Grindavík

Fjórða eldgosið ofan Grindavíkur, á milli Sundhnúkagígaraðarinnar og Stóra-Skógfells, hófst kl. 20:23 þann 16. mars 2024. Þetta er sjöunda hrinan í röð eldgosa á þessum sveimi síðan 2021.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars. 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024 og þriðja 8. febrúar 2024. Fyrri goshrinurnar voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, en líklegt er að þessi verði svolítið langlífari í tíma, þótt einnig skammvinn verði, að mati sérfræðinga. Eitt er þó víst – við getum átt von á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum möguleikum.

Sprungan að þessu sinni er 3-4 km löng. Hraun rennur mestmegnis til suðvesturs á þessu stigi, en einnig til suðausturs í átt að Hrauni og Sloka. Bjarminn sést víða í kvöldhúminu á Suðvesturhorninu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars. 2024.

Fyrirvari að aðdraganda gossins að þessu sinni var u.þ.b. ein mínúta.
Um er að ræða stórkostlegt sjónarspil náttúruaflanna þar sem þau sýna ofurmátt sinn gagnvart okkur mannfólkinu.

Gosið er nokkrun veginn á sömu slóðum og gosið sem varð 18. desember. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Fyrstu klukkustundirnar munu þó skera úr um það. Hraunið er óvenjuþunnfljótandi og rennur því hratt undan hallandi landinu s.s. fyrr er lýst.

Sjá myndir úr eldgosunum fjórum við Sundhnúk.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars 2024.