Færslur

Reykjanesskagi

Þegar forleifaskráningar einstakra svæða eru skoðaðar mætti ætla að forfeður og -mæður hefðu farið í þyrlum frá einum stað til annars því sjaldnast er þar getið um vegi, götur eða leiðir þeirra á millum.

Kristborg Þórsdóttir

Kristborg Þórsdóttir.

Í grein Kristborgar Þórsdóttur,í riti Fornleifafræðingafélags Íslands árið 2012 má m.a. lesa eftirfarandi um “Fornar leiðir á Íslandi: tillaga að skilgreiningu, flokkun og skráningu”:
“Landslag Íslands er afar fjölbreytt. Það hefur vafalaust mótað Íslendinga og haft mikil áhrif á það hvernig þeir ferðuðust og höfðu samskipti hver við annan. Strax eftir komu manna hingað til lands hafa þeir þurft að sigrast á helstu farartálmunum og finna hentugar leiðir milli sveita og landshluta.

Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur samgöngukerfið verið í stöðugri þróun. Það hefur smám saman þéttst eftir því sem íbúunum fjölgaði og línur skýrst eftir því sem búseta, valdamiðstöðvar og stofnanir festust í sessi.

Reykjanes - fornar leiðir

Reykjanesskagi – fornar leiðir (ÓSÁ).

Þær leiðir sem Íslendingar hafa þrætt í gegnum aldirnar geyma fjölbreytilegar og mikilvægar upplýsingar um heim fortíðar, hvernig fólk hefur sigrast á hindrunum í vegi sínum, hvert farið var og í hvaða tilgangi.
Rannsóknum á fornum leiðum á Íslandi hefur hingað til verið lítið sinnt. Leiðir hafa ekki verið skráðar nægilega markvisst eða skipulega en það má að hluta til rekja til skorts á hentugri aðferðafræði við öflun gagna og úrvinnslu þeirra. Þetta efni hefur þó ekki verið hundsað með öllu og hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir, bæði af fornleifafræðingum og sagnfræðingum, sem lúta að leiðum og samgöngum fyrri alda.

Reykjanes

Reykjanes og Rosmhvalanes – fornar leiðir (ÓSÁ).

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvaða ávinning má hafa af því að skrá leiðir með skipulegum og samræmdum hætti og hvaða rannsóknir er hægt að gera sem byggja á skráningunni. Augljóst er að leiðir á að skrá eins og aðrar fornminjar. Þær eru áhugaverðar í sjálfu sér og jafnréttháar öðrum fornminjum. Það sem leiðir geta sagt okkur um fortíðina er margþætt þar sem þær hafa tengt öll athafnasvæði manna og ættu að endurspegla mikilvægi áfangastaða og breytingar á því. Samgönguminjar á leiðum eru spennandi rannsóknarefni og er hægt að kanna gerð þeirra og aldur.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Við höfum litla vitneskju um hvernig samgöngumannvirki voru gerð og úr hverju, hverjir stóðu fyrir framkvæmdum við þær og hverjir unnu við þær. Rannsóknir á leiðum geta hjálpað okkur við að finna svör við spurningum á borð við: Hvernig endurspeglar samgöngukerfið völd? Hvert var fólk að fara og til hvers?
Hvernig hafa breytingar á loftslagi og landslagi breytt samgöngukerfinu? Hvernig hefur gerð og viðhald vega og samgöngumannvirkja breyst í gegnum tíðina?
Rannsóknir á samgöngum fyrri alda má byggja á heildstæðu gagnasafni um allar þekktar leiðir og vísbendingar um þær. Slíkt gagnasafn verður ekki til nema með því að taka aðferðir við skráningu fornra leiða til gagngerrar endurskoðunar.

Vegagerð

Vegagerð.

