Sundhnúkar

Jón Jónsson jarðfræðingur tók upp heitin „Sundhnúkagígar“ og „Sundhnúkahraun“ í grein í Náttúrufræðingnum árið 1974 og dró þau af gömlu örnefni, Sundhnúk, sem er hæsti gígurinn í Sundhnúkagígaröðinni. Strangt til tekið ætti því að tala um Sundhnúksgíga og Sundhnúkshraun. Hnúkurinn er gamalt leiðarmerki af sjó og dregur nafn sitt af því hlutverki. Merkir „sund“ þá tiltekna leið sem var fær fyrir báta, oft þröng siglingaleið milli skerja eða boða.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Það er ljóst af lýsingum að það hefur verið vandasamt að ná landi heilu og höldnu í Grindavík en Sundhnúkur hefur verið eitt af mörgum mikilvægum leiðarmerkjum fyrir innsiglingu í svonefnt Járngerðarstaðasund. Þeir sem sóttu sjóinn þurftu að kunna skil á þessum merkjum, sem gátu verið hvort heldur manngerð eða náttúruleg, og geta lesið í landslagið og síbreytilegar sjónlínur milli merkja eftir því sem báturinn færðist nær landi.
Lýsing á Járngerðarstaðasundi frá 1931 þar sem Sundhnúkur kemur við sögu er svohljóðandi: „Varða ofan við húsin á Hópi á að bera í vörðu (Heiðarvörðu/Hópsheiðarvörðu), sem stendur uppi í Hópsheiði, og þær aftur í svokallaðan Sundhnúk, sem er ávalur hnúkur á bak við Hagafell. Stefnunni skal haldið á þessi merki, þangað til að Svíraklettur, sem er vestan við Hópsrifið, ber í Stamphólsvörðu, sem stendur á hraunbrúninni, að sjá á Þorbjörn. Er þá haldið á þau merki, þar til Garðhúsaskúr ber norðan til í vörina, þá er haldið á þessi merki, og inn í vör.“ Stamphólsvarðan er nú horfin vegna nýbyggðar.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Varir Járngerðarstaðabænda voru vestan Hópsins, þ.e. Suðurvör, Skökk (Stokkavör), Norðurvör og Staðarvör. Hópsvörin var austan við Hópið.
“Skip Járngerðarstaðabænda reru úr [Norðurvör og Suðurvör], en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan reru skip Skálholtsstóls á meðan enn var útræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað”, segir í Sögu Grindavíkur I.
1703: “Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans…Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa á stólsins skipum…”JÁM III.

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

“Austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör, þá Suðurvör og síðan Norðurvör, sem hét öðru nafni Skökk. Næst austur af er Staðarvör”, segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar.
“Innan við Staðarvör tók við malarkampur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur …” segir í Sögu Grindavíkur I.

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

Stórgrýtt fjara neðan sjávargarðs og um 200 m austan við Suðurvör, verbúðirnar voru upp af henni. Engin ummerki um lendinguna eru nú greinileg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.
Þess má geta að þekking á leiðarmerkjum hefur ekki aðeins verið mikilvæg fyrir heimamenn, enda reru margir aðkomumenn frá Grindavík og þar var lengi aðalverstöð Skálholtsstaðar.

Heimild m.a.:
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – https://www.facebook.com/arnastofnun/

Grindavík - kort 1751

Uppdráttur Christophs Klogs af Grindavíkurhöfn frá 1751, Staður og Húsatóftir vestast og Járngerðarstaðir og Hóp austast. Grynningar og sker sýnd með ýmsum táknum. Skjalið er varðveitt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn.