Færslur

Grindavík

“Allt fram yfir síðustu aldamót var á lífi fók fyrir austan Fjall, sem tók svo til orða um sveitunga sína, er löngu voru safnaðir til feðra sinna: Hann er einn af þeim, sem komu úr Eldinum. Þannig var talað um þá, sem höfðu orðið að flýja ógnir Skaftárelda og náð bólfestu í útsveitum Suðurlandsundirlendisins.

 Grindavík

En löngu, löngu fyrr, mörgum öldum áður en ölmusulýður Móðurharðindanna hlaut að flýja hraunflóðið úr Laka, höfðu orðið eldsumbrotum í Skaftárþingi með þeim afleðingum að menn urðu að flytjast þaðan á brott. Þeir voru að vísu landnemar á þessum slóðum. Samt höfðu þeir ekki tjaldað tile innar nætur heldur ætlað sér að una þar ævi sinnar daga.
Í Landnámu segir frá Hrólfi höggvanda. Hann átti syni tvo: Vémund og Molda-Gnúp. Hér segir ekki af Vémundi, hvorki vígum hans né smíðum, heldur hinum bróðurnum, Molda-Gnúpi, sem kom til Íslands og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, þar sem nú er Álftaver og austurhluti Mýrdalssands. Molda-Gnúpur seldi mönnum af landnámi sínu og gerðist þar fjölbyggt áður en en jarðeldur rann ofan og urðu þeir nú að flýja út yfir Sand, í Mýrdal. En ekki var þeim leyfð þar vist til langframa, enda sjálfsagt setinn bekkurinn. Vorið eftir héldu þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestust þar. “Þeir höfðu fátt kvikfjár”, segir í sögunni, svo sem ekki var óeðlilegt eftir þessa hrakningar. Skyldi maður nú ætla að ekki hefði gengið greitt að koma upp stórum bústofni á hrjóstrum Reykjaness, “þessu geigvænlega héraði, þar sem ferleg hraunflóð hafa brotizt hvert á annað ofan frá fjöllunum og allt í sæinn fram”, eins og Sveinn Pálsson kemst að orði í frásögn af ferð sinni um Sandakraveg.
GeitEn hér fór á aðra leið. Einn af sonum Molda-Gnúps hét Björn. Hann dreyndi um nótt, að bergbúi kæmi til hans og bauð að gera félag við hann og þóttist hann játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð vellauðugur. Eftir það var hann kallaður Hafyr-Björn, en af bergbúanum fer ekki fleiri sögum og ekki er þess getið hver varð hans hlutur í þessu hálfmennska kompaníi.
En hversu mikið, sem hæft er í þessum þjóðsögukenndu frásögnum af auði Hafur-Bjarnar í gangandi fé, þá er það sjórinn en ekki landið, sem hefur fætt Grindvíkinga frá upphafi og til þessa dags. Um 1700 bjuggu í Grindavík um 200 manns sem höfðu 66 kýr, 385 fullorðið fé og 58 hross. Þetta eru ekki nema eins og 2-3 væn bú nú á dögum.
Grindavíkurbátar fyrrumÍ ritgerð Skúla fógeta um Gullbringu- og Kjósarsýslu 1782 segir hann 202 menn búsetta í Grindavík, alls 43 fjölskyldur. Á sjö jörðum eru þar 15 bændur, að presti meðtöldum og kaupmanninum, 18 hjáleigumenn og 10 þurrabúðarmenn. En ekki er bústofninn mikill; 55 kýr, rúmlega 300 fjár, þar af 102 sauðir, en hrossin yfir 70. Þetta er ekki nema eins og eitt stórt bú nú á dögum. Það er heldur ekki von. Hér er erfitt að framfleyta nokkrum búpeningi að ráði. Því að það er eins og segir í sóknarlýsingu sr. Geirs Bachmanns, þá er “allt Grindarvíkurland ákaflega hrjóstugt og grýtt…” Það mun óhætt að fullyrða, að eigi finnist á Suðurlandi jafngraslítil og gróðurlaus sveit sem þessi. Varla má það heita, að nokkurs staðar í nánd við bæi og í svokölluðum heimahögum verði áð hesti um hásumarið.
GrafiðÞað var því engin furða þótt sr. Geir breytti til og færði sig þangað sem mýkra var undir fótinn. Hann fékk seinna Miklholt á Snæfellsnesi. Þó var annað í Grindavík ekki minni annmarki heldur en grasleysið. Það var vatnsskorturinn. Víðast hvar eru fjöruvötn brúkuð til neyzlu eður þá þeim verri sjóblendingur úr stöðupollum og gjám, í hverjar sjórinn fellur að og út með hverju sjávarfalli… Það einasta rennandi vatn, sem finnst í nánd við bæi, er í afardjúpri gjá, Baðstofu nefndri, hér um bil 200 faðma frá bænum Húsatóttum. Eru niður að vatninu nálega 15 faðmar eða máske 20, hvað ei verður með vissu mælt, því það er ekki standberg og vatnsdýpið, þar til að verður komizt, við 3 faðma.
HópiðÞað væri því mikil synd að segja að gott væri undir bú á þessum slóðum og engin furða þótt menn hefðu þar “fátt kvikfjár” eins og í Landnámu segir.
Um búskap Grindvíkinga segir sr. Geir Bachmann í fyrrnefndri sóknarlýsingu, að kýr verði “alla tíma að hafa inni nema þá tvo mánuði sem í seli eru.
Aldrei eru hestar traðaðir, hvað kopa mundi of mikið þeim gripum með brúkuninni, þar ei má heita hestar kviði sig á hálfri viku eftir eins dags brúkun til Keflavíkur.”
Um sauðféð og aðbúnað þess fer sr. Geir þessum orðum: “Engin eru hér beitarhús á vetrum, borgir né fjárhús. Sauðfé, sem fátt er, gengur allt úti í fjörunni, gjafalaust og kemur aldrei í hús. Það liggur undir upphrófuðum skjólgörðum, til hverra það er rekið á hverju kvöldi.”
Það má því með sanni segja, að eins og manneskjan átti sitt undir sjónum og því sem úr honum fékkst svo var líf hrossanna og sauðskepnunnar háð fjörunni og því, sem hafaldan rak upp á hana.
Þótt liðið sé nokuð á aðra öld síðan þetta var ritað hafa tímarnir furðu lítið breytzt hvað þetta snertir. Landið er það sama. Úfin hraun og gróðurlaus, berar klappir, gráir sandar. Það er ekki betra undir bú heldur en þegar Geir barmaði sér yfir grasleysinu svo varla var hægt að æja hesti um hásumarið. Og eftir þessu hafa menn eðlilega hagað sér á þessum tímum hagræðingar og sívaxandi skipulagningar atvinnuveganna. Nú mun enginn nautpeningur til í Grindavíkurhreppi. Þar eru nú örfá hross og eittyhvað um hálft annað þúsund fjár.

