Járngerðardys
Tómas Þorvaldsson, barnfæddur Grindvíkingur, nú nýlátinn [2. des. 2008], var manna fróðastur um sögu og örnefni í Grindavík.
Tómas ÞorvaldssonEkki er langt um liðið síðan hann gekk rösklega að Járngerðardysinni við Járngerðarstaði, staðnæmdist og sagði: “Hér er hún”. Um var að ræða gróna þúst undan beygju á veginum framan við Vík. “Sjómennirnir gengu til skips eftir sjávargötunni frá Járngerðarstöðum, staðnæmdust hér við dysina, tóku ofan og fóru með sjóferðarbæn. Síðan gengu þeir sjávargötuna áfram að Norðurvör, hérna fyrir neðan þar sem gamla bryggjan er nú.”
Nokkrum árum síðar lögðu ómeðvitaðir aðkomumenn malbik yfir dysina. Þeir höfðu ekki vit á því að ræða við Tómas áður en gengið var til verksins.
Framangreint er nú rifjað upp vegna þess að Tómas miðlaði af margvíslegum fróðleik um staðháttu í Grindavík fyrrum, benti á örnefni og sagði frá liðnum atburðum og horfnu fólki. Eitt af því, sem kom upp í samræðum við Tómas, voru gamlar þjóðleiðir til og frá Grindavík. Skipsstíginn þekkti hann eins og fingurna á sér, staðsetti Títublaðavörðuna og Dýrfinnuhelli, lýsti leiðinni í gegnum loftskeytastöðvarsvæðið o.m.fl. Skipsstígurinn var meginleiðin milli Járngerðarstaða og Njarðvíkna (Keflavíkur). Vogaveginn þekkti hann og mjög vel, enda meginliðin milli Járngerðarstaða og Innnesja.

Hemphóll

Varða á Hemphól.

Öðrum leiðum átti Tómas ekki jafn auðvelt með að lýsa, enda fæddur um það leyti er fyrsti bílvegurinn var lagður til Grindavíkur árið 1918 (fæddur 1919). Hann hafði þó farið Prestastíginn gömlu götuna norðan Sandfellshæðar) niður að Ósum, nokkrum sinnum austur í Krýsuvík eftir Krýsuvíkurleiðinni, um Hálsana ofan við Keili niður í Hraunin við Hafnarfjörð og auk þess hafði hann einu sinni ungur farið í fylgd manna um Brúnaveginn frá Hauni í Kúagerði og áfram inn til Reykjavíkur. Því miður var ekki rætt við hann nánar um síðastnefndu leiðina, hvorki um staðháttu né legu hennar. Eitt örnefni kom þó við sögu, en það var Presthóll [Hemphóll]. Ýmist var farið um hjallann (sunnan Húsfells) eða upp Skökugil og inn fyrir Mókletta. Hvar leiðin lá nákvæmlega um Brúnirnar efst í Strandarheiði liggur ekki ljóst fyrir. Það verður því verkefni næsta vors að sporrekja heiðina ofanverða með það að markmiði að reyna að staðsetja þennan svonefnda Brúnaveg.

Sigurður Gíslason

Líklega hefur leiðin ekki verið fjölfarin, en þó hefur hún verið farin af mönnum er þekktu vel til staðhátta og vissu hvernig og hvar væri hægt að fara auðveldlega á millum svæða á sem skemmstum tíma.
Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagðist aðspurður oft hafa heyrt förður sinn, Gísla Hafliðason, tala um  Brúanveginn. Sjálfur hefði Sigurður ekki farið þá leið, en hún hefði verið aðalleiðin frá Hrauni niður í Kúagerði fyrrum. Farið var þá upp með Húsfelli og inn með því að vestanverðu, áfram inn á Sandakraveg og áfram norður með vestanverðu Fagradalsfjalli, inn á Brúnirnar og á ská niður í Kúagerði. Faðir hans, sem hafi verið frár á fæti, hefði yfirleitt farið þessa leið einn eða sem fylgdarmaður með öðrum fyrir og eftir aldamótin 1900.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.