Færslur

Sundhnúkur

Gengið var frá Arnarsetri upp með norðanverðu Stóra-Skógfelli. Austan þess, í Skógfellahrauni (um 3000 ára) gegnt Rauðhól, var vent til vinstri inn á Skógfellaveg uns komi var að gatnamótum Sandakravegar til suðausturs yfir Dalahraun. Ætlunin var að ganga spölkorn til suðausturs eftir Sandakraveginum og taka síðan stefnuna til norðurs að syðsta gígnum á norðanverðri sprungurein Sundhnúkagígaraðarinnar, fylgja röðinni síðan eftir til norðurs og skoða umhverfi hennar að vestanverðu. Þetta svæði er að öllu jöfnu er mjög lítið gengið, enda bar mosinn umhverfis lítil merki ágangs.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Slóð hefur markast í mosahraunið austan Arnarseturs svo auðvelt er að fylgja henni yfir að Stóra-Skógfelli, sem blasir við, ávalt, framundan. Gróið er í jöðrunum svo auðvelt er að ganga upp með fellinu. Þegar komið er nokkurn veginn á móts við það mitt má sjá hraunskil norður af. Að austanverðu er tiltölulega slétt Sundhnúkahraunið (2400 ára) og að vestanverðu nokkuð slétt Arnarseturshraunið (frá 1226). Gígaröðin þess sést vel þar sem hún liggur norðaustanundir megingígnum og teigir sig til norðurs. Á milli hraunanna sést gróinn bakki Skógfellahrauns. Undir bakkanum liggur greinileg gata niður með honum. Sennilega er um að ræða gamla götu er liggur síðan til vesturs yfir Arnarseturshraunið, áleiðis til Njarðvíkur.
Gatan utan í Stóra-Skógfelli sést mjög vel þar sem hún þrengist upp í norðausturhorn fellsins, ofan hraunlínunnar. Ofan (austan) fellsins, kemur Rauðhóllinn í ljós. Hann er hluti af eldri gígaröð, sem enn stendur upp úr á a.m.k. tveimur stöðum. Hinn hóllinn er allnokkru norðaustar, oft nefndur Hálfunarhóll. Líklega hefur það eitthvað með vegalengdir upp í gegnum hraunið að gera.  Sundhnúkahraunið rann þunnfljótandi umhverfis gígana og þekur nú eldra hraunið.
Við stiku nr. 128 á Skógfellavegi eru gatnamót Sandakravegar. Þar austan við er stiga nr. 106 á þeim vegi. Glögglega má sjá götuna, markaða í klöppina, sem nú er að miklu leyti þakin mosa, liðast upp aflíðandi hæðina. Færa þarf stiku nr. 104 að veginum þar sem hann beygir til suðurs og síðan aftur til suðausturs skammt ofar. Þegar komið er upp á hæðarbrúnina blasir mikil helluhraunsslétta við. Vegurinn liðast mjúklega yfir hana. Þar sést djúpt farið allvel. Glöggir menn reka strax augun í gróna smáhóla á stangli nálægt veginum. Auðvelt væri að telja þeim trú um að þarna væri gróið yfir menn og skepnur, sem hafa orðið úti á ferð þeirra um veginn, en staðreyndin er hins vegar önnur.

Sandakravegurinn er að öllum líkindum ein „mesta þjóðleið“ allra tíma á Suðurnesjum. Um hefur verið að ræða meginþjóðleiðina milli austanverðrar Suðurstrandar Reykjanesskagans og svonefndra Útnesja, þ.e. Rosmhvalaness og nálægra svæða.
Ljóst er, af ummerkjum að dæma, að þarna hefur verið mikil umferð um aldanna rás, hvort sem um er að ræða menn eða skepnur. Um þessa götu hafa helstu fólksflutningar farið fram frá upphafi landnáms á Suðrunesjum, skepnurekstur sem og flutningar allir, s.s. skreiðaflutningar og verslunar- og vöruflutningar frá upphafi vega og alveg fram yfir aldamótin 1900, þ.e. í u.þ.b. 1000 ár. Ummerkin leyna sér ekki á sléttri hraunhellunni.