Skipakostur

Hér hefur eins og allir vita, útgerðin, sjósóknin og fiskverkunin, verið fólksins lifibrauð. Ef sjórinn brást áður fyrr, þá tók sveitin og sulturinn við. Nú er það bankinn og samfélagsins breiða bak. Hvílíkur munur.
Á vetrarvertíðinni 1780 reru 27 skip úr Grindavík, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 fjögramannaför. Áhöfn þeirra var 50 heimamenn og 160 “Austmenn” eins og skúlu fógeti nefnir þá. Og hér koma fleri við sögu. Stórútgerð þeirra tíma lét sig ekki vanta í þessari aflasælu veiðistöð. Stóllinn – biskupsstóllinn í Skálholti – hélt þar úti 12 skipum, einum tíoæringi og 11 áttæringum, en “áhöfn þeirra var 2 heimamenn og 131 Austmaður.” Var því engin furða þótt oft sé tekið svo til orða um landseta á stólsjörðunum, að ein af skyldum þeirra sé að róa á skipum stólsins á vetrarvertíðum. Sama máli gegndi um þá, sem sátu á konungsjörðunum. Þar var Bessastaðavaldið sem réði og lagði lítt bærar skyldur og kvaðir á landslýðinn. En hvað þýddi að mögla eða kvarta. 

