Í apríl árið 1602 var tilkynnt að Kristján konunur IV hefði selt kaupmönnum í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri á leigu alla Íslandsverslun í næstu tólf ár. Undanskildar voru Vestmanneyjar einar, sem konungur hefur lengi leigt með öllum sköttum og skyldum. Jafnframt var öllum kaupmönnum, öðrum en leigutökum, bönnuð verslun á Íslandi.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þjóðverjar og Englendingar höfðu um langt skeið stundað mjög verslun á Íslandi, og Hamborgarar, Brimarar og Lýbikumenn, sem hér versluðu í konungsleyfi, áttu víða hús, kirkjur og vörubirgðir í kaupstöðum. Nú varð þeim algerlega bolað frá allri Íslandsverslun, nema hvað örfáir kaupmenn, sem áður höfðu fengið leyfi konungs til verslunar á nokkrum höfnum, fengu að halda þar velli, uns leyfistími þeirr rann út.
Það voru tuttugu hafnir á landinu, sem konungur leigði hinum dönsku kaupmönnum, þ.a. fjórar við Faxaflóa. Með þessari breytingu var talið að verslun á mörgum stöðum myndi leggjast niður, þar sem Þjóðverjar höfðu legið með skip sín á sumrin, svo sem á Hvalfjarðareyri, í Flatey, Straumsvík og Vatnsleysuvík og miklu víðar.
Konungur skrifaði hirðstjóra sínum, Enevold Kruse, og skipaði honum að hafa strangar gætur á, að Hamborgarar reki enga verslun við Faxaflóa, nema í Hafnarfirði, enda þótt þeim séu þar heimilar nokkra hafnir fleiri þetta sumar, samkvæmt gömlum leyfisbréfum. Bændum, sem versla á Suðurnesjum og í Grindavík, var bannað að selja Hamborgurum fisk og aðrar afurðir, nema hvað þeir máttu láta það, sem afgangs varð venjulegri verslunarvöru, ganga upp í skuldir.

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Ætla mátti, að Þjóðverjum yrði gert ókleift að versla hér, en verslun við þá hafði staðið allt frá 14. öld og verið landsmönnum að ýmsu leyti hagstæð.
Þýsku kaupmennirnir voru mjög ósáttir við hina nýju skipan verslunarmála á Íslandi. Árið 1602 ráku þeir víða mikla verslun um sumarið undir því yfirskini, að þeir væru að innheimta skuldir, og tvö skip er komu á Suðurnesjahafnir, urðu að sigla tóm heim um haustið. Þar að auki létu Hamborgarar menn hafa hér vetursetu sums staðar og halda versluninni áfram. Þýskur maður, Jóhann Holtgreven, tók sér t.d. höfn í Keflavík og Bátsöndum og bar því við að hann hefði eigi komist til hafnar sinnar við Húnaflóa sökum íss og hafið verslun á Suðurnesjum fyrir þrábeiðni landsmanna.

Þýskabúð

Þýskabúð við Straumsvík.

Árið 1604 bar á mikilli óánægju með hina nýju verslunarhætti. Verslun fór versnandi og varð hún nú mun verri síðan Hamborgarar voru brott hraktir. Hinn aldni lögmaður, Þórður Guðmundsson, áttræður maður, gekk fram fyrir skjöldu og kærði kaupmenn fyrir konungi og höfuðsmanni. Árið áður skrifaði hann bændum á Suðurnesjum og í Grindavík bréf um verslunarmálin og skoraði á þá að mótmæla verslunarháttunum, því auðveldara myndi verða að fá leiðréttingu þegar í upphafi en síðar meir. En það gerðist sem oft er þegar einn eða fáir mótmæla, en margir horfa sitjandi hjá – nákvæmlega ekkert.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.