Færslur

Litla-Skógfell

Af gefnu tilefni, í kjölfar nýlegra eldgosa á Reykjanesskaga ofan Grindavíkur, er rétt að minna hlutaðeigendur á rétt eigenda óskipts lands Þórkötlustaða ofan Grindavíkur. Þeir hafa hingað til ekki verið virtir viðlits er komið hefur að ákvörðunum um einstakar framkvæmdir á þeirra landi.

Ísleifur Jónnson

Ísleifur heldur á korti er staðfestir málstað hans.

“Þórkötlustaðir : Landamerkjabréf dags. 20.06.1890, þinglýst ………….
…..fyrir miðju Markalóni í fjöru, á Þórkötlustaðanesi, er mark á klöpp er aðskilur að land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Hóp, þaðan liggja mörkin til heiðar, sjónhending á toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna (LM), þaðan að Kálffelli, þaðan að Vatnskötlum (Vatnsfelli) fyrir norðan Fagradal, (samkvæmt landamerkjum frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620), þaðan yfir Vatnsheiði, þá áfram fyrir vestan Húsfell til sjávar í miðjan Markabás í fjöru, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Hraun, er þar mark á klöpp. Einkennismark marksteinanna er LM.”…

Ísleifur Jónsson

Ísleifur á vettvangi. Hingað kom hann í leitir fyrir Grindvíkinga og horfði á landamerkja”Steininn” við götuna.

FERLIRsfélagar fylgdu Ísleifi Jónssyni, rúmlega níræðum verkfræðingi, á fjórhjóli, inn á Skógfellastíginn, að “Stóra steininum” norðan Litla-Skógfells.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – óskipt land skv. uopinberu skrám.

Ísleifur taldi eindregið að landamerki Grindavíkur og Voga ættu að vera um 1.5 km norðar skv. landamerkjalýsingunni en kortlögð hafa verið – enda eðlileg framlenging m.v. fyrirliggjandi landamerkjalýsingar. Samkvæmt lýsingum Ísleifs, þar sem “Stóri steinninn”, þess er getið er um í landmerkjalýsingunni, ku það vera rétt. Núverandi landamerki Voga og Grindavíkur eru því röng sem nemur 1.5 km.

Skógfellavegur

Þórkötlustaðir – landamerki millum Litla-Skógfells og Kálffells.

Faxi

Í Faxa 1977 fjallar Svavar Árnason um Grindavík undir yfirskriftinni “Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið“.

Svavar Árnason

Svavar Árnason.

“Alþingi veitti Grindavík kaupstaðarréttindi með lögum nr. 18, 10. apríl 1974. Grindavíkurkaupstaður er því með alira yngstu kaupstöðum landsins. Saga hans er að vonum ærið stutt og naumast annálsverð enn sem komið er, en Grindavíkurhreppur, sem er eðliiegur undanfari kaupstaðarins, á sér aftur á móti langa og að ýmsu leyti merka sögu, sem rekja má allt til landnámsaldar. Þess er þó enginn kostur að rekja þá sögu í stuttu máli, aðeins skal lauslega minnst á minnisverða atburði og þá ekki síður þá atburði, sem minni eftirtekt hafa vakið í gegnum tíðina.
Um það hvernig Grindavík byggðist segir svo frá í Landnámabók: „Maður hét Hrólfur höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn
af ellifu
banaorð.
Blástu meir.

Núpshlíðarhorn

[G]Núpshlíðarhorn – varða.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígfar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar. Þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórðu leggjaldi.

Hraustir menn og vígreifir víkingar

Grindavík

Grindavík og nágrenni.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímkaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur. Síðan var hann Hafur-Björn kallaður.

Geithafur

Geithafur.

Það sáu ófreskir menn, að landvættir fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Af þessari lýsingu er bersýnilegt, að þeir sem námu land í Grindavík voru hraustir menn og vígreifir víkingar, sem létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna svo sem kviðlingur Vémundar ber vott um. Það er víst að Landnámsmennirnir hafa frá upphafi byggðar í Grindavík stundað jöfnum höndum landbúnað og fiskveiðar og farnast vel, enda til þess notið fulltingis landvættanna eftir því sem sagan segir.
Landafræðin kenndi okkur að Grindavík væri lítið og afskekkt sjávarþorp á sunnanverðum Reykjanesskaganum, umkringt hraunum og langt frá öðrum byggðum. Landkostir rýrir en stutt á fangsæl fiskimið. Úthafsaldan, ferleg og há, komin um óravegu sunnan úr höfum, brotnar hér við ströndina með háreisti og gný. Af því leiðir að Grindavík hefur ávallt verið talin brimveiðistöð.

Skipströnd og björgunarafrek

Skipsskaðar

Skipsskaðar við Grindavík.

Strandlengjan fyrir landi Grindavíkur nær frá Valahnúk á Reykjanesi, eða nánar tiltekið frá miðri Valahnúkamöl og austur að Seljabót, en þar tekur við Selvogur í Árnessýslu.

Guðsteinn Einarsson

Guðsteinn Einarsson.

Á þessari strönd hefur mörg harmsagan gerst. Guðsteinn Einarsson hreppstjóri hefur í ágætri grein í bókinni “Frá Suðurnesjum“, skráð örnefnin og um leið fléttað inn í frásögnina viðburðaríkum atburðum af skipsströndum og björgunarafrekum, sem unnin hafa verið á þessari strandlengju, sem hann telur vera um 70 til 80 km. langa.
Fjallahringur upp til landsins umlykur Grindavík og gefur henni hlýlegt svipmót. Fjöllin eru fremur lág, en Þorbjörn er þeirra nálægastur byggðinni og nýtur mestrar virðingar innfæddra Grindvíkinga, þótt hann sé ekki nema 243 metrar á hæð. Þar skammt frá er- Hagafell” með Gálgaklettum og síðan kemur Svartsengi, sem nú er þekkt vegna háhitans, sem er á því svæði, og nú er virkjaður af Hitaveitu Suðurnesja í þágu íbúa á Suðurnesjum.

Útilegumenn hengdir í Gálgaklettum

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þar sem fjallið Þorbjörn rís upp úr hraunflákanum í allri sinni tign með klofinn toppin og myndar gjá, sem heitir Þjófagjá, þar eiga útilegumenn endur fyrir löngu að hafa átt skjól. Þjóðsagan segir að þeir hafi um síðir verið handsamaðir og færðir til hengingar í Gálgaklettum.

Festisfjall

Festarfjall.

Lengra austur eftir Sakganum koma svo Húsafell í grennd við býlið að Hrauni, þá Fiskidalsfjall, Fagradalsfjall og Festi eða Festarfjall. Festi er fyrir botni Hraunsvíkur. Þar þykir skemmtilegt útivistarsvæði undir fjallinu á Hraunssandi við sjó fram. Ekki er þó þessi staður með öllu hættulaus vegna grjóthruns úr fjallinu og engan veginn er hættulaust að fara þar í sjóinn vegna strauma, sem liggja fram með ströndinni, og hafa gert færustu sundmönnum örðugt að ná landi aftur.
Býlið Hraun er austan við Þorkötlustaðahverfið, en austasti bærinn er ísólfsskáli og er yfir Hálsa að fara þangað. Austan við Ísólfsskála eru fjöllin Slaga og Skála-Mælifell og enn austar er svo Krýsuvíkur-Mælifell, en austast er Geitahlíð með Æsubúðir efst á tindi. Skammt austan við Ísólfsskála eru Selatangar. Þaðan var útræði frá Skálholti á fyrri tíð, og enn má sjá þar ummerki og tóftabrot, er minna á frumstæðan aðbúnað sjómanna í verbúðum þeirra tíma.

Járngerður og Þorkatla

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Grindavík hefur frá fornu fari verið skipt í þrjú hverfi, þ.e. Staðarhverfi vestast, þá kemur Járngerðarstaðahverfi og austast Þorkötlustaðahverfi, en auk hverfanna þriggja voru svo einstaka bæir svo sem Hóp — þar sem nú er höfnin — lífæð byggðarinnar —, Hraun og Ísólfsskáli og áður fyrr byggðarhverfi í Krýsuvík. — Í Krýsuvík er risinn myndarlegur skóli, sem sveitarfélögin í Reykjanesumdæmi, SASÍR, hafa barist fyrir að koma á fót, en kennsla er rétt óhafin.
Það er athyglisvert við nöfn hverfanna, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi, að svo virðist sem “rauðsokkur” þeirra tíma hafi látið mikið til sín taka í Grindavík.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki greinir þó sagan frá jafnréttisbaráttu kvennanna þar, en víst má telja að konur þessar, Járngerður og Þorkatla, hafi verið hinir mestu skörungar og stórbrotnar að allri gerð. Þær sátu báðar jarðirnar, sem einnig bera þeirra nöfn. Báðar munu þær hafa átt útvegsbændur og framsækna fiskimenn, en gifta þeirra fylgdist ekki að. Járngerður missti bónda sinn í sjóinn á Járngerðarstaðasundi. Segja munnmæli að þá hafi Járngerður orðið myrk í skapi, og kveðið svo á, að 20 skip skuli farast á Járngerðarstaðasundi. Telja fróðir menn að þeirri tölu sé náð. Af Þorkötlu er aftur það að segja, að hún hafi látið svo ummælt, að aldrei skyldi skip farast á Þorkötlustaðasundi, ef rétt væri farið og fomann brysti ekki dáð og dug, og þykir það hafa farið eftir.

Oft var teflt á tæpasta vað
Grindavík
Landnámsmennirnir komu til Íslands á opnum skipum. Molda-Gnúpur og synir hans stunduðu sjóinn á opnum skipum að sjálfsögðu, og Grindvíkingar hafa löngum háð sína hörðu lífsbaráttu á opnum skipum — fyrst og fremst áraskipum — fram yfir árið 1926 og þar næst á opnum vélbátum, „trillum,” allt þar til að hafnarskilyrði sköpuðust í Hópinu fyrir stærri skip og báta, svo að sambærilegt er orðið við hvaða verstöð sem er á landinu.

Grindavík

Áttæringar í Nesi.

Þeir einir, sem muna tímana tvenna og þær stórkostlegu breytingar, sem hafa orðið á aðstöðu allri til sjósóknar og fiskveiða í Grindavík síðustu 50 árin, hljóta að undrast það nú, að það skuli hafa verið mögulegt að stunda róðra á þessum litlu fleytum og bjóða þeim það sem þeim var boðið og ekki síður eftir að „trillurnar” komu til sögunnar. Þeir sóttu sjóinn fast, og tefldu oft á tæpasa vað. Lendingin var oft erfið og áhættusöm þegar komið var upp að Járngerðarstaðasundi og þurfti að liggja til laga eins og það var kallað. Þeir sem í landi voru, og fylgdust með þegar lagið var tekið, biðu í ofvæni og eftirvæntingu úrslitanna um það, hvort mætti sín meira, mannlegur máttur ræðaranna, eða hrammur holskeflunnar. Oftast tókst þetta vel, og formennirnir lærðu að finna rétta lagið — nákvæmlega rétta augnablikið — þegar lagt var á sundið í tvísýnu. Oft skall hurð nærri hælum og slysin urðu ekki umflúin, eins og hún Járngerður, og svo ótal margir fleiri hafa orðið að horfa upp á og þola. —

Áfram nú í Herrans hafni
Grindavík
En nú er allt orðið gjörbreytt til hins betra. Hætturnar leynast að vísu alls staðar, bæði á sjó og landi. Bátastærðin, öryggistækin og höfnin, allt ber það vott um þá stórkostlegu byltingu, sem átt hefur sér stað í þróun og vexti staðarins. —

Grindavík

Brimlending.

Þegar þróunin verður skyndilega ör, vill það stundum gleymast að halda til haga ýmsum fróðleik varðandi atvinnusöguna og líf fólksins á viðkomandi stað. Hvert tímabil á sína sögu.
Ef við hugsum til þess að fram til ársins 1926 er svo til eingöngu róið á árabátum, þá er líklegt að ýmsir siðir og venjur, áhöld og tæki, sem þá voru notuð, séu nú lítt þekkt eða með öllu ókunn þeirri kynslóð, sem nú er að alast upp í landinu.
Við skulum leiða hugann að því að formaðurinn á áraskipinu fer árla dags á fætur, gáir til veðurs, því að þá er engin veðurþjónusta, fer síðar um kotin og kallar, þ.e. ræsir skipshöfnina. Hún bregður skjótt við og innan tíðar eru allir komnir til skips í nausti, hver maður skinnklæddur og kominn að sínum keip. Það fyrsta sem þeir gera, er að þeir taka ofan og signa sig. Þá er losað um skorður og formaðurinn segir: Áfram nú í herrans nafni.

Áttæringur

Áttæringur við Grindavík.

Samtaka ganga nú allir til verks og setja skipið á hlunnum fram í vörina, og þegar skipið flýtur, hoppa allir léttilega upp í, og setjast undir árar, en formaðurinn kemur fyrir stýri. —
Á vetrarvertíð voru skipin flest tíróin, kölluð teinæringar.
Þegar ýtt hefur verið úr vörinni er fyrst róið yfir Lónið á Járngerðarstaðavíkinni og fram á snúning, en það er hættulegasti staöurinn þegar brim er. Þegar snúningi er náð, er stefnan tekin út Víkina, en þá taka allir ofan, og halda þó róðrinum áfram, en um leið sameinast skipshöfnin í Ijóðlátri sjóferðabæn. Þegar bænin er á enda setja menn upp sjóhattinn á ný. Þannig hefst sjóferðin.

Og forða því frá öllu grandi
Grindavík
Ef til vill er verið með línu, þá er hún lögð þegar komið er fram á mið, eða þá að verið er að vitja um netin.
Yfirleitt er hraði í öllum verkum og kostur þótt það að vera fljótur á sjó, því að á skammri stund skipast veður í lofti. — Glöggir formenn gerðu sér Hjótt grein fyrir því, hvort farið væri að brima eða ekki. Þeir sáu það á öldunni og það engu síður þótt í logni væri.

Seil

Seilaður fiskur í vör.

Þegar komið var að landi og sjóferðin var á enda var það venjan að tveir fremstu ræðararnir lögðu upp árarnar áður en komið var í vörina.
Þeir voru kallaðir framámenn og tóku sér í hönd „kolluband” og settust framan á kinnungin og höfðu það Þýðingarmikla og vandasama starf með höndum að taka skrið af skipinu þegar þeir sjálfir höfðu fengið fótfestu, og halda því á floti á meðan bskurinn var seilaður þ.e. dreginn upp á snæri, sem kallað var seilaról, því að engin var þá bryggjan til að landa við. Seilaról var þannig gerð, að á öðrum endanum var tréspjald en á hinum endanum var lykkja. Lykkjan var þrædd í auga á seilarnál, sem venjulegast var tiltelgd úr hvalbeini.
Með seilarnálinni var svo fiskurinn seilaður upp á seilarólina og þegar allir höfðu lokið við það, voru seilarólarnar sameinaðar og bundnar við streng eða tóg, sem fesi var við klettanöf í fjöruborðinu. Á meðan þessu fór fram hafði formaðurinn nóg að gera við að halda skipinu í horfi í vörinni með sérstökum krókstjaka, sem til þess var ætlaður. Þannig unnu þeir saman formaðurinn og framámennirnir, að því að halda skipinu í réttu horfi og forða því frá öllu grandi. Var það oft erfitt verk og vandasamt, ef sogadráttur var í vörinni og mikil lá.

Hvort viltu heldur, sporð eða haus?

Grindavík

Þegar skipið hafði verið sett í naust var næsta verkefnið að bera aflann upp á bakinu, um annað var ekki að ræða. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðri birðaról, einnig úr snæri, en miklu styttri en seilarólin. Hver maður bar það sem hann vildi í einu og var stundum keppni um það hve marga fiska var hægt að bera í einni ferð. Fiskurinn var borinn upp á svokallaðan skiptavöll og þar skipti formaðurinn aflanum í köst. Það var reyndar kallað að skipta í fjöru.

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Í kastinu voru 2 hlutir. Síðan var dregið um köstin og þar sem 2 menn voru um kastið skiptu þeir á milli sín, og gerðu út um skiptin með því að annar sneri frá, en hinn spurði t.d. hvort viltu heldur sporð eða haus, lófa eða laska, skaft eða blað, hæl eða tá og sitt hvað fleira mátti nota til að gera út um skiptin. — Síðan gerði hver að sínum aflahlut.
Hér áður fyrr var talið að vetrarvertíð byrjaði 2. febrúar ár hvert og lokadagurinn var óumdeilanlega 11. maí. Í vitund fólksins var lokadagurinn mikill hátíðisdagur, sérstaklega ef vertíðin hafði verið gjöful og stórskaðalaus.
Á tímum áraskipanna var það mjög algengt, að ungir og frískir bændasynir austan úr sveitum og víðar að, fóru í verið út í Vík þ.e. Grindavík, og dæmin voru þess, að þeir komu ár eftir ár, sömu mennirnir og voru hjá sama formanninum og á heimilum þeirra og annara, sem að útgerðinni stóðu. Þessir menn voru á þeim tíma kallaðir útgerðarmenn þ.e. þeir voru gerðir út. Með þessum mönnum og heimamönnum var náið samstarf, sem leiddi oft til traustrar vináttu og samhjálpar í erfiðri lífsbaráttu. Og trúlega munu þeir menn enn finnast, sem eiga hugljúfar minningar um samveruna í verinu og kveðjustundirnar á lokadaginn 11. maí.”

Heimild:
-Faxi, 3. tbl. 01.08.1977, Grindavík – Landkostir rýrir en stutt á fengsæl fiskimið, Svavar Árnason, bls. 2-4.

Grindavík

Grindavík 1963.

Strýthólahraun.

Gengið var að gömlu hliði, sem enn sést móta fyrir, á Hraunsgarði vestan við Hraun. Um hann lá Hraunsgatan vestur yfir í Þórkötlustaðahverfi og síðan áfram út á Þórkötlustaðanes, en Hraunsmenn nýttu Nesið fyrrum m.a. til útgerðar. Þeir réru t.a.m. þaðan fyrir tíma útgerðar Þórkötlustaðabænda og héldu því áfram eftir að byggt var í Nesinu.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Enn má sjá hluta að gömlu hlöðnu görðunum á Hrauni, en fyrir þá fékk Jón bóndi Dannebrogsorðuna á sínum tíma. Norðan vegarins er hóll og á honum hleðsla; Hraunsdysin. Þar segja kunnugir að hafi verið dysjaður drengur er “Tyrkir” drápu er þeir stigu á land í Hrólfsvíkinni 1627. Sagan segir að strákur hafi reynt að komast undan á rauðri meri, eltur af tveimur tyrkjum. Merin hafi náð að sparka í og drepa annan þeirra, en hinn hefði náð stráksa af baki og vegið hann. Sumir hafa sagst hafa séð honum bregða fyrir á dysinni, einkum eftir að rökkva tekur.

Slok

Slok – Brennivínshóll.

Garðinum var fylgt til suðurs og var þá komið inn í Slokahraun vestan við túngarðinn. Í hrauninu eru margir og miklir þurrkgarðar. Haldið var á Sögunarhól þar sem bændur unnu rekavið og áfram yfir á “Brennivínshól”. (Við hann földu Grindjánar vínföng sín í þá gömlu daga. Fóru þeir þangað, einkum að kvöldlagi, til að fá að vera í friði með drykkjuna fyrir spúsum sínum, því ólíklegt var að þær leggðu í úfið hraunið til að leita þeirra). Eftir stutta leit fannst ein faska, rúmlega hálffull. Á henni var handunninn merkimiði er á stóð m.a.: Grindarvigsbrennevin – 1889 – með kongen´s fuldmagt – Einarsbutik – den enesete ene, upp á dönsku, enda Grindavík danskur bær á þeim tíma eins og aðrir bæir á landinu. Vínbragð var af innihaldinu. Hvort sem það var vegna innihaldsins eða einhvers annars, virtust sumir þátttakenda sjá hvíta vofu á Hraunsdysinni í fjarnorðri.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Gengið var áfram vestur yfir hraunið, í gegnum mikla þurrkgarða, sem þar eru, vent til hægri og stefnt að tóttum Hraunskots, innan garðs. Mikill hlaðinn garður umlykur Þórkötlustaðabæina að austan- og norðanverðu. Hann hefur staðið af sér öll veður, en jarðskjálftar hafa hrist úr honum af og til. Það hefur þó verið lagfært jafnóðum. Hluti garðsins sunnan Hraunkots er öðruvísi fallega hlaðinn og úr annars konar grjóti en afgangurinn. Grjótið hefur verið tekið úr eldra hrauni, sem hið yngra rann yfir, en það kemur þarna undan hraunkantinum á kafla.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóttir og fallegar hleðslur eru í Hraunkoti. Heimtröðin er sérstaklega verkleg, sbr. meðfylgjandi mynd. Gengið var yfir á Klappartúnið og það síðan til vesturs, að tóttum gamla Klapparbæjarins. Þaðan var haldið suður austustu sjávargötuna af þremur í Þórkötlustaðahverfi, niður að Buðlungavör, litið á skiptivöllinn og síðan haldið upp að göngum Klapparbæjarins utan girðingar, fast við fjárhús Stakkavíkurmanna í Buðlungu. Göngin eru þarna nokkuð heilleg, en þau komu í ljós eftir eftir að gamalt bárujárnshús hafði verið fjarlægt frá þeim fyrir nokkru.

Þórkötlustaðir

Einland í Grindavík.

Gengið var upp að Einlandi, litið á gömlu tóttirnar norðan hússins og skyggnst yfir að tóttum Móa, sem eru þarna upp á túninu. Loks var litið á hugsanlega staðsetningu Þórkötlustaðabrunnarins undir veginum gegnt Valhöll áður en hús var tekið á Helga Andersen í Miðbæ og hans hustru. Hún bauð upp á útistandandi kaffi í veðurblíðunni á meðan Helgi sagði frá því er hann fékk því áorkað að öskudagurinn var gerður að frídegi öskukarla í Grindavík, líkt og sjómannadagurinn varð frídagur sjómanna.

Að kaffidrykkju lokinni var kíkt á Heródes, álagastein við Vesturbæ. Snyrt hafði verið umhverfis hann og því erfiðara en áður að berja rúnarletrið á austurhlið hans augum.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Gengið var upp að Þórkötludys á túninu austan við Hof, rifjuð upp þjóðsagan og tengsl fundin við fyrrum gegna tíð. Sagan segir að Þórkatla hafi mælst svo fyrir um að hún yrði dysjuð þar sem hún sæi yfir Bótina og jafnframt að engin skyldi farast á rétt siglu sundinu. Þarna sér vel yfir Þórkötlustaðabótina.
Staðnæmst var við staðsetningu gamla barnskólahússins við verbúðina, gengið framhjá hlöðnu réttinni og staðnæmst gegnt þeim stað er foreldrar Guðbergs Bergssonar, skáls, bjuggu fyrrum, Hjarðarholti. Húsið var síðar flutt vestur í Járngerðarstaðahverfi. Ofar er Auðsholt. Verbúðin var nefnd Bjarnarhöfn. Í suðausturhluta þess hús sem hefur verið tengt saman og kallast nú Bjarnarborg (verbúð HÞ). “Marel Guðmundsson byggði þar hús yfir fjölskyldu sína 1930.

Brautarholt

Brautarholt.

Eftir að hann dó úr berklum var húsið rifið af lánadrottni Marels (Einari kaupmanni í Garðhúsum). Síðar var sett þak á steyptan grunn hússins og gert að barnaskóla. Þar var hafður barnaskóli í Þórkötlustaðahverfi þar til nýr barnaskóli tók til starfa í Járngerðarstaðahverfi árið 1948. Brautarholt er norðan Hraðfrystihúss Þórkötlustaða. Húsið var byggt árið 1934. “Þetta hús byggðu hjónin Júlíus Daníelsson og Sigríður Þorleifsdóttir 1934 og bjuggu þar til 1956”. Húsið var byggt sem íbúðarhús en síðar var þar vog fyrir Hraðfrystihúsið.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var suður götuna út á Þórkötlustaðanes, en á leiðinni var staðnæmst í Kóngum, hraunslengju, sem aðskilur austurhverfið frá gömlu útgerðaraðstöðuna ofan við gömlu bryggjuna skammt sunnar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – minjar á Kóngum.

(Þarna hefur lengi verið kjörlendi sandfuglsins. Mjög erfitt er að koma auga á hann. Til að finna hreiður hans er helst að leita spora eftir fuglinn. Eftir stutta leit fundust spor. Grafið var í sandinn og þá komu tvö gulleit egg í ljós – egg sandfuglsins. Þess var vel gætt að skilja við þau án þess að ummerki sæjust).
Þá var gengið um gamla útgerðarstaðinn ofan við bryggjuna í Þórkötlustaðanesi, litið á bæjarstæði Hafnar, Arnarhvols og Þórshamars, lifrabræðsluna, ískofana, salthúsin, sökklana undir beitningaskúrana, spilið, stýrikengina, staðsetningu gamla brunnsins og bryggjuna. Rifjuð var upp útgerðarsagan eins og hún kemur fyrir í lýsingu Péturs Guðjónssonar í nýjasta Sjómannablaði Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var til suðurs austan Flæðitjarnarinnar. Þá var komið að manngerðum hól. Í honum er fornt fjárskjól og austan í honum er gömul tótt. Gerði liggur umhverfis skjólið. Sunnar eru hlaðin fjárhús og gerði. Enn sunnar er skrautgarður Þórshamarsfólksins, en allt í kring eru garðar og tóttir. Litið var inn í Þórshamar og sagan um Jóhann Pétursson, vitavörð, rifjuð upp, einkum er hann slasaðist við breytingar á húsinu, komst út við illan leik og lá þar vel á annan sólarhring í kulda og snjó áður en honum var bjargað. Enok og frú bjuggu áður í Þórshamri.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Gengið var til suðurs inn í Strýthólahraun. Í suðaustri mátti sjá Leiftrunarhól og Strýthóla austari og vestari í suðri. Í hrauninu eru þurrkgarðar og fiskbyrgi líkt og við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar í Nesinu eru einnig margir þurrkgarðar.
Haldið var áfram eftir veginum, framhjá vitanum, sem byggður var skömmu eftir aldarmótin 1900, og rifjuð upp saga af ströndum og mannsköðum við Nesið. Skilti, uppsett af Slysavarnarfélaginu, eru þar við með helstu upplýsingum.
Gengið var framhjá vörðufæti Siggu og áfram út að Nesi, en þar stóð húsið Nes. Enn má sjá þar sjóbúð, bátarétt og fleiri mannvirki.

Sigga

Sigga.

Litið var á Goðatóttina við gömlu bæjar- og útihúsin á Hópi og skyggnst yfir túnið, en þar má sjá, ef vel er að gáð, jarðlæga tótt og bogadregna garða. Ofar á túninu, upp undir Sjónarhól, eru einnig tóttir, sem vert væri að rannsaka. Gamla leiðin á milli hverfa lá rétt ofan við Sjónarhól.
Gangan endaði við Íþróttahúsið þremur tímum frá upphafsreit.
Eða eins og bæjarstjórinn sagði dimmum rómi: “Það er gott að ganga um Grindavík”, og leit á lúinn hund sinn (sjá mynd).

