Færslur

Básendar

Björn Þorsteinsson skrifaði um “Básendaorustuna 1532” í Faxa árið 1980. Skrifin voru fyrri hluti og aðdragandi af skrifum hans um Grindavíkurstríðið sama ár.

Björn Þorsteinsson“Þann 11. marz 1532 hélt allstórt kaupskip úr höfn í Hamborg. Þetta var rammbyggt skip og skipshöfnin, um 30 manns, alvopnuð byssum, sverðum, lásbogum og öxum. Undir þiljum voru fimm fallbyssur fólgnar, þungir hólkar með víðum hlaupum. Öll útgerð skipsins gaf til kynna, að þær stundir kæmu, þegar hauskúpumerkið væri dregið að hún og beinagrindin með rýtinginn og rommglasið á lofti hlykkjaðist á þöndu stórsegli yfir morðóðum sjóræningjum á stórum rosabullum með reifuð höfuð. En skipið hélt ekki venjulega leið sjóræningjasagna og víkinga, sigldi ekki í suður og vestur til þess að ræna gulli og gimsteinum nýfundinna landa, heldur hjó það bárur Norðursjávar og stefndi á leiðarstjörnu. En e.t.v. var gulls einnig að leita í þeirri átt, jafnvel öruggura gull, en þess, sem reyfarar greina frá. Hafið er vorúfið að þessu sinni, átt óstöðug og vindar snarpir. Áhöfn Hamborgarfarsins liggur auðsæilega allmikið á.
Vikum saman ann hún sér ekki hvíldar, en siglir og beitir ósleitilega, og skipið þokast norður og vestur yfir Atlantshaf. Vörður stendur stöðugt í körfunni á stórsiglunni og gefur nákvæma skýrslu um skipaferðir. En ekkert ber til tíðinda. Englendingar virðast liggja enn í heimahöfnum, þeir eru ekki lagðir í „sjóferðina löngu“ að þessu sinni, nema nokkrar skútur, sem eru komnar á miðin undan Færeyjum. E.t.v. ætla þær ekki lengra. Hansafarið siglir djúpt undan eyjunum, og skipstjórinn, Ludtkin Smith, kaupmaður í Hamborg fer sjálfur upp í stórsiglukörfuna og tekur mið, þegar þær hverfa í sæ.

Miðaldaskip

Skip Hansamanna á miðöldum.

Ludtkin Smith er maður um fertugt. Hann hafði nokkrum sinnum verið kaupmaður á Íslandsförum, en þetta er í fyrsta sinn, að hann er skipstjóri og foringi leiðangurs norður til eyjarinnar. Áður en hann lét úr höfn í Hamborg, hét hann ráðherra í borginni að vinna íslenzka höfn úr höndum Englendinga og drepa hvern þann, sem reyndi að hindra það áform sitt. Menn véfengdu ekki, að hann hefði fullan hug á því að standa við heitið, en hingað til höfðu Englendingar verið aðsópsmiklir á Íslandsmiðum og Þjóðverjum þungir í skauti.
Fyrir tæplega hálfri öld hafði frændi Ludtkins Smiths siglt þessa sömu leið og lent í Hafnarfirði á Íslandi kvöldið fyrir allrapostulamessu eða 1. maí. Við Straum, sunnan fjarðarins, lá skipið Vighe frá Lundúnum. Um nóttina vígbjóst skipshöfnin, létti akkerum og sigldi til Hafnarfjarðar. Í morgunsárið greiddu Englendingar aðför að Hansamönnum óviðbúnum, skutu nokkra til ólífis, en tóku skipið herskildi. Þeir ráku skipstjórann, Ludtkin Steen, og nokkra Þjóðverja með honum í skipsbátinn, en héldu 11 af áhöfninni um borð og sigldu með feng sinn til Írlands. Þar lentu þeir í Galway og seldu skipið, farm þess og fangana 11 nafngreindum Írum. Kröfum og kærum fyrir þetta Sjórán og mansal hafði ekki verið sinnt til þessa. Enn þá var veröldin lítið breytt og þrælamarkaðir á brezku eyjunum. Vopnabúnaður Hamborgarfarsins var því ekki ástæðulaus.

Miðaldaskip

Enskt miðaldaskip.

Árið 1511 höfðu Englendingar tekið Hamborgarfar við Ísland og farið með það og áhöfn þess til Húllar, en þaðan slapp skipstjórinn með miklum ævintýrum; hitt skipið tóku þeir í hafi.
Árið 1514 tóku þrjú ensk herskip Hamborgarfar í hafi á leið til Íslands, særðu skipstjórann og vörpuðu honum lifandi fyrir norð, og drápu nokkra af áhöfninni. Með skipið fóru þeir til Newcastle og héldu því í tvo mánuði. Að þeim tíma liðnum réðust Englendingar um borð í skipið, tóku stýrimann og hjuggu hann í stykki og vörpuðu þeim útbyrðis, einnig hálshjuggu þeir tvo háseta, en særðu 5 hættulega í ryskingum, sem urðu við ofbeldisverkin. Þannig voru 15 af áhöfn skipsins drepnir, þegar því var skilað að lokum með nokkrum hluta farmsins.

Rif

Rif á Snæfellsnesi.

Árið 1528 réðust 7 ensk skip á Hamborgarfar í höfninni að Rifi við Snæfellsnes, og tóku úr því öll vopn, byssur, púður og matvæli og meginhlutann af farmi þess. — Ári síðar réðst Englendingurinn Jón Willers frá Lynn á Hamborgarfar norður í Eyjafirði og sökkti því í hafið með 36 manna áhöfn.
Að lokum birtast hvítar jökulbungur yzt við sjóndeildarhring í norðri, og blásvört háfjöll teygja sig upp fyrir hafsbrún hvert af öðru. Ísland rís úr hafi í grárri vormorgunskímu, kaldranalegt en heillandi. Sjómenn töldu, að fjöll þess byggju yfir geigvænum töframætti, þau væru svo segulmögnuð, að þau soguðu skip upp að hafnlausum söndum og brytu þau í spón með því að draga að sér nagla úr byrðingum þeirra. Árlega fórust hér skip með ströndum fram, en samt sem áður hættu menn aldrei að sigla til Íslands, ef þá hafði einu sinni borið þangað. Í heimabyggðum þeirra lék það ekki á tveimur tungum, að Íslandsfarar yrðu fyrir gerningum; þar bjuggu seiðkonur í fjöllum.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Hamborgarfarið hélt djúpt undan Vestmannaeyjum og stefndi fyrir Reykjanes. Nokkrar enskar duggur voru á leið inn til eyjanna, annars voru engin skip sjáanleg. Skipshöfnin hafði unnið kappsiglinguna til Íslands að þessu sinni og gat valið sér verzlunarhöfn samkvæmt því ákvæði íslenzkra laga, að sá á höfn, sem fyrstur lendir þar að vorinu. Á laugardagskvöldið fyrir páska hélt skipið að lokum inn á lónið að Básendum við Stafnes.
Höfnin að Básendum er langt og mjótt lón eða gjögur, sem skerst vestan í Romshvalanes innanvert. Siglingaleið inn á lónið er alllöng og tæp milli skerja, en fyrir innan er útfiri og þröng lega. Hér var því einu skipi gott að verjast.
Fyrir sunnan Básenda skerast svipaðir básar inn í nesið eins og Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíubás og Þórshöfn. Frá sumum þessum stöðum var dálítið útræði, og Básendar urðu verzlunarstaður Erglendinga á 15. öld, en Hamborgarar náðu höfninni sum árin seint á öldinni. Verzlunarbúðir voru norðan hafnarinnar, og þar lagði Ludtkin Smith skipi sínu við fjögur akkeri og lét binda landfestar eftir því sem menn kunnu bezt.

Hvalsnes

Hvalsnes – herforingjaráðskort frá 1908.

Daginn eftir voru heilagir páskar og guðsþjónustur í kirkjunni að Hvalsnesi og Kirkjuvogi, en menn Ludtkins Smiths unnu að því að skipa upp vörum og búa um skipið á legunni, en gerðu sér síðan glaðan dag. Þegar leið á daginn, sáu þeir, að skip kom af hafi og stefndi til Básenda. Þeir tygjuðust þegar til varnar, ef óvinir væru á ferð, en komumenn felldu segl og vörpuðu akkerum fyrir utan höfnina. Skömmu síðar var báti róið frá skipinu að Hamborgarfarinu, en á honum var enskur kaupmaður að nafni Thomas Haerlack, auk stýrimanns. Þeir Ludtkin tóku þeim félögum vel og glöddu þá með mat og góðum bjór. Þeir fréttu, að hér var komið skipið Anna frá Harwich í Englandi, um 120 lestir að stærð og með um 80 nanna áhöfn.

Básendar

Básendar.

