“Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928:
“Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir:
“Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.”
Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.”
Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: “Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum”. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.”
Heimild:
–Ragnheiður Traustadóttir og Rúna Knútsdóttir, 2004. Garðahverfi – Fornleifaskráning 2003. Bls. 29-30.