Leiðir eru flóknar minjar og ýmsar ástæður eru fyrir því að þær hafa ekki verið skráðar með fullnægjandi hætti. Leið er minjastaður á sama hátt og sel og þingstaður að því leyti að henni tilheyra ýmsar staðbundnar minjar sem geta haft ólík hlutverk og verið ólíkar að gerð. Leið er hins vegar ólík flestum öðrum minjastöðum að því leyti að hún er línuleg og teygir sig oft um mjög langa vegu, yfir margar jarðir, auk þess sem hún er oft illgreinanleg eða ósýnileg á löngum köflum. Um leiðir ættu þó að gilda sömu reglur og um aðra minjastaði. Svo virðist sem í flestum tilfellum séu leiðir ekki skráðar sem minjastaðir, heldur séu staðbundnar samgönguminjar sem eru hluti af tilteknum leiðum skráðar innan hverrar jarðar. Það virðist ekki vera algengt að þessar minjar séu tengdar við skilgreindar leiðir og eru þær því teknar úr samhengi við minjastaðinn – leiðina.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða. framundan.

Ekki er vænlegt til árangurs að búta minjar sem ná yfir fleiri en eina jörð niður eftir landamerkjum og hengja þær á jarðirnar sem þær tilheyra því að það gefur ranga mynd af fjölda minja í landinu og slítur þær úr samhengi við aðrar minjar sem þær tengjast. Það á einnig við um minjar sem ná yfir sýslumörk.
Hverskonar staðbundnar minjar eru til vitnis um samgöngur? Fljótt á litið virðast samgönguminjar á Íslandi vera harla fátæklegar; vörður á stangli, óljósar götur og leifar af kláfferju eða gamalli brú. En hvers konar minjar er hægt að telja til samgönguminja? Þær minjar sem tengjast samgöngum á sjó eru fyrst og fremst hafnir, lendingar og siglingamið. Þær minjar sem eru til vitnis um samgöngur á landi eru vörður sem vísa veg, götur, upphlaðnir og ruddir vegir, brýr af öllum gerðum, göngugarðar, ferjustaðir, vöð, traðir og þannig mætti áfram telja.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn – með vegvísi til norðurs.

Þetta eru ekki svo fáir minjaflokkar þegar nánar er að gáð. Það sem gerir það að verkum að samgönguminjar virðast vera fátæklegar er að þær eru sjaldan mjög sýnilegar, þær eru brotakenndar og strjálar. Sumar þessara minja eru ekki mannvirki (t.d. götur, vöð og ferjustaðir) og getur það gert skráningarmönnum erfitt fyrir þar sem oft sést lítið til slíkra minja.
Fornleifar eru oft óhlutbundnar í þeim skilningi að engin mannaverk eru sýnileg á þeim. Slíkar fornleifar eru staðir sem hafa menningarlega tengingu vegna þess að þar hafa átt sér stað ákveðnir atburðir, endurteknar athafnir, þar hafa ákveðin verk verið unnin eða þeim fylgir trú eða sögn.
Aðrar minjar sem tengjast samgöngukerfinu og geta gefið vísbendingar um ferðalög og legu leiða verða hér einnig taldar til samgönguminja.

Hvað er leið?

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjáselsstígur.

Forsenda þess að hægt sé að fjalla um fornar leiðir og skráningu þeirra á marktækan hátt er að hafa skýra skilgreiningu á því hvað fyrirbærið leið er og hvaða leiðir teljast til fornleifa. Í víðasta skilningi er það leið sem farin er milli tveggja staða þó hún sé ekki farin nema af einum manni í eitt skipti.
Leiðir sem skráðar eru sem fornleifar þurfa þó að uppfylla fleiri skilyrði. Hlutverkið leið er í leiðbeiningum um fornleifaskráningu skilgreint þannig: Leið er hverskyns skilgreinanleg leið milli tveggja staða sem farin var að jafnaði.
Lykilhugtök í þessari skilgreiningu eru skilgreinanleg leið, milli tveggja staða, farin að jafnaði. Hlutverkið leið sem þessi skilgreining á við er oftast notað þar sem tegund er annaðhvort heimild eða gata/vegur, þ.e. þar sem sýnileg ummerki um umferð hafa myndast eða verið gerð af mönnum og gefa til kynna að leið hafi verið farin reglulega um nokkurt skeið.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur á brún Stakkavíkurfjalls.

