Færslur

Krýsuvíkur-Mælifell

Ætlunin var að ganga á tvö samnefnd fell, Mælifell, á sunnanverðum Reyjanesskaganum. Mælifellin eru reyndar a.m.k. 12 talsins á landinu. Tvö þeirra eru fyrrnefnd fell í Krýsuvík (226 m.y.s.) og við Ísólfsskála (175 m.y.s). Þriðja Mælifellið á Reykjanesskaga (fyrrum landnámi Ingólfs) er í Grafningi.
SkjöldurMælifellin hafa verið höfð til viðmiðunar með einhverjum hætti, sem eyktamörk eða til að rata eftir, þar sem þau eru oft keilulaga og auðþekkjanleg langt að. Nafngift fellanna fylgdi og jafnan staðsetningum mælingastöðva danskra landmælinga- og kortagerðamanna um og í kringum aldarmótin 1900. Þau kort eru enn talin hin mestu nákvæmissmíð. Fleiri örnefni á Reykjanesskaganum má rekja til vinnu þeirra.
Fellin tólf með þessu nafni í landinu eru:

1) Í Grafningi í Árn.
2) Austan við Ísólfsskála í Gull. = Skála-Mælifell.
3) Vestan við Krýsuvík í Gull. = Krýsuvíkur-Mælifell.
4) Norðan Baulu í Norðurárdal í Mýr.
5) Norðan Axlarhyrnu í Staðarsveit í Snæf.
6) = Mælifellshnjúkur í Skag.
7) Í Djúpadal vestan Hleiðargarðs í Saurbæjarhr. í Eyf. Einnig nefnt Mælifellshnjúkur á kortum.
Skála-Mælifell8) Upp af Reykjahverfi í S-Þing.
9) Í Vopnafirði í N-Múl.
10) Í Álftafirði í S-Múl.
11) Á Fjallabaksleið syðri norðan Mýrdalsjökuls í V-Skaft., = Meyja(r)strútur.
12) Norðan Höfðabrekkuheiðar í Mýrdal í V-Skaft.

Krýsuvíkur-Mælifell er auðvelt uppgöngu, líkt og nafna þess ofan við Ísólfsskála. Fallegur lækur og melöldur voru á suðuröxlinni áður en haldið var upp meginásinn. Farvegur lækjarins sýndi vel kjarnabergið, sem er móberg, en ofan á því er bólstraberg, sem systkinin ís, frost, vindur og vatn hafa dunað við að brjóta niður, enda ber fellið þess glögg merki.
Uppi á kollinum er stinsteypustöpull með merki Landmælinga Íslands. “Röskun varðar refsingu” segir áletrunin, en koparskjöldurinn er nr. 3188. Stöpullinn hefur verið staðsettur þar sem gamla varðan var fyrrum. Leifar hennar má sjá neðan við þar sem hún var fyrrum. Grjótinu hefur verið hlaðið í bil milli kletta norðan undir stöpulfætinum.
VörðuleifarAf Krýsuvíkur-Mælifelli er frábært útsýni, t.d. yfir Ögmundarhraun og Húshólma, Selöldu, Sveifluháls, Bleikingsvelli. Vigdísarvelli, Núpshlíðarháls og Latsfjall, auk þess góð yfirsýn er yfir litla lækinn milli Mælifellsins og Lafsfjalls sem hefur smám saman verið að brjóta undir sig hraunið á leiðinni til sjávar.
Mælifell mun vera svokallaður móbergs- og bólstrabergsgúlpur, myndaður í eldgosi seint á ísöld. Bergkvikan var svo seig að hún hlóðst upp yfir gosopinu en rann ekki í burtu sem hraun. Mælifell er samsett úr tveimur kvikugerðum, seti og bergi. Móbergið myndar meginhluta fjallsins, sem fyrr sagði.
Fellið myndaðist á síðustu ísöld, líkt og nágrannafjöllin og hálsanir. Hefði fjallið hins vegar myndast eftir ísöld hefði efni úr því vafalaust dreifst yfir umhverfið, auk þess sem sjá má að fjallið er ekki ósnortið af jöklum.
ÚtsýniSkála-Mælifell er líkt nöfnu sinni og ekki síður auðveld uppgöngu. Það er þó ólíkt að því leyti að það hefur myndast við gos í sjó. Efri hlíðar fellsins bera þess glögg merki, m.a. rauðleitt gjallið.
Á toppi fellsins er steyptur landmælingastöpull. Koparmerkið á honum er nr. 3710. Líkt og á hinu fellinu hefur gömlu vörðunni verið raskað, grjótinu kastað til hliðar milli stórra steina. Ekki er auðvelt að sjá ástæður þess að nauðsynlegt hafi verið að raska gömlu vörðunum, eða vörðuleifunum, á fellunum.
Frábært útsýni er af Skála-Mælifelli, hvort sem litið er til Grindavíkur, grenndarhraunin (Skollahraun, Katlahraun og Ögmundarhraun), Höfða, Sandfell og Fagradalsfjall. Þá lá Leirdalur fyrir fótunum neðra.
Af Skála-Mælifelli mátti glöggt sjá hvar Gamla-Krýsuvíkurgatan lá upp frá Leirdal og áfram austur. 

