavík. Eftirfarandi má t.d. sjá í Alþýðublaðinu árið 1926 undir fyrirsögninni “Vegarbætur”:
“Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna.
Reykjanesvegir-23Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni – vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um. Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast. eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni.
Reykjanesvegir-24Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla Ieiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi. Sá hlutinn, sem hær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927.

Reykjanesvegir-25

Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. — Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.”
Í Lesbók Morgunblaðsins 1960 er einnig fjallað um framangreinda vegagerð: “Við göngum upp á hæð fyrir ofan bæinn og horfum til hafs. Það brimar fyrir Stað þótt logn sé undan Grindavík. — Við okkur blasir nokkurra kílómetra löng strandlengja, suðurströnd Reykjanesskagans…. Við erum að leggja upp í leiðangur eftir tröllaveginum út að vita…

Reykjanesvegir-26

Erindið hingað var meðal annars að kanna veginn út að vita, og jafnframt að njóta leiðsögu hins örnefnafróða Staðarbónda, sem jafnframt kann öðrum fremur að segja sögu sjóslysanna hér um slóðir, því hann hefur um áratugi verið ekki aðeins áhorfandi harmleikanna, heldur líka og oftar virkur þátttakandi í baráttunni milli manns og hafs um líf einstaklinganna. Manni [Gamalíal Jónsson] er nefnilega fæddur í Reykjanesvita sama árið, sem kveikt var á nýja vitanum. Það mun hafa verið árið 1908. Faðir hans var þriðji vitavörðurinn á Reykjanesi og gegndi þeim starfa um tuttugu ár. Á þessari strönd sleit Manni barnsskónum og stælti manndómsþrek sitt.
Reykjanesvegir-27Þorvaldur Thoroddsen var á ferð hér á þessum slóðum árið 1883, og segir hann í ferðabók sinni: „Af Reykjanesi fórum við 11. ágúst inn í Grindavík. Þar er enginn vegur, en eintóm hraun yfir að fara. Alls staðar liggur hér mesti urmull af rekatrjám í fjörunni, og heyrir það allt undir kirkjuna að Stað í Grindavík.” Síðan eru liðnir röskir þrír aldarfjórðungar, og hálfgerð vegleysa er þetta enn.
…Nú er að hyggja að öðru og þá fyrst og fremst veginum til vitans. Vegalengdin frá Grindavík út á Reykjanes, að vita, mun vera um 10 kílómetrar. Frá Stað til Reykjaness er í sæmilegu gangfæri tveggja tíma gangur. Sá, sem gerði þann veg, sem nú er notazt við, var Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi. Var það á árunum 1926—’28. Bar hann að mestu grjótið í veginn. Ólafur er sagður hafa verið mikill atorkumaður. Veginn lagði hann til þess að komast með hestvagn til Grindavíkur og auðvelda sér þannig aðdrættina. Það mun hafa verið haustið 1928, sem fyrsti bíllinn fór út í Mölvík. Lengra komst hann ekki. „Vitasjóður lagði svo eitthvað í veginn á hverju hausti, en þetta var svo lítið, að það var svona viku tíma á ári, sem unnið var fyrir tillag hans”, bætir Staðarbóndinn við.
Lagt er í torleiðið á tveggja drifa bíl, og við höldum áfram að spyrja um veginn, hvort nokkurn tíma hlaði snjó á hann að ráði. Ekki er það talið vera og oftast hægt að komast hann. þótt fenni. Það er á tveim stöðum, sem hættast er við snjóþyngslum. „Það er hérna austur undir Stað í gjá,” segir Manni, „en þar mætti breyta veginum, leggja hann uppi á barðinu í stað þess að fara ofan í gjána, og svo er það Lynghólahraunið sem er farartálmi.
En það ætti ekki að vera mikið að ryðja það með þessum stórvirku tækjum. Þetta er ekki nema örstuttur Reykjanesvegir-28spotti,” bætir hann við.
Framundan er nú óbyggð eyðimörk, allt út að vita. Þetta er ábyggilega ein mesta grjótkista landsins. Við rétt sníglumst áfram. Umhverfis er bara hraun og hraun og aftur hraun. Ekkert lífsmark, enginn fugl, enginn hrafn og ekki einu sinni tófa. En jafnvel í þessari auðn ríkir máttur vanans, því að hinn ágæti bílstjóri kveikir á stefnuljósi, þegar hann skrönglast fyrir hraunbeygjurnar. Eina kennimerkið eftir nokkuð kvikt eru spor í snjónum í vegarhvörfunum, en þau spor eru bara eftir Manna og hundana hans… Bíllinn tekur geisilegan hnykk. Það hefur verið þarna gjóta í vegarhvarfi, sem bílstjórinn hafði ekki komið auga á, því varð hann að snarbeygja. Það var auk þess runnið svo úr veginum, að önnur vegbrúnin var gersamlega horfin og skriðin í burtu. Ég spyr, hvort ekki hafi neitt verið unnið að lagfæringu vegarins í haust. „Það var ekið í hann einn dag á leiðinni út til mín,” svarar Manni stuttaralega.

