Latur

Örnefnið “Latur” hefur verið útskýrt á ýmsan máta. Til að fá úr tilurð nafnsins skorið spurðist FERLIR fyrir um nafnið á fyrirspurnarvef Örnefnastofnunar (sjá hér tl hliðar), en þangað er hægt að leita fróðleiks og upplýsinga um hvaðeina er lýtur að örnefnum vítt og breytt um landið, svo framarlega að þau hafi verið skráð, þau hafi skírskotun eða um þau fjallað.

Latur

FERLIRsfélagar á Lat.

Spurningin var þessi: “Hafið þið upplýsingar um tilurð örnefnisins “Latur”? Latur er t.d. hár fjallsendi í Ögmundarhrauni, stórt bjarg í fjörunni (var þar) utan við Þorlákshöfn, klettur niður við strönd á Vestfjörðum og e.t.v. víðar?”
Svavar Sigmundsson svaraði að bragði fyrir hönd Örnefnastofnunar á eftirfarandi hátt: “Líklegt er að örnefnið Latur tengist umferð á sjó. Þannig er um Lat við Þorlákshöfn. Þór Vigfússon segir að hann hafi oft verið notaður sem hraðamælir. “Var talað um að róa Lat fyrir Geitafell og slögin talin í hvert eitt sinn, frá því að Geitafell fór að hverfa bak við Lat þar til það sást allt hinum megin” (Árbók Ferðafélagsins 2003, bls. 91).

Latur

Latur við Þorlákshöfn.

Latur er líka drangur vestur af Faxanefi í Vestmannaeyjum, en sjómönnum hefur þótt hann vera latur við að hverfa fyrir Faxanefið. Klettur á Breiðafirði milli Ólafseyja og lands heitir Latur og talinn draga nafn af því að hann “gengur mjög hægt fyrir Reykjanesið þegar siglt er úr Skarðsstöð fram í Ólafseyjar” (Árbók Ferðafélagsins 1989, bls. 130; Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (2003), bls. 107). Hólmi í Suðurlöndum á Breiðafirði heitir Latur og liggur undir Skarð á Skarðsströnd. Sker á Djúpavogi í S-Múl. nefnist Latur en ekki er vitað um að það hafi verið haft til viðmiðunar (Árbók Ferðafélagsins 2002, bls. 103; Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar (2000), bls. 544). Þetta gildir þó tæpast um Lat (= Siggahól) sem er strýtumyndaður hóll í Brúnunum upp af Vatnsleysuströnd vegna þess hve langt hann er frá sjó. Hann gæti þess vegna verið kenndur við leti (Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi, bls. 69).”

Latur

Latur – Þorlákshöfn.

Sesselja bætti síðan eftirfarandi við: “Varðandi Lats umfjöllunina: Í Vatnsleysustrandarheiði er örnefnið Latur yfir hól ofarlega í heiðinni (nefndur hér neðar) og var mér sagt af gömlum bændum að þar hefðu menn fengið sér lúr af einhverjum ástæðum, e.t.v. gildum? Þeir þurftu jú að bíða eftir einhverju og nýttu því tímann.
Við fyrstu skoðun virtist mér sem að í þessu tilviki (í smölun) hafi menn verið tímanlega á staðnum og því e.t.v. getað veitt sér það að vera latir, fá sér lúr. En við nánari skoðun; öllu frekar hitt að eitthvað hafi verið lengi á leiðinni, þ.e. að koma í ljós, verið hraðamælir , eins og Þór Vigfússon nefnir. Slík biðstaða getur auðvitað vel átt við bæði á landi og á sjó, þ.e. að eitthvað var lengur að koma í ljós en menn væntu eða hugðu. Tel ég það gildari skýringu nú á örnefninu Latur þó svo að við fyrstu sýn tengi maður leti við hegðun mannsins en ekki örnefnanna.”

Latur

Latur – upplýsingaskilti.

FERLIR þakkaði báðum greið svör, og bætti við: “Þessi skýring á örnefninu “Latur” kemur vel heim og saman við lýsingu Vigfúsar Einarssonar í Sunnlenskar byggðir II, 1981, bls. 94, þar sem hann lýsir aðstæðum vestan við Þjórsárós, nokkru austan við Loftsstaðasundið. Þar segir m.a.: “Þegar mikið brim er og háflóð, vaða ólögin yfir hraunið og brotna við sandinn og valda mikilli ” lá” svo vont getur verið að halda skipunum. Þurfa skiphaldsmenn að vera stinnir og vel klæddir, klofbundnir. Lendingin er ekki mjög brött og því ekki erfitt að setja skipin. Nokkru fyrir austan Loftsstaðasund hækkar hraunið, og má heita, að það endi í hraunbungu, sem er suður af Loftsstaðabænum; er þar bergstallur við sjó. Á hraunhrygg þessum er stór klettur, sem kallaður er Latur, og urðarbungan Latsgrjót. Auðgert er að miða hann við austurfjöllin.

Latur

Latur.

Þegar róið er til lands undan Loftsstaðasundi í norðanroki, gengur lítið, og fer Latur þá hægt fram austurfjöllin – er latur. Af þessu er nafnið dregið. Oft er það afbakað, hraunbungan kölluð Lagsgrjót og Lagsagrjót…”.
Líklegt má telja að sama skýringin gildi um Lat í Ögmundarhrauni. Hefur hann þá væntanlega verið mið við erfiðan eða “hæggengan” róður að verstöðinni Selatöngum eða nálægum stað/stöðum. Þó er ekki útilokað að nafnið eigi við um “letilegan” dvalarstað á langri leið því við Lat liggur gömul gata og neðan hans er gamalt sæluhús í hraunskjóli.

Kópavogur

Latur á Digraneshálsi.

Segja má að skýringin á örnefninu Latur í Vatnsleysustrandarheiði geti einnig staðist sem slík. Annað dæmi um sambærilega skýringu er nafn á stórum steini í sunnanverðum Digraneshálsi í Kópavogi þar sem gatan liggur nú um Hlíðarhjalla. Um hann segir að þar “Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.”

Og þá liggja fyrir nærtækar skýringar á örnefninu Latur.

-http://www.ornefni.is/
-http://www.ismennt.is/not/ggg/latur.htm

Latur

Latur í Kópavogi.