Krýsuvík

“Umræða um landeyðingu og landgræðslu hefur verið þó nokkur í sumar og eru menn yfirleitt sammála að ástandið sé víða slæmt í þeim málum og þörf sé aðgerða. Framkvæmdaaðilar eru í flestum tilfellum ríki eða sveitarfélög og nú ríður á að þau undirbúi verkefni næsta sumars tímanlega.
krysuvik-991Á árinu 1936 tók ríkið eignarnámi jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ sem voru eign Einars Benediktssonar skálds. Var það gert vegna óska Hafnarfjarðarbæjar sem taldi sig vanta land til virkjunar hita, landbúnaðar, gróðurstöðva, ræktunar og útivistar. Fjórum árum síðar var lögunum breytt og verður þá Hafnarfjarðarbær eigandi að Kleifarvatni og landinu þar suður af allt fram á Krýsuvíkurbjarg. Annað land jarðanna féll undir ríkissjóð vegna beitarákvæða. Ekki ætla ég hér að blanda mér f deilur um eignarhald landsins heldur halda mig við það svæði sem til Hafnarfjarðar telst og hvernig bæjarfélagið hefur ávaxtað þessa eign sína.
Nú er landi bæjarins skipt milli tveggja áhugamannafélaga um húsdýraeldi. Annars vegar er það hestamannafélagið Sörli, sem hefur á leigu land sunnan Kleifarvatns, en hins vegar hefur Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar á leigu landið frá gamla Krýsuvíkurbænum og suður á Krýsuvíkurbjarg. Landið sem þessi tvö félög skipta þannig á milli sín er frjósamasta og besta búfjárræktarsvæðið.
Þar skiptast á þurrir móar, votlendi auk ræktaðra, framræstra túna. Leigan sem þessi félög greiða er eingöngu að girða löndin og sjá um viðhald girðinganna, svo ekki er hægt að segja að um okurleigu sé að ræða. Samt sem áður hefur orðið misbrestur á því að félögin haldi þessi leigugjöld, sérstaklega hefur hestamannafélagið staðið sig illa, svo nú er land þeirra opið sauðfé frá afréttarlöndunum í kring.
krysuvik-992Ef litið er á sögu Krýsuvíkur kemur margt þar fram um gróðurfar sem vekur furðu okkar í dag. Þar kemur fram að skógur var í Krýsuvík fyrir ekki meir en 150 árum. Þar sést nú ekki ein einasta hrísla. Beitarland var þar einnig mjög gott. Það sést m.a. á réttarrústum vestan Krýsuvíkurbæjarins. Rústirnar eru þarna á melhól og ekki stingandi strá í kring. Hverjir byggja fjárréttirá gróðurlausum jökulurðum? Einnig er til örnefnið Trygghólamýri, þar er nú engin mýri því allur jarðvegur og þar með jarðvatnið er horfið út í veður og vind. Samkvæmt sögunni var Krýsuvík talin með betri búfjárjörðum á Íslandi, en nú er svo komið að landið þar er allt í tötrum, rofabörð og blásnir melar. Á árinu 1986 gerði gróðurnýtingardeild Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins ástandskönnun á landi Krýsuvíkur. Ástandskönnunin „leiddi í ljós mjög rýrnandi gróðurfar graslendis og lyngheiðar sem leggja til 88% af nýtanlegum fóðureiningum”.
„Ástand nýgræðu er einnig mjög slæmt” segir í sömu skýrslu. Þetta þurfti svo sem ekki að koma á óvart. Hestamenn fengu beitarhólfið sitt stækkað 1982 vegna svipaðrar niðurstöðu sömu rannsóknarstofnunar á landi þeirra þá. Nú er bara stærra land rótnagað af hestum en þá var. Í framhaldi af þessum niðurstöðum ástandskönnunarinnar benti gróðurverndarnefnd Hafnarfjarðar í vor á þá staðreynd að eitthvað yrði að gera í málinu strax í sumar. Bæjarráð Hafnarfjarðar óskaði eftir tillögum frá nefndinni og samþykkti hún samhljóða þann 19. september síðastliðinn eftirfarandi tilhögun:
krysuvikurrett-9911. „Hestamanna-félaginu Sörla verði sagt upp leigu á landi sínu undireins og Hafnarfjarðarbær taki að sér landgræðslu á því svæði strax næsta sumar.”
Það er spurning hvort ekki ætti að lögsækja félagið fyrir illa meðferð á landinu og svik á samningum um girðingar og sáningu. Þetta land er alls ekki nauðsynlegt fyrir hestamenn. Þeir geta leigt jörð annað hvort á Suðurlandi eða upp í Borgarfirði og flutt hesta sína þangað til sumarbeitar.
2. „Á næstu fimm árum verði sauðfjárbeit hætt á landi fjáreigendafélagsins.”
Hér er ef til vill of vægt staðið að málum því landið hefur verið beitt langt um getu. Ekki virðast fjáreigendur hafa miklar áhyggjur af ástandinu því þann 24. október voru enn um 150 kindur taldar í Krýsuvík mánuði eftir að smalað var. Greinilegt er að bændurnir geyma þar fé sitt miklu lengur en eðlilegt getur talist um afréttarland.
Nú er liðið á annan mánuð án þess að bæjarstjórn hafi afgreitt málið, en eðlilegt hlýtur að teljast að þessu máli sé flýtt meðal annars vegna sauðfjárslátrunar. Fjáreigendur í Hafnarfirði teljast til svokallaðra „hobbý” bænda þ.e. hafa ekki sauðfjárrækt sem aðalatvinnu og því engan fullvirðisrétt.
Nú nýverið hefur verið sett reglugerð um stjórn sauðfjárframleiðslu en þar er þeim, sem engan eða óverulegan fullvirðisrétt hafa, greitt að fullu fyrir allt sitt sauðfé gegn því að þeir hætti framleiðslunni. Þetta er boð sem fjáreigendur í Hafnarfirði geta nýtt sér og verða að gera ef bæjastjórn samþykkir að draga úr beit í Krýsuvík. Hafnfirðingar hafa ekki annað beitarland fyrir sauðfé. Reykjanesskagi og reyndar allt landnám Ingólfs er ofbeitt og að blása upp og þörf er á að afréttirnar verði friðaðar fyrir beit næstu áratugi. – Höfundur er formaður gróðurverndarnefndar Hafnarfjarðarbæjar.”

Heimild:
-Morgunblaðið 4. nóvember 1987, bls. 23

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan.