Þórkötlustaðanes

Af einhverri óútskýrðri ástæðu hafa einhverjir haldið að vitinn á Þórkötlustaðanesi bæri nafnið “Hópsnesviti”.  Að vísu komst sú nafngift inn í eina lýsingu, en hún sem slík breytir ekki nafninu og landfræðilegri staðsetningu vitans. Nafnabrengl þessi eru þó að hluta til skiljanleg því af Þórkötlungum hefur vitinn jafnan verið nefndur “Nesviti”, þ.e. stytting úr Þórkötlustaðanesviti. Járngerðingar hafa hins vegar haft vitann fyrir augunum yfir Hópsnesið, en svo nefnist vestanvert Þórkötlustaðanesið.
Þórkötlustaðanesviti - mörkin (rauð lína)Viti þessi var byggður árið 1928 úr steinsteypu. Verkfræðingurinn Benedikt Jónasson hannaði vitann, en ljóshæð hans yfir sjávarmáli er 16 metrar. Vitahæðin sjálf er 8,7 metrar. Þórkötlustaðanesviti var löngum keyrður með ljósavél, en hann var rafvæddur árið 1961.
Í örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaði segir: “En í vesturenda [] eru merkin móti Hrauni og í Melhól, sem er þar vestur af. En aftur á móti er niðri í nesinu, á merkjum móti Hópi, svonefnt Markalón.” Lón þetta er u.þ.b. 60 metra vestan við línu frá vitanum. Í annarri örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaði segir: “Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki.”
Í örnefnalýsingu fyrir Hóp segir: “Þorkötlustaðanes hefur fyrr verið nefnt. Það er allmikið nes, er gengur hér fram í sjó. Vesturhluti þess tilheyrir Hópi. Nokkuð framarlega í nesinu á merkjum er lón, sem heitir Markalón. Þar við er klöpp, sem er á merkjum.”
ÞórkötlustaðanesvitiHvernig gæti nokkrum manni, að framansögðu að dæma, dottið í hug að nefna vita eftir nábýlisjörð á annarra manna landi? Slíkt myndi hæglega geta valdið misskilningi á merkjum og jafnvel missi lands, sem forfeður vorir hafa hingað til verið fastheldnir á af sögnum að dæma. Rekinn á Nesinu hefur löngum verið ágreiningsefni og því varla hafa menn viljað gefa hið minnsta tilefni til að ætla mönnum annað, en þeir áttu nákvæmlega tilkall til hér fyrrum.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þórkötlustaði, I og II.
-Örnefnalýsing fyrir Hóp.

Þórkötlustaðanesviti handan við Járngerðarstaðasund