Gráhella

Gráhelluhraun.
GrahelluhraunGráhelluhraun kom úr Búrfelli. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er Búrfell um 7240±130 ára. Í heild sinni eru öll hraunin þaðan  Búrfellshraun, en í dag bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn. Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – en hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Stórabolla- og Tvíbollahrauni, Óbrinnishólahrauni og Kapelluhrauni) utan smáskækils sem stendur þar upp úr og nefnist Selhraun. Næst rann taumurinn sem nú heitir Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði. Þú stendur nú við norðaustanverðan hraunjaðarinn. Nafnið er dregið af aflöngum hraundranga skammt suðvestar. Undir honum eru tóftir fjárskjóls frá Setbergi.
Tveir megin hraunstraumar komu frá Búrfelli. Hraunið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Hraunholtshraun, Flatahraun, Garðahraun, Gálgahraun og Balahraun.

Kjóadalur.
KjoadalurHafnarfjörður hefur jafnan verið nefndur „bærinn í hrauninu“. Í og við bæinn má þó víða finna frjóan jarðveg sem bæjarbúar hafa löngum notað sér til ræktunar. Kartöflur eru upprunnar í Suður-Ameríku. Þær bárust til Evrópu um miðja 16. öld. Garðyrkja átti ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum sem byggðu afkomu sína á bústofni. Einhverjir kálgarðar voru í rækt á Íslandi á 17. öld en ekkert var ræktað að ráði fyrr en eftir miðja 18. öld. Árið 1754 sendi Friðrik V. boð til Íslands um að bændur ættu að láta sér annt um að útbúa kálgarða þar sem matjurtir gætu þrifist. Þrátt fyrir boð yfirvalda var það ekki fyrr en í upphafi 19. aldar að garðyrkja, og þar með talin kartöflurækt, varð almenn í landinu. Íslenskum bændum var illa við að stinga upp tún sín til að rýma fyrir matjurtagörðum. Á tíu ára tímabili, frá árinu 1801 til 1810, fjölgaði matjurtagörðum í landinu. Síðan hefur landanum smám saman lært að meta næringargildi kartöflunnar.

Í austanverðum Kjóadal sjást leifar kartöflugarða Hafnfirðinga, en í dag er dalurinn notaður til hrossabeitar.

Stekkjarhraun.
tekkjarhraunStekkjahraun var friðlýst árið 2009. Ástæðan var ekki síst stekkurinn, sem þú stendur nú í. Markmið með friðlýsingu svæðisins er að vernda útivistar­svæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar í miðri íbúðabyggð. Stekkjarhraun er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldunum fyrir rúmlega 7000 árum. Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.

Lambagjá.
HelgadalurLambagjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfengleik hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti. Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega – há steinhleðsla. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins sem var lagður úr Kaldárbotnum um 1918. Vatninu var fleytt í opnum tréstokk að suðurenda Sléttuhlíðar þar sem það rann fram af brúninni og hripaði ofan í hraunið en kom upp í Lækjarbotnum. Þú ert núna við eina „gegnumganginn“ í gjánni; svonefnda Steinbrú. Yfir hann liggur gömul fjárgata. Önnur brú yfir gjánna er skammt austar.

Helgadalur.

Helgadalur

Helgadalur.

Um Helgadal gengur sveimsprunga. Sprungukerfið er í misgengi, sem eru  mörg á svæðinu. Má þar nefna Hjallamisgengið.  Vatnsstreymið í gegnum hraunin ofan dalsins staðnæmast við sprungurnar og vatn safnast saman í gjánum. Á vatnasviðinu er Kaldárbotnar, er tengist væntanlega m.a.  Vatnsgjánni sem er í Búrfellsgjá. Frá þessu vatnasviði fá Hafnfirðingar og fleiri hið daglega neysluvatn sitt – hið sjálfsagða, en jafnframt eina dýrmætustu lífsnauðsyn samtímans.

