Haldið var á ný inn á hraunin suðaustan Litla-Skógfells. Ætlunin var að skoða sprunguna betur nyrst á Sundhnúkagígaröðinni, kíkja niður í hana á nokkrum stöðum og athuga hvort þar kynni eitthvað óafvitað að leynast. Um er að ræða allsérstakt jarðfræðifyrirbæri, sem vert var að rannsaka nánar.
Sprungan er sá hluti gígaraðarinnar sem er ólík öðrum hlutum hennar. Þar eru gjall- og klepragígar ráðandi ásýnd, en þarna má sjá niður í sprunguna eins og hún “kom af skepnunni”. Líklegt má telja að gosið þarna hafi varið í skamman tíma, hjaðnað snögglega og færst niður (suður) eftir reininni. Í gosinu sjálfu hafa hlaðist upp klepraveggir á utanverðri reininni, en þegar gosið hætti, skyldi það eftir opin. Niður í þau má líta síðasta spöl hinnar glóandi, en storknandi síumbreytanlegu, kviku á leið upp á yfirborðið.
Sundhnúkahraunið, sem gaus á sprungurein er liggur frá sunnanverðu Hagafelli að Kálffelli fyrir u.þ.b. 2400 árum síðan er einstaklega áhugavert, einkum í tvennum skilningi; það er annars vegar dæmigert sprungureinagos og mjög aðgengilegt í nánd við byggð (Grindavík) og hins vegar er það, þrátt fyrir nálægðina við byggðina, óraskað. Gosreinin er bæði fjölbreytileg og einstök.
Að sunnanverðu er hún dæmigerð glepra- og gjallgígaröð, en að norðanverðu er um að ræða sprungu þar sem þunnfljótandi kvikan hefur leitað upp í skamman tíma, en ekki náð að fylla áður en jarðeldurinn stöðvaðist. Það bendir til tiltölulega stutta virkni, enda hefur kvikumagnið ekki verið mikið, aðallega þó þunnfljótandi í fyrstu, en þegar á leið hefur kvikan orðið þykkari og myndað apalhraun ofan á hluta helluhraunsins.
Haldið var upp eftir slóða um úfið Arnarseturshraunið (það er einungis úfið í jaðrana eins og þarna. Einhverjum hefur einhvern tímann dottið í huga að fara með jarðýtu þessa leið í gegnum annars ósnert hraunið í einhvers konar tilgangi. Tilgangurinn kom í ljós þegar komið var að vesturhorni fellsins. Þar hafði verið ýtt úr hlíðinni nokkru efni, líkt og til að kanna “innihaldið”. Einhver námuáhugamaðurinn hefur gert sér þetta að verkefni, en með leyfi hvers eða hverra?
Þegar komið var upp fyrir Litla-Skógfell var farið yfir hinn forna Skógfellaveg, klappaðan í harða hraunhelluna. Augljós má telja að þarna hafði verið allmikil umferð manna og dýra um aldir, allt frá því að land byggðist. Sandakravegurinn liggur til suðausturs af Skógfellavegi skammt norðan Stóra-Skógfells, en einhvern veginn liggur í loftinu, miðað við aðstæður og ásýnd veganna, að sá vegur sem og Skógfellagatan suðaustan Litla-Skógfells, hafi verið aðalgatan milli Suðurstrandarinnar og Útnesja. Þá hefur gatan væntanlega gengið undir öðru nafni, s.s. Suðurstrandarvegur eða Útnesjavegur, sbr. Selvogsgata og Suðurfararvegur.
Byrjað var athugunina nyrst á sprungusvæði Sundhnúkagígaraðarinnar. Farið var niður í sprunguna á nokkrum stöðum, en hún virtist ekki árennileg.
Gígurinn syðst á þessum hluta reinarinnar er hins vegar formfagur. Sunnan hans er hellisskúti, ágætt skjól.
Gengið var inn á slétthraunið norðaustan Rauðhóls. Þar liggur “Sandakravegurinn” um sléttuna, djúpt markaður í klöppina. Líklegra verður þó að telja að þarna hafi legið meginþjóðleiðin milli Suðurstrandarinnar og Útnesja. Götunni var fylgt til vesturs. Telja verður ótrúlegt að gatan hafi einungis verið tengigata.
Þegar komið er áleiðis að merktum gatnamótum Skógfellavegar verður gatan óljósari. Hins vegar, þegar skoðað er umhverfi vörðu við Skógfellaveg nokkru norðar, verður að telja líklegra að gatnamótin kunni að liggja þar nálægt. Hlaðið hefur verið vörðulíki skammt suðaustar, eins og einhver hafi viljað benda á að þar kynnu að vera gatnamót. Það virðist réttmæt ábending.
Fyrrnefnd varða er með stefnumið og svo er að sjá að frá henni liggi beinast við að “Sandakraleiðin” hafi legið upp slétt mosahraunið.
Skógfellagatan er djúpt mörkuð í klöppina er líður að Litla-Skógfelli. Sjá má að þarna hefur verið mikil umferð fyrrum. Gamla gatna liggur á kafla, djúpt mörkuð í helluna, svolítið austar en varðaða gatan er nú.
Þessi gata hefur legið þarna um slétt helluhraunið og verið aðalleiðin milli Suðurstrandarinnar og Útnesja, sem fyrr segir. Út frá henni eru hliðarleiðir, ef vel er að gáð. Hraunhellan er órsökuð frá því að land byggðist og verður því að teljast merkileg fornleif í skilningi Þjóðminjalaga.
Frábært veður. Ferðin tók 3 klst og 3 mín.