Englendingar höfðu lagt úr höfn þann 15. marz og hreppt mjög hagstætt veður Þeir báðu leyfis, að mega leggjast á höfnina, en þeirri málaleitan tók Ludtkin Smith þunglega. Hann bað þá félaga að skila aftur til manna sinna, að þeim væri ráðlegast að leita sér annarrar hafnar, því að skip þeirra væri svo stórt, að nægur fiskur yrði ekki fáanlegur í bæði skipin að Básendum. Hann benti þeim á, að allar hafnir við Ísland stæðu opnar hverjum sem vildi, og væru frjálsir verzlunarstaðir þeim, sem þangað kæmu fyrstir að vorinu. Samkvæmt þeirri hefð sagðist Ludtkin eiga einkarétt til Básendahafnar að þessu sinni, en þar að auki hefði hann heitið Hinriki nokkrum Berndes, kauppláss hjá sér í íslenzkri höfn, ef hann yrði á undan honum til landsins. Ludtkin Smith fór um það mörgum fögrum orðum, að hefðu Englendingar orðið fyrri til hafnar við Ísland að þessu sinni, þá hefði hann hvorki vænzt þess né krafizt af þeim, að þeir vikju úr höfninni fyrir sér, og nú ætlaðist hann til þess sama af Englendingum. Þeir Thomas Haerlack tóku vel boðskap Þjóðverja og kváðust ekki ætla að bíða boðanna, en sigla tafarlaust til Grindavíkur, þegar hann gengi í norður og byr gæfi. Síðan kvöddust þeir með virktum, og héldu. Englendingar út í skip sitt.

Básendar

Reykjanesskagi – kort.

Það var allt kyrrt og friðsamt við Básenda næstu nótt; enska skipið sýndi einungis ekki á sér neitt fararsnið. Á annan í páskum kom enn skip af hafi og stefndi til Básendahafnar. Þar biðu menn Ludtkins óþreyjufullir eftir því að sjá, hvers konar skip hér væri á ferð. Undir kvöld kom það að höfninni og varpaði þegar akkerum við hliðina á Önnu frá Harwich. Hér var komið frægt Íslandsfar, Thomas frá Húll í Englandi. Því hafði lengi verið haldið til Íslands og háð þar marga hildi. Frægasta afrek þess var að sökkva Hamborgarfari með allri áhöfn norður í Eyjafirði 1529. Að þessu sinni hafði skipstjórinn, Jón Willers, bundizt samtökum við Thomas Hamond, skipstjóra á önnu frá Harwich, og höfðu þeir lagt samtímis úr höfn í Lynn í Englandi, en dregið í sundur með þeim á leiðinni.

Básendar

Básendar – bærinn.

Skipið Thomas frá Húll var 60 lestir að stærð og með 52 manna áhöfn. Aðalfarmur beggja ensku skipanna var salt, og voru 24 lestir í Thomasi frá Húll. Hins vegar var þýzka skipið hlaðið drykkjarföngum, mjöli, malti, smjöri og hunangi. Hansafarið var kaupskip, hingað komið til þess að stunda verzlun, kaupa skreið í skiptum fyrir varning sinn. Ensku skipin voru hins vegar aðallega komin hingað norður til þess að stunda fiskveiðar og útgerð, en til þeirra hluta voru þeim nauðsynlegar bækistöðvar á landi. Af þeim sökum voru áhafnir enskra skipa miklu fjölmennari en þýzkra, því að Englendinga beið hér umfangsmeira starf en Þjóðverja.

Básendar

Báendar – tóftir bæjarins.

Englendingar voru flestir með smávöruslatta í skipum sínum til þess að geta drýgt eigin afla með verzlun við Íslendinga. Það var því ekki nema að nokkru leyti rétt hjá Ludtkin Smith, að næg skreið fengist ekki á Básendum í skipið Önnu frá Harwich, því að Englendingar ætluðu að draga fiskinn að mestu leyti sjálfir, og Básendar liggja vel við góðum miðum. Englendingar höfðu lagt svo snemma í „löngu sjóferðina” að þessu sinni til þess að njóta síðari hluta vorvertíðarinnar við Suðurland. En þeir þurftu höfn til útgerðarinnar engu síður en til verzlunar, og nú lágu þeir fyrir framan höfnina, en fyrir innan lá eitt Hansaskip og bannaði þeim hafnarvist.

Básendar

Básendar – drónamynd.

Thomas Hamond, skipstjóri á Önnu frá Harwich, steig þegar í skipsbátinn, er Thomas frá Húll hafði varpað akkerum, og fór að hitta landa sína og félaga. Honum var vel tekið, og bundust Englendingar samtökum um að ráðast á Hamborgarfarið og ræna það. Þeir töldu sig hafa mikla yfirburði yfir Þjóðverja í skipum og mannafla, og ákváðu að drepa hvern þann, sem veitti þeim mótþróa, en hengja Ludtkin Smith á bugspjótinu. Einnig segir í þýzkri skýrslu um þetta mál, að Englendingar hafi boðið Íslendingum að koma til veizlu að Básendum, því að þar yrði Þjóðverjakjöt á borðum næsta dag.

Básendar

Básendar – minjar.

Inni á höfninni lágu Ludtkin Smith og félagar hans ekki aðgerðarlausir. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði legið að Básendum um veturinn og keypt skreið af mönnum. Hann var uppi við búðimar og tók á móti varningnum, sem skipað var á land. Nú fékk Ludtkin hann til þess að safna 80 manna liði Þjóðverja og Íslendinga og vera við öllu búinn án þess þó að láta mikið á liðsafnaðinum bera. Ludtkin vildi gjarnan að Englendingar gengju í gildru og honum gæfist kostur á að launa Jóni Willers fyrir margs konar hrellingar og ofbeldisverkin norður á Eyjafirði.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Snemma á þriðjudagsmorgun 2. apríl lét Thomas Hamond á skipinu Anna frá Harwich vinda upp segl og létta akkerum, en í stað þess að sigla suður með landi til Grindavíkur, eins og menn hans höfðu talað um, þá hélt hann inn á höfnina á Básendum. Þegar styrjaldir hefjast, er venjulega vant að fá úr því skorið, hver hleypti af fyrsta skotinu, og svo er hér. Ludtkin Smith ber það síðar, að Thomas Hamond hafi siglt inn á Básendahöfn þennan morgun í fögru veðri og fyrir hagstæðum byr og tekið formálalaust að skjóta á stjórnborðshliðina á skipi sínu með bogum, fallstykkjum og kastspjótum og eyðilagt stafn og skut á skipinu og allt að þeim hluta þess, sem nefnist búlki. Hins vegar segjast Englendingar hafa neyðzt til þess að leita hafnar að Básendum sökum óveðurs, en þar hafi Ludtkin Smith ráðizt á þá óvara með skothríð. Að öðru leyti ber enskum og þýzkum skýrslum sæmilega saman um atburðarásina.

Básendar

Frá Básendum.

Þótt Ludtkin hafi e.t.v. ekki hleypt af fyrsta skotinu, þá er það víst, að Anna frá Harwich hafi ekki siglt langt inn á Básendahöfn, þegar hann lét senda henni innihald fallstykkja sinna og skipshöfn hans hóf skothríð með öllum þeim vopnum, sem henni voru til tæk. Í þessari hrotu féll Thomas Hamond skipstjóri fyrir skoti, en kúlnahríð Þjóðverja var svo nærgöngul við lyftinguna aftan til á skipinu, að stýrimaðurinn hrökklaðist frá stjórnvölnum. Þá ætluðu skipverjar að kasta út akkeri til þess að forða árekstri, er skipið rak stjórnlaust, en Þjóðverjum tókst að höggva akkeriskaðalinn sundur fyrir þeim, svo að skipið rak suðaustur yfir lónið og strandaði. Í þessum svifum kom Thomas frá Húll fyrir fullum seglum og réðst með skothríð framan að Hansafarinu. Þeim tókst að slíta eina akkerisfesti, sem skip Ludtkins var fest með, en komu krókstjökum á bugspjótið og greiddu þar atlögu. Í þessu áhlaupi féllu tveir Þjóðverjar, varð annar fyrir skoti, en hinn rekinn í gegn, og margir særðust. Ludtkin tók það fangaráð að höggva bugspjótið af skipi sínu og losa sig þannig úr tengslum við enska skipið, en jafnframt hófu menn hans ofsalega skothríð að því.

Básendar

Básendar – loftmynd.