Af athugunum að dæma virðist augljóst að Skógfellavegurinn á sléttri hraunhellunni milli Skógfellanna og áfram suðaustur slétt helluhraun Dalahrauns, milli Stóra-Skógfells og Sandhóls vestan við Kastið utan í Fagradalsfjalli, hefur verið ein megin þjóðleiðin millum landshluta fyrr á öldum.
Grein götunnar sunnan Stóra-Skófells, virðist liggja með austanverðri Sundhnúkagígaröðinni til Grindavíkur. Hún virðist vera tengigata inn á hina fornu megingötu.
FERLIR nýtir jafnan ferðir á einstök svæði til að skoða meira en eitt tiltekið. Loftmyndir höfðu bent til að göt væri að finna vestan og norðan við Hálfunarhól. Milli hans og Stóra-Skógfells er lítill formfagur gígur. Gígur sá er utan við eldri gígaröð Rauðhóls, Hálfunarhóls og Kálffells, en gæti verið nyrsti hluti Sundhnúkagígaraðarinnar, sem m.a. sker austanverða öxl Stóra-Skófells. Í beinni stefnu frá honum til norðausturs, vestan og norðan Hálfunarhóls, virtist liggja hrauntröð eða gjá í eldra hrauni. Ljóst er að hraunið umhverfis hólanna er mun yngra en það sem frá þeim kom á sínum tíma. Rauðhóll og Hálfunarhól virðast þannig vera gígar eldra hrauns, sem sjá má næst hinu síðarnefnda. Þangað var ferðinni m.a. heitið.

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Þegar komið var inn á þennan nyrðri hluta Sundhnúkagígaraðarinnar kom í ljós að hún er á kafla nokkuð ólík suðurhlutanum. Enn norðar, ofan við Mosagjárdal (Mosadal), samlagast hún honum hins vegar á ný. Á þessum stað má segja að beint augnsamband myndist við Kastið utan í Fagradalsfjalli í suðaustri og Nauthóla í norðaustri. Nokkrir smáskútar eru í hrauninu vestan og norðan við gíginn formfagra. Í einum þeirra hafði verið tekið til hendinni, grjóti hrúgað til kantsins og gólfið sléttað. Þarna hefur einhver, eða einhverjir, haft bæli um sinn, einhvern tímann.
Strax norðan við gíginn tekur við einstakt jarfræðifyribæri, opin sprungurein, nokkurs konar gjá. Hún er u.þ.b. einn kílómeter á lengd og víða 10-12 metra djúp. Hægt er að komast niður um göt á henni á a.m.k. þremur stöðum, en til að komast niður í álitlegasta gatið þarf stiga eða handvað. Þar niðri virðist vera talsvert rými, sem vert væri að skoða.
Þegar horft er á gjána sést vel hvernig þunnfljótandi kvikan hefur smurt veggi hennar og grjót á börmunum þannig að það lítur út eins og afrúnuð hnoð. Einstaka smágígur er á línunni og víða gróið yfir á köflum. Tvennt kemur til greina, þótt hið fyrrnefnda virðist líklegra miðað við stefnu og gígamyndanir, þ.e. að glóandi hraunkvikan hefur þrýst sér þarna upp úr jörðinni um tíma, en síðan sigið á ný, eða þunnfljótandi kvikan úr gígunum á barmi stórrar sprungu hafi runnið niður í hana og náð að fylla á köflum.

Sundhnúkar

Í Sundhnúkum.

Meðfram sprungunni eru fallegir gígar, en þegar fjær dregur, verða þeir „eðlilegri“, sem fyrr sagði. Þetta svæði þarf að skoða miklu mun betur í góðu tómi. Ljóst er að þarna er enn ein dýrmæt perlan í hálsfesti Grindvíkinga
Þá var stefnan tekin til suðurvesturs í átt að Arnarsetri. Hraunkarl Sundhnúkahraunsins varð á leiðinni, en lét ekki á sér kræla. Þótt hraunið virðist úfið yfir á að líta er auðveldlega hægt að ganga á sléttu helluhrauni svo til alla leiðina. Þegar komið var niður á eldri gjallhrygg austan Skógfellavegar var stefnan tekin svo til beint á Arnarsetrið. Þannig var leiðin greið milli úfinna kafla.
Arnarsetursgígaröðin er fremur stutt, en því auðveldari skoðunar. Um er að ræða fallega klepragíga með ýmsum myndunum og litbrigðum. Vestur undir einum gíganna var gengið fram á stóran skúta með hleðslum fyrir að hluta (sem nam einu umfari). Þarna voru greinilegar mannvistaleifar. Gangnamenn gætu hafa notað skjólið til að bíða af sér vond veður, eða grenjaskyttur í hrauninu hvílt sig þar um stund. Ekki má gleyma að gömlu þjóðleiðirnar og göturnar eru líka fornleifar í skilningi þjóðminjalaga. Þann sess ættu hraunkarlarnir einni að skipa með réttu – a.m.k. sem náttúruminjar.
Nokkrir skútar og rásir eru í brúnum Arnarseturshrauns.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.Arnarsetur - gjá

Sundhnúkar
Gengið var frá Svartsengisfelli, öðru nafni Sýlingarfelli, þvert yfir Sundhnúkahraun með stefnu á hæsta gíg Sundhnúkagígaraðarinnar sunnan Stóra-Skógfells.

Sundhnúkar

Hellir í Sundhnúkum.

Sundhnúkahraunið, sem er um 2400 ára, kom upp á sprungurein líkt og svo mörg hraunin á nútíma á Reykjanesskaganum. Gígaröðin nær frá Hagafelli upp að Kálffelli og er um 10 km löng. Besta yfirsýnin yfir gígana er uppi á Stóra-Skógfelli austanverðu. Þaðan sést vel hvernig röðin liggur í svo til beina stefnu og sneiðir við austurhornið á Skógfellinu. Einmitt þess vegna er staðsetning á myndarlegum rauðleitum gjallgíg, eða gjallhrygg öllu heldur, austan fellsins og þar með utan við hina beinu gígaröð, nokkurt spurningarmerki. Margir hafa talið hann með Sundhnúkagígaröðinni, en nú var ætlunin að skoða hann nánar.
Sundhnúkahraunið er blandhraun, bæði hellu- og apalhraun. Hellurhraunið hefur runnið þunnfljótandi í upphafi gossins, en síðan hefur apalhraunið fengið að njóta sín þegar á leið. Fallegar hrauntraðir eru vestan gígaraðarinnar, en hraunið er í rauninni hvergi erfitt yfirferðar.
Þegar komið var upp í gíginn, sem stefnan hafði verið tekið á, komu í ljós fallegar hraunæðar vestan við hann, og op við efri enda þeirra. Það var ekki nægilega stórt til að komast inn (þarna þarf járnkarl), en þegar myndarvélinni var stungið inn um gatið og myndað sást inn í sæmilega rás. Skammt austar er gígurinn. Í vesturjaðri hans er gat, en erfitt var að sjá hvort það tengdist því neðra.

Rauðhóll

Rauðhóll.

