Færslur

Krýsuvíkur-Mælifell

Ætlunin var að ganga á tvö samnefnd fell, Mælifell, á sunnanverðum Reyjanesskaganum. Mælifellin eru reyndar a.m.k. 12 talsins á landinu. Tvö þeirra eru fyrrnefnd fell í Krýsuvík (226 m.y.s.) og við Ísólfsskála (175 m.y.s). Þriðja Mælifellið á Reykjanesskaga (fyrrum landnámi Ingólfs) er í Grafningi.
SkjöldurMælifellin hafa verið höfð til viðmiðunar með einhverjum hætti, sem eyktamörk eða til að rata eftir, þar sem þau eru oft keilulaga og auðþekkjanleg langt að. Nafngift fellanna fylgdi og jafnan staðsetningum mælingastöðva danskra landmælinga- og kortagerðamanna um og í kringum aldarmótin 1900. Þau kort eru enn talin hin mestu nákvæmissmíð. Fleiri örnefni á Reykjanesskaganum má rekja til vinnu þeirra.
Fellin tólf með þessu nafni í landinu eru:

1) Í Grafningi í Árn.
2) Austan við Ísólfsskála í Gull. = Skála-Mælifell.
3) Vestan við Krýsuvík í Gull. = Krýsuvíkur-Mælifell.
4) Norðan Baulu í Norðurárdal í Mýr.
5) Norðan Axlarhyrnu í Staðarsveit í Snæf.
6) = Mælifellshnjúkur í Skag.
7) Í Djúpadal vestan Hleiðargarðs í Saurbæjarhr. í Eyf. Einnig nefnt Mælifellshnjúkur á kortum.
Skála-Mælifell8) Upp af Reykjahverfi í S-Þing.
9) Í Vopnafirði í N-Múl.
10) Í Álftafirði í S-Múl.
11) Á Fjallabaksleið syðri norðan Mýrdalsjökuls í V-Skaft., = Meyja(r)strútur.
12) Norðan Höfðabrekkuheiðar í Mýrdal í V-Skaft.

Krýsuvíkur-Mælifell er auðvelt uppgöngu, líkt og nafna þess ofan við Ísólfsskála. Fallegur lækur og melöldur voru á suðuröxlinni áður en haldið var upp meginásinn. Farvegur lækjarins sýndi vel kjarnabergið, sem er móberg, en ofan á því er bólstraberg, sem systkinin ís, frost, vindur og vatn hafa dunað við að brjóta niður, enda ber fellið þess glögg merki.
Uppi á kollinum er stinsteypustöpull með merki Landmælinga Íslands. “Röskun varðar refsingu” segir áletrunin, en koparskjöldurinn er nr. 3188. Stöpullinn hefur verið staðsettur þar sem gamla varðan var fyrrum. Leifar hennar má sjá neðan við þar sem hún var fyrrum. Grjótinu hefur verið hlaðið í bil milli kletta norðan undir stöpulfætinum.
VörðuleifarAf Krýsuvíkur-Mælifelli er frábært útsýni, t.d. yfir Ögmundarhraun og Húshólma, Selöldu, Sveifluháls, Bleikingsvelli. Vigdísarvelli, Núpshlíðarháls og Latsfjall, auk þess góð yfirsýn er yfir litla lækinn milli Mælifellsins og Lafsfjalls sem hefur smám saman verið að brjóta undir sig hraunið á leiðinni til sjávar.
Mælifell mun vera svokallaður móbergs- og bólstrabergsgúlpur, myndaður í eldgosi seint á ísöld. Bergkvikan var svo seig að hún hlóðst upp yfir gosopinu en rann ekki í burtu sem hraun. Mælifell er samsett úr tveimur kvikugerðum, seti og bergi. Móbergið myndar meginhluta fjallsins, sem fyrr sagði.
Fellið myndaðist á síðustu ísöld, líkt og nágrannafjöllin og hálsanir. Hefði fjallið hins vegar myndast eftir ísöld hefði efni úr því vafalaust dreifst yfir umhverfið, auk þess sem sjá má að fjallið er ekki ósnortið af jöklum.
ÚtsýniSkála-Mælifell er líkt nöfnu sinni og ekki síður auðveld uppgöngu. Það er þó ólíkt að því leyti að það hefur myndast við gos í sjó. Efri hlíðar fellsins bera þess glögg merki, m.a. rauðleitt gjallið.
Á toppi fellsins er steyptur landmælingastöpull. Koparmerkið á honum er nr. 3710. Líkt og á hinu fellinu hefur gömlu vörðunni verið raskað, grjótinu kastað til hliðar milli stórra steina. Ekki er auðvelt að sjá ástæður þess að nauðsynlegt hafi verið að raska gömlu vörðunum, eða vörðuleifunum, á fellunum.
Frábært útsýni er af Skála-Mælifelli, hvort sem litið er til Grindavíkur, grenndarhraunin (Skollahraun, Katlahraun og Ögmundarhraun), Höfða, Sandfell og Fagradalsfjall. Þá lá Leirdalur fyrir fótunum neðra.
Af Skála-Mælifelli mátti glöggt sjá hvar Gamla-Krýsuvíkurgatan lá upp frá Leirdal og áfram austur. 