Kringlóttagjá.
KringlottagjaKringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði  frá afrennsli Búrfells. Hún líkist Gjánum norðvestan við Kaldársel – enda varð hún til í sömu goshrinu. (Búrfell). Barmarnir eru 5-10 metra háir og mynda óreglulega skál sem er um 200-300 metrar að ummáli með formfagra klettadranga á stangli. Glóandi kvikan rann neðanjarðar frá hrauntjörninni áður en botninn storknaði og myndaði skálina. Þeir/þær/þau er geta fundið afrennslið, sem væntanlega er þá í formi hraunhellis, líkt og Hundraðmetrahellirinn í Helgadal, eru beðin um að tilkynna það Fjarðarpóstinum.

Víghóll.
VighollÖrnefnið „Víghóll“ er og hefur verið torræðni. Það er víðar til, en kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit, auk fleiri á landinu öllu. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum. Í örnefnaskrá óbyggðarinnar suður frá Hafnarfirði segir, að Víghóll heiti norðan við Mygludali milli Valahnúka og Húsfells. Selvogsgata eða Grindaskarðavegur liggur milli Valahnúka og Víghóls. Getgátur hafa verið um að nefndir „Víghólar“ hafi áður haft örnefnin „Veghólar“, enda virðast þeir nánast allir í nálægt við þekktar alfaraleiðir. Ef rétt er til getið, má Víghóllinn hafa verið vegvísir á hinni gömlu vermannaleið og er þá jafnframt minnismerki um hana. Á Víghól er varða.

Valahnúkar.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Valahnúkar eru móbergshryggir mynduðust fyrir um 120 þúsund árum. Víða er þar úfið og afrúnað og efst á þeim eru drangar miklir sem sumir telja vera tröll sem þar hafi steinrunnið við sólarupprás, en aðrir segja að séu valirnir sem hnúkarnir beri nafn sitt af.  Valahnúkar urðu til við gos undir jökli á síðustu ísöld líkt og Helgafell, Húsfell og Víghóll sem eru í næsta nágrenni. Strýturnar þrjár, sem líkjast steinrunnum tröllum eða jafnvel ránfuglum. eru afurðir langtíma móbergsveðrunar þar sem vatn, vindur og regnið hafa leikið sér að því að móta landslagið.  Í Valahnúkum er hrafnslaupur.

Sel(hrauns)hóll.
SelhraunshollSunnan við Hvaleyrarvatn eru m.a. leifar stekkjar. Skammt sunnan hans er stakt klofið hraunhveli í annars sléttu Hellnahrauninu (Selhrauninu). Sunnan í hólnum eru tvö op; tófugreni.
Hraunhveli myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins og storkin kvikan sígur og sprungur myndast í skorpunni.

Hamranes.

Hamranes

Hamranes.

Hamranes er ein nokkurra úthæða (lágra hamra) Ásfjalls ofan Hafnarfjarðar.  Grísanes er ein þeirra, skammt norðvestar. Norðan í Hamranesinu, þ.e. þeirri hlið er snýr að Dalnum, má sjá hvernig ísaldarjökullinn hefur sorfið ofan af hamrinum og jafnframt brotið  niður brúnirnar með öllum sínum þunga svo eftir stendur mulningurinn, gríðarstórir aldarskófsmálaðir hnullungar frá náttúrunnar hendi. Grjótið hefur verið eftirsótt í garða bæjarbúa, en reynt hefur verið að hamla við efnistökunni með því að takmarka aðgengi vinnuvéla að því, enda um einstakar náttúrumyndir að ræða – nánast í miðri byggð.

Hrauntungur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntunga (Hrauntungur) er geil inn í Brunann (Nýja Hraun – Kapelluhraun), sem nánast hafði tekist að króa af vinina og útrýma henni. Hraunið í tungunni er frá Hrútargjárdyngju og því árþúsundum eldra, enda stangast þétt birkið og fjölbreyttur gróðurinn þar við gráleitan hraungambran í nýja hrauninu. Áhugavert er að standa í botngróinni sprungu við hraunskilin og berja augsýnilegan muninn með eigin augum. Um Hrauntungur liggur Hrauntungustígur, gömul þjóðleið milli Ketilsstígs og Áss.

Snókalönd.