Nútíminn

Þetta var óumflýjanlegt hlutskipti ófrjálsrar þjóðar, sem var kúguð og þrælkuð í sínu eigin landi. Sjálfsagt mundi ríkisins landsetum þykja hart undir slíku að búa nú á tímum.
Allt er þetta nú löngu liðið. Þetta er eins og ljótur draumur. Börnum sjálfstæðrar þjóðar í ríki velmegunarinnar finnst þetta ekki geta verið veruleiki. Nú sækja Grindvíkingar sjóinn á glæsilegum flota stórra vélbáta allt upp í 300 tonn. Á síðustu vetrarvertíð reru þaðan um 40 bátar. Meira en helmingur þeirra á heima í Grindavík. Slík gjörbylting í sjósókn á sér vitanlega langa sögu. Er hún öllum kunn, þeim, sem fylgzt hafa með atvinnuþróun þjóðarinnar. Og að hún gerist í Grindavík, eins og í mörgum öðrum sjávarplássum, á sér eina höfuð-orsök. Hinn stóri bátafloti Grindvíkinga og öll sú mikla “drift”, sem hann hefur sett í þetta sjópláss og þar með uppgangur staðarins, fjölgun fólksins, – allt byggist þetta á höfninni og þeirri aðstöðu, sem þessum mikla flota er búinn í Hópinu í Grindavík.
Hópið 1945Um Hópið fer sr. Beir Bachmann allmörgum orðum í sóknarlýsingu sinni. Er ekki úr vegi að taka það hér upp að nokkru, svo mjög byggist lífsbjörg Grindvíkinga á því nú framar öllu öðru.
Sr. Geir segir að Hóp (jörðin) hafi miklar nytjar af tjörn þessari, sem sé helmingi stærri en Reykjavíkurtjörn, umkringd af landi á alla vegu nema þeim, sem til vesturs veit. Þar er rif, ca. 200 faðma langt milli Sundvörðu og Svíravörðu, sem eru sundmerki á Járngerðarstöðum. Yfir rifið fellur um hvert flóð, og í stórstraumi fer það svo að segja allt í kaf varða á milli. Ós er út úr Hópinu rétt í útsuður. Má heita í sömu stefnu og Járngerðarstaðasund… “Hafa bændur fyrrum hér í Grindavík eftir tilmælum kaupmanna og fyrir litla þóknun grafið ósinn, dýpri, þótt enn sé hverju haffæru skipi ófær, sökum þess hve grunnur hann er. Mætti þó með litlum tilkostnaði hann dýpri gjöra, svo þiljubátar og smærri fiskiskip örugg gætu haft þar inni lægi og flúið þangað í viðlögum. Kæmust stærri skip inn í Hópið er það ein sú bezta skipalega. Mundi og einn kaupmaður hafa hér nóga verzlun, ef einn væri um hituna, og í engu sakna hinna nálægu kaupstaðanna.”
HópiðEn þetta eru bara ímyndanir, áætlanir, óskir og vonir. Enginn veruleiki. – Þau einu not, sem hægt var að hafa af Hópinu í tíð Geirs Bachmanns, voru þau að “í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll.”
En sú kom tíðin, að Hópið í Grindavík varð Grindvíkingum til annarra og meiri nytja heldur en hrognkelsaveiða (sjá HÉR). Nú má segja að Hópið sé lífæð plássins, undirstaða tilverunnar á þessum uppgangsstað. Nú er Hópið ein sú bezta höfn á landinu þar sem stærstu fiskiskip geta farið hindrunarlaust út og inn. Í staðinn fyrir opna og erfiða brimlendingu smárra báta – er nú öruggt lægi stórra skipa, sem leggjast upp að bryggjum og bólverkum, þar sem er öll hin fullkomnasta aðstaða til útgerðar.
Þessi bylting í útgerðaraðstöðunni hefur valdið miklum breytingum í “byggðaþróun” Grindavíkur.”

Heimild:
-Lesbók mbl 1. okt. 1955 – Gísli Brynjólfsson.

Grindavík

Höfnin í Grindavík.

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1950 er fjallað um byggingu “Syðri hafnargarðsins” í höfninni:

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn 1776-1778 skv. mælingum H.E. Minor.

“Nokkru fyrir mitt ár 1948 var hafin bygging syðri hafnargarðsins. Bygging garðsins hefir gengið mjög vel og er hann nú orðinn fullir 390 metrar að lengd, og nemur dýpi við fremsta hluta hans 7 metrum um stórstraumsfjörur.
Hafnarfjörður
Byggingu garðsins hefir nú verið hætt um sinn, þar eð hann er nú kominn á það dýpi, að ekki verður sama byggingarfyrirkomulagi komið við við framhaldsbyggingu hans og hingað til hefir dugað. Gera má ráð fyrir að veður fari að spillast og vetrarsjóar geti grandað viðbótarbyggingunni ef áfram yrði haldið í vetur. Og í þriðja lagi hefur þegar verið unnið fyrir það fé, sem til mannvirkis þessa hefur fengizt í ár.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Þessar eru þá þrjár megin stoðir, er gert hafa nauðsynlegt að hætta við frekari byggingu garðsins í ár. Alþýðublað Hafnarfjarðar hefir leitað sér upplýsinga um, hvernig bygging garðsins stendur nú, og fengið upplýst að frá ársbyrjun í ár og þar til síðast í marzmánuði var haldið áfram byggingu garðsins á sama hátt og áður, að grjót var sprengt úr Hvaleyrarholti og flutt í garðinn. Í marzlok hóf dýpkunarskipið Grettir að grafa innan við garðinn, og vann hann við það til 17. maí. Það af uppgreftrinum, sem nothæft þótti var notað til undirburðar og sett samhliða grjótflutningnum niður í framhaldi garðsins, þannig að myndaður var malarhaugur, er var ca. 60 m. langur í fullri hæð þ.e. undir stórstraumsfjöruborð, en botnbreidd hans var um 50 m.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd 1954. Sjá má grjóttökunámuna h.m. neðarlega.

