Færslur

Járngerðarstaðir

Í tilefni að uppsetningu söguskiltis á atburðarsviði “Tyrkjaránsins” við Járngerðarstaði var efnt til menningar- og sögutengdrar göngu um gamla Járngerðarstaðahverfið (2006). Skiltið, sem staðsett er við horn Verbrautar og Víkurbrautar, á auk þess að minna á sögulegt upprunahlutverk Járngerðarstaða í þróun byggðar í Grindavík. Ætlunin er að setja svipuð skilti upp á fleiri sögustöðum í byggðarlaginu, s.s. Þórkötlustaðahverfi, Hópi, Stórubót og jafnvel Þórkötlustaðanesi og Staðarhverfi. Allt eru þetta staðir, sem telja verður til þeirra markverðari í forsögu bæjarins, auk þess sem vonandi fást sérstök tækifæri síðar til að vekja athygli á hinu merka mannlífi, búskap, útgerð og verslun í Grindavík áður fyrr.
JárngerðarstaðahverfiGangan var í boði Grindavíkurbæjar og Saltfisksetursins. Eftir stutta athöfn þar sem forstöðumaður Saltfisksetursins, Óskar Sævarsson, kynnti tilurð og tilgang skiltisins var tekið til við að lýsa atburðarrás “Tyrkjaránsins” um Jónsmessubil árið 1627. Rifjaður var upp sá hluti hennar er gerðist þarna á sjónrænu sögusviði. Oft koma upp efasemdaraddir um nákvæma staðsetningu atburðarrásarinnar, einkum vegna þess að staðhættir hafa breyst á þeim nær 380 árum, sem liðnir eru frá atburðinum. Það er þó aðallega þrennt, sem styrkir fólk í þeirri trú að þetta geti verið staðurinn; a) frásögn þátttakenda og heimildamanna við skráningu atburðarrásarinnar, b) lýsing Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi þar sem sagt er frá því að “barist hafi verið í fiskigörðum Járngerðarstaða” og c) þjóðsagan um Tyrki í þjóðsögusafni Jóns Árnasonar þar sem segir að “þyrnir hafi sprottið upp þar sem blóð heiðinna manna og kristinna blönduðust” eftir bardagann. Þyrnir þessi, sem reyndar er þystill, vex einmitt við gatnamót Verbrautar og Víkurbrautar.
Í tilefni afhjúpunar upplýsingarskiltisins var talið vel við hæfi að þakka Guðjóni í Vík og Tómasi frá Núpi sérstaklega fyrir þeirra þátt við gerð þess. Báðir sýndu áhuga á verkinu og voru fúsir til að gefa allar þær upplýsingar er dygðu til að ljúka því með sómasamlegum hætti. Fleirri komu að verkinu. Eiga þeir allir verulegar þakkir skyldar.
Á nýja skiltinu eru m.a. eftirfarandi upplýsingar:

Þú ert hér
Járngerðarstaðahverfi“Þú stendur á slorþró Hafrenningshússins. Það var einnig nefnt Grindvíkingahúsið um tíma. Aftan við þig eru nokkur gömul hús (byggð um og eftir aldarmótin 1900). Elst er Flaggstangarhúsið (Flagghúsið), byggt 1890. Nokkur hús eru horfin, t.a.m. Einarsbúð.
Framundan eru Járngerðarstaðir og nálægir bæir. Svæðið, sem þú hefur nú yfirsýn yfir, var vettvangur “Tyrkjaránsins” í júnímánuði árið 1627.
Uppdrátturinn byggir á örnefnalýsingu frá árinu 1967, lýsingum Guðjóns Þorlákssonar í Vík, Tómasar Þorvaldssonar o.fl. á staðháttum. Hafa ber m.a. í huga að heiti túnbletta og einstakra húsa hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars.

Járngerðarstaðir
Járngerðarstaðahverfið er einn þriggja byggðakjarna í Grindavík. Austast er Þórkötlustaðarhverfi og vestast er Staðarhverfi.
Talið er að Grindavík hafi byggst mjög snemma. Í landnámsbók er talað um að Molda-(G)Núpur Hrólfsson hafi numið hér land (í kringum 934). Gera má ráð fyrir því að bæjarkjarnar hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning þeirra hafi ráðist af graslendi, aðgengi að vatni og aðstöðu til sjósóknar á þessum stöðum.
Talið er að þingstaður Grindvíkinga hafi frá upphafi verið á Járngerðarstöðum. Það bendir til þess að búið hafi verið þar allt frá landnámsöld.

Járngerðarstaðahverfi Heimildir um um sögu jarðarinar og ábúendur fyrir 1700 eru mjög af skornum skammti. Helst er getið um fjöruréttindi, en þó er sýnt, að jörðin hefur komist í eigu Skálholtsstaðar ekki síðar en um miðbik 15. aldar.
Grindavík var verslunarstaður allt frá miðöldum og fram á 18. öld. Þjóðverjar og Englendingar höfðu aðstöðu við Járngerðarstaði á 15. og 16. öld. Sögulegur atburður gerðist hér aðfaranótt 11. júni 1532 við virki Englendinga ofan við Stóru bót. Þá voru 15 þeirra vegnir vegna ágreinings. Sá atburður breytti verslunarsögu landsins.
Af Jarðabókinni 1703 má sjá að Járngerðarstaðir voru taldir hin mesta kostajörð, en hún var þá enn í eigu Skálholtsdómkirkju.

Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli. Það samanstóð af tveimur býlum, sem þar voru, auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar. Um aldarmótin 1900 bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur.
Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa og Járngerðarstaðahverfi varð miðstöð byggðar í Grindavík. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til Einars Einarssonar frá Garðhúsum en hann setti upp verslun í húsi sem hann byggði árið 1897. Einarsbúð var síðan reist hér skammt frá 1917.

Um aldamótin 1900 voru íbúarnir 357 talsins en árið 2006 voru þeir um 2600. Árið 1931 var gerð bryggja hér niður undan gömlu húsunum. Leifar hennar sjást enn. Árið 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið þar sem aðalhöfnin er nú. Árið 1974 fékk bærinn kaupstaðarréttindi.
Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum.

“Tyrkjaránið”
JárngerðarstaðahverfiAtburðurinn hafði mikil áhrif á alla landsmenn. Í langan tíma á eftir voru Íslendingar mjög á varbergi. Þeir óttuðust endurkomu sjóræningjanna.
Það var um Jónsmessuna 1927 að skip kom að Grindavíkurströndum. Íbúafjöldinn var nálægt 180 manns. Búðir kaupmannsins danska stóðu þá í Járngerðarstaðalandi.
Á Járngerðarstaðavíkinni lá danskt kaupskip. Lauritz Bentson, Grindavíkurkaupmaður, sendi átta Íslendinga að aðkomuskipinu. Þegar þeir komu um borð voru þeir umsvifalaust herteknir. Upplýst varð að fátt væri um varnir í landi. Foringi “Tyrkjanna”, Amorath Reis, fór frá skipi sínu með þrjátíu vopnaða menn. Þeir byrjuðu á því að hertaka danska skipstjórann og tvo menn með honum, rændu kaupmannsbúðina, en kaupmaður flúði og með honum aðrir Danir.

Þá gerðist margt á örfáum klukkustundum. “Tyrkirnir” snéru sér að Grindvíkingunum. Þeir skunduðu eftir sjávargötunni heim að Járngerðarstöðum. “Tyrkjunum” lá á því þeir gátu alveg eins átt von á að kaupmaðurinn sneri aftur með lið manns. Í bænum gripu þeir Guðrúnu Jónsdóttur, konu Jóns Guðlaugssonar. Hún var borin nauðug frá bænum. Í götunni kom þar að bróðir Guðrúnar, Filippus. Þegar hann reyndi að koma henni til hjálpar var hann barinn og skilinn eftir hálfdauður. Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar, bar þá þar að ríðandi. Tóku “Tyrkir” hestinn af honum og stungu. Lá Hjálmar óvígur eftir.
“Tyrkir” rændu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, tóku Halldór Jónsson, bróður Guðrúnar og tvo sonu hennar, Helga og Héðinn, en bróðir hennar, Jón, hafði verið einn af þeim átta, sem fóru út í skipið í upphafi. Jón Guðlaugsson, bónda á Járngerðarstöðum ráku “Tyrkir” til strandar með sonum hans og Halldóri, en vegna þess að Jón var þá orðinn aldraður maður og veikur gáfu þeir hann lausan er hann féll við í fjörunni. Stúlku eina, Guðrúnu Rafnsdóttur, tóku þeir með húsfrúnni og færðu til skips.
Þennan örlagaríka morgun var 12 Íslendingum, þarf af helmingur Grindvíkingar, og þremur Dönum, rænt í Grindavík.

Járngerðarstaðahverfi Á útleið ginntu “Tyrkir” hafskip á leið til vesturs til sín með fölsku flaggi. Þeir hertóku það skip.. Áður en “Tyrkir yfirgáfu Grindarvíkursjó gáfu þeir tveimur mönum, sem höfðu verið um borð í skipsbátnum, burtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og réru til lands. Eftir þetta fóru ræningjarnir burt frá Grindavík. Loks héldu þeir til heimahafnar í borginni Salé í Marokkó.
Afdrif Grindvíkinganna, sem rænt var, urðu með ýmsu móti. Þau Guðrún Jónsdóttir og Halldór bróðir hennar voru aðeins skamma hríð í þrældómi í Alsír. Komust þau til Danmerkur 1628 og heim til Íslands með vorskipunum sama ár. Halldór samdi rit um Tyrkjaránið. Um afdrif Guðrúnar Rafnsdóttur er ekki vitað. Árið 1630 skrifuðu þeir bræður Jón og Helgi foreldrum sínum bréf og voru þeir þá þrælar. Helgi varð frjáls eftir fjársöfnun 1636. Komst hann heim setti ásamt eiginkonu sinni saman bú á Járngerðarstöðum.
Jón bróðir hans, Héðinn og Jón Jónsson, móðurbróðir þeirra, hvíla sennilega í afrískri mold. Sama gildir um bátsverjana fimm, sem reru út að ræningjaskipinu þennan morgun 1627.

Þótt sjóræningarnir hafi jafnan verið nefndir “Tyrkir”, sem var þá samheiti yfir alla múslima í grennd við Miðjarðarhafið, hafa þeir að öllum líkindum verið Evrópubúar.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Sagan segir að: “Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan.” Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir auk þess: “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið.”

