Þótt tóftir bæjarins Klappar austan Buðlungu í Þórkötlustaðahverfi Grindavíkur gefi ekki til kynna mikil merkilegheit er þar margs að minnast.
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur 2018.
Fjallað er um bæjarstæðið í skýrslu um “Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð“. Þar segir m.a. um Klöpp og nágrenni:
“Þórkötlustaða er getið 1270 í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Hjáleigur 1703 voru: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.
Buðlunguvör
Buðlungavör 2023.
“Í klapparskoru (bás) við sjóinn framan við eystri Þórkötlustaðabæina er Buðlungavör. Þessi lending var notuð þegar hægt var,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar. “Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni
eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi,” segir í örnefnaskrá AG.
Buðlungavör – för eftir kili árabátanna á klöppinni ofan vararinnar.
Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.” segir Guðsteinn Einarsson. Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestari-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austur, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austanvið klöppina er lygnara en þar er lendingin í Buðlunguvör. Buðlungavör er um 175 m suðaustan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 70 m beint suður af Buðlungu. Ryðgaðir festarboltar eru á þessum slóðum við sjóinn. Stórgrýttur sjávarkampur og svartar hraunklappir í sjó fram. Vörin er stórt skarð í klettana um 15-20 m langt og 10 m breitt. Samkvæmt Lofti Jónssyni var lent upp við klöpp við vörina vestanverða og síðan var aflinn borinn upp á klöppina fyrir ofan sem nefnd var Skiptivöllur.
Teigur (eldri)
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
“Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.
Árni Guðmundsson (94 ára) við bæjarstæði Klappar.
Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus [Harður]. Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35x 12m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást.
Öskugarður
Klöpp – Suðurgarður efst. Öskurgarðurinn kominn undir kampinn.
Garðlag sem líklega hefur að hluta til verið varnargarður lá áður frá túninu í Buðlungu/Klöpp og til vesturs alla leið að kálgörðum frá Austurbæjum Þórkötlustaða. Garðurinn hefur einnig markað af suðurhlið túna sem tilheyrðu Buðlungu/Klöpp. Segja má að þetta garðlag og suðurhlið hans austar hafi mögulega tengst en á milli er túnskiki Buðlungu/Klappar auk þess sem suðurhlið fyrrnefnds garðs er alveg horfin í rof. Garðurinn sem hér er skráður hefur upphaflega verið tæpir 110 m á lengd og var fast ofan við fjörukambinn. Á þeim slóðum sem garðurinn var hefur sjórinn þeytt yfir nokkru grjóti og er garðurinn alveg horfinn á löngum kafla.
Verbúð
Hraunreipi neðan sjávargötu Klappar að Buðlungavör. Minjar verbúðarinnar eru nú horfnar, enda segir Árni að “drjúgur hluti Klappartúnsins” sé kominn undir kampinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Heimræði árið um kring og gánga þar skip heimabóndans. item áttært skip dómkirkjunnar um vertíðina, og fylgja því staðarins skipi bæði búð og vergögn, sem staðurinn við magt heldur”. Ekki er vitað hvar verbúðin hefur verið en líklegast hefur hún verið neðan við Þórkötlustaði eða á milli bæjarins og Buðlungu. Elsta þekkta lýsing á verbúðum í Þórkötlustaðalandi er í úttekt frá 4, júní 1738 þar sem getið er um tvær „sjómannabúðir. Var önnur þeirra í tveim stafgólfum, en hin í þrem, og báðar sagðar vel stæðilegar. Þessar búðir hafa að líkindum aðeins hýst eina skipsáhöfn hvor, en einnig voru til búðir fyrir tvær skipshafnir.“ segir í Sögu Grindavíkur.
Hafa ber í huga að sjávarkampurinn hefur sífellt verið að færa sig upp á landið ofanvert. Árni Guðmundsson vitnar um það í viðtali á Klapparstæðinu, þá 94. ára.
Buðlunga (elsta staðsetning)
Klöpp og hluti gömlu Buðlungu neðst t.v.
1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,” segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram af þeim.
Buðlunga (yngra bæjarstæði)
Tóftir Klappar og Buðlungu.
1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.” segir í sóknarlýsingu. “Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,” segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir:
“Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingu, matjurtagarðar 200 □ faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefa af sér 55 hesta, mætti græða út. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.
Gamla-Buðlunga.
Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar
virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu. Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er tihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana. Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp.
Klöpp
Klöpp – sjórinn hefur brotið landið neðanvert í gegnum aldirnar…
1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13.
Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,” segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930. Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.
Klöpp (yngra bæjarstæðið)
Klöpp – yngsta bæjarstæðið.
1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,” segir í sóknarlýsingu. “Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig.
Klapparhjónin Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir.