Ofan og austan við gígaröðina, eru slétt helluhraun með ýfingum á milli. Rauðhóll blasir þarna við í norðaustri og sker sig út úr mosabreiðulandslaginu. Þykk mosaþemba gerð af hraungambra, en það er tegundarheiti þess mosa sem oft myndar þykkar breiður á hraunum Reykjanesskagans. Í daglegu tali er hann oftast nefndur grámosi eða gamburmosi.
Austan við Stóra-Skógfell eru helluhraunaléttur með lágum hraunhryggjum á milli. Þegar staðið er þar með Skógfellið að vestanverðu, Fagradalsfjall að austanverðu (gegnt Kastinu), Vatnsheiðina að sunnanverðu og Þráinsskjöld að norðanverðu má segja að sjá megi nær allar tegundir eldsupprunamöguleika á Skaganum; dyngjur á bak og fyrir, ísaldatilurðir til beggja handa og nútímann svo til við nefið.
Hinn rauðleiti gjallgígur framundan er hér nefndur Rauðhóll, bæði vegna litarins og auk þess mun þetta vera heiti á flestum líkum á Skagagnum. Ekki er vitað til að eitt nafn umfram annað hafi verið fest á hann. Í rauninni virðist hann ekki vera gígur, einungis bogadregin hæð, en þegar betur er að gáð sést vel hvernig helluhraun úr Sundhnúkagígaröðinni hefu runnið í kringum gíginn og inn í hann að austanverðu. Rauðhóll er greinilega eldri gígur en hinir vestan hans. Betur er gróið í síðum hans en annars staðar í hrauninu – beiti- og krækilyng, geldingahnappur, einir og fleiri tegundir má sjá í skjóli hans. Þegar staðið er upp á honum sést í nokkra litla toppa, mun lægri, með sömu stefnu og hann til norðausturs. Þarna eru því líklega leifar af enn eldri gígaröð en Sundhnúkagígaröðin er, en hraun úr henni hefur runnið yfir eldra hraunið og hulið það að langmestu leyti. Eftir standa Rauðhóll og nokkrir smærri bræður hans. Líklega eru Sandhólarnir (Sandhóll vestan Faradalsfjalls og Innri-Sandhóll, skammt austan Stóra-Skógfells) leifar af enn einni gígaröðinni á þessu svæði.

Sundhnúkar

Áð í Sundhnúkum.

Gengið var til baka yfir Sundhnúkagígaröðina og stefnan tekin þvert á hrauntröðina vestan hennar. Tröðin er ein af mörgum slíkum á þessu svæði. Allnokkuð er um litlar hraunbólur (hraunhvel) og yfirborðsrásir, einkum næst gígaröðinni, en enga raunverulega hella var að sjá þarna, enda að mestu um apalhraun að ræða.
Hraunin ofan við Grindavík eru flest tiltölulega greiðfær, ekki síst í frosti, eins og nú var. Þá er mosinn frosinn og líkur gervigrasi að ganga á. Skógfellavegurinn liggur þarna milli Grindavíkur og Voga, austan Sundhnúkagígaraðarinnar og Skógfellanna, og því auðvelt að rata. Fjölbreytileikinn er mikill því ávallt birtist eitthvað nýtt er gleður augað. Hraunkarlinn í Sundhnúkahrauni virðist t.a.m. vera merkilegur með sér og alls ekki ólíkur þekktri teiknimyndapersónu. Vegalengdir er þolanlegar og um margar leiðir að velja. Þarna er því um kjörið heilsubótar- og þjálfurnarumhverfi að ræða – fyrir íbúa heilsubæjarins og gesti þeirra.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Sundhnúkagígaröð

Sundhnúkagígaröðin.