Tyrkjaránið
Á árinu 2007 eru, sem fyrr segir, liðin 380 ár frá þessum sögulega atburði í Grindavík. Það væri því vel við hæfi að minnast hans sérstaklega, t.d. með því að gera þá staði, sem gætu hafa tengst atburðinum, sýnilega og aðgengilega áhugasömum íbúum og gestum þeirra.
ÓSÁ hannaði útlit upplýsingaspjaldsins, Martak í Grindavík bjó til standinn og Stapaprent annaðist prentun. Skiltagerðin er styrkt af Pokasjóði og Grindavíkurbæ.

Járngerðarstaðahverfi Genginn var hringur um hverfið, þangað sem “blóðþyrnirinn” vex og síðan að dys Járngerðar og Járngerðarstaðabæjunum. Gengið var til baka meðfram strandlengjunni, með Járngerðarstaðavíkinni og vörunum að gömlu bryggjunni og ýmislegt skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. Reynt var að gera gönguna bæði skemmtilega og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Uppákomur s.s harðfisks- og hákarlamakk o.fl. var í boði á leiðinni. Gangan endaði síðan við gamla Flaggstangarhúsið (Flagghúsið, sem verið er að endurreisa og var til sýnis í tilefni dagsins. Einn eigandi þess, Erling Einarsson, bauð gesti velkomna, sagði frá forsögu hússins, lýsti tilkomu nafngiftarinnar sem og notkun þess. Fram kom að ætlunin er að hýsa krambúð í húsinu, sem verður að teljast bæði áhugavert, einkum í ljósi þess að Einarsbúð, afurð og afkoma forfeðra hans, var lengi framan af í næsta húsi að vestanverðu, og áskorun, bæði til bæjarstjórnarfólks er þarf nú að taka ákvörðun um markvissa uppbyggingu og nýtingu þessa fyrrum upphafs byggðaþróunar í Grindavík og viðhalds hennar til lengri framtíðar. Ljóst er að allflest húsanna á svæðinu eru í niðurníðslu. En þegar haft er í huga að þarna uxu fáeinir bæir og nokkur ver fyrrum upp í hverfi og síðan heilt samfélag kaupstaðar verður ekki hjá því komist að meta þetta afmarkaða svæði með tilliti til lengri framtíðar. Ekki verður langs að bíða að kaupstaðurinn (unglingurinn) verði borg (fullorðinn). Þá er ekki verra að til verði áþreifanleg merki upprunans – hjartans.

Og þá aftur að göngunni. Eftir að hafa gengið að “blóðþyrninum”
var Verbrautinni fylgt að “Járngerðardys”. Hún mun vera í vestanverðri (túnmegin) beygjunni á milli Hliðs og Víkur. Tómas Þorvaldsson, 85 ára, tók á sínum tíma á móti FERLIR í Grindavík. Þegar staðsetja átti dys Járngerðar, sbr. söguna, gekk hann hikalust að framangreindum stað. Gatan liggur til suðurs frá Garðhúsum, sem Einar kaupmaður byggði 1918.
Járngerðarstaðahverfi Brynjúlfur Jónsson lýsir dysinni í frásögn sinni (1903). Segir hann að gamla sjávargatan hafi fyrrum legið til suðurs frá Járngerðarstöðum, en það var samheitið á torfunni, og yfir þar sem nú er Helgavöllur. Vergatan er yfir gömlu götunni. Þar sem gatan beygir á móts við Garð, á milli Víkur og Hliðs, var Járngerður dysjuð. Í þjóðsögunni segir að dysin hafi verið einn faðmur á breidd og þrír á lengd. Hafi dysin hækkað til austurs. Framhjá henni hafi vermenn gengið til skips. Vergatan hefur verið lögð yfir dysina, sem fyrr segir, en ef grannt er skoðað má sjá í suðvesturhorn dysjarinnar, sjávarmegin, undan veginum.
Brynjúlfur segir frá því að hann hafi grafið í dysina en þá hafi þar visrt vera gamall öskuhaugur. Hafa ber í huga að Rafnshús voru þarna skammt suðaustar, Syðri Gjáhús skamt norðar og Gjákot fast við. Gamli Víkurbærinn var svo örskammt norðar. Þarna gæti því verið um að ræða öskuhól frá hverjum þessara bæja, hvort sem hóll (dys) hafi verið þar fyrir eður ei.
Þjóðsagan segir að “Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.”

Járngerðarstaðahverfi Vestan við Garðhús eru Járngerðarstaðir. Næsta hús að vestan er Valdabær, síðan Járngerðarstaðir og loks Vesturbær.

Gamla kirkjan var reist árið 1909 (-1982), að mestu leyti úr efni kirkjunnar að Stað (1858). Hún var afhelguð 1982 og nýtt sem barnaheimili eftir 1988. Nálægt henni er Krosshús, þar sem Halldór Laxnes skrifaði Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns og Garðhús Einars G. Einarssonar, fyrsta kaupmanns Grindavíkur.
Árið 1803 var Nyrðra-Garðshorn orðin hjáleiga frá Járngerðarstöðum. Í Landnámi Ingólfs III, segir m.a. að 1840 er “eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.”

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Árið 1847 voru hjáleigurnar; Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. Stundum er þá talað um Járngerðarstaðahverfi.
Árið 1840 var skv. sóknarlýsingu tvíbýli á heimajörðinni og fylgdu hverjum parti 5 hjáleigur. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.
Járngerðarstaðahverfi Íbúðarhúsið, sem nú stendur á Járngerðarstöðum (Vesturbær) var byggt á síðasta áratug 19. aldar. Húsið er nýlega uppgert og byggt hefur verið við það. Um er að ræða járnbáruklætt timburhús með hlöðnum kjallara. Að sögn eiganda er húsið elsta hús Grindavíkur, sem enn er búið í.
Hlaðhús voru hjáleiga árið 1703. Hennar er ekki getið í tali Johnsens 1847. Ekki er vitað hvar Hlaðhús stóðu og örnefnið er nú týnt. Helst er að giska á að húsið hafi verið í námunda við hlað Járngerðarstaða þar sem nú er malbikaður vegur.

Dalurinn er tjörn í suðaustanverðu heimatúni Járngerðarstaða. Í henni eru brunnar á a.m.k. tveimur stöðum, frá Vallarhúsum og Hólshúsi, jafnan nefndir holur. Sölvhóll er gróin hraunhæð sunnan Dalsins. Jórunn í Njarðvík, uppalin á Járngerðarstöðum, sagði Guðmundi Finnbogasyni þá sögu að húsfreyjan í Vallarhúsum (Vallhúsum) hafi bent á að huldufólk byggi í Sölvhól. Hann mætti ekki slá. Eitts inn sló bóndinn í Vallarhúsum Sölvhól og rapst þá kýrin á bænum.

Staðnæmst var við Tíðarhliðið, bent á hin ýmsu örnefni, s.s. Píkuskarðsklett, Vatnsstæðið, Bóndastakkatún, Hliðartún, Kjöthól o.fl., auk þjóðsagnakennda staði, t.a.m. Þjófagjá í Þorbjarnarfelli, Silfru, Junkaragerði, Sölvhól, Járngerðardys, “blóðþyrnirinn” og fleiri staði þarna í nágrenninu eða í sjónmáli.
Við girðinguna sunnan við Tíðarhliðið eru strompleifar af togaranum Ásu sem fórst utan við Litlubót 1926. Togarinn var í eigu Duus-verslunar. Fyrirtækið átti þrjú skip með Ásunafninu og fórust þau öll, en mannbjörg varð í öll skiptin. Þau voru í raun undirstaðan undir veldi Duus, en sagan segir að þegar átti að reis hús fyrir verslunina í Kaplaskjóli í Reykjavík hafi eiganda hennar birst kona í draumi. Sú hafi sagst heita Ása. Bað hún hann um að reisa ekki hús á þessum stað, ella myndi hann hafa verra af. Húsið var reist og afleiðingarnar urðu framangreindar.

Járngerðarstaðahverfi Vatnsstæðið er afurð gjánna er liggja við grindavík ofanverða, en lágu einnig fyrrum í gegnum þorpið. Þær hafa nú verið fylltar.
Þetta voru (og eru) hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Silfurgjáin er einna stærst, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.

Skaldan var kynnt til sögunnar. Hún var orðið eyðikot 1840. Í sóknarlýsingu segir að það hafi legið í útnorður út við túngarðinn. Líklegast er að Skjalda hafi verið þar sem seinna var byggt steinhlaðið útihús við túngarð. Útihúsið var sambyggt við túngarðinn vestan við bæinn, norðvestan við heimreiðina. Enn má greina hvar húsið hafði staðið þó að sléttað hafi verið yfir það. Tómas Þorvaldsson, sem fæddur er á Járngerðarstöðum sagði Skjöldu hafa verið eitt fyrsta fátækraskjólið í Grindavík og til merkis um velvild Járngerðisstaðabænda sem og samfélagsins, sem þá var.

Tómas segir Hraunstekki vera austan við Gerðisvallabrunna. Sunnan við þá er hlaðinn stekkur og tótt undir grónum hól. Þar voru lömbin höfð um vorið þegar ærnar voru reknar í sel innan við Þorbjörn (Baðsvallasel).

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Við Gerðisvallabrunna eru garðar hlaðnir í ferkantað gerði. Þar er Junkaragerði. Þýskir og heimamenn áttu í gerðinu með sér marga glettuna fyrr á öldum. Innan þess má sjá gamlar tóttir. Eftir að Englendingar höfðu verið hraktir frá Grindavík 1532 sátu Hansamenn nánast einir að verslun við Íslendinga um sjö áratuga skeið, eða þangað til Danir tóku að sauma að þeim og einokuðu verslunina. Líklegt má telja að Hansamenn hafi sest að þarna í búðum Englendinga eftir að þeir voru flæmdir á brott. Gerðið sést vel og gaman er að ganga um svæðið með hliðsjón af sögunni.
Járngerðarstaðahverfi Junkarar bönnuðu t.d. heimamönnum að fara inn fyrir gerðið á meðan þeir voru í róðrum, en þeir læddust nú samt þar inn fyrir og náðu sér í ýmislegt nýtanlegt. Junkarar reyndu að hefna sín á Grindvíkingum, en þeir svöruðu fyrir sig með því að saga í sundur árar, gera gat á báta o.s.frv.
Einar Ól. Sveinsson segir svo frá því í útgáfu sinni á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum:
“Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn – tólf eða átján – hafst við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma í skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé og vindur standi af landi. En Junkarar reru heldur aldrei nema þar, sem vindur stóð af landi og þá er svo var hvasst, að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir á landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.
Og þó að menn kæmust í gerði þeirra, þá er þeir voru eigi þar, þorðu menn eigi að láta Junkara sjá þess nein merki; þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmsra bragða til þess.
Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en Junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björgðust svo til lands.
Járngerðarstaðahverfi Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu þá, er í land skyldi róa, því að þá var mótvindur. Þá reru Junkarar við hné sér til lands.
Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru Junkarar, er vindur stóð af landi; en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig; Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi Junkarar verið af dögum ráðnir.”
Í upphafi sögunnar er getið um stað í “óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur”, sem Junkarar höfðust við í. Ekki er ólíklegt að hér geti verið átt við byrgin í Sundvörðuhrauni þar sem þeir hafi geymt byrgðir sínar. Hafa þeir getað flutt og falið þær þar og verið jafnlagt fyrir alla að sækja þangað aðdrætti þegar þurfa hefur þótt.
Staldrað var ofan við Litlubót, Hvítisandur barinn augum sem og Fúlatjörn og önnur örnefni austur með ströndinni. Af Hádegishól var litið yfir sögusviðið, rifjuð upp nöfn hinna gömlu bæja, bæði þeirra sem enn sjást sem og þeirra er hafa horfið. Vellir flutu t..a.m. upp í flóðinu mikla 1925. Hólsgarður, hlaðinn úr grjóti, við hjáleiguna Hól er enn svo til óraskaður. Þá sést Hólsholan enn í Dalnum.
Þeginn var hákarl hjá Óskari við hákarlahjall Gísla og Guðjóns. Þá var “reykofn” (reykgámur) Víkurbænda kynnt til sögunnar. Verið er að endurnýja kyndinguna, en í hana er einungis notað úrvals tað, þriggja ára gamalt, úr Víkurfjárhúsunum. Þarna er því að mörgu leyti rekin einn sjálfbærasti búskapur bæjarfélagsins. Heimaslátrun var ekki hafin þegar gangan átti sér stað, sem betur fer.
Járngerðarstaðahverfi Ofan við gömlu varirnar var farið yfir nöfnin á þeim frá vestri til austurs; Fornavör, Suðurvör, Stokkavör og Norðurvör (Skökk) innan við gömlu bryggjuna, sem byggð var 1931. Átta árum síðar var grafið inn í Hópið og varanleg bryggja gerð þar um 1950.
Ofan við gömlu bryggjuna eru enn nokkur gömul hús, s.s. Varir, Sæmundarhús, Bakki og Flagghúsið.
Flagghúsið er eitt elsta hús Grindavíkur, talið vera byggt árið 1890. Erling Einarsson, einn eiganda hússins, áformar að koma húsinu í upprunalegt horf og eru framkvæmdir vel á veg komnar. Hann hafði húsið opið í tilefni dagsins og bauð þátttakendur velkomna. Ljóst er að mikið verk er enn fyrir höndum. Erling er þegar búinn að endurbyggja skemmda hluta burðarvirkis hússins, skipta um gólf beggja hæða einnig er búið að skipta um þak og þaksperrur einangra húsið utanvert á gömlu klæðninguna og bárujárnsklæða að utan. Alla nýja viðarhluta hefur Erling gert gamla í útliti með sérstakri bæsunaraðferð.
Flagghúsið fékk viðurnefni sitt af því að það þjónaði sjófarendum á Járngerðarstaðasundi. Dagbjartur Einarsson frá Ásgarði (1876-1944) hætti formensku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum leiðbeiningar ú landi um veðurhofur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft erfið og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um.
Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddi aðgát á sundi og brim í lendingu.
Járngerðarstaðahverfi Gifta fylgdi þessu starfi hans og færðu formenn í Járngerðastaðahverfi honum silfurskjöld er hann lét af þessum starfa sem viðukenningu fyrir hjálp á hættustundum.
Húsnúmer í Grindavík eru miðuð við þann stað, sem Flagghúsið er nú. Flagghúsið hefur gegnt marg­víslegum verkefnum meðal annars verið íbúðarhús, verbúð, samkomustaður, beitu­skúr, pakkhús, salthús, veiðafærageymsla og netaloft. Auk þess er þarna sögusvið nóbels­verðlauna­skáldsins og leiksvið kvikmyndarinnar “Sölku Völku”. Þarna er upp­spretta myndlistar málarans Gunnlaugs Scheving enda miðja margra mynda hans.
Erling hafði séð til þess að gestir gengu ekki beint inn á gólf Flagghússins á skítugm skónum. Hann hafði farið ásamt nokkrum öðrum á heimalendur Íslólfsskálalands, inn á Hraunssnes vestan Mölvíkur, og sótt þangað stóra og slétta hraunhellu. Mjög var haft fyrir því og mikið vandað við að koma henni heilli á þar til sniðna kerru. Þegar stöðvað var síðan við áfangastaðinn kom í ljós að stóra slétta hellan hafði brotnað í tvennt – ekki þolað flutninginn í kerrunni. Það er sem sagt skýringin á sprungunni í dyrahellu Flagghússins. Þetta þurfti að skrá því bæði er það að heimildir þurfa jú að vera fyrir öllu, ekki síst ef einhverjum dytti í hug að spyrja síðar.
Í máli Erlings, eftir að hafa boðið, innkomna gesti velkomna, kom fram að Flagghúsið, sem var byggt árið 1890, varð að pakkhúsi verslunar Einars í Garðshúsum eftir að Einarsbúð var byggð norðan við það árið 1917.

Flagghúsið

Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.

Á milli hennar og pakkhússins var vegur milli húsanna. Afgirt port var austan Einarsbúðar. Sunnan við pakkhúsið var lítill kofi, jafnan nefndur Lubbi. Erling kvaðst hafa áhuga á að endurbyggja hann svo hann geti gegnt þar nýju hlutverki salernisaðstöðu og fleiru frá Flagghúsi framtíðarinnar. Ekki stæði til að breyta neinu í Flagghúsinu sjálfu, enda mátti þar innan dyra sjá hinar gömlu áletranir pakkhússhlutverksins á veggjum, súðum og bitum.
Loft er í Pakkhúsinu. Því er haldið uppi með hluta af mastri og bugtspjóti skútu er strandaði við Þórkötlustaðavík út frá Leifrunarhól, sama ár og húsið var endurbyggt. Hvorutveggja eru hinar ágætustu minjar um skútuöldina, afleiðingar sjósóknar og þá samtvinnuðu sögu er var óhjákvæmileg hlutdeild í lífi fólks í Grindavík fyrrum.
Járngerðarstaðahverfi Erling benti á gamlar bækur er tilheyrðu bókhaldi Einarsverslunar og hafa varðveist. M.a. er þar um að ræða færslur er varða lagningu Grindavíkurvegarins á árunum 1913-1918. Þá fengu Grindvíkingar, að þeirra frumkvæði, fé frá Alþingi til vegalagningarinnar gegn því að formenn Grindavíkurbátanna legðu hluta lifrapeninga áhafnar þeirra á móti. Það varð til þess að vegurinn var lagður.
Sami háttur var hafður á er kvenfélagshúsið í Járngerðarstaðahverfi var byggt á sínum tíma.
Með endurbyggingu Flagghússins er kominn grundvöllur til að endurgera hluta gamla bæjarins, ofan við gömlu Norðurvörina, í Járngerðarstaðahverfi. Það myndi án efa setja mikinn svip á bæinn, fylla bæjarbúa stolti og jafnframt gera Grindavík að áhugaverðari kosti fyrir ferðamenn – ekki síst innlenda.
Aðgengið og umhverfið þarfnast lagfæringar, sem fyrr sagði. Vel væri við hæfi að steinleggja helstu samgönguæðar og gangstéttir, gerða ráð fyrir endurbyggingu gamalla húsa á svæðinu (að sjálfsögðu að uppfylltum nútímakröfum) frá “Resikó” að Hópsnesi og gera þarna lítið þorpsgildi er um leið yrði nokkurs konar minnismerki um það sem var – og verður.
Flagghúsið mun nú ganga í endurnýjun lífdaga. Þar verður krambúð og e.t.v. eitthvað fleira áhugavert. Mikilvægt er að ráðafólk í Grindavík skoði, meti og ákveði hver eigi að verða framtíð þess gamla byggðakjarna er ávöxtur bæjarfélagsins er sprottin upp af, leifum þess liðna, en jafnframt áþreifanlegum minnismerkjum er sýna þarf tilhlýðilega virðingu – þar sem gömlu húsin eru annars vegar.
Grindavík, líkt og önnur byggðalög landsins, á sér merka sögu.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Einar Ól. Sveinsson – Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – 1952.
-Guðjón Þorláksson.
-Tómas Þorvaldsson.
-Erling Einarsson.
-Færslubækur Einarsverslunar 196 og 1917.
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson.
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, “Hverjir voru Tyrkjaránsmenn”, Saga 1995, bls. 110-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.

Skiltið

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um “Þróun byggðar í Grindavík” í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

“Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Sundhnúkar

Jón Jónsson jarðfræðingur tók upp heitin „Sundhnúkagígar“ og „Sundhnúkahraun“ í grein í Náttúrufræðingnum árið 1974 og dró þau af gömlu örnefni, Sundhnúk, sem er hæsti gígurinn í Sundhnúkagígaröðinni. Strangt til tekið ætti því að tala um Sundhnúksgíga og Sundhnúkshraun. Hnúkurinn er gamalt leiðarmerki af sjó og dregur nafn sitt af því hlutverki. Merkir „sund“ þá tiltekna leið sem var fær fyrir báta, oft þröng siglingaleið milli skerja eða boða.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Það er ljóst af lýsingum að það hefur verið vandasamt að ná landi heilu og höldnu í Grindavík en Sundhnúkur hefur verið eitt af mörgum mikilvægum leiðarmerkjum fyrir innsiglingu í svonefnt Járngerðarstaðasund. Þeir sem sóttu sjóinn þurftu að kunna skil á þessum merkjum, sem gátu verið hvort heldur manngerð eða náttúruleg, og geta lesið í landslagið og síbreytilegar sjónlínur milli merkja eftir því sem báturinn færðist nær landi.
Lýsing á Járngerðarstaðasundi frá 1931 þar sem Sundhnúkur kemur við sögu er svohljóðandi: „Varða ofan við húsin á Hópi á að bera í vörðu (Heiðarvörðu/Hópsheiðarvörðu), sem stendur uppi í Hópsheiði, og þær aftur í svokallaðan Sundhnúk, sem er ávalur hnúkur á bak við Hagafell. Stefnunni skal haldið á þessi merki, þangað til að Svíraklettur, sem er vestan við Hópsrifið, ber í Stamphólsvörðu, sem stendur á hraunbrúninni, að sjá á Þorbjörn. Er þá haldið á þau merki, þar til Garðhúsaskúr ber norðan til í vörina, þá er haldið á þessi merki, og inn í vör.“ Stamphólsvarðan er nú horfin vegna nýbyggðar.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Varir Járngerðarstaðabænda voru vestan Hópsins, þ.e. Suðurvör, Skökk (Stokkavör), Norðurvör og Staðarvör. Hópsvörin var austan við Hópið.
“Skip Járngerðarstaðabænda reru úr [Norðurvör og Suðurvör], en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan reru skip Skálholtsstóls á meðan enn var útræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað”, segir í Sögu Grindavíkur I.
1703: “Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans…Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa á stólsins skipum…”JÁM III.

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

“Austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör, þá Suðurvör og síðan Norðurvör, sem hét öðru nafni Skökk. Næst austur af er Staðarvör”, segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar.
“Innan við Staðarvör tók við malarkampur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur …” segir í Sögu Grindavíkur I.

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

Stórgrýtt fjara neðan sjávargarðs og um 200 m austan við Suðurvör, verbúðirnar voru upp af henni. Engin ummerki um lendinguna eru nú greinileg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.
Þess má geta að þekking á leiðarmerkjum hefur ekki aðeins verið mikilvæg fyrir heimamenn, enda reru margir aðkomumenn frá Grindavík og þar var lengi aðalverstöð Skálholtsstaðar.

Heimild m.a.:
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – https://www.facebook.com/arnastofnun/

Grindavík - kort 1751

Uppdráttur Christophs Klogs af Grindavíkurhöfn frá 1751, Staður og Húsatóftir vestast og Járngerðarstaðir og Hóp austast. Grynningar og sker sýnd með ýmsum táknum. Skjalið er varðveitt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn.

 

Tyrkjaránið

Á skilti við Grindavíkurkirkju má lesa eftirfarandi texta um Tyrkjaránið. (Skiltið er reyndar óþarflega stórt því til hliðar eru önnur jafnsstór á fimm öðrum tungumálum (sem auðvelt ætti að vera að nálgast á Google translate (þýðingar)). Óþarfi er að vanmeta áhuga útlendinga á íslenskunni.

Tyrkjaránið – Árásin á Grindavík

Grindavík

Grindavík – upplýsingarskilti um Tyrkjaránið við Grindarvíkurkirkju.

Í júnímánuði á því herrans ári 1627 lá dönsk kaupmannsdugga í höfn í Grindavík og verslun var í fullum gangi. Bar þá svo við að óvænt byrtist þar annað skip, sýnu stærra. Af því komu í heimsókn í dugguna menn sem mæsltu á þýska tungu, sögðust vera menn Danakonungs og í birgðaleit. Ekki brást kaupmaður vel við því og fóru þeir þýðversku aftur til skips síns.

Nokkrir Grindvíkingar réru út í hið stærra skipið fyrir forvitni sakir en þegar um borð kom blasti við hópur manna, klæddir litskrúðugum fötum, þeldökkir flestir og gráir fyrir járnum.

Grindavík

Grindavík – upplýsingar um Tyrkjaránið við Grindavíkurkirkju.

Heimamönnum varð fljótt ljóst að Hund-Tyrkinn frá Afríkuströndum var kominn og það ekki í neinni kurteisisheimsókn. Aðkomumenn sendu bát að duggunni og létu þar greipar sópa áður en þeir héldu í land og fóru um plássið eins og logi yfir akur.

Á bænum Járngerðarstöðum beið húsfreyjan með öðrum milli vonar og ótta eftir heimsókn sjóræningjanna. Sumir heimamanna földu eigur sínar eða leituðu í fylgsni en húsfreyja beið þess sem verða vili. Vágestirnir rændu bæinn og hófu svo að reka fólkið til strandar. Húsfreyja sýndi mikinn mótþróa en var tekin og borin af sta. Bræður hennar þrír reyndu að koma henni til hjálpar en þeim var öllum misþyrmt illa.

Erlendu hrottarnir héldu svo til skips með bæði ránsfeng sinn og fólk það sem þeir höfðu hertekið. Tveimur mönnum var snúið aftur til lands fyrir aldurs sakir en 15 mann hópur var hrakinn niður í lestar skipsins.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Að því búnu hugðust illmennin halda burt en sáu þá til ferða annars dansks kaupfars. Þeir sýnu á ný klækindi sín með því að draga að húni danska hornveifu sem þeir höfðu rænt í landi.

Þannig ginntu þeir skipið til sín og reyndist þeim auðvelt að hremma þessa nýju bráð, bæði farm og áhöfn.

Grindvíkingar urðu illa fyrir barðinu á þessum ránsmönnum en komu þó skilaboðum til annarra byggðalaga sem reyndu af veikum mætti að búa sig undir komu vágestanna.

Grindavík

Grindavík – sögu og minjaskilti við Járngerðarstaði. Sjá meira á ferlir.is.

Þeir fundir fóru ýmislega en sú saga verður ekki rakin hér frekar.

Í Grindavík hefur síðan gengið sú munnmælasaga að þar sem ræningjarnir og heimamenn börðust og blóð þeirra blandast hafi sprottið upp þyrnijurt. Þessa jurt má enn í dag finna á þremur stöðum í Grindavík. – (Matthías Kristiansen tók saman á grundvelli bókar Jóns Helgasonar – Tyrkjaránið, sem Setberg gaf út í Reykjavík 1963).

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Eldvörp

Milli Árnastígs og Skipsstígs lá gata til forna.
Þessi leið hefur gleymst eftir að fólk hætti að fara Varða við Langhólfótgangandi milli byggðalaga, auk þess sem hluti af leiðinni var girtur af þegar loftskeytastöðin við Eldborg var reist á Bjarnafangi. Ætlunin var að reyna að rekja götuna frá Árnastíg við Eldvörp, í gegnum Blettahraun, framhjá Langhól og áleiðis niður að Járngerðarstöðum. Gangan endaði við Flagghúsið þar sem skyrgámur (skyrjarmur) tók á móti þátttakendum við hæfi.
Gengið var þegar sólin var hvað lægst á lofti hér á norðurhjaranum; einungis þrír dagar þar til hún átti að byrja upprisu á ný, líkt og hún hefur gert síðustu milljónir ára.
Blettahraun og Bræðrahraun eru systkinahraun austan Eldvarpa. Þau komu undan í sömu goshrinunni, en hið síðarnefnda er ólíkt hinu að því leyti að það er úfnara (apalhraun). Þess mátti Varða við götunasjá glögg dæmi á göngunni.
Gatan liggur frá Árnastíg til suðausturs. Sjá má vörður og vörðubrot á leiðinni. Neðar beygir gatan til suðurs og síðan til suðvesturs, áleiðis að Húsatóftum. Annar angi hennar liggur áfram til suðausturs, áleiðis að Járngerðarstöðum. Tvær vörður eru við austanverðan Langhól. Gatan fer undir girðingu er umlykur loftskeytastöðina og kemur síðan aftur handan hennar.
Í lok göngu fengu ferðalangar góðar móttökur í Flagghúsinu.
Frábært veður í aðdraganda jóla. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Brauðstígur

Brauðstígur.

 

Járngerðarstaðir

“Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir Grindavíkursjórofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Hraun

Dys við Hraun.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. (Grafið var í hólinn á fimmta áratug 20. aldra. Í ljós kom kapella frá 15. öld. Nefnd dys mun vera á hól vestan Hrauns).

Þyrnir

Þyrnir hjá Járngerðarstöðum.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”

Jón Árnason IV 161 – Brynjúlfur Jónsson skráði – Tillaga til alþýðlegra fornfræða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkatla bjó á Þórkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands.

Þórkötludys

Sigurður Gíslason á Hrauni við dys Þórkötlu í Þórkötlustaðahverfi.

Þórkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þórkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Sagan segir að Þórkatla hafi verið kona Þorsteins hrúfnis (jötuns) og Járngerður hafi verið kona Þórðar leggjalda. Þeir voru synir Molda-Gnúps. Þegar eiginmaður Járngerðar fórst á Járngerðarstaðasundi mælti Járngerðu svo til um að 20 skip skyldu þar og farast. Hún var dysuð að hennar beiðni við sjávargötuna frá Járngerðarstöðum svo hún gæti fylgst með hverjir réru hverju sinni.

Dys Járngerðar er í vegkantinum, sunnanmegin, í beygjunni á milli Víkur og Hliðs. Tómas Þorvaldsson, sem vísaði á dysina, sagði það venju að sjómenn, sem gengu sjávargötuna framhjá dysinni, stöðvuðu þar og signdu sig eða báðu bænir áður en þér héldu til báts.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Í sama óveðri slapp eiginmaður Þórkötlu inn á Þórkötlustaðasundið. Þórkatla mælti þá svo til um að þar myndu engir bátar farast. Hefur hvorutveggja gengið eftir. Þórkatla mælti fyrir um að hún skyldi dysjuð þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðasundið.
Dys Þórkötlu er er í túninu austan við Hof.

Jón Árnason IV 231
Skv. upplýsingu Tómasar Þorvaldssonar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ eftir ábendingum Guðjóns í Vík.

Festarfjall

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur má m.a. sjá pistil eftir ritstjórann, Óskar Sævarsson, um Silfru og Festarfjall. Þar segir:

Sifra

Silfurgjá.

“Silfurgjá heitir gjá ein í Grindavík, skammt frá Járngerðarstöðum. Gjáin ber nafn af kistum tveim er þar eiga að vera geymdar.
Skulu kistur þessar vera úr skíru silfri og að öllum líkindum ekki alveg tómar af öðru verðmæti. Kisturnar eru yfirskyggðar og ósýnilegar, en þær losna og koma í ljós ef bræður tveir frá Járngerðarstöðum sem báðir heita sama nafni ganga í gjánna, en samtímis verður dóttir bóndans á Hrauni, sem er austastaði bær í Þórkötlustaðahverfi, að ganga undir festina í Festarfjalli.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall heitir fjallið sem gengur þverhnýpt í sjó fram milli Hrauns og Ísólfsskála. “Festin” sem fjallið dregur nafn sitt af er í raun basaltgangur sem liggur í gegnum fjallið niður í sjó, en þó gegnt fyrir festarendann um fjöru.

Festarfjall

“Festin” í Festarfjalli.

Festin á í raun réttri að vera úr skíru silfri, þótt hún sé svona ásýndum og losnar hún ef stúlkan gengur undir hana á sömu stundu og piltarnir hverfa í gjána.
En sá galli er þó á gjöf Njarðar að þessi bóndadóttir frá Hrauni verður að heita sama nafni og tröllskessa sú sem kastaði festinni fram af fjallinu. En enginn veit hvað sú skessa hét eða heitir eða hvort hún er lífs eða liðin. Á þeirri stundur sem tröllskessan kastaði festinni fram af fjallinu hét þar Siglubergsháls sem fjallið er, en bergið Sigluberg þar sem festin liggur.

Festarfjall

“Festin” í Festarfjalli neðst.

Hér er þá komin hin forna sögn sem gengið hefur manna á millum í árhundruð hér í Grindavík. Staðirnir og örnefnin sem fram koma eru sem greypt í mannlífið og er skemmst frá því að segja að t.d. félgasheimlið okkar hét Festi, nokkur fyrirtæki hafa borið nöfn eins og Silfurhöllin, Festi h/f og Silfurberg sem voru útgerðarfyrirtæki.
Í gamali kálfskinnsbók (að öllum líkindum að finna á Írlandi) frá anno 400 post Cristum natum ritast; að Ísland hafi verið byggt Írum er hafi hingað út farið á 8 skipum og verið hér á landinu í 200 ár.

Festarhringur

Festarhringur.

Eftir það er mælt að niðjar þeirra er byggð áttu á Írlandi hafi hingað komið og séð hér yfir 50 elda og var þá útdautt hið gamla fólk (nefnt Troll í hinu gamla handriti).
Þar komur og fram örnefnið Siglubergsháls; ritast “Og við Sigubergsháls sem skuli hafa verið í Grindavík” skyldu ískir hafa fest skipum sínum, þá hingað komu og segja gamlir menn að um stórstraumsfjöru megi þar sjá járnhringa fasta í sjávarklöppum.”

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2022 – Silfra og Festarfjall, Óskar Sævarsson, bls. 103.

Silfra

Í Silfurgjá.

Járngerðarstaðir

Á og við Járngerðarstaðatorfuna má finna ótal örnefni, sem ýmist tengjast atburðum er eiga að hafa átt sér þar stað fyrrum, ábúendum, átrúnaði eða öðru. Hér á eftir eru taldin upp nokkur örnefni. Þau hafa verið færð skilmerkilega inn örnefnauppdrátturá drög af uppdrætti af svæðinu, öðru áhugasömu fólki til glöggvunar. Nú hafa einnig verið gerðir slíkir uppdrættir af vestasta hluta Járngerðarstaðahverfis, þ.e. svæðinu ofan við Stórubót og Gerðavöllum að Stekkhól, mörkum Húsatópta, Hópssvæðinu, Þórkötlustaðanesi og Stað. Framundan er að gera uppdrátt af Þórkötlustaðahverfinu og Hrauni.
Járngerðarstaðahverfi er næst utan við Hóp. Upplýsingar um eftirfarandi örnefni eru frá Þorsteini Bjarnasyni frá Háholti, Ingibjörgu Jónsdóttur kennara, systur hans, Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum, Spítalastíg 3 í Reykjavík, Guðsteini Einarssyni hreppstjóra í Grindavík o.fl. Það var Ari Gíslason sem skráði. Farið var með Guðjóni Þorlákssyni í Vík um svæðið með það fyrir augum að skoða þegar skráð örnefni og til að benda á önnur, óskráð.
TóftFyrst er það ströndin og fjaran að vestan til austurs. “Næst austan við Stórubót eru klettar sem ganga fram í sjó og heita Vestri-Hestaklettur og Eystri-Hestaklettur. Örnefni þau sem hér hafa verið talin eru öll í fjörunni en upp frá því er landið bakkar og sléttarhraunklappir. Ofan við Eystri-Hestaklett er svonefnd Engelskalág sem er nú að fyllast upp. Þar var eitt sinn barist við Englendinga. Austur af Eystri klettinum er Hvítisandur og þar næst austur er Stakibakki sem nær fram í kambinn. Hér er kamburinn að vinna á en bakkinn að minnka af sjávargangi. Fram af þessu plássi eru svonefndar Flúðir milli Eystri-Hestakletts og Stakabakka.
Næst við Stakabakka er vik sem heitir Litlabót og nær hún að Lönguklettum. Út úr Litlubót er rás sem heitir Litlubótarrás og liggur í Önnulón í sjó. Austan við rásina er Litlubótarpyttur. Við hann er Pyttsker. Vestarlega í Lönguklettum er Fúlalón. Framar í fjörunni er Sölvalón. (S.T. þekkir ekki Ormalón sem sagt er í Garðhúsafjöru.) Næst Lönguklettum heita Vestri-Þanghóll og Eystri-Þanghóll. Í stórstraumsflóðum fellur að þeim en þeir fara ekki í kaf.
Fram af Þanghólum og milli þeirra eru berar klappir er heita Sjálfkvíar eða Sjálfkvíarklöpp og Sjálfkvíarlón er þar fram af. Milli Sjálfkvíarklappar og Litlubótarrásar er Rafnshúsafjara. Þar höfðu Rafnshús leyfi til að skera þang. Áfram austur eftir er malarkampur. Austan við Eystri-Þanghól er Fornavör.
Draugalón er í kvos milli Eystri-Þanghóls og Í JárngerðarstaðahverfiSjálfkvíarklappar. Það er fúll pyttur, 3-4 metrar á dýpt sem þang safnaðist í og fúlnaði. Langitangi er austan við Fornuvör niðri í fjöru og kemur ekki upp nema í stórfjöru. Þar var farið í beitifjöru í gamla daga. Upp af Langatanga er Garðhúsafjara en austan við hann er Helgubás. Sumir nefna Langatanga Kvíhúsatanga. (S.T. hefur ekki heyrt um Akurhúsavör.)
Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum og þar eru Gömlu-Rafnshús um 150 m austar. Akurhús sópaðist af grunni í sjávarflóði 1925 en þá urðu nokkrir bæir að hólma. Kamburinn framan við Kvíhús og Akurhús er kenndur við bæina, Kvíhúsakambur og Akurhúsakambur. Tangi gengur þarna fram sem heitir Akurhúsanef. Vestan við nefið eru fjörurnar nefndar Vallarhúsafjara og Akurhúsafjara. Austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör, þá Suðurvör og síðan Norðurvör sem hét öðru nafni Skökk. Næst austur Járngerðarstaðiraf er Staðarvör. Þar var uppsátur Skálholtsskipa og síðar útgerðin. Þegar S.T. fékk lóð þarna og gróf niður í kálgarði sínum voru þar fyrir vaðsteinar og brýniskubbar o.fl. í axlardýpt.” Kálgarðurinn var við Varir, sem er gegnt Flaggstangarhúsinu.
Þá er komið inn (austur) fyrir hina nýju varnargarða. Þar hefur orðið talsvert rask síðan bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var byggð og grafið var inn í Hópið, auk varnargarðanna.
“Næstur er Svartiklettur austan við Staðarvör, upp úr sjó í fjörunni. Þar upp af heitir Svíri, klettahryggur sem aðskilur Hópið frá sjónum. Út af honum kemur vestri garður hafnarinnar. Vegur liggur eftir Svíra fram á bryggjurnar sem eru innan á hafnargarðinum. Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn. Fram af Svíra gengur Vestri-Rifshaus að mynninu á Hópinu. Hópsós er aðalósinn á Hópinu, líka nefndur Ystiós en einnig voru þar smáósar, Miðós og Barnaós vestastur. Miðós var dýpkaður og gerð innsigling eftir honum inn í Hópið en hinir eru horfnir við uppfyllingu. Þegar ekki var lendandi í vörunum áður fyrr var farið inn í Hóp og lent í Kvíaviki en það hefur nú verið fyllt upp og byggðir tankar á því.

Í Járngerðarstaðahverfi

Kvíavikið var suðvestan við Álfsfit, innan við Svíra. Úr vikinu til vest-suðvesturs vottaði fyrir troðningum um síðustu aldamót sem kallaðir voru Eyrargata. Sagnir voru um að það væri kirkjugata frá Þorkötlustöðum að Stað en þá átti Hóp að hafa verið grasi gróið valllendi. Sagnir voru einnig um að Staður hafi verið í miðri sókn áður fyrr.” Samnefnd gata lá einnig milli Hrauns og Þórkötlustaða, yfir Slokahraun og með (þá) sendinni ströndinni yfir Þórkötlustaðanesið.
Og þá er horfið aftur að upphafsstað og nú farið ofan strandar. “Nú er að bregða sér aftur á þurrt og koma að Markhól sem fyrr var getið. Fyrir ofan og austan hann er Stórhóll, sem áður er getið. Þar austur með er Hrafnagjá upp af Sandvikinu, en hún liggur til austurs. Stekkjarhólar eru rétt niður við kampinn.
Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum) eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli og hét þar Skipsstígur. Hellurnar eru kallaðar upp af Engelskulág.  Grasslakki er milli kambsins og Hella. Hellur eru ávalar og lágar hraunhellur og var þar þurrkað þang á haustin. Upp af Hellum fjær sjó eru Hraunsstekkjarbrunnar sem eru tjarnir. Ganti er klettarani með grasi utan við túnhliðið og Traðirnar voru þar frá bæ vestur úr. Grasbrekka eða bolli er í Ganta sem er hraunhóll sléttur að ofan og er af honum mikið útsýni.” Suðvestan í Ganta er tóftarbrot, sennilega hlaðið gerði í tengslum við Hraunsstekkinn og Hraunsstekkjarbrunna. Við þá er stekkurinn og sést hann enn.
“Hliðið á túngirðingunni að vestan hét Tíðahlið en þá var grjóGömul gatatgarður kringum túnið allt. Um hliðið var farið þegar farið var til tíða að Stað. Aðeins utan við túngirðinguna sunnar er Píkuskarðsklettur. Á móti honum innan túngirðingar er Sölvhóll (S.T. þekkir ekki nafnið Sölvaklett.) Hólsbyrgi er grösug hæð utan túns. Þar var hádegi frá Járngerðarstöðum. Það er austan við Litlubót.” Hólsgarður er heillegur austan í Sölvhól.
“Norður af bæ á Járngerðarstöðum er Vatnsstæði. Suður af bænum er Dalur. Í honum er tjörn sem gætir flóðs og fjöru í. Sunnan við Salinn er Sölvhóllinn. Hann mátti ekki slá því þá sólbrann hann. Upp af Vatnsstæðinu er Einisdalur. Þar vestan við túnið er Einisdalshraun en suður af því eru Hraunsstekkirnir. Niður af Vatnsstæðinu, vestan við gamla heimabæinn, er Bóndastekkatún. Austan við Járngerðarstaði var kot sem hét Langi eins og áður er getið. Túnið milli Járngerðarstaða og Garðhúsa var Langatún. Fyrir framan Garðhús hét Helgavöllur. Næsta spilda niður að dalnum og Vallarhúsum heitir Helmingavöllur. Vestan við Járngerðarstaði, sjávarmegin við Traðir, er Halavöllur. Norðan við Traðirnar meðfram garðinum var Skjölduskák en fjær var Fjósaskák. Drumbar voru norðar að Garðhúsatúni, norðan við Fjósaskák.
Þá skulum við aftur koma að Hópinu þar sem frá var horfið við Svíra. Áfram austur með því er Álfsfit og Krosshúsvikradalur næst bryggjunum. Þá er Rafnshúsafit austan við Krosshúsvikradal og Eystri-Vikradalur er þar fyrir austan. RafnshúsEr þá komið á merki móti Hópi.
Verður nú tekið það sem eftir var af landi jarðarinnar og haldið til heiðarinnar. Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Gjá þessi er upp af Vatnsstæðinu.” Ofan (norðvestan) við Silfru er Nautatún. “Fast við það [Vatnsstæðið] er varða við veginn til Keflavíkur og heitir hún Títublaðavarða. Fleiri gjár eru og hér. Stamphólsgjá er ofan við byggð í Járngerðarstaðahverfi. Hún er einnig í Hópslandi að hluta. Svo er Gjáhúsagjá í túninu. Upp af Silfru voru Eldvörpin en þau eru nú horfin því herinn sléttaði þau út. Vestur af þeim er Eldborg. Þar upp af er graslendi sem nefnt er Lágafellsheiði. Um hana lá vegurinn til Keflavíkur.”
Kjöthóll sést vel við Dalinn sunnan Járngerðarstaðatorfunnar. Þá sést og vel móta fyrir hinum gamla túngarði Járngerðarstaða er náði frá Nautagjá um Drumba og Langatún yfir að hæð þeirri er Krosshús og fleiri standa á nú. Þar beygði garðurinn til suðausturs og sést móta fyrir honum þar. Gömul gata lá sunnan við Sæból og sést enn í túninu.
“Gæðingadys” er myndarlegur hóll í Garðhúsatúni, norðan Garðhúsa. Þar dysjaði Einar Jónsson í Garðhúsum gæðinga sína með fullum reiðtygjum “með höfðinglegum hætti”.
Og ekki má gleyma dys Járngerðar, sem mun vera undir Verbrautinni gegnt Gömlu-Vík. Sjá má í eitt hornið hennar, skv. upplýsingum Tómasar Þorvaldssonar frá Járngerðarstöðum.

Heimildir:
-Örnefnaskrá fyrir Járngerðarstaði – Örnefnastofnun Íslands.

Í Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi.

Járngerðarstaðir

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um miðhverfið (seinni hluti).

Járngerðarstaðir

Blóðþyrnir.

Járngerðarstaðir eru ekki síst minnistæðir vegna Tyrkjaránsins 1627, en þá var rúmlega tug hverfisbúa rænt af alsírskum sjóræningjum ofan við Fornuvör, auk nokkurra Dana. Bærinn kom einnig við sögu í Grindavikurstríðinu 1532 þá er heimamenn ásamt liðisinni börðust við enska ofan við Stórubót þar skammt suðvestar (sjá aðrar FELRIRslýsingar).
Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. “Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var “heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.”
Árið 1803 var Nyrðra-Garðshorn orðin hjáleiga frá Járngerðarstöðum.

Járngerðarstaðir

Tómas Þorvaldsson við Járngerðardys.

Í Landnámi Ingólfs III, segir m.a. að 1840 er “eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.”

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Árið 1847 voru hjáleigurnar; Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. Stundum er þá talað um Járngerðarstaðahverfi.
Árið 1840 var skv. sóknarlýsingu tvíbýli á heimajörðinni og fylgdu hverjum parti 5 hjáleigur. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Járngerðarstaðir

Virkið.

Íbúðarhúsið, sem nú stendur á Járngerðarstöðum (Vesturbær) var byggt á síðasta áratug 19. aldar. Húsið er nýlega uppgert og byggt hefur verið við það. Um er að ræða járnbáruklætt timburhús með hlöðnum kjallara. Að sögn eiganda er húsið elsta hús Grindavíkur, sem enn er búið í.
Skjalda var eyðikot 1840. Í sóknarlýsingu segir að það hafi legið í útnorður út við túngarðinn. Líklegast er að Skjalda hafi verið skammt þar frá sem seinna var byggt steinhlaðið útihús við túngarð. Bærinn var sambyggur við túngarðinn vestan við bæinn, norðvestan við heimreiðina. Enn má greina hvar húsið hafði staðið þó að sléttað hafi verið yfir það. Tómas Þorvaldsson, sem fæddur er á Járngerðarstöðum sagði Skjöldu hafa verið eitt fyrsta fátækraskjólið í Grindavík og til merkis um velvild Járngerðisstaðabænda sem og samfélagsins, sem þá var.

Skjalda

Skjalda.

Hlaðhús voru hjáleiga árið 1703. Hennar er ekki getið í tali Johnsens 1847. Ekki er vitað hvar Hlaðhús stóðu og örnefnið er nú týnt. Helst er að giska á að húsið hafi verið í námunda við hlað Járngerðarstaða þar sem nú er malbikaður vegur.
Lambhús voru hjáleiga 1703, “byggð við xx ár.” Ekki er heldur vitað hvar Lambús stóðu.
Gullreka var tómthús eða sjóbúð. Árið 1703 segir að “til forna hafa hjer verið þessar búðir; Gullreka hefur verið tómthús, búðarleiga var xx álnir.” Staðsetning Gullreku er nú óþekkt.
Krabba var einnig sjóbúð. “Til forna hafa hjer verið þessar búðir;…Krubba. Og svo tómt hús, búðarleiga xx álnir. Staðsetningin er einnig óþekkt.
Litlu Gjáhús munu hafa verið sjóbúð. “Til forna hafa hjer verið þessar búðir; … Litlu Giahus, hafði grasnyt. Landskyld var 1 álnir.” Litlu Gjáhús hafa verið í námunda við bæinn Gamla-Gjákot.

Járngerðarstaðir

Tómas Þorvaldsson við Virkið.

Þarna voru tvö býli, einnig nefnd Syðra- og Nyrðra-Gjákot. Bæirnir voru rúmum 20 m austan og (eilítið sunnar) en Vík. Um 20 m norðan við Verbraut, þar sem nú standa útihús. Engin ummerki sjást nú um húsið, en á svipuðum slóðum og það stóð eru nú nokkur útihús.
Nyrðra Garðshorn var eyðihjáleiga 1803 “Nyrðra Garðshorn, hverrar nú eigi er getið.” Engar sagnir eru uppi um hvar Nyrðra Garðshorn stóð.
Akrahóll og Akrakot voru komin fyrir aldamótin 1900, “hvorutveggja þurrabúð, grasnyt fylgdi ekki,” segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Akrakot var þar sem nú Kirkjustígur 1 og 3, en litlu austar. Leifar garðlaga er þar sem eru bakgarður íbúðarhúsanna.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – Hólsgarður neðst t.v.

Hólsgarður er kálgarður/kartöflugarður með grjóthlöðnum vegg í kring syðst í svokölluðu Hólstúni, suðaustan við Tjörnina. Í einu horni hans er útihús (kofi). Þetta er ferhyrnd rúst, sem að sögn Guðjóns Þorlákssonar frá Vík, er gamall hrútakofi frá Járngerðarstöðum. Fast upp við þennan kálgarð (austan við) er annar kálgarður, sem virðist eldri. Hann er svipaður að stærð og sá fyrri, hlaðinn úr torfi og grjóti. Guðjón sagði að svæðið allt, kálgarðanir tveir, hrútakofinn og staðurinn þar sem hann heyrði að kotið hafi legið, hefðu ekkert breyst frá því að hann man eftir sér. Hólsgarður var enn notaður sem kartöflugarður þegar hann var ungur.

Annar kálgarður er merkt inn á túnakort 1918 beint neðan (sunnan við) vesturbæ Járngerðarstaða. Garðurinn sést enn fast sunnan við Vesturbraut, sem liggur framhjá Járngerðarstöðum og áfram til vesturs. Sunnan við garðinn er Dalur (vatnið), en annars eru sléttuð tún umhverfis.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og nágrenni.

Kálgarður er einnig frá Vallarhúsum, um 20 m vestan við vegarslóða, sem liggur að sjávarsíðunni þvert á Vesturbraut.
Leifar að garði eru greinilega 100 m norðan við Járngerðarstaði. Garðurinn liggur um sléttuð tún. Hugsanlegt er að hann hafi verið hluti af merkjum milli Járngerðastaða og Garðshúsa eða jafnvel hluti af túngarði við Járngerðarstaði. Annars var víða hlaðið um kálgarða í hverfinu og sjást þeir margir enn, t.d. við Rafnshús.
Traðirnar lágu frá bænum og til suðvesturs. Nú liggur vegur (Vesturbraut) á þessum slóðum og ummerki um traðirnar því horfin. Traðirnar lágu þar sem nú er malarvegur, umhverfis eru sléttuð tún.

Grindavík

Gengið um Grindavík.

Túnhliðið á túngirðingunni að vestan hét Tíðahlið, en þá var grjótgarður í kringum túnið allt. Túngarður sést víða umhverfis tún Járngerðarstaða. Sunnan við tún sést garðurinn austan við Tjörnina og að Vesturbraut.
Athyglisverð þúst er um 30 m suðvestan við girðingu, sem liggur umhverfis Garðshús. Hún er í rennisléttu túninu, um 8 x 5 m að stærð og 0.4 m á hæð. Ekki sjást dokkir ofan í rústina. Þetta er ein þeirra rústa, sem forvitnilegt er að grafa í á svæðinu. Um er að ræða haug þar sem Einar í Garðhúsum dysjaði gæðinga sína með öllum reiðtygjum.
Áður fyrr var svonefnt Hólsbyrgi á grösugri hæð utan túns, í hádegisstað frá Járngerðarstöðum. “Það var austan við Litlubót,” segir í örnefnaskrá. Á hólnum átti að vera lítil tóft, en hóllinn er nú horfinn vegna vegagerðar.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

“Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðshúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður,” segir í lýsingu. “Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það samt komið undir veg. Eitt hornið á leiðinu stendur undan beygjunni á veginum. Brynjúlfur Jónsson skrifar 1902 að hann hafi látið grafa í aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. “Reyndist hann gamall öskuhaugur”. Balinn var þar sem Verbraut beygir í átt að Vík. Sagnir eru um að piltar, sem gengu frá Járngerðarstöðum til sjávar, hafi ávallt farið fram hjá leiðinu þar sem það var talið boða lukku. Leiða má að því líkum að Tyrkirnir er hlupu adrinialínsfullir í júnímánuði 1627 upp að Járngerðarstöðum frá Fornuvör með brandinn brugðinn hafi farið sjávargötuna og væntanlega framhjá Járngerðardysinni.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Austan Sjólistar, sem síðar er nefnd, eru á bletti sagður vaxa blóðþyrnir þar sem blandaðist blóð heiðinna manna og kristinna. Þyrnirinn er greinilegur milli þess að hann er ekki traðkaður niður af hrossum, sem þar eru höfð í girðingu, fast við veginn norðan við Flagghúsið, sem nú er í endurgerð.
Vallarhúsahola var lind í Dalnum, nokkurs konar uppspretta undir bökkunum. Úr henni, sem og öðrum holum, var tekið allt vatn í bæinn til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum og Vallarhúsum, sem var rétt þar við. Á Járngerðarstöðum voru fyrir og fram að 1900 oft á vertíðum yfir eitt hundrað manns. “Vatn þetta var nú samt salt, sögðu sveitarmennirnir, aðeins jafnsíaður sjór.”

Gerðavellir

Gerðavellir – Junkaragerði. Uppdráttur ÓSÁ.

Hólshola var önnur lind í Dalnum Í Dalsvatni, um 50 m norðan við túngarð var brunnur Hólskots. Lítill tangi út í vatnið. Í dag eru ekki greinanleg ummerki þess hvar vatnið var tekið úr Dalsvatni.
Heimrihola var Brunnur Járngerðarstaða, ýmist nefndur Járngerðarstaðabrunnur eða Hemrihola. Hann var austan við Dalsvatn, nálega þar sem girðing afmarkar nú land Vallarhúsa (norðan við girðingu). Þarna er vík í vatnsbakkann. Umhverfis er grasi vaxið.
Við Stekkjarhóll er heimild um stekk. “Vesturmerki Járngerðarstaða eru frá Markhól, sem er við sjó (grasi vaxinn, ekki hár). Vestan við Markhól er Hvalvík, sem er í Húsatóptarlandi. Austan við Hvalvík er Katrínarvík. Austan við hana er Sandvík. Austan við það eru Hásteinar, sem eru hraunstandar upp úr kambinum. Austan við Hásteina er flöt hella, sem er upp úr um flóð og heitir Hella. Austan við Hellu heitir Malarendi.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt.

Næst Malarenda er Skyggnir, sem er hóll. Litli-Skyggnir var þar skammt vestar, lítill hóll lengra frá sjónum norður frá Stekkjarhól,” segir í örnefnaslýsingu. Stekkjarhólar/Stekkjarhóll er nokkru vestan við Hásteina og um 130 m austan við Markhól. Hólarnir eru að mestu grasi grónir, en steinar frá sjávarkambinum liggja þó á víð og dreif í hólnum. Stekkurinn var lengi vel greinilegur, en er nú einungis greinilegu “velsjáandi” augum. Hann er suðvestan í hólnum, gróinn.
Gerðavellir liggja ofan við Skyggni. Ofan þeirra eru Gerðavallabrunnar, en Grindvíkingar kölluðu ferskvatnstjarnirnar ofan strandar jafnan brunna, sbr. Tóftarbrunna og Stakabrunn í Tóptarlandi. “Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina (affallið). Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar. Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þei reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur,” segir í örnefnaskrá.

Junkaragerði

Garður við Junkaragerði.

Í Sögu Grindavíkur segir að “munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stórubót í Járngerðarstaðalandi.” Þar segir einnig að “á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa var á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stórubót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartímann. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Frá honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.”
Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Grindavík

Grindavík.

Í örnefnaskrá er getið um “heimildir um “Tyrkjaránið” 1627. Þær herma að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin hafa haft bækistöðvar sínar til ársins 1639, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík.” Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.
Í örnefnaskránni segir að “frá Stórubót liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gengur gegnum Rásina um flóð.”

Norðnorðvestan við Skyggnisrétt, grjóthlaðna hestarétt, má sjá garðlag á Gerðavöllum, sem liggur í tæpra 60 m til vestnorðvesturs, en það beygir til norðurs. Garðslagið liggur um 140 m til norðurs, en beygir þá til austurs í um 90 m áður en það fjarar út um 100 m suðvestan við Rásina. Garðurinn liggur um grasi gróið sléttlendi. garðurinn sést enn tæplega 300 m langur, en er vísðar um 1,5 m breiður. Hann er siginn og aðeins um 0,3 m á hæð.

Jángerðarstaðir

Engelska lág.

Við Engelsku lág er heimild um vígi. Árið 1532 “gerði Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýsku menn og Bessasta fógeti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt það þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði,” segir í Skarðsannál.

Gerðavellir

Leifar virkis Jóhanns Breiða við Gerðisvelli í Grindavík.

Í Sögu Grindavíkur segir að “upp af Stórubót, áHellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógrenilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða. Aðsetur enskra kaupmanna á fyrri hluta 16 aldar var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Er líklegt að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið. Á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig fyrr á öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nærri hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld. Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið.” Örnefnið Engelska lág (eða laut) og munnmæli herma, aðþar hafi Englendingarnir, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júli 1532, verið dysjaðir (sjá umfjöllun um Grindavíkurstríðið undir Fróðleikur). Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðavellir. Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.
Hraunsstekkirnir voru suður af Einidalshrauni, sem er vestan við túnið á Járngerðarstöðum. Einidalur er falleg gróin hraundæld með vatnstjörn. Í honum norðanverðum er skúti. Tæpum 100 m austan við Rásina sjást leifar af öðrum Hraunsstekknum, en hinn er alveg horfinn í lón, sem er á þessum slóðum og hafa stækkað á síðustu árum. Stekkurinn er á grasi vöxnu svæði milli hraunbrúnar og lónsins.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt.

Tóft er fast vestan við enda lónsins. Hún er í dæld suðvestan við vesturenda lónsins. Tóftin er mynduð úr sérkennilegri blöndu af mjög stórum hnullungum og smásteinum.
Tóft, lítil og einföld, er á Sölvhól, sem er grasi gróin klettahæð vestan við Dal (vatnið).
Fornavör er austan við Eystri-Þanghól. Það segir ókunnugum svo sem ekkert, en í vörunum tveim, sem þarna eru utan varnargarða, Fornuvör og Stokkavör, mun hafa staðið útvegur fyrr á öldum. Fornavör er fast austan við fjárhús sunnan við veg, sem liggur með sjávarsíðunni og tengist götunni Seljabót norðvestar. Ofan við hana stórgrýtt fjara og sjávarkambur. Í fornleifaskráningu 2002 er sagt að “ekki sjást merki um hvar lendingin hefur verið”, en hana má glögglega sjá neðan og austan við fyrrnefnd fjárhús. Upp frá henni lá sjávargatan að Járngerðarstöðum, framhjá Járngerðardys. Gatan sjálf er nú í sléttuðu túni, en vísbendingin er glögg.
Draugalón er í kvos milli Eystri-Þanghóls og Sjálfskvíarklappar. Þar er fúll pyttur, 3-4 m á dýpt, sem þang safnaðist í og fúlnaði. Pytturinn er enn greinilegur í sjávarmálinu.
Sjálfskvíar eru “fram af Þanghólum. Milli þeirra eru berar klappir; Sjálfskíar eða Sjálfskvíarklöpp, og Sjálfskvíarlón er þar fram af”, segir í örnefnaskrá. Saga Grindavíkur segir að “við klöppina, sem nefnd er Sjálfskvíarklöpp, hafa bændur vafalítið haft fé í kvíum, á meðan enn var fært frá, og er ekki ósennilegt, að nafnið sé þannig til komið, að kletturinn hafi verið notaður sem kvíarveggur og þarna hafi þótt hentugt að króa fé af. Líklegastir til að notfæra sér klöppina með þessum hætti voru bændur á hjáleigunni Kvíhúsum, sem stóð þarna niðurundir kampinum, og við hana er Kvíahúsakampur vitaskuld kenndur.”

Grindavík

Grindavík.

Sjálfskvíarklöpp er klöpp í fjöruborðinu við Draugapytt. Á þessum stað er hamar í fjöruborðið, og grýtt fjara upp af, þar norðan við er raskað svæði. Engar kvíar eru lengur á þessum stað.
Stokkavör var næst Akurhúsanefi. Í Sögu Grindavíkur segir að “austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör. Í vörunum tveim; Fornuvör og Stokkavör, mun hafa staðið útvegur fyrr á öldum.” Stokkavör var næst austan við Suðurvör, þar sem sjógarður er nú. Ofar er smágrýtt fjara og enn ofar (eða norðvestar) er sjávarkamburinn og vegur. Engin merki sjást nú um Stokkavörina.
Suðurvör var þar sem “ferðamenn komu með ströndinni að vestan og yfir Akurhúsanef. Komu þeir fyrst í varnirnar í Járngerðarstaðahverfi eru hétu Norðurvör og Suðurvör. Þá var tekið að landa afla við bryggjuna, en síðan voru bátarnir settir upp í vörnum sem fyrr. Hélst svo allt til þess, er hafnargerð hófst í Hópinu 1939. Á milli varanna var sker, sem Suðruvararsker hét, og við leiðina inn í varirnar var annað, sem Brúnkolla nefndist. Þar lentu bátar stundum uppi, og þótti ekki sérlega mikil sjómennska.
Skip Járngerðisstaðabænda reru jafnann úr vörunum tveim,” segir í Sögu Grindavíkur. Þar segir jafnframt að “skip Járngerðarstaðabænda reru úr Norðurvör og Surðurvör, en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan réru skip Skálholtsstóls á meðan enn var úttræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað.”

Grindavík

Grindavík – Norðurvör.

Árið 1703 “gánga skip stólsins hjer bvenjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir, En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Magn. Brynjólfs var uppbyggð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans (þeirra tíma íslenska). Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa stólsins skipum.”

Í Sögu Grindavíkur segir að “innan við Staðarvör tók við malarkambur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur.” Engin ummerki um lendinguna eru nú greinanleg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

“Svartiklettur var austan við Staðarvör. Hann stóð upp úr sjó á fjörunni. Þar upp af heitir Svíri. Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn,” segir í örnefnaskrá. Svíravarðan var áður við suðausturhorn fiskvinnsluhúss, þar sem sjóvarnagarður gengur til austurs. Hún var um 70 m austan við Járngerðarstaði. Þar sem varðan stóð eru nú tankar og fiskvinnsluhús. Nafnið hefur í seinni tíð verið notað um neðri innsiglingavörðuna neðan við Hóp (sjá fyrri hluta).
Suðurvör var þar sem nú er nýr sjógarður að baki handverkshúsi og beitningarskúrum. Nú hefur svæðinu verið umturnað og ekki sér lengur hvar lendingin var.
Norðurvör var fast austan við Suðurvör, þar sem núr er sjávargarðurinn og steypuleifar hanar, sem byrjað var að byggja, en komst aldrei í notkun. Sjóvarnargarður, sem byggður er úr miklum grjóthnullungum, er á þessum stað, en engar minjar sjást nú hvar lendingin var.

GrindavíkÞegar ekki var lendandi í vörunum áður fyrr, var farið inn í Hóp og lent í Kvíaviki, en það hefur nú verið fyllt upp og byggðir tankar á því. Kvíavikið var suðvestan við Álfsfit, innan við Svíra. “Þar munu hafa verið kvíar frá Rafnsstöðum eða Krosshúsum,” segir í Sögur Grindavíkur. Kvíavik var þar sem austurendi beinaverksmiðju er nú og vegarslóði liggur meðfram henni að norðaustan. Bygging og vegur eru þar nú, en öll ummerki eftir kvíar eru löngu horfin. Fyllt var upp í svæðið á árunum 1956-57.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

“Á 17. öld herma sagnir, að maður nokkur hafi verið við þangskurð á Rifinu (eiðinu). Hann fór út, á meðan lágsjávað var, hafði með sér tvö börn, en gætti sín ekki, er sjór tók að falla að, og fór svo, að maðurinn gat bjargað sér í land, en börnin drukknuðu. Var ósinn, sem þau lentu í, nefndur Barnaós eftir það. Eftir þennan sorglega atburð herma sögur,a ð bændur hafi hlaðið fyrir ósinn, sem áður hafði verið grafinn inn í Hópið, og mátti ganga þar þuruum fótum, er lágsjávað var. Kom þessi hleðsla í ljós. þegar Rifið var grafið út á árunum 1938-1939, og var u.þ.b. fimm metra breið og hnéhá,” sgeir í Sögur Grindavíkur. Barnaós var þar sem nú er innsigling inn í Grindavíkurhöfn. Að ósnum liggur höfnin vestanmegin, en sjávargarðurinn að austan.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðavör.

Ekki er annað vitað um staðsetningu Álfsfitar en að hún hafi verið norðaustan við Kvíavik, líklega þar sem bryggjan er nú. Staðurinn var sunnan við þar sem nú standa olíutankar.
Í vikinu með fjörunni til vestsuðvesturs vottaði fyrir troðningi um síðustu aldamót (1900), sem kallaðir voru Eyrargata. Í örnefnaskrá segir að “það væri kirkjugata frá Þórkötlustöðum að Stað, en þá átti Hóp að hafa verið grasi gróið valllendi. Sagnir voru einnig um, að Staður hafi verið í miðri sókn áður fyrr,” sbr. fornar sagnir um byggð vestan við Staðarhverfi (sjá lýsingu um Staðarhverfi II). Eyrargata lá eftir eyrinni til en beygði svo til austurs og var nálægt því að liggja samsíða Hafnargötu núverandi, suðaustan hennar. Gatan lá svo um Hópsbæina og áfram til austurs að Þórkötlustöðum (sjá fyrri hluta). Hún er nú horfin á þessum hluta, en sést enn austan við Hóp.
Ofan við bæinn er Vatnsstæðið. “Niður af Vatnsstæðinu, vestan við gamla heimabæinn, er Bóndastekkstún,” segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur hægt að sjá leifar stekks á þessum stað, en í túninu, sem hefur verið sléttað, er hryggur, sem liggur austur-vestur í boga. Hugsanlega eru þetta leifar af garðlagi tengdu stekknum í Bóndastekkstúni.

Silfra

Silfra.

Silfra er skammat norðan við Vatnsstæðið, “þegar haldið er til heiðarinnar”. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Silfra er mjótt og aflangt vatnsstæði, umhverfis hana er grasivaxið sléttlendi.
“Nautagjá er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd.” Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá og þar voru líka þvottar þvegnir. Kýr voru fjarska oft reknar til vatns í Nautagjá á vetrum, ef gott var, og þannig látnar bera vatnið sjálfar. Þessi vegarlengd mun hafa verið nær eitt hundrað faðmar eftir túninu Drumbar og gæti hugsast, að nafn gjárinnar væri frá þessu komið í fyrstunni, að nautpeningur var þar oft við drykk. Nautagjá liggur frá vatnsstæðinu við norðurjaðar túns, um 100 m norðnorðvestan við Járngerðarstaði. Tún liggur upp að gjáni að norðan, sunnan og austan. Vestan er Vatnsstæðið.
“Magnúsargjá var í raun og veru sama sprungarn og Nautagjá. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna.” Í Nautagjá voru líka þvottar þvegnir, en ull í Magnúsargjá. Grjót er á víð og dref við austurenda gjárinnar.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

“Fast við Vatnsstæðið er varða við veginn til Keflavíkur (Skipsstíg) og heitir hún Títublaðavarða.” Varðan er nú að mestu hrunin. Leifar hennar sjást þó enn við gömlu götuna þar sem hún liðast upp frá Járngerðarstöðum, að girðingunni umhverfis fjarskiptastöðina er markar yfiráðasvæði hersins. Títublaðavarða er um 120 m norðan við þjóðveginn, á hæð í mosavöxnu hrauninu. Tómas Þorvaldsson sagði Járngerðarstaðabændur jafnan hafa haldið þessari vörðu við því svo hafi verið sagt að á meðan hún stæði væri ferðalöngum um veginn óhætt. Neðan við Títublaðavörðu er önnur varða við sömu götu, um 60 m norðan við þjóðveginn.
Ofanlands eru t.a.m. Skipsstígur. Í sóknarlýsingu árið 1840 segir að “miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaðastígur eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu. Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir. Reru Junkarar til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (fyrirgefið endurtekninguna) og fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipstígur.”

Gengið um Járngerðarstaðahverfið

Járngerðarstaðir hafði slestöðu á Baðsvöllum. Í Jarðabókinni 1703 segir að “selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar ofurlitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleinn.” Sagt er að Baðsvellir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig. Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut, Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. “Þar austan við heitir Stekkjarhóll,” segir í örnefnaskrá. Rústirnar er undir Þorbirni norðanverðum, í hraunjaðri, vestan við skógarrjóður. Syðst er þyrping, 5 hólf og klettur í miðjunni, sem hólfin raðast utan um. Þar norðan af er önnur tóft, tvö hólf. Norðan við þessa tóft eru tvær tóftir til viðbótar.

Grindavík

Grindavík – Stekkhóll.

Við Stekkjarhól eru greinilegar og mjög grónar tóftir. Þær eru norðaustan í skógarjaðrinum. Norðaustan við aðra tóftina er 2 m djúp hola. Hún er nær hringlaga. Sunnan við vegarslóða þar við er önnur hola, 1 m djúp, e.t.v. brunnur. Í skógarjarðrinum, sunnan brunnsins, er önnur tóft.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Þjófagjá er “stór sprunga er klýfur topp Þorbjarnarfells. Þar herma munnmæli, að flokkur útilgeuþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum. Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá og engar mannvistarleifar hafa fundist þar,” segir í Sögu Grindavíkur. Klettasprungan er með grasi grónum botni. Hún er um 10 m breið, en allt að 80 m djúp. Skúti er í sprungunni vestarlega. Einstigi er niður Þjófagjá og leiðin greið, ef rétt er að farið. Frá suðurenda hennar er fallegt útsýni yfir Járngerðarstaðahverfið.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Við Grindavíkurveginn má víða sjá hlaðin byrgi eftir vegavinnumenn er lögðu veginn til Grindavíkur frá Stapa á árunum 1913-1918. Sum þeirra eru alveg heil, t.d. á Gíghæðinni.
Við op Hesthellis, norðan Gíghæðar, er falleg hleðsla, mannhæðarhá.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Gamla kirkjan í Járngerðarstaðahverfi var vígð 26. september 1909. Hún stendur enn, en hýsir nú leikskóla. Hér og þar má sjá bungur í garðinum, en ekki var grafið í kirkjugarðinum. Þangað var kirkjan flutt frá Stað. Suðvestan við kirkjuna má sjá leifar útihúsa. Þar eru og hús og húsleifar, s.s. Gimli (Víkurbraut 9), Vík, suðaustan við Garðhús, Hlið, austan við Vík, Sjólist, norðaustan við kirkjuna nálægt gatnamótum Víkurbrautar og Vetrarbrautar (engin ummerki lengur), Grund (Víkurbraut 8), Vesthús (stóð í bakgarði Víkurbrautar 10), Bjarg, norðvestan við Vesthús, Efri-Grund, norðaustan við kirkjuna, Hæðarendi (Víkurbraut 18), Byggðarendi (malarblettur 30 m austan við Hæðarenda) og Hraungerði (malarblettur norðaustan við kirkjuna).

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning FÍ – 2002.
-Saga Grindavíkur.
-Örnefnalýsing.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.