SnokalondSnókalöndin, sem eru tveir grónir óbrennishólmar inni í Brunanum (Nýjahraun/-Háabruna), sem nú heitir Kapelluhraun og rann árið 1151.
Gömul gata liggur inn í Snókalöndin frá Stórhöfðastíg skammt sunnan Brunabrúnarinnar, milli hlaðins garðs á henni og hlaðins gerðis utan í hraunsnefi skammt sunnar. Varða, við götuna þar sem hún liggur inn á Brunann, vísar leiðina. Frá henni er gatan augljós yfir nýja hraunið og inn í vestari Snókalöndin. Snókalöndin eru þakin kjarri og lyngi. Þau eru hvað fegurst á haustin þegar litadýrðin er hvað mest.

Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um “Fornar leiðir…” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: “Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt “Krókalönd”.  Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra.
„Snókur“ táknar einfaldlega eitthvað stakt eða einstakt.

Óbrinnishólaker.

ObrinnisholakerÓbrinnishólakerið er í Óbrinnishólum – röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu vestan við Undirhlíðar. Þeir tilheyra Krýsuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum.
Í kerinu er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu, sunnan syðri Óbrinnishólanna. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en rásin er opin inn að öðru leyti. Hún er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en innanvert gólfið er nokkuð slétt. Hellirinn rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman.

Gullkistugjá.

GullkistugjaGullkistugjá er löng, en aðgengileg, sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður um Skúlatúnshraun þar sem hún „deyr út“ áður en kemur að Undirhlíðum. Sprungan er dæmigerð á Reykjanesskaganum, liggur í NA/SV. Séra Friðrik Friðriksson, stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli, gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá. Að öllum líkindum er nafngiftin vísan til ótal þjóðsagna um sama efni.

Selgjá – Búrfellsgjá.
Svæðið umhverfis Helgafell, Húsfell og Búfell er þakið hraunum sem eru á þekktri gosrein og þar er  misgengislægð sem nefnist Hjallamisgengið. Það er greinilegast í Heiðmörk milli Elliðavatns og Vífilsstaðahlíðar, en nær töluvert lengra til suðvesturs, allt að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.
Reykjanesskaginn er í raun allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni. Mikið er um misgengi og gjár í hraununum í kringum Hafnarfjörð.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi.

Strandartorfur.
StrandartorfurStrandartorfur eru tvær. Þær eru ílangar tóur undir aflöngum klettaborgum. Allt umleikis eru nýrri hraun. Selvogsgatan forna liggur skammt austan við þær.  Augljóst er að þarna hafa verið áningarstaðir fyrrum – sem og hrístaka. Neðri Strandartorfan hefur stundum  verið nefnd Kaplatór á kortum. Selvogsgatan jafnan nefnd Suðurfararvegur meðal Selvogsbúa – og gerir enn.
Kaplatóur (Strandartorfur/-Strandartóur) eru innan umdæmis Hafnarfjarðar. Í ritinu Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar segir svo (bls. 56): „Sunnan við Mygludali og Valahnúka er farið yfir norður og austurendann á melöldu og þar telja þeir Þorkell og Óttar að Strandartorfa neðri [Kaplatór] sé en skammt sunnan við sé Strandartorfa efri (Strandartorfu efri)“. Í raun kemur Garðabæ þetta ekkert við, hvorki hvar eða hver eru nöfn einstakra tóa því þær eru allar innan umdæmismarka Hafnarfjarðar. Áningarstaðurinn stendur þó enn fyrir sínu. Ofan Strandartóu er áberandi varða.

Leynir.

LeynidalirLeynir er í Leynidölum. Örnefnið er algengt, oftast gefið þeim stöðum eru voru í hvarfi frá bæ eða alfaraleið. Landamerki Hvaleyrar og Stóra Lambhaga (nú að mestu horfið undir álverið) má sjá í Leynidölum; merkin má sjá í óskráðum vörðum, sem liggja um dalina. Ofarlega í dölum er hraunhóll og á honum hlaðið byrgi. Svæðinu hefur nú verið meira og minna raskað vegna vegagerðar og lóða. Byrgið hefur væntanlega verið skjól fyrir refaskyttu, sem beðið hefur lágfótu á ferð hennar með háum hraunkantinum. Af því er örnefnið væntanlega sprottið.

