Vatnsheiði

Gengið var upp á nyrsta gíg Vatnsheiðardyngjunnar ofan við Grindavík. Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Um er að ræða þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli og nálægt 50 metra djúpur.

Vatnsheiði

Í Vatnsheiði.

Miðgígurinn er minni og hallar mót norðri. Syðsti gígurinn var áður grunnur grasbolli, en uppi á dyngjunni er gat ofan í jörðina, um 12 metra djúpt. Það varð til er Catepillar 9 jarðýtu var ekið þarna vestur yfir hæðina. Ökumaðurinn fann að hún var farin að síga ískyggilega að aftan svo hann jók hraðann. Fyrir aftan jarðýtuna myndaðist gatið. Þarna er nú gjallgígop, nefnt Nían. Niður í gígnum má sjá hraunrás liggja úr honum til vesturs. Úr dyngjunum eru fallegar hrauntraðir. Hinar tvær traðir úr nyrsta gígnum eru ólíkar. Að vestanverðu eru tvær hrauneyjar í hlíðinni. þær mynduðu fyrrum traðarveggi. Hrauntröð til suðurs er gróin. Í henni er vatnstæðið, eða öllu heldur vatnsstæðin, sem hæðirnar draga nafn sitt af. Vatnsstæði þessi hafa þótt til mikilla hlunninda á þessu svæði fyrrum því þarna er lítið um vatn, en fé var margt um tíma hjá Grindavíkurbændum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur áleiðis að Þórkötlustöðum.

Frá dyngjunni liggur gömul gata til suðvesturs yfir mjótt blandhraunið úr Sundhnúk (rann um 100 e.Kr.). Dalahraun er ofar, enn ofar Skógfellahraun, Borgarhraun (~10.000 ára) austar og Beinavörðuhraun sunnan þess. Gos úr Melhól sunnan Hagafells er ~1800 ára.
Úr Vatnsheiðinni rann hraunið, sem myndaði Hópsnesið og Þórkötlustaðanesið auk hraunanna austan Grindavíkur. Síðan rann hraun úr Melhól sunnan Hagafells og myndaði m.a. hraunlænu til suðausturs er rann til sjávar milli Hrauns og Þórkötlustaða, Slokahraun. Efri-hellir sunnan undir Húsfelli er í Vatnsheiðarhrauninu.

Austan í hæðinni gerðu Grindvíkingar kvarnasteina sína, en þar er jafnþykkar hraunhellur, sem m.a. hafa verið notaðar í nýlega garða, auk þess sem sótt var grjót þangað við endurgerð Þórkötlustaðaréttarinnar.

Vatnsheiði

Í Vatnsheiði – vatnsstæði.

Vatnsheiðin er á Náttúrminjaskrá, sbr.: “Sundhnúksröðin og Fagridalur, Grindavík, Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól í vestur að hraunkantinum sunnan Þorbjarnarfells, með honum vestur og norður fyrir fellið, að háspennulínu sem er u.þ.b. 200 m vestan þjóðvegar. Mörkin fylgja síðan línunni til norðurs að stað 2 km norðan Arnarseturs og þaðan austur í horn landamerkjalínu við norðausturhorn Litla-Skógfells, síðan beina línu sem hugsast dregin til norðausturs í Kálffell. Þaðan liggja mörkin í Fagradals-Vatnsfell og því næst um beina línu sem dregin er til suðvesturs um Fagradalsfjall, Sandhól, Vatnsheiði og að lokum í Melhól.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Tæplega 9 km löng gígaröð sem kennd er við Sundhnúk. Fallegar hrauntraðir í suðvesturhlíð Hagafells. Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni. Fagridalur er grösugt dalverpi við norðvesturhorn Fagradalsfjalls. Söguminjar.”
Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur. Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.

Vatnshæð

Vatnsstæði á Vatnsheiði.

Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur. Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum og eru hlíðarnar yfirleitt með 6° til 8° halla. Gígbarmarnir rísa ekki yfir umhverfið.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar.

Grindavík

Grindavík ofanverð.

Grindvíkingar eiga í raun geysilega fjölbreyttar og fallegar gosminjar, bæði frá fyrri ísaldarskeiðum, en ekki síst frá nútíma. Þegar staðið er uppi á nyrsta gíg Vatnsheiðar má sjá nokkur hraun frá mismunandi tíma. Vel má sjá hvernig þau hafa runnið að og yfir hvert annað, ýmist þunnfljótandi eða seigfljótandi og myndað þannig hin ótrúlegustu form. Þessa yfirsýn má einnig fá af Stóra-Skógfelli, Sýlingafelli eða Sundhnúk.
Og ekki er verra að öll þessi merkilegu fyrirbæri eru í þægilegri göngufjarlægð frá bænum.

Heimildir m.a.
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/natturuminjaskra/sudvesturland/

Vatnsheiði

Við op K-9 neðst í Vatnsheiði.