Leið þarf að vera skilgreind sem slík af einhverjum og þarf þá að vera heimild um slíkt, munnleg, rituð eða á korti. Leiðin þarf að liggja milli tveggja staða og tengja þá. Leið getur varla talist fornleif nema hún sé farin oftar en einu sinni; að það hafi verið venjan að fara tiltekna leið þegar farið var milli staðanna sem hún tengir hvort sem það hafi verið oft eða sjaldan, af mörgum eða fáum. Orðalagið að jafnaði er helst til loðið en verður látið duga enn um sinn.
Þær leiðir sem talist geta til fornleifa eru leiðir sem farnar voru fótgangandi og ríðandi fyrir tíð bílsins og mannvirkja tengdum honum. Þessi mörk geta verið óskýr þar sem fyrstu bílvegirnir voru oft á lítið breyttum leiðum sem áfram voru farnar á gamla mátann eftir komu fyrstu bílanna.
Leiðir þurfa ekki að vera sýnilegar og þær þurfa ekki að hafa verið farnar oft til að geta talist til fornleifa.

Selvogsgata

Selvogsgata undir Setbergshlíð.

Til þess að hægt sé að skrá fornar leiðir þarf samt eitthvað að gefa vísbendingu um þær. Vísbendingarnar geta verið ýmist á kortum, í rituðum eða munnlegum heimildum, sýnilegar slóðir eða mannvirki á leiðunum. Ef leiðar er getið í heimildum á þann hátt að legu hennar er lýst, staðirnir sem hún tengir eru nefndir eða nafns hennar er getið, er um skilgreinda leið að ræða sem telja ætti til fornleifa.
Þegar það sem hér hefur verið sagt er dregið saman er niðurstaðan sú að leiðir sem talist geta fornleifar eru leiðir sem farnar voru að jafnaði af ríðandi og fótgangandi fólki fyrir tíð bílsins og a) eru skilgreindar sem slíkar í heimildum eða af heimildamanni þannig að þeirra er getið með nafni, legu þeirra er lýst eða staðir nefndir sem leiðirnar tengja eða b) er hægt að skilgreina sem slíkar út frá sannfærandi minjum og staðháttum.

Hvernig eru leiðir ólíkar öðrum fornleifum?

Méltunnuklif

Gamli Krýsuvíkurvegur – Méltunnuklif.

Leiðir eru samkvæmt ofansögðu að miklu leyti huglæg fyrirbæri. Miðað við hversu víða leiðir liggja er mjög lítill hluti þeirra manngerður. Það sem greinir leiðir frá mörgum öðrum fornleifum er að innan þeirra eru minjar – minjar sem tilheyra leiðinni, minjar innan minjanna. Hægt er að segja að leiðir eigi þetta sameiginlegt með t.d. seljum og bæjarhólum en þeir minjastaðir eru mjög afmarkaðir í rúmi og auðveldara að sjá þá í samhengi.
Leiðir geta hins vegar teygt sig um langan veg og erfitt er að hafa yfirsýn yfir leiðir í heild ef þær eru ógreinilegar og flóknar.

Flokkun leiða

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Gagnlegt er að skoða orðanotkun um samgöngur í gömlum heimildum til þess að átta sig á skilningi þeirra sem á undan hafa farið á leiðum og flokkun þeirra.
Líklegt er að orðið gata hafi verið notað um slóðir og troðninga sem myndast hafa milli bæja fyrst eftir landnám Íslands. Þetta orð hafði mjög almenna merkingu, það gat táknað troðninga eftir skepnur, en það var einnig notað um slóðir og stíga sem urðu til af umferð manna í samsetningum á borð við alþýðugata, almenningsgata, reiðgata o.s.frv. Á þjóðveldistímanum virðist orðið braut vera notað um rudda eða hlaðna vegi, sbr. þjóðbraut og akbraut en einnig í örnefnum á borð við Brautarholt. Orðið vegur er hins vegar ekki mikið notað um götur fyrr en í Jónsbók en til forna hefur það oftast verið notað í almennri merkingu; koma um langan veg, vegalengd. Orðið leið er að sama skapi notað í almennri merkingu; fara sína leið.

Alfaraleið

Alfaraleið um Draugadali.