Reykjanesvegir-29

Við ræðum vegarspursmálið fram og aftur, nauðsyn vegarbótar, og Manni lýsir, með hvaða hætti skuli framkvæma hana, og honum farast orð eitthvað á þessa leið: „Það mesta, sem þarf að laga, er bara að aka ofan í veginn frá Reykjanesi og austur á Bása. Það er búið að aka ofan í að Hveravöllum, og það þarf að halda því áfram frá Hveravöllum austur á Bása. Svo er eins og kílómeterslengd, sem þarf að gera eitthvað meira við. Það eru sléttar klappir og vont að aka þær. Það þarf annað hvort að taka þar horn af og láta stórýtu vaða yfir hraunhornið ofar en vegurinn er og austur yfir Lynghólahraunið, en úr því þarf ekkert annað en aka ofan í það. Það er ódýrast.” Ég finn, að Manna liggur þessi vegagerð mjög á hjarta, svo ég geng hreint til verks og spyr: „Og þú heldur sem sagt, að það hefði getað munað mannslífum, ef þessi vegur hefði verið gerður?”

Reykjanesvegir-30

Brosmilt andlit Staðarbóndans verður mjög alvörugefið, og það kemur djúp hrukka milli augnanna og aðrar skáhallt upp af hvoru auga, er hann segir með þunga: „Já. Það er ábyggilegt, að ef það hefði verið brim, þegar Jón Baldvinsson fórst, þá hefði það getað munað miklu að vera kominn hálftíma eða klukkutíma fyrr út eftir. Í stað þess að við vorum, ég man ekki með vissu, víst eitthvað á þriðja klukkutíma á vörubíl… Eins var það með Clam, þá urðum við líka að aka þessa vegleysu með fullan bíl af fólki. Vörubílarnir urðu að taka ytri barðana af sér til þess að komast áfram. Allt tafði þetta. Við urðum líka að bíða til þess að hafa nógan liðsafla, ef ýta þyrfti bílunum. Ég er alveg viss um, að þetta hefur allt tekið eina þrjá klukkutíma. Það hefði verið munur að geta stokkið strax, nokkrir menn, með slysavarnartækin og skotizt út eftir á góðum vegi.

Reykjanesvegir-31

Þeir fórust 27 á Clam eins og þú veizt,” bætir hann við.
„Já. Ég gæti sagt þér eitt og annað af sjóslysunum hérna fyrr og síðar. Það hefur oft munað mjóu, og þó ekki alltaf nógu. Fyrsta sjóslysið, sem ég man eftir, var 1916. Þeim hafði borizt á í Katrínarvíkinni. „Resolut” hét það víst skipið. Einn synti í land með spotta, og hinir voru dregnir á eftir. — Þrímöstruð skúta, saltskip, strandaði skömmu síðar við Þorkötlustaðanesið. — Svo var það franski togarinn Cap Fagnet, sem fór upp á Hraunsfjörum í marz 1931, og þá var í fyrsta sinn skotið af línubyssu við björgunarstarf. Hann hét Guðmundur Erlendsson, sem skaut. Sjálfur drukknaði hann fáum árum síðar í róðri á trillu, en þarna björguðust 38 menn af franska togaranum. Svo strandaði Skúli fógeti hér á Staðarmölum… Eitt árið strandaði færeysk skúta á Ræningjaskeri framan við endann á Staðarhrauni og öll áhöfnin fórst. Þá var það Clamslysið. Það var hinum megin á nesinu, rétt innan við litla vitann. Ég kom með þeim fyrstu þarna að. Skipið hefur ekki verið nema svona 30 faðma frá landi. Hann var suðlægur, nokkurt brim. Þeir fóru í bátana, svo liggur hann niðri og svo slepptu þeir og ætluðu sér að róa upp að landinu, en þá er straumur þarna í röstinni svo mikill, að hann kastaði þeim og bara hvolfdi bátunum strax.
Við sáum það, þegar við vorum að koma Reykjanesvegir-32að, við Björn heitinn, sem var skipstjóri á Grindvíking, Hann fór með mér. Það var komið fljótlega með tvo skipbrotsmenn á jeppa. Ég fór að Reykjanesi til þess að hjálpa konu vitavarðarins með þá. Bar þá inn og skar utan af þeim fötin. Það var svo mikil bakkerolía í þeim, að þau voru alveg límd við skrokkinn. Þetta voru Kínverjar. Þegar ég kom með hnífinn og risti utan af, greip hann ofsahræðsla, og hann veinaði upp, því að hann hefur víst haldið, að ég ætlaði að gera á sér kviðristu. Frúin helt, að Kínverjinn væri að geispa golunni, enda hafði hann ekki meiri mátt en svo, að ég gat haldið honum með annarri hendi í klofinu, á meðan eg risti utan af honum tuskurnar. Þeir lifnuðu svo við.”
Og Gamaliel Jónsson bóndi á Stað lýkur máli sínu með að segja: „Ég tel það hreinan glæp, að ekki skuli vera lagður þarna góður vegur. Hvert eitt mannslíf, sem bjargast, borgar þann veg að fullu.”
Þetta sagði hann bóndinn á Stað, sem í áratugi hefur skimað til hafs, þegar stormarnir æða fyrir suðurströndinni og jötuneflt brimrótið molar björgin á Reykjanesi… Við skulum nefna þenna veg, sem lagður verður frá Oddsvita að Reykjanesvita, og fyrst og fremst á að hafa þann tilgang að bjarga mönnum úr sjávarháska: „Oddsbraut”, í minningu hins mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi, séra Odds Gíslasonar að Stað í Grindavík.”
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Alþýðublaðið, 20. ágúst 1926, bls. 2.
-Lesbók Morgunblaðsins, Birgir Kjaran: “Svipast um á Suðurnesjum”, 8. maí 1960, bls. 245-249.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.