Garðurinn er nú kominn fram af malarhaugnum á um 7 m. dýpi miðað við stórstraumsfjöruborð. Lengd hans nemur, eins og fyrr er getið 390 m., þar af viðbót á þessu ári 80 m. Skjólveggur er 373 m. Viðbót á árinu 93 m., en lengd steyptrar plötu og fláa á úthlið nemur 382 m. Viðbót í ár var 83 m.Frá garðsendanum hefir nú verið gengið þannig, að raðað var stórgrýti fyrir hann frá fjöruborði og uppúr með svipuðum halla og hliðar garðsins.
Framan af árinu, á nokkrum kafla áður en garðurinn gekk fram á malarbinginn, bar á því að hann sigi, og einnig nokkuð nú undanfarið, eftir að kom fram á malarbingnum, og mest síðast. Hins vegar hefir sig vart orðið merkjanlegt á þeim kafla, sem garðurinn hvílir á malarbingnnum.
Að verkinu hafa að jafnaði unnið um 20 menn, auk verkstjóra. 3 bílar hafa annast grjótflutninginn. Kostnaður við byggingu garðsins í ár nemur um einni og kvart milljón króna. Á s.l. ári var við hann unnið fyrir röska milljón. Vonandi tekst að halda byggingu hans áfram á næsta ári.”

Í sama blaði árið 1951 er fjallað um “Innrásarker til Hafnarfjarðar“:
Hafnarfjörður
“Um klukkan 6 árdegis á miðvikudaginn var, kom til Hafnarfjarðar steinsteypukassi, sá fyrri af tveimur, er hafnarnefnd Hafnarfjarðar lét kaupa í Hollandi nú fyrir 2 mánuðum. Er þetta mikið mannvirki. Kassinn er 62 metrar á lengd, 9—10 m. á breidd, og álíka hár. Verður hann notaður sem togarabryggja innan við hafnargarðinn. Er ákveðið að innan við þessa togarabryggju verði skipakví um 70 m. breið, fyrir togara næst kerinu, og fyrir vélbáta þar fyrir ofan, við hafnarbakka, sem væntanlega verður byggður þar síðar. Í þeim krók, nú þegar, að geta orðið fullkomið var, á hverju sem gengur. Er mikill fengur fyrir fyrir höfnina að fá afgreiðslupláss þetta, og hina rólegu skipakví þar á bak við. Að visu mun verða að hæka steinkerið um 1—2 m. áður en það verður tekið til afnota, vegna vatnsdýpisins, þar sem það er látið, en þar er dýpi fyrir nýsköpunartogara. Er viðbúið að sú hækkun á kerinu verði að bíða næsta árs, vagna annarra framkvæmda er kalla meira að.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður og Hafnarfjarðarhöfn – loftmynd 1954.