Sökum vigamóðs gætti Jón Willers ekki að því, hvað var að gerast, en skip hans rak suður yfir lónið. Maður nokkur hljóp þá til og ætlaði að varpa út akkeri, en var skotinn til bana, og sá næsti, sem reyndi féll óvígur. Skipið kenndi brátt grunns sunnan hafnarinnar, og skipaði Jón Willers mönnum sínum að róa út með akkeri í skipsbátnum og ná skipinu út á næsta flóði. Ludtkin beindi strax skothríð að skipsbátnum, svo að Englendingar gáfust upp við þá fyrirætlun, þegar einn af mönnum þeirra var fallinn og báturinn laskaður. Þar með voru bæði ensku skipin strönduð, annað innst á höfninni, en hitt sunnan hennar vestarlega á lóninu. Norðan til á höfninni lá Hamborgarfarið og beindi skothríð að skipi Jóns Willers, en á landi beið lið Hans Ludtkins albúið að taka á móti Englendingum, ef þeir reyndu að yfirgefa skipin.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Allan þriðjudaginn sátu Englendingar í herkví á skipum sínum og biðu flæðar á miðvikudagsnóttina, en þá ætlaði Jón Willers að gera nýja tilraun til þess að ná skipi sínu út, en tilraunin misheppnaðist. Vindur var norðlægur og skipið hrakti einungis lengra upp á grynningarnar. Hins vegar tókst áhöfninni á Önnu frá Harwich að ná skipinu út á flóðinu og leggja því við akkeri, og létu Þjóðverjar það afskiptalaust. Anna komst ekki úr höfninni nema með því að sigla rétt hjá Hamborgarfarinu, og Þjóðverjar vissu, að Englendingum þótti sú leið ekki greiðfær, eins og sakir stóðu. Öðru hverju kallaði Ludtkin til Englendinga að gefast upp skilyrðislaust, aðstaða þeirra væri vonlaus.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Allar heimildir gefa til kynna, að Englendingar hafi verið nokkru liðfleiri en Þjóðverjar í þessari orustu, en hamingjan var þeim ekki hliðholl, og á miðvikudagsmorgun tilkynntu þeir Jón Willers og Robert Legge, er tekið hafði við stjórn á Önnu frá Harwich eftir fall Thomasar Hamonds skipstjóra, að þeir væru fúsir að koma til friðarsamninga. Þegar þeir voru komnir um borð í Hansafarið, kúgaði Ludtkin Smith þá til þess að bjóða skipshöfnum sínum að láta öll vopn af hendi við Þjóðverja. Þessu var hlýtt, og voru vopnin flutt um borð í skip Ludtkins. Að því búnu skipaði hann mönnum sínum að fara um borð í skipið Thomas frá Húll og tæma það af öllu fémætu. Skipið stóð nú að mestu á burru um fjöru, svo að Þjóðverjum var greið leið að skipinu, en Englendingar snerust enn til varnar, þótt þeir hefðu fátt vopna. Ludtkin lét þá höggva gat á byrðinginn og menn sína ganga þá leið inn í skipið og ræna. Nú var ekki um annað að gera fyrir áhöfnina en flýja á land upp. Þar umkringdu Þjóðverjar þá og tóku tvo þeirra, sem þeir töldu sakbitnasta fyrir margs konar ofbeldisverk, m.a. fyrir að hafa átt drjúgan þátt í að sökkva Hamborgarfarinu norður á Eyjafirði árið 1529. Þessa menn lét Ludtkin hálshöggva, en misþyrmdi öðrum tveimur og skilja þá eftir klæðlausa, nær dauða en lífi. Meðan á þessu gekk, fékk skipið Anna frá Harwich að liggja í friði á höfninni við Básenda.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

En nú kom röðin að því, meðan orustan stóð, að Ludtkin sendi sendiboða til Hafnarfjarðar og bað þýzka kaupmenn í firðinum að koma til Básenda og gera um deilur sínar og Roberts Legge og félaga hans. Þeir bregða við og koma til Básenda, en þar var Robert Legge neyddur til að skrifa undir skýrslu, sem Þjóðverjar sömdu um atburðina, en einnig urðu þeir að afhenda allan varning sinn úr skipinu og greiða 40 lestir skreiðar í skaðabætur.

Básendar

Kengur á Básendum.

Skreiðina afhenda þeir þann 16. maí, og fengu þeir þá að halda skipi sínu og töldust lausir allra mála fyrir þátttöku í orustunni að Básendum. Eftir það sigldu þeir burtu, en Erlendur lögmaður Þorvarðarson lét tylftardóm ganga um ,,skip það og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Ludtkins Smiths og Jóns Willers” og dæmist það réttilega fallið undir konung.

Básendar

Básendar – merki um friðlýstar minjar.

Þar með voru þessir atburðir úr sögunni í bráð, en ýmsir aðrir áttu eftir að gerast. Seint í apríl kom skipið Thomas frá Lundúnum að Rifi á Snæfellsnesi, en þar lá fyrir Hamborgarfar á sama hátt og við Básenda. Englendingar gerðu út bát á fund skipstjórans á Hansaskipinu og báðu leyfis að mega koma inn á höfnina, en fengu synjun. Þá héldu Engiendingar til Grundarfjarðar og lágu þar í þrjár vikur og veiddu og verzluðu. Að þeim tíma liðnum kom þar skip frá Brimum ásamt Hamborgarfarinu, sem lá við Rif. Í þrjá eða fjóra daga lágu Hansaskipin á Grundarfirði og höfðust ekki að, en þann 20. maí lögðu þau að landi. Fjörutíu eða fimmtíu manns gengu af skipunum og héldu þangað, sem Englendingar voru með búðir sínar. Þjóðverjar réðust með alvæpni inn í búðirnar, brutu upp kistur kaupmanna og höfðu allt fémætt á braut með sér. Síðan fóru þeir um borð í enska skipið og tóku þaðan öll vopn og skotfæri.

Hér er um beint rán að ræða, en nú voru nýir og miklu alvarlegri atburðir á döfinni. Til er staðfest afrit, en ódagsett, af bréfi þýzkra skipstjóra og kaupmanna í Hafnarfirði til ráðsins í Hamborg. Þar segir, að Englendingar í Grindavík hafi tekið fisk, sem Hansamenn höfðu keypt og greitt. Þjóðverjar segjast vilja, að ráðinu sé kunnugt, að þeir ætli að ná fiskinum með valdi og leggja líf og góss í sölurnar. Þeir æskja liðsstyrks og bjóða ráðinu hluta í herfanginu.”

Heimild:
-Faxi, 7. tbl. 01.12.1980, Básendaorustan 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 242-243 og 191.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur “Tyrkjunum” þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir “kaupstaðir” á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir

Þegar Vesturbraut í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík var nýlega grafin upp vegna úrbóta  á varanlegri gatnagerð kom verktakinn niður á hlaðið garðlag. Sá hafði þegar uppi snör handtök, fjarlægði garðinn og mokaði yfir. Vitni urðu þó að atvikinu. Skv. Þjóðminjalögum hefði verktakanum borið að tilkynna fundinn til Fornleifaverndar ríkisins. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi verið um að ræða leifar heimagarðs gamla bæjarins á Járngerðarstöðum, þeim er kom við sögu “Tyrkjaránsins”. Af meðfylgjandi uppdrætti að dæma liggur Vesturbrautin í gegnum gamla veggstæðið. Eðlilegt er því að spyrja: “Í ljósi gildandi laga; hvers vegna var ekki gert ráð fyrir að minjar myndu finnast á þessu svæði áður og á meðan á framkvæmdunum stóð og hvers vegna var ekki fylgst með hvort svo væri?”
Járngerðarstaðir - grá lína er ætlaðir garðarÍ
Þjóðminjalögum, 2001 nr. 107, 31. maí segir: “12. gr. Hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Fornleifavernd ríkisins viðvart. Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal viðkomandi sveitarfélag eða framkvæmdaraðili gera Fornleifavernd ríkisins viðvart með hæfilegum fyrirvara. Fornleifavernd ríkisins ákveður að höfðu samráði við Náttúruvernd ríkisins hvort rannsóknar er þörf, hvort friðlýsa beri viðkomandi stað eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum.
13. gr. Nú finnast fornleifar sem áður voru ókunnar og skal finnandi þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn. Ef fornleifar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd uns fengin er ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins um hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum.

Gamli bærinn á Járngerðarstöðum

14. gr. Nú telur landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask, svo sem vegna vegagerðar, veitulagnar, framræslu eða skógræktar, er haggað geti við fornleifum og skal hann þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá því áður en hafist er handa við verkið. Lýst skal nákvæmlega breytingum þeim er af framkvæmd mundi leiða. Fornleifavernd ríkisins ákveður hvort og hvenær framkvæmd megi hefja og með hvaða skilmálum. Við allar meiri háttar framkvæmdir, svo sem vegagerð, virkjanaframkvæmdir, flugvallargerð, veitulagnir og skógrækt, skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum.
Kostnaður Fornleifaverndar ríkisins vegna athugunar á fornleifafundi sem gerð er í því augnamiði að staðfesta eðli og umfang fundarins skal greiddur af stofnuninni.
Framkvæmdaraðili greiðir kostnað vegna þeirra rannsókna á fornleifum sem Fornleifavernd ríkisins úrskurðar að séu nauðsynlegar vegna athafna hans
.”
Var bygginganefnd Grindavíkur í fríi? Þarf að fjölga byggingafulltrúum í bænum svo hægt verði að fylgjast með að fleiri fornleifum verði ekki spillt í framtíðinni? Mun verktakinn iðrast? Hvert verður frumkvæði Fornleifarverndar ríkisins? Spennandi tímar virðast vera framundan. Meira HÉR.