Götur við Méltunnuklif

Venjulega hefur verið talið að Hlínarvegurinn hafi verið lagður yfir hana, en kaflinn frá Einihlíðum að Méltunnuklifi er að mestu óraskaður. Í stað þess að leggja veginn ofan í gömlu götuna hefur verið ákveðið að leggja hann beint af augum á þessum kafla, en gamla gatan liggur í sveig sunnan við veginn og þvert á hann ofan við klifið. Gamla veginum var fylgt þennan kafla og niður Méltunnuklifið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnastofnin Íslands.
-Þórhallur Vilmundarson: Mælifell. Lesbók Morgunblaðsins 4. og 11. júní 1994.

Gamla-Krýsuvíkurgatan

Latur

Gengið var frá Lati niður Ögmundarhraun til suðurs og síðan hrauninu fylgt upp til norðausturs að Húshólma. Reynt var að finna hina gömlu sjávargötu inn í hólmann, að Hólmasundi. Þá var gengið upp Húshólma og sem leið lá upp Ögmundarhraun áleiðis að Núpshlíðarhorni. Hér verður ekki rakin leiðin í gegnum Húshólmann og minjarnar þar, enda hefur það verið gert í FERLIR-046, 128, 217, 300, 286, 545, 634 og 715, auk þess sem þeim verður lýst mun nákvæmar síðar.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir, Víkurhellir, í Ögmundarhrauni sunnan Lats.

Miðrekar eru austan Selatanga. Eystri Látrar eru á millum. Fyrir sunnan Lat eru hraunskipti með nokkuð háum hraunhrygg. Stígnum austur yfir hraunið frá þjóðveginum var fylgt að skilunum og beygt þar til suðurs. Eftir stutta göngu var komið að sæluhúsinu, sem þar er. Sá síðasti, sem skyldi við húsið, hefur lagt hurðarhelluna settlega við dyraopið þar sem hún var notuð hinsta sinni. Nú. u.þ.b. 100 árum síðar, er þessi hella ásamt öðru, sem þarna er, friðar skv. þjóðminjalögum, án þess að friðunaröflin hafi hina minnstu hugmynd um tilvistina. Eflaust hafa margir haft skjól þarna í skútanum í gegnum tíðina. Gott hefur verið að geta hallað sér í skjólið og á öruggum stað í svartnættinu þegar allra veðra var von. Frá skútanum er u.þ.b. klukkustundar gangur að Ísólfsskála og u.þ.b. tveggja klukkustunda gangur til Krýsuvíkur.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Haldið var áfram niður með hraunkantinum og stefnan tekin á háa vörðu neðarlega í hrauninu. Hún stendur þar ein og yfirgefin, án fylgdarvarða. En vörður voru ekki hlaðnar að ástæðulausar hér áður fyrr, allra síst svo háar og myndarlegar. Þegar farið var að grennslast um hverju hún sætti kom í ljós að austan við hana eru greni (Miðrekagrenin) og byrgi grenjaskyttna. Grónir bollar eru í hrauninu austan og ofan við vörðuna. Grenjaopin eru merkt og hlaðin eru skjól fyrir skyttur. Meira að segja var óbrotin brennivínsflaska í einu byrgjanna. Hún var látin liggja á sínum stað, líkt og FERLIRs er háttur.

Hraunkarl

Hraunkarl.

Stefnan var tekin upp hraunið til norðausturs. Eftir nokkra göngu um þykkt mosahraun var komið að listaverkagarði náttúraflanna. Þar, á tiltölulega litlu svæði, virtust náttúruöflin hafa staldrað við á leið sinni með hraunið til sjávar, svona til að leika sér stutta stund, a.m.k. m.v. jarðfræðimælikvarðann. Þegar staldrað var við og augun látin líða yfir hraunsvæðið birtist hvert listaverkið á fætur öðru. Það skal tekið fram, til að fyrirbyggja misskilning, að brennivínsflaskan, sem skilin hafði verið eftir í byrginu, var tóm er að var komið. Eflaust gæti hver og einn túlkað hraunlistaverkin á sinn hátt – líkt og gengur og gerist með listaverk mannanna.