Bruninn.

Kapelluhraun

Tóur í Kapelluhrauni (Brunanum).

Megineldgígarnir sem Nýjahraun rann frá árið 1151 voru sitthvoru megin við Krýsuvíkurveginn skammt frá Vatnsskarði, s.n. Rauðhólar. Eldarnir voru hluti af Ögmundarhraunseldgígaröðinni er náði frá strönd Reykjanesskagans í suðri að Helgafelli í norðri. Hinum tilkomumiklu Rauðhólagígum hefur nú verið eytt að mestu með efnistöku, en mikilfenglega hrauntröðin, sem stærstur hluti Nýjahrauns rann frá, er enn ágætlega varðveitt ofan Bláfjallavegs. Þegar staðið er þarna á brún hrauntraðarinnar má vel gera sér í hugarlund hið mikla efnismagn, sem þarna hefur streymt fram um skeið,allt  áleiðis til sjávar austan Straumsvíkur. Tröðin, sem og hraunið, eru þakin hraungambra. Í þurrkatíð tekur hann á sig gráleitt yfirbragð, en grænt í vætutíð.

Gamla Afstapahraun.

Gamla-AfstapahraunGamla Afstapahraun rann frá eldvörpunum norðan Trölladyngju, alla leið niður að Selhrauni ofan Þorbjarnarstaða. Að vísu hefur verið talsverður ruglingur á þessu öllu saman í gegnum tíðina því svonefnt Afstapahraun, sem við þekkjum, var talið hafa verið eitt hraunanna er rann frá eldunum miklu árið 1151 – og þá frá nú eyðilagðri Eldborginni undir Trölladyngjunni. Síðan hefur komið  í ljós að áður hafði komið upp hraunlæna frá eldstöðvunum  í  Trölladyngjurana. Víða í þessu hrauni, sem rann um langan veg, má sjá myndræna hraundranga.

Skálin – Smalaskálaker.
SmalaskalaskalÍ Smalaskálahæð er „Skálin“ (Smalaskálaker), skjólgóður rauðamalarhóll í einu af fjölmörgum hraunbollum Hrútagjárhrauns.  Árið 1974 var þarna komið fyrir “listaverki”;  “Húsbyggingin” (Das Haus Projekt) eftir Hrein Friðfinnsson. “Húsbyggingin” byggði á sannri sögu eftir Þórberg Þórðarson, Íslenskum aðli, um sérvitring sem afræður að byggja hús þar sem innihliðin snýr út. Hreinn ákvað að taka þessa hugmynd upp og byggði húsið þannig að veggfóður þess og gardínur lágu utan á – s.s. á röngunni.

Með tímanum varð Slunkaríki að braki á víð og dreif um Smalaskálakerið. Í framhaldinu var komið þar fyrir „grind“ af listaverkinu til minningar um það – er sést enn.
Rauðhóllinn í Smalaskálakeri er merkilegastur fyrir það að þessi “litli” rauðamelshóll skuli hafa áorkaði að stöðva framrás hrikaleika Hrútagjárdyngjuhraunsins á þessu svæði – gagnvart honum sjálfum. Þrátt fyrir álagið hefur rauðhóllinn staðið fyrir sínu og ekki látið hið mikla hraunálag yfir sig ganga.