Járngerðarstaðir og Vesturbraut

Róður

Eftirfarandi lýsing á verbúð að Járngerðarstöðum í Grindavík birtist í sjómannablaðinu Ægi árið 1985:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

“Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, og gerð þeirra hélst svo til óbreytt allt fram undir síðustu aldamót. Teikning sú sem hér er, er af verbúð sem var á Járngerðarstöðum um aldamótin síðustu. Verbúðin var ca. 20 m2 (5,6×3,6). Veggir voru tvöfaldir, annað lagið var grjót en hitt torfstrengir, á milli var troðið mold. Þak var úr torfi, tvöfalt, í sumum búðum var haft þrefalt lag, mold var í gólfi. Svefnbálkar voru með hliðum þrír hvorum megin, í þeim var grjót og urðu vermenn því að finna eitthvað mýkra og var ýmist til notað hey, skeljasandur, lyng eða þang. Eldstæði voru í hverri verbúð, en oft voru erfiðleikar með eldivið, einnig var vatn víða takmarkað. Vermenn höfðu með sér kost að heiman, smjör og annað feitmeti, einnig sýru eða sýrublöndu. Soðningu höfðu þeir og oftast kaffi, en lítið var um kjöt, helst voru það rifrildi er nýttust best í súpu. Kommatur var af skornum skammti, sérstaklega hjá þeim er voru fjarri kaupstað. Ekki er þetta þó algild lýsing um mataræði, og undantekningamar æði margar. Yfirleitt var reynt að búa vel að vermönnum hvað varðar mat, og bjuggu þeir vart við lakari kost en margur annar er ekkert átti nema vinnuaflið.”

Heimild:
-Ægir, 78. árg. 1985, 6. tbl. bls. 341-342.

Grindavík

Grindavík – verbúð við Járngerðarstaði; uppdráttur.

Jónsbásar

Gengið var frá dys Járngerðar á Járngerðarstöðum, um virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót, um Junkaragerði Grindvíkinga, að Jónsbás þar sem Anlaby, fórst í janúar árið 1902, yfir í Arfadal, upp í Baðstofu og um Blettahraun til baka. Hér var um að ræða eina af tímamótaferðum FERLIRs, þá 800. að tölu um Reykjanesskagann. Venjulega eru tilteknir staðir heiðraðir í slíkum tímamótaferðum. Að þessu sinni, sem og stundum fyrr, varð Grindavík fyrir valinu.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Grindavík er merkilegur bær – þar er hægt að dvelja löngum stundum við að skoða merkilega staði og endurupplifa gagnmerka atburði í gegnum aldirnar.
Landnámsmaður í Grindavík var Molda-Gnúpur Hrólfsson. Þar hafa orðið merkisatburðir Íslandssögunnar, s.s. Tyrkjaránið og Grindavíkurstríðið. Auk þess endurspeglar Grindavík atvinnu- og búsetusögu landsins frá upphafi til núdagsins. Og andrúmsloftið er hvergi ferskara.
Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans. Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Hverfin er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem hún bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar. En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann á henni ekki mjög fögur:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

„Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.”
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2500 manns, þar af búa u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.
Gangan byrjaði við leiði Járngerðar, sem er nú að mestu undir veginum við Hlið. Þegar komið var að dysinni lá þar utan í henni stór, svartur, fjörgamalt hunslíki. Fylgdi það hópnum síðan eftir, en þegar komið var til baka hvarf það jafnskjótt og það birtist.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Eitt horn dysjarinnar stendur þó út undan veginum. Skv. gamalli lýsingu var dysin hæst að suðvestanverðu, en hallaði undan til austurs (undir veginn). Hornið er svona til að minna á fyrrum tilvist þjóðsögunnar á þessum stað. Sú gamla hefur sannarlega mátt muna tímanna tvenna. En nú er Járngerður notuð sem hraðahindrun fyrir sjálfrennireiðar. Áður fyrr var borin miklu mun meiri virðing fyrir henni, bæði lifandi og látinni. Virðingin að henni lifandi var svo sterkt að rituð var þjóðsaga um hana þar sem hún er leggur á Járngerðarstaðasundið að þar skyldu tuttugu skip farast eftir að hafa horft upp á eiginmann sinn drukkna á sund

inu. Virðingin að henni látinni var að hún skuli hafa verið dysjuð við gömlu sjávargötuna frá Járngerðastöðum er lá niður í Fornuvör, aðalvör hverfisins.

Stóra-bót

Stóra-Bót; leifar virkisins.

Þá leið gengu sjómenn til skips, stöldruðu við og dvöldu jafnan við dysina og fóru með bænir svo áhrínisorð Járngerðar myndu ekki duga til. a.m.k. hvað þá snerti. En eins og gamli maðurinn sagði; “virðingin fyrir hinu liðna, er mótast af framkomnum lifandi kynslóðar, virðist verulegum takmörkunum háð.”
Lönguklettar voru tiltölulega langt klettabelti úr frá skerjóttri ströndinni við Flúðir. Þanghóll er þar áberandi og mun þangi hafa verið safnað á hann í fyrri tíð, á meðan það var enn notað til eldiviðar.
Neðan við kampinn má sjá Stokkavör, Akurhúsakamp, Kvíahúsakamp, Fornuvör, Sjálfkvíarklöpp og Draugalón.
Við Litlubót er Stakibakki, Hvítisandur, Kampur og Eystri- og Ytri-Hestaklettur. Fjörunar eru nefndar Flúðir einu nafni, sem fyrr segir, og vestast á þeim eru þrjú örnefi; Stakabakkagrjót, Önnulónstangi og Flúðagjá.
Alls eru Flúðirnar tæpur kílómetri á lengd, en þar hafa þó orðið einna flest strönd á einum stað á þessum slóðum. Í desember 1899 strandaði þar norsk flutningaskip, sem Rapit hét, og árið eftir togari Vídalínsútgerðarinnar, Engines. Mannbjörg varð í bæði skiptin.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Í janúarmánuði 1911 strandaði svo breski togarinn Varonil á Flúðunum, og var það strand í senn sorglegt og grátbroslegt. Strandið sjálft virðist hafa orðið með þeim hætti, að skipið “togaði í land”, en talið var, að varpan væri úti, er það kenndi grunns. Þá gerðu skipverjar sömu mistök og landar þeirra á Clan fjórum áratugum síðar, settu út björgunarbáta og drukknuðu þeir þrí menn, sem í þá komust. Aðrir skipverjar afréðu þá að vera um kyrrt í skipinu, og var þeim bjargað morguninn eftir.
Næsta strand á Flúðunum varð 4. apríl 1926, er togarinn Ása strandaði þar á heimleið úr sinni fyrstu veiðiför, og tíu árum síðar, 6. september 1936, strandaði enski línuveiðarinn Tracadiro á svipuðum slóðum. Mannbjörg varð í bæði skiptin. Í fjöru má vel sjá vélina og ketilinn úr Ásu neðan og austan við Stórubót. Nú var hvoru tveggja t.a.m. vel sýnilegt.

Ofan við Stórubót er Rásin, en um hana fellur sjór upp í Gerðavallabrunna á stórstraumi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Stórubót, á Hellum, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns breiða þar sem atlaga Grindavíkurstríðsins svonefnda fór fram í júnímánuði 1532. Varð sá atburður til að marka þáttaskil í verslunarsögu landsins sem og skapa skörp átök milli öflugustu þjóða Evrópu á þeim tíma.
Lítið eitt vestar, þar sem heita Gerðisvellir, eru rústir af vegghleðlsum. Frá þeim er frásögn í einni af þjóðsögunum þar sem Junkarar eiga að hafa hafst við og Grindvíkingar eldað við þá grátt silfur lengi vel. Garðar gerðisins sjást vel sem og móta fyrir tóftum innan þess.
Hásteinar eru vestan við Hásteina. Austar eru Hellan og þá Malarendar. Stórhóll er á Hellunni. Miðbótarklettur er sker utan við Malaraenda. Hóllinn Skyggnir er vestann við Bótina. Á honum er Skyggnisrétt.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt. Rásin og Grindavík fjær.