Þórkötlustaðanes

Á Þórkötlustaðanesi.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um “Þróun byggðar í Grindavík” í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

“Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Slok

Slokahraun er angi af Sundhnúkahrauni sem rann úr gígaröð ofan Grindavíkur . Önnur nafngreind hraun í sama gosi eru Blettahraun og Klifhólahraun.
Slokanafninu hefur jafnan verið gefinn sá hluti hraunsins, sem rann Slokitil suðausturs niður sunnanverða Hópsheiðina og í sjó fram austan Þórkötlustaða.  Sundvörðugígagosið er talið hafa myndast fyrir um 2400 árum, eða hálfu fyrr en fyrstu lndnámsmennirnir voru að tygja sig til landsins. Þá myndaðist Þórkötlustaðaneið sem og hafnarlagið umhverfis Hópið. Í dag er Slokahraunið mosavaxið með graslænum á millum. Neðst í því eru miklir fiskgarðar frá útgerðinni fyrr á öldum, svonefndir Hraungarðar frá Hrauni og Slokagarðar frá Þórkötlustöðum. Þessara garða er ekki getið í örnefnaskrám.

Slokahraun

Slokahraun – fiskgarðar.

Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir svæðið segir m.a.: “Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás. Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun. Upp af Markabás er hóll milli bæjanna, Markhóll. Er hann upphlaðinn þar á hryggnum, sem nefndur er Leiti.” Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Sunnan þessara boða og víkin öll er nefnd Þorkötlustaðabót, en Þorkötlustaðasund er sunnan boðanna.
SlokiKlofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

SlokiAustur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.
Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.
SlokiRandeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna. Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.
Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Slokahraun rann í mjórri ræmu til suðsuðausturs frá gígunum sunnan Sundhnúks, milli Vatnsheiðar og Hópsheiðar. Getið er um Slok í tveimur örnefnaskrám Þórkötlustaða í Grindavík:  “Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun” og “síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.” Innfæddir Grindvíkingar austanverðir þekkja hljóðið. Þegar aldan skellur undir hraunhellunni slokrar í henni svo um munar.

Slokahraun

Slokahraun – minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Að austanverðu eru mörk hraunsins við ströndina við vesturtúngarðinn á Hrauni. Garðurinn liggur uppi á hraunbrúninni, sem nú er gróin að innanverðu. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagði hraunið, séð frá bænum, jafnan hafa verið nefnt Hraunið. Um það hefðu legið þrjár götur fyrrum, áður en akvegirnir voru lagðir yfir það, fyrst með ströndinni og síðar um Tíðarhliðið á norðvestanverðum túngarðinum. Enn mótar fyrir síðarnefnda veginum, bæði innan garðs og utan. Hann lá yfir að Hvammi og þar áfram til vesturs. Sjást leifar hans bæði austan við Hvamm og vestan við Efra-Land. Um hinar göturnar þrjár verður nánar fjallað um hér á eftir. Þeirra er hvorki getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningarskýrslum.

Í Sögu Grindavíkur segir að Slokin séu “austan við Buðlungavör; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól [á Þórkötlustaðanesi].

Sloki

Slokahraun – örnefni.

Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu… að annan vélbát frá Vestamannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farizt með allri áhöfn.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi. Slokahraun er h.m. fyrir miðri mynd.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafi laskazt svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land…
Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaðamenn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hafði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því er gizkað á, að togarinn hafi lent annaðhvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavíkina.”

Þórkötlustaðagata

Þórkötlustaðagata.

Vertíðir settu löngum svip á atvinnulífið í Grindavík. Tvær verbúðir voru um tíma í Þórkötlustaðalandi, ein á Ísólfsskála og fleiri í Járngerðarstaðalandi. Hraunsmenn gerðu út á Þórkötlustaðanesi og gengu á milli. Þá var Eyrargatan jafnan farin, en hún lá með ströndinni, í gegnum Slokahraun framhjá Sögunarhól og eftir fjörunni neðan við Klöpp, Buðlungu og Þórkötlustaði. Ströndin var þá sandfjara líkt og enn má sjá að hluta innst í Bótinni. Sandurinn náði dágóðan spöl út. Þar voru góðar lendingar fyrrnefndra bæja. Vestan Þórkötlustaða, þar sem nú er Sólbakki, kom gatan upp á bakkann við bæ, sem hét Skarð og þar var. Síðan liðaðist hún ofan strandarinnar, yfir Kónga og að naustunum vestan þeirra. Eyrargatan sést enn í hrauninu innan landamerkja Þórkötlustaðahverfis. Austar hefur sjórinn kastað grjóti yfir hana, auk þess sem vegur var lagður að hluta til yfir hana. Nánar er sagt frá Eyrargötunni annars staðar á vefsíðunni.

Hrauntúnsgata

Hrauntúnsgata.

Önnur gatan hét Hrauntúnsgata. Hún lá upp frá austanverðri hraunbrúninni, í gegnum túngarðinn á Hrauni og svo til beina stefnu yfir það til vesturs, að Hraunkoti, sem var austast bæja (kota) í Þórkötlustaðahverfi. Stór gróinn hraunklettur er norðan götunnar skammt frá Hraunstúngarðinum. Þessi gata sést enn mjög vel, enda gróin. Sigurður sagði það varla geta talist undarlegt því þessa götu hefðu vermennirnir gengið til baka með fiskinn á bakinu. Áburðurinn hafi því verið ágætur og nyti gatan góðs af því enn í dag.
Þriðja gatan, sem enn sést, er Þórkötlustaðagata. Hún liggur, líkt og Hrauntúnsgatan, í gegnum hlaðinn túngarðinn á Hrauni, um hlið þar sem sem garðurinn myndar 90° horn. Gatan, sem er sú nyrsta þeirra þriggja, liggur nú um gróið hraunið, en hinar fyrrnefndu liggja enn um úfið mosavaxið apalhraunið. Lítill hraunhóll er norðan götunnar.
Frá Slokahraunhonum beygir gatan lítillega í átt að norðurtúngarðshorni Hraunkots. Þar lá hún samhliða garðinum með svo til beina stefnu á Þórkötlustaði. Enn sést móta fyrir honum á sléttuðu túninu sem þar tekur nú við.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan má enn sjá neðan við Klöpp]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun víðast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.

Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum.

Garðar

Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá Markhóll17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar Gíslasonar eru greinast Leitin í Fremra-Leiti og Efra-Leiti. Hið síðarnefnda er þar sem akvegurinn fer yfir milli Hrauns og Þórkötlustaðahverfis, en hið fyrrnefnda er þar
sem Þórkötlustaðagatan fer yfir Slokahraunið.

Sloki

Slokahraun – Randeiðarstígur.

Garðanna í Slokahrauni er getið í “Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi” frá árinu 2002. Þar segir: “”Herslugarður” – Slokahraun er á merkjum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns, þar eru leifar fiskgarða. Ef gengið er austur með sjávarkampinum frá Þórkötlustöðum í átt að Hrauni er komið í Slokahraun fast austan við túngarðinn. Slokahraun er mosagróið apalhraun og liggja
landamerkin um mitt hraunið. Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir en misvel standandi, hleðsluhæðin er milli 0,5-1 m. Umför eru allt að tíu. Garðarnir teygja sig allt austur fyrir Markhól, en eru þá í Hraunslandi. Svæðið er um 100×100 m.”
Fornleifanna í Slokahrauni er hnins vegar ekki getið í skráningunni “Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð” frá árinu 2018.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.
-Fornleifaskráning í Grindavík 2. áfangi, Þóra Pétursdóttir, Reykjavík 2002.
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka – Hraungarðar.

Klöpp

Þótt tóftir bæjarins Klappar austan Buðlungu í Þórkötlustaðahverfi Grindavíkur gefi ekki til kynna mikil merkilegheit er þar margs að minnast.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur 2018.

Fjallað er um bæjarstæðið í skýrslu um “Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð“. Þar segir m.a. um Klöpp og nágrenni:
“Þórkötlustaða er getið 1270 í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Hjáleigur 1703 voru: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.

Buðlunguvör

Buðlungavör

Buðlungavör 2023.

“Í klapparskoru (bás) við sjóinn framan við eystri Þórkötlustaðabæina er Buðlungavör. Þessi lending var notuð þegar hægt var,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar. “Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni
eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi,” segir í örnefnaskrá AG.

Buðlungavör

Buðlungavör – för eftir kili árabátanna á klöppinni ofan vararinnar.

Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.” segir Guðsteinn Einarsson. Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestari-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austur, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austanvið klöppina er lygnara en þar er lendingin í Buðlunguvör. Buðlungavör er um 175 m suðaustan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 70 m beint suður af Buðlungu. Ryðgaðir festarboltar eru á þessum slóðum við sjóinn. Stórgrýttur sjávarkampur og svartar hraunklappir í sjó fram. Vörin er stórt skarð í klettana um 15-20 m langt og 10 m breitt. Samkvæmt Lofti Jónssyni var lent upp við klöpp við vörina vestanverða og síðan var aflinn borinn upp á klöppina fyrir ofan sem nefnd var Skiptivöllur.

Teigur (eldri)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

“Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson (94 ára) við bæjarstæði Klappar.

Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus [Harður]. Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35x 12m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást.

Öskugarður

Klöpp

Klöpp – Suðurgarður efst. Öskurgarðurinn kominn undir kampinn.

Garðlag sem líklega hefur að hluta til verið varnargarður lá áður frá túninu í Buðlungu/Klöpp og til vesturs alla leið að kálgörðum frá Austurbæjum Þórkötlustaða. Garðurinn hefur einnig markað af suðurhlið túna sem tilheyrðu Buðlungu/Klöpp. Segja má að þetta garðlag og suðurhlið hans austar hafi mögulega tengst en á milli er túnskiki Buðlungu/Klappar auk þess sem suðurhlið fyrrnefnds garðs er alveg horfin í rof. Garðurinn sem hér er skráður hefur upphaflega verið tæpir 110 m á lengd og var fast ofan við fjörukambinn. Á þeim slóðum sem garðurinn var hefur sjórinn þeytt yfir nokkru grjóti og er garðurinn alveg horfinn á löngum kafla.

Verbúð

Klöpp

Hraunreipi neðan sjávargötu Klappar að Buðlungavör. Minjar verbúðarinnar eru nú horfnar, enda segir Árni að “drjúgur hluti Klappartúnsins” sé kominn undir kampinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Heimræði árið um kring og gánga þar skip heimabóndans. item áttært skip dómkirkjunnar um vertíðina, og fylgja því staðarins skipi bæði búð og vergögn, sem staðurinn við magt heldur”. Ekki er vitað hvar verbúðin hefur verið en líklegast hefur hún verið neðan við Þórkötlustaði eða á milli bæjarins og Buðlungu. Elsta þekkta lýsing á verbúðum í Þórkötlustaðalandi er í úttekt frá 4, júní 1738 þar sem getið er um tvær „sjómannabúðir. Var önnur þeirra í tveim stafgólfum, en hin í þrem, og báðar sagðar vel stæðilegar. Þessar búðir hafa að líkindum aðeins hýst eina skipsáhöfn hvor, en einnig voru til búðir fyrir tvær skipshafnir.“ segir í Sögu Grindavíkur.
Hafa ber í huga að sjávarkampurinn hefur sífellt verið að færa sig upp á landið ofanvert. Árni Guðmundsson vitnar um það í viðtali á Klapparstæðinu, þá 94. ára.

Buðlunga (elsta staðsetning)

Klöpp

Klöpp og hluti gömlu Buðlungu neðst t.v.

1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,” segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram af þeim.

Buðlunga (yngra bæjarstæði) 

Klöpp

Tóftir Klappar og Buðlungu.

1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.” segir í sóknarlýsingu. “Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,” segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir:
“Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingu, matjurtagarðar 200 □ faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefa af sér 55 hesta, mætti græða út. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar
virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu. Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er tihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana. Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp.

Klöpp

Klöpp

Klöpp – sjórinn hefur brotið landið neðanvert í gegnum aldirnar…

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13.
Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,” segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930.  Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.

Klöpp (yngra bæjarstæðið)

Klöpp

Klöpp – yngsta bæjarstæðið.

1840: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,” segir í sóknarlýsingu. “Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp,” segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig.

Guðmundur Jónsson og margrét Árnadóttir í Klöpp.

Klapparhjónin Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir.

Í fasteignamati 1916-1918 segir: “Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson við gömlu Klöpp.

Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5×21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin framan við bæjardyrnar, beint fyrir utan baðstofugluggann, sem var austan við eldhúsið. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.

Gata

Klöpp

Sjávargatan frá Buðlungavör að Klöpp.

Sjávargatan frá Klöpp lá frá Klapparbænum gamla og niður að sjó í gegnum sjóvarnargarðinn. Gatan er merkt inn á túnakort frá 1918. Túngarður Klappar
myndaði vesturhlið traðanna alla leið að bænum, þar sem var hlið á túngarðinum en hlaðinn var traðarveggur að austan. Umhverfis traðirnar er grasi gróin slétta. Hólfið er nýtt fyrir hross og sést traðk og hrossaskítur víða.
Túngarður Klappar/Buðlungu markar vesturhlið traðanna frá suðurenda þeirra (þar sem hlið hefur verið á sjóvarnargarði) og hálfa leið heim að tóft Klappar eða samtals 28 m löngum kafla. Vesturveggurinn (túngarðurinn) mjög stæðilegur, víða 1 m á hæð en um 1,5 m þar sem mest er. Í veggnum sjást 6-8 umför af hleðslu. Austurhlið traðanna er 1-2 umför af grjóti. Hæð að innri brún allt að 0,5 m en ytri brún er ógreinilegri. Veggurinn er 0,3 á hæð og 0,8 m á breidd.
Austurhliðin er merkjanleg á um 16 m kafla. Um 4 m norðan við suðurenda traðanna hefur verið hlaðið þvert yfir þær, og girðing strengd þvert yfir svæðið. Timburþil hefur einnig verið lagt yfir traðarendann að sunnan.

Klöpp (þriðja bæjarstæði)

Klöpp

Klöpp – eldhúsið.

“Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra bæjarstæðið og er það bæjarstæði skráð undir þessu númeri. Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.

Klöpp

Klöpp – bæjarstæðið.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: “”Nýja” húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]” Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Árni staðfesti það síðar í viðtali. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.

Hlaða

Klöpp

Klöpp – hlaðan.

Stæðileg útihúsatóft er um 14 m sunnan við bæjarstæði Klappar. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var heyhlaða á þessum stað sem faðir hans byggði. Guðmundur seldi reif svo húsið og seldi Indriða Guðmundssyni sem flutti það að Auðsholti. Túngarður markar af túnstæði Klappar/Buðlungu. Nú er beitarhólf fyrir hross á þessum slóðum. Tóftin er 11×7 m stór og snýr norður-suður. Hún er grjóthlaðin en gróin og eru veggir alveg yfirgrónir að utanverðu. Hún skiptist í tvö hólf og er það vestara stærra. Það er 6×3 m að innanmálin austur-vestur og virðist hafa verið opið til vesturs þótt þar megi greina lága hleðslu ofan í tóftinni. Aðrir veggir eru stæðilegir og stendur norðurveggur best, í allt að 1,8 m hæð og sjást þar 14-15 umför af börðu sjávargrjóti. Austan við er lítið hólf 3,4×1,7 m að innanmáli sem snýr norður-suður og er opið til suðurs. Ekki er op á milli hólfa en veggurinn sem er á milli hólfanna er mjög mikið hruninn (0,6 m á hæð).

Klöpp

Klöpp – hlaðan.

Tæpum 1 m frá suðvesturhorni tóftarinnar er lítill ferningur um 1 m á kant, líkt og þar hafi grjót verið hlaðið undir e.k. mannvirki. Til austurs frá tóftinni er um 4 m löng hæð sem er 0,5 m hærra en umhverfið og nær hún að túngarði. Þar sem hæðinni sleppir virðist mögulega hafa verið götutroðningur meðfram sunnanverðri tóftinni, samkvæmt túnakorti frá 1918. Ekki hefur þó verið op á túngarðinum á þessum stað og ekki sjást greinileg merki götunnar og hún er því aðeins skráð undir þessu númeri en ekki á sérstöku númeri eins og flestar verulegri götur sem þekktar eru á svæðinu.

Gata

Klöpp

Klöpp – Slokahraun og Hraun. Klapparbændur notuðu Slokahraunið til fiskverkunar.

Götur lágu áður þvert yfir tún Klappar og eru hlið eða op á túngarð Klappar að austan og vestan þar sem göturnar lágu í gegnum hann. Göturnar eru merktar inn á túnakort frá 1918. Götunum er viðhaldið að hestum en svæðið er nú beitarhólf hrossa. Göturnar lágu fyrir sunnan eldra bæjarstæðið en fyrir norðan það yngsta á þessu svæði. Ógreinilegar götur sjást á þessum stað í gegnum túnið, um 20 m langar. Ekki er hægt að merkja framhald þeirra til vesturs (þar sem margvíslegt rask hefur átt sér stað) en hægt er að rekja þær í um 50-60 m um túnið til austurs, þar til komið er að lítilli tjörn sem þar er.

Hrútakofi

Klöpp

Klöpp – fjárhústóft.

