Til vefsíðunnar berst mikill fróðleikur frá lesendum, bæði til viðbótar upplýsingum sem fyrir eru eða nýjar (gamlar) um áður ókannað efni.
En þar sem viðfangsefni FERLIRs er einungis bundið við minjar, örnefni, sögu, náttúru og umhverfi í fyrrum landnámi Ingólfs (Reykjanesskagann) þarf að leggja margan fróðleikinn til hliðar. Og þótt eindreginn vilji væri fyrir hendi myndu aðstandendur vefsíðunnar aldrei komast yfir nema brot af því sem áhugavert er að kanna nánar. Viðbrögðin gefa sterklega til kynna að sambærilegar vefsíður þyrftu að vera til í a.m.k. hverjum landshluta og jafnvel víðar á afmörkuðum svæðum. Hvert, sem leitað hefur verið, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félög eða stofnanir, hefur leitendum jafnan verið vel tekið og allflestir hafa verið tilbúnir til að aðstoða, jafnvel fyrirvaralaust. Eldra fólk virðist hvað áhugasamast þegar til þess er leitað. Ánægjulegust, að öllum öðrum stofnunum ólöstuðum, hafa þó viðbrögð og þjónustulund Örnefnastofnunar verið. En til að segja hverja sögu eins og hún er verður að koma fram að til eru steinrunnar ríkis- og sveitarfélagsstofnanir á þessu sviði sem virðast hafa dagað hafa uppi líkt og náttröll einhvers staðar á vegferðinni.
Hér skal tekið dæmi um nýlegt aðsent efni.
“Góðan daginn. Ég heiti Magnús Hákon Axelsson. Var að skoða ferlir.is og datt í hug að benda ykkur á stað einn og afskaplega óljós munnmæli um hann (sjá meðfylgjandi kort). Þegar ekið er Krýsuvíkurveg gegnum Vatnsskarð er komið niður á eitthvað sem skv. mínu korti heitir Blesaflöt. Undir hlíðinni sem blasir við þegar komið er yfir hæðina í Vatnsskarði ku vera fornmannagrafir.
Framangreindar upplýsingar koma heim og saman við uppgötvun FERLIRs í einni ferðinni árið 2006 þegar gengið var um Vatnsskarð og hluta Dalaleiðarinnar svonefndu. Á þeirri leið var gengið fram á fimm litlar tóftir, ca. 120x60cm, ofan við Blesaflöt, neðan við Vatnshlíðarhorn, sem erfitt var að útskýra í fljótu bragði. Hvergi er að sjá að þeirra sé getið í skráðum heimildum.
Eldri Hafnfirðingar geta þess jafnan að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir og norðan við Vatnsshlíðarhornið þar sem fyrst sér til Kleifarvatns af gömlu götunni (sem er nokkru ofan við núverandi þjóðveg), en ekki þar sem skarðið er merkt nú yfir Sveifluhálsinn (Austurháls), enda ekkert vatn að sjá þaðan. Sumir telja reyndar að þar hafi Markrakagil verið fyrrum, en það verið fært norðar á hálsinn þar sem meira gil er að sjá á seinni tímum.
Fátt eitt hefur verið skrifað um Blesaflöt undir Vatnshlíðarhorninu.. Þó má sjá eftirfarandi í Tímanum 30. mars 1939 er getið um Blesaflöt í tengslu við vegargerðina um Vatnsskarð: “Við Krýsuvíkurveginn vinna nú um fimmtíu manns, tuttugu og fimm að austanverðu og tuttugu og fimm að vestan, og hefir svo verið lengst af í vetur. Þó var hætt vinnu um tíma í vetur við hann að vestanverðu, þegar veður voru verst og óhagstæðust. Að vestan er nú vegurinn fullgerður frá Reykjanesbraut í Vatnsskarð. Er nú verið að vinna í Vatnsskarði og aðalfyllingu að mestu lokið, en eftir að ganga frá vegarköntunum og ofaníburði.
Sömuleiðis er verið að undirbúa vegargerðina suður að svonefndri Blesaflöt, nokkuð norðan við Kleifarvatn. Frá enda þess hluta vegarins, sem væntanlega verður lokið á þessu ári, er vel fært bifreiðum að sumri til alla leið að Kleifarvatni. Verður síðan byrjað að leggja veginn meðfram Kleifarvatni. Að austan var vegurinn lagður suður Ölfusið síðastliðið sumar og er nú verið að vinna í hrauninu norðan við Vindheima, móts við Grímslæk. Kemst vegurinn væntanlega að Vindheimum í sumar.”
Gengið var um Blesaflöt. Þar eru engar sýnilegar minjar; skriður úr hlíðinni og mosi hylja allar slíkar líklegar. Þó var ljóst að gamla þjóðleiðin greindist í gamla Vatnsskarði, annars vegar beint undir hlíðunum vestanverðum og niður í Breiðdal og hins vegar inn undir hlíðarnar innanverðar að austanverðu um utanverðan Fagradal áleiðis niður í Leirdal (seinni tíma úrvinnsla).
Og þá aftur að tóftunum fyrrnefndu. Af þeim að dæma kemur ýmislegt til greina; s.s. að þarna hafi vegagerðarmennirnir árið 1939 geymt áhöld sín eða matvæli í litlum skýlum eða þeir hafi haft þarna afdrep við nauðþurftir, sem hafa verið færð til eftir þörfum. Þá gætu þeir hafa mokað þarna könnunarholur í leit að hentugu vegargerðarefni, en ekki litist á. Staðsetningin er þó ólíkleg til þessa.
Ef haft er í huga að tóftirnar eru á hálsi við gömlu þjóðleiðina milli Kaldársels (Hafnarfjarðar) og Krýsuvíkur má einnig með góðum vilja ætla að þarna kunni að vera dysjar óþekktra ferðamanna, sem orðið hafa úti á leiðinni. Þægilegra hefur verið að dysja þá við götuna en koma þeim með mikilli fyrirhöfn í kirkjugarð. En þá hafa annað hvort nokkrir orðið þarna úti samtímis á sama stað eða að óvenju margir hafa látist á nákvæmlega sama stað á lengri tíma, hugsanlega frá Svartadauða.
Hafa ber í huga að fornbýlið Skúlastaðir eru sagðir hafa verið eigi langt frá, auk þess sem sér móta fyrir fornum veggjum í innanverðum Breiðdal og tóftum í Fagradal, sem er innan örskotslengdar.
Ekki mun fást úr því skorið hvað undir er fyrr en farið verður á staðinn með pál og reku til að skoða undirlagið. Ólíklegt er þó að hinar steinrunnu stofnanir hafi áhuga á slíku, en það myndi áreiðanlega vekja þær af þyrnirósarsvefninum ef aðrir áhugasamir færu á stúfana með slíkt í huga.
Frábært veður. Og vorboðinn ljúfi gaf fagran tóninn á Blesaflöt fyrsta sinnið þetta vorið. Sá var nú ekki steinrunnin….
Til gamans má geta þess að lesendur vefsíðunnar voru um ein milljón á síðasta ári – og fer fjölgandi.
Heimildir m.a.:
-Tíminn, 30. mars 1939, forsíða.