Sandvík er fremur skerjótt og lón á milli skerjanna. Þar strandaði Resolut í austanstormi og brimi í október 1917, sen skipverjar björguðust allir og komu gangandi heim að Járngerðarstöðum morgunin eftir.
Katrínarvík er vestan við Markhól. Það er eitt örfárra örnefna á gervallri strandlengjunni frá Valahnúk í vestri til Seljabótar í austri, sem dregið er af mannsnafni, sem ekki er vitað, af hvaða Katrínu víkin tekur nafn.
Markhóll er áberandi við ströndina áður en komið er að Jónsbás og Jónsbásaklettum. Á milli eru Hvalvík og Hvalvíkurklettar. Markhóll er landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða og skilur um leið Staðarhverfi og Járngerðarstaðahverfi. Ofan og austan við Markhól er gamla gatan út að Staðarhverfi vel greinileg. A.m.k. ein heil varða er við leiðina, en hægt er að fylgja henni frá vestanverðum Gerðavallabrunnum og áleiðis út að Arfadal.
Á klettóttri ströndinni má sjá Jónsbásakletta, Karfabása og Vörðunes, sem er austan við Vörðunestanga. Á Jónsbásaklettum strandaði breski togarinn Anlaby snemma í janúar 1902, og fórust allir, sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförðina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899 þar sem þrír Íslendingar létust.
Klettarnir við Jónsbás skörtuðu bleikum, gulum, brúnum og fjólubláum lit í bland við græna. Stórbrotin umgjörð við fagurblátt hafið og svarta klettana.
Af Anlabystrandinu spunnust margar sögur í Grindavík, og benda flestir til þess, að atburðurinn hafi þótt í meira lagi vofveiflegur. Segir sagan m.a. að stígvél hafi fundist ofan fjörunnar er benti til þess að einhver hafi komist lífs af, en þoka var kvöldið áður og varð hún til þess að Staðarmenn gengu ekki rekann þá eins og venjulega. Vildu sumir þess vegna kenna sér um að hafa ekki bjargað mannslífum það sinnið.

Jónsbás

Jónsbásaklettar.

Víkin neðan við Húsatóftir heitir Arfadalur, en kölluð Dalur í daglegu tali. Nafngiftin gefur til kynna, hverjum augum menn hafa litið þann gróður, sem þarna þreifst. Víkin, sem gengur inn í landið á milli Vörðunestanga og Gerðistanga, heitir að rétu Arfadalsvík, en var oftast nefnd Staðarvik og leiðin inn í hana Staðarsund. Um sundið fóru kaupskip þau, er til Grindavíkur sigldu á fyrri tíð, og lögðust þá við festar vestan til á Arfadalsvík.
Garðafjara er í Arfadalsvík. Þar útan við eru tvö sker, sem Flæðiklettar heita. Þar þurfti mjög að gæta að sauðfé, þá stórstreymt var, því flæðihætta var mikil og náði féð sjaldnast að synda til lands. Á Flæðiklettum var rostungur eitt sinn veiddur seint á 19. öld, og um 1890 strandaði þar franska skútan Bris. Var það strand mörgum Grindvíkingi minnisstætt vegna koníaksbirgða, sem í skipinu voru. Sumir vildu þegja þunnu hljóði um þann þátt málsins, en aðrir æmtu þegar á var minnst.
Gengið var upp í Baðstofu, gjá ofarlega við Húsatóftir.
Þá var Blettahraunið gengið til austurs, til baka að Járngerðarstaðarhverfi.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-http://nemendur.khi.is/svavagna/Ritgerd%20um%20Grindavik.htm

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðardys
Gengið var um vesturhluta Járngerðarstaðahverfis, milli Fornuvarar og bæjanna ofan sjárvargötunnar. Ætlunin var að upplifa komu Tyrkjanna þangað sumarið 1627.
Tyrkjaránið
Áður hefur verið lýst hvernig aðdragandinn var að komu Tyrkjanna utan við leguna, hvernig þeir reyndu að blekkja Danina, sem réru á móti þeim og hvernig þeir sóttu að heimamönnum og gestum þeirra. Nú var reynt að fylgja þeim upp úr Fornuvör og áleiðis heim að bæjum, upplifa viðbrögð fólksins og aðfarir Tyrkjana við að ná því lifandi með það að markmiði að ná sér í verðmæti til að geta selt þau á markaði ytra. Tyrkirnir hegðuðu sér sem ótýndir glæpamenn í samfélagi, sem þeir virtu einskis. Mannslíf voru einungis ránsfengur í þeirra augum og þeir umgengust fólkið í samræmi við það. En auðvitað voru þessi menn mismiklir óþverrar líkt og gengur og dæmi eru um að þeir hafi hlíft fólki sem ekki var mikils virði í þeirra augum, en þess meiri fyirhöfn. Þeir virtust ekki hafa drepið fólk af ásetningi, einungis þegar þeim var veitt mótspyrna, en þá kom líka hið rétta eðli þeirra berlega í ljós.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – handrit.

Kristinn Kristjánsson fjallar um þessa ógnaratburði í Grindavík og annars staðar á landinu þetta ár í Íslenskar bókmennir 1550-1900, bls. 31-32. Þar segir m.a.:
“Sjórán hafa löngum verið talin arðbær en áhættusamur atvinnuvegur. Á öldum áður tíðkaðist að ríki styddu við bakið á sjóræningjum eða gæfu þeim leyfi til þess að stunda sjórán og tóku þá toll af þeim. Í upphafi 17. aldar voru sjórán mikiðs tunduð út frá ýmsum smáríkjum á norðurströnd Afríku, einkum á Miðjarðarhafi, en oft brugðu þeir sér út á Atlantshafið til Englands og í Norðursjó. Árið 1627 fengu Íslendingar að kynnast nokkrum skipum frá Algeirsborg þar sem nú er Alsír og hefur sá atburður jafnan verið nefndur Tyrkjaránið. Tyrkir eru á þessum tíma fyrst og fremst samheiti í huga Íslendinga fyrir þá sem tilheyra Islam. Reyndar var Algeirsborg á þessum tíma í sambandi við Tyrkjasoldán.

Tyrkir

Tyrkir voru ljótir andskotar.

Tyrkjaránið vakti löngum ótta með íslensku þjóðinni, til eru Tyrkjafælur í kvæðaformi, Vestmannaeyingar komu sér upp eina innlenda hernum sem til hefur verið á Íslandi til að verjast nýrri árás Tyrkja og atburðurinn hefur sest svo vel í minni þjóðarinnar. Þegar keppt er við sárasaklaus Tyrki í knattspyrnu í lok 20. aldar er nóg að rifja atburðina upp til að æsa áhorfendur og keppendur.
Skipin sem komu til Íslands voru fimm. Þau voru þó aldrei öll saman því þau urðu viðskila vegna veðurs en af þeim sökum dreifðust þau meira með ströndum landsins. Tvö þau fyrstu komu til Grindavíkur 20. júní og voru þar teknir um 15 Íslendingar og nokkrir Danir. Þaðan héldu þau inn á Faxaflóa, annað þeirra strandaði utan við Bessastaði og hefur danska hirðstjóranum löngum verið legið á hálsi fyrir þann aumingjaskap að nota ekki tækifærið og tala skipið. Hann lét nægja að bíða vopnaður í landi á meðan ræningjarnir losuðu það. Meðal þeirra sem voru undir vopnum var Jón Ólafsson Indíafari. Að því loknu ætluðu ránsmenn til Vestfjarða en hættu við er þeir fréttu af enskum herskipum og héldu til síns heima.

TyrkjarániðTvö hinna skipanna sigldu fyrst til Austfjarða, tóku land í Berufirði 5. júlí og rændu þar, á Djúpavogi og um næstu byggðir, um Hamarsfjörð, um Breiðdal og jafnvel um Fáskrúðsfjörð. Á Austfjörðum tóku þeir yfir hundrað fanga, drápu nokkra menn. Fjöldi særðist. Fréttirnar bárust fljótt um landið og biðu menn skelkaðir, kæmu skipun í þeirra sveit? Vestmannaeyingar voru þó þeir einu sem urðu fyrir árás, skipin tvö fyir Austfjörðum sneru við út af reyðarfirði vegna andvirðis, hittu fimmta skipið einhvers staðar fyrir sunnan landið og birtust síðan í Eyjum. Þar urðu ægilegustu atburðirnir, Vestmannaeyingar reyndu að flýja en þeir guldu þess að þeir bjuggu á eyju. Tugir voru drepnir, yfir 240 teknir og margar byggingar brenndar.

Tyrkjarán

Tyrkjaránið – veggmynd við Grindavíkurkirkju.

Fljótlega var reynt að kaupa fólkið í Alsír út en það tók sinn tíma, var dýrt og danski kóngurinn blankur eins og getur gerst á bestu bæjum. En tæpum tíu árum eftir ránið voru um 35 fangar keyptir fyrir mikið fé og komust 27 til Kaupmannahafnar. Rétt þótti að fólkið rifjaði upp kristindóminn og var Hallgrímur Pétursson fenginn til þess verks.Ólafur Egilsson (1564-1639) var annar tveggja presta í Vestmannaeyjum 1627. Hann var hertekinn ásamt konu og þremur börnu, einu ófæddu. Hinn presturinn, Jón Þorsteinsson píslavottur, var drepinnn. Ólafur var fljótlega eftir að hann kom til Algeirsborgar sendur til Danmerkur til að reka á eftir kaupum á föngum og kom hann til Íslands tæpu ári eftir ránið, 6. júlí 1628. Stuttu eftir heimkomuna skrifaði hann um þessa reynslu sína og er það rit þekkt undir nafninu Reisubók séra Ólafs Egilssonar.