Samkvæmt Lofti Jónssyni var hrútakofi neðst eða syðst í túninu hjá Buðlungu/Klöpp. Árni Guðmundsson hafði greint honum frá þessu og Loftur taldi að það hefði verið umræddur kofi sem hefði horfið í flóðið 1925 og Árni greindi frá í viðtali 1986. Á þessum stað er grastó í sjávarkampinum beint niður af Klapparbænum. Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað.
Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað. Samkvæmt frásögn Árna Guðmundssonar (1891-1991) fóru mörg hús við Klöpp/Buðlungu mjög illa í Stórflóðinu 1925. Árni hafði þar hrút í kofa sem var járnklæddur. Þegar Stórflóðið varð þá tók þakið ofan af húsinu og hrútinn og allt. Þegar Árni kom daginn eftir var allt á kafi í sjó. Það varð bið á því að Árni kæmist en um kaffileytið daginn eftir þá sér er byrjað að fjara af túninu og þá fer hann að sjá ofan á kofann. Árni var viss um að hrúturinn væri dauður. Þegar hann loksins kemst að húsunum heyrir hann jarm og þá hafði hrútinum orðið til lífs að smá loftrými virðist hafa verið efst í húsinu. Þótti þetta talsvert merkilegt. Í sama flóði bjargaðist hestur Guðmundar bróður hans sem var í kofa á sömu slóðum.

Upphaf og þróun byggðar í Þórkötlustaðahverfi

Túnakort

Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.

Náttúrufar í Grindavíkurhreppi einkennist af miklum eldshræringum sem hafa mótað svæðið allt frá því á forsögulegum tíma. Landbrot hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið enda er landsig hér á landi hvergi meira en einmitt á þessum slóðum. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál í hreppnum og hafa áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum. Sökum alls þessa er stór hluti hreppsins óbyggilegur. Meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna leynast þó víða grænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. Í mörgum þessara vinja hefur líklega snemma myndast þéttbýli á íslenskan mælikvarða og íbúar reitt sig á sjósókn samhliða skepnuhaldi. Þórkötlustaðahverfið er dæmi um slíkt svæði. Í þessum kafla verður gerð tilraun til að rýna í tiltækar vísbendingar um upphaf og þróun búsetu í Þórkötlustaðahverfi, allt fram á þennan dag.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðatorfan.

Þegar reynt er að ráða í byggðarþróun á tilteknu svæði má nota ýmsar vísbendingar sem finnast við fornleifaskráningu, úr fornum ritheimildum, stærð og dýrleika jarðar, jarðarheiti og landgæði til að setja fram tilgátur um upphaf og þróun byggðar. Kuml eru sjálfstæð vísbending um búsetu fyrir árið 1000 og kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku og vitna því um hið sama. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og
dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

Samkvæmt Landnámubók var landnámsmaður í Grindavík Molda-Gnúpur Hrólfsson. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðmæri í Noregi, en bróðir hans var Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann samkvæmt Landnámu þar til landið spilltist af jarðeldum og flúði hann þá vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn. Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar.

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir. Um tímasetningu landnáms í Grindavík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér
stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík.
Hvergi er hins vegar talað um hversu margir fylgdu Molda-Gnúpi. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má geta þess til að þeir hafi byggt fjóra stærstu bæina í Grindavík: Stað, Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og þá mögulega Hraun.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)

Haldbetri fornleifafræðileg vísbending um forna búsetu í Þórkötlustaðahverfi er hins vegar að finna í þeim minjum sem komið var ofan í þegar hlaða var byggð á bæjarhól Þórkötlustaða, um aldamótin 1900. Þar komu í ljós leifar skálabyggingar sem líklega er frá fyrstu öldum byggðar og bendir það eindregið til að byggð hafi verið komin á snemma í hverfinu og að sjálft bæjarstæðið hafi verið á svipuðum slóðum allt frá fyrstu öldum.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Á móti vegur sú staðreynd að byggð í Grindavík skiptist snemma í þrjú hverfi sem ætla mætti að hverfðust um elstu og bestu jarðirnar en þau eru kennd við jarðirnar Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Samanlagt verður að teljast líklegt að Þórkötlustaðir sé á meðal elstu jarða í Grindavíkurhreppi og líklegast að hún hafi komist í byggð á 9.-10. öld þótt frekari rannsókna sé þörf til að fullyrða nokkuð um það.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – varða.

Þótt ekki séu ítarlega heimildir tiltækar um Þórkötlustöðum á miðöldum er jarðarinnar getið á nokkrum stöðum í Fornbréfasafni. Athygli vekur að Krýsuvíkurkirkja átti þar landskika a.m.k. frá 13. öld en í máldögum frá þeim tíma og síðar kemur fram að kirkjan eigi „ix mæla land aa Þorkotlustodum“. Mælieiningin „mælir“ lands var notaður um stærðir kornakra og heimildin er því vísbending um akurrækt á svæðinu á fyrstu öldum.
Árið 1534 kemur fram á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi og í heimild frá 1562 er getið um Þórkötlustaði í tengslum við mannsdráp sem þar átti sér stað. Bréf frá árinu 1563 sýnir að jörðin var þá orðin eign Skálholtsstaðar.

Heródes

Heródes – álagasteinn við Þórkötlustaði.

Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.

Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi.

Þórkötlustaðir

Vestari Vesturbær Þórkötlustaða – flugmynd.

Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.
Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum. Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýsluog sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880. Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.

Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.

Í “Fornleifaskráningu í Grindavík, 2. áfanga, 2002” segir m.a. um Klöpp:

Klöpp

Klöpp – tóftir.

1703: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Í sóknarlýsingu 1840 segir: “Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.” Um 60 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á Buðlungu stendur bárujárnsklædd skemma og suðaustan í henni eru tóftir Klappar. Þar var síðasti Klapparbærinn. Austan skemmunnar er hrossagirðing og lenda tóftirnar að mestu leyti innan hennar. Annars er umhverfis hana sléttað malarplan.

Klöpp

Klöpp – fjárhús.

Svæðið allt er um 50×40 m. Tóftirnar eru tvær, sú syðri minni og væntanlega útihús. Hún er um 9×5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Vestara hólfið er opið til vesturs en hið eystra til suðurs. Fast norðvestan í tóftinni er steypustokkur, e.t.v. einhverskonar þró. Um 10 m norðan við tóftina eru tóftir Klapparbæjarins en skemman hefur rofið norðvesturhluta þeirra. Þær eru mjög greinilegar en ekki er um neinn bæjarhól að ræða. Tóftirnar eru um 22×14 m að stærð og skiptast í sex hólf og gang. Vestasta hólfið er enn undir þaki en mjög sigið. Op eru þrjú, til suðurs, norðurs og vesturs. Báðar tóftirnar eru mjög heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1,3 m en umför allt að átta. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Umhverfis tóftirnar eru grjóthlaðnir túngarðar um 1 m háir. Suðurhluti þeirra liggur alveg í stórgrýttum sjávarkampinum en þó er vel hægt að greina hleðsluna. Norðan í henni miðri er tóftarbrot, mjög ógreinilegt en talsvert er af grjóti í því. Um 20 m sunnan við nyrðri tóftina eru grjóthleðslurnar tvöfaldar og mynda einskonar traðir, um 10 m langar, suður á kampinn.

Klöpp

Árni Guðmundsson í viðtali við ón Daníelsson.

Í myndbandi Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar þar sem Jón Daníelsson í Buðlungu ræðir við Árna Guðmundsson kemur m.a. eftirfarandi fram: Árni: “Hér bjuggu afi minni og amma, Árni Einarsson og Guðrún Árnadóttir, ættuð austan úr Flóa. Hún var frá Gafli í Flóa.”
Í Sögu Járngerðarstaðarættarinnar segir að Árni Einarsson hafi verið fæddur 3. des. 1828 á Þórkötlustöðum, dáinn 14. ágúst 1882 í Klöpp, bóndi í Klöpp og Buðlungu. Kona hans hafi verið Guðrún Gamalíelsdóttir frá Hamri í Gaulverjabæ.
Foreldrar Árna voru Margrét Árnadóttir, f. 29. des 1861 í Hraunkoti í Grindavík, d. 26. ágúst 1947, húsfreyja í Klöpp, og maður hennar Guðmundur Jónsson, f: 19. okt. 1858 á Þórkötlustöðum, d. 3. des. 1936, bóndi og sjómaður. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi á Þórkötlustöðum og Valgerður Guðmundsdóttir frá Hrauni. Þau eignuðust sjö börn; Einar Guðjón, Guðrúnu, Valgerði, Jón, Árna, Guðmund Ágúst og Guðmann Marel.”

Klapparbletturinn er, skv. framangreindu, merkilegur fyrir margra hluta sakir. Slíkar minjar ber að varðveitta, þótt ekki sé fyrir annað en að minnast sögu fólksins, sem þar bjó…

Heimildir:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Myndband Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar – https://vimeo.com/113794968
-Fornleifaskráning í Grindavík, 2. áfangi, Reykjavík 2002.

Klöpp

Klöpp – skemma í Austurtúninu.

Hópsnes

Gengið var um Hópsnes, framhjá Siggu, ofan við Bólu, framhjá Hópsnesvita (sem heitir í raun Þórkötlustaðaviti því landamerkin eru í fjörlægan stein u.þ.b. 60 metrum vestan hans), um Þórkötlustaðanesið, um Strýthólahraun, framhjá Leiftrunarhól, ofan við Þórkötlustaðabótina, yfir Kónga, neðan Buðlungu, inn á Klappartúnið, upp á Sloka og að landamerkjum Hrauns nyrst í Slokahrauni. Róleg ganga um þessa leið tekur nálægt klukkustund, en nú var ætlunin að staldra við af og til og gefa flestu því merkilegasta á leiðinni sérstakan gaum – af mörgu er að taka.