Snemma hefur verið farið að gera greinarmun á leiðum sem voru fjölfarnar og almennar og þeim sem sjaldnar voru farnar. Fyrrnefndu leiðirnar voru kallaðar þjóðleiðir í merkingunni alfaraleið. Einnig voru höfð um alfaraleiðir orðin þjóðbraut, þjóðgata, þjóðvegur eða almannavegur. Þessi orðnotkun hefur haldist óbreytt og hafa þessi orð lengi verið notuð um helstu vegi innan héraða og milli þeirra.

Skipsstígur

Skipsstígur – endurbættur skv. “nútíma” kröfum.

Í Jónsbók (2004) er kveðið á um það hvernig þjóðgata eigi að vera en hún átti að vera 5 álna breið (um 3 m) og vera þar sem hún hafði verið að fornu fari. Með réttarbót Eiríks Magnússonar frá 1294 varð það hlutverk lögmanna og sýslumanna að ákveða hvar almannavegur var mestur (þjóðgata) og áttu bændur að vinna við að gera þær leiðir færar.

Flokkun leiða í lögum á 18. og 19. öld
Af heimildum að dæma virðist lítið hafa farið fyrir opinberum afskiptum af samgöngumálum á Íslandi fyrr en seint á 18. öld er svokölluð Landsnefnd sem skipuð var af Danakonungi árið 1770 lagði grunninn að tilskipun um samgöngur sem var gefin út af konungi árið 1776.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn.

Í þessari tilskipun er vegum skipt í byggðavegi og fjallvegi (Lovsamling for Island IV, 1854). Mönnum var skylt að vinna við vegabætur án kaups og var vinnukvöðin mjög misjöfn eftir því hversu mikil umferð var á hverjum stað (Lovsamling for Island IV, 1854). C.E. Bardenfleth stiftamtmaður flutti frumvarp um vegabætur árið 1839 þar sem hann leggur til að vegir skuli flokkaðir í þjóðbrautir (lestavegi) og aukavegi (stigu). Einn þjóðvegur (þjóðbraut) átti að vera um hverja sýslu og áttu allir sýslubúar að vinna við þjóðvegi.

Breiðagerði

Breiðagerði – gamli vagnvegurinn (Almenningsvegurinn) að Knarrarnesi. Í fornleifaskráningu er vegagerðin skráð sem “garður”?

Þetta fyrirkomulag átti að jafna vinnukvöð manna óháð því hvar þeir voru í sveit settir (Tíðindi frá nefndarfundum íslenzkra embættismanna í Reykjavík árin 1839 og 1841). Skipting Bardenfleths í þjóðvegi og aukavegi var tekin upp í tilskipun um vegi 15. mars 1861. Þjóðvegur var skilgreindur sem leið sem íbúar eins eða fleiri héraða fóru um í kaupstað, fiskiver eða annan samkomustað manna. Einnig áttu alfaravegir milli sýslna (þó ekki væru fjölfarnir) og almennir póstvegir að teljast þjóðvegir (Lovsamling for Island VIII, 1854). Í kjölfar vega tilskipunarinnar frá 1861 urðu fjallvegir að mestu útundan þar sem ekki var gerður greinarmunur á þeim og vegum í byggð og minni ástæða þótti að gera bætur á þeim en byggðavegum (Alþingistíðindi II 1875).

Bollastaðir

Bollastaðir í Kjós – atvinnubótavegabútur án áframhalds.

Í stað vinnukvaðar við þjóðvegi greiddu menn nú þjóðvegagjald og vinnu við þjóðvegi átti að bjóða út (Lovsamling for Island VIII, 1854). Við það að vinnukvöðinni var aflétt við þjóðvegi varð ákveðin tilhneiging í þá átt að fleiri vegir væru flokkaðir með þjóðvegum en áður þar sem kostnaður við þá var greiddur af almannafé en áfram var vinnukvöð á aukavegum (Alþingistíðindi II 1875).
Áfram var skilgreiningum á leiðum breytt og því hver skyldi standa straum af kostnaði við vegaframkvæmdir. Með lögum frá 1875 var vegum skipt í fjall- og byggðavegi og þeim síðarnefndu í sýsluvegi og hreppavegi. Sýsluvegir hétu þeir vegir sem lágu milli sýslna og voru í það minnsta hálf þingmannaleið. Einn sýsluvegur átti að vera um hverja sýslu og ef sýslur voru víðlendar skyldu þeir jafnvel vera tveir.

