Þjófagjá

Gengið var á Þorbjarnarfell ofan við Grindavík. Hæst er fellið 243 m.y.s. skv. upplýsingum Landmælinga Íslands (EE).

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – örnefni og gönguleiðir (ÓSÁ)

Þorbjarnarfell, eða Þorbjörn eins og fellið er jafnan nefnt, er allsérstakt í tvennum skilningi. Bæði er það með eldri fjöllum á Reykjanesskaganum, að hluta a.m.k., því það virðist að einhverju leyti vera frá fyrra ísaldarskeiði, en jafnframt því síðara. Það er því að nokkru leyti eldra en t.d. Fagradalsjall, sem er um tíu þúsund ára gamalt. Þá gengur misgengi þvert á fellið, frá suðri til norðurs, skáhallt á landsrekssprungurnar, sem annars eru áberandi á skaganum. Þorbjörninn er úr bólstrabergi, líkt og Stapafellið.

Þorbjörninn býður upp á ýmsar uppgönguleiðir; veginn austan í fellinu, stíg upp frá Baðsvöllum að norðanverðu, Gyltustíginn að suðvestanverðu og síðan upp hlíðar þess neðan Þjófagjár, svo til fyrir því miðju að sunnanverðu.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Að þessu sinni var gengið á ská til vesturs upp sunnanvert fellið, með stefnu á Þjófagjá. Þjóðsaga tengist gjánni, en í henni segir að “skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.
Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.”
Frá suðurenda Þjófagjár er fallegt útsýni yfir byggðalagið. Haldið var upp einstigi í gjánni og hún skoðuð í leiðinni. Á einstaka stað eru fallegar hraunmyndanir sem og kynjamyndir.
Þegar komið var upp úr gjánni var haldið niður í gíginn í því miðju. Í honum eru leifar eftir hernámsliðið, braggabrak, götur, hleðslur og einmana arinn stendur þar enn sem tákn um það sem var.
Af Þorbjarnarfelli er ágætt útsýni yfir Baðsvellina þar sem þjófarnir áttu að hafa farið til baða fyrrum með hinum afdrifaríkum afleiðingum. Þá er og þaðan ágætt útsýni yfir að Gálgaklettum undir Hagafelli þar sem þjófanir eiga að hafa endað ævi sína hangandi milli klettanna í ófrjálsu falli.

Heimildir m.a.:
-Huld I, bls. 60-61.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.