
Nokkrum árum síðar lögðu ómeðvitaðir aðkomumenn malbik yfir dysina. Þeir höfðu ekki vit á því að ræða við Tómas áður en gengið var til verksins.
Framangreint er nú rifjað upp vegna þess að Tómas miðlaði af margvíslegum fróðleik um staðháttu í Grindavík fyrrum, benti á örnefni og sagði frá liðnum atburðum og horfnu fólki. Eitt af því, sem kom upp í samræðum við Tómas, voru gamlar þjóðleiðir til og frá Grindavík. Skipsstíginn þekkti hann eins og fingurna á sér, staðsetti Títublaðavörðuna og Dýrfinnuhelli, lýsti leiðinni í gegnum loftskeytastöðvarsvæðið o.m.fl., sjá t.d. HÉR. Skipsstígurinn var meginleiðin milli Járngerðarstaða og Njarðvíkna (Keflavíkur). Vogaveginn þekkti hann og mjög vel, enda meginliðin milli Járngerðarstaða og Innnesja.


Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagðist aðspurður oft hafa heyrt förður sinn, Gísla Hafliðason, tala um Brúanveginn. Sjálfur hefði Sigurður ekki farið þá leið, en hún hefði verið aðalleiðin frá Hrauni niður í Kúagerði fyrrum. Farið var þá upp með Húsfelli og inn með því að vestanverðu, áfram inn á Sandakraveg og áfram norður með vestanverðu Fagradalsfjalli, inn á Brúnirnar og á ská niður í Kúagerði. Faðir hans, sem hafi verið frár á fæti, hefði yfirleitt farið þessa leið einn eða sem fylgdarmaður með öðrum fyrir og eftir aldamótin 1900.