Hóp

Hópnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni “Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð”, lýsir Guðsteinn Einarsson örnefndum og staðháttum með strandlengju Grindavíkurumdæmis í skrifum sínum “Frá Valahnúk til Seljabótar”. Um þetta svæði segir hann m.a.:
“Um sundin á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum er til gömul þjóðsaga, sem hér fer á eftir:
Í fyrndinni voru aðalhöfuðbólin í Grindavík, hvort við sitt sund; Járngerðarstaðir við samnefnt sund og Þórkötlustaðir við sitt sund. Ekki er getið nafna bændanna á höfðubólum þessum, en konurnar hétu, Járngerður á Járngerðarstöðum og Þórkatla á Þórkötlustöðum.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Engir aukvisar munu bændunrir þó hafa verið, þó nafna þeirra sé ekki getið, því þeir höfðu mannaforráð, svo sem betri menn höfðu, og stjórnaði hvor sínum bát, af kappi miklu, þannig, að þeir fóru lengra og sátu lengur en fjöldinn.
Einhverju sinni, þegar flestir Grindvíkingar voru á sjó, bar það til, að sjó tók að brima, sem kallað var, þ.e. þegar aldann vex svo að hún fer að brotna yfir leiðina (sundin). Bátarnir höfðu fljótlega farið að leita lands og allir verið komnir í land þegar þeir heimabændurnir komu hvor að sínu sundi. Þá gerðist það, að bóndi Járngerðar fórst með allri áhöfn á Járngerðarstaðasundi, en bóndi Þórkötlu hafði komist klakklaust inn Þórkötlustaðasund.

Hópsnes

Sjóbúð á Hópsnesi.

Hitnað mun þeim frúnum hafa í hamsi við að bíða eftir afdrifum bænda sinna, því eftir að séð var, að maður Járngerðar hafði farist á Járngerðarstaðasundi, lagði hún það á, að á því sundi skyldu farast 20 bátar. Aftur á móti lagði Þórkatla þá, að á Þórkötlustaðasundi, réttförnu, skyldi enginn bátur farast.
Þetta þykir allt hafa orðið að áhrínsorðum, þannig að enginn bátur hefur farist á Þórkötlustaðasundi, en talið að 20 bátar hafi farist á Járnegrðarstaðasundi og enginn eftir að komið var í þá tölu.

Sigga

Sigga.

Fram af Sölvaklöppum (undan Hópsnesi) er skerstandur úti í sjónum; sá heitir Bóla. Sigga heitir stór og mikil varða, þarna uppi á kampinum; ekki veit ég önnur deili á henni, en hún var notuð sem mið af sjó. Þá koma Hópslátur; það eru klettarnir með malarbásum framan á Þórkötlustaðanesi. Austan við Hópslátur halda áfram svipaðir Klettaranar, sem heita Kotalátur. Mörkin milli þessara klettalátra eru landamörk milli Hóps og Þórkötlustaða. Fram af þessum látrum, beint fram af Nesinu, kemur nokkuð hundruð metra langur skerjatangi fram í sjó, er kallast Nestá; fer í kaf á flóðum, en upp úr á fjörum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar neðst og bryggjan efst.

Þarna á Nesinu varð hinn 18. janúar 1952 eitt hið hörmulegasta sjóslys, sem orðið hefir hér í Grindavík, þegar mb. Grindvíkingur fórst þar með allri áhöfn, fimm ungum og hraustum mönnum. Þá má segja, að þegar hin ótömdu náttúruöfl eru í sínum mestu hamförum, eins og var í þetta skipti, megi alltaf búast við slysum. En þarna fórst stærsti og besti báturinn, að talið var þá í Grindavík.

Gamalt máltæki segir, “að Guð fleyti jafnt grátitlingum sem gamalálftinni”. Og víst er um það, að náttúröflin virðast í öðru tilfellinu leggja sig fram um að bjarga öllu sem best, en í hinu að tortíma og eyðileggja.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir austan Kotalátur koma Austurbæjarlátur; þá Þórkötlustaðalátur. Sagnir eru um, að einhvers staðar á þessum látrum hafi skip strandað á árunum 1880-´90. Þetta hafði verið kútter og heitið Vega – verið með saltfram. Mannbjörg hafði orðið, en skipið brotnað. Sumarið 19?? í norðan kalda og sléttum sjó sigldi og þarna upp í nestána þrímastrað briggskip; var að koma til landsins með saltfarm. Það flaut upp í næsta flóði, barst undan kaldanum frá landi og losnaði þannig úr strandinu.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka.

Austan við Látrin er Leiftrunarhóll. Frá honum liggja svo kölluð Rif austur og út á Þórkötlustaðavíkina.

Strýthóll

Efri Strýthóll.

Í fjörunni niður undan hólnum lenti enskur togari hinn 23. mars 1932. Skipshöfninni var komið í björgunarbát og út á hættulausan sjó. Heyrði ég sagt að varðskipið Ægir hefði náð þessum togara út með því að koma taug í togarann. Þarna nálægt Leiftrunarhól hafa þá tvö skip strandað, sem náðst hafa út aftur, en það eru líka einu skipin, sem vitað er um að grinfdavíkurfjörurnar hafi sleppt aftur.

Hópsnesviti

Hópsnesviti/Þórkötlustaðanesviti.

Innar undir Leiftrunarhól, víkurmegin, strandaði í maímánuði 1917, ensk skonnorta með saltfarm og eitthvað af síladartunnum. Sú hét Scheldon Abby. Áhöfnin komst í björgunarbáta, en skipið liðaðist í sundur næstu daga.
Innan Leiftrunarhóls koma næst Drítarklappir, þá Stekkjafjara og varirnar á Þórkötlustaðanesi. Þar var þriðja bryggjan (auk bryggjunnar neðan Hvirfla í Staðarhverfi og neðan Járngerðarstaða), byggð 1930. Allar þessar bryggjur, sín í hverju hverfi, má segja að hafi komið að miklum notum með því að losa menn við það hroðalega erfiði að bera allan aflann á bakinu upp úr fjörunni. Fyrir þá bættu aðstöðu hefir og eitthvað meiri afli komið á land, svo að þannig, bæði beint og óbeint, hefir fé það, sem í þær fór, fengist endurgreitt, þótt nú séu þær allar ónotaðar og einskis virði.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan.

Innan við varnirnar er klettur, sem heitir Draugur, þá Draugsklappir, Herdísarvík – upp af henni í kampinum eru hólar kallaðir Kóngar -, þá Miðmundarflöt og Syðri- og Heimri-Bót. Þarna í Bótinni er sögn um, að eftir miðja 19. öld hafi frönsk skúta strandað þar. Áhörnin gekk sjálf upp á hlaið á Einlandi, en skipstjórinn, sem gekk fremstur, féll í hlandforina framan við bæinn og var næstum drukknaður þar. Félagar hans brugðust skjótt við og björguðum honum í því er bóndinn á Einlandi, Hannes, birtist í dyragættinni.

Þórkötlustaðanes

Fiskgarðar á Kóngum.

Austan við Bótina, í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlungavör. Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist, þegar vélarnar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.
Austan við Buðlunguvör koma Slokin; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól og áður er getið.

Slok

Slok – fiskigarðar.

Þarna á Slokanum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu, að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þr tóku höfuðskepnurnar öðru vís á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð þar vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Þórkötlustaðanes

Pétur Guðjónsson við Höfn í Þórkötlustaðanesi.

Næsta örnefni við Slokin er svo Markabás. Þar eru landamerki milli Þórkötlustaða og Hrauns.”
Þórkötlustaðaneshraunið kom ofan úr Vatnsheiði, en í henni eru þrír gígar. Falleg, stór og skjólgóð hrauntröð liggur eftir Nesinu. Í raun væri hún kjörin til útivistarnotkunar. Endur og gæsir verpa beggja vegna gjárinnar.

Pétur Guðjónsson, skipstjóri, sem uppalinn er í Höfn á Þórkötlustaðanesi, einu af þremur íbúðarhúsum, sem þar voru, hefur í annarri FERLIRslýsingu sagt frá mannlífi og minjum á Nesinu fyrir miðja 20. öldina. Við þá skoðun komu í ljós gömul mannvirki, bæði ofan við sjávarkambinn og ofar í Nesinu.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni í Þórkötlustaðanesi.

Í Strýthólahrauni eru t.d. gömul þurrkbyrgi, lík þeim sem sjá má við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar eru miklir þurrkgarðar líkt og í Herdísarvík, en þeir segja til um hina gömlu vinnusluaðferð fiskjarins er allt far þurrkað og hert. Fáir virðast vita af þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni og því hafa þau varðveist svo vel sem raun ber vitni.
Austan við Strýthólahraun má sjá tóftir og minjar í kringum Þórshamar, en útveggir hússins standa enn við Flæðitjörnina. Jóhann vitavörður bjó þar síðastur manna.

Þórkötlustaðanes

Innsiglingarvarða og Þórshöfn á Þórkötlustaðanesi.

