Krýsuvíkur-Mælifell

Ætlunin var að ganga á tvö samnefnd fell, Mælifell, á sunnanverðum Reyjanesskaganum. Mælifellin eru reyndar a.m.k. 12 talsins á landinu. Tvö þeirra eru fyrrnefnd fell í Krýsuvík (226 m.y.s.) og við Ísólfsskála (175 m.y.s). Þriðja Mælifellið á Reykjanesskaga (fyrrum landnámi Ingólfs) er í Grafningi.
SkjöldurMælifellin hafa verið höfð til viðmiðunar með einhverjum hætti, sem eyktamörk eða til að rata eftir, þar sem þau eru oft keilulaga og auðþekkjanleg langt að. Nafngift fellanna fylgdi og jafnan staðsetningum mælingastöðva danskra landmælinga- og kortagerðamanna um og í kringum aldarmótin 1900. Þau kort eru enn talin hin mestu nákvæmissmíð. Fleiri örnefni á Reykjanesskaganum má rekja til vinnu þeirra.
Fellin tólf með þessu nafni í landinu eru:

1) Í Grafningi í Árn.
2) Austan við Ísólfsskála í Gull. = Skála-Mælifell.
3) Vestan við Krýsuvík í Gull. = Krýsuvíkur-Mælifell.
4) Norðan Baulu í Norðurárdal í Mýr.
5) Norðan Axlarhyrnu í Staðarsveit í Snæf.
6) = Mælifellshnjúkur í Skag.
7) Í Djúpadal vestan Hleiðargarðs í Saurbæjarhr. í Eyf. Einnig nefnt Mælifellshnjúkur á kortum.
Skála-Mælifell8) Upp af Reykjahverfi í S-Þing.
9) Í Vopnafirði í N-Múl.
10) Í Álftafirði í S-Múl.
11) Á Fjallabaksleið syðri norðan Mýrdalsjökuls í V-Skaft., = Meyja(r)strútur.
12) Norðan Höfðabrekkuheiðar í Mýrdal í V-Skaft.

Krýsuvíkur-Mælifell er auðvelt uppgöngu, líkt og nafna þess ofan við Ísólfsskála. Fallegur lækur og melöldur voru á suðuröxlinni áður en haldið var upp meginásinn. Farvegur lækjarins sýndi vel kjarnabergið, sem er móberg, en ofan á því er bólstraberg, sem systkinin ís, frost, vindur og vatn hafa dunað við að brjóta niður, enda ber fellið þess glögg merki.
Uppi á kollinum er stinsteypustöpull með merki Landmælinga Íslands. “Röskun varðar refsingu” segir áletrunin, en koparskjöldurinn er nr. 3188. Stöpullinn hefur verið staðsettur þar sem gamla varðan var fyrrum. Leifar hennar má sjá neðan við þar sem hún var fyrrum. Grjótinu hefur verið hlaðið í bil milli kletta norðan undir stöpulfætinum.
VörðuleifarAf Krýsuvíkur-Mælifelli er frábært útsýni, t.d. yfir Ögmundarhraun og Húshólma, Selöldu, Sveifluháls, Bleikingsvelli. Vigdísarvelli, Núpshlíðarháls og Latsfjall, auk þess góð yfirsýn er yfir litla lækinn milli Mælifellsins og Lafsfjalls sem hefur smám saman verið að brjóta undir sig hraunið á leiðinni til sjávar.
Mælifell mun vera svokallaður móbergs- og bólstrabergsgúlpur, myndaður í eldgosi seint á ísöld. Bergkvikan var svo seig að hún hlóðst upp yfir gosopinu en rann ekki í burtu sem hraun. Mælifell er samsett úr tveimur kvikugerðum, seti og bergi. Móbergið myndar meginhluta fjallsins, sem fyrr sagði.
Fellið myndaðist á síðustu ísöld, líkt og nágrannafjöllin og hálsanir. Hefði fjallið hins vegar myndast eftir ísöld hefði efni úr því vafalaust dreifst yfir umhverfið, auk þess sem sjá má að fjallið er ekki ósnortið af jöklum.
ÚtsýniSkála-Mælifell er líkt nöfnu sinni og ekki síður auðveld uppgöngu. Það er þó ólíkt að því leyti að það hefur myndast við gos í sjó. Efri hlíðar fellsins bera þess glögg merki, m.a. rauðleitt gjallið.
Á toppi fellsins er steyptur landmælingastöpull. Koparmerkið á honum er nr. 3710. Líkt og á hinu fellinu hefur gömlu vörðunni verið raskað, grjótinu kastað til hliðar milli stórra steina. Ekki er auðvelt að sjá ástæður þess að nauðsynlegt hafi verið að raska gömlu vörðunum, eða vörðuleifunum, á fellunum.
Frábært útsýni er af Skála-Mælifelli, hvort sem litið er til Grindavíkur, grenndarhraunin (Skollahraun, Katlahraun og Ögmundarhraun), Höfða, Sandfell og Fagradalsfjall. Þá lá Leirdalur fyrir fótunum neðra.
Af Skála-Mælifelli mátti glöggt sjá hvar Gamla-Krýsuvíkurgatan lá upp frá Leirdal og áfram austur. 

Götur við Méltunnuklif

Venjulega hefur verið talið að Hlínarvegurinn hafi verið lagður yfir hana, en kaflinn frá Einihlíðum að Méltunnuklifi er að mestu óraskaður. Í stað þess að leggja veginn ofan í gömlu götuna hefur verið ákveðið að leggja hann beint af augum á þessum kafla, en gamla gatan liggur í sveig sunnan við veginn og þvert á hann ofan við klifið. Gamla veginum var fylgt þennan kafla og niður Méltunnuklifið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnastofnin Íslands.
-Þórhallur Vilmundarson: Mælifell. Lesbók Morgunblaðsins 4. og 11. júní 1994.

Gamla-Krýsuvíkurgatan