Í fasteignamati 1916-1918 segir: “Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó.
Árni Guðmundsson við gömlu Klöpp.
Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5×21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin framan við bæjardyrnar, beint fyrir utan baðstofugluggann, sem var austan við eldhúsið. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.
Gata
Sjávargatan frá Buðlungavör að Klöpp.
Sjávargatan frá Klöpp lá frá Klapparbænum gamla og niður að sjó í gegnum sjóvarnargarðinn. Gatan er merkt inn á túnakort frá 1918. Túngarður Klappar
myndaði vesturhlið traðanna alla leið að bænum, þar sem var hlið á túngarðinum en hlaðinn var traðarveggur að austan. Umhverfis traðirnar er grasi gróin slétta. Hólfið er nýtt fyrir hross og sést traðk og hrossaskítur víða.
Túngarður Klappar/Buðlungu markar vesturhlið traðanna frá suðurenda þeirra (þar sem hlið hefur verið á sjóvarnargarði) og hálfa leið heim að tóft Klappar eða samtals 28 m löngum kafla. Vesturveggurinn (túngarðurinn) mjög stæðilegur, víða 1 m á hæð en um 1,5 m þar sem mest er. Í veggnum sjást 6-8 umför af hleðslu. Austurhlið traðanna er 1-2 umför af grjóti. Hæð að innri brún allt að 0,5 m en ytri brún er ógreinilegri. Veggurinn er 0,3 á hæð og 0,8 m á breidd.
Austurhliðin er merkjanleg á um 16 m kafla. Um 4 m norðan við suðurenda traðanna hefur verið hlaðið þvert yfir þær, og girðing strengd þvert yfir svæðið. Timburþil hefur einnig verið lagt yfir traðarendann að sunnan.
Klöpp (þriðja bæjarstæði)
Klöpp – eldhúsið.
“Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra bæjarstæðið og er það bæjarstæði skráð undir þessu númeri. Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.
Klöpp – bæjarstæðið.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: “”Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]” Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Árni staðfesti það síðar í viðtali. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.
Hlaða
Klöpp – hlaðan.
Stæðileg útihúsatóft er um 14 m sunnan við bæjarstæði Klappar. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var heyhlaða á þessum stað sem faðir hans byggði. Guðmundur seldi reif svo húsið og seldi Indriða Guðmundssyni sem flutti það að Auðsholti. Túngarður markar af túnstæði Klappar/Buðlungu. Nú er beitarhólf fyrir hross á þessum slóðum. Tóftin er 11×7 m stór og snýr norður-suður. Hún er grjóthlaðin en gróin og eru veggir alveg yfirgrónir að utanverðu. Hún skiptist í tvö hólf og er það vestara stærra. Það er 6×3 m að innanmálin austur-vestur og virðist hafa verið opið til vesturs þótt þar megi greina lága hleðslu ofan í tóftinni. Aðrir veggir eru stæðilegir og stendur norðurveggur best, í allt að 1,8 m hæð og sjást þar 14-15 umför af börðu sjávargrjóti. Austan við er lítið hólf 3,4×1,7 m að innanmáli sem snýr norður-suður og er opið til suðurs. Ekki er op á milli hólfa en veggurinn sem er á milli hólfanna er mjög mikið hruninn (0,6 m á hæð).
Klöpp – hlaðan.
Tæpum 1 m frá suðvesturhorni tóftarinnar er lítill ferningur um 1 m á kant, líkt og þar hafi grjót verið hlaðið undir e.k. mannvirki. Til austurs frá tóftinni er um 4 m löng hæð sem er 0,5 m hærra en umhverfið og nær hún að túngarði. Þar sem hæðinni sleppir virðist mögulega hafa verið götutroðningur meðfram sunnanverðri tóftinni, samkvæmt túnakorti frá 1918. Ekki hefur þó verið op á túngarðinum á þessum stað og ekki sjást greinileg merki götunnar og hún er því aðeins skráð undir þessu númeri en ekki á sérstöku númeri eins og flestar verulegri götur sem þekktar eru á svæðinu.
Gata
Klöpp – Slokahraun og Hraun. Klapparbændur notuðu Slokahraunið til fiskverkunar.
Götur lágu áður þvert yfir tún Klappar og eru hlið eða op á túngarð Klappar að austan og vestan þar sem göturnar lágu í gegnum hann. Göturnar eru merktar inn á túnakort frá 1918. Götunum er viðhaldið að hestum en svæðið er nú beitarhólf hrossa. Göturnar lágu fyrir sunnan eldra bæjarstæðið en fyrir norðan það yngsta á þessu svæði. Ógreinilegar götur sjást á þessum stað í gegnum túnið, um 20 m langar. Ekki er hægt að merkja framhald þeirra til vesturs (þar sem margvíslegt rask hefur átt sér stað) en hægt er að rekja þær í um 50-60 m um túnið til austurs, þar til komið er að lítilli tjörn sem þar er.
