Í Mbl. 17.11.1981 er frétt með fyrirsögnina “Hellir með mannvistarleifum finnst við Svartsengi”. Þar segir:
“Í síðustu viku fannst fyrir hreina tilviljun hellir við Svartsengi með minjum um einhverjar mannvistir. Var verið að jafna út jarðveginn og undirbúa borun holu þegar ýta féll skyndilega niður um hellisþakið.
Guðmundur Ólafsson, safnvörður, fór og skoðaði hellinn á fimmtudaginn, og sagði hann að þar væru tveir hlaðnir grjótveggir, 2-3 metra langir og tæpur metri á hæð.
“En fleira gæti leynst þarna af mannvistarleifum, því mikið grjót féll niður í hellinn þegar þakið hrundi. Eitthvað gæti komið í ljós þegar grjóthrúgan verður fjarlægð.”
Hellirinn mun vera um 30 metra langur og allt upp í 6-8 metra breiður. “En það er ekki hægt að ganga í honum uppréttur,” sagði Guðmundur, “því hann er ekki meira en 1 1/2 metri á hæð þar sem hann er hæstur.”
Sagði Guðmundur að á hellinum væru tvö op. “Annars vegar er megininngangur, ef svo má segja, rétt við þann stað sem ýtan féll niður. Það hefur verið lokað fyrir þann inngang og gengið þannig frá honum að illmögulegt er að finna hann. Það bendir til að einhver hafi viljað dyljast þarna. Hins vegar er önnur leið inn í hellinn inn í rangala, svona 25 metra langan, sem hægt er að skríða eftir inn í hellinn.”
En síðan hvenær eru þessar menjar og hverjir gætu hafa haft þarna bústað?
Guðmundur taldi að þetta væru talsvert gamlar menjar, sem þarna fundust, jafnvel nokkurra alda gamlar. Hins vegar vildi hann ekki vera með neinar getsakir um það hverjir kynnu að hafa hafst þarna við. “En það lítur út fyrir að þetta hafi verið skammtímabústaður.”
Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn í Hafnarfirði, er fróður um þjóðleg efni, og blaðamaður Mbl. innti hann eftir því hvort nokkuð væri hægt að segja um hver eða hverjir hefðu dvalist þarna.
“Það er ómögulegt að segja með nokkurri vissu. En það hafa fundist menjar um mannvistir í Eldvarpinu þarna skammt frá, og einnig í Grindavíkurhrauni. Manni dettur helst í hug að þegar Tyrkir voru hér – sem voru reyndar alls ekki Tyrkir heldur Alsírbúar – þá hafi fólk flúið þarna uppeftir og haft þarna einhverja dvöl. Þessi byrgi sem hafa fundist eru talin vera frá þeim tíma.
Meira get ég nú ekki sagt þér, nema þá kannski að það er til saga um þrjá stráklinga sem struku úr sveit einhvern tíma á 16. öld og voru á þvælingi þarna í stuttan tíma.”
Björn Þorsteinsson, prófessor í sagnfræði, taldi tilgátu Gísla sennilega. Björn var spurður að því hvort þetta gæti ekki verið útilegumannabústaður.
“Það er til í dæminu kannski. Það hefur verið eitthvað um útilegumenn þarna. Árið 1703 voru teknir útilegumenn í Henglinum, tveir eða þrír, að mig minnir. Þeir höfðu reyndar kerlingu með sér til að elda oní sig sauðina, og gekk víst seinlega að ná henni. Mennirnir voru drepnir, en kerlingin var sett á.”
Heimild:
-Mbl. 17.11.1981.