Svínaskarðsvegur

Svínaskarðsvegur.

Fjallvegir töldust þeir vegir sem lágu milli landsfjórðunga eða sýslna og voru þingmannleið eða lengri. Kostnað við fjallvegi greiddi Landssjóður en vinna við alla byggðavegi var nú greidd af almannafé og síðar einnig með framlögum frá Landssjóði (Alþingistíðindi II 1875, 1875-1876). Í aðalatriðum hélst þessi skipting næstu árin og fram á 20. öld en með lögum 1894 var vegum skipt í fjallvegi, flutningabrautir (helstu vöruflutningaleiðir héraða), þjóðvegi (aðalpóstleiðir), sýsluvegi og hreppsvegi (Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1894 A, 1874).
Stöðugar endurskilgreiningar á leiðum og endurmat á mikilvægi þeirra orsakaðist af því að mikill kostnaður fór í vegabætur og vegagerð og vanda þurfti valið á þeim leiðum sem úthlutun fengu úr sjóðum.

Orðanotkun um leiðir í Sýslu- og sóknalýsingum

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Í Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenzka bókmenntafélags sem safnað var á árunum 1839-1873 er spurt um samgöngur í sýslum og sóknum landsins. Var spurningin um samgöngur í sóknum á þessa leið: Hvar liggja alfaravegir um sóknina og úr henni í aðrar sóknir á alla vegu (fjallvegalengd eftir ágizkun)? – Vegabætur: ruðningar, brýr, vörður, sæluhús o.s.frv.? – Torfærur: hvernig þeim sé varið, og hvort úr þeim verður bætt (áfangastaðir á fjallvegum)? Hverjir bæir standa næstir fjallvegum báðum megin?
Svipuð spurning um alfaravegi í sýslum og úr þeim í aðrar var lögð fyrir sýslumenn. Hér er orðið alfaravegur notað og mun það hafa verið almennt hugtak um leið sem farin var af mörgum. Líklegt er að það nái að minnsta kosti yfir þær leiðir sem flokkaðar eru til þjóðvega í tilskipun um vegi frá 1861 enda er það nokkuð víð skilgreining.

Almenningsvegur

Almenninsgvegurinn um Vatnsleysuströnd.

Lausleg athugun á hugtakanotkun um vegi í sóknalýsingum nokkurra sýslna leiddi í ljós að flestir tala um alfaravegi (enda spurt um þá) eða almannavegi og leggja þá oft að jöfnu við þjóðvegi. Aðrir gera greinarmun á alfaravegi og þjóðvegi en það kann að vera af því að frá 1861 eru í gildi lög þar sem skýrt er kveðið á um hvaða vegir skuli kallast þjóðvegir. Á a.m.k. einum stað (Lýsing Árnessóknar, 1952) er dregið í efa að leið sem farin er af fáum öðrum en sóknarmönnum geti kallast alfaravegur.
Það virðist því hafa verið svipaður skilningur milli manna á hugtakinu alfaravegur – að það hafi verið fjölfarin og almenn leið íbúa eins eða fleiri héraða.”

Framangreind skrif eru ágætt innlegg í umræðuna um mikilvægi samgangna fyrrum sem og varðveislu þeirra sem fornminja til framtíðar.

Heimild:
Kristborg Þórsdóttir. “Fornar leiðir á Íslandi: tillaga að skilgreiningu, flokkun og skráningu, rit Fornleifafræðingafélags Íslands 2012, bls. 34- 47.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Reykjanes

Stefán Einarsson krifaði um “Áttatáknanir í íslensku nú á dögum” í Skírni árið 1952:

Reykjanesskagi - gömlu þóðleiðirnar

Reykjanesskagi – gömlu þjóðleiðirnar; ÓSÁ.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

