Reykjanes

Stefán Einarsson krifaði um “Áttatáknanir í íslensku nú á dögum” í Skírni árið 1952:

Reykjanesskagi - gömlu þóðleiðirnar

Reykjanesskagi – gömlu þjóðleiðirnar; ÓSÁ.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

“Bjarni Sæmundsson hefur af venjulegri nákvæmni lýst áttunum í sinni sveit, „Suðurkjálkanum“, í Árbók F.l. 1936, 22—53, og skal eg tilfæra það, sem hann segir um þetta.
„Eina leiðin af Inn-nesjum og úr Hafnarfirði til þeirra byggða Suðurkjálkans, sem liggja að Faxaflóa, er, ásamt byggðunum sjálfum, í daglegu tali nefnd „suður með sjó“ (t. d. fer maður suður með sjó, til þess að finna mann, sem býr einhvers staðar „Suður með sjó“), en um hinar byggðirnar er sagt „suður í“. Hinsvegar fara menn úr öllum sveitum kjálkans (að Krýsuvík meðtaldri) „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík og til Inn-nesja yfirleitt, og margt er þarnaa suður um skagann, eins og víðar, skrítið í stefnutáknun manna, þegar farið er í aðrar sveitir, og erfitt fyrir ókunnuga að átta sig á því….“ (bls. 27).

„Úr Grindavík liggja gamlir vegir „út“ eða „suður“ í Hafnir, „suður“ eða „niður“ í Njarðvíkur (Skipstíg), „suður“ eða „út“ í Leiru og Garð og „út“ á Nes, „niður“ eða „inn“ í Voga (Skógfellavegur), „inn“ á Vatnsleysuströnd o. s. frv., en úr öllum þessum byggðum er farið „upp“ í Grindavík. Úr „Víkinni“ er farið „inn“ í eða „upp“ í Fjall, Móhálsa, og „upp“ að Krýsuvík og austur í Herdísarvík, Selvog (“Vog”) o. s. frv. Eru þessar áttatáknanir æði torskildar fyrir ókunnuga, sumar hverjar, eins og t. d. suður í Njarðvikur, sem er nærri í norður úr Grindavík. En það er viða margt skrítið í þessu tilliti“ (bls. 42).

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Þótt áttatáknanir þessar séu ærið torskildar fyrir „ókunnuga“, þá skýrist málið fljótt, ef litið er á kort af Reykjanesi.

Tvennt verða menn líka að hafa í huga, það fyrst, að á veginum milli Garðs og Hafnarfjarðar eftir norðurströnd Reykjaness eru andstæðurnar suður:inn, og það annað, að milli norður- og suðurstrandar Reykjaness eru andstæðurnar niður:upp (= N:S). Grindvíkingurinn gengur þannig fyrst niður, þar til hann kemur á veginn, sem liggur suður og inn með norðurströndinni. Þurfi hann þá að ganga suður til þess að komast í áfangastað, er kallað, að þeir staðir liggi suður frá Grindavík. Þurfi hann aftur á móti að ganga inn með ströndinni, liggja þeir staðir allir inn frá Grindavík.”

Heimild:
-Skírnir – 1. tölublað (01.01.1952), Stefán Einarsson, Áttatáknanir í íslensku nú á dögum, bls. 11-12.

Reykjanes

Reykjanes – örnefni og áttarhugtök.