Róður

Eftirfarandi lýsing á verbúð að Járngerðarstöðum í Grindavík birtist í sjómannablaðinu Ægi árið 1985:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

“Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, og gerð þeirra hélst svo til óbreytt allt fram undir síðustu aldamót. Teikning sú sem hér er, er af verbúð sem var á Járngerðarstöðum um aldamótin síðustu. Verbúðin var ca. 20 m2 (5,6×3,6). Veggir voru tvöfaldir, annað lagið var grjót en hitt torfstrengir, á milli var troðið mold. Þak var úr torfi, tvöfalt, í sumum búðum var haft þrefalt lag, mold var í gólfi. Svefnbálkar voru með hliðum þrír hvorum megin, í þeim var grjót og urðu vermenn því að finna eitthvað mýkra og var ýmist til notað hey, skeljasandur, lyng eða þang. Eldstæði voru í hverri verbúð, en oft voru erfiðleikar með eldivið, einnig var vatn víða takmarkað. Vermenn höfðu með sér kost að heiman, smjör og annað feitmeti, einnig sýru eða sýrublöndu. Soðningu höfðu þeir og oftast kaffi, en lítið var um kjöt, helst voru það rifrildi er nýttust best í súpu. Kommatur var af skornum skammti, sérstaklega hjá þeim er voru fjarri kaupstað. Ekki er þetta þó algild lýsing um mataræði, og undantekningamar æði margar. Yfirleitt var reynt að búa vel að vermönnum hvað varðar mat, og bjuggu þeir vart við lakari kost en margur annar er ekkert átti nema vinnuaflið.”

Heimild:
-Ægir, 78. árg. 1985, 6. tbl. bls. 341-342.

Grindavík

Grindavík – verbúð við Járngerðarstaði; uppdráttur.