Eftirfarandi lýsing birtist í Vísir árið 1967:
“Máske verður einhverjum lesendanum á að hugsa sem svo, þegar hann sér þessa „myndsjá,” að fyrirsögnin sé ekki i samræmi við myndirnar og má það til sanns vegar færa.
Það er ekki meiningin að „særa” Hafnfirðinga með birtingu myndanna, þvert á móti er höfundur þeirra mikill aðdáandi Hafnarfjarðar og flnnst kaupstaðurinn eiga fyrirsögnina að fullu skilið.
Hafnarfjörður er með fegurri kaupstöðum á landinu en staðsetning hans i landslaginu á þar mestan þátt. Hraunið umhverfis kaupstaðinn er víðfrægt fyrir fegurð, fjallahringurinn ekki
síður, að ekki sé minnzt á höfnina.
En það er víða pottur brotinn hvað snertir umgengni á ýmsum stöðum hér á landi og er Hafnarfjörður ekki undanskilinn. Blaðamaður Vísis átti leið um Hafnarfjörð á dögunum, og kom utan af Álftanesi og ók um Garðahverfi inn til bæjarins. Vegurinn hlykkjast um hraunið vestan kaupstaðarins. Á hæðum standa fiskitrönur, sumar hlaðnar skreið, en aðrar auðar. Það er alltaf ánægja að sjá fiskitrönur í landslaginu, þær eru myndrænar og bera vott um athafnasemi fiskveiðiþjóðarinnar. Í lautum og lægðardrögum standa íbúðarhús og sumarbústaðir, kindakofar og alls konar skúrar, sem vandi er að segja til um hvaða tilgangi þjóna. En það sem meiðir augu vegfarandans er ruslið umhverfis suma af þessum skúrum og víða má sjá ruslahauga sem óvandaðir sóðar hafa fleygt i sumar hraungjóturnar. Það er vítavert athæfi að skemma náttúrufegurðina á þennan hátt og ætti að varða sektum. Það er sjálfsagt erfitt að koma lögum yfir þá menn sem óhreinka landslagið með alls konar rusli, en það ætti að vera hægur vandi að skipa þeim sem hafa skúra og kofadrasl á landsvæðinu að hafa þokkalegt í kringum þá, að ekki sé talað um að hafa sæmilegt útlit á kofunum sjálfum. En það kastar fyrst tólfunum þegar komið er að jaðri þéttbýlisins, sem er ákaflega fallegur frá náttúrunnar hendi. Þar eru einhvers konar verkstæði i bröggum og niðurníddum hreysum og allt i kring eru bílar og bílhræ í fjölbreytilegu ástandi ásamt öðru drasli. Það væri ekki úr vegi fyrir viðkomandi yfirvöld að gera sér ferð þarna i úthverfi bæjarins og líta á þessa hluti, að ekki sé talað um að þau geri elnhverjar ráðstafanir til úrbóta.
En nú skulum við líta á meðfylgjandi teikningar sem allar eru gerðar á fyrrgreindu svæði. Fyrsta myndin er af ævagömlum vörubíl, sem stendur í túni eins bæjarins, en hvort tveggja er, að bíllinn er merkilegur fyrir aldurs sakir, svo heillegur sem hann er, en í öðru lagi fer hann illa við landslagið og óprýðir það. Svona gripur á heima á safni, en ekki i fögru landslaginu.
Önnur mynd sýnir okkur einn kofanna, gluggalausan timburhjall til einskis nýtan. Umhverfis eru fagurlega hlaðnir grjótgarðar frá gamalli tíð, en talsvert er um þá á fyrrgreindu svæði.
Á mynd nr. þrjú sjáum við svo ósómann í fullkomnustu mynd. Í forgrunninum eru bílhræ af öllum stærðum og gerðum, en í baksýn eru braggahróin og kofadraslið, en lengst í burtu má sjá nýbyggðar villurnar, sem tróna á hæðinni eins og viðkvæmar blómarósir vaðandi í fjóshaug.”
Heimild:
-Vísir, 19. apríl 1967, bls. 3 – höfundur óþekktur.