Sundhnúkagígaröð
Sundhnúkahraun er um 1900 ára m.v. raunaldur (MÁS). Norðaustur af Hagafelli er áberandi hnúkur, sem heitir Sundhnúkur (innsiglingamerki) og þaðan er nafnið komið af reyndar röð lítilla gíga. Skógfellavegurinn liggur meðfram hluta eldvarpanna. Hraunin eru dreifð víða um Grindavíkursvæðið og m.a. byggt upp Þórkötlustaðanesið og myndað þannig brimbrjót fyrir Grindavík. Norðan við Sundhnúkahraunið er Skógfellahraun (>2800 ára) og Arnarseturshraun (779 ára), en austan við það er Dalahraun (>3200 ára).
Sundhnúkaröðin, sem er um 9 km löng gígaröð, er á Náttúruminjaskrá. Eldborgirnar eru enn ósnertar og sýna vel hvernig gos á sprungureinum hefur myndast, en þau eru allnokkur á Reykjanesskaganum. Eflaust klæjar einhverjum gröfumanninum eða verktakanum í fingurnar þegar hann ber gígaröðina augum, líkt og þegar félagi þeirra bar Melhólinn og gígaþyrpinguna í kringum hann augum á sínum tíma, sælla minninga. Melhóllinn er í rauninni framhald af Sundhnúkaröðinni, en þó yngri. Frá honum kom mest af því hrauni er myndaði nýjasta hraunið ofan við Grindavík sem og hraunranann Slokahraun milli Þórkötlustaðahverfis og Hrauns.
Gígarnir í Sundnúkaröðinni eru dæmigerðir sprungureinagígar. Best er að virða þá fyrir sér af austanverðu Stóra-Skógfelli í góðu skyggni (sem reyndar nýtur 364 daga ársins). Þaðan sést vel hvernig gosið hefur á reininni og gjall- og klepragígarnir hrígast upp. Í rauninni er þó um svonefnda blandgíga að ræða, þ.e. bæði gjall- og klepragíga, þótt gjallið spili þar aðalhlutverkið. Gjallgígur er bara gígur úr gjalli, grófstorknuðum gosefnum er þeytast afllítið stutta vegalengd og ná að storkna í millitíðinni, en klepragígur er gígur sem hleðst upp úr seigfljótandi kvikuslettum. Gjall- og klepragígar myndast í blandgosi. Gjallið er frauðkennd, basísk eða ísúr gjóska sem verður til í kvikustrókavirkni þegar kvikuslettur þeytast upp úr gígnum og storkna áður en þær lenda. Kleprar eru myndaðr úr seigfljótandi kvikuslettum sem slettast upp úr gígnum en ná ekki að storkna áður en þær lenda. Ágætt dæmi um klepragíg er Eldborg undir Geitahlíð, en slíkir gígar verða að öllu jöfnu hærri en gjallgígar. Ekki er alltaf mikill munur á gjall- og klepragíg, en þó má vel sjá munin ef vel er að gáð. Flestir gígarnir í Sundhnúkaröðinni, einkum þeir smærri, virðast vera gjallgígar, en þeir stærstu blandaðir. Frá Stóra-Skógfelli má sjá yfir í Sundhnúk, megingígin austan Hagafells. Handan hans, í suðuröxl Hagafells eru gígar sem og einstaklega falleg hrauntröð. Síðan raða gígarnir sér til norðausturs. Á móts við Stóra-Skógfell virðist hafa orðið víxlverkun á sprungureininni og hún færst til austurs og síðan haldið áfram þaðan til norðausturs. Á norðanverðri sprungureininni hafa orðið til minni gígar, en einkar fallegir. Það er vel þess virði að rölta um svæðið dagsstund og skoða gersemirnar.