Litli-Rauðamelur.
Rauðmalarhólar myndast þegar hraun renna út í stöðuvötn eða mýrlend – eða gos verður í sjó Litli-Rauðamelureða vatni. Nánast allir rauðhólar í nágrenni byggðarinnar eru nú horfnir því afrakstur þeirra hefur verið verið notaður í húsbyggingar og vegagerð. Á þessum stað voru Stóri- og Litli-Rauðamelur, en sá fyrrnefndi hvarf vegna námuvinnslu þegar sækja þurfti efni í vegi og húsgrunna. Eftir stendur óálitlegt djúpt ker með grunnvatni.Jarðmyndunum á Reykjanesskaga má skipta í fjóra flokka eftir gerð og aldri: 1) Elstu jarðmyndanir á yfirborði skagans eru grágrýtishraun mynduð á hlýskeiðum ísaldar eða íslausum svæðum á jökulskeiðum, yngri en 780 þúsund ára. Elsta bergið á skaganum er raunar mun yngra, en það er talið um 500 þúsund ára gamalt. Grágrýtið er að mestu leyti myndað við dyngjugos og er einkum á þremur svæðum, þ.e. á Rosmhvalanesi og Vogaheiði, Krýsuvíkurheiði og svæðinu milli Lönguhlíðar og Undirhlíða. 2) Móberg myndað á jökulskeiðum ísaldar myndar nærri allt hálendi skagans og er eins og grágrýtið yngra en 780 þúsund ára. Mest er af því í Sveifluhálsi og sunnan Kleifarvatns, í Núpshlíðarhálsi, sunnarlega í Brennisteinsfjöllum og Lönguhlíð, Bláfjöllum og Fagradalsfjalli, en einnig standa stöku móbergsfell upp úr yngri hraunum vestar á nesinu, t.d. Þorbjarnarfell, Þórðarfell og Stapafell.

Móbergið er að mestu myndað við gos undir jökli á jökulskeiðum, en móbergsfellin vestast og syðst gætu þó verið mynduð við gos í sjó.  3) Hraun frá lokum síðasta jökulskeiðs og nútíma þekja mestan hluta skagans. Þeim hefur verið skipt í þrjá flokka eftir gerð og aldri. Elstar eru frekar litlar dyngjur, en þær eru taldar 11.000-13.000 ára, þá eru stórar dyngjur, taldar 8.000-10.000 ára, og yngst eru sprunguhraun yngri en 8.000 ára og sprungureinagosin frá því fyrir ca. 3000 árum. Litli-Rauðamelur, þótt lítill hafi verið, er nánast eina ummerkið eftir hina fornu „rauðameli“ á Reykjanesskaganum. Fyrirhugað er að leggja hluta hinnar nýju Reykjanesbrautar yfir hann.

Þorbjarnarstaðaker.
ThorbjarnarstaðakerÍ örnefnalýsingu Þorbjarnarstaða segir: „Rétt sunnan við „Skarðið“ var vik í „Brunann“. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin.”
Þorbjarnarstaðakerið, sem er dæmigert jarðfall, þótt lítið sé, er vandfundið, líkt og önnur mannvirki í Hraununum. Það er þó þarna. Hleðslan er áþreifanlegur minnisvarði um Þorkel bónda – og burkninn, sem þar vex nú, er hinn ágætasti minnisvarði um þann ágæta mann. Þorkell, sem var frá Guðnabæ í Selvogi, og Ingveldur, dóttir Jóns Guðmundssonar hreppsstjóra á Setbergi (Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga úr Tungunum), einnig þá í Garðahreppi, áttu 11 börn. Þorkell var löngum við róðra eða vinnumennsku annars staðar, en Ingveldur annaðist bæði uppeldi barnanna og búreksturinn. Segja má því með sönnu að Ingveldur Jónsdóttir hafi verið dæmigerð móðir, dugnaðarkona og því verðug að minnast – ekki síst í ljósi síðari tíma krafna um jafnrétti versus ábyrgð og skyldur.
Sá einn sem fær tækifæri til að standa á barmi Þorbjarnarstaðakersins, staldra við og horfa niður á hleðslurnar og gróðurinn, veit hvaða mikilvægi fortíðin hefur fyrir nútíðina. Hleðsla Þorkels sést enn og er táknræn – henni var ætlað fyrir fé er rataði óvart niður í kerið í snjóum, en hefði ella orðið þar til. Fyrir tilstuðlan hleðslunnar komst það upp úr jarðfallinu – og lifði.