Ólafur var fyrstur norrænna manna til að skrá frásögn af lífi og háttum fólks í “Barbaríinu” eins og lönd Íslams í Norður-Afríku voru nefnd og er hin mesta furða hversu hlutlægur hann getur verið þegar hann segir frá. Hann segir ekki bara frá því vonda varðandi ræningjana, eins og að þeir hafi drepið fólk og barið hann, heldur einnig því góða, þegar kona hans eingnast barn sýna þeir því hina mestu umhyggju. Hann lýsir staðháttum og klæðnaði hvars em hann er staddur af stakri nákvæmni og má vel sjá fyrir sér sögusviðið og presónur þess.

Tyrkir

Tyrkir.

Sitthvað misskilur hann á ferðalaginu heim enda ekki með nákvæmt landakort og þeir sem hitta hann leika sér að því að gabba hann. Þegar hann lýsir neyð sinni og angist grípur hann til ritningarstaða í Biblíunni og allan tímann er það trúin sem heldur honum uppi og með henni skýrir hann það sem hefur hent:
“Nú, það gengur oss sem herrann vill; nær að vér dæmumst, þá refsumst vér af drottni, svo að vér ekki glötumst með þessum heimi.”
Eiginkona Ólafs, Ásta Þorsteinsdóttir, var ein þeirra sem var leyst úr haldi tæpum tíu árum síðar og kom til Íslands 1637. Börnin þrjú komu aldrei aftur, létu turnast, það er, gengu af trúnni og tóku nýja trú.”

Gengið var framjá dys Járngerðar gegnt Hliði og áfram upp að Garðhúsum. Á túinu norðan við húsið eru minjar, sem forvitnilegt væri að skoða nánar.

Heimild:
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Tyrkjahellir

Fimm skip frá Algeirs komu hingað til lands sumarið 1627.
TyrkjarániðTilgangur áhafnarinnar var að ræna verðmætum og hneppa fólk í þrældóm. Skipin urðu viðskila sunnan við land vegna veðurs. Tvö fóru til Grindavíkur þar sem um 20 manns var hertekinn, þar af nokkrir Danir, og tvö fóru til Austfjarða þar sem rúmlega hundrað manns var tekinn höndum og færður um borð í skipin. Þau skip mættu því þriðja sunnan við landið og saman héldu þau til Vestmannaeyja. Þar voru langflestir teknir höndum, drepnir eða særðir. Hér á eftir er frásögn af atburðunum í Eyjum og í Djúpavogi, en þær lýsa vel því sem gerðist og hvernig viðbrögðin voru við svo óvæntri árás á annars friðsæl samfélög.

Grindavík

Grindavík – Tyrkjaskipin.

Þrjú skip stefndu undir Eyjar. Vindur var ekki hagstæður. Uggur og ótti greip fólk í Vestmannaeyjum, þegar sást til skipanna, enda höfðu Vestmannaeyingar frétt af ránum í Grindavík og víðar um landið. Höfðu Eyjamenn haldið uppi vöku og haft nákvæmar gætur á öllum skipum, er sást til af hafi. Öllum vopnfærum mönnum var safnað saman niður að Dönsku húsunum. Þar voru fallbyssur til staðar, en einnig voru mönnum fengnar byssur og önnur tiltæk vopn. Átti þannig að verja ræningjunum aðgang að höfninni.
Á sjónum undan Eyjafjöllum höfðu ræningjaskipin hitt enska duggu, er þar var að fiska. Tóku ræningjarnir þar 9 menn, sem þeir lofuðu að sleppa aftur, ef þeir ensku vísuðu þeim til hafnar í Vestmannaeyjum. Einn þessara 9 manna af ensku duggunni réð ræningjunum frá því að halda inn höfnina og vísaði þeim á aðra uppgöngu sunnan til á eynni. Varð því úr, að skipin sigldu frá höfninni, suður með Heimaey og hurfu bak við Helgafell.
Tyrkjaránið Þegar skipin voru horfin bak við Helgafell, reið kaupmaðurinn í þorpinu, Lauritz Bagge, sem virðist hafa haft aðalforystuna á hendi, með nokkra menn suður á eyju til þess að fylgjast með ferð skipanna. Í Stakkabótinni sá hann, að settir voru út bátar frá þeim fullmannaðir og taldi, að hægt yrði að verjast ræningjunum þarna. Sendi hann því boð til skipstjóra á dönsku kaupskipi, sem lá hér í höfninni, að menn kæmu fjölmennir suðureftir með vopn.
Ræningjarnir sáu strax að uppganga þar yrði erfið, og hurfu frá. Reru þeir bátum sínum suður fyrir Litla-Höfða með Svörtuloftum og lentu við tanga suður af Brimurð, sem síðan heitir Ræningjatangi. Kaupmaðurinn danski sá nú, að ekkert yrði gert á móti svo fjölmennu liði vopnaðra manna og sneri aftur í bæinn ásamt mönnum sínum. Á leiðinni niður í bæ mætti hann skipstjóranum, og saman riðu þeir nú eins hratt og þeir gátu niður í þorpið. Skipstjóri fór út í skip sitt, boraði gat á það, og hjó á festar þess svo að það ræki upp eða sykki. Síðan fór hann í árabát með fjölskyldu sína og náði að komast upp á meginlandið. Kaupmaðurinn og hans fólk komust einnig sömu leið til lands, en ekki er vitað til þess að fleiri hafi bjargast með þessu móti.
Tyrkjaránið Af ræningjunum er það að segja, að þeir fóru í þrem hópum í kaupstaðinn. Austasti hópurinn kom með miklum óhljóðum austan við Helgafell og réðst á Kirkjubæina og Vilborgarstaði. Miðhópurinn stefndi beint að höfninni. Vestasti hópurinn lagði svo til atlögu við bæina umhverfis Ofanleiti. Á efstu bæjunum hefur fólkið orðið verst úti, þar sem ræningjana bar svo fljótt að og óvænt. Neðst í bænum komst fólkið fremur undan og leitaði skjóls í hellum og gjótum. Hvar sem ræningjarnir fundu fólk á vegi sínum, tóku þeir það og bundu og ráku á undan sér niður í þorpið. Sama gilti jafnvel líka um búpening, sem á vegi þeirra varð. Þeir, sem komust ekki nógu hratt, voru höggnir í sundur og drepnir.
Ræningjarnir gáfu sér tíma. Þeir voru í Eyjum í þrjá daga, gengu fjöllin og leituðu hella og skúta, svo að enginn kæmist undan. Þeir klifruðu upp á syllurnar í Fiskhellum og tóku þaðan nokkrar konur og börn, sem leitað höfðu skjóls í fiskbyrgjunum. Enn má sjá nokkur þessara byrgja utan í klettaveggnum, þar sem fiskur er geymdur.

Tyrkir

Tyrkir í Eyjum.

Prestinn á Kirkjubæ, séra Jón Þorsteinsson, fundu ræningjarnir í helli einum austur af Kirkjubæjum, en þar hafði hann falið sig ásamt fólki sínu, og drápu ræningjarnir hann. Margrét, kona Jóns, var hrakin ásamt dóttur og syni í átt til hafnarinnar.
Marga drápu ræningjarnir af hreinni morðfíkn og limlestu líkin. Erlendi nokkrum Runólfssyni stilltu þeir upp fram á bjargbrún og skutu hann niður, svo hann féll um hundrað faðma. Þá fundu ræningjarnir mann að nafni Ásmund, þar sem hann lá á sóttarsæng. Hann stungu þeir í sundur, svo að sæng hans varð rauð af blóði. Bjarna nokkurn Valdason hjuggu þeir þvert yfir höfuðið fyrir ofan augun. Konur fundust dauðar við sínar bæjardyr, sumar stungnar með spjótum, aðrar höggnar, svo svívirðilega við skilið, að fötunum var flett upp fyrir hnakkann og þær naktar. Tvær konur voru með börn, og urðu þær seinfærar, en börnin æptu mjög. Þau tóku ræningjarnir og hálsbrutu og mölvuðu í hvert bein við kletta og köstuðu síðan út á sjó.
Tyrkjaránið Landakirkju brenndu ræningjarnir eftir að hafa rænt skrúða hennar og öðru fémætu, sem kirkjan hafði eignast eftir fyrra ránið 1614. Kirkjuklukkunum mun hins vegar hafa verið komið undan í fylgsni í fjallaskúta, og er önnur enn í fullri notkun í Landakirkju. Þá fluttu ræningjar prestshjónin, séra Ólaf Egilsson og konu hans, ásamt börnum og öðru heimilisfólki niður að Dönskuhúsum, sem stóðu á Skansinum. Var prestskonan þunguð og nær komin að falli, en samt var henni ekki hlíft. Fæddi hún barn sitt um borð í ræningjaskipinu á 11. degi eftir brottförina frá Eyjum.
Í Dönskuhúsunum á Skansinum geymdu ræningjarnir fólkið og héldu því þar, uns það var flutt út í skip. Höfðu skipin leitað inn á höfnina og lagst þar, þegar ekki þurfti að óttast neitt viðnám heimamanna lengur. Var fólkinu síðan smalað úr húsunum og látið róa út í skipin, en þar hitti það fyrir fleiri Íslendinga, sem ræningjarnir höfðu komist yfir.
Tyrkir
Á miðvikudagskvöld, þann 18. júlí voru allir komnir út í skipin nema nokkuð af gömlu fólki, sem ræningjunum fannst ekki þess virði að flytja með sér til að selja mansali. Þetta fólk skildu þeir eftir inni í húsunum og kveiktu í. Frá þessu sagði piltur einn er komst af með þeim hætti, að hann skreið eftir gólfinu í mannþrönginni og komst út um leynidyr, sem ekki hafði verið læst.
Um miðjan morgun, fimmtudaginn 19. júlí voru ræningjarnir tilbúnir. Sigldu þeir á braut með herfang sitt í öllum skipunum, ásamt danska kaupfarinu, sem ekki hafði sokkið eins og ráðgert var. Setti nú mikinn harm og kvein að fólkinu, er það sá eyjarnar og landið hverfa sýnum.
Flestum ber saman um, að hernumdar hafi verið í Eyjum 242 manneskjur í þessu ráni. Rúmlega 30 munu ræningjarnir hafa drepið og líklega hafa um 200 manna komist undan hér í Tyrkjaráninu. Frásagnir eru til af nokkrum mönnum, sem komust undan í Ofanleitishamar, sem ræningjunum hefur ekki litist á að klífa, enda er hann víða snarbrattur. Þá bjargaðist nokkuð af fólki ofarlega í Fiskhellum, en þar er sums staðar ókleift og fólkið því orðið að síga þangað niður. Er sagt, að pils sumra kvennanna, sem björguðust, hafi lafað fram af berginu og hafi 18 kúlugöt verið á pilsi einnar konunnar eftir skothríð Tyrkjanna.

Til Austfjarða komu Tyrkir miðvikudagurinn 4. júní, sem þeir taka land við Hvalnes. Fóru þeir ómildum höndum um eigur fólksins á Hvalnesi, sem allt var statt í seli meðan ræningjarnir létu greipar sópa, en þeir fundu ekki fólkið og héldu því ferð sinni áfram austur á bóginn á tveimur skipum.
Um aftureldingu á föstudagsmorgun sáust skipin við Papey. Var þá hið hagstæðasta leiði inn á Djúpavog og veður svo háttað, að bjart var hið neðra, en þoka miðhlíðis. Sigldu skipin hraðbyri inn í mynni Berufjarðar. Á þessari leið urðu þeir varir við danskan bát úr Djúpavogskaupstað, er lá við línur sínar og voru þar á fjórir menn. Þennan bát hremmdu þeir óðar með allri áhöfn og héldu síðan inn fjörðinn þar til þeir komu á móts við Berunes. Þar vörpuðu þeir akkerum.
Var þá sól um það bil að rísa. Jafnskjótt og akkeri voru botnföst, voru þrír bátar mannaðir.

TyrkirRéru víkingar sem mest þeir máttu suður yfir fjörðinn að kaupstaðnum í Djúpavogi, gegnt Berunesi. Þar var fyrir danskt kaupskip, er komið hafði til hafnar fyrir nokkru, og voru skipverjar í fasta svefni svo árla morguns. Einn bátanna lagðist samstundis að skipinu og vissu þeir, sem á því voru, ekki fyrr til en víkingarnir ruddust inn á þá með alvæpni. Fengu þeir engum vörnum við komið og voru í bönd reyrðir, áður en þeir áttuðu sig á því, hvað á seyði var. Hinir bátarnir tveir renndu hljóðlega upp í flæðarmálið, annar sunnan hafnarinnar, en hinn norðan. Hlupu víkingarnir á land upp sem fætur toguðu og umkringdu kaupmannshúsin og búðirnar, svo að engum, sem þar var inni, skyldi auðnast að komast undan á flótta; -flykktust síðan viðstöðulaust inn með brugðna branda.  Hér fór sem úti á skipinu. Fólkið, sem vaknaði við þessa atburði af værum blundi, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og var hver gripinn, þar sem hann var kominn, sumir naktir í rekkjum sínum, aðrir á hlaupum um húsin. Var allt fólkið fært í fjötra á svipstundu, dregið niður í fjöru og flutt á tveimur bátum út í víkingaskipin. Voru þeir fimmtán, sem fangaðir voru á Djúpavogi þennan morgun, allt danskt fólk, nema einn.

Eftir að ræningjarnir höfðu fullvissað sig um að hafa náð öllu fólki á verslunarstaðnum Djúpavogi lögðu þeir af stað inn með Hálsum, 30 – 40 í hóp. Komu þeir fyrst að bænum Búlandsnesi með miklum hrópum og háreysti. Þar gripu ræniningjarnir 12 eða 13 manns. Bundu þeir hendur karlmanna á bak aftur og ráku síðan tveir úr þeirra flokki hópinn á undan sér til Djúpavogs. Þar voru fangarnir vistaðir um sinn í danska kaupskipinu á legunni.
Þessu næst héldu víkingarnir inn með Hamarsfirði og að prestssetrinu Hálsi. En þar fundu þeir engan heima á staðnum, því að presturinn, séra Jón Þorvarðarson, var í seli ásamt konu sinni, Katrínu Þorláksdóttur, heimamönnum öllum og þremur mönnum frá Hálshjáleigu. Ekki var þetta þó fólkinu til bjargar; ræningjarnir fundu selið og komu þar að fólkinu óvörum, svo að enginn komst undan, nema einn piltur, sem tók á rás. Það voru 11 menn, sem fangaðir voru í selinu. Þennan hóp ráku víkingarnir á undan sér í þá átt, sem pilturinn hafði leitað.
Þegar yfir hálsinn kom héldu þeir sem hann inn með Berufirði og léttu ekki fyrr ferðinni, en þeir komu að kirkjustaðnum við fjarðarbotn.
Víkingarnir herjuðu nú á hvern bæinn á fætur öðrum norður alla Berufjarðarströnd. Létu þeir fólk illa, drápu og limlestu. Alls munu þeir hafa rænt 62 mönnum af Berufjarðarströnd. Þá tóku þeir til fanga 13 manns frá Hamri í Hamarsfirði. Létu þeir vera sitt síðasta verk að ræna kirkjuna á Hálsi, áður en þeir skildu við Djúpavog.

Frá því fólkið var tekið héðan var það einungis sem fénaður í augum þeirra, sem yfir því réðu. Strax við komuna til Afríku var það selt, margir í burtu frá Algeirsborg, en þeir sem eftir urðu reyndu að hafa samband sín á milli, hjálpa hver öðrum og styrkja í útlegðinni.
Á fyrsta mánuðinum veiktist flest fólkið, og hafði 31 Íslendingur látist úr sjúkdómum þegar að mánuði liðnum. Meðferðin á fólkinu var nokkuð mismunandi eftir því hvort það lenti hjá góðu eða slæmu fólki. Flestir áttu þó erfiða daga, og var algengt að menn væru píndir til þess að reyna að fá þá til að kasta kristinni trú og taka upp Múhameðstrú. Um afdrif margra Íslendinganna úti í ánauðinni, vita menn fátt. Fólkið sem kom upp til Íslands aftur hafði frá mörgu að segja, en af sumu spurðist aldrei neitt.

Heimild m.a.:
-http://www.vestmannaeyjar.is/safnahus/byggdasafn/tyrkir.htm
-http://www.ismennt.is/vefir/eyglob/sagave/folk.html
-http://www.djupivogur.is/sagan/tyrkir.html

Aðrar heimildir um Tyrkjaránið:
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, “Hverjir voru Tyrkjaránsmenn”, Saga 1995, bls. 110-34.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir

Kristinn Kristjánsson fjallar um ógnaratburðina í Grindavík og annars staðar á landinu árið 1627 í Íslenskar bókmennir 1550-1900, bls. 31-32. Þar segir m.a.:
Tyrkjaránið“Sjórán hafa löngum verið talin arðbær en áhættusamur atvinnuvegur. Á öldum áður tíðkaðist að ríki styddu við bakið á sjóræningjum eða gæfu þeim leyfi til þess að stunda sjórán og tóku þá toll af þeim. Í upphafi 17. aldar voru sjórán mikið stunduð út frá ýmsum smáríkjum á norðurströnd Afríku, einkum á Miðjarðarhafi, en oft brugðu þeir sér út á Atlantshafið til Englands og í Norðursjó. Árið 1627 fengu Íslendingar að kynnast nokkrum skipum frá Algeirsborg þar sem nú er Alsír og hefur sá atburður jafnan erið nefndur Tyrkjaránið. Tyrkir eru á þessum tíma fyrst og fremst samheiti í huga Íslendinga fyrir þá sem tilheyra Islam. Reyndar var Algeirsborg á þessum tíma í sambandi við Tyrkjasoldán. Tyrkjaránið vakti löngum ótta með íslensku þjóðinni, til eru Tyrkjafælur í kvæðaformi, Vestmannaeyingar komu sér upp eina innlenda hernum sem til hefur verið á Íslandi til að verjast nýrri árás Tyrkja.

Tyrkir

Tyrkir.

Atburðurinn hefur sest svo vel í minni þjóðarinnar að þegar keppt er við sárasaklaus Tyrki í knattspyrnu í lok 20. aldar er nóg að rifja atburðina upp til að æsa áhorfendur og keppendur.
Skipin sem komu til Íslands voru fimm. Þau voru þó aldrei öll saman því þau urðu viðskila vegna veðurs en af þeim sökum dreifðust þau meira með ströndum landsins. Tvö þau fyrstu [sennilega var þó ekki nema eitt skip] komu til Grindavíkur 20. júní og voru þar teknir um 15 Íslendingar og nokkrir Danir. Þaðan héldu þau inn á Faxaflóa, annað þeirra strandaði utan við Bessastaði og hefur danska hirðstjóranum löngum verið legið á hálsi fyrir þann aumingjaskap að nota ekki tækifærið og taka skipið. Hann lét nægja að bíða vopnaður í landi á meðan ræningjarnir losuðu það.
TyrkjarániðMeðal þeirra sem voru undir vopnum var Jón Ólafsson Indíafari. Að því loknu ætluðu ránsmenn til Vestfjarða en hættu við er þeir fréttu af enskum herskipum og héldu til síns heima. Tvö hinna skipanna sigldu fyrst til Austfjarða, tóku land í Berufirði 5. júlí og rændu þar, á Djúpavogi og um næstu byggðir, um Hamarsfjörð, um Breiðdal og jafnvel um Fáskrúðsfjörð. Á Austfjörðum tóku þeir yfir hundrað fanga, drápu nokkra menn. Fjöldi særðist. Fréttirnar bárust fljótt um landið og biðu menn skelkaðir, kæmu skipun í þeirra sveit? Vestmannaeyingar voru þó þeir einu sem urðu fyrir árás, skipin tvö fyir Austfjörðum sneru við út af Reyðarfirði vegna andvirðis, hittu fimmta skipið einhvers staðar fyrir sunnan landið og birtust síðan í Eyjum. Þar urðu ægilegustu atburðirnir, Vestmannaeyingar reyndu að flýja en þeir guldu þess að þeir bjuggu á eyju. Tugir voru drepnir, yfir 240 teknir og margar byggingar brenndar.
Fljótlega var reynt að kaupa fólkið í Alsír út en það tók sinn tíma, var dýrt og danski kóngurinn blankur eins og getur gerst á bestu bæjum. En tæpum tíu árum eftir ránið voru um 35 fangar keyptir fyrir mikið fé og komust 27 til Kaupmannahafnar. Rétt þótti að fólkið rifjaði upp kristindóminn og var Hallgrímur Pétursson fenginn til þess verks.

Ólafur Egilsson (1564-1639) var annar tveggja presta í Vestmannaeyjum 1627. Hann var hertekinn ásamt konu og þremur börnum, einu ófæddu. Hinn presturinn, Jón Þorsteinsson píslavottur, var drepinnn. Ólafur var fljótlega eftir að hann kom til Algeirsborgar sendur til Danmerkur til að reka á eftir kaupum á föngum og kom hann til Íslands tæpu ári eftir ránið, 6. júlí 1628. Stuttu eftir heimkomuna skrifaði hann um þessa reynslu sína og er það rit þekkt undir nafninu Reisubók séra Ólafs Egilssonar.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.

Ólafur var fyrstur norrænna manna til að skrá frásögn af lífi og háttum fólks í “Barbaríinu” eins og lönd Íslams í Norður-Afríku voru nefnd og er hin mesta furða hversu hlutlægur hann getur verið þegar hann segir frá. Hann segir ekki bara frá því vonda varðandi ræningjana, eins og að þeir hafi drepið fólk og barið hann, heldur einnig því góða, þegar kona hans eingnast barn sýna þeir því hina mestu umhyggju. Hann lýsir staðháttum og klæðnaði hvars em hann er staddur af stakri nákvæmni og má vel sjá fyrir sér sögusviðið og presónur þess.

TyrkjarániðSitthvað misskilur hann á ferðalaginu heim enda ekki með nákvæmt landakort og þeir sem hitta hann leika sér að því að gabba hann. Þegar hann lýsir neyð sinni og angist grípur hann til ritningarstaða í Biblíunni og allan tímann er það trúin sem heldur honum uppi og með henni skýrir hann það sem hefur hent:
“Nú, það gengur oss sem herrann vill; nær að vér dæmumst, þá refsumst vér af drottni, svo að vér ekki glötumst með þessum heimi.”
Eiginkona Ólafs, Ásta Þorsteinsdóttir, var ein þeirra sem var leyst úr haldi tæpum tíu árum síðar og kom til Íslands 1637. Börnin þrjú komu aldrei aftur, létu turnast, það er, gengu af trúnni og tóku nýja trú.”

Heimild:
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson-

Aðrar heimildir um Tyrkjaránið:
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, “Hverjir voru Tyrkjaránsmenn”, Saga 1995, bls. 110-34.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðarstaðir

Gengið var að Járngerðardysinni í Járngerðarstaðahverfi ofan við Járngerðarstaðabót og gamla sjávargatan rakin áleiðis niður að Fornuvör, þá leið er Tyrkirnir rötuðu 1627 heim að Járngerðarstaðabænum og hnepptu á annan tug heimamanna í þrældóm.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Skammt frá Fornuvör er Stokkavör. Vestan Fornuvarar eru Flúðirnar, þriggja stranda, og enn vestar er Litlabót. Þá tekur Hellan við ofan við Stórubót. Þar fremst á grasodda er Engelskalág og virki Jóhanns breiða (Joen Breen) þar sem 15 Englendingar voru drepnir á einni nóttu 1532 í atlögu hirðstjórans á Bessastöðum ásamt Þjóðverjum og landsmönnum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum, auk heimamanna í Grindavík. Þetta gerðist þann 11. júní kl. 02:00. Auk þeirra, sem drepnir voru, fórust nokkir Englendingar á flótta undan ströndinni. Með þessum atburði lauk “ensku öldinni” hér á landi.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns.

Breski togarinn Trocadero frá Grimbsby strandaði utan við Stórubót 6. september 1936. Öllum 14 skipverjunum var bjargað. Ýtarleg umfjöllun um strandið er í árbók SVFÍ 1936 með mörgum myndum sem Einar í Krosshúsum tók meðan á björguninni stóð. Á fjöru má sjá ketilinn úr togarnum í bótinni beint fyrir neðan Rásina.
Gengið var yfir Rásina frá Gerðisvallabrunnum, yfir Gerðisvelli og eftir Gerðinu þar sem Junkarar munu hafa hafst við. Garðurinn sést enn nokkuð vel. Getið er um Junkara á þessum stað í einni þjóðsögu og munnmælum. Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli.

Skyggnisréttin á Skyggni var næsti áfangastaðurinn, en síðan var gengið yfir á Stekkhól og litið á stekkinn vestan undir hólnum, en hann er nú orðinn að mestu jarðlægur. Þá var haldið yfir að Hrafnagjá. Gjánni var fylgt til austurs, gengið um Hraunstekkina, framhjá Skjöldunni, fátækrahverfi þess tíma, og yfir í Einisdal. Einisdalur er falleg, stór, hraunlaut með vatni í botninn.
Þá var haldið að Stóruflöt skammt norðar, handan þjóðvegarins út á Reykjanes, en þar áttu skv. munnmælum að vera hlaðnar refagildrur. Það reyndist rétt. Þarna var a.m.k. að sjá eina refagildru og sporöskjulaga mosavaxna torráðna hleðslu. Loks var gengið til baka að upphafsstað, en að því búnu var boðið upp á bakkelsi í boði innbúa.

Skyggnir

Skyggnisrétt á Gerðavöllum.

Járngerðarstaðarétt

Um tíma var fjárrétt við Járngerðarstaði í Grindavík. Hennar er hvergi getið í skráðum heimildum.

Járngerðarstaðarétt

Járngerðarstaðarétt.

Réttin sést á loftmynd frá 1954, en um 1960 er hún horfin. Fjárréttin var þar sem nú er vesturgafl Þorbjarnar h/f, þ.e. þar sem hlaðin er braut upp á efri hæð hússins. Ekki er ólíklegt að grjótið úr réttinni hafi verið notað í hleðslu brautarinnar eða það farið í nálægar bryggjuframkvæmdir.

Járngerðarstaðarétt

Járngerðarstaðarétt, annars vegar 1954 (t.v.) og 2021.