Hrútakofi
Klöpp – fjárhústóft.
Samkvæmt Lofti Jónssyni var hrútakofi neðst eða syðst í túninu hjá Buðlungu/Klöpp. Árni Guðmundsson hafði greint honum frá þessu og Loftur taldi að það hefði verið umræddur kofi sem hefði horfið í flóðið 1925 og Árni greindi frá í viðtali 1986. Á þessum stað er grastó í sjávarkampinum beint niður af Klapparbænum. Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað.
Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað. Samkvæmt frásögn Árna Guðmundssonar (1891-1991) fóru mörg hús við Klöpp/Buðlungu mjög illa í Stórflóðinu 1925. Árni hafði þar hrút í kofa sem var járnklæddur. Þegar Stórflóðið varð þá tók þakið ofan af húsinu og hrútinn og allt. Þegar Árni kom daginn eftir var allt á kafi í sjó. Það varð bið á því að Árni kæmist en um kaffileytið daginn eftir þá sér er byrjað að fjara af túninu og þá fer hann að sjá ofan á kofann. Árni var viss um að hrúturinn væri dauður. Þegar hann loksins kemst að húsunum heyrir hann jarm og þá hafði hrútinum orðið til lífs að smá loftrými virðist hafa verið efst í húsinu. Þótti þetta talsvert merkilegt. Í sama flóði bjargaðist hestur Guðmundar bróður hans sem var í kofa á sömu slóðum.
Upphaf og þróun byggðar í Þórkötlustaðahverfi
Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.
Náttúrufar í Grindavíkurhreppi einkennist af miklum eldshræringum sem hafa mótað svæðið allt frá því á forsögulegum tíma. Landbrot hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið enda er landsig hér á landi hvergi meira en einmitt á þessum slóðum. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál í hreppnum og hafa áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum. Sökum alls þessa er stór hluti hreppsins óbyggilegur. Meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna leynast þó víða grænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. Í mörgum þessara vinja hefur líklega snemma myndast þéttbýli á íslenskan mælikvarða og íbúar reitt sig á sjósókn samhliða skepnuhaldi. Þórkötlustaðahverfið er dæmi um slíkt svæði. Í þessum kafla verður gerð tilraun til að rýna í tiltækar vísbendingar um upphaf og þróun búsetu í Þórkötlustaðahverfi, allt fram á þennan dag.
Þórkötlustaðatorfan.
Þegar reynt er að ráða í byggðarþróun á tilteknu svæði má nota ýmsar vísbendingar sem finnast við fornleifaskráningu, úr fornum ritheimildum, stærð og dýrleika jarðar, jarðarheiti og landgæði til að setja fram tilgátur um upphaf og þróun byggðar. Kuml eru sjálfstæð vísbending um búsetu fyrir árið 1000 og kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku og vitna því um hið sama. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og
dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar.
Þórkötlustaðahverfi.
Samkvæmt Landnámubók var landnámsmaður í Grindavík Molda-Gnúpur Hrólfsson. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðmæri í Noregi, en bróðir hans var Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann samkvæmt Landnámu þar til landið spilltist af jarðeldum og flúði hann þá vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn. Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar.
Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.
Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir. Um tímasetningu landnáms í Grindavík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér
stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík.
Hvergi er hins vegar talað um hversu margir fylgdu Molda-Gnúpi. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má geta þess til að þeir hafi byggt fjóra stærstu bæina í Grindavík: Stað, Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og þá mögulega Hraun.
Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)
Haldbetri fornleifafræðileg vísbending um forna búsetu í Þórkötlustaðahverfi er hins vegar að finna í þeim minjum sem komið var ofan í þegar hlaða var byggð á bæjarhól Þórkötlustaða, um aldamótin 1900. Þar komu í ljós leifar skálabyggingar sem líklega er frá fyrstu öldum byggðar og bendir það eindregið til að byggð hafi verið komin á snemma í hverfinu og að sjálft bæjarstæðið hafi verið á svipuðum slóðum allt frá fyrstu öldum.
Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Á móti vegur sú staðreynd að byggð í Grindavík skiptist snemma í þrjú hverfi sem ætla mætti að hverfðust um elstu og bestu jarðirnar en þau eru kennd við jarðirnar Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Samanlagt verður að teljast líklegt að Þórkötlustaðir sé á meðal elstu jarða í Grindavíkurhreppi og líklegast að hún hafi komist í byggð á 9.-10. öld þótt frekari rannsókna sé þörf til að fullyrða nokkuð um það.
Þórkötlustaðir – varða.
Þótt ekki séu ítarlega heimildir tiltækar um Þórkötlustöðum á miðöldum er jarðarinnar getið á nokkrum stöðum í Fornbréfasafni. Athygli vekur að Krýsuvíkurkirkja átti þar landskika a.m.k. frá 13. öld en í máldögum frá þeim tíma og síðar kemur fram að kirkjan eigi „ix mæla land aa Þorkotlustodum“. Mælieiningin „mælir“ lands var notaður um stærðir kornakra og heimildin er því vísbending um akurrækt á svæðinu á fyrstu öldum.
Árið 1534 kemur fram á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi og í heimild frá 1562 er getið um Þórkötlustaði í tengslum við mannsdráp sem þar átti sér stað. Bréf frá árinu 1563 sýnir að jörðin var þá orðin eign Skálholtsstaðar.
Heródes – álagasteinn við Þórkötlustaði.
Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.
Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi.
Vestari Vesturbær Þórkötlustaða – flugmynd.
Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.
Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum. Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.
Þórkötlustaðahverfi.
Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýsluog sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880. Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.
Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.
Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.
Þórkötlustaðir.
Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.
Í “Fornleifaskráningu í Grindavík, 2. áfanga, 2002” segir m.a. um Klöpp:
Klöpp – tóftir.
1703: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Í sóknarlýsingu 1840 segir: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.” Um 60 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á Buðlungu stendur bárujárnsklædd skemma og suðaustan í henni eru tóftir Klappar. Þar var síðasti Klapparbærinn. Austan skemmunnar er hrossagirðing og lenda tóftirnar að mestu leyti innan hennar. Annars er umhverfis hana sléttað malarplan.
Klöpp – fjárhús.
Svæðið allt er um 50×40 m. Tóftirnar eru tvær, sú syðri minni og væntanlega útihús. Hún er um 9×5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Vestara hólfið er opið til vesturs en hið eystra til suðurs. Fast norðvestan í tóftinni er steypustokkur, e.t.v. einhverskonar þró. Um 10 m norðan við tóftina eru tóftir Klapparbæjarins en skemman hefur rofið norðvesturhluta þeirra. Þær eru mjög greinilegar en ekki er um neinn bæjarhól að ræða. Tóftirnar eru um 22×14 m að stærð og skiptast í sex hólf og gang. Vestasta hólfið er enn undir þaki en mjög sigið. Op eru þrjú, til suðurs, norðurs og vesturs. Báðar tóftirnar eru mjög heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1,3 m en umför allt að átta. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Umhverfis tóftirnar eru grjóthlaðnir túngarðar um 1 m háir. Suðurhluti þeirra liggur alveg í stórgrýttum sjávarkampinum en þó er vel hægt að greina hleðsluna. Norðan í henni miðri er tóftarbrot, mjög ógreinilegt en talsvert er af grjóti í því. Um 20 m sunnan við nyrðri tóftina eru grjóthleðslurnar tvöfaldar og mynda einskonar traðir, um 10 m langar, suður á kampinn.
Árni Guðmundsson í viðtali við ón Daníelsson.
Í myndbandi Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar þar sem Jón Daníelsson í Buðlungu ræðir við Árna Guðmundsson kemur m.a. eftirfarandi fram: Árni: “Hér bjuggu afi minni og amma, Árni Einarsson og Guðrún Árnadóttir, ættuð austan úr Flóa. Hún var frá Gafli í Flóa.”
Í Sögu Járngerðarstaðarættarinnar segir að Árni Einarsson hafi verið fæddur 3. des. 1828 á Þórkötlustöðum, dáinn 14. ágúst 1882 í Klöpp, bóndi í Klöpp og Buðlungu. Kona hans hafi verið Guðrún Gamalíelsdóttir frá Hamri í Gaulverjabæ.
Foreldrar Árna voru Margrét Árnadóttir, f. 29. des 1861 í Hraunkoti í Grindavík, d. 26. ágúst 1947, húsfreyja í Klöpp, og maður hennar Guðmundur Jónsson, f: 19. okt. 1858 á Þórkötlustöðum, d. 3. des. 1936, bóndi og sjómaður. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi á Þórkötlustöðum og Valgerður Guðmundsdóttir frá Hrauni. Þau eignuðust sjö börn; Einar Guðjón, Guðrúnu, Valgerði, Jón, Árna, Guðmund Ágúst og Guðmann Marel.”
Klapparbletturinn er, skv. framangreindu, merkilegur fyrir margra hluta sakir. Slíkar minjar ber að varðveitta, þótt ekki sé fyrir annað en að minnast sögu fólksins, sem þar bjó…
Heimildir:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Myndband Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar – https://vimeo.com/113794968
-Fornleifaskráning í Grindavík, 2. áfangi, Reykjavík 2002.
Klöpp – skemma í Austurtúninu.