“Bjarni Sæmundsson hefur af venjulegri nákvæmni lýst áttunum í sinni sveit, „Suðurkjálkanum“, í Árbók F.l. 1936, 22—53, og skal eg tilfæra það, sem hann segir um þetta.
„Eina leiðin af Inn-nesjum og úr Hafnarfirði til þeirra byggða Suðurkjálkans, sem liggja að Faxaflóa, er, ásamt byggðunum sjálfum, í daglegu tali nefnd „suður með sjó“ (t. d. fer maður suður með sjó, til þess að finna mann, sem býr einhvers staðar „Suður með sjó“), en um hinar byggðirnar er sagt „suður í“. Hinsvegar fara menn úr öllum sveitum kjálkans (að Krýsuvík meðtaldri) „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík og til Inn-nesja yfirleitt, og margt er þarnaa suður um skagann, eins og víðar, skrítið í stefnutáknun manna, þegar farið er í aðrar sveitir, og erfitt fyrir ókunnuga að átta sig á því….“ (bls. 27).

„Úr Grindavík liggja gamlir vegir „út“ eða „suður“ í Hafnir, „suður“ eða „niður“ í Njarðvíkur (Skipstíg), „suður“ eða „út“ í Leiru og Garð og „út“ á Nes, „niður“ eða „inn“ í Voga (Skógfellavegur), „inn“ á Vatnsleysuströnd o. s. frv., en úr öllum þessum byggðum er farið „upp“ í Grindavík. Úr „Víkinni“ er farið „inn“ í eða „upp“ í Fjall, Móhálsa, og „upp“ að Krýsuvík og austur í Herdísarvík, Selvog (“Vog”) o. s. frv. Eru þessar áttatáknanir æði torskildar fyrir ókunnuga, sumar hverjar, eins og t. d. suður í Njarðvikur, sem er nærri í norður úr Grindavík. En það er viða margt skrítið í þessu tilliti“ (bls. 42).

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Þótt áttatáknanir þessar séu ærið torskildar fyrir „ókunnuga“, þá skýrist málið fljótt, ef litið er á kort af Reykjanesi.

Tvennt verða menn líka að hafa í huga, það fyrst, að á veginum milli Garðs og Hafnarfjarðar eftir norðurströnd Reykjaness eru andstæðurnar suður:inn, og það annað, að milli norður- og suðurstrandar Reykjaness eru andstæðurnar niður:upp (= N:S). Grindvíkingurinn gengur þannig fyrst niður, þar til hann kemur á veginn, sem liggur suður og inn með norðurströndinni. Þurfi hann þá að ganga suður til þess að komast í áfangastað, er kallað, að þeir staðir liggi suður frá Grindavík. Þurfi hann aftur á móti að ganga inn með ströndinni, liggja þeir staðir allir inn frá Grindavík.”

Heimild:
-Skírnir – 1. tölublað (01.01.1952), Stefán Einarsson, Áttatáknanir í íslensku nú á dögum, bls. 11-12.

Reykjanes

Reykjanes – örnefni og áttarhugtök.