Suðaustan við húsið er manngerður hóll. Hann virðist vera fjárborg eða tóft, miklu mun eldri en allar minjar umhverfis. Sunnan við húsið er heillegt fjárgerði og fjárhústóft. Suðvestan við það eru minjar hins eina skrautblómagarðs, er þá var til í umdæmi Grindavíkur. Eflaust hefur hann vakið mikið umtal og margar vangarveltur á þeim tíma er lífið snerist um þurrfisk og síðan saltfisk (undir steini).

Ofan bryggjunnar milli Kónga og Strýthóla eru mörg íshúsanna er komu við sögu seinni tíma útgerðar á Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Klöpp er austastur Þórkötlustaðabæjannna. Bæjartóftin kúrir austan undir fjárhúsgafli Buðlungu. Beint vestan hennar má sjá austustu sjávargötuna í hverfinu, en þær voru þrjár talsins. Þarna fæddist m.a. Árni Guðmundsson, síðar bóndi í Teigi. Faðir hans, Guðmundur í Klöpp var formaður og þótti veðurglöggskyggn með afbrigðum og aflasæll. Klappartúnið er nú í eigu afkomenda hans í þriðju kynslóð þótt aðrir stelist stundum til að nýta það á óstundum. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi mun hafa gist í Klöpp er hann var við sjósókn á yngri árum því hann ritaði m.a. Jóni Árnasyni dagsett bréf þaðan um söfnun og skráningu þjóðsagna, sem hann var iðinn við. (Hafa ber í huga hér gæti einnig verið um að ræða Klöpp í Selvogi, en Brynjúlfur var þó nokkrar vertíðir í Grindavík og dvaldist þar).

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Hraunkotið, sem er skammt norðar, var upphaflega þurrabúð frá Klöpp. Þannig var að bændur í hverfinu leyfðu vermönnum, sem hjá þeim réru og ílengdust, að byggja sér kofa eða kotbýli meðan ekki varð landskerðing. Þegar fram liðu stundir efldust kotin, kind kom og kýr, þá kona og loks krakki. Köttur og krafa um lánaðan landsskika fylgdu í kjölfarið. Allt var þetta látið meinlaust meðan miðaði.
Í Slokahrauni eru miklir þurrkgarðar og einstaka þurrkbyrgi frá löngum fyrri tíð. Hafa þau að mestu fengið að vera í friði, en eru nú verðmætar leifar hins liðna. Ofan við Markabás er Sögunarhóll. Þar söguðu men rekan og má sjá hlaðin hrauk við hólinn þar sem viðurinn var hafður.
Í Hraunkoti eru fallegar hleðslur heimtraðarinnar sem og fallegar og heillegar garðhleðslur. Frá Slokahrauni er fagurt útsýni yfir að Hraunsvík og Festarfjalli. Í fjörunni eru víða grágrýtishnyðlingar og annars sérstæðir gatasteinar. Hraunreipin neðan Klappar eru og einstaklega falleg.
Frábært veður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðir

Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar í Þórkötlustaðahverfi.

Heródes

Áletrun á Heródesi.

Sagnir eru um að steininn egi hvorki færa né raska honum á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstafinn “S”, ferkantaðan.
Sú sögn hefur gengið mann af manni að þennan stein beri að umgangast af varfærni. Dæmi er um að illa hafi verið hirt um steininn og hefur þá hinum sama bæði liðið illa og gengið brösulega uns úr var bætt. Nú er löngu gleymt hvers vegna, en þó er ekki útilokað að einhver búi enn yfir þeirri vitneskju.Álagasteinar eru víða til og engin ástæða til annars en að taka ábendingar um þá alvarlega. Eflaust er einhver ástæða fyrir ábendingunni, s.s. grafstaður, staður þar sem sýn hefur birst, annað hvort í sjón eða draumi, sóttarstaður eða jafnvel tilbúningur. Hvað sem öllu líður er ekki hægt að útiloka að ábendingin sé af alvarlegum toga og því full ástæða til að fara varlega. Mörg dæmi eru þekkt þar sem menn hafa gengið gegn álögum og hlotið skaða af, einkum frá álfum.
Sjávargöturnar í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Steinninn er skammt frá Mið-götunni. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi sjómenn fyrrum gengið framhjá og signt sig á leið til skips, líkt og við Járngerðarleiðið við sjávargötuna milli Járngerðarstaða og Fornuvarar. Skammt neðar lá gamla gatan milli Hrauns og Ness (Þórkötlustaðaness).

Heródes

Heródes.

Festarfjall

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur má m.a. sjá pistil eftir ritstjórann, Óskar Sævarsson, um “Silfru og Festarfjall“. Þar segir:

Sifra

Silfurgjá.

“Silfurgjá heitir gjá ein í Grindavík, skammt frá Járngerðarstöðum. Gjáin ber nafn af kistum tveim er þar eiga að vera geymdar.
Skulu kistur þessar vera úr skíru silfri og að öllum líkindum ekki alveg tómar af öðru verðmæti. Kisturnar eru yfirskyggðar og ósýnilegar, en þær losna og koma í ljós ef bræður tveir frá Járngerðarstöðum sem báðir heita sama nafni ganga í gjánna, en samtímis verður dóttir bóndans á Hrauni, sem er austastaði bær í Þórkötlustaðahverfi, að ganga undir festina í Festarfjalli.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall heitir fjallið sem gengur þverhnýpt í sjó fram milli Hrauns og Ísólfsskála. “Festin” sem fjallið dregur nafn sitt af er í raun basaltgangur sem liggur í gegnum fjallið niður í sjó, en þó gegnt fyrir festarendann um fjöru.

Festarfjall

“Festin” í Festarfjalli.

Festin á í raun réttri að vera úr skíru silfri, þótt hún sé svona ásýndum og losnar hún ef stúlkan gengur undir hana á sömu stundu og piltarnir hverfa í gjána.
En sá galli er þó á gjöf Njarðar að þessi bóndadóttir frá Hrauni verður að heita sama nafni og tröllskessa sú sem kastaði festinni fram af fjallinu. En enginn veit hvað sú skessa hét eða heitir eða hvort hún er lífs eða liðin. Á þeirri stundur sem tröllskessan kastaði festinni fram af fjallinu hét þar Siglubergsháls sem fjallið er, en bergið Sigluberg þar sem festin liggur.

Festarfjall

“Festin” í Festarfjalli neðst.

Hér er þá komin hin forna sögn sem gengið hefur manna á millum í árhundruð hér í Grindavík. Staðirnir og örnefnin sem fram koma eru sem greypt í mannlífið og er skemmst frá því að segja að t.d. félgasheimlið okkar hét Festi, nokkur fyrirtæki hafa borið nöfn eins og Silfurhöllin, Festi h/f og Silfurberg sem voru útgerðarfyrirtæki.
Í gamali kálfskinnsbók (að öllum líkindum að finna á Írlandi) frá anno 400 post Cristum natum ritast; að Ísland hafi verið byggt Írum er hafi hingað út farið á 8 skipum og verið hér á landinu í 200 ár.

Festarhringur

Festarhringur.

Eftir það er mælt að niðjar þeirra er byggð áttu á Írlandi hafi hingað komið og séð hér yfir 50 elda og var þá útdautt hið gamla fólk (nefnt Troll í hinu gamla handriti).
Þar komur og fram örnefnið Siglubergsháls; ritast “Og við Sigubergsháls sem skuli hafa verið í Grindavík” skyldu ískir hafa fest skipum sínum, þá hingað komu og segja gamlir menn að um stórstraumsfjöru megi þar sjá járnhringa fasta í sjávarklöppum.”

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2022 – Silfra og Festarfjall, Óskar Sævarsson, bls. 103.

Silfra

Í Silfurgjá.

Þórkötlustaðir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 skrifar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi m.a. um skálatóft við Austurbæinn á Þórkötlustöðum í Grindavík.
Thorkotlustadir-220“Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni, og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst stóð framundan þeim vegg svo sem ‘/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var stæðilegur grjótveggur, rúml. 1 al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim öllum var eldslitur.

Thorkotlustadir-221

Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg. En auðséð var, að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mest alt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tók við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefði verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum eldaskála. Þrepið ætlað til að sitja á, en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur.

Thorkotlustadir-222

Eldfjallaaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera, að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefir á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.”
Hið síðastnefnda getur reyndar ekki staðist því hraunin, sem nú mynda Þórkötlustaðanes að vestan og Slokahraun að austan er um 2400 ára og eru hlutar Sundhnúkahrauns.
Hlaðan fyrrnefnda var vestan Austurbæjar. Austan hans var hins vegar Miðbær og Austari Austurbær, auk eldiviðarskúrs. Sjávargangstígur lá niður að vörinni milli húsanna og sést hann enn. Mótar og enn fyrir undirstöðum þessara húsa. Milli núverandi Austurbæjar og Vesturbæjar má sjá hluta skálatóftarinnar, auk sjávargötunnar vagnfæru er lá niður að vörinni fyrrnefndu.
Þegar skálasvæðið var skoðað mátti augsýnilega greina hlaðinn langvegg utan hlöðunnar, sem rifin var á fimmta áratug síðustu aldar.

Heimild
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, bls. 47.Thorkotlustadir-223