Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar í Þórkötlustaðahverfi.
Sagnir eru um að steininn egi hvorki færa né raska honum á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstafinn “S”, ferkantaðan.
Sú sögn hefur gengið mann af manni að þennan stein beri að umgangast af varfærni. Dæmi er um að illa hafi verið hirt um steininn og hefur þá hinum sama bæði liðið illa og gengið brösulega uns úr var bætt. Nú er löngu gleymt hvers vegna, en þó er ekki útilokað að einhver búi enn yfir þeirri vitneskju.Álagasteinar eru víða til og engin ástæða til annars en að taka ábendingar um þá alvarlega. Eflaust er einhver ástæða fyrir ábendingunni, s.s. grafstaður, staður þar sem sýn hefur birst, annað hvort í sjón eða draumi, sóttarstaður eða jafnvel tilbúningur. Hvað sem öllu líður er ekki hægt að útiloka að ábendingin sé af alvarlegum toga og því full ástæða til að fara varlega. Mörg dæmi eru þekkt þar sem menn hafa gengið gegn álögum og hlotið skaða af, einkum frá álfum.
Sjávargöturnar í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Steinninn er skammt frá Mið-götunni. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi sjómenn fyrrum gengið framhjá og signt sig á leið til skips, líkt og við Járngerðarleiðið við sjávargötuna milli Járngerðarstaða og Fornuvarar. Skammt neðar lá gamla gatan milli Hrauns og Ness (Þórkötlustaðaness).