Nú var hins vegar ætlunin að skoða eina afurð hraunsins; hellana og skútana. Björn Símonarson hafði lýst einum hellanna á eftirfarandi hátt: „Við rætur Svartsengis er hellir þar sem Sundhnúkahraunið kemur niður mesta brattann og út á flatlendið. Hann er ekki langur en heldur ekki fullkannaður. Opið er frekar djúpt og gólfið rennislétt, eftir um 20 metra endar aðalrásin. Um það bil miðsvæðis í hellinum er gat í mittishæð, um 40 x 40 cm og er þó nokkur rás þar fyrir innan, frekar lág og það er þessi hluti sem er ekki full kannaður.“
Byrjað var að skoða hraunið norðan Svartengisfells (Sýlingafells, en svo nefnist fellið frá sjó séð). Með í för var Björn Steinar Sigurjónsson, en hann ásamt félaga sínum, Guðmundi Árnasyni, skoðuðu svæðið fyrir u.þ.b. 20 árum og fundu þá nokkra hella.
Sundhnúkur er stærsti, eða öllu heldur hæsti, gígurinn í hinni löngu gígaröð. Hraunið hefur runnið niður hlíðina og myndað slétt helluhraun að norðanverðu. Þar neðarlega í hlíðinni er hellir sá, sem Björn Símonar skoðaði á sínum tíma. Einhverjir höfðu tekið sig til og hlaðið umhverfis stórt opið. Niðri var drasl, sem skilið hafði verið eftir. Gólfið er slétt. Lofthæðin er um 3 m breyddin um 7 metrar og lengdin um 20 metrar. Hann lækkar eftir því sem innar dregur. Til vinstri í rásinni er fyrrnefnt op. Það víkkar lítillega skammt innar, en svo er að sjá að það þrengist aftur. Það verður þó ekki ljóst fyrr það hefur verið skoðað að fullu, en það verður ekki gert nema af vel mjóvöxnum manni.
Holrúm virðist vera undir sléttu gólfinu vestast í hellinum. Fróðlegt væri að kíkja þar undir með aðstoð járnkarls.
Næsti hellir var u.þ.b. 25 metrum sunnan við fyrstnefnda hellinn. Hann er þar í jarðfalli. Rásin er tvískipt og um 50 metra löng.
Í þriðja hellinum er rásin um 30 m löng. Tl hliðar í henni er hægt að fara upp í heila hraunbólu.
Fjórði hellirinn er með stórt op. Botninn er sendinn. Til hægri er rás. Úr henni er hægt að komast inn í lágan sal með rauðbrúnu sléttu gólfi.
Fimmti hellirinn býður upp á þrjár leiðir. Til suðurs er löng rás. Botninn er sendinn, en svo er að sjá að fínn sandur, sem fokið hefur upp frá Vatnsheiðinni, hafi náð að safnast í lægðir og þessa hella norðan í Sundhnúknum. Rásin er ókönnuð, en hún er a.m.k. 30 metra löng. Efri rásin er um 15 metra löng. Hún endar eftir að komið er upp úr fallegri og rúmgóðri rás. Í þriðju rásinni, einnig með sendinn botn, er op til vinstri. Liggur hún niður á við, í kjallara. Í honum liggur lág rás áfram inn undir hraunið. Hún er ókönnuð.
Sjötti hellirinn hafði að geyma þröngar rásir, en mjög fallegar. Þær eru ókannaðar.
Svæðið vestan Sundhnúks er þakið rásum og hraunæðum. Í rásunum þeim eru margir hellar og skútar. Einn hellir, sem Björn lýsti, og hann hafi séð fyrir tveimur áratugum, á að vera með fallegum rauðum hraunfossi, auk margra litafbrigða. Opið er lítið og vandfundið, enda fannst hann ekki í þessari ferð. Það á að vera norðvestur af Sundhnúk. Líklegt má telja að fleiri ferðir verði farnar á þetta svæði á næstunni. Nauðsynlegt er að vera í góðum galla og með bæði vettlinga og húfu til hlífðar.