Um miðjan næsta mánuð er svo eitt kerið væntanlegt. Það er jafnlangt, en hærra og breiðara en þetta og verður notað í hafnargarðinn sjálfan. Hollenzkur dráttarbátur dregur kerin hingað, einn sá stærsti, er Hollendingar eiga, en þeir eru, eins og kunnugt er, alþekktir fyrir dugnað sinn og leikni við að draga ýms ferlíki um heimshöfin, þvert og endilangt. Ferðin hingað gekk mjög vel, hún tók aðeins tæpa 9 daga frá Amsterdam til Hafnarfjarðar, en gert hafði verið ráð fyrir minnst 10 dögum. Fékk skipið einmuna gott veður alla leið með kassann.
Þessi ker eiga sér allfræga sögu. Þau voru notuð í styrjöldinni síðustu, þegar Englendingar og Bandaríkjamenn réðust inn í Frakkland og fluttu þessa kassa með sér í hundraðatali og gerðu úr þim höfn svo að segja á einni nóttu, án þess að Þjóðverjar vissu neitt um það áður, á opinni strönd Normandí, í Frakklandi, þar sem engum datt í hug að lent mundi verða. Innrásin í Frakkland var einn af úrslitaatburðum styrjaldarinnar og kerin þessi áttu sinn þátt í því að þessi innrás heppnaðist. Eftir styrjöldina hafa þessi ker, mörg, verið tekin upp og notuð víða um heim til hafnarframkvæmda. —
Er þess að vænta að kerin komi engu síður að gagni til friðsænlegra þarfa okkar hér útí á Íslandi en þau gerðu í Frakklandi í mestu átökum styrjaldarinnar.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 21. tbl. 28.10.1950, Syðri hafnargarðurinn, bls. 1 og 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 12. tbl. 23.06.1951, Innrásarker til Hafnarfjarðar, bls. 4.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn, norðurgarðurinn, 2020.

Grindavík

 Á fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vík eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var Bátar í naustieilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.
Engum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.
Engar heimildir eru hedlur fyrir því, að hugað hafi verið að hafnargerð fyrr en kom fram á síðari hluta 18. aldar. Þá lét Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu. Einu umtalsverðu framkvæmdirnar, sem sögur fara af, voru þær, að um 1840 réðist Jón Jónsson, hreppstjóri á Hrauni, í það stórvirki að gera nýja vör fyrir sunnan túnið á Hrauni. GrindavíkurhöfnMeginástæða þeirra athafna var sú, að Hraunsmönnum þótti löng sjávargata fram í Þórkötlustaðanes, þar sem þeir höfðu átt uppsátur fram til þessa.
Á þessari öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í harnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum.
Það var ekki síðar en árið 1902 að hreppsnefnd fól þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.
Fjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar Bátarnir hafa stækkaðóvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.
Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót. Bryggjusmíði hófst þó ekki fyrr en á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið í víkinni mjög er vélbátaútgerð hófst þar árið 1928.
Bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn meter út fyrir stórstraumsfjöruborð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd. Sama ár voru gerðar bryggjur í Þórkötlustaðahverfi og Staðahverfi, sem fyrr sagði.
Naust ofan við ÞórkötlustaðanesbryggjunaÞetta voru í rauninni löndunarbryggjur. Sem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.
Árið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.
Löndun við GrindavíkurhöfnÁrið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944. Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlæun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini. Síðan hefur stöðugt verið unnið að úrbótum og betrumbótum á hafnaraðstöðinni í Grindavík.
Byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar lauk því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu höfn á suðurströnd landsins.

Grindavík - loftmynd

Heimild:
-Jón Þ. Þór – Árbók Sögufélags Suðurnesja IX. 1996-1997, bls 139 – 152.

Grindavíkurhöfn austanverð 2008

Grindavíkurhöfn

Fyrstu grindvísku árabátarnir voru litlir, jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið.
Bátarnir stækkuðu smám saman. Talið er að um miðbik 14. aldar Grindavikurhofn-1hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og geymdur í hlöðnum fiskbyrgjum.
Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62. Eftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.
Vélbátaútgerð hófst í Grindavík á árunum 1924-1928, talsvert á eftir öðrum nálægum byggðalögum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm. Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við þungan róðurinn.
Grindavikurhofn-2Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð. En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið. Með framkvæmdum sem þá tóku við gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús rindavíkur og var fyrsta  verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.

Hafnargerð
Grindavikurhofn-3Á fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vik eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var eilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.
Engum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.
Grindavikurhofn-4Þegar kom fram á síðari hluta 18. aldar var farið að huga að hafnarframkvæmdum. Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, lét þá mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu.
Á 20. öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í hafnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum. Árið 1902 fól hreppsnefnd þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.
Grindavikurhofn-5Fjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar óvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.
Árið 1925 gerði mikið sjávarflóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót. Bryggjusmíði hófst á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið mjög í víkinni með tilkomu vélbátaútgerðar.
Grindavikurhofn-6Bryggjan í Járngerðarstaða-hverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn metra út fyrir stórstraums-fjöruborð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd.
Sem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.
Árið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.
Árið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944. Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini.
Grindavikurhofn-8Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka. Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun. Einnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975-1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands. En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ.

Byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu fiskibátahöfn á suðurströnd landsins.

Grindavík

Grindavík.