Á Vísindavef HÍ er fjallað um myndun kviku og mótun hrauns:
“Bergkvika (kvika, bergbráð, bráð – e. magma) er blanda af bráðnu bergi og gufum, sem ættuð er úr iðrum jarðar. Við storknun kvikunnar skiljast gosgufurnar úr henni, en við storknun bráðarinnar verður til storkuberg. (Þorleifur Einarsson: Jarðfræði).
Í einfölduðu máli þá notum við orðið kvika (eða samheiti þess) um efnið niðri í jörðinni. Þegar efnið (mínus gosgufur) fer að renna á yfirborði, og eins þegar það er storkið, þá köllum við það hraun.
Bergkvika myndast við bráðnun bergs í möttli (basalt) og skorpu (ríólít) jarðar. Efnasamsetning hennar er mjög mismunandi eftir myndunarstað, en algengustu tegundir bráða innihalda 45-75% SiO2 og myndast við 1200-700°C á 100-3ja km dýpi í jörðinni.
Hraun (e. lava flow) merkir einkum breiðu eða lag af storknu bergi, en einnig ó- eða hálfstorknuð hraunbráð. Orðið höfðu landnámsmenn með sér frá Noregi þar sem það mun merkja grjóturð eða berghlaup, samanber Hraun í Öxnadal. Í Noregi eru engar eldstöðvar og Íslendingar yfirfærðu orðið til nýrrar merkingar eins og sést af frægum orðum Snorra goða frá Helgafelli á Þingvöllum árið 1000: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Setningin sýnir að Íslendingar skildu snemma tilurð hrauna í eldgosum.”
Á Wikipedia er fjallað um tegundir hrauna, storkun og myndanir:
“Hraun er bráðið berg eða möttulefni sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200 °C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum. Hraunið sem rennur þá inniheldur minna af uppleystum efnum (gösum) en kvikan.
Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.
Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru “Aa-lava” (apalhraun) og “Pahoehoe” (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii-eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.”
Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63785
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hraun