Enn var stigið skrefið og stenan tekin á Brúnavörður á hraunhæð framundan. Vörðurnar eru tvær og voru mið af sjó.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Hins vegar eru þær einnig ágæt mið fyrir fótgangendur á landi því handan þeirra tekur við manngerður stígur áleiðis inn í Húshólma. Segir sagan að syndir (hann átti reyndar ekki nema einn) hafi flórað stíginn til ferðalaga. En í stað þess að taka þennan auðveldasta stíg inn í Húshólma var ákveðið, svo sem upphafega var stefnt til, að ganga niður með hraunkantinum til suðausturs í von um að finna framhald þess stígs, sem þar liggur, inn í Húshólma. Þegar komið var niður að ströndinni hvarf stígurinn.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Varð það seginn saga, svo sem algengt er með sjávarstíga, að Ægir hefur þegar brotið þá undir sig. Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig sjórinn hefur smám saman brotið af ströndinni, enda sjálf ekki bætt við sig neinu s.l. 850 árin.
Gengið var ofan við ströndina í gegnum hraunið, sem reyndar var ekki neinum kveifiskötum ætlað. En með þolinmæði og þjálfun varð komist í gegnum stórbrotið hraunið og alla leið inn í Húshólma. Ekki var að þessu sinni litið á hinar merki minjar í hólmanum heldur strikið tekið upp til norðurs í gegnum hann, framhjá selstöðuminjunum og áfram áleiðis upp í gegnum Ögmundarhraunið.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Á þeirri leið, sem er bæði löng og erfið, var gengið framhjá Mælifellsgrenjunum. Við þau eru einnig hleðslur eftir grenjaskyttur. Ofar var Mælifell (Krýsuvíkur-Mælifell). Gengið var inn á gamla Ögmundarstíginn, framhjá Ögmunardys og veginum, sem endurruddur hefur verið nokkrum sinnum, fylgt yfir Ögmundarhraun til vesturs. Haldið var áfram upp og yfir Latsfjall að norðanverðu og síðan gengið niður Tófurbuna og gömlu götunni fylgt að Núpshlíð þar sem hún var síðan rakin niður með fjallsrótunum. Gengið var áfram til vesturs sunnan hlíðarendans.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Núpshlíðarhornið var framundan. Hlíðin hét áður Gnúpshlíð og hálsinn inn af Gnúpshlíðarháls. Þegar horft var á hlíðina, aðstæður ígrundaðar sem fyrrum voru og rifuð var upp sagan af Molda-Gnúpi Hrólfssyni, var ekki órótt um að þarna, sem minjarnar í Húshólma voru, gæti sá maður hugsanlega hafa haft samastað. Einn þátttakenda setti fram þá kenningu að nefndur Molda-Gnúpur, sá sem hálsinn er nefndur eftir, hafi búið þar undir. Hann er í Landnámu sagður hafa sest að í Grindavík eftir að hafa orðið fyrri því óláni í Álftaveri að flóð úr Mýrdalsjökli frá Eldgjárgosinu mikla 934-938 hljóp á land hans og lagði í eyði.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Hann fór þá í Mýrdalinn og var þar einn vetur, en þar var þá fullnumið og hann hraktist eftir deilur við þá, sem fyrir voru, áfram vestur á bóginn, allt til Grindavíkur, eins og Landnáma segir. “Allt til Grindavíkur” gæti þýtt áleiðis til Grindavíkur, enda Grindavík ekki til þá í upphafinu. Eflaust og áreiðanlega hafa aðstæður verið allt aðrar en nú eru undir Núpshlíðarhálsi. Bær og bæir gætu hafa verið byggðir, garðar hlaðnir, borgir (fjárborgir) reistar og búskap komið á fót. Viðurnefnið Molda gæti Gnúpur hafa fengið vegna elju sinnar við að nýta moldina og það sem í henni var, grjót og torf, enda virðast hafa verið nóg af görðunum undir Ögmundarhrauni. Hins vegar bjó faðir hans, Hrólfur höggvandi, á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Bróðir Molda-Gnúps var Vémundur, en “þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir”, eins og segir í Landnámu.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

U.þ.b. 210 árum síðar, eftir fjórar kynslóðir og mikla uppbyggingu á gjöfulum stað, tók jörð skyndilega að skjálfa nótt eina og hraun að renna. Fólkið flýði sem fætur toguðu og skyldi eftir allt, sem það átti. Enn var ekki farið að skrifa sögu Íslendinga eða landnáms þeirra og alls ekki þess fólks sem almúgi hét. Sá, sem skrifaði fyrst um frægð og frama, með hliðsjón af landsins yfiráðarétti, gerði það í ákveðnum tilgangi, enda tilgangslaus skrif þá ofar dýrum feldi.
Þetta var nú einu sinni hugsun um möguleika – ekki staðreynd.
Gnúpshlíðin var fögur á að líta.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.