Sveifluháls
Gata/leið: Upphaf: Endir:
Alfaraleið- Víðisandur Draugagjár
Alfaraleið- Hafnarfjörður Útnes
Alfaraleið- Hellisskarðsleið Elliðavatn
Alfaraleið- Reykjavík Hvalfjarðarbotn
Alfaraleið- Hvassahraun Hafnarfjörður
Alfaraleið- Hraunsholt Elliðavatn
Almenningsvegur- Vogar Hvassahraun
Arnarseturshraunsst.- Svartsengisfjall Arnarsetur
Auðnaselsstígur- Auðnir Auðnasel
Álftanesgata (Fóg.g.)- Bessastaðir Reykjavík
Álftanesstígur- Álftanes Hafnarfjörður
Árnastígur- N/Þórðarfells Húsatóttir
Bakkastígur- Bakki að sjó
Brauðstígur- Húsatóttir Eldvörp
Brennisteinsfjallast.- Grindarskörð Brennisteinsfjöll
Brúnir- Skógfellavegur um Brúnir
Bæjarskersleið- Bæjarsker Sandgerðisleið
Dalaleið- Kaldárbotnar Breiðdalur
Drumbsdalaleið- Sveifluháls Krýsuvík
Eiríksvegur- Akurgerðisslakkar Vatnsleysa
Eyrargata- Hraun Þórkötlustaðanes
Eldborgarstígur- Krýsuvík Hlíð
Engidalsstígur- Engidalur Gamla Fjarðargata
Eyrargata- Þórkötlustaðir Staður
Eystrileið – lestarg.- Selatöngum Krýsuvík
Fjárskjólshraunsst.- Fjárskjólshraun Herdísarvíkurhr.
Flatahraunsgata- Engidalur Hafnarfjörður
Fornugötur- Hásteinsflag Bjarnastaðir
Fógetastígur- Garðabær Bessastaðir
Fuglavíkurvegur- Fuglavík Keflavík
Gamli-Stapavegur- Vogar Njarðvík
Gamlivegur- Breiðagerði Strandarvegur
Gamlivegur- Seljabót Geitahlíð
Gamli-vegur- Vestan Fuglav. stubbur
Gamli-vegur- Vatnsleysu Nes
Garðagata Garðar- Álftanesgata
Garðsvegur- Keflavík Garður
Gálgahraunsstígur- Álftanesgata Fógetastígur
Gálgahraunsstígur n.- Gálgaklettar Troðningar
Gálgastígur (Sakam.)-Álftanesgata Gálgaklettar
Gerðisstígurinn- Herdísarvík Austurtúnið
Gjáarréttargötur- Þingnesslóð Gjárrétt
Grásteinsstígur- Hraunhornsflöt Kolanefsflöt
Grunnavatnsstígur- Vífilstaðalækur Vatnsendaborg
Gvendarstígur- Lækur Gvendarhellir
Gyltustígur- vestast á sunnanv. Þorbirni
Hafnarbergsgata- Sandhöfn Valahnjúkar
Hagakotsstígur- Hagakot Urriðakot
Hausastaðasjávarg.- Hausastaðir að sjó
Hálsagötur- Núpshlíðaháls
Heiðarvegur- Ólafsskarðsvegur Grindarskörð
Heljarstígur- yfir Hrafnagjá
Hellisheiðavegur- Hveragerði Kolviðarhóll
Hellisvörðuleið- Víðisandur Herdísarvíkurhraun
Herdísarvíkurstígur- Herdísarvík Herdísarvíkursel
Hetturstígur- Vigdísavellir Krýsuvík
Hjallatroðningar- Hjallar Gjárrétt
Hlíðarskarð- Hlíðarvatn Selvogsgata
Hlíðarvegur- Kaldársel Krýsuvík
Hlíðarvegur- Stakkavíkurvegur Hlíðarvatn
Hlíðargata- Hlíð Lyngskjöldur
Hraunselsstígur- Hraunssel Grindavík
Hraunsholtsstekksst.- Stekkjarlaut stekkur
Hrauntungustígur- Ófriðastaðir Norlingagata
Hrauntungustígur- Hrauntunga Stórhöfðastígur
Hrísatóarst.-Seltóarst- Seltó Rauðhólsselsstígur
Hrísatóustígur- Tóustígur Rauðhólsselsstígur
Hrossagata (Kaupst.)- Ósabotnar Stafnes
Húshólmsstígur- Húshólmi Krýsuvík
Hvalsnesvegur- Hvalsnes Keflavík
Hvammahraunsstígur- Vatnshlíð Gullbringa
Hvassahraunsselsst.- Hvassahraun Hvassahraunssel
Höskuldarvallastígur- Oddafell Keilir
Jónshellastígur- Lækjarbrú Jónshellar
Kaldárselsstígur- Hafnarfjörður Kaldársel
Kaldárselsstígur- Ófriðastaðir Norlingagata
Kaldárselsvegur- Kaldársel Undirhlíðavegur
Kaupst.v.(Hrossag)- Ósabotnar Stafnes
Keflavíkurvegur- Keflavík Sandgerði
Kerlingaskarð- Selvogsgata Grindarskörð
Ketilsstígur – Seltún Móhálsadalur
Kirkjubólsvegur- Kirkjuból á Garðsveg v/Leiru
Kirkjubraut- Hafnarfjörður Garðar
Kirkjustígur- Stórikrókur Garðar
Kirkjuv. – Prestav.- Vogsósar Strandarkirkja
Kleifarvallaskarð- Kleifarvellir Stakkavíkurfjall
Knarranesselsstígur- Knarrarnes Knarrarnessel
Kúadalastígur- Kúadalir Urriðakotshraun
Kúastígur- Kaldársel Kúadalur
Kúastígur- Vogar Hrafnagjá
Kúastígur- Brunnastaðir Kúadalir
Lambafellsstígur- Sóleyjarkriki Lambafell
Lágaskarðsleið- Hveragerði Reykjavík
Lindargata- Garðar Garðalind
Löngubrekkustígur- Vífilsstaðir Kaldársel
Melabergsvegur- Melaberg Keflavík
Méltunnuklif- Krýsuvíkurvegur Sandakravegur
Mosaskarð- Dalurinn Herdísarvíkurfjall
Mosastígur- Herdísarvík Herdísarvíkurfjall
Mosastígur- Straumur Dyngjur
Náttahagastígur Flöt Stakkavíkurfjall
Nessvegur að Hvalsnesi
Norðlingagata- Hraunsholtslækur Hafnarfjörður
Oddafellsstígur- Höskuldavellir Selsvellir
Ólafsskarðsvegur- Ölfus Reykjavík
Ólafsskarðsvegur- Ölfus Hellisskarðsleið
Ósastígur- Básendar Gamli-Kirkjuvogur
Óttastaðaselsstígur- Óttarstaðir Óttarstaðasel
Prestsstígur- Hafnir Húsatóttir
Rauðamelsstígur- Þorbjarnastaðir Almenningar
Rauðhólsstígur- Óttarstaðasel Höskuldavellir
Rauðhólsselsstígur- Vatnsleysu Rauðhólssel
Reykjanesvegur- Grindavík Reykjanes
Reykjavíkurvegur- Reykjavík Hafnarfjörður
Sandakravegur- Skógfellav. Selatangar
Sanddalavegur- Selvogur
Sandgerðisvegur- Sandgerði á Garðsveg að Keflav.
Sandhálsavegur- Selvogur
Selatangagata- Selatangar Ísólfsskáli
Seljadalsvegur- Alfaraleið Leirvogsvatn
Selskarðsstígur- Selstígur Stakkavíkursel
Selsstígur- Hlíðarvatn Herdísarvíkurfjall
Selsstígur- Hraunsholt Hraunsholtssel
Selsstígur- Maríuflöt Vílfilstaðasel
Selsstígur- Hvassahraun Hvassahraunssel
Selsstígur- Flekkuvík Flekkuvíkursel
Selsvallastígur- Selsvellir Oddafell
Selvegur- Gamlivegur Löngubrekkur
Selvogsg. (Grindars)- Hafnarfjörður Selvogur
Selvogsstígur- Selvogur Ölfus
Setbergsstígur- Setberg Norlingagata
Setbergsstígur- Setberg Hafnarfjörður
Skagagarðstígur- Útskálar Kirkjuból
Skálastígur- Ísólfsskáli Hraun
Skipsstígur – Njarðvík Staðarhverfi
Skógargatan- Óttastaðaselsstígur Sveifluháls
Skógfellavegur- Vogar Járngerðarstaðir
Sköflungur- Þingv.sveit Hafnarfjörður
Stafnesvegur- Stafnes Keflavík
Stakkavíkurvegur- Selsstígur Selvogsgata
Stapagata- Vogar Suðurnesjavegur
Stekkjargata- Alfaraleið Hofstaðatraðir
Stórhöfðastígur- Ás Ketilstígur
Stórkrókastígur- Kaffigjóta Stórikrókur
Straumsstígur- Straumur Straumssel
Suðurnesjavegur- Grímshóll Njarðvík
Sveiflustígur- Sveifluháls Krýsuvík
Tóastígur- Kúagerði Hrístóarstígur
Troðningar- Álftanesgata Hraunsholt
Undirhlíðavegur- Grindavík Innnes
Vestarileið – lestarg.- Selatangar Ísólfsskáli
Vífilstaðagata- Arnarnes Vífilstaðir
Vífilstaðarvegur- Vífilsstaðir Hafnarfjörður
Vogsósavegur- Vogsós að hraunkanti
Þórustaðastígur- Þórustaðir Núpshlíðarháls
Þráinsskjaldargata-
Ögmundahraunsv.- Méltunnuklif Núpshlíðarhorn