Götur við Méltunnuklif

Venjulega hefur verið talið að Hlínarvegurinn hafi verið lagður yfir hana, en kaflinn frá Einihlíðum að Méltunnuklifi er að mestu óraskaður. Í stað þess að leggja veginn ofan í gömlu götuna hefur verið ákveðið að leggja hann beint af augum á þessum kafla, en gamla gatan liggur í sveig sunnan við veginn og þvert á hann ofan við klifið. Gamla veginum var fylgt þennan kafla og niður Méltunnuklifið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnastofnin Íslands.
-Þórhallur Vilmundarson: Mælifell. Lesbók Morgunblaðsins 4. og 11. júní 1994.

Gamla-Krýsuvíkurgatan

Skála-Mælifell

Þórhallur Vilmundarson fjallar um “Mælifell” í Lesbók Morgunblaðsins árið 1994:

Á Íslandi eru að minnsta kosti tólf Mælifell sem öll eiga sameiginlegt að vera keilulaga og því auðþekkjanleg í landslaginu. Ferðamenn hafa því löngum nýtt þau til að rata og fyrr á öldum voru þau mikilvæg eyktarmerki.

“Flestir Íslendingar munu kannast við eitthvert hinna mörgu Mælifella hér á landi, og eflaust hafa margir velt fyrir sér uppruna nafnsins og merkingu. Í þessari grein verður reynt að glíma við gátuna um Mælifellin. Hvernig er nafnið “Mælifell” til komið, og hvað merkir það? Þórhallur Vilmundarson prófessor, forstöðumaður Örnefnastofnunar, leitar svara við þeim spurningum.

Skoðanir ferðamanna á Mælifellunum

Þórhallur Vilmundarson

Þórhallur Vilmundarson.

Eggert Ólafsson (1726-68) segir í ferðabók sinni um Mælifell: “Mælifell heita nokkur fjöll hingað og þangað á landinu, og hafa þau auk þess annað nafn. Þau standa ætíð einstök, eru mjög há með hvössum tindi og auðkennd af ferðamönnum úr mikilli fjarlægð, og koma þau því oft að haldi sem leiðarvísar.”
Sveinn Pálsson læknir (1762-1840) tekur undir þau ummæli Eggerts, að ferðamenn noti Mælifell til ýmislegrar leiðsagnar („til adskillig Veivisning”), en þar sem nafnið sé leitt af so. mæla, muni landnámsmenn hafa nefnt þau svo til að greina milli byggðarlaga eða landareigna.
Margeir Jónsson taldi Mælifell í Skagafirði vera eyktamark, „því að í öllu norðurhjeraði Skagafjarðar er enn, og hefir verið, svo lengi sem elztu menn muna, talið hádegi, þegar sól ber um Mælifell(shnjúk).” Finnur Jónsson spyr einnig, hvort Mælifell sé eyktamark.
Ekki getur sú skýring átt við um öll Mælifell. Christian Matras telur, að færeysku fjallanöfnin Malinstindur í Vogum og Malinsfjall á Viðey séu af sama toga og Mælifell á Íslandi og hyggur fyrri liðinn Malins- helzt hafa breytzt úr Mælifells-. Hann vitnar til skýringar Margeirs og segir, að Malinstindur í Vogum geti ekki verið eyktamark, þar sem það sé í norðaustur frá byggðinni í Sandavogi. Matras spyr, hvort nöfnin muni ekki dregin af lögun. Bæði færeysku fjöllin séu pýramídalaga og hið sama virðist a. m. k. eiga við um eitt íslenzku nafnanna. Ef svo væri, mætti e.t.v. hugsa sér, að mælir hafi verið orð um mælitæki eða mæliker ákveðinnar lögunar.
Samkvæmt orðabók Fritzners merkir mælir að fornu ‘holt mælitæki fyrir þurrar vörur’, þ. e. einkum kornmælir. Asgaut Steinnes segir hins vegar, að mælikeröld hafi venjulega verið sívöl og jafnvíð að ofan og neðan. Hann segir enn fremur, að orðið mæle hafi verið haft um kornmæli.

Reislulóðið
Mælifell
Hins vegar má benda á, að einn hluti mælitækis var einatt keilulaga og gat þannig minnt á mörg Mælifellin. Það var lóð á reizlu (pundara), þ.e. vog með löngu skafti og einu lóði með hring eða gati efst, til þess að unnt væri að binda lóðið við skaftið, og var lóðið fært fram og aftur eftir skaftinu. Slíkar vogir voru mjög notaðar allt frá Rómverjatímum til að vega hinar verðminni vörur, þar sem reizlan var fljótvirk og auðveld í meðförum, en hins vegar ekki eins nákvæm og skálavog.
MælifellReizlulóðið var einatt keilulaga (sjá mynd), og mætti þá hér vera komið mælitækið, sem Matras gat sér til, að lægi að baki nafninu. Ágætt sýnishorn reizlu með reizlulóði fannst árið 1936 í verkfærakistu smiðs í mýri á Gotlandi, og er kistan talin frá því seint á víkingaöld eða frá fyrri hluta 11. aldar. Reizlulóð voru þekkt og notuð hér á landi að fornu. Árið 1985 fannst við fornleifauppgröft að Stóru-Borg undir Eyjafjöllum ávalur upptypptur grágrýtishnullungur með gati ofan til.
Að neðan er steinninn lítið eitt ávalur og stæði því ekki stöðugur nema fyrir það, að upp í botninn miðjan gengur lítil hvilft eða skál, og getur steinninn hvílt á börmum hennar. Steinninn er 15,4 sm á hæð, 11,9 sm á breidd neðan til (þar sem hann er breiðastur) á annan veginn, en 13,7 sm á hinn, og vegur um 4 kg. Telur Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur steininn sennilega vera reizlulóð og samkvæmt fundarstað trúlega frá 13.-14. öld.
Þegar hugað er að lögun Mælifellanna, kemur í ljós, að það er ekki aðeins Mælifellshnjúkur í Skagafirði, sem er keilulagaður, heldur einnig t.d. Mælifell hjá Þeistareykjum, í Álftafirði eystra, við Fjallabaksveg syðri og í Mýrdal. Sum eru keilulöguð frá einni hlið, en ekki annarri, t.d. Mælifell í Eyjafirði og Skála-Mælifell. Önnur eru ekki reglulegar keilur, en þó typpt, svo sem Mælifell í Staðarsveit og Mælifell í Grafningi, sem reyndar er með þremur hnúkum, einum þó hæstum. Sum Mælifellin em allhvassar keilur og minna þannig á rómverska og gotlenzka reizlulóðið, svo sem Mælifell í Álftafirði eystra, en önnur eru ávalari og minna á reizlulóðið frá StóruBorg, t.d. Mælifellin á Reykjanesskaga.
Hins vegar verður ekki talið líklegt, að hér sé um venjuleg líkingarnöfn dregin af lögun að ræða, í þessu tilviki leidd af no. mælir í merkingunni ‘mælitæki, mæliker’, eins og Chr. Matras talar um. Ef svo væri, ættu fellin að heita Mælisfell, þ.e. forliðurinn ætti að vera eignarfallsmynd nafnorðsins, en ekki sagnorðsstofn með bandstaf (Mælifell), en eignarfallsmyndin kemur mér vitanlega ekki fyrir í hinum mikla fjölda Mælifells-nafna, sbr. hins vegar t.d. Kyllisfell í Grafningi. Í annan stað er ekki vitað til þess, að umrætt lóð hafi verið nefnt mælir, þó að það sé hugsanlegt, en reyndar er það orð þekkt í merkingunni ‘mæliker’, sem fyrr segir.

Hvað merkir Mælifell?

Mælifell

Mælifell á Mælifellssandi.

Lausnin á þessari gátu kann að vera sú, að Mælifellin hafi verið upptyppt fjöll, sem hafa mátti – og höfð voru – til mælingar eða viðmiðunar, enda ljóst, að fjöll með löngu og breiðu baki henta síður til slíkra nota. Nafnmyndin Mælifell er einmitt hliðstæð samnöfnum eins og mæliker, mælistika, þ. e. ‘ker eða stika, sem notuð er til mælingar’ og Mælifell samkvæmt því ‘fell, sem notað er til mælingar’.