Vatnsskarð.
VatnsskardBerggangar eru sprungufyllingar, aðfærslukerfi bergkviku frá eldstöð upp á yfirborðið.  Með segulmælingum á gömlum göngum má stundum ákvarða hvort kvikan hafi streymt lárétt eða lóðrétt. Berggangar eru því alltaf yngri en bergið í kring. Einn slíkur sveimur er áberandi í Vatnsskarði.  Um er að ræða bæði aðgengilegan og dæmigerðan berggang. Við óvarfærnar lagningu rafmagnsjarðstrengs á síðasta ári var berggangurinn því miður skemmdur að hluta – og liggur brotið neðan við hann. Ef vel er að gáð má sjá borför í bergganginum. Vísindamenn voru þarna á ferð til að afla jarðvegssýnishorna varðandi breytilega segulvísun bergsins.

Hrútagjá.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Hrútagjá umleikur Hrútagjárdyngju. Líklega er gjáin í heild.þ.b. 5 km löng – og  hrikaleg á köflum. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hraunið hafi myndast fyrir u.þ.b.  5000 árum.  Áður en dyngjan sjálf gaus myndaðist gífurlegur undirþrýstingur svo yfirborðið lyftist smám saman og myndaði loks háa bergveggi allt umhverfis  – með tilheyrandi sprungu – og gjármyndunum. Hraunsskjöldurinn hlóðst  upp og gígbarmarnir risu yfir umhverfið. Gos hófst og gríðarstór hrauntjörn myndaðist – og tæmist.
Ógurlegur þrýstingur frá innskotinu myndaðist undir kvikuhólfinu. Storknað yfirborðið hefur verið tiltölulega þunnt svo landið reis enn meira en ella. Við það lyftist svæðið um 10-15 metra og myndaði nokkurs konar skál, sem fyrr er lýst. Upplyftingin sést allt umleikis.

Hrútagjárdyngja.
Hrútagjárdyngjugosið gaf af sér stærstu hraunmyndunina vestan Hafnarfjarðar. Annað Hrutagjardyngjasambærilegt dyngjugos eru Þráinsskjöldur. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Hraunin ná yfir 80 km2 svæði.
Ljóst er, þegar gengið er um Dyngjuna og umhverfis hana, að hér hefur ekki verið um eina goshrinu að ræða heldur a.m.k. tvær eða fleiri – þrátt fyrir álit jarðfræðinga. Nýjustu ummerkin sjást hvað best suðaustast í Hrútagjárdyngjunni. Þar er gígur og hrauntröð. HrutagjaVerksummerki eftir miðkaflann sjást hins vegar gleggst vestan við mikla hrauntjörn sunnarlega á dyngjusvæðinu og í hrauntröð út frá henni til norðurs. Þar hefur glóandi hraunkvikan leitað sér leiðar út úr gamla dyngjusvæðinu nyrst í henni. Á leiðinni hefur kvikan smurt eldra hraunið upp í u.þ.b. 3 metra hæð.

Hrútagjárbróðir. 

Hrútagjá

Hrútagjá.

Allt umleikis Hrútagjárdyngju eru mikilfenglegar gjár og sprungur, engu ómerkilegri en gerist á Þingvöllum. Ef gjánni er fylgt má sjá hvar hún klofnar, dregst saman og breiðir úr sér með stórkostlegum bergmyndunum. Viðkomandi er bent á að fara varlega við hvert fótmál.

Hrútagjár-dyngjuskjól.
HrutagjarskjolÁ Reykjanesskaganum eru þekktir yfir 600 hellar og skjól. Rúmlega fjórðungur þeirra með einhverjum mannvistarleifum, enda náttúrulegir skútar og skjól jafnan verið notuð undir fé eða annað frá upphafi byggðar hér á landi. Einnig má finna í hellum bæli, hleðslur og annað, sem telja má mannanna verka.

Mörg skjólanna hafa hins vegar aldrei verið skráð sem fornleifar þrátt fyrir skilgreiningu í Þjóðminjalögum, þar sem segir að “til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem byggðaleifar í hellum og skútum, staðir með þjóðsagnahefð og áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum.”
Þetta óþekkta skjól er með mannvistarleifum, þ.e. hleðslu fyrir munna og annarrar fallinnar fyrir endaopi. Líklega er um að ræða skjól manna á refa-, rjúpna- eða hreindýraveiðum fyrrum.

Burfell