Sundhnúkur

Skúti við Sundhnúk.

Sundhnúkur
Gengið var til austurs yfir Arnarseturshraun, yfir í Skógfellshraun og upp á tindinn á austanverðu Stóra-Skógfelli. Frá því er stórbrotið útsýni yfir svo til alla gígaröð Sundhnúka. Sjá mátti yfir í nyrstu gígana í röðinni í hrauninu milli fellsins og Fagradalsfjalls, og síðan hvern á fætur annan áleiðis til suðurs, uns komið var að sjálfum Sundhnúknum utan í austanverðu Hagafelli. Það fell er ekki síst þekkt af Gálgaklettunum, sem þar eru. Gígaröðin liggur áfram til suðvesturs norðan við Hagafellið og niður af því að vestanverðu. Um er að ræða sömu sprungureinina, en óvíst er hvort um sama gosið hafi verið að ræða og í sjálfri Sundhnúkaröðinni.
Þoka grúfði yfir þegar komið var upp á Stóra-Skógfell (190 m.y.s). Eftir svolitla bið rann hún hjá og landið lá sem landakort fyrir neðan. Fallegur gígur er austan við fellið, en suðvestan hans er samfell gígaröð að Sundhnúknum.
Haldið var niður af Stóra-Skógfelli og gengið að nyrsta gígnum í hinni samfelldu gígaröð. Frá honum var gígaröðinni fylgt til suðurs, sum staðar eftir Skógfellastígnum, sem liggur þar austan við hana. Víða mátti sjá fallega og litskrúðuga klepra í gígbörmum með hinum ýmsustu myndunum.
Hver gígurinn tók við af öðrum – hver öðrum glæsilegri. Varla þarf að taka fram að þarna er um óraskaða gígaröð að ræða, enda nú komin á náttúruminjaskrá sem einstakt náttúruvætti.
Dalahraun liggur austan Sundhnúkaraðarinnar og norðan Vatnsheiðar. Hraunið í því er allslétt og má því vel sjá hraunskilin í annars úfunu apalhrauninu.
Sprungureinakerfin á Reykjanesskaganum eru fjögur eða jafnvel fimm, eftir því hvernig þau eru metin. Óvéfengjanleg eru þó vestustu svæðin, þ.e. á sjálfu Reykjanesinu vestan Krýsuvíkur. Þar fyrir austan eru Brennisteins- og Hengilssæðin með tiheyrandi sprungureinakerfi.
Sprungureinakerfi Reykjanessins er dæmigert fyrir slík svæði. Gosið hefur á a.m.k. þremur sprungureinum með 2 til 3 km millibili. Á hverri rein hefur einnig gosið oftar en einu sinni, sbr. Stampana, en þar má sjá a.m.k. þrjár gígaraðir frá mismunandi tímum.

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Sprunureinakerfin 3 eru Stampar vestast, þá Eldvörp og Sundhnúkarnir austast. Sandfellshæðin og Þráinsskjöldur eru dyngjur á þessum reinum. Jón Jónsson, jarðfræðingur (1978) telur að öll þessi kerfi hafi verið virk á sögulegum tíma. Samkvæmt upplýsingum ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) eru Stampa- og Eldvarpahraunin um 2000 ára gömul og svo mun einnig vera um Sundhnúkaröðina.
Gengið var eftir Reykjaveginum, sem kemur þarna yfir Dalahraunið frá Drykkjarsteinsdal, upp að hinum hrikalegu Gálgaklettum í Hagafelli. Spurst var fyrir um aftökustaðinn sjálfan. Freystandi var að kveða á um einn tiltekinn stað umfram annan, en raunin er hins vegar sú að staðurinn var aldrei notaður sem aftökustaður. Tilvísun til slíks er einungis til í einni þjóðsögu af þjófum er héldu til í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli. Í henni segir m.a. að sé sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.

Hagafell

Hagafell.

Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.
Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar.
Klettarnir eru bæði tilkomumikill og áhrifaríkur staður, svo áhrifaríkur að sagan gæti alveg eins átt við rök að styðjast. Í klettunum sjálfum má sjá einstakar bólstrabergsmyndanir.
Gígaröðinni var fylgt áfram til suðvesturs. „Yfirvaldið“ frá fyrrum má enn sjá greypt í stein vestan Gálgakletta. Myndarlegur gígur er sunnan í Hagafellinu og fleiri á hraunsléttunni suðvestar, skammt fyrir ofan Grindavík. Úr gígnum hefur runnið hraun um fagurformaða hrauntröð, sem nýtur sín vel þegar staðið er upp á brúninni.
Haldið var niður hraunið og áleiðis niður í Grindavík.
Um er að ræða tilvalda gönguleið fyrir áhugafólk um umhverfislega fegurð og mikilfengleik jarðfræðinnar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.