Krýsuvíkur-Mælifell

Krýsuvíkur-Mælifell.

Kveikjan að því að nota upptyppt og keilulaga fell á þennan hátt má hafa verið fyrrnefnt keilulaga reizlulóð, sem kann að hafa verið nefnt mælisteinn eða öðru mæli-nafni. Mælifellin hafi því ekki aðeins getað verið almennir vegvísar ferðamönnum, eins og Eggert Ólafsson segir þau vera, heldur hafi þau verið notuð í fleiri en einni merkingu: 1) ‘fjall, sem helmingar tiltekna ferðamannaleið’; 2) ‘fjall, sem er miðja vega í fjallaröð, dal eða á öðru tilteknu svæði, svo sem afrétti’ (og þá líkrar merkingar og Meðalfell og Miðfell); 3) ‘fjall sem mælir og helmingar sólargang’ (sbr. áðurnefnd ummæli Margeirs Jónssonar um, að Mælifell(shnjúkur) í Skagafirði sé hádegismark).
Þar sem Ísland er eldfjallaland, er hér enginn hörgull á upptypptum fjöllum (eldfjallakeilum), og mun það ástæða þess, að svo mörg Mælifell eru á Íslandi. Hins vegar er aðeins eitt Mælifell (Mælefjellet) í Noregi, svo að ég viti.

Lítum nú á Mælifellin á Reykjanesskaga:

Skála-Mælifell og Krýsuvíkur-Mælifell

Katlahraun

Katlahraun – Skála-Mælifell fjær.

Á Reykjanesskaga helminga tvö Mælifell hér um bil hvort sinn vegarhluta milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur: Skála-Mælifell eða Mælifell vestra (174 m) helmingar um 4 1/2 km leið milli Ísólfsskála og Núpshlíðarháls og Krýsuvíkur-Mælifell eða Mælifell eystra (225 m) helmingar um 7 1/2 km leið milli Núpshlíðarháls og Krýsuvíkur (eftir eld).

Mælifell í Grafningi

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell – mælistöpull.

Mælifell í Grafningi er vestan við Ölfusvatnsárgljúfur, en meðfram því liggur leiðin frá bænum Ölfusvatni upp í botn Þverárdals undir Hengli. Guðmundur Jóhannesson, fyrrum bóndi í Króki í Grafningi (f. 1897), segir, að Ölfusvatnsmenn hafi smalað vestan Ölfusvatnsár og Þverár fram í Þverárdalsbotn. Mælifell er mjög miðja vega á þessari u.þ.b. 10 km leið frá Ölfusvatni upp undir Hengil. Að sögn Guðmundar var þessi sama Þverárdalsleið einnig kaupstaðarleið manna frá Ölfusvatni og Króki. Var þá farið áfram yfir Ölkelduháls, Bitru og Hengladali og “Milli hrauns og hlíða” á þjóðveginn á Hellisheiði ofan við Kolviðarhól.”

Að lokum

Krýsuvíkur-Mælifell

Krýsuvíkur-Mælifell – mælistöpull.

Hafa ber í huga að hinir “djúpvitru” leita ekki alltaf augljósustu skýringanna. Á Mælifellunum á Reykjanesskaga eru mælistöplar, ætlaðir til að mæla rek og ris landsins, auk þess sem þeir hafa verið notaðir sem “fastir” mælipunktar, sem aðrir slíkir eru útsettir. Dönsku mælingamennirnir, sem voru á ferð um landið í byrjun 20. aldar notuðu gjarnan fasta punkta í mælingum sínum og því ekki að nýta tiltekin áberandi kennileiti til slíks. A.m.k. voru Íslandskort þeirra tiltölulega nákvæm á þeirra tíma mælikvarða. Þá ber að nefna að flest, ef ekki öll, Mælifellsnöfnin eru nýleg í heimildum. Mælifell á Mælifellssandi hét t.d. Meyjarstrútur fyrrum. Mælifellanna er ekki getið í fornum skrifum.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. tbl. 04.06.1994, Mælifell – Þórhallur Vilmundarson, bls. 5-7.

Krýsuvíkur-Mælifell

Krýsuvíkur-Mælifell – merki Landmælinga Íslands á mælistöpli.