Selatangar

Gengið var um Katlahraun frá Moshólum. Jón Jónsson, jarðfræðingur, gaf hólunum þetta nafn. Taldi hann þá með merkilegri jarðfræðifyrirbrigðum landsins því í þeim mátti sjá þverskorinn eldgíg (gjall- og klepragíg) sem átti sér fá fordæmi í heiminum. Ekki leið þó á löngu að vegagerðarmenn komust í gíginn og eyðilögðu merkilegheitin.
MoshólarMoshólar eru leifar af eldri gígaröð en þeirri er nálægt hraun, Ögmundarhraun, kom frá árið 1151. Frá þeim liggur falleg hrauntröð til suðurs, áleiðis að Katlinum (Borginni) í Katlahrauni (Borgarhrauni). Katlahraun er á náttúruminjaskrá.
Áður en haldið var í Katlahraun var leitað fararnestis hjá Kristjáni Sæmundssyni, jarðfræðingi Íslands nr. eitt. Kristján brást vel við að venju:
“Ég á svo sem ekki mikið um hraunið. Veit þó um aldurinn, en hann er um 2000 ár. Niðri undir sjó skammt vestan við Selatanga (byrgin) er heilmikið jarðfall í hrauninu. Áður en það myndaðist hefur orðið fyrirstaða í rennslinu og hraunið bunkast upp. Yfirborðið hefur storknað og hraunbráðin síðan hlaupið fram undan bungunni. Klóruför sjást hér og þar, þar sem yfirborðshellan hefur strokist við innveggi jarðfallsins.
Ketillinn í KatlahrauniÞetta er fágæt hliðstæða við Dimmuborgir nema þar er meira gjall í bungunni. Innar á hrauninu, norðvestur af jarðfallinu, eru minni dokkir, en þær held ég að hafi ekki myndast við undanhlaup, heldur við írennsli í hraunið sem áður var storknað efst og neðst, en tjakkaðist við það upp, og dældir urðu til þar sem það var gegnstorkið.”
Við þetta bætti svo Kristján: “Smáviðbót við Katlahraun. Moshólar eru suðvesturstu gígarnir á langri gossprungu sem nær norðaustur í Trölladyngju (í vesturhlíðinni). Afstapahraun kom upp í þessu sama gosi úr gígnum skammt vestan við Hverinn eina. Mig minnir að aðalgígurinn þar heiti Melhóll [Moshóll]. Afstapahraun var lengi talið hafa runnið eftir landnám, en það er ekki svo.
Katlahraun - standurÉg gróf víða á því í fyrrasumar og landnámsöskulagið (frá 871) er ofan á hrauninu sem og annað lag um 1400 ára gamalt. Fékk svo Magnús Sigurgeirsson (aðalsérfræðinginn í öskulögum á Reykjanesskaga) til að skoða með mér. Hann staðfesti.”
Framangreindar upplýsingar Kristjáns eru fyrir marga hluta áhugaverðar. Í fyrsta lagi upplýsir hann um aldur Katlahrauns, en þær upplýsingar hafa ekki legið á lausu hingað til. Í öðru lagi segir hann frá myndun Ketilsins og nálægra jarfræðifyrirbæra. Í þriðja lagi upplýsir hann í fyrsta skipti um raunaldur Afstapahrauns. Í fjórða lagi getur hann um uppruna hraunsins og í fimmta lagi kynnir hann samhengi Moshóla við aðrar eldstöðvar, alveg upp undir suðvesturrætur Trölladyngju. Allur þessi stutti, en mikli, fróðleikur gerir svæðið ennþá áhugaverðara til skoðunnar.
KatlahraunsskjólÞegar gengið var um Katlahraun mátti vel bæði sjá og finna hversu slétt helluhraunið er. Kvikan hefur verið þunnfljótandi og runnið í átt til sjávar líkt og vatn. Hin minnsta fyrirstaða hlóð upp tjörnum, sem kvikan bræddi sér leið framhjá. Þess vegna má víða sjá litla katla, sem myndast hafa við þessar aðstæður. Miklar hrauntraðir liggja frá Moshólum áleiðis niður í Ketilinn. Nýrra hraun (apalhraun) hefur runnið ofan frá og umleikið Moshóla. Hraun þetta virðist vera úr gíg undir Höfða og inn undir Selsvöllum. Leggjarbrjótshraun og Skolahraun eru hluti af þeim.
Aðspurður um framangreint svaraði Kristján: “Það er verið að vinna í nýju korti af þessu hrauni. Það verður klárað í næsta mánuði [jan. 2010].
Það er gamalt hraun á smábletti ofan við Moshóla.
HöfðiNA-framhald gossprungunnar í Moshólum er utan í Höfða að austan. Hraunið úr þeim gígum hefur runnið fram milli Núphlíðar og Moshóla. Það nær langleiðis niður að Selatöngum.
Næsti kafli gossprungunnar er austan við Sandfell. Þaðan eru Leggjabrjótshraun (vestan við Höfða) og Skolahraun (austan við Sandfell).
Gossprungan heldur svo áfram inn úr og liggur nærri Selvallafjalli þar til kemur að Selvöllum. Þá víkur hún vestur og er vestan við Vellina. Sá kafli hennar endar í Melhól.
Innsti kafli hennar er svo utan í Trölladyngju (nær reyndar suður fyrir Sogalækinn) og endar loks í Eldborg.
Þessir gígar og hraun er allt af svipuðum aldri, um 2000 ára.
Ég á von á C14-aldursgreiningu á kvistum undan hrauni við Trölldyngju neðst, aðeins sunnar en þar sem vegurinn frá Oddafelli þverbeygir suðvestur með henni.
Það hraun tilheyrir þessu sprungugosi.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Selatangar

Gengið um Katlahraun og nágrenni.